Færsluflokkur: Dægurmál
Flokkunarkerfið á mbl mætti bæta
13.1.2009 | 16:39
Á meðan allt logar hér á bloggsíðunni minni í umræðum um stofnun nýs lýðveldis - já, á meðan verið er að kanna hvað raunhæft sé að gera til að koma af stað fjöldahreyfingu um málið - þá ætla ég að nota tímann til að gera athugasemd við stjórnendur moggabloggsins vegna flokkunarkerfisins. Það mætti nefnilega bæta.
Nú hef ég að undanförnu verið að tjá mig töluvert um ástandið á Gaza. Flokkunarkerfið gerir ekki ráð fyrir því að hér sé bloggað um stríðsátök, utanríkismál, nú eða alþjóðamál almennt, heldur bara Evrópumál eða stjórnmál og samfélag. Margt af því sem ég blogga tengist t.d. heimspeki og hugmyndastefnum (ekki bara trúmálum), fjölmiðlum (ekki bara sjónvarpi), kjarabaráttu, mannréttindum, löggæslu, siðferðismálum o.þ.h. Enginn þessara umræðuefna á sér málaflokk í kerfinu á mbl.is.
Hér vantar víðtækara flokkunarkerfi.
Þetta er nú svona vinsamleg ábending sett fram til umhugsunar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá
12.1.2009 | 14:36
Jón Kristjánsson fv. ráðherra skrifar merka grein í Fréttablaðið í dag (bls. 15) um þann möguleika að þjóðin kjósi sér sjálfstætt stjórnlagaþing sem leysi Alþingi tímabundið af hólmi á meðan samin er ný stjórnarskrá - nýtt upphaf fyrir íslenska þjóð að endurreisa lýðveldi sitt. Hugmyndir þær sem Jón Kristjánsson kynnir eru eiginlega nánari útfærsla á innleggi Njarðar P. Njarðvík um stofnun nýs lýðveldis á Íslandi, þó þær séu til orðnar af öðru tilefni.
Útfærslan felur það í sér að þjóðin sjálf sé "stjórnarskrárgjafinn með raunverulegum hætti" í stað þess að hnýta breytingar á stjórnarskránni við almennar alþingiskosningar og dægurdeilur þeim tengdar eins og venjan hefur verið. Jón bendir réttilega á að hingað til hefur frumkvæði að breytingum á stjórnarskrá aðeins getað komið frá alþingismönnum þó að stjórnvöld fari með vald í umboði þjóðarinnar.
Undirtónninn í allri umræðu þessa dagana er einmitt sá að þessu þurfi að breyta. Sú hugmynd sem þarna er reifuð - að kosið verði sérstakt stjórnlagaþing sem haldið yrði í heyranda hljóði og tillögur þess að nýrri stjórnarskrá síðan lagðar fyrir dóm þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu - virðist geta verið fær leið og þjóðinni þóknanleg.
En ég gríp hér niður í grein Jóns:
,,Með þessari skipan eru stjórnarskrárbreytingar fjarlægðar frá stjórnmálaátökum dagsins sem verka truflandi á þessa vinnu. Hugmyndin er að alþingismenn sitji ekki stjórnlagaþing til þess að þjóðin velkist ekki í vafa um þennan aðskilnað. Með því koma þjóðkjörnir fulltrúar á stjórnlagaþingi einir að málinu og ákveða nýtt upphaf að fenginni reynslu af því stjórnskipulagi sem hefur ríkt hér lítið breytt í rétt 105 ár frá heimastjórn 1904.''
Og hann heldur áfram nokkru síðar:
,,Stjórnlagaþing mundi hafa mikil verkefni og nauðsyn ber til að það spegli sem flest sjónarmið í samfélaginu. Sem dæmi um verkefnin má nefna ákvæði um ríkisstjórn og Alþingi og tengsl þeirra aðila, forseta Íslands, dómstóla, auðlindir og umhverfi . Til viðbótar má svo nefna það ákvæði sem mikið hefur verið til umræðu nú þessa dagana sem er um framsal ríkisvalds eða fullveldis. Ennfremur eru sjónarmið um almenn mannréttindi ætíð breytingum háð. Þá er brýn þörf á að setja ákvæði um aukið valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu."
Þetta eru athyglisverðar hugmyndir og vel þess virði að þær séu skoðaðar vandlega í samhengi umræðunnar.
----------------------------
Fánamyndin hér ofar er fengin hjá Álfheiði Ólafsdóttur myndlistarkonu
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
Viðreisn Alþingis - nýtt lýðveldi!
11.1.2009 | 14:23
Það gladdi mig sannarlega að heyra minn gamla læriföður og meistara Njörð P. Njarðvík orða með svo skýrum hætti hugmynd sem hefur verið að þróast í mínu eigin hugskoti - og trúlega ýmissa annarra undanfarið - um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis Íslendinga. Sjónarmið Njarðar hafa komið fram í blaðaskrifum hans og nú síðast í útvarpinu í gær og svo Silfri Egils í dag.
Eins og Njörður bendir réttilega á er Alþingi Íslendinga orðin áhrifalítil afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið - ráðherrana - sem sitja í öndvegi þingsalar eins og konungshirð frammi fyrir þingliðinu. Forseti Alþingis er áhrifalaus virðingarstaða þess sem misst hefur af ráðherrastól - nokkurskonar uppbótarsæti.
Á Íslandi er nefnilega ekki virkt lýðræði í reynd - hér ríki þingræði (fulltrúalýðræði) sem í rauninni er ekkert annað en ráðherraræði. Og framkvæmdavaldið - ráðherrarnir - eru á sama tíma starfandi þingmenn. Engin skil eru á milli framkvæmdavalds og löggjafa. Þessu þarf að breyta.
Þingmenn sjálfir eru að vasast í ýmsu meðfram þingstörfum - sitja jafnvel í ráðum og nefndum úti í samfélaginu, stýra stórum hagsmunasamtökum o.s. frv. sem er að sjálfsögðu óeðlilegt.
Nýtt lýðveldi er sennilega lausnarorðið sem við þurfum. Hugmyndin felur í sér að þingið verði leyst upp og mynduð neyðarstjórn. Það gæti verið utanþingsstjórn eða einhverskonar útfærsla á þjóðstjórn eða stjórnlagaþingi í samræmi við núgildandi stjórnarskrá. En þessu mannvali yrði falið að semja nýja stjórnarskrá sem kosið yrði eftir í næstu þingkosningum.
Þessi hugmynd er svo sannarlega þess virði að hún sé tekin til alvarlegrar athugunar - hún er ekki fordæmalaus, eins og Njörður benti á. Frakkar hafa gert þetta fimm sinnum, síðast þegar DeGaulle komst til valda.
Hugmyndin um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis kemur eins og ferskur andblær inn í það daunilla kreppuástand sem nú ríkir í samfélaginu og innra með þjóðinni. Ástand sem svo sannarlega gæti orðið farvegur fyrir lýðskrumara og æsingafólk sem ekki sést fyrir en gæti sem best notfært sér bágindi þjóðarinnar eins og á stendur til að skara eld að köku eigin hagsmuna.
Nei, við þurfum nýjar leikreglur. Nýtt upphaf: Endurreisum Alþingi á nýjum grunni - stofnum nýtt lýðveldi!
-----------------------------
PS: Þessa fallegu fánamynd fékk ég lánaða á síðu Álfheiðar Ólafsdóttur myndlistarkonu.
Dægurmál | Breytt 12.1.2009 kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (77)
Ástþóri bannað að mótmæla á fundi með mótmælendum
9.1.2009 | 23:48
Í fyrsta skipti sem ég skelli upp úr yfir frétt úr kreppunni var þegar ég sá sjónvarpsfréttina um uppákomuna í Iðnó þegar Ástþór Magnússon steðjaði þangað inn í jólasveinabúningi og var umsvifalaust kastað út af fundarmönnum. Þarna voru saman komnir grímuklæddir aktívistar ásamt lögreglu og almennum borgurum að ræða mótmælaaðferðir og virðingu fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi þeirra sem meðal annar aðhyllast "beinar aðgerðir" í mótmælum.
Skyndilega var friðurinn rofinn. Jólasveinninn mættur - hó hó hó! Með fullan poka af kærugjöfum til stjórnvalda.
Fundarmenn litu hver á annan og í sömu andrá sameinuðust hugir viðstaddra í einni ákvörðun: Út með manninn!
Já, hvahh? Hann bað ekki einu sinni um orðið - það eru nú einu sinni fundasköp!!
Þessar "beinu aðgerðir" Ástþórs féllu greinilega ekki í kramið. Ég meina, hver vill miðaldra kall í jólasveinabúningi inn á alvarlegan fund með alvöru aktívistum í svörtum fötum með lambhúshettur og skýlur fyrir andliti? Út með manninn! Hann er ekki einu sinni töff.
Þið verðið bara fyrirgefa - en þetta var óborganleg uppákoma. Og þó að Ástþóri sé ekki skemmt (sjá hér) og öðrum fundarmönnum augljóslega ekki heldur ef marka má bloggskrif ýmissa í dag - þá skellihló ég. Skelli, skellihló.
Kannski var það vegna flensunnar - ég er auðvitað með fullan hausinn af kvefi og gæti þess vegna verið með óráði.
Á þessum síðustu og verstu tímum er auðvitað bannað að brosa.
Dægurmál | Breytt 10.1.2009 kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
Eiga Árni Matthiesen og Björn Bjarnason að sitja?
6.1.2009 | 23:39
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur sagði nánast berum orðum í Kastljósinu í kvöld að Árni Matthiesen ætti að víkja úr ráðherrastóli vegna athugasemda Umboðsmanns Alþingis um embættisfærslu hans þegar Þorsteinn Davíðsson (Oddssonar) var ráðinn héraðsdómari. Árni var þá settur dómsmálaráðherra og hunsaði niðurstöðu sérstakrar dómnefndar um hæfi umsækjenda, eins og mörgum er í fersku minni.
Að mati Umboðsmanns voru ,,annmarkar'' á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð Árna. Sömuleiðis taldi umboðsmaður að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefði átt að víkja sæti í málinu mun fyrr en hann gerði, þar sem fyrrverandi aðstoðarmaður hans hafi verið meðal umsækjenda.
Nú hefur Sigurður Líndal lagaprófessor emeritus fullyrt í sjónvarpsviðtali að bæði Árni og Björn hafi í reynd brotið stjórnsýslulög með málsmeðferð sinni.
Álit umboðsmanns og ummæli lagaprófessorsins eru þungt áfelli fyrir báða ráðherrana. Enn sitja þeir þó sem fastast.
Prestar hafa misst kjól og kall fyrir að falla í freistni holdsins og vera þar með slæmt siðferðisfordæmi fyrir aðra. Sýslumenn hafa misst embætti og lögregluþjónar starf sitt fyrir að verða hált á svelli laganna af svipuðum ástæðum. Það eru meira að setja dæmi um að ráðherrar hafi sagt af sér fyrir viðlíka og jafnvel minni sakir (Guðmundur Árni Stefánsson vegna ásakana um að hygla vinum sínum - pólitískt deilumál en ekki lögrot).
Hvað skal þá með ráðherra tvo sem hafa það sérstaka hlutverk að verja stjórnsýslu landsins - þegar virðist hafið yfir allan vafa að þeir hafa sjálfir brotið stjórnsýslulögin?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Sjúkrahúsgjald - hvar voru stjórnarandstaðan og ASÍ ?
6.1.2009 | 11:50
Um hátíðarnar var tekin ákvörðun á alþingi Íslendinga sem undarlega lítið hefur verið fjallað um. Ég segi undarlega lítið vegna þess að hún varðar grunnafstöðu okkar til samhjálpar og velferðar. Ég er að tala um þá ákvörðun að taka upp 6000 kr. gjald fyrir innlögn á sjúkrahús. Slíkt gjald hefur aldrei verið tekið af sjúklingum áður, þó svo að rukkað hafi verið fyrir komu á heilsugæslustöð, göngudeild og slysavarðstofu, rannsóknir, já og flutning með sjúkrabíl - þá hefur innlögn á sjúkrahús hingað til ekki verið innheimt af sjúklingum. Nú er þetta síðasta vígi fallið - það gerðist þegjandi og hljóðalaust.
Hvar var nú stjórnarandstaðan? Hvar er nú umhyggja hennar fyrir almenningi á Íslandi? Eina bofsið sem þaðan kom var frá Álfheiði Ingadóttur: "Ég vissi ekki að þetta hefði átt að verða svona hátt" umlaði hún vandræðalega í sjónvarpsviðtali rétt eftir nýjárið.
Vissi ekki að þetta ætti að verða svona hátt? Nei, en þingmenn vissu að þetta stóð til, og létu sér fátt um finnast. Hvorki stjórnarandstaðan né verkalýðshreyfingin hafði einu sinni dug í sér til þess að taka málið til umræðu í samfélaginu.
Já, og hvar voru þingmenn Samfylkingarinnar? Eru þeir heillum horfnir í þessu stjórnarsamstarfi?
Fyrir um 15 árum logaði allt þjóðfélagið stafnanna á milli - í tíð Sighvats Björgvinssonar sem þá var heilbrigðisráðherra - vegna hugmynda af þessu tagi. Það var blessunarlega lamið niður þá.
Nú eru augljóslega aðrir tímar.
Eftir síðustu hækkanir heilbrigðisráðherra gæti dæmið litið svona út:
Segjum að ég slasi mig og sé send á bráðamóttöku. Sjúkrabíllinn kostar 4.700 kr og innritun á slysadeildina 4600 kr. Þar er tekin röntgen mynd, blóðprufur o.fl., segjum að það kosti annað eins. Niðurstaðan er sú að ég er með innvortis blæðingar og verð að leggjast á sjúkrahús. Það kostar 6000 kr til viðbótar. Að sjúkrahúsdvöl lokinn þarf ég að koma í endurkomu á göngudeild, 4.600 kr þar. Nú varla er ég lyfjalaus allan þennan tíma - ekki ólíklegt að skrifað hafi verið upp á eitthvað handa mér í apótekinu - 4000 kr. þar. Samtals 28.500.
Þarna á ég að vísu rétt á afsláttarkorti - en það er ekkert sem segir að þessi atburðarás geti ekki endurtekið sig nokkrum sinnum á einu ári.
Já - það sannarlega hægt að mjólka inn tekjurnar í ríkissjóð núna.
Læknisþjónusta hækkar í verði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Búálfarnir stríða mér
20.12.2008 | 14:22
Sagt er að um jól og áramót sé huldufólkið að hafa vistaskipti og því verði þess meira vart í mannheimum á þessum tíma en venjulega. Ég verð að játa að það þessa dagana virðist óvenju mikil huldu-umferð í húsinu hjá mér. Hér hverfur allt sem ég legg frá mér - sérstaklega pappírar.
Fyrir fáum dögum var ég að þýða texta - hann hvarf. Í gær hélt ég á miða með rúgbrauðsuppskrift sem ég setti inn á bloggið. Þegar ég stóð upp frá tölvunni og ætlaði að setja miðann á sinn stað var hann horfinn. Myndir sem ég var að skoða í tölvunni fyrir fáum dögum og ætlaði síðan að prenta út áðan til að setja inn í jólakort til kunningjafólks - þær eru horfnar. DVD mynd sem ég ætlaði að gefa í jólagjöf gufaði einhvernveginn upp. Og nú er örkin með jólafrímerkjunum horfin af eldhúsborðinu.
Þetta mun allt skila sér aftur - það gerir það venjulega. En það sem er óvenjulegt við háttalag búálfanna að þessu sinni er að nú sækja þeir sérstaklega í pappíra og sjónræna hluti, ekki lykla, skæri, eða aðra smáhluti. Ég er vanari því að slíkt sé fengið "að láni" um þetta leyti.
Nei, nei - nú er greinilega verið að lesa og skoða í hulduheimum, því þeir eru óvenju lærdómsfúsir og hnýsnir blessaðir búálfarnir að þessu sinni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hamagangur í öskjunni
18.12.2008 | 11:44
Það hefur verið hamagangur í öskjunni hjá mér síðasta sólarhringinn. Rassinn á mér stóð úr bókahillum og geymslum í allan gærdag þar sem ég var að sortera skjöl, henda og sameina í möppur. Þvílíkt og annað eins.
Ég held ég hafi losað einar tíu möppur og hent samsvarandi magni af gömlum pappírum. Ég er nefnilega að hætta í vinnunni og ganga frá á skrifstofunni. Og af því að starfið hefur verið m.a. kennsla og rannsóknir eru allskyns hlutir sem ég þarf að taka með mér heim - hitt og þetta sem ég hef sankað að mér, bæði skjöl og bækur. Þessu þarf ég öllu að koma fyrir á skrifstofunni heima - þar sem bóndi minn blessaður er nú þegar búinn að fylla hvern krók og kima með sínum skjölum og bókum. Þannig að ... það er margt sem þarf að skipuleggja.
Á meðan seyddust rúgbrauðin í ofninum hjá mér, stillt og rótt, óháð fyrirganginum í húsmóðurinni. Þau rýrnuðu talsvert - og voru ekki tilbúin fyrr en í morgun. En mikið lifandis ósköp eru þau samt bragðgóð. Ooohhhh, ég fékk mér eina volga sneið núna áðan með miklu smjöri.
5 bollar rúgmjöl
3 bollar heilhveiti
5 tsk matarsódi
3 tsk salt
1 1/2 lítri súrmjólk (eða ab-mjólk)
500 gr. sýróp
Öllu hrært vel saman og deiginu hellt til hálfs ofan í fjórar 1-líters mjólkurfernur sem látnar eru standa upp á endann í ofninum á neðstu rim. Sett inn í 150° heitan ofn og lækkað strax í 100°. Bakað í 8-10 klst eða lengur. Verður dökkbrúnt að utan fullbakað.
Sumir geyma brauðin í fernunum, ég tek þau úr þeim hálf volg.
Njótið vel - nú er ég að fara að baka kryddbrauð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Máninn hátt á himni skín
17.12.2008 | 10:53
Fyrir skammri stundu voru litirnir hér í Skutulsfirinum nákvæmlega eins og á myndinni hérna fyrir ofan: Svartalogn og dögun yfir fjöllunum. Nú hefur birt aðeins meira og "máninn hátt á himni skín - hrímfölur og grár" (ekki "blár" eins og Elín Hirst missti út úr sér í kvöldfréttatíma fyrr í vikunni).
Ég er að baka rúgbrauð - er með fjögur stykki í ofninum. Bara góð.
DV birtir gamla frétt sem ,,engu'' bætir við!?
15.12.2008 | 14:22
Á vefritinu NEI lýsir blaðamaðurinn Jón Bjarki Magnússon tildrögum þess að frétt hans um Sigurjón Þ. Árnason fv bankastjóra Landsbankans var tekin út úr blaðinu af ritstjóra DV, Reyni Traustasyni þann 6. nóvember. Mun ritstjórinn hafa sagt að "stórir aðilar" úti í bæ hafi stöðvað birtinguna og um væri að ræða líf eða dauða fyrir DV að birta ekki fréttina.
Reynir hafnar þessu og segir nú að fréttin hafi engu bætt við það sem þegar var komið fram í fjölmiðlum um að Sigurjón Þ. Árnason væri að koma sér fyrir í húsakynnum Landsbankans og hygðist þar stunda ráðgjöf fyrir fjármálastofnanir.
En ... athyglisvert er það, að frétt sem var orðin "of gömul" fyrir mánuði, skuli samt tekin til birtingar núna á vefsíðu DV. Frétt sem auk þess "bætir engu við" það sem þá þegar var komið fram.
Sé það raunverulega "bull" eins og ritstjórinn segir, að óeðlilegar ástæður hafi legið að baki því að ákveðið var að birta ekki grein Jóns Bjarka Magnússonar um Sigurjón Þ. Árnason, af hverju er hann þá að birta þessa frétt löngu síðar?
Þið fyrirgefið, en ég gef lítið fyrir þessar útskýringar ritstjórans. Verð bara að segja það eins og er. Þessi yfirlýsing blaðamanna á DV sannfærir mig ekki heldur. Hún fyllir mig bara óöryggi - já, óljósum kvíða um að blaðamenn landsins séu hreint ekki frjálsir í skrifum sínum þegar allt kemur til alls.
Fjölmiðlavaldið hefur þjappast á fárra manna hendur á undanförnum árum. Nú kemur æ betur í ljós - sem okkur hefur sum hver lengi grunað - hvað sem líður siðareglum blaðamanna og góðum ásetningi þeirra að sinna sínum störfum af kostgæfni - að íslenskir fjölmiðlar eru ekki sá frjálsi upplýsingavettvangur sem æskilegt væri.
DV virðist að minnsta kosti ekki vera það.
Reynir: Fréttin bætti engu við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)