Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Góð viðskipti
16.10.2008 | 15:38
Hann var glaður í bragði bóndinn þegar hann kom heim einn daginn og tilkynnti frúnni að nú hefði hann gert góð viðskipti. "Ég seldi tíkina og fékk milljón fyrir hana!"
Konan, hálf hvumsa: "Seldirðu tíkina?"
Hann: "Jebb"
Hún: "Og hvar er milljónin?"
Hann, hróðugur á svip, dregur fram tvo litla kettlinga: "Hérna sjáðu. Tveir kettir - fimmhundruð þúsund hvor!"
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Greiðslur týnast í kerfinu
15.10.2008 | 12:22
Svo virðist sem gjaldeyrisviðskiptin gangi á hvorugan veginn milli landa, þessa dagana. Norsk stúlka sem leigir hjá mér herbergi ætlaði að greiða húsaleiguna sína með því að millifæra hana í evrum frá norskum banka inn á gjaldeyrisreikning sem ég á í Kaupþingi. Þetta gerði hún s.l. föstudag. Greiðslan er ekki enn komin fram - og engar haldbærar skýringar gefnar. Greiðslan er bara "týnd" einhversstaðar í kerfinu.
Svipaðar sögur berast af viðskiptum fyrirtækja milli landa - og þar eru nú töluvert hærri upphæðir í húfi.
Námsmenn í Danmörku eru margir hverjir í stökustu vandræðum - þeir geta ekki tekið út peninga fyrir nauðþurftum.
Í fjölmiðlum er sagt að þetta muni lagast - viðskiptaráðherra sagði í síðustu viku að gjaldeyrisviðskipti yrðu komin í lag s.l. mánudag. Þau eru ekki komin í lag. Í bankaútibúum á landsbyggðinni hefur víða verið algjör gjaldeyrisþurrð - til dæmis hér á Ísafirði.
Hvað skyldi þetta geta gengið svona lengi?
Og skyldu nást fram leiðréttingar vegna peninga sem hafa "týnst" í kerfinu undanfarna daga?
![]() |
Námsmenn enn í erfiðleikum með millifærslur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stóð Egill sig vel?
14.10.2008 | 11:12
"Ég reiddist bara fyrir hönd þjóðarinnar" segir Egill Helgason aðspurður um reiðikastið sem hann tók gegn Jóni Ásgeiri í Silfrinu á sunnudag. "Þetta var flottur þáttur" bætir hann svo við.
Þarna finnst mér Egill mætti lækka seglin aðeins. Í fyrsta lagi var þessi hluti þáttarins fjarri því að vera "flottur". Egill virtist ekkert sérlega vel að sér í umræðu efninu - hann var hinsvegar fullur heiftar í garð viðmælanda síns. Hann fór með dylgjur og skæting, sem er ekki rismikil framkoma þáttarstjórnanda í ríkissjónvarpi.
Í öðru lagi má draga í efa að ríkissjónvarpið eigi að vera aftökutorg til að skemmta lýðnum þegar höggnir eru "skúrkar".
Í þriðja lagi er umræðuþáttur um þjóðfélagsmál ekki réttur vettvangur fyrir umsjónarmann að sleppa tilfinningum sínum lausum og svala þeim á viðmælendum sínum. Af ummælum Egils hér ofar má ráða að hann hafi talið sér þetta óhætt í ljósi þess að hann deildi tilfinningum með meginþorra þjóðarinnar. En það réttlætir ekki þessa framkomu - þetta veiklyndi liggur mér við að segja. Þjóðin er fullfær um að finna sínar eigin tilfinningar - hún þarf enga sýnikennslu í því. Það sem þjóðin þarf núna eru upplýsingar og svör. Ekki tilfinnignaútrás sjónvarpsmanna í beinni útsendingu.
Hlutverk þáttastjórnanda er að greina samfélag sitt, taka á þeim málum sem hæst ber hverju sinni, kalla eftir sjónarmiðum, skoða mál í nýju samhengi og varpa ljósi á þróun viðburða.
Enginn er ég málsvari útrásarliðsins um þessar mundir - eins og lesendur þessarar síðu vita vel. En Jón Ásgeir sýndi þó þann manndóm að mæta í viðtalið og standa þar fyrir máli sínu. Hann var miður sín af bræði, en stillti sig vel. Betur en Egill. Þegar upp var staðið var Jón Ásgeir sterkari aðilinn í viðtalinu.
Hafi Egill talið málstað Jóns Ásgeirs svo slæman að það gæfi honum sjálfum þetta skotleyfi sem hann tók sér - þá má draga í efa að rétt hafi verið af honum að fá hann til viðtals. Sé það fyrirfram gefin ákvörðun þáttarstjórnanda að hlusta ekki á rök viðmælanda síns, og gefa sér fyrirfram að hann fari með ósannindi og fleipur - þá má spyrja um tilganginn með viðtali sem þessu.
Hingað til hefur það verið óskráð siðaregla upplýstrar umræðu að gefa andstæðingnum kost á að tala sínu máli með eigin orðum - og svara því svo með rökum. Agli varð hált á röksemdasvellinu - hann lét offorsið bera sig ofurliði. Það var ekki "flott".
Meinið burt
13.10.2008 | 10:51
Undanfarna daga hafa stjórnmálamenn í áfalli endurtekið hver eftir öðrum að nú sé ekki tími til að leita sökudólga heldur lausna. Ég óttast að þetta sé orðin einhverskonar sefjun eða mantra sem menn þylja til þess að róa sálartetur sitt og annarra. En sannleikurinn er sá, að uppgjörið er oft liður í lausninni - eða svo gripið sé til sjúkdómslíkingar utanríkisráðherra í merkri grein sem birt er á mbl.is í dag: Stundum þarf að skera meinið burtu.
"Það getur leitt af sér tímabundna vanlíðan, dregið úr virkni hins daglega lífs og sett okkur ýmsar erfiðar skorður en þegar allt er um garð gengið erum við betur sett eftir en áður en meinið var skorið" segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í grein sinni þar sem hún ræðir efnagaskreppuna sem við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir.
"Það má ... líta á þessa atburði alla sem sársaukafullt en um leið kærkomið tækifæri til að staldra við og endurmeta það sem máli skiptir í lífinu. Forsenda þess er að maður sætti sig við þá staðreynd að það er ekki hægt að komast á réttan kjöl aftur án umtalsverðra inngripa þar sem mein eru skorin burt" segir Ingibjörg Sólrún ennfremur.
En hvert er meinið sem skera þarf burtu úr íslenskum þjóðarlíkama svo hann nái bata? Mér sýnist það vera samsett af ýmsum sökudólgum:
Í fyrsta lagi er það hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem læddi þeirri hugvillu inn hjá ráðandi öflum að leikreglur og siðferði væru heftandi fyrir vaxtarmöguleika hagskerfisins. Íhlutanir, eftirlit og inngrip, að ég tali nú ekki um aðild hins opinbera, væru gamaldags og þunglamaleg, beinlínis skaðleg fyrir efnahagslífið sem þyrfti að fá að blómgast í friði, laust við "forræðishyggju" og "ríkisafskipti".
Í öðru lagi eru það boðendur hugmyndafræðinnar - stjórnmálamenn og valdhafar - sem skeyttu ekki um að setja leikreglur og skorður, heldur hönnuðu leikvang hins "fullkomna frelsis" þar sem allt var leyfilegt og engin bar ábyrgð. Þeir lögðu gatnakerfið, en umferðarskilti, ljós og gatnamerkingarnar voru víðsfjarri.
Í þriðja lagi eru það iðkendur hugmyndafræðinnar - útrásarvíkingarnir - sem nýttu sér aðhaldsleysið og fóru eins og byssubrandur í útrásinni. Ragnar Önundarson bankamaður orðaði það ágætlega í Silfri Egils í gær þegar hann líkti þessum mönnum við ökuþrjóta sem gerst hafa sekir um ofsaakstur fjármálakerfisins sem leitt hefur til stórslyss í hagkerfinu.
Í fjórða lagi er það eftirlitsaðilinn - Seðlabankinn - sem með rangri peningastefnu, skorti á eftirliti og röngum viðbrögðum við ástandinu, gerði vont verra.
Nú þarf að gera þrennt:
- Hverfa frá hinni skaðlegu hugmyndafræði og gera rækilega upp við hana.
- Kalla þá menn til ábyrgðar sem báru ábyrgð á atburðarásinni meðan þessi ósköp voru að gerjast og svipta þá umboði til þess að fara með efnahagsmál. Liður í því er að skipta um stjórn í Seðlabankanum.
- Leiða fyrir dómstóla þá fjármálajöfra sem með pappírssölum fyrirtækja og geigvænlegri lánasetningu bankakerfisins komu hér öllu í kaldakol.
Þetta er forsenda þess að að hægt verði að leggja grunn að bata í íslensku efnahagslífi - að íslenska þjóðarsálin finni þrótt til þess að takast á við vandann. Enginn sjúklingur nær bata nema hann sjái eitthvað framundan. Fyrsta skrefið núna er einmitt að fjarlægja meinið svo batinn geti hafist.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Hin nýja hagspeki
10.10.2008 | 21:10
Ef þið hefðuð lagt 100.000 krónur í að kaupa hlutabréf Nortel fyrir einu ári síðan væri verðmæti bréfanna í dag um 4.900 krónur.
Hefði sama fjárfesting verið lögð í Enron væri sú eign í dag um 1.650 krónur.
Hefðuð þið keypt bréf í World Com fyrir 100.000 krónur væri minna en 500 kall eftir.
Hefði peningurinn hins vegar verið notaður til að kaupa Thule-bjór fyrir einu ári síðan þá hefði verið hægt að drekka hann allan og fara síðan með dósirnar í endurvinnslu og hafa um 21.400 krónur upp úr því.
Þegar ofangreint er athugað virðist vera vænlegur kostur fyrir fjárfesta að drekka stíft og endurvinna!

Þennan fékk ég frá vinkonu minni í dag - það má nú brosa út í annað.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Tekið til eftir strákana
10.10.2008 | 13:43
Það hefur löngum komið í hlut kvenna að sópa upp eftir strákana - taka til eftir partýið. Eiginlega er ekki seinna vænna að fela konum að taka við stjórnun Glitnis og Landsbanka, en samt svolítið kaldhæðnislegt að það skuli fyrst gerast nú þegar allt er komið í kaldakol.
Hvað um það - þetta er kannski bankanna eina von eins og á stendur. Konum hefur í gegnum aldirnar haldist betur á búrlyklum er körlum.
Þeim Elínu og Birnu fylgja að minnsta kosti velfarnaðaróskir héðan úr þessum ranni.
![]() |
Birna verður væntanlega bankastjóri Glitnis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þreytumerki á forsætisráðherra
9.10.2008 | 22:51
Þegar forsætisráðherra missir það út úr sér - þó út um annað munnvikið sé - að fréttamaður sé fífl og dóni ... tja ... þá er hann orðinn þreyttur, svo ekki sé meira sagt.
Ég ætla ekki að afsaka orð forsætisráðherra, en ég þykist sjá að álag undanfarinna daga sé farið að koma fram. Taugakerfið í Geir Haarde er auðvitað ekkert öðruvísi af Guði gert en taugakerfi annarra dauðlegra manna. Álagið sem sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru undir núna er hins vegar ómælanlegt - það á sérstaklega við um forsætisráðherrann.
Ráðamenn okkar hafa ekki heyrt mörg hvatningarorð í yfirstandandi orrahríð. Menn hafa verið fundvísir á mistökin, en minna hefur verið um uppörvun. Það er svosem skiljanlegt líka, við erum öll í áfalli meira eða minna.
En við megum þó ekki gleyma því ráðherrarnir eru framvarðasveitin sem á að bjarga því sem bjargað verður. Þeir þurfa að halda hretið út. Kallinn í brúnni má ekki bila. Áhöfnin má ekki tapa áttum.
Reiði er eðlilegt viðbragð við áföllum - og hún leitar alltaf útrásar. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þessa dagana beinist reiði margra að nafngreindum mönnum, að útrásarliðinu, ríkisstjórninni, Seðlabankastjóra, Bretum, fjármálaráðherra ...
Ráðamenn eru auðvitað líka reiðir, og eitthvert hlýtur þeirra reiði að beinast. Meðal annars að fjölmiðlafólki sem spyr óþægilegra spurninga og er kannski dónalegt í þokkabót.
Reynum að hemja bræðina - reynum a.m.k. að beina henni í einhvern farsælan farveg. Hvetjum okkar framvarðasveit til dáða í erfiðum aðstæðum. Við höfum ekki öðru liði á að skipa - stöndum með okkar liði núna.
Að þessu sögðu vil ég þakka Geir Haarde og Björgvin G. Sigurðssyni fyrir þá yfirvegun og umhyggju sem þeir hafa sýnt þjóðinni síðustu daga.
Áfram svo - þetta kemur!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Hvað ef heimsfriður væri í húfi?
9.10.2008 | 13:58
Þvílík hneisa - fyrir alla hlutaðeigandi.
Árni Matthiesen er auðvitað með allt niðrum sig. En það eru þeir Alistair Darling og Gordon Brown líka.
Hafi Árni Matthiesen gefið Darling raunverulegt tilefni til að skiljast það að Íslendingar myndu ekki standa við lögbundnar skyldur sínar gagnvart viðskiptamönnum Ice-Saving netbankans í Bretlandi - þá er óþægilegt til þess að hugsa að eitt símtal skuli geta orsakað milliríkjadeilu af þessu tagi. Það liggur ekki fyrir nein formleg yfirlýsing af hálfu Íslenskra stjórnvalda um þetta mál - og það er ekki til mikils ætlast að forsætisráðherra Breta taki upp símtólið og kanni stöðu málsins aðeins betur áður en hann rýkur til og stefnir Íslendingum fyrir dómstóla frammi fyrir heimspressunni.
"Belive it or not - they're not going to pay" sögðu þeir félagar, Brown og Darling, á blaðamannafundi yggldir á brún báðir. Svo var gripið til ákvæða hryðjuverkalöggjafar til þess að gera Íslendingum ljóst að nú væri Bretum sko alvara.
Þessi harkalegu viðbrögð breskra ráðamanna á opinberum vettvangi hafa nú haft örlagaríkar afleiðingar fyrir okkur Íslendinga. Dvergþjóðina við nyrsta haf, sem nú berst um í ölduróti alþjóðlegrar fjármálakreppu, og liggur við drukknun.
Bretland er málsmetandi ríki í samfélagi þjóðanna. Þetta er herveldi. Orð og gjörðir ráðamanna þar eru afdrifarík alla jafna. Það er þess vegna óþægilegt til þess að hugsa ef ekki þarf meira til þess að breskir ráðherrar bregðist við í fljótfærni. Hvað ef heimsfriður væri í húfi - en ekki "bara" afdrif smáþjóðar?
Svo mikið er víst að Bretar eru ekki vinir okkar. Það vitum við nú.
Og Árni Matthiesen verður að segja af sér sem ráðherra. Það er deginum ljósara.
![]() |
Samtal við Árna réð úrslitum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Ávarp forsætisráðherra - álagsprófið
6.10.2008 | 18:02
Það er ekki fyrr en gefur á bátinn sem í ljós kemur úr hverju skipstjórinn er gerður - hvort hann hefur styrk og æðruleysi til þess að hvetja áhöfnina til dáða, halda henni að verki og stýra þar með fleyinu heilu í gegnum brimgarðinn.
Undanfarna daga höfum við mátt sjá forsætisráðherrann á hrakningum undan fréttamönnum, við erfiðar aðstæður - vafalítið vansvefta og kúguppgefinn, þótt ekki hafi hann látið á því bera. Enda fara erfiðir tímar í hönd - og í mörg horn að líta hjá ráðamönnum.
Á slíkum tímum skiptir máli hvernig talað er til þjóðarinnar. Þá ríður á að skipstjórinn í brúnni haldi ró og yfirvegun - að áhöfnin treysti því að hún sé í öruggum höndum, hvernig svo sem sjólagið muni leika bátinn.
Í dag talaði Geir Haarde til þjóðar sinnar. Þetta var álagsprófið. Augnablikið sem öllu skipti. Þetta var mikilvægasta augnablikið á stjórnmálaferli Geirs H. Haarde.
Um leið var þetta þýðingarmikið augnablik í samtímastjórnmálasögu okkar Íslendinga. Á þessum andartökum réðist það hvort landinu yrði stjórnað við núverandi aðstæður. Hvort íslenskur almenningur myndi finna það traust í fasi forsætisráðherrans að fela honum með þegjandi samþykki að leiða sig í gegnum boðaföllin.
Þetta var trúnaðaraugnablikið.
Geir Haarde stóðst prófið - með láði.
![]() |
Forsætisráðherra flytur ávarp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Geir. Þú þarft blaðafulltrúa, þó seint sé.
6.10.2008 | 13:55
Ég ætla að taka mér það bessaleyfi að gerast PR-ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í fjarska og beina til forsætisráðherra eindregnum tilmælum: Fáið ykkur upplýsingafulltrúa. Strax.
Þjóðin á ekki að horfa upp á ráðamenn landsins misvel til hafða og þreytulega þar sem þeir ganga inn og út af fundum - eða standa útundir húsveggjum í ýmsum veðrum að verjast frétta og tjá sig í sem óræðustum orðum um stöðu mála. Það er ekki sérlega traustvekjandi þegar forsætisráðherra hrekst hálfpartinn upp að vegg undan hljóðnemaskóginum sem otað er að honum - og á ekki einu sinni fyrsta orðið, loks þegar hann kemur út af fundi til að tala við fréttamenn, eins og í gærkvöldi.
Því meira sem vinnuálagið er og þreytan, því ríkari áhersla er til að skapa vinnufrið og skipulag á upplýsingagjöf.
Upplýsingafulltrúi myndi koma fram til fréttamanna á tveggja tíma fresti - við aðstæður sem þessar - og gefa upplýsingar. Létta á spennunni með því að tala við fréttamenn. Segja frá því við hverja sé verið að ræða, hverjir séu væntanlegir til fundar næst, hvenær búast megi við yfirlýsingu frá ráðamönnum og hvar sá blaðamannafundur verði haldinn. Forsætisráðherra á síðan að koma með yfirlýsingu þegar hann er tilbúinn - vera öruggur í fasi, skýr í máli OG eiga fyrsta og síðasta orðið. Þess á milli þarf hann að hafa vinnufrið.
Þetta gera menn á betri bæjum erlendis, til dæmis í Hvíta húsinu þangað sem ég hef verið svo fræg að koma og sitja fréttamannafundi um nokkurra daga skeið fyrir margt löngu. Þar eru haldnir reglulegir upplýsingafundir til fréttamanna - síðan koma kanónurnar sjálfar þegar mál liggja ljós fyrir.
Ágæta ríkisstjórn: Fáið einhvern til liðs við ykkur í þetta verkefni. Strax.
![]() |
Alvarlegri en talið var |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |