Bæjarstjórar í slorvinnu

fiskveiðarÞrír bæjarstjórar birtu grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar hóta þeir endalokum sjávarútvegsins ef Samfylkingin fær framgengt löngu tímabærri leiðréttingu á óréttlátu kvótakerfi sem mikill meirihluti landsmanna er sammála um að þurfi að breyta.

Þetta er kerfi sem hefur með tímanum þróast yfir í leiguliðakerfi þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni.

Fyrir um tvöhundruð árum lagðist af illræmt leiguliðakerfi meðal íslenskra bænda. Enginn vill taka það upp aftur. Hví ættum við að sætta okkur við ósanngjarnt leiguliðakerfi í sjávarútvegi á 21. öld?

Bæjarstjórarnir þrír, láta sem þeir séu að skrifa fyrir byggðarlögin þrjú þar sem þeir hafa verið ráðnir til starfa. Þeir saka andstæðinga kvótakerfisins um mannfyrirlitningu, gera þeim upp það viðhorf að „sjávarútvegurinn sé ekkert annað en slorvinna" í augum „elítunnar" svo notuð séu þeirra orð.

Hvaðan kemur þetta orðbragð spyr ég? Jú, það kemur frá þremur hálaunamönnum sem eiga það sameiginlegt, auk þess að vera Sjálfstæðismenn, að vinna allir þægilega innivinnu á vel innréttuðum skrifstofum. Þeir eru „elítan og "slorvinnan"  sem þeir tala um er ekki rétt lýsing á störfum fiskvinnslufólks. Það orð mætti mun frekar nota um þeirra eigin vinnuaðferðir nú rétt fyrir kosningar. 
 

Bæjarstjórarnir þrír virðast hafa gleymt hruni byggðanna undanfarna áratugi, eftir að núverandi kvótakerfi var komið á. Þeir gleyma líka úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um kerfið brjóti mannréttindi og hindri eðlilega nýliðun.  Þeir horfast heldur ekki í augu við það að í núverandi kerfi er innbyggð sama meinsemd og sú sem olli efnahagshruninu í haust. Þá sátu menn í aftursætinu aðgerðarlausir. Það má ekki gerast aftur.

Ég er frambjóðandi fyrir þessar kosningar og verð vonandi alþingismaður að þeim loknum. Ég get ekki setið þegjandi og horft á kvótakerfið með allri sinni  leiguáþján, veð- og skuldsetningu hrynja yfir þjóðina.

Tillaga Samfylkingarinnar um árlega innköllun 5% aflaheimilda á 20 árum er sanngjörn leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.

 

----

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag og er endurbirt hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Það verður ekki hjá því komist að vinda ofan af kvótakerfinu, hvaða leið sem menn velja. Það sem ekki er tekið á, í annars ágætum pistli, er gagnrýni á að afturkalla kvótann án þess að neitt komi á móti.

Kvótakerfið var sett á fyrir aldarfjórðungi og hefur meitlast og mótast síðan. Það er því ekki einfalt mál að gera á því breytingar. Hugsa þarf málið til enda og ná sátt um breytingarnar. Úrskurður mannréttindanefndar kallar á breytingar.

Framsal á veiðiheimildum var leyft með lögum. Veðsetning var líka leyfð og settar reglur um meðferð á söluhagnaði. Við sitjum uppi með það, hvort sem okkur líkar betur eða verr og það þarf að glíma við vandann á þeim forsendum. Veðsetningin er vissulega með ólíkindum í mörgum tilfellum og það gerir vandann stærri.

Það er ekki hægt að miða lausnina við að allir séu með gjafakvóta eða hagnist á púli leiguliða sinna. Eða að breyting á kvótakerfi sé stríð við sægreifa og lénsherra.

Ef maður setur sig í spor útgerðarmanns sem hefur keypt mest af sínum kvóta, jafnvel allan, þá getur hann aldrei verið sáttur við að láta af hendi kvótann en sitja eftir með skuldirnar. Að veðið fyrir lánunum hverfi. Það er ekkert réttlæti í því, lausnin þarf að vera önnur.

Hann hefur farið í öllu að gildandi lögum. Þó lögin séu vanhugsuð, óréttlát, vitlaus og asnaleg, þá voru þau samt gildandi lög. Það er ekki við útgerðarmanninn að sakast. Ef hann þarf að láta af hendi kvóta sinn, bótalaust, í gegnum fyrningaleið, felst meira óréttlæti í því en kvótakerfinu sjálfu. Það hlýtur að leiða til skaða og á því er gagnrýnin á fyrningaleiðina byggð. Réttilega.

Haraldur Hansson, 22.4.2009 kl. 14:42

2 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Mikið rétt hjá þér Ólína. Ég er mjög ánægður að sjá þessa skeleggu grein þína. Í blaði ungra Sjálfstæðismanna hérna í Vestmannaeyjum í gær er grein eftir formann Eyverja, en hann er einn af sonum Eyjanna, sem erfir kvóta.  Grein hans er full af skætingi til þeirra sem voga sér það, að vera ekki sama sinnis og hann.  Greinin ber titilinn: "Látum ekki vinstri stjórnina ræna okkur."  tilvitnun í greinina:  Samfylking og Vinstri grænir eru að gera lítið úr vitsmunum Eyjamanna og öllum þeim sem eiga allt sitt undir blómlegum sjávarútvegi í Vestmannaeyjum eins og undirritaður.  Þetta fólk sem kýs að kalla sig Vestmannaeyinga ætti að skammast sín fyrir að opna hér yfir höfuð kosningaskrifstofur og reyna að sannfæra Eyjamenn um ágæti þessarar þvælu. Sindri Ólafsson formaður Eyverja. 

Þorkell Sigurjónsson, 22.4.2009 kl. 15:06

3 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Haraldur.

Tillaga Samfylkingarinnar gerir ráð fyrir því að þetta verði gert í í samráði og með samkomulagi við þá sem eiga hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Það gilda að sjálfsögðu lög í landinu sem vernda menn gegn einhliða eignaupptöku - enda er ekki um neitt slíkt að ræða. Við gerum ráð fyrir því að útgerðin fái sjálf að koma að því hvernig að þessu verði staðið þannig að réttlætis og sanngirnissjónarmiða verði gætt. 

Hræðsluáróður hagsmunaaðila þessa dagana er hinsvegar þvílíkur, að það er varla að maður geti tekið það fólk alvarlega sem hæst lætur, eins og ástatt er.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.4.2009 kl. 15:07

4 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Þorkell - takk fyrir þitt innlegg, það barst á meðan ég var að skrifa fyrri athugasemd, en staðfestir um leið síðustu málsgreinina í minni athugasemd hér fyrir ofan

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.4.2009 kl. 15:09

5 Smámynd: Haraldur Hansson

OK gott mál.
Greinin hefði verið "sterkari" hefði þetta komið fram þar sem þunginn í gagnrýninni snérist um bótalausa fyrningu.

Ég fann þetta ekki í Skal gert bókinni, aðeins um "niðurfellingu veiðigjalds" á bls. 59 og kafla um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins á bls. 65.

Í Viðskiptablaðinu í dag er svo grein um fyrningaleiðina sem sögð er aðför að 32.000 heimilum, þar sem mér sýnist forsendur vera aðrar en þú nefnir í svarinu.

Haraldur Hansson, 22.4.2009 kl. 15:36

6 identicon

Stærsta gjöf Íslandssögunnar.

Fiskimið þjóðarinnar voru færð örfáum einstaklingum að gjöf.
Heildarverðmæti aflaheimilda þjóðarinnar var í mars 2001 metið á 220 milljarða.

Eftirfarandi er útdráttur úr áliti mannréttindadómstóls sameinuðu þjóðanna:

"Niðurstaða Mannréttindanefndarinnar varð sú að íslensku lögin um stjórn fiskveiða brytu í bága við jafnræðisreglu 26.gr. Mannréttindasamningsins, þar sem ríkið þótti ekki hafa fært nægileg rök fyrir því að varanleg einkaheimild afmarkaðs hóps til nýtingar eða sölu á sameiginlegri eign þjóðarinnar gæti talist réttlætanleg"

"Að framansögðu er óhætt að fullyrða að Ísland er skuldbundið skv. alþjóðalögum til að virða og framkvæma mannréttindasamninginn góðri trú."

"Ekki fæst annað séð en fyllilega lögmætt og eðlilegt sé að innkalla aflaheimildirnar og deila niður á þá sem þess óska að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru nytjastofnunum til góða og samræmast lögum (þ.m.t. mannréttindalögum)."

Er eftir einhverju að bíða með að endurheimta þjóðareignina.

Viðar Ingvason (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 20:40

7 identicon

mjög góð grein og þörf, því þessir bæjastjórar sem skrifa undir þessar greinar sem þú vitnar til eru þekktar hlaupatíkur sægreifanna í viðkomandi byggðarlögum,af hverju telji þeir sig tala í umboði bæjarbúa er óskiljanlegt þar sem kvótakerfið á ekki mikinn stuðning í sjávarplássunum þar sem hinn almenni bæjarbúi sem á allt sitt undir útgerðarmanni sem gæti lent í skilnaði eða langað til að flytjast á brott og selt kvótann til þess með þeim afleiðingum að bæjarbúinn sæti uppi atvinnulaus og með verðlausa eign mundi nú ekki kunna bæjarstjóranum miklar þakkir, og það vita allir sem áhuga hafa á að kynna sér málin að hræðsluáróðurinn sem íhaldið og "elítan"útdeila er orðinn yfirgengileg og mætti helst halda að banna ætti allar fiskveiðar við Ísland til frambúðar,samanber að sjálfstæðismenn tala um eignaupptöku ef hreyft verður við kerfinu,er eignaupptaka ekki þegar eign einhvers er tekin?og hvort telja sjálfstæðismenn sameign þjóðarinnar eign sægreifanna eða þjóðarinnar..?

zappa (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 21:41

8 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Kvótinn var settur á á einu hádegi og afhverju má ekki taka hann af á einu hádegi?? þessir kvótakallar geta bara selt þessi bílaumboð sín og önnur fyrirtæki og iðnaðarhúsnæði sem þeir hafa keift fyrir kvótabrask og leigubrask með kvóta?eigum við að borga endalaust fyrir þessa menn??

Marteinn Unnar Heiðarsson, 22.4.2009 kl. 22:23

9 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Afhverju einblína menn alltaf á evru?? er sambó kannski búin að lofa uppí ermina á sér með múturpeningum frá ESB einsog þeir eru þekktir fyrir að nota til að nauðga þjóðum inní ESB.Við búum á besta stað í heimi og ég vill ekki að einhver Brussel ketlingur segi mér í framtíðinni um það hvenær ég megi fara á klósettið af því að hann bjó til reglu um það!! nei takk.Það eru miklir möguleikar að opnast fyrir okkur kannski í olíu og kannski líka þegar siglingaleiðin norðurfyrir Grænland opnast og ekki vill ég að einhverjir spilltir ánskotar í Brussel hirði það af okkur.Það virðist vera voða viðkvæmt að ræða um aðra möguleika tildæmis að ath með Dollar sem væri mun heppilegra fyrir okkur einsog er og tæki ekki eins langan tíma að koma í gagnið og evru.Er ekki aðalmálið í dag að koma stöðugleika á okkar gjaldmiðil svo að við getum haldið áfram?og ég held að það gerist ekki í sambandi með ESB þar sem allt er á niðurleið og hver hugsar um sjálfansig..

Marteinn Unnar Heiðarsson, 22.4.2009 kl. 22:23

10 Smámynd: Einar H. Björnsson

Sæl Ólína.

Í stað þess að skrifa athugasemd, þá leyfi ég mér að benda þér á meðfylgjandi færslu mína.

http://einarhb.blog.is/admin/blog/?entry_id=861689

Einar H. Björnsson, 23.4.2009 kl. 18:41

11 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Einar - síðan sem þú tengir hér á er læst og ég kemst ekki inn á hana.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.4.2009 kl. 19:26

12 Smámynd: Einar H. Björnsson

Afsakaðu þessi mistök Ólína, en ég er byrjandi í blogginu.  Þú getur lesið færsluna mína með að smella á nafn mitt, þetta er nýjasta færslan.

Einar H. Björnsson, 23.4.2009 kl. 20:56

13 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Og hún er mjög góð. Ég leyfi mér að vekja athygli á henni í nýrri færslu hér á síðunni minni og tengja á þína.

Takk fyrir að vekja athygli á þessu.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 23.4.2009 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband