Færsluflokkur: Lífstíll

Það hafðist!

Þá er niðurstaða prófkjörsins í NV-kjördæmi ljós. Ég fékk 2. sætið eins ég stefndi að og ég er alsæl. Smile Guðbjartur fékk sannfærandi kosningu í fyrsta sætið, hann er vel að því kominn. Þriðja sætið hreppti svo Arna Lára Jónsdóttir, samverkakona mín hér á Ísafirði.

Ég er ánægð með þennan lista - mér sýnist hann vera mjög sterkur og ekki óraunhæft að ná inn þriðja manni fyrir Samfylkinguna í NV í þessu kosningum.

Ég vil þakka öllum sem kusu mig fyrir traustið. Um leið þakka ég meðframbjóðendum mínum góða viðkynningu og skemmtilega samveru á fundaferðalagi okkar um kjördæmið í aðdraganda prófkjörsins. Þetta er sigurstranlegur listi sem ég vona að muni fjölga þingmönnum Samfylkingarinnar í kjördæminu.

 


mbl.is Guðbjartur efstur - Ólína í 2. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörið stendur yfir!

Prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi hófst með rafrænni kosningu í gær og stendur til kl. 16 á sunnudag. Allar nánari upplýsingar eru á kosningasíðu kjördæmisins http://www.xsnv.blog.is/ eða á heimasíðu Samfylkingarinnar, http://www.samfylking.is/

Ég gef ótrauð kost á mér í annað tveggja forystusæta flokksins.

Mín helstu baráttumál eru þessi:

  • Ég hef ríkan skilning á hlutskipti fjölskyldna og vil beita mér í þeirra þágu.
  • Ég tel brýnt að innleiða lýðræðisumbætur og stjórnlagaþing
  • Ég vil ábyrga stjórnsýslu svo stofnanir fái sinnt lögbundnu hlutverki án inngripa stjórnmála- eða hagsmunaafla.
  • Hlut landsbyggðar gagnvart höfuðborginni þarf að rétta með fjölbreyttum menntunarkostum, bættum samgöngum og fjarskiptatækni
  • Auðlindir lands og sjávar eiga að vera þjóðareign en ekki markaðsvara fyrir útvalda.
  • Íslendingar eiga að hafa samstarf og vera í samfélagi við aðrar þjóðir
  • Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi.
  • Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu.
  • Brýnast tel ég þó að verja lífskjör almennings á þeim tímum sem við nú lifum. Ég vil að byrðarnar verði lagðar á breiðustu bökin en hinum hlíft.

Velferðarsjónarmið og jafnaðarstefna eru aldrei mikilvægari en á krepputímum.

 


Óréttlætið gagnvart landsbyggðinni

KubburOddurJonsson Ég finn sárt til þess - þar sem ég hef búið á landsbyggðinni undanfarin átta ár - hversu mjög hefur hallað á hlut norðvestursvæðisins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og þungt fyrir fæti í svo mörgum skilningi.

Eins og öðrum íbúum svæðisins rennur mér til rifja sá aðstöðumunur sem er á milli þeirra sem búa á suðvesturhorninu og hinna sem búa úti á landi.

Ráðherraræðið í okkar litla landi hefur ekki aðeins grafið undan sjálfstæði Alþingis. Völd og miðstýring ráðuneyta hafa líka grafið undan sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Það er því ekki nóg með að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar - gjáin er líka djúp milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Meðal þess sem hefur hamlað vexti og viðgangi byggðanna á Vestfjörðum eru samgöngurnar. Þar þarf að gera stórátak. Þá er ég ekki bara að tala um vegina, sem eru fjarri því að vera viðunandi. Ég er líka að tala um flugvelli og hafnaraðstöðu sem atvinnulífið þarf svo mjög á að halda vegna aðfanga og vöruflutninga.

Háhraðatengingar og önnur fjarskipti þarf líka að stórbæta svo íbúar svæðisins geti vandræðalaust nýtt sér tækni og fjölbreytta menntunarkosti. Að ég tali nú ekki um raforkuflutninga sem vitanlega eru grunnforsenda allrar þjónustu.

Þetta sem nú er nefnt eru sjálfsagðir hlutir í nánast öllum byggðum landsins - nokkuð sem ekkert samfélag getur verið án.

Fari svo að Samfylkingin verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn mun það verða hlutskipti flokksins  að koma að endurreisn samfélagsins á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Gleymum því ekki að jafnrétti snýst ekki bara um aðstöðumun einstaklinga heldur líka landshluta og svæða. Eins og málum er háttað njóta íbúar Vestfjarða ekki jafnréttis á við íbúa annarra landshluta.

 


Fundaferð og framhaldssagan um Kristinn H.

Grundarfjörður Framboðsferðalagið gengur vel. Í fyrradag var fundað á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga. Þar bárust okkur þær fréttir að Kristinn H. Gunnarsson væri genginn til liðs við Samfylkinguna og hygðist bjóða sig fram í Norðvesturkjördæmi. Errm Menn litu hver á annan og nú upphófust ýmsar vangaveltur. Morguninn eftir brunuðum við á Hólmavík og héldum það ágætan fund í hádeginu. Nú voru komnar upp efasemdir um að Kristinn væri í Samfylkingunni, a.m.k. var hann ekki á leið í framboð  töldu menn. Jæja, áfram var haldið suður á bóginn, um Laxárdalsheiði í Búðardal. Þegar þangað var kom bárust enn spurnir af Kristni H. Gunnarssyni.  Nú var hann sko ekki á leið í Samfylkinguna heldur á leið í framboð fyrir Framsóknarflokkinn. Whistling

Hafi menn orðið undrandi við fyrstu fréttir af flokkaskiptaáformum Kristins þá datt nú andlitið af. En auðvitað varð til vísa í bílnum og hún er svona.

 Í Samfylkingu gekk með glans
- hann gerði það án rannsóknar
og eftir heldur stuttan stans
stökk á lista Framsóknar.

Annars er þetta hið skemmtilegasta ferðalag hjá okkur. Við erum fimm saman í bíl og þar er glatt á hjalla.

Nú erum við stödd í Stykkishólmi, búin að fá okkur heitt brauð og kruðerí í morgunmat. Í dag verða fundir í Grundarfirði og á Hellissandi. Á morgun verður fundur hér í Stykkishólmi. Þaðan tökum við ferjuna Baldur yfir Breiðafjörð og verðum svo með fund á Patreksfirði á Sunnudagskvöld.

Hér er prófkjörssíðan mín og hérna er prófkjörssíða kjördæmisins.


Fjörið að byrja: Sauðárkrókur, Blönduós og Hvammstangi á morgun!

DyrafjordurAgustAtlasonJæja, nú fer að færast fjör í leikinn. Á morgun leggja prófkjörsframbjóðendur Samfylkingarinnar af stað í fundaferð um norðvesturkjördæmið. Það segir sitt um samgöngumálin á Vestfjörðum að ég er komin í höfuðborgina til þess að komast norður á Sauðárkrók á morgun. Fyrsti fundurinn verður haldinn þar í hádeginu, síðan er Blönduós kl. 17.30 og svo Hvammstangi kl. 21 um kvöldið.

Á Sauðárkróki bíður okkar níu manna smárúta og í henni verðum við meira eða minna næstu fimm daga sýnist mér. Jamm, það verður transporterað með okkur milli staða sem leið liggur um kjördæmið og endað á Ísafirði 4. mars. Þar með verð ég komin heim til mín á ný.

 Hér er prófkjörssíðan mín og hérna er prófkjörssíða kjördæmisins þar sem fundadagskráin kemur skilmerkilega fram.

Þetta verður fjör!

 

ps: Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Ágúst Atlason. Hún er tekin í Önundarfirði.


Þá er komið að því - ég tek slaginn

bardastrond Jæja, þá er komið að því ... og enginn veit sína ævina ... og allt það. Ég er á leið í prófkjör fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi og stefni á annað efstu sætanna á framboðslistanum fyrir næstu Alþingiskosningar.

Eins og blogglesendur mínir vita hef ég ítrekað verið spurð að þessu undanfarnar vikur og mánuði. Ég hef svarað af varúð en ekki hugsað mikið um þetta fyrr en núna um helgina. Þá fóru hlutirnir að gerast.

Og eftir allmörg samtöl og tölvupósta er niðurstaðan sú að ég ætla fram. Cool

Í almennum orðum get ég sagt það um sjálfa mig að ég er sjálfstæð og framsækin kona með ríka réttlætiskennd. Ég hef látið málefni landsbyggðarinnar til mín taka í ræðu og riti undanfarin ár enda er ég búsett á Ísafirði og þekki mætavel hvar eldarnir brenna heitast í dreifðum byggðum landsins.

Um þessar mundir berst ég fyrir lýðræðisumbótum á Íslandi. Ég er í góðum hópi Íslendinga sem efnt hafa til undirskriftasöfnunar á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is  fyrir því að boðað verði til stjórnlagaþings og þjóðinni gefinn kostur á að velja verðuga fulltrúa til þess að setja nýja stjórnarskrá.

Í kjölfar þess efnahags- og siðferðishruns sem dunið hefur yfir tel ég brýnt að Alþingi Íslendinga endurvinni traust meðal þjóðarinnar og rísi undir hlutverki sínu sem leiðandi löggafarsamkoma í lýðfrjálsu landi.

Brýnast um þessar mundir er þó að verja lífskjör almennings í landinu við þau erfiðu efnahagsskilyrði sem hér ríkja. Stjórnvöld verða að hafa forgangsröðunina í anda mannúðar og jafnaðarstefnu þegar kemur að niðurskurði og aðhaldsaðgerðum hjá hinu opinbera. Að byrðunum verði jafnað réttlátlega á bökin. Að þess verði gætt að erfiðar aðgerðir komi síst niður á þeim sem standa höllum fæti fyrir, t.d. sjúklingum, öryrkjum, efnalitlum heimilum eða barnafjölskyldum.

Ég vil standa vörð um mannréttindi og lýðræði, jöfnuð og sanngjarnar leikreglur. Mín skoðun er að stjórnmálamenn og stjórnsýslan öll eigi að bera ábyrgð og standa vörð um hlutverk stofnana þannig að þær fái að sinna lögbundnu hlutverki sínu án inngripa eða óeðlilegra afskipta stjórnmálamanna eða hagsmunaafla.

Þeir sem vilja kynna sér bakgrunn minn geta séð hann hér. Þeir sem vilja vita um áherslur mínar og hugðarefni geta til dæmis kynnt sér bloggfærslur mínar hér á þessari síðu.

 Í stuttu máli sagt:

Ég er kona á besta aldri - nægilega lífsreynd til þess að þora að standa í báða fætur. Svolítið sorfin af sjávargangi lífsins en bjartsýn og drífandi. Verði mér treyst til þess að taka sæti á löggjafasamkundunni mun ég leggja mig alla fram í þágu þeirra mála sem ég tel horfa til framfara.

Mér er tamt að nota brjóstvitið ekki síður en hugvitið og hlýða eigin samvisku. Ég hyggst halda því áfram.


Fátækt fólk og velferðarkerfið

glaucoma_surgery_photo Á krepputímum er fátt dýrmætara en traust velferðarkerfi sem vegið getur upp á móti afleiðingum atvinnumissis og tekjutaps.

Það er því þyngra en tárum taki að fólk sem þarf læknisþjónustu skuli ekki geta veitt sér hana. Þá er ég  til dæmis að hugsa um gamalt fólk sem þarf á liðskiptaaðgerðum að halda og hefur jafnvel beðið mánuðum saman. Svo þegar röðin kemur að því er komin kreppa og viðkomandi telur sig ekki hafa efni á því að ganga í gegnum aðgerðina og það sem henni fylgir. Sama er sjálfsagt að segja um ýmiskonar lýtaaðgerðir, kjálka- og tannréttingar og fleira.

Miðaldra kona ákveður að bíða með hjartaþræðinguna - hún hefur hvort eð er fundið fyrir hjartsláttartruflunum svo lengi. Karl á svipuðum aldri telur sér trú um að hann geti beðið til betri tíma með að láta fjarlægja fjólubláan, óreglulegan blett á bakinu. Gamall maður ákveður að ganga bara áfram með ónýtu mjöðmina - harka af sér og nota stafinn.

Fréttir um að fólk veigri sér við að nota heilbrigðisþjónustuna segja þó ekki aðeins til um kreppuna í landinu. Þær sýna okkur svart á hvítu hvernig heilbrigðiskerfi okkar er orðið - "þökk" sé Sjálfstæðisflokknum og þeirri frjálshyggju- einkavæðingarstefnu sem hann hefur staðið fyrir áratugum saman með gjaldtöku og verðlagningu velferðarþjónustunnar. Angry

Sorglegt - í einu orði sagt. Sorglegt.

 


mbl.is Afpanta rannsóknir og aðgerðir lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggað fyrir Vestfirði!

KubburOddurJonsson Ég sé á mínum fyrstu bloggfærslum frá því fyrir tveimur árum, að ég hef upphaflega byrjað að blogga fyrir Vestfirði. Olnbogabarnið sem mér er svo kært og ég hef  nú deilt kjörum með um allnokkra hríð.

Upphaflegur tilgangur minn með því að kveðja mér hljóðs á þessum vettvangi,  var nefnilega sá að koma Vestfjörðum inn í umræðuna og vekja máls á ýmsu sem höfuðborgarbúum er hulið varðandi aðstæður og búsetumál á landsbyggðinni. Tilefnið var alvarleg röskun sem varð í atvinnulífi Ísfirðinga um svipað leyti. Sú staða leiddi til þess að ég og fleiri efndum til borgarafundar undir slagorðinu: Vestfirðir lifi! Við kölluðum þingmenn og ráðherra til fundarins og hleyptum af stað mikilli umræðu um stöðu mála.

Það er nú einhvernvegin þannig að þegar ég er spurð hvers vegna ég vilji búa “þarna fyrir vestan” eins og það er yfirleitt orðað, þá fylgir spurningunni eitthvert fas eða svipur. Þetta er sami svipurinn og kemur á fólk þegar það talar um “fjárstreymið til  landsbyggðarinnar” eins og nauðsynleg byggðaúrræði eru stundum nefnd.

En sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem dunið hafa yfir þetta landssvæði, er gott að búa hér fyrir vestan. Hér á Ísafirði stendur menning með miklum blóma, sérstaklega tónlistin. Hér er mikil ósnortin náttúra allt um kring og hvergi fegurra á sólbjörtum dögum en við Ísafjarðardjúp.

Við sem viljum búa hér eigum ekki að þurfa að réttlæta þá ákvörðun okkar fyrir neinum. Við eigum einfaldlega að sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að almennum búsetuskilyrðum og atvinnuháttum. Við greiðum okkar skatta og skyldur. Og þrátt fyrir þá röskun sem kvótakerfið hefur valdið hér í sjávarbyggðum, er landshlutinn í heild sinni drjúg uppistaða þjóðartekna.

Nú þegar fer að hitna í kolum fyrir næstu Alþingiskosningar er ekki úr vegi að minna á að það er löngu tímabært að Vestfirðir fái að búa við samskonar samgöngur, fjarskipti, flutningskostnað, menntunarkosti og almenn skilyrði í atvinnulífi og aðrir landshlutar. Að þessi hluti landsins sé samkeppnisfær. Og þó að ýmsu hafi verið þokað áleiðis er mikið ógert enn.

Brýnastar eru framkvæmdir í samgöngumálum og fjarskiptum - en síðast en ekki síst þurfum við: Sanngjarnar leikreglur! Meira um það síðar.

-----

PS: Myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson af Kubbanum í Skutulsfirði


Kynjahlutföllin og landsbyggðin

yinogyanÞegar Samfylkingin var stofnuð árið 2000 voru kynjahlutföll jöfn í hópi þingmanna. Ég man ekki betur en að Samfylkingin hafi verið eini flokkurinn sem  þá gat státað af jöfnu kynjahlutfalli í þingliði sínu. Nú, áratug síðar, hefur sigið á verri veg. Einungis þriðjungur þingmanna flokksins nú eru konur - þær eru sex, karlarnir tólf. 

Það er þó ekki bara kynjamunurinn einn og sér sem veldur áhyggjum - heldur hitt hvernig og hvar hann kemur helst niður. Það vill nefnilega þannig til að í landsbyggðakjördæmunum þremur er engin kona í hópi þingmanna  Samfylkingarinnar.

Nú hefur stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar skorað á kjördæmisráð flokksins um land allt að tryggja jafnræði kynja í forystusætum framboðslistanna fyrir þessar alþingiskosningar. Í því sambandi er minnt á jafnréttismarkið sem ítrekað hafa verið sett á landsfundum flokksins.

Hugmyndin um fléttulista þar sem konum og körlum er raðað á víxl, jafnvel þó að atkvæðamagn segi til um annað hefur mætt ákveðinni mótspyrnu hjá þeim sem telja slíkt stríða gegn lýðræðislegu vali. Og vissulega er það skiljanlegt sjónarmið. Þeir sem tala fyrir fléttulistum benda hinsvegar á að enginn framboðslisti geti talist boðlegur nema þar sé að finna bæði karla og konur í jöfnum hlutföllum.

Sjálf hallast ég að því að finna leið sem tekur tillit til beggja sjónarmiða. Þá á ég við fléttulista þar sem sett er atkvæðalágmark. Þannig ætti kona t.d. ekki möguleika á að fara í annað sæti á eftir karlmanni nema hún hafi a.m.k. 2/3 hluta þess atkvæðamagns sem tryggði honum efra sætið. Með því móti væri jafnréttissjónarmiðum fylgt, en þó tekið tillit til atkvæðamagns. Engin(n) sem hlyti þannig sæti á fléttulista þyrfti að sitja undir því að vera þar einungis vegna kynferðis.

Þetta er nú svona til umhugsunar. 

Eitthvað þarf að gera til þess að tryggja jafnari kynjahlutföll á listum flokksins án þess að það komi niður á lýðræðislegu vali.

Gleymum því ekki að baráttan fyrir jafnrétti og kvenfrelsi er órjúfanlegur hluti jafnaðarstefnunnar.

 


Í gang aftur eftir dásemdir Dolomítatindanna

Dolomíta-tindarnir Jæja, þá er ég aftur komin í gang eftir dásamlegt skíðafrí með systrum mínum í ítölsku Ölpunum - undirlögð af harðsperrum en endurnærð til líkama og sálar. Annan eins snjó hef ég aldrei séð og þann sem kom niður úr himninum yfir Madonna síðustu daga. Og kalla ég þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum, hafandi búið á Ísafirði í samanlögð 14 ár um mína daga. En tveggja mannhæða háar snjóhengjur ofan á þökum húsa hef ég aldrei augum litið fyrr en í þessari ferð.

Og náttúrufegurðin þarna, maður lifandi! Dolomíta-fjöllin með sínar tignarlegu klettaborgir og tvöþúsundmetra háu tinda. Þetta var engu líkt.

Eru þá ónefndar skíðabrekkurnar - endalausar og aflíðandi. Misvel troðnar að vísu - enda hafa ekki sést þarna önnur eins snjóþyngsli í manna minnum. Sem aftur varð þess valdandi að við systur vorum mis-glæsilegar á skíðunum. Sem aftur varð þess valdandi að við gátum mikið hlegið - allar sex!

Jamm ... það var auðvitað með hálfum huga sem ég fór þetta, svona mitt í efnahagshruninu. En þar sem ferðin hafði nú verið bæði pöntuð og greidd fyrir bankahrun - og ekki á hverjum degi sem systrahópurinn allur gerir sér dagamun með þessum hætti - þá lét ég slag standa.

Og ég sé ekki eftir því - enda hef ég ekki hlegið annað eins í háa herrans tíð og þessa síðustu viku. Hlátur er hollur. Smile

En nú er þetta gaman sumsé búið í bili - og við tekur (vonandi) annað gaman hér heima. Wink

Er að fara í Sprengisandinn hjá Sigurjóni M. Egilssyni á Bylgjunni í fyrramálið. Set kannski inn tengil hérna eftir þáttinn.

Bless á meðan.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband