Færsluflokkur: Dægurmál

Gott Hörður!

Hörður Torfason er maður að meiri núna - og sjálfum sér líkur - þegar hann hefur beðist afsökunar á óheppilegum orðum sem féllu í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær. Þetta var gott. Heart

Áfram Hörður!


mbl.is Baðst afsökunar á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítir borðar - nýtt upphaf, friðsamleg breyting

White_ribbon Í morgun þegar íbúar borgarinnar vöknuðu og fóru á stjá tóku þeir sem áttu leið um Ártúnsbrekku og Miklubraut eftir hvítum borðum á ljósastaurum meðfram stofnbrautinni. Þeir láta ekki mikið yfir sér þessir hvítu borðar - en hafa strax valdið heilbrotum. Hvaðan koma þeir? Hvað boða þeir?

Böndin tóku fljótlega að beinast að átakinu Nýtt lýðveldi - og það með réttu. Við sem stöndum að áskoruninni um utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is göngumst fúslega við þessu. Vorum þó að velta fyrir okkur hversu langur tími liði þar til fólk áttaði sig á því hvað um væri að vera. En nú þegar blaðamaður morgunblaðsins er búinn að hafa samband og fá réttar upplýsingar, skal upplýst hér hvað er á seyði. Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar.

Hvítur er litur friðar. Sumstaðar í Austurálfu þýðir hvítt sorg. Og svo sannarlega hefur margt farið úrskeiðis sem valdið hefur sorg í okkar samfélagi.  En hvítt merkir líka nýtt upphaf. Hvítt er litur hins óskrifaða blaðs.

Við eigum draum um nýtt lýðveldi á Íslandi. Lýðveldi markað sanngjörnum leikreglum, virðingu fyrir lýðræði og grónum gildum á borð við samhjálp, heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ábyrgð. Þessi gildi hafa verið fótum troðin undanfarin misseri - við viljum endurreisa þau og treysta í sessi.

Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar og prýði ljósastaurana í götunni sinni með hvítum borðum. Það má rífa niður gömul lök eða klippa plastræmur. Sömuleiðis veit ég að það fást svona borðar í fyrirtækinu Hringrás sem er fyrir neðan Byko í Kópavogi. Wink

En þessi hljóðlátu skilaboð geta orðið mjög öflug ef þau ná að breiðast vel út. Þögul en sterk áminning til stjórnvalda og stjórnmálamanna.

Gerum bæinn hvítan.


mbl.is Hvítir borðar í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörður á að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar

HörðurTorfa Ég held að Hörður Torfason hljóti að vera orðinn eitthvað þreyttur. Hann hefur staðið sig mjög vel fram að þessu - en nú varð honum á í messunni. Þeir sem ganga hart fram í gagnrýni á aðra verða að geta horfst í augu við eigin mistök. Hörður á að biðjast afsökunar á ummælum sínum um veikindi Geirs H. Haarde.

Raunar finnst mér að það mætti að ósekju fara að sýna fleiri andlit og tala við fleiri málsvara þessara mótmæla heldur en Hörð Torfason. Með fullri virðingu fyrir honum. Mótmælin hafa verið persónugerð full mikið í honum einum, þó hann eigi að sjálfsögðu að njóta þess hróss sem hann á skilið. En hann er ekki undanþegin gagnrýni heldur.

Ég vona að fólk haldi áfram að mæta á Austurvöll og berja búsáhöld. Hugmyndin með appelsínugulu borðana finnst mér góð, þ.e. að auðkenna þannig þá sem fara með friði.

Það kæmi mér ekki á óvart þó að hvítir borðar sæjust líka á stöku stað í borginni á morgun. Wink Hvítt er litur friðarins.

 

2.319 undirskriftir komnar við áskorunina um stjórnlagaþing og utanþingsstjórn á www.nyttlydveldi.is


mbl.is Hænuskref í rétta átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftarsöfnun um nýtt lýðveldi byrjar vel. Verra með heilsufar forystumanna.

skjaldamerki Vefsíðan www.nyttlydveldi.is fer vel af stað - og þó með brösum. Umferðin á síðunni var svo mikil í gær að hún lagðist hvað eftir annað á hliðina, og aftur fram eftir degi í dag. En nú er búið að koma þessu í lag, vonandi. Og rétt áðan voru komnar ríflega 1800 undirskriftir frá því kl. 15:00 í gær. 

Það er afar leitt að heyra um heilsubrest Geirs H. Haarde. Ég vona innilega að hann nái sér af þessum veikindum og óska honum langra lífdaga.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að andlegt álag og mikil, langvarandi neikvæðni í umhverfinu, skili sér á endanum inn í líkama okkar með tilheyrandi heilsukvillum. Ég er því ekki beint hissa á þessum fréttum. Satt að segja hefði ég eiginlega orðið meira hissa ef ekkert hefði látið undan.

Nú er svo komið að báðir forystumenn ríkisstjórnarinnar glíma við alvarlegan heilsubrest. Það segir sitt um það hversu mikil áraunin hefur verið. Hún hefur verið ómennskt á köflum. Og varla er það tilviljun að tveir fyrrverandi forystumenn í íslenskum stjórnmálum, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hafa einnig mátt kljást við illkynja mein. Ekki eru mörg ár síðan Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra hneig niður í beinni útsendingu þegar allt ætlaði um koll að keyra í samfélaginu vegna ákvarðana í heilbrigðismálum, ef ég man rétt.

Það er augljóslega ekki tekið út með sældinni að komast til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.


Nýtt lýðveldi: Undirskriftasöfnunin er hafin!

Undirskriftasöfnunin til stuðnings utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings er hafin á vefsíðunni Nýtt lýðveldi. Nú vona ég að almennignur taki við sér, fari inn á vefslóðina http://www.nyttlydveldi.is/ og skrifi undir áskorun okkar til forseta Íslands og Alþingis.

Að þessari undirskriftarsöfnun stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við; gilda á borð við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð. Við viljum efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsin. Í því skyni viljum við mynda þverpólitíska breiðfylkingu um þau markmið sem koma fram í áskoruninni til forseta og Alþingis. Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks.

Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum.

 

Áskorun Íslendinga til forseta lýðveldisins og Alþingis Íslendinga

 

Við undirritaðir Íslendingar skorum á forseta Íslands og Alþingi að hlutast til um skipun tímabundinnar utanþingsstjórnar sem fari með framkvæmdavald forseta á grundvelli 15. og 24. greina stjórnarskrár lýðveldisins Íslands í samræmi við stjórnskipan landsins.

Jafnframt skorum við á Alþingi að samþykkja stjórnskipunarlög um boðun til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar. Forseti Íslands boði til þingsins fulltrúa sem kosnir verði ásamt varafulltrúa fyrir hvern þeirra í almennum kosningum sem haldnar skulu innan tveggja mánaða frá síðari samþykkt frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Kjörgengi til stjórnlagaþings hafi allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar. Í kosningum til stjórnlagaþings verði allt landið eitt kjördæmi.

Stjórnlagaþing semji nýja stjórnarskrá þar sem lagður verði grunnur að nýju lýðveldi með virku og endurnýjuðu lýðræði. Í því felst m.a.

  • endurskoðun á kosningareglum til Alþingis og kjördæmaskipan
  • skýr aðgreining milli framkvæmdavalds, löggjafavalds og dómstóla.

Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána verði þing rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga á grundvelli hennar.

Undirskrift hér.

 

Nú er komið að því - undirskriftarsöfnun og áskorun á stjórnvöld!

faninn Á morgun verður formlega opnuð ný vefsíða www.nyttlydveldi.is þar sem Íslendingum gefst kostur á skora á Alþingi og forseta um að mynduð verði utanþingsstjórn og boðað til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar Íslendinga sem hafi það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá og leggja þar með grunn að stofnun nýs lýðveldis.  Í hinni nýju stjórnarskrá verði mörkuð skörp skil milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds og lagðar línur fyrir gagngera endurskoðun á kosningareglum til Alþingis.

Að áskoruninni stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í samfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins.

Við höfum boðað blaðamannafund í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík síðdegis á morgun, þar sem nánari grein verður gerð fyrir þessu framtaki. Svo skemmtilega vill til að fundurinn fer fram í sal sem nefnist Alþingi.

Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks, en á blaðamannafundinum verða auk mín Njörður P. Njarðvík, Tryggvi Gíslason, Birgir Björgvinsson og hugsanlega fleiri.

Segi nánar frá þessu þegar síðan opnar formlega á morgun. Smile

Nú er allt að gerast.

 

 


Hvað skal til bragðs?

Hvað á að taka til bragðs þegar Alþingi er óstarfhæft vegna ólgu og reiði í samfélaginu? Hvað geta stjórnvöld gert til að skapa frið og sátt um þau verk sem vinna þarf?

Jú, ríkisstjórnin gæti beðist lausnar og komið þannig til móts við þá kröfu sem nú ómar hvarvetna. Þar með myndi ríkisstjórnin sýna lit á því að skapa frið í samfélaginu og þar með forsendur fyrir nýju upphafi.

Alþingi Íslendinga gæti hlutast til um það að boðað yrði til stjórnlagaþings svo unnt verði að semja nýja stjórnarskrá og byggja á henni nýtt (og vonandi betra) lýðveldi.

Það mætti breyta kosningalöggjöfinni og skerpa skilin milli framkvæmdavalds, löggjafar- og dómsvalds. 

Til að endurvekja traust á starfi stjórnmálaflokka gætu núverandi formenn flokkanna stigið til hliðar allir sem einn og hleypi nýju fólki að.

 Það er ýmislegt hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi. 


mbl.is Fundað með flokksformönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heit mitt og játning

KubburOddurJonsson Ykkur að segja þá hef ég fengið mig svo fullsadda af reiði og meðvirkni í samfélaginu að ég segi hvoru tveggja hér með stríð á hendur. Og þá er ég bæði að tala um meðvirknina í sjórnarsamstarfinu og innan stjórnmálaflokkanna og líka þá meðvirkni sem verður æ meira áberandi í tengslum við mótmælin í landinu og andstöðu við stjórnvöld.

Ég er staðráðnari en nokkru sinni í að þegja hvorki yfir því sem miður fer né heldur hinu sem vel er gert, hvernig svo sem það kann að koma niður á flokkstengslum, mannvirðingum eða hagsmunum.  Ég fylgi engu og engum að máli nema sannfæringu minni og samvisku. Mér er ljóst að fyrir vikið verð ég kannski sökuð um svik við einhvern málstað og á mig ráðist fyrir að fylgja ekki fjöldanum. Það verður þá að hafa það.  

Ég tek mér það frelsi sem mér er heitið í stjórnarskrá lýðveldisins að tjá skoðun mína.

Að þessu sögðu vil ég létta fyrsta steininum af brjósti mínu.

1) Eftir að hafa horft á borgarfundurinn sem haldinn var s.l. mánudag átta ég mig á því að það reiðin í samfélaginu er að verða að einhverskonar hópsefjun. Það er komin "við " og "þið" stemning - og sú stemning er við það að ganga of langt. Hún getur auðveldlega breyst í sjálfsréttlætingu þeirra sem telja sig vera knúna áfram af "réttlátri reiði". Hættan er sú að fólk sem er í hjarta sínu reitt og vill ríkisstjórnina burt, telji sig skyldugt til að taka undir með öllum þeim sem tjá reiði sína, án tillits til þess hvernig það er gert: Að fjöldinn fari að sætta sig við fleira en gott þykir í nafni samstöðunnar. Sú tilhneiging var áberandi á borgarafundinum séð frá mínum sjónarhóli.

2) Ég styð ekki þá ríkisstjórn sem nú situr enda kaus ég Samfylkinguna við síðustu kosningar, ekki ríkisstjórnina. Ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin víki, sett verði utanþingsstjórn og síðan boðað til stjórnlagaþings.

Ég held að ríkisstjórnin eigi engan annan kost, ef ekki á að verða upplausn í landinu, en að stíga til hliðar og stuðla að því að hér verði mynduð starfhæf utanþingsstjórn - í skjóli og með hlutleysi Alþingis. Þetta gæti verið einhverskonar þjóðstjórn. En ráðamenn verða að átta sig á því trúnaðarrofi sem orðið er milli þeirra og almennings í landinu. Það rof verður ekki bætt með því að þumbast áfram og streitast við að sitja.

 

----------

Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson. Hún er ef Kubbanum í SKutulsfirði, tekin yfir Pollinn á Ísafirði.


Framsókn gamla hressist aðeins

Ég sé ekki betur en Framsóknarflokkurinn sé bærilega staddur með mannval ef marka má þetta formannskjör. Sigmundur og Höskuldur eru báðir afar frambærilegir menn og hin nýja forysta flokksins hefur yfir sér ferskt og trúverðugt yfirbragð. Þó byrjunin hafi verið svolítið brösuleg vil ég óska Sigmundi Davíð til hamingju með kosninguna. Það er ánægjulegt að sjá nýtt fólk með heilbrigðar áherslur kveða sér hljóðs á stjórnmálasviðinu núna.

En ég stenst ekki mátið að skella hér inn tveimur góðum ferskeytlum sem urðu til á Leirvefnum í kvöld. Þessi er eftir Pétur Stefánsson:

Í Framsókn er bæði fjör og drama,
-fremstur var Höski í sigurliði
og stóð í ljósi frægðar og frama
í fimm mínútur uppi á sviði.

Og hér er önnur eftir Davíð Hjámar Haraldsson:

Lokatölur beint úr flokksins bók
baksar við að lesa þegar húmar;
Haukur gaf og Haukur síðan tók
af Höska eftir fimm mínútur rúmar.

Já -  það á ekki af þeim að ganga framsóknarmönnum.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonartýran kviknar

bardastrond Efnahagshrun þjóðarinnar er ekki eini vandinn sem við er að eiga í dag. Það sem ég óttast mest um þessar mundir er hið andlega hrun sem fylgt gæti kjölfarið. Og meðan reiðialdan rís sem hæst er hætta á því að lýðskrumarar og eiginhagsmunaseggir sveifli sér upp á ölduna til að láta hana bera sig að ströndum nýrra áhrifa, athygli og valda ... án þess þó að neitt annað breytist.

Sú umræða sem hér hefur orðið á síðunni minni síðustu daga um boðun stjórnlagaþings og stofnun nýs lýðveldis sýnir glöggt að almenningur á Íslandi þráir að sjá vonarljós í þokunni.  Hugmyndin um nýtt lýðveldi felur í sér ákveðna lausn - við getum kallað það geðlausn. En fólk þráir að geta horft fram á nýtt upphaf. 

Vitanlega felst nýtt upphaf í uppgjöri og endurreisn sem tekur sinn tíma. Fjármálakerfið er jú hrunið og það mun taka langan tíma að koma því á lappirnar aftur. Skúrkarnir í sögunni þurfa sín málagjöld. Tíminn sem þetta tekur er sársaukafullur.

En það er fleiri verk að vinna. Og þau verk þurfa ekki að vera svo tímafrek. Það þarf ekki að taka svo langan tíma að smíða nýja stjórnarskrá og semja samfélaginu nýjar leikreglur. Lögspekingar, siðfræðingar, hagspekingar og fleira vel hugsandi fólk gæti unnið slíkt verk á fáum mánuðum. Umræða um endurnýjun stjórnarskrárinnar er jú ekki ný af nálinni, og það er vel vinnandi vegur að koma saman góðum hópi fólks til þess að smíða það helgiskrín sem stjórnarskráin á að vera. 

Hér á síðunni minni hefur verið rætt um þá grunnhugmynd að kjósa til stjórnlagaþings sem sæti í 6-12 mánuði og hefði það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá sem leggði grunn að nýju lýðveldi. Um hana yrði almenn þjóðaratkvæðagreiðsla, síðan alþingiskosningar eftir nýju stjórnarskránni.  Þetta gæti átt sér stað eftir tveimur leiðum.

A) með þáttöku alþingis og núsitjandi ríkisstjórnar sem héldi áfram að stjórna landinu óháð stjórnlagaþingi

B) með myndun þjóðstjórnar eða utanþingsstjórnar (eða einhverskonar útfærslu af hvoru tveggja)

Til að þrýsta á stjórnvöld að hleypa þessu umbótaferli af stað mætti kalla saman hóp málsmetandi Íslendinga. Það fólk gæti lagt málið upp, þ.e. samið góða ályktun eða áskorun á stjórnvöld þar sem sett yrði fram skýr og einföld krafa um nýja stjórnarskrá og stofnun nýs lýðveldis. Efnt yrði til undirskriftarsöfnunar við þá ályktun á netinu og síðan - þegar komnar væru 20-50 þús undirskriftir - yrði gengið á fund forseta og forsætisráðherra.

Nú eru nokkrir "málsmetandi" aðilar farnir að tala saman. Wink Ekki get ég fullyrt um hvað út úr því kemur, en vonandi verður það eitthvað gott. Hér er ekki verið að tala um stofnun nýs stjórnmálafllokks heldur einfaldlega að mynda þrýsting með undirskriftarsöfnun.

Ég mun halda lesendum upplýstum eftir því sem tilefni gefst til á næstunn.

Íslandi allt!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband