Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Skafla-Björn skal hópurinn heita

Ekkert jafnast á við nokkurra daga dvöl á Hornströndum. Hvergi er loftið hreinna, sjórinn blárri, fjöllin fegurri, víkurnar friðsælli.

Kjaransvík Ferðin okkar tók fjóra daga. Hún hófst í Veiðileysufirði þangað sem siglt var með okkur á föstudagsmorgni. Farangurinn hafði áður verið fluttur í Hlöðuvík og þangað var ferðinni heitið. Við  vorum sautján saman í hópi og fengum gott veður, sólskin en ekki mikinn hita. Það var ágætt, því manni hitnar á svona göngu. Leiðin lá upp úr Veiðileysufirði í Hlöðuvíkurskarð. Það var tiltölulega létt ganga, aflíðandi halli og ekki mikið erfiði. Efst í skarðinu var vindkul og næðingur, en ómótstæðilegt útsýni yfir Hlöðuvík.  Við stöldruðum við þarna, tókum myndir og hresstum okkur áður en haldið var niður snarbratta grjóturðina hinumegin. Sú leið er ekki fyrir lofthrædda, enda varð nokkrum í hópnum um að fara þetta. Þegar við komum á tjaldstæðið í Búðum undir kvöld, brá okkur svolítið í brún því farangurinn var ekki þar. Hann hafði verið settur í fjöruna all langt frá tjaldstæðinu, líklega 600-700 metra þaðan. Við vorum þreytt eftir gönguna og treystum okkur ekki til þess að bera tjöld og matarkistur yfir mýrarfláka, ár og fjörugrjót svo það varð þrautarlending að tjalda fyrir ofan sjávarkambinn þar sem dótið hafði verið sett af. Þetta var ekki besta tjaldstæði sem ég hef verið á, enda blautur jarðvegur og nokkur spölur í rennandi vatn. Klósettferðin tók 20 mínútur fram og til baka, ef menn vildu nýta sér þau þægindi - það var 1,4 km leið.

 Skálakambur08 Daginn eftir gengum við á Skálakamb og yfir í Hælavík.  Það var í þeirri ferð sem við rákum augun í tvo dularfulla díla sem hurfu úr fjallshlíðinni ofan við Hvannadalsvatn, eins og ég hef sagt frá í fyrri færslu. En við gengum á Hælavíkurbjarg þennan dag í dásamlegu veðri. Það var ólýsanlegt að standa efst á Hælavíkurbjargi, framundan dimmblátt hafið svo langt sem augað eygði, Hælavík á vinstri hönd og fagurmótaðir fjalladrangar í vesturátt. Við Saga dóttir mín settumst undir barð efst á brúninni og nutum útsýnisins dágóða stund - orðlausar báðar. Okkur gekk vel til baka - en ekki þarf að fara fleiri orðum um það sem síðar gerðist þegar víkur fylltust af þyrlum, flugvélum og björgunarbátum.

Á þriðja degi tókum við það rólega, enda uppgefin eftir atburði kvöldsins ogÍsbjarnarútkall næturinnar á undan, og ísbjarnarvaktina sem staðin var um nóttina. Við röltum yfir í Kjaransvík og vorum nokkra klukkutíma í þeirri ferð. Um kvöldið var fjara, og ég skrapp með Sögu dóttur minni og Pétri syni mínum í sandfjöruna inn af Búðum þar sem við skelltum okkur í sjóbað í lognöldunni. Við vorum svo heppin að geta notið veðurblíðu og kvöldkyrrðar á meðan. Á leiðinni til baka fór að rigna, og hvessa í framhaldi af því. Um nóttina gerði slagveðursrigningu. 

Við vöknuðum snemma á mánudagsmorgni, enda heimferðardagur og löng ganga framundan. Ætlunin var að ganga yfir á Hesteyri, 18 km leið, svo ekki veitt af tímanum til að pakka öllu hafurtaskinu, nesta sig fyrir daginn og bera dótið niður í fjöru. Tveir úr hópnum treystu sér ekki með í þessa göngu heldur ákváðu að bíða eftir bátnum og fylgja farangrinum.

Við vorum lögð af stað um kl. 10 um morguninn og sóttist ferðin vel. Pétur sonur minn var slæmur í hné - en í Búðum voru staddir þrír læknar með ferðafélagshópi. Þeir bjuggu um hnéð á honum og gáfu honum verkjalyf svo hann komst alla leið, klakklaust. Kann ég þessum heiðursmönnum bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Ferðin yfir til Hesteyrar gekk vel. Það hafði dregið úr rigningu og vindi, svo við gengum þetta í meinleysisveðri átta tímum. Vorum komin stundvíslega kl. 18 að bryggjunni á Hesteyri, en þangað átti báturinn að vera kominn um sama leyti. Hann kom tveim tímum síðar. Á Hesteyri var allt fullt af ferðafólki og ekki nokkur leið að setjast inn í hús. En við vorum svo heppin að geta beðið í þokkalegu veðri. Við notuðum tækifærið og skoluðum fætur í fjörunni - tókum nesti - og biðum svo á bryggjunni eftir bátnum. Það stóðst á endum að þegar við vorum komin um borð gekk yfir með rigningarhryðju og allir fjallatoppar voru þá horfnir inn í grámóskuleg úrkomuský.

heimleid (Small) Það var yndislegt að fara í sturtu þetta kvöld og leggjast í tandurhrein sængurföt heima hjá sér. Hjördís tengdamóðir mín - sú raungóða kona - var meira að segja búin að sjóða dýrindis kjúklingasúpu sem hún skildi eftir í potti á eldavélinni hjá mér ásamt nýbökuðu heilhveitibrauði. Það var ekki amalegt að næra sig á heitri súpunni eftir volkið. Heart

Í gærkvöld kom svo hópurinn saman heima hjá okkur Sigga - fjórtán manns - þrír gátu ekki verið með okkur vegna skyldustarfa og anna. Við grilluðum lambalæri og áttum góða stund saman. Það var glatt á hjalla og mikið hlegið.

Í tilefni af fimm ára afmæli gönguhópsins hefur honum nú verið gefið varanlegt nafn - enda þykir einsýnt að við munum ekki rata í önnur eins ævintýri og í þessari ferð. Skafla-Björn skal hópurinn heita. það nafn hefur nú þegar verið rist með rúnum í snæbreiðu á Hornstrandahálendinu.

 Smile

Ferðafélagar að þessu sinni voru (í stafrófsröð): Bergsteinn Baldursson, Bjarney Gunnarsdóttir, Edda Pétursdóttir, Einar Már Sigurðsson, Helga Magnea Steinson, Heiða Einarsdóttir, Hjörtur A. Sigurðsson, Kolbrún Jarlsdóttir, Kristín Böðvarsdóttir, Maríanna Friðjónsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Pétur Sigurgeir Sigurðsson, Pétur Sigurðsson, Ragnheiður Davíðsdóttir, Rakel Sigurbjörnsdóttir, Saga Sigurðardóttir og Sigurður Pétursson.


Ísbjarnarblúsinn - sagan eins og hún var

HælavíkHlöðuvík Voru þetta ísbirnir? Veit ekki. Voru það álftir? Útilokað. Mávager? Nei. Snjóskaflar? Hugsanlega. Þennan dag var heiðskír himinn og mikil sólbráð á fjöllum. Tveir litlir skaflar gætu hugsanlega hafa bráðnað niður á sjö klukkutímum, hafi þeir verið orðnir mjög þunnir. Þetta gætu líka jafnvel hafa verið hvít lítil tjöld sem búið var að taka saman síðdegis. En hver tjaldar við vatn þar sem krökkt er af fugli í 200 m hæð? Hugsanlega náttúruvísindamenn. En hefðu þá ekki einhverjir vitað af ferðum þeirra? Nota menn hvít tjöld lengur?

Já spurningarnar eru margar og svörin fá. En svo mikið veit ég, að það sem við sáum yfir Hvannadalsvatni þar sem við stóðum efst í Skálakambi á milli Hlöðuvíkur og Hælavíkur um hálfeittleytið á laugardag, var engin "missýn" eða ímyndun. Við vorum fjórtán sem skoðuðum þetta vel - og okkur brá í brún sjö tímum síðar þegar við stóðum á sama stað og sáum þetta ekki lengur, hvorki með berum augum né í sjónaukum.

Skálakambur08 Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að tilkynna þetta. Upp skutust hugsanir eins og: Nú verðum við álitin ímyndunarveik. Þetta verður ekki tekið alvarlega!  En þó að spéhræðsla sé sterkt afl þá varð nú umhyggja okkar fyrir ferðalöngum á Hornströndum hégómanum yfirsterkari. Á leiðinni höfðum við mætt fimm manna hópi sem var á leiðinni yfir í Hvannadal um Hvannadalsskarð. Þau ætluðu að tjalda þarna í námunda við staðinn þar sem við sáum fyrirbærið. Okkur var hugsað til þessa fólks og annarra ferðalanga á nálægum slóðum. Niðurstaðan varð því sú að tilkynna þetta. Enda vorum við ekki í neinum vafa um að það sem við sáum var greinilegt berum augum, á meðan það var þarna. Jafn augljóslega var það horfið síðar um daginn.

BúðabærHlöðuvík Við létum það því verða okkar fyrsta verk þegar við komum niður í Hlöðuvík um níuleytið um kvöldið að láta ferðafélagshópinn vita sem þar var staddur í Búðum. Að höfðu samráði við Guðmund Hallvarðsson, leiðsögumann og óðalsherra í Hlöðuvík, var haft samband við 112. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Síðar um kvöldið ómuðu þyrluspaðar og flugvélagnýr um alla fjallatinda. Björgunarskip kom inn í víkina frá Ísafirði með björgunarsveitarmenn og sérsveitarmenn lögreglunnar innanborðs. Við fylgdumst með þyrlunni leita svæðið og það gerðu þeir afar nákvæmlega, eftir því sem við gátum best séð. Okkur var því óneitanlega rórra því það er ekki skemmtileg tilhugsun að liggja í tjaldi, óvarinn, með grun um ísbirni í nánd. Við vorum sammála um að viðbrögð löggæslunnar voru til fyrirmyndar.

 Ferðafélagshópurinn var í húsi - við hinsvegar vorum í tjöldum ca 700 metrum utar í víkinni. Við áttum þess ekki kost að komast öll í hús - en lögreglan bauð okkur að fara um borð í skipið og sigla til Ísafjarðar. Þetta íhuguðum við. En þegar leið á nótt og leitin bar ekki árangur ákváðum við að halda kyrru fyrir en hafa vakt. Við skipulögðum vaktaskipti - og höfðum talstöðvarsamband í ferðafélagsskálann, þar sem menn voru líka á vakt. Við vorum með tvö neyðarblys, eitt handhelt og annað til að skjóta upp. Og með þetta að "vopni" ásamt sjónauka og talstöðvum, létum við fyrirberast um nóttina og skiptumst á að ganga sjávarkambinn og skima til fjallaskarða með sjónaukum.

Ég skal viðurkenna að okkur var þó ekki rótt það sem eftir lifði ferðarinnar - lái okkur hver sem vill.

Annars var þetta aldeilis hreint frábær ferð. Meira um það á morgun ...   Smile

 

Hér sjáið þið nokkrar myndir af hluta hópsins í Hlöðuvíkurskarði og Veiðileysufirði. 

 Hlöðuvíkurskarð4        Veiðileysufjörður        Hlöðuvíkurskarð08 


Klúður og hrakföll en ... Hornstrandir á morgun

Úff, þvílíkur dagur! Í dag hefur lögmál Murphy's náð áður óþekktri fullkomnun: Allt sem hugsanlega gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis í dag.  Jæja - segi það nú ekki (svolitlar ýkjur) - en samt nóg til þess að ég er uppgefin. Er svo á leið á Hornstrandir í fjögurra daga göngu eldsnemma í fyrramálið.

 Hæst náðu hrakföll dagsins þegar Vésteinn systursonur minn MISSTI af flugvélinni vegna þess að ÉG misskildi mætingartímann, og drengurinn varð OF SEINN út á völl. SeinnHann þurfti virkilega að ná ÞESSARI VÉL því við hin erum að fara norður á Hornstrandir eldsnemma á morgun. Nei, nei - þá klúðraðist það. Á Reykjavíkurflugvelli beið móðir hans (Halldóra systir mín) komin austan úr Rangárvallasýslu að taka á móti elsku drengnum - en greip í tómt. Blush Til allrar hamingju á hún góða vini þar eystra sem gátu sinnt búpeningi fyrir hana (því hún er ein á bænum þessa daga) svo hún gæti gist í borginni og beðið fyrstu flugferðar á morgun í trausti þess að drengurinn komist þá. Og sem betur fer á ég góða tengdaforeldra Heart sem ætla að bjarga málum og fylgja drengnum út á flugvöll á morgun svo við Siggi getum náð bátnum sem á að fara með okkur í Veiðileysufjörð. Þau ætla síðan að sjá til þess að yngsti sonur okkar komist klakklaust í fótboltaferðalagið sem framundan er. Já - það er sko gott að eiga góða að þegar eitthvað liggur við.

argintæta En sumsé: Húsið hefur verið á öðrum endanum í dag. Það er náttúrulega verið að pakka alla niður. Saga og Pétur eru mætt - þau ætla með á Hornstrandir. Vésteinn er ekki farinn - svo farangurinn hans er hér að sjálfsögðu. Svo þurfti auðvitað að pakka fyrir Hjörvar, hann er jú á leið í fótboltaferðalag. Nú enginn fer nestislaus í langferð - þannig að eldhúsið hefur verið eins og verksmiðja. Þess utan þurftu jú allir að borða í dag ... hvolpurinn skeit þrisvar á gólfið, meig tvisvar - hefur sennilega farið úr sambandi við allt stressið á heimilinu. Hann er nú blessunarlega kominn út í Bolungarvík til móður sinnar og bróður, og verður þar á meðan Hornstrandaferðinni stendur. Ýlfraði og gólaði eins og verið væri að drepa hann þegar við settum hann í búrið í bílnum og ókum úteftir í kvöld.

Úff - þvílíkur dagur. Mamma á spítala. Já, hún kom að heimsækja dóttur sína vestur á Ísafjörð í síðustu viku. Ekki hafði hún lengi dvalið - nánar tiltekið í sólarhring - þegar hún varð fyrir því óláni að detta á rennisléttu klósettgólfinu hjá mér og brjóta hryggjarlið. Frown Ó, jú. Nú liggur hún á sjúkrahúsinu á Ísafirði. En hún er í góðum höndum og á batavegi, sem betur fer. Kannski blessun fyrir hana að vera ekki á heimilinu eins og á stendur.

Jebb - en nú er þessi dagur að kveldi liðinn. Á morgun kemur nýr dagur, vonandi  með góðu í sjóinn og mildu gönguveðri. Við ætlum úr Veiðileysufirði yfir í Hlöðuvík fyrsta daginn. Það tekur 5-6 tíma hugsa ég, því við ætlum nú ekki að spana neitt. Setjum svo upp tjaldbúðir í Hlöðuvík og höfum bækistöðvar þar fram á mánudag - þá verður gengið yfir á Hesteyri.

Þetta heitir líf og yndi - og vissulega getur verið gaman þegar mikið er um að vera (þó þetta sé nú kannski full mikið af því góða ... eða ég að verða gömul ... eða eitthvað).

En ég verð sumsé fjarri bloggheimum næstu daga.  Segi ykkur kannski ferðasöguna seinna.


Pakkað fyrir Hornstrandaferð

IMG_0282 (Medium) Ég er farin að pakka fyrir hina árlegu Hornstrandaferð sem við í gönguhópnum "Höldum hópinn" ætlum að fara um næstu helgi. Þriðja helgin í júlí - það er fastur liður. Að þessu sinni verður siglt með okkur í Veiðileysufjörð á föstudagsmorgni, og við göngum yfir í Hlöðuvík. Þar setjum við upp bækistöðvar, en farangurinn verður sendur þangað á undan okkur, með báti. Það mun vera brimasamt í Hlöðuvik og því stundum erfitt með lendingu. Fyrir vikið verður farangurinn sendur með þriggja daga fyrirvara, svo nægur tími gefist, ef lending tekst ekki í fyrstu tilraun.

Úr Hlöðuvík ætlum við að ganga um nágrennið á laugardag og sunnudag, dagleið í hvort skipti. Á mánudag verður síðan gengið yfir til Hesteyrar þaðan sem við tökum bátinn heim.

Gönguhópurinn fer stækkandi ár frá ári, enda eru börnin okkar farin að koma líka. Hópurinn skiptir um nafngift eftir hverja ferð, því ævinlega bíða okkar ný ævintýri sem kalla á nýtt heiti. Við höfum heitið Skítugur skafl, Ropandi örn, Höldum hæð og Höldum hópinn - allt eftir tilefnum.

Árið sem við nefndumst Ropandi örn, gengum við í niðaþoku á Straumnesfjall. Í þokunni birtist okkur gríðarstór fugl á steini. Hrifin og uppnæm virtum við fyrir okkur þessa sjón - bæði með  berum augum og kíki. Gott ef ekki blasti líka við myndarlegur laupur og fjöldi arnarunga. Þegar nær dró, minnkaði skepnan - og loks - þegar við vorum alveg komin að fuglinum flaug hann ropandi á braut. Errm Þetta var þá rjúpa.

Um þetta var ort:

  • Á Straumnesfjallið stikar greitt,
  • stafir blika og skína,
  • gönguhópur, brosir breitt
  • með bakpokana sína. 
  • Í gegnum þoku grilltum þar,
  • gáttuð eins og börn,
  • hvar á stórum steini var
  • stæðilegur ÖRN. 
  • Enginn þó að öðrum laug
  • eða bar við skopi
  • fyrr en óvænt fuglinn flaug
  • með fjaðrabliki og ROPI.

c_documents_and_settings_lina_my_documents_my_pictures_hornstr-07_burfell2_medium_265031 c_documents_and_settings_lina_my_documents_my_pictures_hornstr-07_hesteyri2_small Vestfirðir


Fullt hús af fólki, hundum og ... ég í bloggfríi

Ég er enn í bloggfríi - þessi færsla er eiginlega bara svona ósjálfrátt viðbragð af því að ég fékk fiðring í fingurna þegar ég fór að kíkja á moggabloggið. En satt að segja hefur verið svo mikið að gera hjá mér undanfarna daga - fullt hús af fólki og hundum - og enginn tími til að skrifa bloggfærslur.

InyrriPeysu (Medium) Daði Hrafn ömmustrákur er í heimsókn með pabba sínum (honum Dodda mínum), mömmu sinni (Erlu Rún tengdadóttur minni) og heimilishundinum þeirra (henni Vöku).

Saga dóttir mín er hér líka.

Skutull0608 (Medium) Og svo má ekki gleyma nýjasti fjölskyldumeðlimnum, en það er hvolpurinn Skutull. Tíu vikna border-collie hvolpur (svona að mestu), algjört krútt. Hann á litla systur sem er algjör dúlla líka - og hana vantar sárlega heimili. Áhugasamir gefi sig fram hið fyrsta.

 En sumsé. Hér eru sem stendur sjö manns í heimili og þrír hundar. Jebb ... líf og fjör! Og ekki við því að búast að húsmóðirin sitji mikið við skriftir eins og ástatt er.

Hér sjáið þið nokkrar myndir af heimilishaldinu undanfarna daga.

P1000295 P1000465 (Medium) hundaburid (Medium) mátun (Medium) skutull08 (Medium)


Logandi harðsperrur - fimmtugsafmæli og fleira

Nú sit ég með logandi harðsperrur og strengi eftir að hafa gengið á Esjuna ásamt vinafólki á sunnudaginn í yndislegu veðri og frábæru útsýni. Jamm, það var lokahnykkurinn á frábærri borgardvöl í "sumarbústaðnum" okkar á Framnesvegi.

Já, þannig er það nú með okkur hjónin, að líf okkar skiptist í meginatriðum á milli tveggja heima, má segja: Vestfjarða og Reykjavíkur. Okkar sumarhús er ekki inni í skóglendi einhversstaðar utan þéttbýlis, heldur stendur það á horni Holtsgötu og Framnesvegar, innan um önnur hús  í Vesturbæ Reykjavíkur.

Í þetta gamla hlýlega hús, sem við höfum átt í 19 ár, sækjum við einatt hvíld og upplyftingu með þeim vinum og ættingjum sem tilheyra hinum Reykvíska hluta lífs okkar - auk þess sem það er aðsetur okkar í vinnuferðum og erindum ýmiskonar.

Tilefnið að þessu sinni var fimmtugsafmæli eiginmannsins, þann 13. júní síðastliðinn. Hann vildi lítið láta fyrir sér fara á  afmælisdaginn og var því "að heiman" (þ.e. ekki á Ísafirði) en þó "heima við" (á Framnesveginum). Þetta var rólegur en skemmtilegur afmælisdagur, því vinir og kunningjar litu við í tilefni dagsins og þáðu léttu léttar veitingar. Ekkert formlegt, bara afslappað rennerí og innlit fram eftir kvöldi.

Sjálf afmælisveislan verður svo haldin síðar - því ég stefni að því að ná honum í haust.  Þá langar okkur að halda sameiginlega afmælisveislu með tilheyrandi húllumhæi hérna fyrir vestan.

Í augnablikinu er ég sumsé gift "eldri" manni sem kominn er á sextugsaldur. ÉG ætla að njóta þess næstu tvo og hálfan mánuðinn að vera bara rétt rúmlega fertug - þ.e. "unga konan" í sambandinu. Wink

P1000434 (Medium)

 Hér sjáið þið afmælisbarnið með frumburði sínum, henni Sögu, dóttur okkar. Nú er aldursmunur þeirra tveggja (24 ár) orðinn minni en aldur hennar (26 ár). Já, svona líður lífið.

 

 


Sumar í borginni

Nokkrir góðir dagar í Reykjavík standa yfir núna. Við hjónakornin brugðum okkur af bæ og höfum verið í borgarleyfi þessa viku. Þá sjaldan við gefum okkur tíma í bænum er svosem alltaf nóg að gera. Við höfum verið að dytta að húsinu okkar hér á Framnesveginum, hirða garðinn og stússast. Þannig að "frí" er auðvitað ekki rétta orðið yfir þessar borgardvalir. En það samt afslappandi að taka til hendi þegar tími gefst til og ákveðin hvíld að fást við eitthvað annað en atvinnuna (þó hún sé nú sjaldnast langt undan).

Veðrið hefur leikið við okkur og fyrir vikið kemur maður ekki eins miklu í verk og upphaflega var áætlað. En hvað um það - sólin skín og nú er sumar í borginni. Smile


Guð er að bjóða góða nótt - í geislum sólarlagsins

solarlag Var að koma af björgunarhundaæfingu á Geithálsi í kvöld. Það var yndislegt veður, skafheiður himinn og kvöldsólarljómi yfir Heiðmörk og Hellisheiði. Frábært útsýni.

Æfingin gekk vel - gaman að hitta Reykvísku félagana svona af og til þegar maður er staddur í Höfuðborginni.

En veðurdýrðin varð til þess - þar sem ég stóð efst á Geithálsinum og virti fyrir mér sólarlagið við sjóndeildarhringinn - að rifjaðist upp fyrir mér undurfögur vísa eftir Trausta Reykdal:

  • Þýtur í stráum þeyrinn hljótt
  • þagnar kliður dagsins.
  • Guð er að bjóða góða nótt
  • í geislum sólarlagsins.

Góða nótt gott fólk.


Komin aftur :-)

Jæja, þá er ég nú komin aftur að tölvunni - eftir laaaangt blogghlé, heila fimm daga. Það liggur við að ég finni fyrir andlegum harðsperrum eftir hvíldina. Grin  

En það sem hefur á daga mína drifið, frá því ég skrifaði síðast færslu hér, er nú ýmislegt, skal ég segja ykkur. 

Tengslanetið á Bifröst 

Herdis Á fimmtudag skellti ég mér suður til þess að vera mætt síðdegis á tengslanets-ráðstefnuna á Bifröst. Aldeilis hreint frábær ráðstefna og vel skipulögð hjá Herdísi frænku minni, sem á veg og vanda af þessu framtaki - nú í fjórða skipti, að ég held. Þarna voru 500 konur saman komnar og engin smá orka sem leystist úr læðingi -- 6,1 á Richtersskala, eins og íbúar Suðvesturhornsins urðu varir við þegar jörðin skalf þennan sama dag. Raunar missti ég af þessu eiginlega, því ég sat með Maríönnu vinkonu minni í bíl á leið milli Borgarness og Bifrastar. Við urðum ekki varar við neitt.

Dásamlegur dagur við Þingvallavatn

 Jæja, að lokinni þessari orkumiklu ráðstefnu átti ég svolitla eftirráðstefnu með Maríönnu og Ragnheiði vinkonu, sem var illa fjarri góðu gamni (ein af þeim sem sat föst á flugvelli á Spáni vegna flugtafa hjá Heimsferðum). Við vinkonurnar þrjár skelltum okkur í sund á laugardagsmorgninum og síðan í hádegismat þar sem farið var yfir helstu tíðindi Tengslanetsins og spjallað um heima og geima.

Thingvallavatn Þegar skikkanlega var liðið á morguninn reyndi ég að ná sambandi við Dodda minn því mig langaði að hitta Daða ömmustrák. Enginn svaraði á því heimilinu þannig að ég ákvað að kíkja í kaffi til Möggu vinkonu. Hún dreif mig með sér í sumarbústað fjölskyldunnar við Þingvallavatn þar sem ég eyddi deginum ásamt hennar fólki. Konurnar í þessari fjölskyldu eru þvílíkir listakokkar að maður fær samstundis matarást á þeim - sérstaklega Guðrún "systir" (Möggu) og Erla "mín" (lesist, dóttir Möggu). Þeim brást ekki bogalistin að þessu sinni frekar en vanalega.

Útkallsæfing á Hellisheiði

Hellisheiði Óguðlega snemma á sunnudagsmorgni, eða fyrir klukkan níu, var ég svo mætt á útkallsæfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Hellisheiðinni þar sem ég lá milli þúfna og var "týnd" drjúgan hluta dags en "fannst" þó um síðir af kátum en lafmóðum Labrador-hundi sem slefaði yfir mig alla, aldeilis hróðugur með frammistöðu sína. Þetta var hann Funi, blessaður - kátur hundur og síhress. Blíða fékk svo að taka æfingu í lokin, og það gekk bara bærilega hjá henni.

Eftir æfinguna pakkaði ég pjönkum mínum og brunaði með Auði stallsystur minni og félaga í Vestfjarðadeild BHSÍ á P1000276 (Small) (Small)björgunarsveitarbílnum vestur á Ísafjörð. Með í för voru Sigrún, dóttir Auðar og Heiðdís vinkona hennar. Við spjölluðum mikið á leiðinni og bruddum nammi. Stelpurnar pískruðu í aftursætinu en við Auður tókum okkar hefðbundnu kjaftatörn á þessari leið. Villtumst þó ekki núna eins og einu sinni þegar við kjöftuðum frá okkur allt vit  Blush en ég tek skýrt fram að það var í niðamyrkri um hávetur. Whistling

Ekkert bloggað af viti

Sumsé - ég var orðin lúin þegar ég kom heim  með hundabúrið um miðnættið í gær. Dagurinn í dag fór svo í að  vinna upp ýmsa hluti, svo ég hef "ekkert" bloggað enn. Og það verður "ekkert" bloggað fyrr en á morgun. Wink Á alveg eftir að setja mig inn í alla hluti.

Sjáumst.


Vel heppnað "útkall" á Skálavíkurheiði

Patton Í gær tókum við útkallsæfingu á Skálavíkurheiði og Tungudal ofan Bolungavíkur. Þegar ég segi "við" á ég við félagana í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands og Björgunarfélag Ísafjarðar en sveitirnar tvær efndu sameiginlega til þessarar æfingar.

 Við settum á svið leit að fjórum týndum einstaklingum - kærustupari sem hafði átt að koma fótgangandi frá Skálavík en borið af leið, og feðrum þeirra sem höfðu ákveðið að fara til móts við þau á sunnudagsmorgni. Samkvæmt sögunni átti parið að hafa náð símsambandi við foreldra sína á fjallshryggnum milli Skálavíkurheiðar og Tungudals svo ekki var "vitað" hvorumegin skyldi leita þeirra.

Þrjú hundateymi tóku þátt í leitinni. Allt unghundar sem voru að þreyta sína fyrstu þrekraun í "útkalli". Aðgerðastjórn var í höndum félaga úr báðum sveitum. Að þessu sinni var ég í skipulagsteyminu sem stjórnaði æfingunni, enda er minn hundur ekki tilbúinn ennþá í svona stórræði.

Æfingin tókst í alla staði vel - og það var ótrúlega gaman að sjá hundana vinna úr þessu verkefni, þessar elskur. Hundar eru frábært fyrirbæri þegar kemur að leitum. Lyktarskyn þeirra, hraðinn, vinnueinbeitingin. En sumir þeirra voru orðnir ansi þreyttir í lokin.

"Útkallið" barst kl. 13:09. Hálftíma síðar voru hundateymin komin á staðinn. Kl. 14:00 var búið að skipuleggja og skipta leitarsvæðum og hundarnir lagðir af stað. Fyrsti maðurinn fannst kl. 14.30 og sá síðasti laust fyrir kl. hálf fimm. Leitin í heild sinni tók því tvo og hálfan tíma sem þykir góður árangur. Leitarskilyrði voru góð, rigningarsúld en þokkalegur vindur. Hið síðarnefnda skiptir máli þegar hundar eru við leit því þeir taka lykt af fólki með veðri.

Í Vestfjarðadeild BHSÍ á Ísafirði eru alls sjö hundateymi. Hundarnir sem notaðir voru að þessu sinni eru allt ungir hundar sem hafa verið í þjálfun undanfarin tvö ár. Félagar úr unglingadeild Björgunarfélags Ísafjarðar aðstoðuðu í æfingunni. Þeir gengu svæðið eða léku ´"týnda" fólkið, eftir því sem þurfa þótti og stóðu sig í alla staði vel.

BHSI-ISO


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband