Færsluflokkur: Dægurmál

Kosningaskjálfti í formanni Framsóknar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins heldur því fram í samtali við Fréttablaðið að Samfylkingin hafi lagst í rógsherferð gegn sér. Errm

Samfylkingarmenn líta hver á annan og koma af fjöllum. Hvernig er hægt að halda uppi skipulagðri rógsherferð án þess að nein merki séu um það í tölvupóstum eða öðrum samskiptum milli flokksmanna?

Skráðir félagar í Samfylkingunni fá tölvupósta frá kjördæmisráðum, flokksskrifstofunni og ýmsum málefnahópum innan flokksins - og ég verð bara að segja eins og er, að hvergi í þessum orðsendingum er vikið einu orði að formanni Framsóknarflokksins.

Ummæli formannsins unga eru þess vegna bara paranoja - kosningaskjálfti. Þau eru að mínu mati ekki aðeins óréttmæt heldur líka ósmekkleg. Það litla sem ég hef heyrt rætt um þennan unga mann meðal Samfylkingarfólks er allt á jákvæðum nótum.

Stjórnarflokkarnir hafa  öðrum og mikilvægari hnöppum að hneppa þessa dagana en að elta ólar við persónuhagi Framsóknarmanna - þeir eru nefnilega að sinna endurreisn samfélags. 

Ég efast um almenningur hafi mikinn áhuga eða þolinmæði fyrir umræðu af þessu tagi.


Sláum í klárinn!

skjaldamerki Ýmis teikn eru á lofti þessa dagana um að áform ríkisstjórnarinnar um að koma í gegn lagafrumvarpi  um stjórnlagaþing verði tafið von úr viti. Sjálfstæðismenn virðast ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra þetta.

Fyrirheitið um stjórnlagaþing var eitt af þeim loforðum sem sefuðu reiði almennings á dögum búsáhaldabyltingarinnar góðu. Við sem stöndum að undirskriftarsöfnunin við áskorun um þessar lýðræðisumbætur á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is tókum eftir því að daginn sem hin nýja stjórn tilkynnti áform sín að setja lög um stjórnlagaþing, hægði mjög á undirskriftunum. Þær höfðu hrúgast inn af miklu afli dagana á undan, en svo kyrrðist skyndilega. Nú þegar þessi orð eru skrifuð eru þær orðnar 7.364.

 Það er afar mikilvægt að ríkisstjórnin missi ekki dampinn úr áformum um þær lýðræðisumbætur sem hér um ræðir. 

Það er jafn mikilvægt að almenningur í landinu missi ekki slagkraftinn við að minna á vilja sinn í þessu efni.

Krafan um stjórnlagaþing á sér sterkan hljómgrunn meðal almennings.En betur má ef  duga skal!

Við stefnum að því að afhenda undirskriftirnar 6. eða 7. mars- svo það er best að slá í klárinn!

 


Verður stjórnlagaþing? Hvenær þá?

Eiríkur Tómasson, prófessor í stjórnskipunarrétti, hefur skrifað lærða grein um stjórnlagaþing þar sem fram kemur að vel sé gerlegt að boða til þess samhliða næstu alþingiskosningum. Ég hvet alla til þess að kynna sér þessi skrif Eiríks, sem m.a. eru birt á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is.

Ríkisstjórnin hefur gefið það fyrirheit að lög verði sett um skipan og verkefni stjórnlagaþings. Einnig verði gerðar breytingar á stjórnarskrá sem lúta að auðlindum í þjóðareign; þjóðaratkvæðagreiðslum og  aðferð við breytingar á stjórnarskrá. Í þessu skyni var nýlega skipaður sérstakur ráðgjafahópur undir forystu Bjargar Thorarensen, prófessors og forseta lagadeildar HÍ.

Nú, tæpum tveim vikum síðar, er komið fram frumvarp frá framsóknarflokknum um stjórnlagaþing. Ekki hefur það fyrr litið dagsins ljós en ríkisstjórnin boðar annað frumvarp. Hvað það boðar veit ég ekki  - en grunur vaknar um að málið verði tafið.

