Góðar minningar frá gamalli tíð

Ójá, hann var góður glænýi Trabbinn sem við Siggi keyptum hjá Ingvari Helgasyni fyrir aleiguna haustið 1981, þá nýflutt til Reykjavíkur. Hann komst allt í snjó, framhjóladrifinn, léttur og þægilegur. Eitthvað annað en gamli Trabantinn sem við fengum sem afgang frá pabba heitnum þegar við hófum búskapinn í Reykjavík. Sá gekk fyrir handafli - enda kominn til ára sinna. Átti auðvitað að fara á haugana, en pabbi lét okkur hafa hann svona til vonar og vara, ef hann skyldi einhverntíma fara í gang. Sem var sjaldan.

trabant Þetta var fyrsta veturinn okkar í Háskóla Íslands. Við bjuggum á Miklubrautinni og fyrir utan í heimreiðinni stóð þessi pínulitli grasgræni Trabant. Assgoti góður þegar vélin á annað borð gekk - þá komst hann hvert sem var. En það var bara ekki nema í svona fimmta hvert skipti sem bílfjandinn hrökk í gang. Flestir morgnar byrjuðu því þannig, að við komum út úr blokkinni, Siggi, Doddi (þá sex ára) og ég. Við settumst inn í bílinn og svo hófust starthljóðin. Þau gátu staðið góða stund. Angry Þá kom Siggi út úr bílnum, ég undir stýri, Siggi ýtti. Bíllinn var látinn renna niður afleggjarann. Stundum gekk þetta - stundum ekki. Þá var honum ýtt í stæðið aftur og fjölskyldan rölti út á strætóstöð. Þannig leið þessi vetur.

En haustið eftir vorum við búin að safna fyrir nýjum bíl. Glænýjum Trabant station, árgerð 1982, sem kom á götuna í nóvember. Hvílíkt dýrð! Mér er sérstaklega minnisstætt þegar nokkrir piltar um tvítugt spóluðu sig fasta á drossíunni sinni í snjóskafli við Norræna húsið. Þeir höfðu þá nýlega spænt fram úr okkur með fyrirgangi og fyrirlitningarsvip þar sem við trilluðum okkar leið á nýja fína Trabantinum. Það var ekkert sérlega leiðinlegt að skrúfa niður rúðuna, brosa góðlátlega framan í gæjana og spyrja hvort þeir vildu láta kippa í sig. Það var að sjálfsögðu afþakkað með bitru bliki í auga. Wink 

Þá brosti maður sínu blíðasta, skrúfaði rúðuna upp, gaf pínulítið í og ók svo yfir skaflinn. Tabb-trabb-trabb-trabb - og komst leiðar sinnar.


mbl.is Trabant á stórafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður

Ég varð nú,því miður, aldrei svo fræg að aka Trabant en mikið voru þetta sniðugir bílar. Fólk tók sumt þvílíku ástfóstri við Trabbann

Ragnheiður , 7.11.2007 kl. 11:17

2 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Ef maður á svona bíl þá þarf maður örugglega að eiga annan bíl á heimilinu

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 7.11.2007 kl. 12:27

3 Smámynd: Magnús Paul Korntop

Ég man vel ef eftir Trabantinum,frænka mín keypti allavega 3 Trabanta og það sem þeir komust,mikið sakna ég þeirra af götum borgarinnar.
Til hamingju með afmælið Trabant.

Magnús Paul Korntop, 7.11.2007 kl. 12:43

4 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Í mínu ungdæmivar sagt að kæmi dæld á Trabba þyrfti bara að strauja með staujárni og sjá; dæld horfin

Takk fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.11.2007 kl. 13:28

5 identicon

Krúttlegar druslur þessir trabbar.

Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 15:36

6 Smámynd: Ester Rut Unnsteinsdóttir

Sáum trabant á fjölskyldurúnti um daginn, Fjólan sagði: "sjáiði einsmannsbíll - það er bara pláss fyrir einn í honum" ...

Ester Rut Unnsteinsdóttir, 7.11.2007 kl. 20:35

7 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Bóndi minn átti warthburg í den, þvílík drossía. Trabinn var kúl.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.11.2007 kl. 23:26

8 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Skemmtileg færsla

Það var ótrúlegt hvað þeir gátu enst lengi þessir Trabbar, já "enst" á sinn sérstaka máta ,

fóru eins og þú lýsir, í gang stundum og stundum ekki .

Marta B Helgadóttir, 8.11.2007 kl. 00:30

9 identicon

Takk fyrir yndislega nostalgíu, ég hrökk aftur til árs 1971 með það sama  en nú er önnur öldin... í orðsins fyllstu. Ég hristi af mér fortíðarfíknina með morgunteinu.

Guðrún Jónína Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 8.11.2007 kl. 08:47

10 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

á átti einn 1987.....beið eftir mér splunku nýr þegar að ég hafði verið allt sumarið að spila í Danmörku......átti hann svo í eitt ár með svakalegum græjum.

Eina vandamálið að það var alltaf verið að flytja hann þegar ég var að spila einhversstaðar....ég fór inn spilaði,,,,kl 03.00 þurfti ég síðan yfirleitt að fara leita að honum í hverfinu......var að verða svolítð þreyttur brandari he he

Einar Bragi Bragason., 8.11.2007 kl. 10:31

11 Smámynd: Guðrún Helgadóttir

vinkona mín átti trabant station og sumarið 76 ætluðum við að ferðast um Vestfirði. Það varð að ráði að fá betri bíl lánaðan - en hann öxulbrotnaði í Hvalfirði og trabant var því fararskjótinn. Það voru allar læsingar bilaðar, þannig að við strengdum snæri frá stuðara í stuðara svo afturhlerinn væri ekki alltaf að opnast, hurðarhúnar innandyra voru vírherðatré klædd gúmmíslöngum því allt svoleiði fínerí var farið. En ferðin var farin og ég man bara ekki betur en það hafi farið dável um okkur

Guðrún Helgadóttir, 9.11.2007 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband