Færsluflokkur: Ferðalög
Hornstrandir - here I come!
19.7.2007 | 12:17
Jæja, þá er ég nú að leggja lokahönd á undirbúning Hornstrandaferðarinnar sem hefst í fyrramálið. Við munum sigla norður í Fljótavík og ganga þaðan yfir á Hesteyri, þar sem við ætlum síðan að halda til næstu daga og ganga þaðan mismunandi dagleiðir. Hluti hópsins verður í tjöldum, hluti í húsi á staðnum. Sjálf ætla ég að þiggja þægindin að vera í húsi - gott að hvíla sig á því að liggja á jörðinni svona einu sinni úr því mér gefst kostur á því
Þetta er fjórða árið í röð sem við göngum á Hornstrandir ferðafélagarnir - erum oftast 12-16 saman - og alltaf er farin ný leið á hverju ári. Við sjáum fram á að geta farið a.m.k. fjögur ár enn án þess að endurtaka gönguleiðir - og raunar hitti ég hjón í fyrradag sem hafa farið fjórtán sinnum, og segjast ekki enn vera búin að "loka hringnum".
Það verður því ekki bloggað næstu daga - en vonandi verð ég með skemmtilega ferðasögu fyrir ykkur eftir helgina.
Þangað til bendi ég ykkur bara á að hlusta á Laufskálaþáttinn okkar Lísu Páls frá því í fyrradag (sjá næstu færslu hér fyrir neðan).
Hafið það sem allra best á meðan.
PS: Mikið var gott að fá þessa rigningu í nótt - gróðurinn er ferskur og þrútinn í dag eftir blessaða vætuna. Það má mín vegna rigna í allan dag - en á morgun bið ég um uppstyttu
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hitað upp fyrir Hornstrandir: 2. kafli.
16.7.2007 | 18:25
Já, þessa dagana er að myndast svolítil hrúga á gólfinu í sjónvarpsherberginu - hún hækkar dag frá degi: Þetta eru bakpokar, ullarföt, flugnanet og svona hitt og þetta sem hafa þarf til taks fyrir Hornstrandagönguna um næstu helgi. Bóndinn er farinn að breiða úr kortum, athuga göngustafina og svona .... við erum í rólegheitum að setja okkur í gírinn. Hluti af því er að tölta hérna um nágrennið á nýju gönguskónum; skreppa upp í Naustahvilft í kvöldlogninu, ganga með góðum vinum inn í Álftafjarðabotn og svona ...
Og þar sem greiðviknir bloggvinir hafa gefið mér greinargóðar leiðbeiningar um það hvernig eigi að setja inn myndir úr einkaalbúminu - þá koma hér nokkrar frá ferðum okkar síðustu daga.
Þessar þrjár myndir voru teknar inni í Álftafjarðarbotni í gær: 1) Við Siggi með Blíðu í Valagili 2) Guðrún og Gummi kasta mæðinni 3) Svanbjörn, Siggi, ég og Gummi að skoða nýju göngubrúna
Svo höfum við farið tvær ferðir upp í Naustahvilftina fyrir ofan flugvöllinn. Þessar myndir voru teknar eitt kvöldið þegar við skruppum með Hjörvari syni okkar og Vésteini frænda hans. Við það tækifæri stóðust þeir ekki mátið og fengu sér vatnssopa beint úr uppsprettunni.
Svo er bara að krossleggja fingur og vona að blíðan haldist fram yfir næstu helgi
Ferðalög | Breytt 17.7.2007 kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hitað upp fyrir Hornstrandir
16.7.2007 | 00:32
Síðustu dagar hafa verið helgaðir útivist og göngutúrum hér á Costa del Ísafjörður. Ekki seinna vænna að liðka sig aðeins og mýkja upp gönguskóna fyrir Hornstrandaferðina sem framundan erum næstu helgi Það er hinn vaski gönguhópur "Höldum hæð" sem leggur þá í sína fjórðu ferð um Hornstrandafriðlandið.
Heiti hópsins tekur breytingum frá einu ári til annars eftir því hvað hæst ber í ferðum hverju sinni. Þannig hefur þessi hópur borði heitin "Skítugur skafl" (2004), "Ropandi örn" (2005) og nú síðast "Höldum hæð" (2006) - og verður forvitnilegt að vita hvaða nafngift ævintýri næstu helgar munu færa okkur.
Eitt er víst að þessar ferðir eru tilhlökkunarefni - enda ferðafélagarnir frábærir í alla staði.
Til stóð að setja inn nokkrar myndir af upphituninni undanfarna daga þar sem veður og náttúrufegurð hafa verið með miklum eindæmum. Af einhverjum ástæðum gengur það brösuglega að koma myndunum inn, svo það verður að bíða betri tíma.
PS: Ég er að velta fyrir mér hvort myndirnar geti verið of stórar úr vélinni hjá mér - því myndir af netinu smella inn á síðuna án fyrirhafnar, hmmm......... Þarf að finna út úr þessu.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Blaut Hróarskelduhátíð
9.7.2007 | 01:24
Myndirnar frá Hróarskelduhátíðinni minna mig óþyrmilega á ömurlega unglingahátíð í Þjórsárdal, margt fyrir löngu. Mér er óskiljanlegt hvernig fólk getur skemmt sér við svona aðstæður. Það hlýtur að vera mikill tónlistaráhugi sem rekur fólk til út í vosbúð og vatnselg af þessu tagi - djúp aðdáun á þeim sem troða upp - og svo eitthvað sem slævir skynjunina, hvort sem það er nú í fljótandi formi eða þurru.
Það fer um mig að horfa á fólk vaða foraðið og telja sjálfu sér trú um að þetta sé gaman. Úff!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Brunninn kórbúningur
2.7.2007 | 22:51
Ég er í svolítið vondu máli. Ég þarf nefnilega að útskýra fyrir upphaflegum eiganda kórbúningsins sem ég hef haft að láni undanfarin ár, hvernig mér tókst að brenna tvö hnefastór göt á treyjuna, eitt á framhlið og annað á bakhlið. Sé henni haldið uppi má horfa í gegnum götin bæði, eins og hleypt hafi verið af haglabyssu í gegnum búninginn.
Þetta gerðist í hinni merku tónleikaferð Sunnukórsins til Eystrasaltslanda, sem sagt hefur verið frá hér á síðunni fyrir skemmstu.
Málið er hið vandræðalegasta, enda ýmsar kenningar uppi um það hvað raunverulega gerðist. Hvort ég hafi verið að reykja eða fikta með eld inni á hótelherbergi . Jafnvel að Sigurður bóndi minn hafi verið svo heitur í atlotum að ég hafi hreinlega fuðrað upp þarna rétt ofan lífis
Sú kenning varð raunar tilefni ofurlítillar stöku sem sett var fram á góðri stundu og er svona:
- Með aldri funann finna menn
- fölskvast í sér,
- en Siggi kátur kann vel enn
- að kveikja í mér.
Jæja, svo skemmtilega vildi þetta þó ekki til. Tildrög óhappsins yrði of langt mál að rekja hér í smáatriðum en við sögu koma: Standlampi, logandi heit pera af einhverri ónefnanlegri tegund (skaðræðisgripur sem hitnar eins og skot), og Siggi minn blessaður sem í sakleysi sínu kveikti ljósið .... og fann svo brunalykt.
En nú þarf ég semsagt að manna mig upp í að hringja í hinn upprunalega eiganda og útskýra málið.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 23:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Komin úr söngferðinni - og fer nú beint í hundana!
19.6.2007 | 20:59
Jæja, þá er ég komin úr stórkostlegu söngferðalagi með Sunnukórnum á Ísafirði til Eystrasaltslanda. Fyrsti viðkomustaður var Finnland - sungum þar undir Síbelíusarminnismerkinu (sjá mynd), líka á Esplanaden, og svo var það hápunkturinn: Sjálf Klettakirkjan. Það var mikil upplifun ... og margt sem fór úrskeiðis, bæði fyrir tónleikana og meðan á þeim stóð.
Til dæmis tókst mér, fyrir ótrúlega slysni sem of langt mál yrði að rekja hér, að brenna hnefastórt gat á kórbúninginn minn kvöldið fyrir tónleikana í Klettakirkjunni . Ég á það hjálpsamri kórsystur að þakka, henni Hrafnhildi, að þessu varð bjargað. Hún er nefnilega völundur í höndum, og þrátt fyrir að hótelið gæti einungis útvegað okkur ónýta saumavél, sem að sjálfsögðu bilaði á meðan verið var að reyna að gera við skemmdina þarna á síðustu stundu, þá tókst henni að sauma treyjuna upp með sínum fimu fingrum. Og nú er treyjan betri ef eitthvað er. Enda sáu allir - þegar viðgerðinni var lokið - að svona styttri treyjur væru eiginlega bara klæðilegri á okkur konunum. Þannig að óhappið hefur sennilega skapað nýjan "trend" fyrir kórbúninga Sunnukórsins í framtíðinni
Jæja, en tónleikarnir tókust vel. Þeir voru vel sóttir og viðtökur áheyrenda frábærar í lokin, mörg uppklöpp og endaði með því að salurinn reis á fætur fyrir okkur. Jamm - ekkert minna.
Sanngirninnar vegna skal þess getið að við höfðum fyrirtaks klapplið með í för þar sem makar okkar voru annarsvegar. Þeir tóku að sér hlutverk kynningarfulltrúa og aðdáenda með öllu sem því tilheyrir - klöppuðu mest og hæst og sköpuðu stemningu hvar sem við komum. Nú skil ég betur en nokkru sinni gildi þess fyrir fótboltaliðin að hafa góða aðdáendaklúbba
En kórinn sjálfur átti auðvitað sinn hlut í þessu - og þá ekki síst stjórnandinn okkar hún Ingunn Ósk Sturludóttir. Hún er sjálf mezzo-sopran söngkona með djúpa og þróttmikla rödd - og það gerði auðvitað útslagið þegar hún tók lagið með okkur. Sérstaklega var áhrifamikið þegar hún söng Ave Maríu eftir Sigvalda Kaldalóns. Það eru engar ýkjur að fólk tárfelldi undir söng hennar, og eftir það áttum við hvert bein í áheyrendum. Þá spillti ekki fyrir að undirleikari kórsins, Sigríður Ragnarsdóttir, er snillingur á hljóðfærið. Sömuleiðis BG sjálfur, hann Baldur Geirmundsson með harmonikkuna og Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir sem sló rengtrommuna af mikilli list þegar við tókum "Húsið" (lagið góða "Húsið er að gráta" sem Helgi Björns gerði frægt en Vilberg Viggósson hefur nú útsett sérstaklega fyrir Sunnukórinn).,
Jæja, svo var haldið til Eistlands. Þar sungum við á ráðhústorginu í Tallin og héldum svo opinbera tónleika síðar um daginn í sænsku kirkjunni. Hljómburðurinn í kirkjunni var ótrúlega fagur, og satt að segja held ég að þar hafi styrkur kórsins og samstilling notið sín best. Oft hef ég heyrt fagra Ave Maríu sungna eftir Sigvalda - en hvergi eins og þar.
Frá Tallin var haldið til Lettlands og sungið í menningarmiðstöðinni í Riga ásamt heimakór, sem að fáum vikum liðnum mun þreyta kapps í alþjóðlegri kórakeppni. Í Riga hittum við líka samkór Kópavogs sem voru á söngfeðralagi. Kórarnir slógu sig saman eitt kvöldið, borðuðu saman og tóku svo lagið, m.a. framan við hótelið þar sem báðir hóparnir gistu (sjá mynd). Kraftmikill söngur kóranna tveggja vakti óskipta athygli gesta og gangandi.
Síðustu tveimur dögunum eyddum við svo í Vilníus í Litháen. Þar gerðum við okkur glaðan dag á 17. júní með því að syngja þjóðsönginn okkar á tröppum ráðhússins. Að því loknu var haldið fylktu liði niður að Óperutorginu og sungið á leiðinni. Vakti þetta mikla athygli í Vilníus og var okkur tjáð að um fátt hefði verið meira rætt þann sunnudaginn en þessa skemmtilegu Íslendinga.
Í gær ókum við svo aftur frá Vilníus til Riga og tókum þaðan ferju yfir til Stokkhólms - gistum um borð og áttum skemmtilegt lokahóf í gærkvöldi. Mikið sungið og trallað.
Ferðina kórónaði Bryndís Schram, sem var fararstjórinn okkar þessa daga. Hún er hafsjór af fróðleik um Eystrasaltslöndin, enda fylgdist hún með sjálfstæðisbaráttu þeirra í óvenjulegu návígi sem utanríkisráðherrafrú á sínum tíma (þegar Jón Baldvin tók sig til fyrir hönd Íslendinga og viðurkenndi sjálfstæði þeirra á undan öðrum). Er síst ofmælt að Bryndís átti sinn þátt í því að gera þessa ferð ógleymanlega.
Jæja, en nú er næst á dagskrá að halda norður í Vaglaskóg með fjölskylduna og hundinn, á nokkurra daga björgunarhundanámskeið og tjaldútilegu.
Blessað barnið hann Hjörvar minn, og tíkin hún Blíða, hafa verið í sveitinni hjá systur minni meðan við hjónin vorum á fyrrnefndu söngferðalagi. Er ekki að orðlengja að þau hafa hvort með sínum hætti notið frelsisins í sveitinni. Hann með frænda sínum og jafnaldra honum Vésteini. Tíkin með heimilishundinum á bænum, honum Sámi. Hefur þar verið óheftur aðgangur að sauðfé, hrossum og öðrum hundum - og nú er spurningin hvernig mér gengur að tjónka við hundspottið þegar við komum norður á björgunarhundanámskeiðið.
Frá því verður kannski sagt síðar - næsta blogg kemur sennilega ekki fyrr en eftir helgina. Hafið það gott á meðan.
Ferðalög | Breytt 20.6.2007 kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Á ferð og flugi - það er komið sumar!
30.5.2007 | 13:11
Það er margt spennandi framundan næstu daga.
Um helgina er förinni heitið austur að Leirubakka í Landssveit á ráðstefnuna "Hálendi hugans" sem þjóðfræðingar og sagnfræðingar standa fyrir í Heklusetrinu. Þar verður fjallað um hálendi Íslands frá ýmsum sjónarhornum. Sjálf verð ég með erindi sem nefnist "Óttinn við hið óþekkta - hálendið í íslenskum þjóðsögum". Ég ætla að fjalla um hlutverk hálendisins í íslenskum þjósögum; ótta og átök sem menn upplifðu utan marka mannfélagsins, í hólum, hömrum og á heiðum uppi í viðureign við vættir landsins. Ég greini frá sögum um samskipti mennskra manna við álfkonur, tröllskessur og drauga. Spennandi
Áður en að þessu kemur verð ég þó á fundi í Háskóla Íslands - stofnfundi nýs Rannsókna og fræðaseturs HÍ á Vestfjörðum. Það er mikilsverður áfangi fyrir okkur Vestfirðinga að fá nýtt fræðasetur, og mun vafalaust hafa þýðingu fyrir þekkingarsamfélagið hér vestra.
Annars verð ég á ferð og flugi mestallan júnímánuð. Um miðjan mánuðinn er fyrirhuguð tónleikaferð með Sunnukórnum til Eistlands, Finnlands og Svíþjóðar.
Undir lok mánaðarins mun ég svo mæta með stóran hluta fjölskyldunnar (eiginmann, tvo syni, tengdadóttur, ömmustrák og tvo hunda) norður í Vaglaskóg þar sem við verðum ásamt fleiri félögum í Björgunarhundasveit Íslands í tjaldbúðum við leitarþjálfun o.fl. Það er svo sannarlega tilhlökkunarefni að fá litla ömmustrákinn með, hann Daða Hrafn. Hann er svo voðalega langt frá mér svona dags daglega.
Sumsé - mikið um að vera og viðbúið að lítið verði bloggað á næstunni. Læt þessu lokið í bili með mynd af fallegum ömmudreng í heimaprjónaða vestinu sem amma sendi honum um jólin.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hefði mátt bjarga gæsavarpinu við Hálslón?
24.5.2007 | 11:48
Þessi mynd úr mogganum af umflotnu gæsahreiðri er sorgleg sjón. Hálslón er enn að fyllast. Gæsirnar hafa verpt umhverfis það, á sínum vanalegu varpstöðvum, og nú eru hreiðrin að fara eitt af öðru undir vatn. Einhversstaðar sá ég eða heyrði talað um 500-600 hreiður sem færust af þessum sökum. Fuglafræðingur upplýsti í útvarpinu að hætt væri við að þær gæsir sem fyrir þessu verða færu og kæmu aldrei aftur. Einhverjar reyna þó vonandi aftur, á vænlegri stað.
En nú spyr ég: Var þetta ekki fyrirsjáanlegt? Hugkvæmdist engum að það þyrfti hugsanlega að stugga við gæsunum um varptímann svo þær færðu sig fjær - eða hefði það verið óvinnandi vegur? Spyr sú sem ekki veit.
Hreindýraveiðimenn hika ekki við að ferðast um þetta svæði á fjórhjólum og fótgangandi. Ég velti fyrir mér hvort náttúru- eða dýraverndunarsamtök í landinu, Umhverfisstofnun eða sveitarfélögin á svæðinu hefðu ekki getað gert einhverjar ráðstafanir -- sett upp loftbyssur, fuglahræður, eða hvað það nú er sem menn gera t.d. til þess að fæla vargfugl, og forða gæsinni þar með frá því að hreiðra sig við vatnsborðið?
Ég veit það ekki - en þessi mynd gleymist ekki í bráð.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Lúin eftir leitaræfingahelgi
7.5.2007 | 12:39
Helginni eyddi ég með Björgunarhundasveit Íslands við námskeið og leitaræfingar á Úlfljótsvatni. Þar var þessi mynd tekin. Ég er hálf lúin eftir alla útiveruna.
Tíkin var svolítið erfið við mig - virðist ætla að taka seinni gelgjuna með trukki og dýfu. Hún var einbeitingarlaus og upptekin af umhverfinu. Fyrir vikið gengu æfingar ekki eins vel og ég hefði vonað. Verð bara að bíta á jaxlinn - eins og þegar unglingarnir ganga í gegnum sitt skeið - og bíða þess að þetta gangi yfir. Henni finnst hún flottust þessa dagana, og leynir því ekki fyrir neinum, hvorki mönnum né dýrum. Telur sig ekki þurfa að hlýða hverju sem er og iðar öll af lífi og vorgalsa. Auðvitað er hún flott, prímadonnan sú arna, ég tala nú ekki um meðan henni líður svona (þið sjáið hvað hún er sperrt). Hún reynir líka á þolrifin.
En mikið var nú gaman að hitta alla. Ágætt veður, þátttaka góð eins og venjulega og margir hundarnir tóku ótrúlegum framförum. Þetta er mikil reynsla fyrir þá, samvera með öðrum hundum, sofið úti í búrum, margt fólk, nýtt umhverfi.
Jamm, en ég er semsagt hálf lúin. Það tekur á að keyra 500 km fram og til baka - þó félagsskapurinn sé góður. Það verður því ekki bloggað meira í bili. Kem vonandi "sterk inn" fljótlega - svona þegar ég er búin að lesa blöðin og setja mig aftur inn í málin ...
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hundastúss og flakk
12.4.2007 | 13:04
Í gær brugðum við Blíða okkur á leitaræfingu með björgunarhundasveitinn hérna fyrir vestan - það var fyrsta sumarleitaræfingin, því nú er snjóa óðum að leysa.
Þetta var skemmtileg æfing og Blíða stóð sig með prýði. Hún hefur í allan vetur verið að æfa snjóflóðaleit, þannig að ég bjóst hálfpartinn við því að við þyrftum að bakka svolítið í sumarleitinni og rifja upp eitt og annað. En, ónei. Minn hundur hefur engu gleymt frá því í haust
Hún er farin að láta vita með gelti þegar hún finnur mann - og í gær kom hún af sjálfsdáðum og sótti mig þegar maðurinn var fundinn. Ég var ekki við þessu búin svo það var eiginlega ég sem klikkaði (svona hálfpartinn). Ég hefði átt að nota tækifærið og láta hana gelta hjá mér (því hún er farin að gelta eftir skipun), en gerði það ekki. Hinsvegar hrósaði ég henni þegar hún kom til mín, og hún þaut alsæl til baka og gelti hjá þeim fundna - svo þetta bjargaðist. Í seinna rennslinu gelti hún bæði hjá þeim fundna og mér, svo æfingin endaði vel og við vorum báðar glaðar.
Í dag förum við Siggi keyrandi suður til þess að mæta á landsfund Samfylkingarinnar á morgun. Það er tilhlökkunarefni, enda auðfundið að nú er hugur í mönnum!
Við ætlum að fara Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar (úff, þær eru sjálfsagt rennandi blautar og leiðinlegar) og reyna að ná Breiðafjarðarferjunni Baldri til að hvíla okkur á akstrinum. Maður verður víst að láta sig hafa það að hristast eftir rennandi blautum malarvegum á meðan ekki hefur verið gert átak í samgöngumálum okkar Vestfirðinga. Það verður sjálfsagt ekki fyrr en skipt hefur verið um samgönguráðherra í vor. Við sjáum hvað setur.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)