Það má ekki gerast.  Ný stjórnarskrá sem setur ný viðmið sem byggja á endurmati og reynslu er forsenda þess að við getum markað okkuð nýtt upphaf. Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur. Við þráum flest öll endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við. Þar er um að ræða gildi á borð við heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ekki síst ábyrgð


Kynjahlutföllin og landsbyggðin

yinogyanÞegar Samfylkingin var stofnuð árið 2000 voru kynjahlutföll jöfn í hópi þingmanna. Ég man ekki betur en að Samfylkingin hafi verið eini flokkurinn sem  þá gat státað af jöfnu kynjahlutfalli í þingliði sínu. Nú, áratug síðar, hefur sigið á verri veg. Einungis þriðjungur þingmanna flokksins nú eru konur - þær eru sex, karlarnir tólf. 

Það er þó ekki bara kynjamunurinn einn og sér sem veldur áhyggjum - heldur hitt hvernig og hvar hann kemur helst niður. Það vill nefnilega þannig til að í landsbyggðakjördæmunum þremur er engin kona í hópi þingmanna  Samfylkingarinnar.

Nú hefur stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar skorað á kjördæmisráð flokksins um land allt að tryggja jafnræði kynja í forystusætum framboðslistanna fyrir þessar alþingiskosningar. Í því sambandi er minnt á jafnréttismarkið sem ítrekað hafa verið sett á landsfundum flokksins.

Hugmyndin um fléttulista þar sem konum og körlum er raðað á víxl, jafnvel þó að atkvæðamagn segi til um annað hefur mætt ákveðinni mótspyrnu hjá þeim sem telja slíkt stríða gegn lýðræðislegu vali. Og vissulega er það skiljanlegt sjónarmið. Þeir sem tala fyrir fléttulistum benda hinsvegar á að enginn framboðslisti geti talist boðlegur nema þar sé að finna bæði karla og konur í jöfnum hlutföllum.

Sjálf hallast ég að því að finna leið sem tekur tillit til beggja sjónarmiða. Þá á ég við fléttulista þar sem sett er atkvæðalágmark. Þannig ætti kona t.d. ekki möguleika á að fara í annað sæti á eftir karlmanni nema hún hafi a.m.k. 2/3 hluta þess atkvæðamagns sem tryggði honum efra sætið. Með því móti væri jafnréttissjónarmiðum fylgt, en þó tekið tillit til atkvæðamagns. Engin(n) sem hlyti þannig sæti á fléttulista þyrfti að sitja undir því að vera þar einungis vegna kynferðis.

Þetta er nú svona til umhugsunar. 

Eitthvað þarf að gera til þess að tryggja jafnari kynjahlutföll á listum flokksins án þess að það komi niður á lýðræðislegu vali.

Gleymum því ekki að baráttan fyrir jafnrétti og kvenfrelsi er órjúfanlegur hluti jafnaðarstefnunnar.

 


Hver rekur þessa leyniþjónustu?

biggi-arm Hvernig vissi Birgir Ármannsson stjórnarandstöðuþingmaður af bréfi  Alþjóða gjaldeyrissjóðsins til forsætisráðherra áður en það hafði komið fyrir augu ráðherrans?

Hann var svo handviss um tilvist bréfsins að hann þaut í ræðustól á Alþingi til þess að heimta upplýsingar um innihald þess. Ég sá ekki betur en Einar K. Guðfinnsson væri þarna líka - jafn viss og félagi hans Birgir - báðir fimbulfambandi um leynimakk og pukur.

Forsætisráðherra kom af fjöllum og hafði ekki séð neitt bréf og ég efast ekki eitt augnablik um að ráðherrann sagði það satt.

Hver rekur þessa leyniþjónustu sem nær svo djúpt inn í stjórnsýsluna, að handbendin vita meira en ráðamenn sjálfir?

Hvað er að gerast í íslenska stjórnkerfinu? Ég fæ hroll.

 


mbl.is Birgir aflétti leynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einsdæmið með Davíð - eftirlaun hans og bréfaskriftir

bankastjornSB Ef einhver stendur fjárhagslega vel að vígi að yfirgefa starfsvettvang sinn nú á þessum krepputímum þá ætti það að vera Davíð Oddsson. 

Skjátlist mér ekki mun hann njóta a.m.k. fjórfaldra eftirlauna þegar starfstíma hans lýkur.  Þið leiðréttið mig endilega ef þetta er rangt - en svo virðist sem Davíð eigi rétt á óskertum eftirlaunum sem 1)Seðlabankastjóri, 2) forsætisráðherra, 3) alþingismaður, og 4)borgarstjóri í Reykjavík. Það held ég hljóti að vera einsdæmi að einn maður eigi svo ríkan eftirlaunarétt - að minnsta kosti hlýtur það að vera fádæmi.

Það er raunalegt að sjá Seðlabankastjórana Davíð Oddsson og Eirík Guðnason streitast við að sitja sem fastast þrátt fyrir beiðni forsætisráðherra um að þeir víki úr stóli Seðlabankastjóra og semji um starfslok. Fleiri eru augljóslega sömu skoðunar, því Lars Christensen, yfirmaður greiningardeildar Danske Bank, segir þvermóðsku Davíðs Oddssonar vera beinlínis "neyðarlega" (sjá hér).

Bréf Davíðs til Jóhönnu Sigurðardóttur er sömuleiðis sérkennileg smíði. Þar sakar hann forsætisráðherra um pólitíska valdníðslu sem eigi sér engin fordæmi um gjörvallan hinn "vestræna heim" ef ég man orðalagið rétt. Hefur Jóhanna þó ekki annað af sér brotið en að gera Seðlabankastjórunum heiðarlega grein fyrir vilja ríkisstjórnarinnar.

Og gleyminn er Davíð.

Sjálfur hefur hann áður skrifað bréf sem forsætisráðherra, eins og fram kemur í greinargóðri samantekt á bloggi Friðriks Þórs Guðmundssonar þar sem rifjuð eru upp bréfaskrif Davíðs frá fyrri tíð, þ.e.: 

  • Bréf til Sverris Hermannssonar fv. Landsbankastjóra vegna  vaxtaákvörðunar ... og ...
  • Bréf til biskups Íslands vegna smásöguskrifa sr. Arnar Bárðar Jónssonar þáverandi fræðslufulltrúa Þjóðkirkjunnar.

Í bréfinu til Sverris sem m.a. er rifjað upp í Fréttablaðinu í dag, sagði Davíð m.a. ...

... ef þið lagið ekki þvæluna, sem þið gerðuð í síðasta vaxtaóðagoti, er það endanlegt dæmi þess að þið vitið ekki hvað þið eruð að gera og þá mun ég sjá til þess fyrr en nokkurn grunar að menn komi að bankanum sem viti hvað þeir eru að gera. Ég vil fá svar frá þér ­ annað en skæting í fjölmiðlum ­ strax ­ því ég mun ekki sitja lengur kyrr ...

Einsdæmi?? 

 


mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkin sem vinna þarf

Það var líf og fjör í umræðunum á Sprengisandinum hjá Sigurjóni M. Egilssyni í morgun. Þar sátum við á rökstólum, ég, Helga Sigrún Harðardóttir alþingismaður og Þórlindur Kjartansson formaður SUS og ræddum landsins gagn og nauðsynjar - nánar til tekið: Stjórnmálaástandið og horfurnar sem eru mál málanna þessa dagana (hlusta hér).

Annars var ég að kynna mér verkefnaskrá nýju ríkisstjórnarinnar. Þar er margt sem vekur von um góðan ásetning um brýnar aðgerðir í þágu heimila og atvinnulífs, til endurreisnar bankakerfisins, á sviði endurbóta í stjórnsýslu og aðgerðum í þágu aukins lýðræðis og opins og heiðarlegs samfélags, eins og þar stendur.

Athygli mína vakti fyrirheit um nýjar siðareglur í stjórnarráðinu, afnám eftirlaunalaganna um alþingis og ráðherra, endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og ekki síst breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og stjórnlagaþing.  

Fyrirheitið um endurreisn efnahagslífsins og endurskipulagningu stjórnsýslunnar veltur vitanlega á fleiri aðilum en ríkisstjórninni. Það veltur á þingheimi í heild sinni - og þjóðinni sjálfri.

Nú ríður á að sátt náist um að vinna hratt og vel að björgun þjóðarbúsins með þáttöku þjóðarinnar sjálfrar.

 

PS: Sjá líka viðtal mitt við Gísla Tryggvason á ÍNN


Á leið í framboð?

hissa Ég hef lesið það á netinu - haft eftir DV - að ég sé á leið í framboð fyrir nýtt stjórnmálaafl. Þegar nánar er rýnt í þessar fréttir sem m.a. hafa birst á bb.is og visir.is má sjá að þetta eru getgátur sem hver hefur eftir öðrum. Ég sé ekki betur en fréttin sé sú  mest lesna á bb.is þennan sólarhringinn.

Það er einmitt.

Enginn þessara ágætu fjölmiðla hafa séð ástæðu til að spyrja mig sjálfa um þetta mál. Er ég þó skilmerkilega skráð í símaskrá með bæði heimsíma og gsm númer.

Því er til að svara að ég stend ásamt fleirum að þverpólitískri undirskriftarsöfnun og áskorun á stjórnvöld á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is ásamt fleiri góðum Íslendingum. Sá hópur er ekki stjórnmálaafl og er ótengdur öllum hagsmunaöflum og stjórnmálaframboðum.

Ég er því ekki á leið í þingframboð fyrir nýtt stjórnmálaafl sem stofnað kann að verða um þessa einu kröfu: Nýtt lýðveldi.

Ég sé heldur enga þörf á slíku stjórnmálaafli um þessar mundir þar sem svo virðist sem sú ríkisstjórn sem er í burðarliðnum hafi tekið þetta mál upp á sína arma.


Stjórnmálaástandið og horfurnar við stjórnarmyndun

Stjórnmálaástandið, stjórnarmyndunarviðræðurnar og horfurnar framundan voru til umræðu á Morgunvaktinni í morgun þar sem við Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur sátum á rökstólum. Þið sem áhuga hafið getið hlustað hér.

Þó svo að útlit sé fyrir að Samfylking og VG hafi nú þegar komið sér saman um myndun minnihlutastjórnar með hlutleysi Framsóknarflokks - og það séu því umtalsverðar líkur á slíkri ríkisstjórn - er margt sem mælir frekar með þjóðstjórn eða utanþingsstjórn eins og sakir standa. Það eitt að kosningar eru framundan eykur flækjustigið sem við þurfum síst á að halda. Þegar ráðherrar standa annarsvegar í kosningabaráttu, hinsvegar frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, þá er hætta á að ákvarðanirnar líði fyrir annarskonar hagsmuni.

Þjóðstjórn neyðir hinsvegar alla að stjórnarborðinu og þar með til samábyrgðar á þeim ákvörðunum sem teknar verða. Það gæti verið kostur í stöðunni.

Helst er ég þó á því að  það eigi að mynda stjórn með fólki utan alþingis sem er ekki sjálft á kafi í kosningabaráttu um leið og það er að stjórna landinu.

Það er mín skoðun - við sjáum hvað setur.

En það eru komnar 6007 undirskriftir við kröfuna um nýtt lýðveldi Smile

logo


Forseti útilokar ekki utanþingsstjórn

Forseti Íslands útilokar ekki utanþingsstjórn - það fannst mér vera það athyglisverðasta sem kom fram í hans máli í dag. Sömuleiðis sú áhersla sem hann kveðst leggja á að sátt ríki í samfélaginu um stjórnarformið. Sú yfirlýsing finnst mér frekar ýta undir þennan skilning minn.

Þá gat ég ekki betur heyrt en að krafan um stjórnlagaþing eigi sér samhljóm í hugmyndum forseta sem hann færði m.a. í tal í sínu áramótaávarpi  og áréttaði á blaðamannafundinum í dag.

En hvað segið þið lesendur góðir. Væri það ekki bara kærkomið fyrir þjóðina að fá einhverja við stjórnvölinn sem ekki eru á sama tíma að vasast í kosningabaráttunni.

Væri það ekki bara góð hvíld fyrir langhrjáða þjóð og langþreytta stjórnmálamenn að skilja nú landsstjórnina frá kosningabaráttunni ?

Eða svo ég orði þetta nú enn skýrar: Er óhætt að setja við þessa aðstæður menn í landstjórnina sem á sama tíma eru að kljást í  kosningabaráttu? Er ekki nóg komið? 

En við spyrjum að leikslokum - það verður spennandi að fylgjast með þessu.

 logo  Nýtt lýðveldi  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband