Færsluflokkur: Ferðalög

GSM-samband á Ströndum - en hvað með Ísafjarðardjúp?

gjogurbryggja "Ekkert minna en bylting hefur orðið í útbreiðslu GSM-sambands á Ströndum og á siglingaleiðum og miðum á Húnaflóa eftir að Vodafone kveikti á langdrægum GSM-sendi á Steinnýjarstaðafjalli ofan við Skagaströnd" segir á fréttavef Strandamanna nú um helgina. Þeir eru harla kátir yfir þessu Strandamenn, sem vonlegt er. Við þetta kemur inn GSM-samband víða á Ströndum þar sem sjónlína er yfir á Skaga. Sendirinn dregur um 100 km en um 50 km eru í loftlínu frá Skagaströnd að Gjögri.

Gott - ég óska Strandamönnum til hamingju.

En hvenær skyldi röðin koma að Ísafjarðardjúpi sem enn er sambandslaust að mestu? Nýlega fór þungaflutningabíll þar út af fyrir skömmu í vonskuveðri. Ökumaðurinn vissi ekki hvar hann var staddur, svo mikill var snjóbylurinn. Hann taldi það guðsmildi að hafa þó náð símasambandi. Venjulegur farsími hefði ekki náð sambandi á þessum slóðum. Komið hefur fyrir að bílar hafa lent í óhöppum þarna og farþegar og ökumenn þurft að bíða tímunum saman eftir aðvífandi aðstoð, vegna þess að ekki er hægt að hringja eftir hjálp.

Ekki er ýkja langt síðan bæjarstjórinn í Bolungarvík mátti dúsa dágóða stund með börn í aftursætinu hjá sér eftir bílveltu á Steingrímsfjarðarheiði - hann náði ekki farsímasambandi - og því hreinasta mildi að ekki höfðu orðið umtalsverð slys á fólki við óhappið. 

Þetta er umhugsunarefni fyrir alla þá sem málið varða: Fjarskipafyrirtæki og -yfirvöld.

 *

PS: Ég tók mér það bessaleyfi að birta þessa mynd af strandir.is - það fylgir því miður ekki sögunni hver tók hana.


Norðan fjúkið næðir kalt

hestarihöm 

Svolítil hringhenda í tilefni af illviðri og jarðbönnum:

 

Norðan fjúkið næðir kalt

naprir rjúka vindar.

Fanna dúkur felur allt.

Freðnir hjúpast tindar.

 

Hjallabungur, freðið frón

fetar hungur vofan.

Kári þungan kveður tón,

kallar drungann ofan.

 

 

brrrrrrr.................


mbl.is Slæmt veður víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann náði þó símasambandi

ofærdSkessuhornIs Vörubílstjórar eru með betri samskiptatæki um borð hjá sér heldur en "venjulegir" ökumenn. Þeir geta því kallað eftir aðstoð nánast hvar sem þeir eru staddir.

Í Ísafjarðardjúpi er ekkert farsímasamband nema á stöku stað þannig að "venjulegur" ökumaður í vanda hefði ekki getað kallað eftir hjálp. Þarna geta skollið á illviðri eins og hendi sé veifað,  því ekki þarf mikinn vind til þess að kominn sé skafrenningur og blinda. Það var gott að maðurinn gat leitað aðstoðar, og að ekki fór verr. En ég byði ekki það ef þarna hefði verið óbreyttur jeppamaður á ferð. Þá er ekki víst að hjálp hefði borist honum enn.

Þetta er nú svona til umhugsunar.

Annars var ósköp notalegt að kúra sig undir sæng í gær og hlusta á veðrið úti. Það sá ekki út um gluggana hjá mér fyrir snjó.

 

PS: Mér sýnist þessi færsla hafa orðið tilefni fréttar á mbl um hádegisbil í dag. Það er vel, því almennt held ég að fólk geri sér ekki grein fyrir þessu ástandi í fjarskiptamálum við Ísafjarðardjúp.

 


mbl.is Viðbúnaður vegna útafaksturs í Skötufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vel heppnuð helgaræfing Björgunarhundasveitar Íslands

Blíða Ég er kúguppgefin. Var að koma heim af helgaræfingu á Snæfellsjökli með Björgunarhundasveit Íslands. Þar sem ég var stödd í borginni fékk ég far með Nick félaga mínum strax eftir Útsvarskeppnina á föstudagskvöld (já, hún hefði mátt fara betur árans spurningakeppnin Wink ).

Við vorum komin á Gufuskála upp úr miðnætti og svo hófust æfingarnar morguninn eftir. Við ókum upp á jökulinn um tíuleytið, fjöldi björgunarsveitarbíla og jeppa í einni halarófu. Þar fundum við góð æfingasvæði, grófum holur fyrir "fígúrantana" fyrir hádegi, og svo var farið að æfa eftir hádegiskaffið.

Þarna var gríðarleg þátttaka, á sjötta tug manna og á fjórða tug hunda. Meðal annarra níu manna lið unglinga úr Grindavík sem kom gagngert til þess að liggja í snjóholum fyrir hundana. Það heitir að vera "fígúrant" og er sko ekki heiglum hent. Fólk er grafið niður í tveggja metra djúpar snjóhella þar sem það má dúsa - jafnvel tímunum saman - meðan hver hundurinn á fætur öðrum kemur að finna.  Það er ekkert sérlega notaleg vist í kulda og þrengslum skal ég segja ykkur. Viðkomandi þarf að vera bæði þolinmóður og sérlega skemmtilegur í augum hundsins, tilbúinn að leika við hann, gefa honum bita og hrósa honum á allan hátt þegar hann hefur grafið sig niður til fígúrantsins. 

Blíða (hundurinn minn) stóð sig með prýði. Á meðfylgjandi mynd er hún að skríða upp úr einni holunni sem hún gróf sig niður í til að finna mann - sjáið þið ekki hvað hún er hróðug á svipinn? Cool

Blíða2 Blíða tók C-próf í snjóleitinni í fyrravor, og hefur ekki fengið nema tvær snjóleitaræfingar síðan. Þótt ótrúlega megi virðast þá hefur bara sama og ekkert snjóað fyrir vestan í vetur Woundering Ég bjóst því ekki við miklu af henni núna.

En leiðbeinandinn lét okkur byrja á því að leita að tveimur týndum í fyrsta rennslinu - og það er í fyrsta skipti sem okkur er falið svo "stórt "verkefni. Það vafðist þó ekkert fyrir henni, og í heild stóð hún sig ljómandi vel. Það átti raunar við um alla hundana á okkar æfingasvæði, ekki síst unghundana sem voru að spreyta sig í fyrsta sinn.


Nú er hún greyið í búrinu sínu um borð í björgunarsveitarbílnum á leið vestur - ég sendi hana á undan mér því sjálf fer ég með flugi í fyrramálið.

Já, við erum lúnar stöllurnar, hvor á sínum stað. Þetta var viðburðarík og skemmtileg helgi. 

 


Þá er það Útsvarið í kvöld

Jæja, þá er það Útsvarið í kvöld Cool Lið Ísafjarðarbæjar að keppa við Akurnesinga í annarri umferð.

Við hittumst aðeins hérna hjá mér áðan og tókum léttar leiklistaræfingar og einn hring í Gettu-betur spilinu. Það verður að duga.

Eftir þáttinn í kvöld verður mér ekki til setunnar boðið. Á Snæfellsjökli verður landsnámskeið fyrir Björgunarhundasveit Íslands um helgina, og þangað stefni ég með minn hund strax að útsendingu lokinni. Ég verð búin að pakka mínu hafurtaski, hafa hundinn tilbúinn og svona. Gisti á Gufuskálum í nótt, svo byrja snjóleitaræfingarnar kl. 9 í fyrramálið.

En það er samt best að einbeita sér að einu í einu, og í réttri röð. Wink Fyrst er það sumsé Útsvarið. Og við erum galvösk, Ragnhildur, Halldór og ég  - bítum í skjaldarrendur og munum gera okkar besta. 


Þá bíður hið daglega amstur

Við keyrðum vestur í gær í fallegu veðri og mildu. Vorum þó ekki fyrr komin inn í Skutulsfjörðinn en ég fékk SMS-skeyti um björgunarhundaæfingu á Breiðadalsheiði. Nú var vandi á höndum. Heima beið Hjördís tengdamamma með dýrindis fiskrétt í ofni sem við hlökkuðum til að borða - á heiðinni félagarnir að moka 2 m djúpa snjóholu fyrir fyrstu snjóflóðaæfinguna sem allir hafa beðið eftir. Niðurstaðan varð sú að Siggi og Hjörvar voru settir úr heima hjá tengdó, við Blíða skelltum okkur á æfingu Cool Ég sé ekki eftir því þar sem í dag er farið að rigna - og óvíst hvenær hægt verður að æfa vetrarleit næst.

En þetta var skemmtileg æfing. Mjúk og mild logndrífa, og hundarnir hafa engu gleymt í snjóleitinni. Á eftir úðaði ég svo í mig góðgætinu við eldhúsborðið á Hjallaveginum. Það var því komið undir miðnætti þegar við loks komum heim í Miðtún og tókum upp úr töskum. Mikið var nú gott að leggjast upp í rúmið sitt með góða bók. 

En ... þá er bílífið að baki og nú tekur hið daglega amstur við.  Hér fyrir neðan skellti ég inn nokkrum myndum frá Reykjavíkurdvölinni.

DSC02986 Hluti fjölskyldunnar við á aðfangadagskvöld, fv. mamma (Magdalena), Siggi, ég og Magdalena dóttir mín (Maddý).

Allirvidjolatre (Medium) Við litla jólatréð á Framnesveginum, fv. mamma, Saga, Hjörvar, Pétur og Blíða fremst.

 Munnörpuleikur (Small) Munnörpulekur á aðfangadagskvöld Wink

Maddý og Maddý (Medium) Nöfnur og langmæðgur á gamlárskvöld


Á valdi óttans

Mál Erlu Óskar Arnardóttur hefur vakið verðskuldaða athygli, enda varpar það ljósi á hversu langt eitt samfélag getur látið leiðast í tortryggni og fjandskap. 

Bandaríkjamenn hafa verið undir linnulausum áróðri um hryðjuverkaógn undanfarin ár. Stjórnvöld þar í landi hafa eytt milljörðum í að búa sér til óvini og viðhalda ógnarótta almennings til þess að réttlæta stríðsrekstur sinn í öðrum heimshlutum. Hvaða áhrif halda menn að slíkt hafi til lengdar? Eitt er víst að það ýtir ekki undir lýðfrelsi og mannréttindi. Þvert á móti elur það á ótta og mannfyrirlitningu, líkt þeirri sem Erla Ósk hefur nýfengið að reyna.

Á valdi óttans geta menn gert hvað sem er.  Hér fyrr á öldum var saklaust förufólk drepið á heiðum landsins ef það varð á vegi óttasleginna ferðalanga sem stútfullir af sögum um útilegumenn og drauga réðu þeim bana. Af hverju halda menn t.d. að helsta ráðið til að kveða niður drauga hafi verið að "brjóta þá á bak aftur " eða skilja höfuð frá bol? Hmmm...

Nútímamaðurinn er enn að "brjóta á bak aftur" ýmsa ímyndaða drauga - oft með ærnum fórnarkostnaði, því miður.


mbl.is Mál Erlu Óskar vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðþreyttar eftir Danmerkurferð

 Við Saga komum  heim frá Danmörku í kvöld. Kúguppgefnar eftir hálfs sólarhrings ferðalag.

P1000326 Vorum vaknaðar fyrir allar aldir til þess að ná lestinni kl. 8 frá Árósum. Sú ferð tók þrjá og hálfan tíma. Síðan röltum við um á flugvellinum. Þar varð seinkun á flugi. Svo sátum við í klukkutíma í vélinni áður en hún fór í loftið. Flugið tók um þrjá tíma. Það stytti okkur stundir að í sætaröðinni hjá okkur sat sjö ára patti sem spjallaði við okkur á leiðinni -  Anton heitir hann og var hvergi banginn þó hann þyrfti að sitja hjá tveimur bláókunnugum konum. Raunar vissi hann af foreldrum og systur í röðinni fyrir aftan  - en samt. Vel af sér vikið hjá honum.

Jæja, það tók óratíma að fá bílaleigubílinn sem átti að bíða okkar á Keflavíkurflugvelli. Mikil skriffinska og vesen. Loks þegar við vorum sestar upp í hann með allt okkar hafurtask (sem var nú ekkert smáræði skal ég segja ykkur enda fjórir verslunardagar að baki Smile), þá fór blessaður bíllinn ekki í gang. Angry

Toyota er nefnilega komin með einhvern nýjan fítus í sjálfskiptinguna á þessum bílum, þannig að það þarf flóknar og samhæfðar aðgerðir bremsu, stýris og gírstangar til þess að koma vélinni í gang. Þarna sátum við mæðgurnar í myrkrinu, ráðvilltar á svip, með starfsmann bílaleigunnar í símanum að útskýra fyrir okkur hvað bæri að gera til þess að fá straum á vélina. Og ekkert gerðist - lengi vel.

P1000329 Jæja, svo kom þetta nú. Og heim erum við komnar eftir skemmtilega samverustund með Maddý minni í Árósum, þar sem hún er búin að koma sér vel fyrir. Við skoðuðum skólann hennar og vinnustofuna. Fórum á jólamarkaði - lágum í leti og spjölluðum. Síðast en ekki síst VERSLUÐUM við yfir okkur. Er eiginlega búin að gera jólainnkaupin - þannig að fjórtándi jólasveinninn - Kortaklippir  - hrellir mig ekkert sérlega - ég er eiginlega BÚIN að versla fyrir jólin Smile.

 Það var notalegt að koma aftur til Danmerkur eftir langa hríð. Rifja upp stemninguna sem fylgir aðventunni hjá þessari frændþjóð okkar. Þeir eru í "hygge" allan desembermánuð - og kunna svo sannarlega að njóta þess. 

Virkilega skemmtileg ferð.   

 


Vitlaust veður og ekki flogið

hestarihöm Það er komið vitlaust veður hér fyrir vestan - rafmagnið farið að flökta. Hrethviðurnar ganga hér inn fjörðinn, úfinn sjór og hvinur í trjám. Ég ætlaði suður í dag - og út til Danmerkur á morgun að hitta dóttur mína blessaða sem þar býr í Árósum.

Eeeen ... það verður ekki flogið í dag.

 Mér stendur til boða að fara með góðu fólki sem ætlar akandi suður í dag. Þáði það með þökkum að sjálfsögðu - en nú er ég bara ekkert viss um að það verði óhætt að keyra í þessu fjárans veðri.

Mér finnst orðið ansi hvasst nú þegar - samt átti veðrið ekki að skella á fyrr en síðdegis.

Brrrrr..... þetta er kuldalegt. Við sjáum hvað setur. 


Jólaklám

hestarihöm  Það var ekki flogið í dag - og mér lá á að komast vestur - svo ég lagði í púkk með þremur heimfúsum sveitungum og við tókum bílaleigubíl. Jamm. Tæpir sjö tímar í akstri - snjófjúk og blint á leiðinni en auðir vegir sem betur fer. Og allt gekk vel.

 Tengdamamma beið mín með indælan fiskrétt í ofni. Siggi bóndi minn farinn norður í Skagafjörð á kjördæmisþing Samfylkingarinnar og barnið hjá afa og ömmu. Gott að eiga öruggt skjól þegar foreldrarnir eru á þeytingi um landið þvert og endilangt í ótryggu veðri og jarðbönnum.

 Jæja, heimkomin læt ég renna í bað handa drengnum, skipti á rúminu hans og kveiki á sjónvarpinu. Ætla að láta líða úr mér ferðaþreytuna og slaka reglulega vel á. Hvað veltur þá yfir mig út um sjónvarpsskjáinn?  Frétt um að Borgnesingar hafi ákveðið að "flýta aðventunni". Viðtal við unga stúlku sem segir að þetta sé bara reglulega gaman. Grýla mætt á svæðið og svona, og allir glaðir. Eftir fréttir dynja svo á mér (og landsmönnum öllum) JÓLAAUGLÝSINGAR. Angry

Kallið mig bara íhaldskellingu og afturhaldssegg - EN ÉG VIL EKKI FÁ JÓLAAUGLÝSINGAR OG JÓLAUPPÁKOMUR um miðjan nóvember. Þetta er óþolandi. Óþolandi.

Látum vera nóvemberljós, kertaljós og haustskreytingar í húsum. Það er notalegt um þetta leyti. En rauðklæddir jólasveinar, silfraðar og gylltar jóalbjöllur í greni, klukkna og bjölluhljómur. NEI TAKK! Ekki um miðjan NÓVEMBER.

Mér finnst þessi útjöskun á jólunum jaðra við klám. Þetta er kaupmennska, skrum og ekkert annað. Og í tilefni af degi íslenskrar tungu ætla ég að taka mér í munn rammíslenskt og auðskilið orð yfir þetta fyrirbæri, um leið og ég hafna því af öllu mínu hjarta. Þetta er: Jólaklám ... Sick ... og ég vil ekki sjá það.

Hef ég þá lokið máli mínu í bili - ætla að fara að hvíla mig eftir ferðalagið.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband