Færsluflokkur: Ferðalög

Hávaði er stjórntæki

noise Hávaði er stjórntæki - hann er notaður markvisst til þess að stjórna kauphegðun fólks og neysluvenjum. Þessu hef ég nú loksins áttað mig á og það sýður á mér við tilhugsunina um það hvernig maður lætur stjórnast af áreitum eins og til dæmis hávaða.

Raunar tók ég aldrei eftir þessu þegar ég var yngri. Kannski voru eigendur verslana og veitingahúsa ekki jafn útsmognir í að beita þessu þá og þeir eru nú. En með árunum hef ég orðið þess vör að hávaðinn í kringum mig er sífellt að aukast. Sérstaklega þegar ég fer út fyrir landsteina. Á sumardvalarstöðum í sunnanverðri Evrópu er ástandið orðið þannig að það er hvergi friður fyrir tónlist. Í öllum verslunum, á öllum veitingahúsum, í lyftum, jafnvel á salernum ómar hvarvetna tónlist. Eiginlega er ekki rétt að segja að hún "ómi". Þetta bylur á manni í sífellu og hækkar eftir því sem nær dregur helgi, og eftir því sem líður á daginn. OG það er hvergi friður fyrir þessu. HVERGI.

London er engin undantekning.  Þar sem ég hélt að Bretar væru séntilmenn, þá mannaði ég mig upp í það - þar sem ég lenti ítrekað í því að fá borð beint undir hátalara - að biðja um að tónlistin yrði lækkuð lítið eitt. Það bar ekki árangur. Þjónarnir ypptu öxlum og sögðu afsakandi að þeir gætu því miður ekkert gert. Það væri nefnilega búið að prógrammera tónlistina. Angry Á tveimur veitingahúsum var gefið sama svar. 

Og þar sem ég sat með síbyljuna í eyrunum, og þann góða ásetning að láta þetta ekki eyðileggja fyrir mér kvöldið, fór ég að fylgjast með fólkinu umhverfis mig. Ég sá pirraða matargesti á yfirfullum veitingahúsum moka í sig matnum og flýta sér síðan út.  Um leið voru komnir nýir gestir á borðið. Þá rann upp fyrir mér að til þess er leikurinn einmitt gerður. Á veitingahúsum miðborgarinnar er tónlistin beinlínis notuð til þess að stýra því hversu lengi fólk staldrar við, sérstaklega um helgar þegar annríkið er mest. Því fleiri gestir sem koma og fara á einu kvöldi, því betra fyrir veitingahúsið. Af þessu leiðir að því meira sem er að gera, því hærri verður tónlistin - til þess að fólk staldri skemur við, borði meira og hraðar og forði sér svo.

Í miðri viku þegar minna er að gera lækkar tónlistin. Þá er notalegt að sitja kyrr og spjalla. Og það gerir fólk. Þeir sem sitja lengur kaupa meira, fá sér einn drykk enn, skoða eftirrréttaseðilinn í rólegheitum, fá sér kannski kaffið sem þeir ætluðu að sleppa. Þá græðir veitingahúsið á því að gesturinn vilji sitja.

Og gesturinn gerir bara eins og til er ætlast, eins og kýrnar sem hlaupa á réttan stað þegar þær fá rafstuð í rassinn.  

Mórallinn í sögunni? Þögnin er stórlega vanmetin sem lífsgæði.

 

 *

PS: Að þessu sögðu er rétt að upplýsa að ég er nýkomin úr annars yndislegri helgarferð til London - þar sem ég naut dvalarinnar ásamt eiginmanni, systur og mági - þrátt fyrir hávaða. Wink


Vorlitir yfir London

Eg sit her a hotelherbergi i London, og pikka a lyklabord sem  hefur ekki islenska stafi. Fyrir vikid er eg halfpartinn mallaus, finnst mer.

En eg er semsagt i silfurbrudkaupsferd. Jebb, tad eru 25 ar i hjonabandi, segi og skrifa! Halldora systir og Nonni, hennar madur, giftu sig sama dag og vid Siggi fyrir aldarfjordungi, i stofunni heima a Hrannargotunni. Pabbi pussadi okkur saman med syslumannsvaldi = og thad hefur bara dugad oll thessi ar - blessud se minning hans.

Nu akvadum vid systurnar ad bjoda okkar heittelskudu eiginmonnum i helgarferd til London i tilefni af tessum  merka  afanga.

 Her er thokkalegasta vedur, solarglennur af og til og stoku rigningarskurir. Vorid er a naesta leiti ser madur a litunum; tren eru farin ad graenka og gardarnir. 

Vid spigsporum um gotur borgarinnar, aetlum ad kikja i leikhus, fara ut ad borda, kannski versla svolitid og svona.

Tad verdur tvi ekki bloggad meira fyrr en eftir helgi. Sjaumst! 


Flugvélagnýr í firðinum

bardastrond Jæja, þá er nú páskahelginni að ljúka. "Börnin" farin að tygja sig til ferðar eftir viðburðaríka, sólskinsdaga. 

Skutulsfjörðurinn hefur svo sannarlega skartað sínu fegursta þessa góðu páska - dimmblár og spegilsléttur. Á morgnana hefur sjófuglinn liðið letilega um hafflötinn og framkallað silfurþræði til beggja átta í kyrrð og þögn. Síðan hefur lífið smám saman færst yfir bæinn; skíðabrekkurnar fyllst af fólki, og bærinn iðað af mannlífi.

Sannkallaðir dýrðardagar.

En nú er ballið búið. Í morgun var enginn sjófugl á letilegu svamli í silfurslegnum haffleti - enda sjórinn orðinn úfinn og himininn grár.

Það er flugfélagnýr í firðinum. Einn af öðrum svífa stálskrokkarnir inn yfir byggðina og tylla sér niður skamma stund. Taka síðan flugið aftur og hverfa inn í grámann, með gesti helgarinnar innanborðs.

Jamm, þetta er lífsins gangur .... best að bretta upp ermar fyrir vinnuvikuna framundan. Enda langt til næstu páska.


Harðindi fyrir hundinn - hörkupúl fyrir mig

Vetrarnámskeið BHSÍ á Steingrímsfjarðarheiði var mikið ævintýri. Hér kemur ferðasagan.

Undirbúningur:  

  skafrenningur Daginn áður en námskeiðið hófst fór ég ásamt félögum mínum Auði og Skúla til þess að finna og merkja út hentug æfingasvæði. Við lögðum af stað um morguninn og vorum komin upp á heiði upp úr hádegi. Ekki vorum við heppin með veður. Það var mikill skafrenningur og blint þannig að okkur sóttist starfinn seint. Snjóbíll og tveir björgunarsveitarmenn frá Hólmavík aðstoðuðu okkur. Skúli var með vélsleða meðferðis og þau Auður með GPS tæki til þess að taka punkta á svæðunum. Hefði þessi búnaður ekki verið til staðar er næsta víst að værum öll týnd á heiðinni, því satt að segja sáum við ekki glóru.

Með nokkrum erfiðismunum tókst okkur að merkja út tvö svæði, en urðum að láta þar við sitja. Önnur tvö svæði urðu því að bíða næsta dags.

 

Fyrsti dagurinn:

Fyrsti dagurinn á svona námskeiði fer yfirleitt að mestu í að moka holur fyrir æfingarnar. Þá er tekin tveggja metra djúp gröf, síðan mokað inn þar til kominn er hæfilega stór hellir fyrir mann að liggja í og láta fara vel um sig. Síðan er mokað ofan í gröfina og skilin eftir svolítil rás eða op sem "fígúrantinn" getur smeygt sér niður um. Þegar hann er kominn ofan í er gatinu svo lokað og þarna dúsa menn þar til hundurinn finnur þá. Nú, eða þeir finnast með öðru móti, því fyrir kemur að hundarnir finna ekki. Þá koma að góðu gagni snjóflóðaýlarnir sem allir verða að hafa á sér við þessa iðju. Wink

 

Og hvernig liðu dagarnir? 

ReykjanesMannskapurinn gisti í Reykjanesi. Þar var stjanað við okkur í mat og öðru atlæti.

Klukkan sjö að morgni fór fólk á fætur og viðraði hundana. Þeir héldu til í búrum þessi grey.  Sumir í bílunum, aðrir inni í íþróttahúsi, svo það þurfti að viðra þá oft og reglulega. 

Klukkan hálfátta tók við morgunmatur. Við smurðum okkur nesti, settum heitt vatn á brúsa og tókum okkur til. Síðan var lagt af stað upp á svæði upp úr kl. hálfníu. Þangað kom hópurinn klukkutíma síðar.

Þá var tekið til við að hleypa úr dekkjum svo bílarnir kæmust inn á sjálf æfingasvæðin. Svo þurfti að byrja á því að opna holurnar, hreinsa upp úr þeim frá deginum áður og gera þær klárar. Þetta er heilmikið basl og brölt. Og þá - um það bil tveim tímum síðar - hófust æfingar sem stóðu með hléum til kl. hálf fimm. Þá var haldið heim á leið, eftir svolítið bras og snúninga í snjónum, menn þurftu að dæla lofti í dekkin að nýju, og það tók nú tímann sinn. 

Upp úr sex var mannskapurinn yfirleitt kominn í hús. Þá voru haldnir leiðbeinendafundir og í beinu framhaldi flokksfundir. Síðan kvöldmatur. Að honum loknum - eða klukkan átta - voru haldnir fyrirlestrar og erindi um eitt og annað sem lýtur að snjóflóðabjörgun og leit. Svo skelltu menn sér í laugina sem er heit eins og hitapottur. Þar var gott að slaka á eftir daginn.

 

Útkallsæfing: 

Þannig liðu dagarnir einn af öðrum. Á sunnudagskvöldinu var dagskráin brotin upp með útkallsæfingu strax eftir kvöldmat. Með aðstoð lögreglu var sett á svið raunverulegt snjóflóð og útkallshundarnir virkjaðir í leit: 9-10 manns "týndir" á skíðasvæði. Þetta var tilkomumikil æfing fannst mér og tókst í alla staði mjög vel. Frá því björgunarhundarnir voru komnir á svæðið og þar til tilkynnt var um síðasta fundinn liðu 53 mínútur sem er vel viðunandi.

 Síðasta kvöldið, á fimmtudagskvöld, var svo haldið lokahóf með afhendingu skírteina og viðurkenninga, skemmtiatriðum og söng og fólk gerði sér glaðan dag eftir erfiði vikunnar.  Á föstudagsmorgni tygjaði mannskapurinn sig til heimferðar - en menn voru misjafnlega hressir eins og gengur. Wink

 

Harðræði fyrir hundinn:

 Balti Ég sagði í síðustu færslu að ég væri úrvinda. Nú er ég öll að braggast - en það er önnur hér á heimilinu þreytt eftir þetta alltsaman. Það er tíkin mín hún Blíða. Þetta námskeið var mikið harðræði fyrir hana.

Það skyggði nokkuð á gleði daganna að hundurinn veiktist hjá mér og var eiginlega alveg ónýtur mestalla vikuna. Fyrsta vandamálið var eyrnabólga, og svo tók við svokölluð "vatnsrófa", á þriðja degi. Vatnsrófa (water-tale) hendir hunda sem lenda í vosbúð og bleytu (t.d. slyddu). Þetta er afar sársaukafullt fyrir hundinn og krefst verkjalyfja.  Taugaendar við rófuna  bólgna upp svo rófan lamast. Þetta líkist því helst að hundurinn sé rófubrotinn.  Blíða blessunin bar sig því illa um tíma, og ég var komin á fremsta hlunn með að taka hana heim. Hún gerði að vísu það sem fyrir hana var lagt en augljóst var að hún hafði enga gleði af því. Woundering Ég þarf því aðeins að hugsa þetta betur, hvað ég vil leggja á hana í framtíðinni.

Lærdómsríkt: 

breidadalsheidi07 Fyrir mig var þetta þó afar lærdómsríkt. Við fengum m.a. að leita  A-svæði með tveimur týndum sem hundurinn fann á innan við 25 mínútum. Mér skilst að svæðisvinnan mín hafi verið góð (í þessaari tilraun) og mér fannst mjög gaman að spreyta mig á þessu.

Ekki byrjaði ég þó glæsilega. Framarlega í svæðinu sökk ég á bólakaf í snjó og lá kylliflöt. Ekki beint tilkomumikið upphaf. Blush Ég veltist um góða stund í skaflinum, innan um snjóflóðastöngina og skófluna sem þvældust fyrir mér, og ætlaði aldrei að hafa mig á fætur. Það tókst þó með erfiðismunum, og áfram hélt ég. Þetta var svona eins og lífið sjálft - maður sekkur, bröltir upp aftur og heldur svo áfram. Wink

Jamm ...


Úrvinda og kem af fjöllum

Snaefellsnes08 Jæja, ég kem af fjöllum - í orðsins fyllstu merkingu. Úrvinda eftir tæprar vikudvöl við björgunarhundaþjálfun á Steingrímsfjarðarheiði ásamt fjölda manns úr BHSÍ, og hef hvorki lesið blöð né komist á netið "allan þennan tíma." Wink Sem var reyndar frábært!

Veðurbarin og freknótt eins og rjúpa í vorlitum, sit ég nú og kasta mæðinni með kaffibolla í hönd og bloggsíðuna opna fyrir framan mig. Komin til byggða á ný, með þrjár frunsur og vott af millirifjagikt eftir snjómokstur og bægslagang í fannfergi og fjallshlíðum.

Annars er mesta furða hvað maður saknar lítið menningarinnar þegar maður er svona úti við og fjarri mannabyggð. Maður dettur bara einhvernvegin úr sambandi. Helsta og eina fjölmiðlaefnið sem nær til manns eru veðurfréttirnar, sem maður hlustar gaumgæfilega á að sjálfsögðu, og spekúlerar svo um við morgunverðarborðið: Hvort skafrenningnum fari nú ekki að linna, hríðinni að slota, vindinn að lægja og sólin að skína.

Annars fengum tvo fína daga. Þar fyrir utan var rysjótt veður, en það var allt í lagi - ekkert óveður svosem.

Nú kasta ég mæðinni, áður en ég blogga meira - sjáumst. Smile

 


Farin á fjöll - bloggfrí í viku

snaefelljokull08 Jæja, þá er ég farin í bloggfrí. Legg af stað á vetrarnámskeið BHSÍ kl 9 í fyrramálið. Verð að mestu fjarri símsambandi og tölvum næstu vikuna - það er kærkomin tilbreyting svona einstöku sinnum. Wink

 Á meðan skil ég eftir nokkrar myndir frá fyrri ferðum.

Hittumst heil síðar.

 skalavikurheidi06ollyogskuliblidaibilnumSnaefellsnes08JoiSalmarOlly08

 


Viðurkenning og hvatning

Blidafinnur Það er gaman að fá hvatningu og svolitla viðurkenningu. Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar hefur nú borist kærkominn styrkur frá fyrirtæki í Reykjavík sem telur starf okkar mikilvægt og vill létta undir með okkur vegna kostnaðar við vetrarnámskeiðið sem hefst í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á laugardag og stendur yfir næstu viku.

Það er kæli- og frystivélafyrirtækið Kæliver sem veitir okkur 125 þúsund króna styrk til að standa straum af námskeiðskostnaði. Steinar Vilhjálmsson eigandi og framkvæmdastjóri Kælivers, segist hafa ákveðið að styrkja Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar þar sem meðlimir sveitarinnar vinni gott og fórnfúst starf og brýnt sé að Vestfirðingar hafi greiðan aðgang að góðum hundateymum til björgunar og leitarstarfa. Steinar skorar á fleiri fyrirtæki að gera slíkt hið sama.Smile

„Ég hef unnið mikið fyrir vestan og kynnst aðeins starfi deildarinnar. Ég vildi styrkja þessa vinnu þeirra þar sem það hefur sýnt sig hversu mikilvægir björgunarhundar eru og þá sérstaklega á Vestfjörðum“, sagði Steinar í fréttaviðtali í gær.

Það björgunarfólk sem tekur þátt í úttektarnámskeiðum Björgunarhundasveitarinnar tekur sjálft á sig kostnaðinn vegna vinnutaps, gistingar og fæðis. Í sumum tilvikum koma björgunarfélögin til móts við þátttakendur með niðurgreiðslum eða greiðslu ferðakostnaðar, en það er misjafnt hversu vel björgunarfélögin eru í stakk búin til þess að styrkja sína félagsmenn að þessu leyti. Að auki leggja margir á sig langt ferðalag og sjálfboðavinnu við skipulag og undirbúning námskeiðanna þannig að útlagður kostnaður getur hlaupið á hundruðum þúsunda líkt og í þessu tilviki.

 Cool

En sumsé - við leggjum af stað í býtið í fyrramálið. Þurfum að vera tímanlega á ferð þar sem eftir er að velja æfingasvæði á Steingrímsfjarðarheiðinni. Við ætluðum að gera þetta um síðustu helgi, en komumst þá ekki vegna ófærðar og snjóflóðahættu.

Nú krossleggjum við fingur og vonumst eftir góðu veðri.

krafla-ollyogaudur

Snjóþyngsli - bloggþyngsli - þyngsli

P1000360 (Medium) Eftir því sem snjóskaflarnir hækka og vegunum fækkar sem ferðast má um hér í nágrenni Ísafjarðar, því hærri verður bloggstíflan innra með mér. Ég þjáist af bloggþyngslum - þau aukast með snjóþyngslunum.

Síðdegis í gær ætlaði ég í göngutúr með hundinn, en komst hvorki lönd né strönd fyrir lokuðum gönguleiðum. Snjófljóðahættan var hvarvetna.

Já, þetta er niðurdrepandi svona dag eftir dag.

Verst er þetta með samgöngurnar - að komast ekki spönn frá rassi. Því þegar snjófljóðahættan úr fjallshlíðunum er til staðar (og hér liggja jú allir vegir meðfram fjallshlíðum) þá er yfirleitt blindbylur með skafrenningi, þannig að það er ekki flogið heldur. Þá biður maður til guðs um að ekki komi upp neyðarástand þannig að flytja þurfi fólk með hraði á sjúkrahús fyrir sunnan, til dæmis. Það væri sko ekkert grín.

Ég er ekki hönnuð fyrir svona aðstæður vikum saman. Segi það satt. Þetta getur bókstaflega gert mann brjálaðan.


mbl.is Víða erfið færð á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir í hundana !

krafla-ollyogaudur Nú er mikið um að vera hjá okkur í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Við erum að undirbúa viku vetrarnámskeið BHSÍ í næstu viku. Jamm - mannskapurinn ætlar að koma með hundana hingað norður í Ísafjarðardjúp, halda til í Reykjanesi og æfa snjóflóðaleit á Steingrímsfjarðarheiðinni. Þarna verða um tuttugu hundar ásamt eigendum sínum og aðstoðarfólki víðsvegar að af landinu við þjálfun og æfingar á heiðinni, samtals eitthvað á fjórða tug manna.Blidafinnur

 

Já, það verður sko líf og fjör á Steingrímsfjarðarheiðinni 8. - 14. mars: Hundar og menn á ferð og flugi, bílar, vélsleðar, snjótroðarar, surg í talstöðvum og sannkölluð björgunarsveita stemning Smile.

 

Vetrarnámskeiðið er árviss viðburður í starfi BHSÍ sem er deild í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Markmið þess er að þjálfa og taka út björgunarhunda í snjóflóðaleit og björgun við vetraraðstæður. Hundarnir eru  æfðir og prófaðir í svokölluð A, B og C- próf. A og B próf eru vottun um að hundur sé tækur á útkallslista, C-próf er vottun um að hundur sé hæfur sem björgunarhundur og tækur til þjálfunar fyrir B-próf.

 audurogskima  Af Vestfjörðum verða níu leitarteymi við æfingar á námskeiðinu, sex frá Ísafirði, tvö frá Patreksfirði og eitt úr Bolungarvík. Ísfirsku teymin eru meðlimir í Björgunarfélagi Ísafjarðar og fá þaðan aðstoð við þjálfunina. Teymin á Patreksfirði eru meðlimir í björgunarsveitinni Blakki á Patreksfirði.  Ísfirsku hundarnir hafa allir lokið undirbúningsþjálfun og því er stefnt á B-próf fyrir þá flesta á þessu námskeiði.

Nú er að krossleggja fingur og vona að veðrið verði okkur hagstætt - hundarnir í góðu formi og svona. Hér koma nokkra myndir frá fyrri námskeiðum.

skimaBlida07krafla-velsledi


Útkall F-1: Rauður. Snjóflóð á Súðavíkurhlíð.

Í morgun fékk ég útkall - fyrsta útkallið mitt: Snjóflóð á Súðavíkurhlíð, einn bíll í flóðinu. "Útkall F-1: Rauður" voru skilaboðin sem blikuðu á farsímanum mínum á ellefta tímanum í morgun.

Ég var ekki viðbúin - enda hundurinn minn varla orðinn útkallshæfur, bara með C-próf í vetrarleit (að vísu á góðri leið í B en samt ekki kominn með það). En lífið spyr oft ekki um prófgráður. Þegar mikið liggur við eru allir kallaðir út - og svo ræður forgangsröðun.

Ég stóð eins og þvara með farsímann í höndunum og það fór um mig undarlegur straumur. Tíkin sem lá fram á lappir sínar skammt frá mér skynjaði geðshræringuna. Hún spratt á fætur og stillti sér upp fyrir framan mig. Hún skalf eins og strá í vindi - spennt - hugsanlega kvíðin eins og eigandinn. Skömmu síðar fékk ég fregnir af því að ökumaðurinn væri kominn heill út úr flóðinu og ekki væri þörf á hundum. Um svipað leyti voru björgunarsveitarmenn sem lagðir voru af stað varaðir við mikilli snjóflóðahættu á svæðinu - enda fór svo að lögreglubíll komst í hann krappann áður en yfir lauk.

Já, allt fór þetta vel: Engu að síður var þetta merkileg reynsla. Að standa frammi fyrir alvörunni eitt augnablik. Öll þjálfun undanfarinna missera hefur jú gengið út á að vera viðbúinn útkalli einn daginn. En mikið var ég þó fegin að þurfa ekki að fara í þetta sinn. Fá svolítið lengri tíma til þess að búa mig (og hundinn) undir alvöruna.

Og þetta varð til þess að ég fór að hugsa um röð atburða og eigin viðbrögð við útkalli. Ég fór að útbúa bakpokann minn, tína ofan í hann eitt og annað sem þarf að hafa með þegar alvaran brestur á: Auka ullarföt, talstöðvar, ennisljós, kex og sitthvað fleira. Gerði lista yfir það sem gera þarf þegar þannig ber við. Nú bíður útkallspokinn tilbúinn á sínum stað - og ég er aðeins betur meðvituð um eigin viðbrögð.  Hvort ég verð búin að ná B-prófi á hundinn áður en kemur að fyrsta útkallinu okkar - hvort ég verð raunverulega tilbúin þegar á reynir - það veit Guð einn. En útkallspokinn er á sínum stað.

vetrarmynd07krafla-velsledi

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband