Færsluflokkur: Lífstíll
Ég komst suður um síðir ... settist á skólabekk ... leið eins og sjö ára
14.5.2009 | 00:07
Jæja, suður komst ég um síðir (þetta er nú eiginlega upphaf að vísu - held kannski áfram með þetta á eftir). Ég keyrði að vestan í rokinu í gær. Var nærri fokin útaf undir Hafnarfjalli, en slapp með skrekkinn, og komst leiðar minnar framhjá vörubíl sem þar lá á hliðinni og tengivagni sem var í pörtum utan vegar.
Í morgun mætti ég svo á kynningu fyrir nýja þingmenn. Starfsfólk Alþingis hefur í allan dag verið að mennta okkur nýliðana og kynna okkur fyrir helgidómum þessarar elstu og virðulegustu stofnunar landsins.
Það var svo einkennilegt, að nú greip mig skyndilega löngu gleymd tilfinning. Það var sama tilfinningin og fyrsta daginn sem ég hóf skólagöngu lífs míns. Þá var ég sjö ára telpa á tröppum Hlíðaskólans í Reykjavík. Undarleg tilfinning - merkileg og eftirminnileg.
Fram kom í máli Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra þingsins, að aldrei hafa fleiri nýir þingmenn tekið sæti á Alþingi en nú. Ekki einu sinni á fyrsta þingfundi endurreists Alþingis árið 1845. Þá voru nýir þingmenn 25, nú eru þeir 27. Sögulegt.
Þetta hefur verið langur dagur. Eftir kynninguna miklu og merku tók við þingflokksfundur kl. 16. Því næst fundur með þingmönnum kjördæmisins kl. 18.
Ég kom heim á áttunda tímanum í kvöld. Þar beið hann Skutull - hundurinn minn sem þið sjáið sem hvolp á myndinni hérna. Greyið litla - búinn að bíða eiganda síns í 10 klst.
Kvalin á samviskunni tók ég hann út í laaaaáángan göngutúr - 2 klst. Hugsaði um leið að ekki hefði ég viljað eiga lítil börn í því hlutverki sem ég gegni núna (eins gott að yngsta barnið mitt er orðið 15 - og auk þess í traustri umsjá föður síns vestur á fjörðum, um þessar mundir).
En af því ég byrjaði hér á ljóðlínu - þá er best að spinna þráðinn áfram og segja ferðasöguna í bundnu máli. Og þar sem ég er innblásin af virðingu fyrir gömlum tíma (hinu aldna Alþingi) finnst mér við hæfi að fyrna mál mitt í samræmi við tilefnið:
Suður komst ek um síðir.
Súguðu vindar stríðir.
Máttumk um miðjar klíðir
mjök forðast voða hríðir.
Þinghús blésu á blíðir
blævindar mildir, þýðir.
Salirnir virðast víðir,
það vegsami allir lýðir.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ennþá veðurteppt ... skapið þyngist
12.5.2009 | 10:12
Ég er enn þá veðurteppt á Ísafirði - vindinn ætlar seint að lægja.
En þessi færsla er helguð blogg-ósið einum sem lengi hefur farið í taugarnar á mér. Það er hvernig fólk misnotar skilaboðadálkinn sem opnaður hefur verið fyrir bloggvini í stjórnkerfinu.
Í fyrstu var gaman að kíkja á þessa skilaboðaskjóðu, því þangað komu kveðjur og orðsendingar frá öðrum bloggvinum sem ætlaðar voru manni persónulega, eða þröngum hópi bloggvina. Svo fór að bera á því að menn sendu inn tilkynningar um bloggfærslur sínar, ef þeim lá mikið á hjarta. Gott og vel, þá hópuðust bloggvinirnir inn á síðuna hjá viðkomandi. Þetta sumsé svínvirkaði. Og fleiri gengu á lagið. Svo varð þetta of mikið. Nú rignir daglega inn hvimleiðum skilaboðum frá fólki sem er að vekja athygli á eigin bloggfærslum - og hinar orðsendingarnar, þessar persónulegu, drukkna í öllu saman.
Skilaboðaskjóðan er ekkert skemmtileg lengur. Hún er bara smáauglýsingadálkur fyrir athyglisækna bloggara, þar sem hver keppist við að ota sínum tota.
Mjamm .... það verður sjálfsagt ekkert flogið í dag.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Veðurteppt á Ísafirði >:-(
11.5.2009 | 13:50
Nú sit ég veðurteppt á Ísafirði - kemst ekki á þingflokksfund. Horfi út á úfinn og hvítfyssandi fjörðinn á meðan hryssingslegt hvassviðrið hamast á glugganum. Grrr ....
Í morgun var meinleysisveður hér fyrir vestan með hægum andvara. Þá fóru þeir að fresta fluginu vegna "óhagstæðrar áttar" við flugvöllinn. Þeir frestuðu því nógu lengi til að stormurinn næði hingað vestur. Nú er ekkert ferðaveður.
Ætli maður taki ekki bílaleigubíl á morgun - þeir eru að spá áframhaldandi hvassviðri.
Jamm ... svona eru nú samgöngumálin hér á þessum slóðum. Ef ekki er flogið, þá er það 7 klst keyrsla suður til Reykjavíkur.
En ég anda með nefinu - orðin vön.
Þingflokkurinn bjargar sér án mín.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ekki svo slæmt
9.5.2009 | 16:57
Fréttablaðið segir frá því í dag að leiguverð sé að lækka mikið á húsnæðismarkaði, um þriðjung eða þar um bil.
Það var tími til kominn, segi ég. Verð á leiguhúsnæði var komið upp úr öllu valdi. Nú er þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu leigð á 80 til 120 þúsund á mánuði, en var í mesta góðærinu á bilinu 110 til 160 þúsund. Hver hefur efni á slíku - jafnvel í góðæri?
Nú veit ég að þetta helst í hendur við fasteignaverð - en þið fyrirgefið - fasteignaverðið var líka orðið of hátt. Það mátti lækka.
Neibb - þetta eru ekki svo slæmar fréttir. Og vonandi skapast nú forsendur fyrir því að hér geti orðið til stöðugur og heilbrigður leigumarkaður fyrir húsnæði. Það hefur skort lengi.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Skortur á fjármálalæsi eða óhóf og eyðslusemi
7.5.2009 | 22:57
Jæja, þá er búið að mæla fjármálalæsi okkar Íslendinga og er skemmst frá því að segja að við fáum falleinkunn. Jebb ... hér er sko ekki verið að mæla stjórnvöld eða fjármálaspekúlanta, heldur heimilin í landinu. Meðaljónana og miðlungsgunnurnar.
Fjármálalæsi er skilgreint sem getan til að lesa, greina, stjórna og fjalla um fjármálalega þætti sem hafa áhrif á efnahagslega velferð einstaklingsins. Það greinist í þekkingu, hegðun og viðhorf og felur í sér getuna til að greina fjármálavalmöguleika, fjalla um peninga án vandkvæða (eða þrátt fyrir þau), gera framtíðaráætlanir og bregðast við breytingum sem hafa áhrif á fjármál einstaklingsins, þar með talið breytingum á efnahagslífinu í heild.
Með öðrum orðum: Íslendingar kunna ekki fótum sínum forráð í fjármálum. Nú hefur það verið skilgreint og skjalfest með vísindalegum hætti sem við vissum innst inni. Þjóðin hefur ekkert peningavit. Það var það fyrsta sem fuðraði út í buskann í góðærinu.
Í landi þar sem eðlilegt þykir að taka 120% lán fyrr raðhúsinu sínu og myntkörfulán fyrir 2 heimilisbílum (jeppa og fólksbíl) til viðbótar við fullan yfirdrátt og raðgreiðslur fyrir aðskiljanlegum heimilistækjum - allt á sama tíma - þar skortir svo sannarlega á fjármálalæsið.
Fjármálalæsi er kurteislegt orð. Skortur á fjármálalæsi er enn kurteislegri framsetning á grafalvarlegu ástandi sem m.a. birtist í óhófi og veruleikafirringu og getur haft skelfilegar afleiðingar, eins og dæmin sanna.
Íslensk tunga á ýmis orð yfir slíkt, t.d. óráðsía, eyðslusemi og neysluæði. En slík orð eru allt of brútal fyrir virðulegar rannsóknaniðurstöður - enda allt of sönn.
Íslendingar falla í fjármálalæsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt 8.5.2009 kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Hveitibrauðsdagar þingmanna
5.5.2009 | 18:31
Við erum brosmildar og vonglaðar á myndinni þessar fimm þingkonur sem röltum yfir Austurvöllinn í vorblíðunni til þess að taka kaffisopa saman á Café Paris eftir fundalotu dagsins.
Eins og alþjóð veit eru stjórnarmyndunarviðræður nú langt komnar. Okkur þingmönnum hefur gefist kostur á því að koma að málefnavinnunni sem hefur gengið hratt fyrir sig í starfshópunum síðustu daga. Ég fór í sjávarútvegsmálin - þóttist vita að í þeim málaflokki yrði lítið framboð á konum, svo ég skellti mér.
Nú fara hveitibrauðsdagar nýkjörinna þingmanna í hönd. Þetta eru dagarnir sem allt er nýtt og spennandi, allir brosmildir, vingjarnlegir og vongóðir. Skemmtilegir dagar. Vor í lofti - brum á trjám.
Sjálft þingið hefur að vísu ekki verið kallað saman, en engu að síður hefur verið í ýmsu að snúast og margt að setja sig inn í.
Á náttborðinu mínu liggur til dæmis lítið kver: Þingsköp Alþingis - óbrigðult svefnmeðal. Ég mæli með því.
-----------
Á myndinni eru frá vinstri: Ólína, Sigríður Ingibjörg, Katrín Júl, Þórunn Sveinbjörns og Oddný Harðar - allt Samfylkingarkonur. Myndina tók glaðbeittur ungur maður sem átti leið hjá.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Maísólin okkar skein í dag
1.5.2009 | 19:09
1. maí gangan á Ísafirði í dag var sú fjölmennasta frá því ég flutti hingað vestur. Það var frábært að sjá hversu margir fylktu sér á bak við fána verkalýðsfélaganna við undirleik Lúðrasveitar Vestfjarða sem leiddi gönguna. Dagskráin var létt og skemmtileg og ræður góðar.
Ástæðan fyrir hinni miklu þátttöku er vafalaust efnahags- og atvinnuástandið í landinu. Það er líka vert að vekja á því athygli - eins og einn ræðumanna dagsins benti á - að baráttusöngur verkalýðsins sem ortur var á frönsku árið 1870 á við enn þann dag í dag. Kannski hefur hann aldrei verið betur viðeigandi en einmitt nú - sérstaklega niðurlag fyrsta erindis, sem ég letra hér með rauðu í tilefni dagsins (þýð. Sveinbjörn Egilsson).
Fram þjáðir menn í þúsund löndum
sem þekkið skortsins glímutök
nú bárur frelsis brotna á ströndum
boða kúgun ragnarök.
Fúnar stoðir burt vér brjótum!
Bræður, fylkjum liði í dag.
Vér bárum fjötra en brátt vér hljótum
að byggja réttlátt þjóðfélag.
:/ Þó að framtíð sé falin
grípum geirinn í hönd
því Internasjónalinn
mun tengja strönd við strönd./:
Annars var þetta frábær dagur. Við, félagar Björgunarhundasveitinni, notuðum góða veðrið til þess að taka æfingu með hundana nú síðdegis. Við fórum inn í Álftafjörð þar sem sólin skein á lognværan og sindrandi sjóinn. Það var maísólin okkar.
Við heyrðum í fugli og fundum lykt af rekju og vaknandi gróðri í vorblíðunni. Hundarnir réðu sér ekki af kæti og vinnugleði. Yndislegt.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fyrsti þingflokksfundurinn
27.4.2009 | 20:50
Sól skein í heiði og það var bjart yfir miðbænum þegar ég arkaði yfir Austurvöllinn að Alþingishúsinu á minn fyrsta þingflokksfund. Í anddyri nýju viðbyggingarinnar mættu mér brosandi starfsmenn sem buðu nýja þingmanninn velkominn. Fyrir innan biðu fjölmiðlarnir og enn innar þingflokksherbergið.
Þetta var góður fundur og yfir honum svolítill hátíðarbragur. Allir 20 þingmenn flokksins voru mættir ásamt áheyrnarfulltrúum og starfsliði . Nýir þingmenn tæplega helmingur, eða níu talsins. Kossar, faðmlög og hlýjar kveðjur í upphafi fundar. Svo var sest á rökstóla um aðalmálefni dagsins: Stjórnarmyndunarviðræðurnar og málefnastöðuna.
Já. nú eru sannkölluð kaflaskipti í mínu lífi. Svosem ekki í fyrsta sinn.
En á þessum tímamótum finn ég til þakklætis í garð þeirra fjölmörgu sem stutt hafa flokkinn og okkur frambjóðendur Samfylkingarinnar á öllum vígstöðvum fyrir þessar kosningar. Fjölmarga hef ég hitt á ferðum mínum um kjördæmið sem hafa miðlað mér af reynslu og sinni og lífsafstöðu. Það hefur verið lærdómsríkt og gefandi að hitta kjósendur að máli, hlusta eftir röddum þeirra og skiptast á skoðunum.
Ég er jafnframt þakklát mótframbjóðendum mínum úr öðrum flokkum fyrir skemmtilega framboðsfundi og umræður um það sem betur má fara og hæst ber á hverjum stað. Yfirleitt hafa þessi skoðanaskipti verið málefnaleg og upplýsandi fyrir alla aðila.
Nú tekur við nýtt tímabil - erfitt tímabil. Óhjákvæmilega finnur nýkjörinn þingmaður frá Vestfjörðum til ríkrar ábyrgðar og um leið umhyggju gagvart heimaslóðum þar sem mjög ríður á úrbótum í samgöngu- og raforkumálum. Hvort tveggja getur ráðið úrslitum um atvinnuuppbyggingu Vestfjarða og almenn búsetuskilyrði. Sjálf vil ég auk þess gera það sem í mínu valdi stendur til þess að fjölga menntunarkostum heima í héraði, ekki síst á háskólastigi.
Forsenda þess að eitthvað miðið í úrbótum fyrir einstaka landshluta er þó að ná tökum á efnahagslífi þjóðarinnar og verja jafnframt velferðina eftir fremsta megni. Það er forgangsverkefni og um leið frumskilyrði þess að nauðsynleg atvinnu uppbygging geti átt sér stað. Sókn um inngöngu í ESB er mikilvægur þáttur í að þetta takist. Síðast en ekki síst þarf að endurreisa ábyrgð og traust í samfélaginu, ekki síst á stjórnmálasviðinu og innan stjórnsýslunnar sjálfrar.
Jebb ... þetta verður ekki auðvelt fyrir nýja ríkisstjórn, en við sjáum hvað setur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Sumrinu fagnað í snjómuggu
23.4.2009 | 12:31
Þeir hleyptu í herðarnar, otuðu fánastöngunum fram og héldu af stað með hálfpírð augun mót snjómuggunni - ungskátarnir sem fóru fyrir skrúðgöngunni eftir skátamessuna í morgun. Í humátt á eftir gengum við, nokkrir vetrarbúnir bæjarbúar, og fylgdum trommuslættinum um götur bæjarins.
Sumarið heilsar heldur hryssingslega hér á Ísafirði í ár. Þetta kann þó að vera góðs viti, því sumar og vetur frusu saman í nótt. Það veit á góða tíð samkvæmt þjóðtrúnni.
En þar sem ég þrammaði á eftir skrúðgöngunni í morgun kom mér til hugar þessi vísa:
Okkur lengi í ljóssins yl,
líf og yndi þyrsti,
þá í svölum sortabyl
kom sumardagur fyrsti.
Gleðilegt sumar öllsömul og takk fyrir veturinn sem er að líða. Fari hann vel með öllu því sem honum fylgdi.
Megi Harpan og sumarmánuðirnir boða okkur betri og gjöfulli tíð.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Lóan er komin. Gleðilega páska!
12.4.2009 | 10:55
Það er sólarglenna og hæglætisveður hér á Ísafirði þennan páskamorgun. Í gær sást til heiðlóu á Holtsodda í Önundarfirði. Hrossagaukur sást í Haukadal í Dýrafirði og æðarkóngur við Höfða.
Já, vorið er á næsta leiti - og vonandi fylgir því betri tíð fyrir land og lýð.
Aldrei fór ég suður hátíðin stóð fram eftir nóttu og við heyrðum daufan óminn berast yfir bæinn þegar við fórum að sofa í gærkvöld. Það virtist vera góð og vandræðalaus stemning í kringum tónleikana. Þegar ég kíkti var Hemmi Gunn að rifja upp gamla takta við mikinn fögnuð. Salurinn var troðfullur út úr dyrum.
Húsið hjá mér er fullt af gestum um hátíðarnar. Tvö barnanna minna komu að sunnan ásamt tveimur vinum sínum fyrr í vikunni. Hér hafa líka verið nætur gestir í tengslum við kosningastarfið, þannig að hér er hvert fleti skipað, eins og oftast um þetta leyti. Bara gaman af því.
Sjálfsagt munum við skella okkur á skíði seinna í dag. Svo verður kíkt á kosningamiðstöðina, og eldað eitthvað gott í kvöld.
Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska kæru lesendur og vinir!
Lífstíll | Breytt 13.4.2009 kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)