Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Leysingar um páska
22.3.2008 | 12:18
Skíðaland Ísfirðinga er uppljómað af sól þessa dagana. Við skelltum okkur á skíði í gær, það var dásamlegt veður. Ég hef ekkert farið á skíði í vetur, þó skömm sé frá að segja, og er því ekki alveg laus við harðsperrur.
Bærinn iðar af menningu og mannlífi þessa dagana.
Í dag kl. 17:00 ætla Saga dóttir mín og tveir dansarar með henni, Eva Maria Kupfer og Tanja Friðjónsdóttir, að sýna tvö frumsamin nútímadansverk í Edinborgarhúsinu. Verkin heita Leysingar og Sabotage#1eru samin af þeim stöllum ásamt hljómsveitinni Malneirophreinia. Þetta verður MJÖG spennandi.
Stelpurnar útskrifuðust allar saman frá danshöfundadeild Listaháskólans í Arnhem í Hollandi fyrir tveimur árum og hafa getið sér gott orð sem dansarar og danshöfundar síðan. Saga til dæmis vann til 1. verðlauna sem danshöfundur í alþjóðlegri danshöfundakeppni í Búdapest í janúar í fyrra og hefur hlotið mjög lofsamlega dóma fyrir verk sín, m.a. í þýska danstímaritinu Tanz. Meðan hún var í dansnámi fékk hún fjárstyrk úr Minningarsjóði Gyðu Maríasdóttur - fyrrverandi skólastjóra Húsmæðraskólans Óskar á Ísafirði. Nú langar hana að þakka fyrir sig með þessum hætti.
Jæja, má ekki vera að þessu - þarf að skella mér á skíði og vera komin á
skiikkanlegum tíma til þess að sjá danssýninguna. Svo er allur hópurinn í mat hjá mér í kvöld.
Gleðilega páska!
Skíðavikan brostin á
20.3.2008 | 11:36
Þá er páskafríið hafið - og börnin mín tínast heim í foreldrahús - þau sem það geta. Það eru þó aðeins tvö (af fjórum brottfluttum) sem koma vestur á Ísafjörð að þessu sinni. Saga og Pétur eru á leiðinni vestur - bæði með vini sína með sér. Svo það verður mannmargt hjá mér þó svo að húsið fyllist ekki af mínum eigin afkomendum.
Hjörvar sonur minn (14 ára) er alsæll yfir því að Nonni frændi hans (15 ára) er kominn í heimsókn vestur. Nú fara þeir á hverjum degi beint upp á skíðasvæði - Pétur afi keyrir þá - og eru þar allan daginn. Svo fara þeim saman heim til Hjördísar ömmu og leyfa henni að stjana við sig þegar þeir koma niður úr fjallinu síðdegis. Sældarlíf á þeim frændum.
Það er mikið um að vera á Ísafirði um þessa páska eins og oftast. Skíðavika Ísfirðinga var sett í miðbæ Ísafjarðar í gær. Þrátt fyrir mikið fannfergi að undanförnu þurfti að bera snjó í aðalgötu bæjarins til þess að hin árlega sprettganga, sem markar upphaf skíðavikunnar, gæti farið fram.
Skíðavikan er mikill hápunktur í bæjarlífinu hér á Ísafirði. Hún er alltaf haldin í dymbilvikunni, því þá flykkjast ættmenni og vinir hvaðanæva að og mikið er um að vera á skíðasvæðinu og götum bæjarins. Fossvavatnsgangan fræga, garpamótið, Páskaeggjamótið og nammiregná skíðasvæðinu eru fastir liðir. Síðustu ár hefur Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, bæst í hóp fastra viðburða á skíðaviku. Í ár er Skíðamót Íslands einnig haldið hér. Já, það er mikið um að vera.
Jébb - það er allt að gerast á Ísafirði þessa dagana og ég HLAKKA SVO til að knúsa börnin mín - þó þau séu orðin stór.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Kvenréttindi kaffærð í snjó
1.3.2008 | 17:52
Var að koma inn frá því að moka innkeyrsluna - þvílíkur snjór!
Þegar ég leit út í morgun - sást ekki milli húsa fyrir skafrenningi og hríðarbyl. Svo slotaði aðeins milli élja og þá sá ég bílinn minn eins og snjóþúst á kafi í stærðar skafli úti í götu (ég kom honum ekki í innkeyrsluna í gærkvöld, því hún var auðvitað full af snjó).
Jæja, við Hjörvar klofuðum snjóskaflana út að bíl, mokuðum hann upp og komumst klakklaust á Hótel Ísafjörð. Þar fór fram sýning á fermingarvörum, gjafavöru og fatnaði sem hann tók þátt í að sýna ásamt nokkrum jafnöldrum sínum. Þau gerðu þetta með glæsibrag, blessuð börnin. Og mesta furða hversu vel var mætt, í þessu líka ótætis veðri.
Jæja, þegar við komum heim sá ég að við svo búið mátti ekki standa.
Ég gat ekki skilið bílinn eftir úti í götu eina ferðina enn - snjóruðningstækin þurfa auðvitað að komast leiðar sinnar. Svo ég beit á jaxlinn - gallaði mig upp og sótti skófluna. Siggi fyrir sunnan og ekki um það að ræða að bíða lengur með moksturinn. Einhver varð að gera þetta.
Ég verð þó að viðurkenna að þrem korterum síðar var kvenréttindakonan í mér farin að láta undan síga þar sem ég hamaðist á klofháum snjóskaflinum, kófsveitt og bölvaði í hljóði. Þetta er auðvitað ekki kvenmannsverk
En, núna er innkeyrslan auð og fín og bíllinn stendur þar í góðu yfirlæti. Ég er bara ánægð með sjálfa mig ....
... en samt .... alveg tilbúin að þiggja karlmannsaðstoð við þetta næst. Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan þá er nóg verk að vinna framdyramegin .
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Kafaldsbylur hylur hæð og lægð
29.2.2008 | 19:50
Það er hríðarbylur úti, skafrenningur og þæfingsfærð - ekkert ferðaveður. Snjóflóðin farin að falla á Súðavíkurhlíðinni, henni hefur verið lokað. Við Hjörvar minn erum ein í kotinu - Siggi fyrir sunnan að útrétta. Við reynum að láta fara vel um okkur.
Hann var á leið á "rósaball" Grunnskólans. Var búinn að ná sér í "deit", finna jakkaföt, bindi og alles - rósin tilbúin á stofuborðinu. Þá var ballinu frestað vegna veðursins. Enda lítið vit svosem að stefna heilum hópi grunnskólanema á spariskóm og stuttpilsum niður í bæ í svona blindbyl.
Nú er svo sannarlega hret á glugga. Það hefur safnast svo mikill snjór á rúðurnar hjá mér að ég sé ekki út um þær.
Svo við höfum við kveikt á kertum mæðginin. Erum að fara búa til karamellur. Slummms!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Eins árs í dag :-)
23.2.2008 | 16:56
Þá er nú eins árs bloggafmælið runnið upp - fyrir mér. Því ég var eiginlega bara að átta mig á því rétt í þessu að í dag er nákvæmlega eitt ár frá því ég kvaddi mér hljóðs hér í bloggheimum á mbl.is. Síðan er mikið vatn til sjávar runnið, og mikill orðaflaumur á vefinn sömuleiðis.
Kæru bloggvinir og lesendur - takk fyrir samveruna þetta undanfarna ár. Takk fyrir að deila með mér vangaveltum og hugleiðingum. Takk fyrir að taka þátt í mínum hugðarefnum með athugasemdir ykkar og kveðjum.
Fyrsta færslan mín fjallaði um ákvörðun Marels að flytja útstöð sína frá Ísafirði. Þeim voru ekki vandaðar kveðjurnar þann 23. febrúar 2007. Sjö athugasemdir bárust við þá færslu. Daginn eftir taldi ég brýnt að þjóðin fengi Ingibjörgu Sólrúnu sem forsætisráðherra, enda var ég nýkomin af aldeilis hreint skemmtilegum fundi með samfylkingarkonum í borginni þar sem mikill hugur var í okkur öllum. Ég fékk fimmtán athugasemdir við þá færslu. Þá einhenti ég mér í mikla messu sem ég nefndi "Hinar hljóðu hamfarir" og fjallaði um það hvernig sigið hefur á ógæfuhliðina í atvinnumálum Vestfirðinga undanfarin ár. Færri höfðu áhuga á því máli, en þó komu níu athugasemdir.
Ég man enn hvað mér þótti gaman að fá fyrstu athugasemdina - því það var tilboð um bloggvináttu, sem ég þáði að sjálfsögðu. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu fljótt fólk gerði vart við sig á síðunni. Sömuleiðis var ég sæl þegar heimsóknartölurnar fóru yfir fyrsta hundraðið. Já, fyrstu vikurnar sem ég bloggaði var ég alsæl ef tvöhundruð manns sóttu síðuna mína á einum degi. Nú kippi ég mér ekki mikið upp þó heimsóknirnar fari yfir þúsundið - en er þó alltaf ánægð með það að sjálfsögðu.
Þegar þessi orð eru skrifuð eru komin 286.641 innlit á síðuna mína frá upphafi - en það gera að meðaltali 785 innlit á dag - sem ég er afar þakklát fyrir. Bloggvinum hefur fjölgað svo mjög að ég hef vart á þeim tölu (eitthvað á annað hundrað), og get því alls ekki sinnt þeim öllum eins og ég vildi. Vona að þeir fyrirgefi mér það.
Í tilefni dagsins ætla ég að bíða með frekara blogg þar til á mánudag. Þess í stað setti ég inn þessa ægiförgru mynd sem Ágúst Atlason tók af sólrisu í Arnarfirði nú nýlega.
Vinir og fjölskylda | Breytt 24.2.2008 kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Heba er týnd!
11.2.2008 | 09:53
Eftir mikla og góða æfingu með björgunarhundasveitinni í hryssingsveðri i gær, fékk ég hundaútkall. Já, alvöru "hundaútkall". Örvæntingarfullur hundeigandi leitaði til björgunarhundasveitarinnar á Ísafirði um aðstoð við að finna tíkina sína, hana Hebu. Hún hvarf að heiman, frá Fremri-Breiðadal í Önundarfirði, á laugardagsmorgun.
Heba hefur því verið týnd í tvo sólarhringa.
Þar sem ég man eftir eiganda hennar, Björk Ingadóttur, frá því hún var lítil, ljóshærð telpa að snuddast í hesthúsinu með honum pabba mínum heitnum, og vék þar góðu að hrossunum okkar, get ég ekki annað en veitt henni lið, nú þegar hún hefur týnt fallega hundinum sínum. Ég lýsi þess vegna eftir Hebu hér á bloggsíðunni minni.
Heba er falleg ársgömul tík af íslensku fjárhundakyni, þrílit. Heba sækir mikið í það að elta hrafn og mink og gæti því hafa farið upp á fjöll eða niður í fjöru. Henni var hleypt út ásamt hinum heimilishundinum í Fremri Breiðadal á laugardagsmorgun. Hundarnir voru dágóða stund fjarri en svo kom aðeins annar þeirra til baka um fimmleytið. Veður varð slæmt í gær, og er ekki óhugsandi að tíkin hafi hrakist upp á fjöll, jafnvel yfir í aðra firði.
Þeir sem hugsanlega geta gefið upplýsingar um Hebu eru beðnir að láta vita í síma: 456-4559 eða 863-4559. Hennar er sárt saknað.
Og nú er ég komin í hundabjörgunarsveit - vona bara að þessi eftirgrennslan beri árangur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sólrisa í snjómuggu
25.1.2008 | 16:04
Í dag, 25. janúar, er hinn formlegi sólrisudagur okkar Ísfirðinga. Ekki sjáum við þó til sólar í dag, snjómugga í lofti og sjálfsagt skýjaður himinn. Síðustu daga höfum við þó séð sólinskin á fjallatoppum, og næst þegar sér til sólar mun hún gægjast yfir fjallsbrún. Þá munu geislar hennar ná alla leið niður á eyri - gylla húsþökin - og verma hjartað
Sól, þér helgum sigurlag
og syngjum lof af hjarta.
Þú breytir hríðar dimmu í dag
uns dægrin litum skarta.
Já, þiggðu okkar þakkarbrag
þokkagyðjan bjarta.
Þegar vetrar drunginn dvín
og dregur hægt að vori,
Þorri hörfar heim til sín
hrímþungur í spori,
þú feimin yfir fjallsbrún skín
og fyllir brjóstið þori.
Með blíðu kyssir klakatár
af klettsins hrjúfa vanga,
græðir viðkvæm svarðar sár
og sefar kulið stranga.
Þú vekur drauma, vonir, þrár
af vetrarsvefninum langa.
Sól, þér ómar ísfirsk þökk
upp af mjallar hjúpi
og í fuglsins kvaki klökk
kveðin fjalls af gnúpi:
Sigurbragur - söngva þökk
sungin úr bláu Djúpi.
Í dag á Hjörvar, yngsti drengurinn minn, afmæli hann er fjórtán ára.
Á slíkum degi er við hæfi að fara með lofgjörð til sólarinnar. Þessi óður var ortur í tilefni af 70 ára afmæli Sunnukórsins fyrir fjórum árum.
Jónas Tómasson samdi fagurt lag við þennan texta af sama tilefni - en lagið er svo krefjandi fyrir söngraddir að kórinn hefur aðeins flutt það tvisvar sinnum, svo ég muni.
Vinir og fjölskylda | Breytt 26.1.2008 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vel heppnuð helgaræfing Björgunarhundasveitar Íslands
13.1.2008 | 21:42
Ég er kúguppgefin. Var að koma heim af helgaræfingu á Snæfellsjökli með Björgunarhundasveit Íslands. Þar sem ég var stödd í borginni fékk ég far með Nick félaga mínum strax eftir Útsvarskeppnina á föstudagskvöld (já, hún hefði mátt fara betur árans spurningakeppnin ).
Við vorum komin á Gufuskála upp úr miðnætti og svo hófust æfingarnar morguninn eftir. Við ókum upp á jökulinn um tíuleytið, fjöldi björgunarsveitarbíla og jeppa í einni halarófu. Þar fundum við góð æfingasvæði, grófum holur fyrir "fígúrantana" fyrir hádegi, og svo var farið að æfa eftir hádegiskaffið.
Þarna var gríðarleg þátttaka, á sjötta tug manna og á fjórða tug hunda. Meðal annarra níu manna lið unglinga úr Grindavík sem kom gagngert til þess að liggja í snjóholum fyrir hundana. Það heitir að vera "fígúrant" og er sko ekki heiglum hent. Fólk er grafið niður í tveggja metra djúpar snjóhella þar sem það má dúsa - jafnvel tímunum saman - meðan hver hundurinn á fætur öðrum kemur að finna. Það er ekkert sérlega notaleg vist í kulda og þrengslum skal ég segja ykkur. Viðkomandi þarf að vera bæði þolinmóður og sérlega skemmtilegur í augum hundsins, tilbúinn að leika við hann, gefa honum bita og hrósa honum á allan hátt þegar hann hefur grafið sig niður til fígúrantsins.
Blíða (hundurinn minn) stóð sig með prýði. Á meðfylgjandi mynd er hún að skríða upp úr einni holunni sem hún gróf sig niður í til að finna mann - sjáið þið ekki hvað hún er hróðug á svipinn?
Blíða tók C-próf í snjóleitinni í fyrravor, og hefur ekki fengið nema tvær snjóleitaræfingar síðan. Þótt ótrúlega megi virðast þá hefur bara sama og ekkert snjóað fyrir vestan í vetur Ég bjóst því ekki við miklu af henni núna.
En leiðbeinandinn lét okkur byrja á því að leita að tveimur týndum í fyrsta rennslinu - og það er í fyrsta skipti sem okkur er falið svo "stórt "verkefni. Það vafðist þó ekkert fyrir henni, og í heild stóð hún sig ljómandi vel. Það átti raunar við um alla hundana á okkar æfingasvæði, ekki síst unghundana sem voru að spreyta sig í fyrsta sinn.
Nú er hún greyið í búrinu sínu um borð í björgunarsveitarbílnum á leið vestur - ég sendi hana á undan mér því sjálf fer ég með flugi í fyrramálið.
Já, við erum lúnar stöllurnar, hvor á sínum stað. Þetta var viðburðarík og skemmtileg helgi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þá bíður hið daglega amstur
3.1.2008 | 12:59
Við keyrðum vestur í gær í fallegu veðri og mildu. Vorum þó ekki fyrr komin inn í Skutulsfjörðinn en ég fékk SMS-skeyti um björgunarhundaæfingu á Breiðadalsheiði. Nú var vandi á höndum. Heima beið Hjördís tengdamamma með dýrindis fiskrétt í ofni sem við hlökkuðum til að borða - á heiðinni félagarnir að moka 2 m djúpa snjóholu fyrir fyrstu snjóflóðaæfinguna sem allir hafa beðið eftir. Niðurstaðan varð sú að Siggi og Hjörvar voru settir úr heima hjá tengdó, við Blíða skelltum okkur á æfingu Ég sé ekki eftir því þar sem í dag er farið að rigna - og óvíst hvenær hægt verður að æfa vetrarleit næst.
En þetta var skemmtileg æfing. Mjúk og mild logndrífa, og hundarnir hafa engu gleymt í snjóleitinni. Á eftir úðaði ég svo í mig góðgætinu við eldhúsborðið á Hjallaveginum. Það var því komið undir miðnætti þegar við loks komum heim í Miðtún og tókum upp úr töskum. Mikið var nú gott að leggjast upp í rúmið sitt með góða bók.
En ... þá er bílífið að baki og nú tekur hið daglega amstur við. Hér fyrir neðan skellti ég inn nokkrum myndum frá Reykjavíkurdvölinni.
Hluti fjölskyldunnar við á aðfangadagskvöld, fv. mamma (Magdalena), Siggi, ég og Magdalena dóttir mín (Maddý).
Við litla jólatréð á Framnesveginum, fv. mamma, Saga, Hjörvar, Pétur og Blíða fremst.
Munnörpulekur á aðfangadagskvöld
Nöfnur og langmæðgur á gamlárskvöld
Skemmtileg áramót - og skaupið bara ágætt
1.1.2008 | 16:41
Þetta voru skemmtileg áramót og skaupið bara ágætt. Ég hló að minnsta kosti, ekki síst þegar við bloggararnir fengum á baukinn. Mér fannst það bara smellið.
Annars var svona ýmist hvort þeir sem með mér voru hlógu - mamma er á níræðisaldri, og hún var ekki mjög hrifin. Krakkarnir voru svolítið spyrjandi á svip stöku sinnum. En svona í heildina var þetta bara ágætt. Það lá líka svo vel á öllum, að ég held við hefðum hlegið að hverju sem var.
Að þessu sinni héldum við áramótin hátíðleg á rólegu sveitahóteli í nágrenni höfuðborgarinnar - Völlum í Ölfusi - sem við höfðum alveg út af fyrir okkur. Ekki amalegt það
Þarna reka systir mín og mágur hestaleigu og vistvæna ferðaþjónustu ásamt fleirum. Þau buðu okkur að koma og eyða gamlárskvöldinu með þeim í kyrrð og ró - hótelið autt yfir aðal hátíðarnar og nóg gistirými. Við þáðum það með þökkum og sjáum ekki eftir því.
Eins og sjá má höfðu þau hjónin (Sigurjón og Halldóra) í ýmsu að snúast í eldhúsinu meðan verið var að matbúa kalkúninn
Allir lögðu eitthvað í púkkið í mat og drykk - svo borðuðum við saman dýrindis kalkún og ýmsa eftirrétti, horfðum á fréttaannálinn og skaupið í sameiningu. Fjölskyldufeðurnir skutu upp flugeldum - og voru sýnu áhugasamari við þá iðju en afkomendur þeirra . Eftir miðnætti fór unga fólkið akandi í bæinn til þess að skemmta sér, en elsta og yngsta fólkið sló sig til rólegheita.
Frændsystkinin gera sig klár fyrir brottför. Fv. bræðurnir Sigurjón Bjarni og Þorvarður Sigurjóns og Halldórusynir, þá Magdalena (Maddý), Pétur og Saga Sigurðar og Ólínubörn.
Einhvern tíma hefði maður nú vakað (og sofið) lengur um áramót - öðruvísi mér áður brá. En tímarnir breytast og mennirnir með. Það var gott að vakna hress og endurnærður á nýjársdagsmorgun - með fögur fyrirheit og uppbyggilegar áætlanir fyrir nýja árið.
Áramót
Enn vaggar tíminn
nýfæddu ári
í faðmi sínum
við deyjandi glæður
af bálför þess liðna
horfa hvívoðungsaugu
í myrkar sjónir
óræðrar fyrndar
(ÓÞ: Vestanvindur, 2007)
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.1.2008 kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)