Færsluflokkur: Lífstíll
Rysjótt tíð en líf í tuskum á Snæfellsjökli
2.4.2009 | 00:28
Það hefur verið vindasamt hér á Snæfellsjöklinum það sem af er vikunni. Í dag var hvassviðri með slydduéljum. Hundarnir létu það ekkert á sig fá - mannfólkið ekki heldur. Hér koma nokkrar myndir sem ég náði rétt áður en hleðslubatteríið dó á myndavélinni minni (að sjálfsögðu gleymdi ég hleðslutækinu heima, þannig að það verða ekki fleiri myndir birtar í bili).
Skutull minn stendur sig vel það sem af er. Hann sýnir bæði áhuga og sjálfstæði og þykir almennt efnilegur. Vonandi tekur hann gott C-próf á föstudaginn.
Það er ekki slegið slöku við hér á þessu vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitarinnar: Klukkan níu á morgnana er haldið upp á jökul þar sem æfingar standa fram eftir degi. Við erum venjulega komin niður aftur milli kl. fimm og sex, síðdegis. Þá eru flokksfundir. Síðan kvöldmatur kl. sjö og að honum loknum taka við fyrirlestrar til kl. 10. Þá eru hundarnir viðraðir - síðan spjallað svolítið fyrir svefninn.
Annars er netsambandið afar lélegt hérna. Ég er með svona NOVA-internet tengil sem byggir á GSM sambandi og það er ekki upp á marga fiska. Þessi bloggfærsla er því ekki hrist fram úr erminni skal ég segja ykkur.
En þrátt fyrir rysjótt veðurfar er létt yfir mannskapnum eins og venjulega þegar við komum saman Björgunarhundasveitin. Hér sjáið þið tvo félaga vora taka léttan bumbubana. Annað þeirra hefur það sér til málsbóta að bera barn undir belti, en hitt ... hmmm
Nú það er nóg að gera við að grafa snjóholur fyrir hundana að leita - þær þarf svo að máta - og eins og sjá mér er æði misjafnt hversu rúmt er um menn.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vikufrí frá pólitík - nú er það Snæfellsjökull
30.3.2009 | 17:17
Nú tek ég vikufrí frá pólitíkinni. Er mætt á Gufuskála ásamt á þriðja tug félaga minna úr Björgunarhundasveit Íslands. Hópurinn verður við æfingar á Snæfellsjökli út þessa viku. Það er alltaf mikil stemning á þessu námskeiðum og glatt á hjalla bæði kvölds og morgna. Þessu fylgir heilmikið stúss - hér eru björgunarbílar frá flestum landshornum, hundar og menn með mikinn útbúnað. Svo getur veðrið verið með ýmsu móti.
Hér sjáið þið mynd frá vetraræfingu á Snæfellsjökli í fyrra - ég mun trúlega setja inn fleiri eftir því sem tilefni gefst næstu daga.
Pólitíkinhefur bara sinn gang á meðan - ætli hún fari langt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Rífandi gangur!
25.3.2009 | 00:30
Það veitti mér ákveðna vongleði - á ferð minni um Skagafjörð í dag - að finna bjartsýni og framkvæmdahug heimamanna. Já, mitt í öllu krepputalinu sem dynur á okkur dag eftir dag, líta Skagfirðingar vondjarfir fram á veg.
Á Sauðárkróki eru öflug atvinnufyrirtæki. Eftirtektarvert er að sjá hvernig Kaupfélag Skagfirðinga nýtir afl sitt til þess að styðja við nýsköpun og byggja upp atvinnulífið á staðnum. Það á og rekur fiskvinnslu, vélaverkstæði, verslun og fleira - er sannkallaður máttarstólpi í héraði.
Í Verinu - sem er nýsköpunar- og frumkvöðlasetur - eru stundaðar rannsóknir í líftækni, fiskeldi og sjávarlíffræði á vegum Háskólans á Hólum og Matís. Þar er hugur í mönnum og þeir eru að tala um stækkun húsnæðisins.
Í fjölbrautaskólann er líka verið að tala um stækkun húsnæðis þar sem verknámið er að sprengja allt utan af sér. Á öðrum stað í bænum, í fyrirtækinu Íslenskt sjávarleður hf., er verið að framleiða og þróa vörur úr fiskroði og lambskinni og gengur vel.
Skagfirðingar standa nú í hafnarframkvæmdum. Ferðaþjónusta er þar vaxandi atvinnugrein í Skagafirði, sömuleiðis hestamennskan. Er það ekki síst að þakka Háskólanum á Hólum þar sem starfræktar eru ferðamáladeild og hestafræðideild auk fiskeldis- og fiskalíffræðideildar. Þar var líka gaman að koma og sjá gróskuna í skólastarfinu (vel hirt hross í hundraða tali og nemendur einbeitta við nám og störf).
Ég notaði tækifærið og heimsótti líka Hvammstanga, Blönduós og Skagaströnd. Það var gaman að koma á þessa staði. Á Skagaströnd eru líka ýmsir sprotar að vaxa. Þar er sjávarlíftæknisetrið BioPol, og fyrirtækið Sero þar sem unnið er með fiskprótein. Þar er líka Nes-listamiðstöð sem er alþjóðleg listamiðstöð þar sem listamönnum er gefinn kostur á vinnuaðstöðu og húsnæði um tíma. Þegar ég leit þar inn voru fjórir listamenn að störfum, þrír erlendir og einn íslenskur.´
Mér var hvarvetna vel tekið. Ég var leidd um fyrirtæki og stofnanir, kynnt fyrir fólki og frædd um hvaðeina sem laut að atvinnulífi staðanna, sögu, menningu og staðháttum.
Er ég nú margs vísari og þakklát öllum þeim sem aðstoðuðu mig og upplýstu.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Búsáhaldabylting á Ásvöllum
22.3.2009 | 17:53
Það var ekki leiðinlegt að sjá íslensku strákana sigra Eistana með 14 marka mun í leiknum áðan. Guðjón Valur og Björgvin stóðu sig fádæma vel, báðir - já og liðið í heild sinni.
Stemningin á vellinum var galdri líkust - ég hefði viljað vera þar. Þetta var eins og í búsáhaldabyltingunni. Enda árangurinn eftir því.
Myndinni hnuplaði ég af visir.is - ég vona að mér fyrirgefist það.
Áfram Ísland !
Ísland vann stórsigur á Eistlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Lúsaleit á bloggsíðunni - hvað skyldu þeir finna?
21.3.2009 | 21:27
Nú er augljóslega verið að lúsleita bloggsíðuna mína. Venjulega eru flettingarnar helmingi fleiri en innlitin. Þessa dagana eru þær hins vegar tugfalt fleiri. Einn morguninn um níuleytið voru komnar 1500 flettingar þó að innlitin væru innan við 20 - það gera 75 flettingar á hvert innlit.
Menn hafa auðvitað gott af því að lesa vel það sem ég hef skrifað undanfarin tvö ár. Trúað gæti ég að þeir yrðu bara betri á eftir.
Annars er ég kúguppgefin. Búin að þeytast um allt Snæfellsnesið síðan á miðvikudag. Í dag lá leiðin suður á Akranes þar sem haldið var kjördæmisþing og endanlegur framboðslisti samþykktur með lófataki. Þessi líka flotti listi (sjáið hér). Ef marka má síðustu Capacent könnun erum við með þrjá þingmenn í kjördæminu.
Á morgun vonast ég til að geta hvílt mig. En á mánudag er stefnan tekin norður í land þar sem ég ætla að kíkja inn í fyrirtæki og hitta fólk, eins og á Snæfellsnesinu.
Þó ég sé lúin í augnablikinu hlakka ég til.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fylgið rýkur upp - og ég þeytist um kjördæmið
20.3.2009 | 17:47
Skoðanakannanir hafa sýnt miklar sveiflur í fylgi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi að undanförnu. Tvær síðustu kannanir Capacent sýna stökk úr 6,7% í 28% hér í kjördæminu. Ég geri fastlega ráð fyrir því að eitthvað hafi farið úrskeiðis þegar lægri talan mældist, því á sama tíma var flokkurinn með nálægt 30% fylgi á landsvísu. Engu að síður var könnunin birt án athugasemda.
Nú, þegar fylgið hefur rokið upp úr 6,7% fyrri vikuna í 28% seinni vikuna - bíð ég spennt eftir fréttum af þessum mikla árangri sem náðst hefur frá því að ég kom inn á framboðslistann.
En grínlaust - þá benda þessar miklu sveiflur til þess að eitthvað sé bogið við úrtakið, annað hvort of fáir á bak við niðurstöðuna, eða hópurinn of einsleitur.
Annars er ég nú á fleygiferð um kjördæmið að kynna mér sem best ég get atvinnuhætti og mannlíf sem víðast, ræða við fólk og fá upplýsingar. Síðustu daga höfum við Guðbjartur Hannesson verið á ferð um Snæfellsnesið og notið hér góðrar leiðsagnar heimamanna. Það er ánægjulegt að sjá hér´líf og starf við hafnirnar, menn í byggingarvinnu og börn að leik.
Eftir helgina er ferð minni heitið Norður í Skagafjörð og um Húnaþing þar sem ég vonast til að hitta bæði sjómenn og bændur í bland við annað mannval.
Þetta hefur verið afar lærdómsríkt og skemmtilegt og verður það væntanlega áfram.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Það þarf kjark til að vera jafnaðarmaður
18.3.2009 | 10:50
Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli, og gjörðir orðum. Markmið jafnaðarstefnunnar er að hver maður fái notið grunngæða samfélagsins; að úthlutun gæðanna taki mið af þörfum hvers og eins.
Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar þessi sjónarmið eru virt að vettugi. Þegar ábyrgðarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð velferð annarra, þá er ekkert sem heitir jöfnuður. Þá ríkir græðgin ein.
Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það birtist okkur sem aðstöðumunur landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það kristallast í óréttlátu kvótakerfi þar sem braskað er með auðlindir þjóðarinnar. Það blasir við í skefjalausri sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna. Það kemur fram í ójöfnum lífskjörum og misskiptingu gæða, launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja. Það speglast í spillingu, hugsanaleti og ákvarðanafælni. Ábyrgðarleysi leiðir af sér ójafnrétti.
Samfylkingin á það erindi við íslenska þjóð að þessu sinni að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar á ný. Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.
- Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að af hljótist réttlát skipting þeirra auðæfa sem hafið geymir.
- Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar með inn á vettvag þjóðanna sem fullvalda, sjálfstætt ríki meðal jafningja.
- Það þarf kjark til þess að breyta ártatuga gömlu framleiðslustjórnunarkerfi í landbúnaði, færa það til nútímahorfs og gera bændum kleift að njóta sérstöðu og sérhæfingar sem sjálfstæðir matvælaframleiðendur, svo dæmi sé tekið.
- Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
- Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu - jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.
Síðast en ekki síst þarf kjark til að vera ábyrgur jafnaðarmaður.
---------------------
PS: Myndina með þessari færslu tók Ágúst G. Atlason í Önundarfirði
Hver á að njóta vafans - starfsmaðurinn eða barnið?
14.3.2009 | 14:33
Þegar grunur leikur á að barn hafi þrisvar sinnum verið slegið af starfsmanni á leikskóla og rannsaka þarf málið - hver á þá að njóta vafans? Starfsmaðurinn eða barnið?
Í mínum huga er enginn vafi á því - með fullri virðingu fyrir réttindum starfsmannsins - að barnið á að njóta vafans. Það er ekki nóg að bjóða foreldrunum að flytja barnið úr sínu daglega umhverfi á annan leikskóla. Barnið á rétt á því að vera á sínum leikskóla, og líði því vel að öðru leyti, er ástæðulaust að flytja það annað. Barnið á rétt á öruggu umhverfi.
Þess eru dæmi úr öðrum starfsgreinum að starfsfólki er vísað tímabundið úr starfi meðan rannsókn á meintum brotum þess stendur yfir. Það fer að vísu eftir alvarleika málsins. En starfsmenn leikskóla verða líka að fá tvímælalaus skilaboð um að það er óásættanlegt að slá til barna. Ekkert foreldri á að sætta sig við slíka meðferð á barni sínu.
Sló barn utan undir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Laugardagsmorgunn á landsbyggðinni. Ég fylgist með veðurfréttum.
14.3.2009 | 09:25
Frost og fjúk utan við gluggann minn. Ég horfi út á úfinn fjörðinn hvar sjórinn þyrlast upp í gráa sveipi í hviðunum. Vindurinn gnauðar við mæninn og tekur í húsið.
Í stofusófanum liggur bóndi minn með blaðið frá í gær. Hann er að hlusta á Rás-1 með öðru eyranu. Það er þæfingur og þungfært í Ísafjarðardjúpi- flestar heiðarnar ófærar, segir þulurinn.
Inni í herbergi steinsefur unglingurinn á heimilinu. Hann er kvefaður.
Ketilkannan brakar á eldavélinni og gefur mér til kynna að kaffið sé tilbúið. Við fætur mér liggur hundurinn, rór og áhyggjulaus.
Þetta er laugardagsmorgunn á landsbyggðinni. Við munum fylgjast með veðurfréttum í dag.
Björgunarsveitir að störfum í vonskuveðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar bjarga þarf verðmætum er lotuvinna það sem gildir
10.3.2009 | 10:18
Ég tek undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að Alþingi á að starfa í sumar. Eins og sakir standa eru svo mörg og veigamikil verkefni óunnin í endurreisninni eftir bankahrunið að það verður að taka á þeim hratt og vel. Alþingismenn ættu að gefa tíma sinn að þessu sinni, vinna skipulega og af hugmóði. Þingleyfinu má fresta. Það mætti líka stytta það.
Við þekkjum það Vestfirðingar - já og þeir sem búa í sjávarbyggðum - hvernig það er að vinna í lotum. Það er inngróið í okkar atvinnumenningu að leggja nótt við dag þegar bjarga þarf verðmætum.
Nú liggur þjóðarbúið sjálft undir og þá dugir ekki að fara í sumarfrí.
Steinunn Valdís: Vill að þingið starfi í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)