Færsluflokkur: Ferðalög

Góðar minningar frá gamalli tíð

Ójá, hann var góður glænýi Trabbinn sem við Siggi keyptum hjá Ingvari Helgasyni fyrir aleiguna haustið 1981, þá nýflutt til Reykjavíkur. Hann komst allt í snjó, framhjóladrifinn, léttur og þægilegur. Eitthvað annað en gamli Trabantinn sem við fengum sem afgang frá pabba heitnum þegar við hófum búskapinn í Reykjavík. Sá gekk fyrir handafli - enda kominn til ára sinna. Átti auðvitað að fara á haugana, en pabbi lét okkur hafa hann svona til vonar og vara, ef hann skyldi einhverntíma fara í gang. Sem var sjaldan.

trabant Þetta var fyrsta veturinn okkar í Háskóla Íslands. Við bjuggum á Miklubrautinni og fyrir utan í heimreiðinni stóð þessi pínulitli grasgræni Trabant. Assgoti góður þegar vélin á annað borð gekk - þá komst hann hvert sem var. En það var bara ekki nema í svona fimmta hvert skipti sem bílfjandinn hrökk í gang. Flestir morgnar byrjuðu því þannig, að við komum út úr blokkinni, Siggi, Doddi (þá sex ára) og ég. Við settumst inn í bílinn og svo hófust starthljóðin. Þau gátu staðið góða stund. Angry Þá kom Siggi út úr bílnum, ég undir stýri, Siggi ýtti. Bíllinn var látinn renna niður afleggjarann. Stundum gekk þetta - stundum ekki. Þá var honum ýtt í stæðið aftur og fjölskyldan rölti út á strætóstöð. Þannig leið þessi vetur.

En haustið eftir vorum við búin að safna fyrir nýjum bíl. Glænýjum Trabant station, árgerð 1982, sem kom á götuna í nóvember. Hvílíkt dýrð! Mér er sérstaklega minnisstætt þegar nokkrir piltar um tvítugt spóluðu sig fasta á drossíunni sinni í snjóskafli við Norræna húsið. Þeir höfðu þá nýlega spænt fram úr okkur með fyrirgangi og fyrirlitningarsvip þar sem við trilluðum okkar leið á nýja fína Trabantinum. Það var ekkert sérlega leiðinlegt að skrúfa niður rúðuna, brosa góðlátlega framan í gæjana og spyrja hvort þeir vildu láta kippa í sig. Það var að sjálfsögðu afþakkað með bitru bliki í auga. Wink 

Þá brosti maður sínu blíðasta, skrúfaði rúðuna upp, gaf pínulítið í og ók svo yfir skaflinn. Tabb-trabb-trabb-trabb - og komst leiðar sinnar.


mbl.is Trabant á stórafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinir heimtir úr helju.

Á föstudaginn fékk ég símtal frá vinkonu minni. Hún og maðurinn hennar voru á leiðinni með vinafólki í helgarferð inn í Mjóafjörð. Hún hlakkaði til og við töluðum um hvað þetta væri skemmtilegur hópur sem hún þekkti. Hvað þessar ferðir þeirra í sumarbústaðinn væru vel heppnaðar - hvað þau myndu nú hafa það gott um helgina.

Á meðan við töluðum saman ók hún framhjá húsinu mínu og veifaði upp í gluggann í kveðjuskyni.

Það var undarlegt að minnast þessa atviks einum og hálfum sólarhring seinna, þegar hún og vinir hennar voru naumlega heimt úr helju, eftir að bátnum þeirra hvolfdi á Selvatni. Að heyra hana segja frá helkuldanum sem gagntók þau, krampanum sem hindraði öndun, uppköstunum sem fylgdu volkinu þar sem þau börðust fyrir lífi sínu í vatninu. Hvernig hún reyndi að nota talstöðina sína þegar hún var komin í land, en gat ekki ýtt á takkana vegna kulda.Hvað tíminn var lengi að líða - og hvernig það var að vita ekki um afdrif eins úr hópnum sem enn var úti í vatninu þegar hún skreið eftir hjálp.

Ég gat ekki varist þeirri hugsun að kveðjan okkar, þar sem hún veifaði mér upp í gluggann, hefði getað verið sú síðasta. Úff!

Svona atburður er harkaleg áminning um hverfulleikann. Hvað það skiptir miklu máli að eiga góð samskipti við fólk - leita þess jákvæða og meta það. Það er aldrei að vita hverjir fá að hittast aftur.

Svo þakka ég guði fyrir þá lífgjöf sem þarna átti sér stað.


Aldrei einn á ferð

Fyrir tveimur árum stóð ég ásamt eiginmanni og yngsta syni á Anfield leikvanginum í Liverpool og söng hástöfum með tugþúsundum áhorfenda hið fallega lag Rogers og Hammerstein: You'll never walk alone! Ekki svo að skilja að ég sé neitt sérstakt fótbolta-fan, en karlmennirnir í lífi mínueru það hinsvegar,  einkum eiginmaður og yngsti sonur.

Jæja, þó ég sé lítt viðræðuhæf um þá eðlu íþróttagrein, fótboltann, þá var þetta ólýsanleg upplifun. Að sameinast tugþúsundum manna í söng sem er jafn merkingarþrunginn og þetta lag - það er eitthvað alveg sérstakt. Enn merkilegra þótti mér að verða vitni að því hvernig stuðningsmenn liðsins nota þetta lag til að segja það sem segja þarf þegar á brattann er að sækja fyrir liðið. Þarna töpuðu Liverpoolmenn á heimavelli í fyrsta skipti í árafjöld, 0-4 fyrir Chelsea. En á síðustu mínútunum, þegar ljóst var hver úrslit yrðu, hófst söngur: "Walk on, walk on, with hope in your heart ..." Og samstundis tók allur áhorfendaskarinn undir: "And you'll never walk alone". Það er ekki amalegt að eiga slíka stuðningsmenn þegar á móti blæs - segi ekki annað.

Fyrr í dag var ég að reyna að setja lagið inn á síðuna mína - það gekk ekkert. Ég kann ekkert á svona tæknihluti. En með því að smella á þennan tengil má finna lagið og hlusta á það.

Hér fyrir neðan er falleg íslensk þýðing á textanum, en því miður veit ég ekki eftir hvern hún er. Læt enska textann fylgja líka að gamni.

  • Meðan veðrið er stætt berðu höfuðið hátt
  • og hræðstu ei skugga á leið.
  • Bak við dimmasta él blikar lævirkjans ljóð
  • upp við ljóshvolfin björt og heið.
  • Þó að steypist þér gegn
  • stormur og regn
  • þó að byrðin sé þung sem þú berð
  • þá stattu fast og vit fyrir víst
  • þú ert aldrei einn á ferð.

-------------------

 

When you walk through the storm
hold your head up high
and don't be afraid of the dark.
At the end of the storm
there's a golden sky
and the sweet silver song of a lark.

Walk on, through the wind.
Walk on, through the rain.
Though your dreams be tossed and blown.
Walk on, walk on, with hope in your heart
and you'll never walk alone.
You'll never walk alone.


Löggæsla og virðing

 horseswatchtvNottingHill Á leið heim af Stones tónleikum um síðustu helgi  - já, og líka sem gestur á Notting Hill hátíðinni í London daginn áður - sá ég hve mikils virði það er að hafa vel sýnilega löggæslu og skipulagða mannfjöldastjórnun, þegar tugir og hundruð þúsundir manna streyma inn á eitt svæði eða út af því. 

Breska lögreglan er snillingur í þessu, og ég tek ofan fyrir henni. Lögregluþjónarnir eru bókstaflega allsstaðar, í áberandi endurskinsvestum með gjallarhorn að leiðbeina fólki, inni á lestarstöðvunum, við gatnamót, gangandi eða á hestbaki, og þar sem hætta er á að teppur myndist sveima þyrlur yfir og gefa löggæslunni á jörðu niðri fyrirmæli og upplýsingar um ástandið eins og það lítur út úr lofti. 

 Allt á þetta sér stað í mestu rólegheitum - mannfjöldinn líður áfram eins og lygn straumur. Laganna verðir leiðbeina og gefa kurteisleg fyrirmæli: "Ekki stöðva neðan við stigann, haldið áfram út á lestarpallinn. Það munu allir komast í lest - haldið áfram, ekki stöðva! Er Keith annars uppistandandi ennþá?" Þannig stjórna þeir með hægð og húmor, lauma út úr sér einni og einni athugasemd milli þess sem þeir stýra mannfjöldanum. Enginn æsingur, engar róstur - passað að hafa alla í góðu skapi, taka tillit til aðstæðna - og eftir hálftíma hefur mannmergðin leyst upp og allt er komið í fyrri skorður.

Íslenska lögreglan gæti margt af þeirri bresku lært - íslensk stjórnvöld gætu líka margt af Bretum lært, því það er auðséð á öllu að breska lögreglan er hvorki undirmönnuð né undirborguð. Það er íslenska lögreglan hinsvegar, og svo sannarlega ekki við hana sjálfa að sakast í því efni.

Síðast en ekki síst virðist breska lögreglan bera virðingu fyrir samborgurum sínum - og það skynjar almenningur úti þar.

Allir vita þó hvers breska lögreglan er megnug ef á þarf að halda; að á bak við kurteislegt fasið og rólyndið eru kraftar í kögglum, náungar sem eru harðir í horn að taka. Þeir eru bara ekkert að veifa því - gefa borgaranum séns, og beita ekki valdinu nema þeir þurfi. Flottir!

Ég held að ein helsta ástæða þess hve vel þeim gengur að hafa stjórn á aðstæðum þegar tugir þúsunda manna streyma út af fótboltaleikvangi eða tónleikahöll inn á eina neðanjarðarstöð sé eimmitt virðingin - kurteisin. Þeir þurfa ekki að sýna vald sitt.

Smærri lögregluumdæmi á sunnanverðu landinu ættu endilega að taka það viðhorf sér til fyrirmyndar.  


Stones brýnin söm við sig!

StonesMick Jagger Stones voru frábærir á tónleikunum sem haldnir voru í O2-höllinni í London s.l. laugardagskvöld. Þetta voru lokatónleikar tveggja ára tónleikaraðar sem þeir nefna A Bigger Bang. O2 samkomuhöllin er tiltölulega nýbyggð, tekur um tuttuguþúsund manns. Þarna eru verslanir, matsölustaðir, kvikmyndhús, allt undir einu þaki, og svo þessi gríðarlegi leikvangur þar sem hægt er að setja upp tónleika á borð við þessa! Allt mjög flott.

Jagger fór á kostum. Fyrsta lagið á tónleikunum var Start Me Up! (held sveimérþá að þeir byrji alltaf á því). Fyrst kom upp svona "intró" á risaskjá fyrir ofan sviðið, því lauk með gríðarhvelli þegar "tungan" fræga leystist upp í frumeindir, og um leið hófst trommutakturinn hjá Charlie Watts. Þið hefðuð bara átt að finna strauminn sem fór um salinn þegar trommurnar byrjuðu - ljósin upp - og svo röddin í Jagger: Start me up! (púm, tútúmm tútúmm), you start me up I'll never stop! (tútúmm túmm). Hann var flottur karlinn - og úthaldið ekkert minna en þegar hann var upp á sitt besta.

Raunar var eitthvað vesen á hljóðinu hjá þeim um miðbik tónleikanna - ég held þeir hafi hreinlega magnað of mikið upp því það var á köflum bergmál í kerfinu (sem á auðvitað ekki að gerast hjá köllum eins og Stones, ég meina hvað haldið þið að þessi rótarar séu með í laun? Það er örugglega ekki lítið). En krafturinn og stuðið bætti það upp - svo einfalt er það mál.

Lisa Fisher er alveg hreint ótrúleg. Hún fékk ekki mikið að hnjóta sín núna - söng eitt lag með Jagger, en var annars í bakröddum. Í þessu eina lagi - þar sem þau skiptust á að syngja - leiddi hann hana aftur á sinn stað áður en laginu lauk. Ætlaði greinilega ekki að láta hana hirða frá sér athyglina eða fagnaðarlætin. Hún gerði það engu að síður, því það ætlaði allt um koll að keyra þegar hún var búin - og mér finnst hann hefði mátt leyfa henni að njóta þess.

En hvað um það - hún fann ábyggilega að hún átti í okkur hvert bein meðan hún söng. Hann fann það örugglega líka Devil.

Keith er farinn að láta á sjá - en hann var sjálfum sér líkur. Sömuleiðis Charlie Watts, sem er greinilega eftirlæti Stones aðdáenda, ef marka má viðtökurnar sem hann fær yfirleitt á sviði. Enda ótrúlega flott týpa - hlédrægur, öruggur og kraftmikill.

Jamm - við munum lengi lifa á þessu. Ég ætla að orna mér við minninguna aðeins lengur, áður en ég fer að blogga um önnur tíðindi Smile


Stones tónleikar í London á morgun

Bigger bang Mick Jagger Jæja, nú er maður að loka ferðatöskunum og búa sig undir það að taka flugið til London. Framundan eru Stones-tónleikar í O2 tónleikahöllinni í London síðdegis á morgunSmile Það eru lokatónleikarnir þeirra í tveggja ára tónleikaröð sem þeir nefna A Bigger Bang!

Yngsti sonurinn fær að fara með að þessu sinni - hann er 13 ára og ekki seinna vænna að kynna hann fyrir stórtóleikahaldi af þessu tagi. Fyrir tíu árum voru systkini hans tekin á Stones-tónleika í Tívolíinu í Kaupmannahöfn - Bridges to Babylon hét sú tónleikaferð þeirra. Þá hélt maður að gömlu brýnin færu að syngja sitt síðasta hvað úr hverju - en það var öðru nær.

Í fyrravor, þegar Keith Richards ráfaði fullur upp í tré, datt niður úr því og fékk heilahristing, hélt maður líka að þetta væri búið hjá þeim. En neibb .... þeir eru eins og samviskan, gera alltaf vart við sig aftur og aftur.

Áður hef ég séð Stones á Wembley 1994 þegar þeir voru að ljúka Vodoo Lounge tónleikaröðinni. Það var frábær upplifum - ógleymanleg.

Raunar er það Siggi, bóndi minn, sem er aðal Stones-maðurinn í fjölskyldunni. Hann hefur oft farið á tónleika með þeim, og það er fátt viðkomandi þessu  (að ég held) elsta rokkbandi heimsins sem hann ekki þekkir og kann. 

Það eru þeir félagarnir Mick Jagger (64), Keith Richards (63), Charlie Watts (66), Ron Wood (60 - unglingurinn í hópnum)  sem við köllum Rolling Stones. En á tónleikum hljómsveitarinnar koma mun fleiri fram en þeir kumpánar. Mér er t.d. sérstaklega minnisstæð frammistaða Lisu Fisher þegar hún söng Gimme Shelter með Mick Jagger á Vooodoo Lounge tónleikunum á Wembley. Sömuleiðis hafa þeir á að skipa frábærum aðstoðarmönnum á ýmis hljóðfæri bæði bassa, brass, hljóðgervla, bakraddir o.fl.

Þetta verður ábyggilega frábært hjá þeim núna.

Stones

 


Af björgunarhundanámskeiði í berjamó!

ollyogblida07 Jæja, þá er maður nú kominn heim til sín eftir mikið útivistarstand.

Eftir tiltektir, húsamálun og viðhaldsverk ýmis í borgarbústaðnum mínum á Framnesvegi hélt ég með minn "fjallahund" vestur á Gufuskála á fimmtudagskvöld. Þar fór fram helgarnámskeið Björgunarhundasveitar Íslands með félögum allstaðar að af landinu. Við eyddum þar helginni í góðra vina hópi við æfingar og leitarþjálfun við ágæt veðurskilyrði til slíkra hluta.

Blíða mín blessunin tók miklum framförum á þessu námskeiði - og nú hef ég tekið gleði mína með hana á ný. Mér sýnist hún vera komin yfir gelgjukastið síðara sem gekk yfir hana í vor, um það leyti sem við hættum í snjóflóðaleitinni og byrjuðum með nýtt prógram fyrir sumarleitina (víðavangsleit). Hún hefur endurheimt sinn fyrri áhuga, hefur gaman af því sem hún er að gera og vinnur vel með mér. Ég þakka það ekki síst góðum leiðbeinendum á síðustu tveim námskeiðum, sem hafa hjálpað mér að koma henni á góðan rekspöl.

Æfingar okkar að þessu sinni fólust í því að efla og treysta í sessi geltið hennar þegar hún finnur mann. Hún er löngu farin að gelta vel á mig þegar hún hefur fundið, en því miður hefur hún haft minni áhuga fyrir því að gelta hjá þeim "týnda" -  fígúrantinum svokallaða - þegar hún fer í vísun og hleypur til hans aftur. Að vísu þarf hún þess ekki, samkvæmt reglunum, en ég vil gjarnan ná því upp hjá henni, þar sem það er ólíkt þægilegra að vinna með hundi sem geltir vel þegar hann vísar eigandanum á manninn.

Nú er þetta allt á réttri leið. Leiðbeinandinn minn lagði ríka áherslu á það við fígúrantinn að vanda móttökurnar og vera skemmtilegur þegar hún kemur. Ég var mjög heppin með fígúrant - reyndan hundaeiganda sem kunni vel til verka - og árangurinn lét ekki á sér standa. Hundurinn sýndi fígúrantinum ótvíræðan áhuga - gelti kröftuglega við hvatningu, kom svo til mín og gelti kröftuglega óbeðinn,  og vísaði síðan af öryggi og gelti aftur hjá fígúranti. Ég er harðánægð með þetta, og nú verður haldið áfram á sömu braut.

En það var gott að koma heim í gærkvöld eftir sjö klst akstur vestur á Ísafjörð - fara í heitt bað og leggjast í rúmið sitt. Ekki var verra að vakna við sólskinið í morgun. Maddý dóttir mín er komin með vin sinn í heimsókn, og í kvöld koma góð vinahjón okkar til að vera í tvo daga. Sól skín á sundin og grænan lundinn - veður fyrir berjamó - og gaman að lifa Smile

berjalyng


Tiltektir og tiltektir - allt á öðrum endanum.

P1000235 (Small) Þessa dagana er allt á öðrum endanum hér á Framnesveginum - borgarbústaðnum okkar. Ekki höfðum við fyrr rennt í hlað eftir unglingalandsmótið á Höfn en við vorum komin með pensil í hönd, slípirokk, kúst og tusku ... jamm, það er verið að mála, þrífa, slá garðinn, pússa gólf, lakka gluggapósta ... nefnið það bara! Yfirbót fyrir sex ára vanrækslusyndir Crying.

Frá því við fluttum okkar aðal aðsetur vestur á Ísafjörð hefur gamla góða húsið okkar í Reykjavík setið á hakanum  og nú er kominn tími til að gera því eitthvað til góða.  

Annars virðast það vera álög á þessu húsi að það er sama hvaða málning er sett á það - alltaf verður hún bláleit eftir svolítinn tíma. Fyrir sjö árum máluðum við húsið rústrautt - tveim árum seinna var það orðið lillablátt.

Það var því með nokkurri staðfestu sem bóndi minn hélt í málningarbúðina að þessu sinni og kom heim með bros á vör og steingráa málningu, sagði hann. Nú skyldi sko settur almennilegur litur á útveggina - ekkert nærbuxnableikt takk fyrir!

Svo var hafist handa við að mála og fyrstu umferðinni komið á áður en fór að rigna. Ekki höfum við komist lengra að sinni - og ekki veit ég hvort það er rigningunni að kenna eða hvað - en húsið er EKKI steingrátt.  Það er fölblátt - eiginlega gráblátt - eins og þið sjáið ef þið kíkið á myndina hér fyrir ofan Errm en þar sjást bæði gamli liturinn og sá nýi.

Jæja, það gerir ekkert til - þetta er ágætis litur, þó hann sé svolítið kaldur. Aðal málið er að ná að klára þetta áður en maður þarf að þjóta vestur aftur.

Annars er heilmikil sálarró sem fylgir því að taka svona allt í gegn. Maður tekur einhvernvegin til í sálartetrinu um leið - verður bara eins og nýhreinsaður hundur. Og það er svo merkilegt að þegar maður er byrjaður er eins og allir smitist af þessu með manni. Börnin mín hafa öll tekið til hendinni (þau sem eru heima við) - flest óbeðin. Halo 

Já, húsið er að verða déskoti fínt. En það verður lítill tími til að njóta verkanna að þessu sinni - því við munum líklega rétt ná að klára sökkulinn á morgun, áður en við brunum af stað vestur.

Svo er bara að krossleggja fingur og vona að afkvæmin gangi vel um öll fínheitin þar til við komum í bæinn næst. Wink


Á ferð og flugi

Ég verð á ferð og flugi næstu daga - gaman, gaman (vonandi): Ungmennalandsmótið á Höfn er fyrst á dagskrá. Mæti þar til að styðja mína drengi (soninn og félag hans) í fótboltanum. Það er spáð rigningu og leiðindaveðri - en ég mæli um og legg svo á að það muni rætast úr veðrinu

 Wizard

Jæja, svo verða það nú nokkrir dagar í borginni, helgaðir húsþrifum, garðrækt og kannski utanhússmálun á Framnesveginum -- gamla góða húsinu okkar sem hefur verið afrækt síðustu ár, eftir að við fluttum vestur. Mesta furða hvað það þó er.

Smile

Og svo - hvað haldið þið? Auðvitað hundanámskeið á Gufuskálum með Björgunarhundasveit Íslands. Jebb - bara nóg að gera. Fæ vonandi að hitta stóru börnin mín öll á þessu flakki - og litla ömmudreng : )

En nú er það fundur með iðnaðarráðherra sem heiðrar Vestfirðinga með nærveru sinni í dag í tilefni af stofnun nýsköpunarmiðstöðvar sem kynnt verður á hádegisverðarfundi í Edinborgarhúsinu nú á eftir. Er að verða of sein - get ekki bloggað meira í bili.

Eigið góðan dag.

 


Sólbrennd og sæl eftir Hornstrandir

 Jæja, þá er ég nú komin heim - sólbrennd og sælleg með harðsperrur og frunsuvott á efrivör - eftir frábæra fjögurra daga gönguferð um Hornstrandafriðlandið.

Veðrið lék við okkur dag eftir dag, og við nutum lífsins til hins ýtrasta - fjórtán manna gönguhópur sem þetta árið kallar sig "Þéttum hópinn" . Þannig er að hópurinn skiptir nefnilega um nafn árlega eftir því hvað ber hæst í ferðum hverju sinni. Í þetta skiptið lentum við í þreifandi þoku á Háu heiði þegar komið var upp úr Fljótavík, fyrsta daginn.

Sennilega hefðum við villst þarna í þokunni, ef Hjörtur Sigurðsson, sem er ókrýndur leiðsögumaður hópsins, hefði ekki verið fljótur að hugsa. Við sáum þokuna nálgast með ógnarhraða, þar sem við áðum efst á fjallabrún, nýkomin upp. Hann hafði engin umsvif heldur hljóp upp á næstu hæð til þess að sjá hvernig leiðin væri vörðuð. Þegar hann kom til baka var niðdimm þokan skollin á. Víð vissum nú hvar fyrsta varðan var og þegar þangað kom sáum við grilla í þá næstu. Þegar dimmast var mynduðum við n.k. keðju milli varða þannig að einn gekk framfyrir svo langt sem næsti maður sá, en hinir biðu. Þá hélt næsti maður framfyrir hann, og þannig koll af kolli þannig að menn misstu aldrei sjónar af síðustu vörðu fyrr en sú næsta var fundin.

 Ég hefði ekki haft áhyggjur nema vegna þess að með í för voru fjórir ungir piltar, sem ég hefði síður viljað láta gista á heiðinni. Þetta voru þeir frændur: Hjörvar (sonur minn, 13 ára), Vésteinn (systursonur minn, 13 ára) og systursynir Sigga, Nonni (15) og Þorsteinn (16).

Það var því gaman að koma niður af fjallinu hinumegin, eftir tíu tíma göngu, þar sem þokan leystist upp fyrir augum okkar og Hesteyrin blasti við, og framundan henni hluti Ísafjarðardjúpsins.  Sumir hófust handa við að tjalda, en aðrir (ég og mitt fólk þar á meðal) notfærðu sér að geta keypt svefnpokagistingu í læknishúsinu á Hesteyri, gömlu, fallegu húsi sem ilmar af sögu og panellykt.

 Hesteyri2 (Small)  Daginn eftir tókum við það  rólega, röltum um nágrennið. Sumir gengu inn fyrir ófæru - aðrir slökuðu á, skoðuðu gömlu verksmiðjuna sem er þarna rétt hjá og nutu lífsins. Þarna við gömlu verksmiðjuna rákumst við á tvo yrðlinga undir vegghleðslu sem léku sér í sólskininu. Sé rýnt í myndina má sjá annan þeirra skjótast milli veggbarma.

 Burfell2 (Medium) Þriðja daginn gengum við upp Hesteyrarskarð og umhverfis Búrfell. Þaðan sáum við "vítt of heima alla" þar sem við gátum virt fyrir okkur Aðalvík, Rekavík, og óendanlegt hafflæmi norðanmegin en Ísafjarðardjúpið og hluta Jökulfjarða með útsýni yfir Drangajökul hinumegin (sjá mynd). Þarna upplifðu drengirnir það að standa á vatnaskilum, í orðsins fyllstu merkingu, því þar sem við stóðum sáum við litlar uppsprettur tvær, og ekki meira en faðmur á milli þeirra. Önnur rann til suðurs, hin til norðurs.

Um kvöldið var slegið upp grillveislu eins og hefðin segir til um. Þá er farið yfir atburði ferðarinnar og valið nýtt nafn á hópinn. Var glatt á gjalla og mikið hlegið.

Veðurblíðan á Hesteyri var engu lík þessa daga. Logn á firðinum, sól og sandfjara freistuðu ferðalanganna. Enda stóðumst við ekki mátið, skelltum okkur í sundfötin og böðuðum okkur þarna í sjónum á kvöldin. Það var ótrúlega hressandi og gott.

Fjórði dagurinn var heimferðardagur. Þá var gengið út Hesteyrafjörðinn, með stuttri viðkomu í kirkjugarðinum gamla, og svo áleiðis til Aðalvíkur. Útsýnið á þessari leið er ólýsanlegt. Þegar leið á daginn sáum við úrkomubelti nálgast yfir Ísasfjarðardjúpið, en rigningin náði okkur aldrei.

LeidiOddsÓThoroddsen (Small) Á Stað í Aðalvík á ég jarðsettan móðurbróður, Odd Ó. Thoroddsen sem hrapaði til bana í Hælavíkurbjargi á Hvítasunnu árið 1911, þá nítján ára gamall. Hann var þá í ferð með afa mínum, Ólafi E. Thoroddsen, sem gerði út skútu frá Patreksfirði. Þetta vor var skútan við fiskveiðar norður af Hornbjargi og á Hvítasunnunótt komu þeir inn í Hælavík. Veður var stillt og bjart. Ungu mennirnir um borð stóðust ekki mátið að fara í bjargið eftir eggjum, þrátt fyrir bann afa míns, skipstjórans, sem vildi ekki að þeir færu. Þessi för endaði með því að Oddur lenti í sjálfheldu og félagar hans, Jón Eiríksson (síðar skipstjóri á Lagarfossi) og Sigurður Andrés, flýttu sér niður í Hælavík til að sækja mannskap og reipi honum til bjargar. Þegar þeir komu til baka var Oddur horfinn. Í þrjár vikur slæddi afi sjóinn framundan bjarginu án árangurs. Varð hann frá að hverfa við svo búið. Þrem mánuðum síðar rak lík Odds upp í Aðalvík og var hann jarðsettur þar - en afi og áhöfn voru þá löngu sigldir til heimahafnar með sorgarfregn um týndan son. Afi lét síðar gera þessum frumburði sínum veglegan legstein sem komið var upp í garðinum á Stað - og stendur sá steinn enn í góðu ástandi, þó að flest annað sé sokkið í hvönn og órækt þarna í þessum gamla kirkjugarði.

Það gladdi mig að geta vitjað þessa frænda míns sem jarðsettur var þarna fjarri ástvinum sínum og frændfólki, einungis 19 ára, sumarið 1911. Ég get þakkað Sigga mínum það að ég vitjaði leiðisins, því það var hann sem óð hvönnina upp í axlir og fann það fyrir mig. Sjálf var ég eiginlega fyrirfram búin að gefa það upp á bátinn, þar sem ég leit yfir kirkjugarðinn - taldi mig ekkert geta fundið í þessu kafgresi og hvannastóði.

En Aðalvíkin tók vel á móti okkur, þar sem við örkuðum áfram, göngumóð í átt til sjávar, eftir stuttan stans á Stað. Og það var notalegt að sjá bátinn nálgast þegar við skyldum sótt, síðdegis. Sjóferðin heim gekk vel og kyrrt í sjóinn. 

heimleid (Small)

Í dag verður svo farin létt 2ja tíma "afturganga" (les: eftirganga) um Korpudal, þar sem Pétur tengdafaðir minn mun slást með í för og fræða mannskapinn um byggð og búskap fyrir botni Önundarfjarðar, fyrr á tíð.

En í kvöld mun hópurinn svo halda svolítið kveðjuhóf í Edinborgarhúsinu þar sem ferðin verður væntanlega rifjuð upp með tilheyrandi gamansögum og gríni, áður en menn fara hver í sína áttina.

Gönguhópurinn samanstendur nokkurn veginn af sama fólki ár eftir ár. Það hefur þó ekki gerst enn að hópurinn sé allur í ferð - því alltaf hrökkva einhverjir úr skaftinu eins og gengur. En þeir sem hafa farið í ferðir með hópnum eru: Ólína og Sigurður (stundum með börn), Edda og Bergstein (stundum með börn), Kristín og Pétur, Helga Magnea og Einar Már (stundum með börn), Hjörtur Sigurðs, Ingibjörg Sólrún og Hjörleifur, Þórhildur og Arnar, Jón Baldvin og Kolfinna, Ragnheiður Davíðs og Sigrún Ólafs.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband