Aldrei einn á ferð

Fyrir tveimur árum stóð ég ásamt eiginmanni og yngsta syni á Anfield leikvanginum í Liverpool og söng hástöfum með tugþúsundum áhorfenda hið fallega lag Rogers og Hammerstein: You'll never walk alone! Ekki svo að skilja að ég sé neitt sérstakt fótbolta-fan, en karlmennirnir í lífi mínueru það hinsvegar,  einkum eiginmaður og yngsti sonur.

Jæja, þó ég sé lítt viðræðuhæf um þá eðlu íþróttagrein, fótboltann, þá var þetta ólýsanleg upplifun. Að sameinast tugþúsundum manna í söng sem er jafn merkingarþrunginn og þetta lag - það er eitthvað alveg sérstakt. Enn merkilegra þótti mér að verða vitni að því hvernig stuðningsmenn liðsins nota þetta lag til að segja það sem segja þarf þegar á brattann er að sækja fyrir liðið. Þarna töpuðu Liverpoolmenn á heimavelli í fyrsta skipti í árafjöld, 0-4 fyrir Chelsea. En á síðustu mínútunum, þegar ljóst var hver úrslit yrðu, hófst söngur: "Walk on, walk on, with hope in your heart ..." Og samstundis tók allur áhorfendaskarinn undir: "And you'll never walk alone". Það er ekki amalegt að eiga slíka stuðningsmenn þegar á móti blæs - segi ekki annað.

Fyrr í dag var ég að reyna að setja lagið inn á síðuna mína - það gekk ekkert. Ég kann ekkert á svona tæknihluti. En með því að smella á þennan tengil má finna lagið og hlusta á það.

Hér fyrir neðan er falleg íslensk þýðing á textanum, en því miður veit ég ekki eftir hvern hún er. Læt enska textann fylgja líka að gamni.

  • Meðan veðrið er stætt berðu höfuðið hátt
  • og hræðstu ei skugga á leið.
  • Bak við dimmasta él blikar lævirkjans ljóð
  • upp við ljóshvolfin björt og heið.
  • Þó að steypist þér gegn
  • stormur og regn
  • þó að byrðin sé þung sem þú berð
  • þá stattu fast og vit fyrir víst
  • þú ert aldrei einn á ferð.

-------------------

 

When you walk through the storm
hold your head up high
and don't be afraid of the dark.
At the end of the storm
there's a golden sky
and the sweet silver song of a lark.

Walk on, through the wind.
Walk on, through the rain.
Though your dreams be tossed and blown.
Walk on, walk on, with hope in your heart
and you'll never walk alone.
You'll never walk alone.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þar sem við erum nú í leshring saman, langar mig að vera bloggvinur þinn.

Ásdís Sigurðardóttir, 7.9.2007 kl. 17:52

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mín er ánægjan Ásdís 

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 7.9.2007 kl. 18:58

3 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég verð að segja frá reynslu minni af ferð á Anfield. Ég fór á Anfield fyrir u.þ.b. 18. mánumðum síðan og sá Liverpool spila á móti Charlton sem Hermann Hreiðarsson spilaði með þá. Þetta var alveg ótrúleg upplifun að vera viðstaddur. Reyndar stóð þannig á að sá yngri var mikið veikur og lést rétt 6 vikum eftir ferðina. Hann hét Sigurður og það var krabbamein sem tók hann frá okkur 27 ára gamlan. Þó ég sjálfur sé ekki púlari heldur Man. Utd maður gat maður ekki annað en verið snortinn af þessum velli og þegar allur skarinn tók til við að syngja þetta lag þá hríslaðist nú um mann svona létt gæsahúð. 

Ýmsir góðir menn með mikil sambönd voru búnir að koma því í kring að við feðgar fengum að fara inn í sérstakt herbergi, svokallað ,,players lounge" eftir leik og hittum alla leikmenn Liverpool. Þetta var eins og draumur, allir leikmenn komu og heilsuðu okkur og tóku í hönd okkar. 

Gísli Sigurðsson, 7.9.2007 kl. 22:20

4 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Heil og sæl Ólína!

Nei, það jafnast ekkert á við Anfield og Liverpool er einstakt félag!

Hef haldið með því frá því ég man eftir mér a.m.k. í 35 ár! Þú ert með tengil þarna inn á Liverpoolsíðuna, mig minnir að fyrir ekki svo löngu hafi þeir einmitt staðið fyrir samkeppni um þýðingu á textanum, sem kannski er svo enn að finna þarna einhvers staðar? En eftir því sem ég best veit, er höfundur þessa texta því miður ókunnur og þannig er hann t.d. merktur á fyrstu plötunni hans Óskars péturssonar, er einmitt ber þetta nafn!

Og veistu hvað, ég á milli 15 og 20 mismunandi útgáfur af laginu!

Magnús Geir Guðmundsson, 7.9.2007 kl. 22:46

5 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Það er spurning hvort að maður fari ekki að hafa áhuga á enskri tuðru, þetta hljómar allt svo menningarlegt og áhugavert ....

Gunnlaugur B Ólafsson, 7.9.2007 kl. 23:08

6 Smámynd: Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar.

Núna held ég að kominn sé tími til að við Vestfirðingar finnum okkur svona lag sem hvetur okkur áfram þó að á móti blási. Hvernig væri það! (tengist ekki íþróttum heldur almennri lífsbaráttu)

Var svo heppinn að fara til mekka okkar Liverpool-manna í apríl á þessu ári hreint út sagt ógleymanlegt.

Torfi Jóhannsson - Framtíðin er okkar., 8.9.2007 kl. 09:02

7 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Gaman að lesa þessi viðbrögð frá ykkur öllum. Takk fyrir þau.

Og Torfi, ég er ekki frá því að við Vestfirðingar ættum að koma okkur upp svona þjóðsöng! Til að efla samstöðu og þrótt

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.9.2007 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband