Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Til ykkar sem ætlið að mótmæla í dag ...

... klæðið ykkur vel. Munið eftir föðurlandinu, húfunni, treflinum og ullarvettlingunum. Það hefur oft viðrað betur á mótmælendur en í dag. Verið svo málstaðnum til sóma - ég verð fjarri góðu gamni, en með í andanum. Wink

Burt með spillingarliðið!


,,Ég vakna þennan dag og vel að hann sé góður ... '' Burt með spillingarliðið

ArnarfjordurAgustAtlason Þessar fallegu vísur fékk ég sendar í tölvupósti frá vinkonu minni í morgun. Ljóði er eftir skáldkonuna Unni Sólrúnu sem hefur ort margt fagurt um lífið og tilveruna og birt á heimasíðu sinni. Ég má til að deila þessu með ykkur.

Með boðskapnum birti ég þessa fallegu mynd sem félagi minn Ágúst G. Atlason tók í Önundarfirði í fyrra.

 

 

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður,
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður.
Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti,
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur,
faðma þennan morgun og allar hans rætur,
hita mér gott kaffi, af kærleik þess ég nýt.
Kexið smyr með osti, í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest:
Þetta er góður dagur, hafðu það sem best.
Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni.
Faðmlag þér ég sendi, og kveð þig nú að sinni.

 

Megi dagurinn verða ykkur góður. Smile 

Og burt með spillingarliðið - hvar í flokki sem það stendur!


Greiðslur týnast í kerfinu

 Evra-AlvaranCom Svo virðist sem gjaldeyrisviðskiptin gangi á hvorugan veginn milli landa, þessa dagana. Norsk stúlka sem leigir hjá mér herbergi ætlaði að greiða húsaleiguna sína með því að millifæra hana í evrum frá norskum banka inn á gjaldeyrisreikning sem ég á í Kaupþingi. Þetta gerði hún s.l. föstudag. Greiðslan er ekki enn komin fram - og engar haldbærar skýringar gefnar. Greiðslan er bara "týnd" einhversstaðar í kerfinu.

 Svipaðar sögur berast af viðskiptum fyrirtækja milli landa - og þar eru nú töluvert hærri upphæðir í húfi.

Námsmenn í Danmörku eru margir hverjir í stökustu vandræðum - þeir geta ekki tekið út peninga fyrir nauðþurftum.

Í fjölmiðlum er sagt að þetta muni lagast - viðskiptaráðherra sagði í síðustu viku að gjaldeyrisviðskipti yrðu komin í lag s.l. mánudag. Þau eru ekki komin í lag. Í bankaútibúum á landsbyggðinni hefur víða verið algjör gjaldeyrisþurrð - til dæmis hér á Ísafirði.

Hvað skyldi þetta geta gengið svona lengi?

Og skyldu nást fram leiðréttingar vegna peninga sem hafa "týnst" í kerfinu undanfarna daga?


mbl.is Námsmenn enn í erfiðleikum með millifærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úr kreppunni í hundana - stutt björgunarhundaæfing

 Skutull5man Í kvöld skrapp ég á stutta björgunarhundaæfingu. Það var kærkomin hvíld frá öllu krepputalinu að fara bara í útigallann og arka með lambhúshettu á höfði og hund í bandi upp hlíð.

Það var fámennt en góðmennt á æfingunni - við vorum bara tvö, ég og Skúli félagi minn sem vorum mætt að þessu sinni. Hann með Patton sinn, ég með Skutul minn - báðir bráðefnilegir Border-Collie hundar. Heima sat Blíða mín eftir, helsærð yfir því að vera ekki tekin með. Frown Ýlfrið í henni fylgdi mér út að bíl þegar ég lagði af stað með þann stutta.

 Jæja, fyrst æfðum við Skutul. Skúli faldi sig á bak við stóran stein í hlíðinni. Skutull var svoTeymið sendur af stað, þvert á vindáttina. Hann hljóp sem fætur toguðu uppi í hlíðina og leitaði vel - datt fljótlega inn í lyktina og hljóp þá til Skúla þar sem hann gelti strax nokkrum sinnum og fékk leik að launum, þar til ég kom móð og másandi á eftir honum. Hann tók þrjú svona rennsli, og gekk mjög vel í öll skiptin - enda áhugasamur og óhræddur að hlaupa út frá mér til að leita. 

Patton Patton (hér sjáið þið hann) er kominn mun lengra en Skutull, enda löggiltur björgunarhundur með B-próf. CoolHann er yfirferðarmikill og leitar stór svæði. Ég faldi mig fyrir hann, og meiningin var að láta hann leita undan vindi nokkurn spöl til að reyna svolítið á hann, stýra honum svo í átt að lyktarsvæðinu og leyfa honum þá að finna mig.

En Patton lét ekki plata sig. Hann var ekki fyrr kominn út úr bílnum en hann þaut af stað og rakleitt til mín. Skipti engu þó að Skúli reyndi að kalla á hann til baka - Patton lét það sem vind um eyru þjóta, enda kominn í lykt. Hann vísaði á mig með glæsibrag - og var stoltur af frammistöðu sinni, enda ástæða til.

Í seinna leitarrennslinu tókst að láta hann leita svolitla stund áður en hann vísaði á mig. Það gerði hann með sama öryggi og fyrr. Mjög flott hjá honum.

Já, þetta gekk vel. Svolítil föl á jörðu og nokkur snjókorn í lofti, annars milt veður. Það var gott að draga að sér hreina loftið. Og þó ætlunin hefði verið að hugsa um eitthvað annað en fjármáladramað sem skekur samfélagið, þá tókum við auðvitað svolitla spjalltörn um málið. Nema hvað. Wink

Jamm ... Hér sjáið þið svo hina vösku Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Myndirnar voru teknar í fyrravetur og vor.

Skálavikuheidi08

BHSI-ISO


Systkinafundur Skutuls og Kötlu

Katla_Skutull_2 Þetta eru systkinin Skutull og Katla. Þau eru fimm mánaða Border-Collie hvolpar frá Hanhóli í Bolungarvík. Við erum tvær bloggvinkonur sem eigum þessa hvolpa. Á laugardaginn fengu systkinin að hittast eftir þriggja mánaða aðskilnað - og það urðu fagnaðarfundir sem gaman var að fylgjast með. Þau þekktust strax.

Leiðir skildi með hvolpunum tveimur í sumar þegar ég ég tók Skutul til mín, þá tíu vikna gamlan. Katla_Skutull_8Ég átti svolítið erfitt með að velja á milli tveggja hvolpa - það voru einmitt þessir tveir - því lítil tík í hvolpahópnum var svo einstaklega vinaleg og hænd að mér, að mér var skapi næst að taka hana. Skutull hafði vinninginn, en sú stutta var mér svo hugleikin að ég auglýsti hana á bloggsíðunni minni í von um að hún fengi gott heimili. Ég vissi sem var, að hennar biði annars eilífðin.

Og viti menn - var þá ekki Lára Hanna bloggvinkona mín einmitt að hugsa um að fá sér hund. Niðurstaðan varð sú að ég sótti litlu tíkina - sem seinna fékk nafnið Katla - gaf henni ormalyf, baðaði hana og hafði hjá mér einn dag, Skutli til mikillar ánægju. En svo kom að því að hún var sett um borð í flugvél sem sveif með hana til fundar við framtíðareigendurna. Síðan hefur Katla búið við gott atlæti á Vesturgötunni í Reykjavík.

 Katla_Skutull_7Endurfundir systkinanna urðu við Gróttu, í tilefni af því að við Skutull vorum bæði stödd í höfuðborginni í síðustu viku - í næsta nágrenni við Vesturgötuna - og nú þótti upplagt að leyfa þeim að hittast. Er skemmst frá því að seKatla_Skutull_6gja að þau þekktust strax og hófust nú miklir leikar, hlaup og stökk.

Lára Hanna tók fjöldann allan af myndum sem hún var svo elskuleg að senda mér - og hér sjáið þið nokkrar þeirra. Eins og gefur að skilja var ekki einfalt mál að ná fókusnum enda mikið fjör og gaman.

Katla_Skutull_4 Þau voru uppgefin á eftir. Joyful


Litla hetjan Ella Dís ...

EllaDis ... er haldin afar sjaldgæfum hrörnunarsjúkdómi sem læknar standa ráðþrota gagnvart. Hún er aðeins 2ja ára gömul. Móðir hennar hefur undanfarin misseri háð harða baráttu með dóttur sinni og leitað henni lækninga eftir megni - en átt mjög á brattann að sækja.

Fátt er þungbærara foreldrum en að horfa upp á alvarleg veikindi barna sinna. Í tilviki sem þessu gefur einnig auga leið að baráttan er kostnaðarsöm og ströng. Móðirin getur ekki vikið frá barninu.

Nú er hafin söfnun fyrir Ellu Dís og fjölskyldu. Á bloggsíðu Rauða ljónsins má finna nánari upplýsingar um aðdraganda og málsatvik. En reikningsnúmerið er 0525-15-020106  Kennitala: 020106-3870.


Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur?

  5041OllySiggi (Small) Þetta hafa verið ógleymanlegir dagar - helgaðir vinum, samverkafólki, ástvinum og félögum, samtals á þriðja hundrað manns sem gerði sér ferð vestur að Núpi í Dýrfirði til þess að vera með okkur Sigga og samfagna fimmtugsafmælum okkar og silfurbrúðkaupi um helgina.

Veislan bar þessu fólki öllu vitni, enda einvalalið sem steig á stokk og skemmti afmælisbörnunum - og einvalalið sem skemmti sér í sætum sínum og tók undir með hlátri og söng. Allt fór þetta fram undir styrkri stjórn Halldórs Jónssonar veislustjóra og blaðamanns m.m. sem með sínum einstaka húmor hélt samkvæminu við efnið af stakri snilld.

                                

nupurEins og við mátti búast var mikið sungið. Tveir kórar - Sunnukórinn og Valkyrjurnar - tróðu upp með miklum bravör og fjöri. Hljómsveitin Melneiophrenia sem kom sérstaklega sunnan úr Reykjavík til að heiðra tilefnið,  vakti verðskuldaða athygli og gladdi okkur mjög. Stefanía Svavarsdóttir - sigurvegari Samfés - geypilega efnileg söngkona, aðeins sextán ára gömul, sló algjörlega í gegn. Magga vinkona færði mér málverk eftir sjálfa sig sem gæti heitið "Sjáðu jökulinn loga" - mjög falleg mynd. Að sjálfsögðu brá hún Óðni Valdimarssyni á fóninn af því tilefni og allur salurinn tók undir með honum: Ég er kominn heim!

Margar góðar ræður voru fluttar - vænst þótti mér um ræðuna hennar Halldóru systur sem var sérlega kærleiksrík (ég tala nú ekki um ljóðið eftir hana sem beið svo falið inni í pakka). Nonni Baddi, systursonur minn, sýndi og sannaði að hann er mikill húmoristi. Síðast en ekki síst vil ég nefna barnahópinn minn sem í lok dagskrár fluttu í sameiningu frumsamið lag til okkar foreldra sinna, sem Saga söng við undirleik bræðra sinna, Hjörvars og Péturs. Hún klykkti svo út með því að dansa fyrir mannskapinn.

StonesAð lokum stigu á stokk þrír fyrrverandi nemendur mínir úr Menntaskólanum undir forystu síns gamla tónlistar-mentors Kristins Nielssonar og trylltu mannskapinn með Stones-syrpu. Síðan var dansinn stiginn til kl. 04.

Margir lögðu á sig langa ferð til að vera með okkur. Saga dóttir mín flaug milli landa og fékk lítinn svefn - þurfti að vera mætt á Keflavíkurflugvöll fáum klst eftir að hún kom akandi suður aftur úr afmælinu. Föðurbróðir minn og hans kona - fólk á níræðisaldri - lét sig ekki muna um að koma akandi frá Reykjavík til að taka þátt. Og það gerðu þau svikalaust, stigu svo dansinn til kl. tvö um nóttina.

5040IngibjSolrun (Small) Önnur kær vinahjón komu sömu leið þrátt fyrir annríki, en urðu svo að rífa sig upp kl fimm um morguninn til að vera komin í flug um miðjan næsta dag vegna opinbera skyldustarfa erlendis. Þau fengu fjögurra tíma svefn hið mesta - en létu sig hafa það til að gera samglaðst okkur.

Systir mín elskuleg lét þetta líka ganga fyrir öðrum skyldum og kom með alla fjölskylduna þó hún þyrfti að fara til baka snemma næsta dag til að taka á móti sláturbílnum heim á bæ síðdegis í gær. 

Og svipaða sögu má segja af ýmsum sem settu þetta í forgang hjá5037KAOogGuðbjartur (Small) sér að koma vestur og vera með okkur.

Við erum öllu þessu fólki af hjarta þakklát. Og mikið lifandis skelfingar ósköp var gaman að skemmta sér með því öllu á laugardagskvöldið.

 

 Og hér sjáið þið svo þann hluta kjarnafjölskyldunnar  sem sá sér fært að mæta í myndatöku s.l. vor. Þarna vantar Sögu og Dodda (sem er kominn með sína eigin fjölskyldu) - þau voru bæði í afmælinu. Það var Maddý hins vegar ekki, en hún er á myndinni. Dæmigert fyrir þennan fjölskylduhóp sem hefur í svo mörgu að snúast. En svona er lífið Smile

fjolskyldan3-08

Nú er komið að því ...

Hotel_Nupur Þessa dagana er líf mitt undirlagt af undirbúningi fimmtugsafmælisveislunnar okkar Sigga, sem verður á laugardaginn á Hótel Núpi í Dýrafirði - gamla heimavistarskólanum þar sem ég eyddi fimmtánda aldursárinu mínu, óþekk unglingsstelpa veturinn 1973-74. Nú hefur Núpur fengið nýtt hlutverk. Þar er nú starfrækt myndarlegt hótel sem um næstu helgi verður undirlagt af gestum sem ætla að samfagna okkur hjónunum yfir kvöldverði. 

Það er ekkert smá mál skal ég segja ykkur að raða 250 manns til borðs þannig að allir komist þokkalega fyrir - ég hefði ekki trúað því að óreyndu. En það ætlar að hafast. Kissing

Og nú er eins gott fyrir vegagerðina að standa sig - það eru 100 manns á leiðinni vestur. Woundering

Já, það er í mörg horn að líta. Nú hef ég mestar áhyggjur af því að einhverjir muni dúkka upp sem ekki hafa látið mig vita af komu sinni. Það vil ég að sjálfsögðu ekki, því ég er Meyja, og meyjur þola ekki óvæntar uppákomur. Ég er altso búin að raða til borðs, og þar við situr. Þeir sem ekki hafa boðað komu sína eiga vinsamlegast ekki að mæta í kvöldmatinn. En þeir eru að sjálfsögðu velkomnir eftir borðhaldið. Þá verður barinn opnaður og slegið upp balli.  Wizard

Það var 8. september fyrir hálfri öld sem þetta fljóð sem hér heldur á penna leit fyrst dagsins ljós á Landspítalanum í Reykjavík. Ég fór fljótlega að brosa framan í heiminn sem yfirleitt hefur brosað á móti - að minnsta kosti stundum alltaf eins og börnin segja. Wink

Margt hefur á mína daga drifið síðan og allt hefur það mótað mig sem manneskju, sorfið mig og slípað. Þess vegna er það nú sem ég ætla að halda upp á þennan æviáfanga með pompi og prakt - og við hjónin saman -  því Siggi varð líka fimmtugur fyrir skömmu. Auk þess eigum við 25 ára hjúskaparafmæli á þessu ári, svo það er eiginlega margfalt tilefni til að slá upp veislu og hitta fólk: Fólkið sem stendur næst okkur; fólkið sem er samverkamenn okkar; vinir og jafnvel fjandvinir. Þetta fólk hefur allt haft áhrif á líf okkar með einhverjum hætti - og þess vegna viljum við vera með því af þessu tilefni. Þakka því í huganum og með samverunni fyrir að hafa orðið á vegi okkar og rölt með okkur um lengri eða skemmri veg.

 

MaddyOlly Það skyggir svolítið á gleðina að Maddý dóttir okkar verður ekki með okkur - hún er í stífu arkitektanámi úti í Danmörku og á þess engan kost að komast heim. Við munum sakna hennar. Hér sjáið þið mynd af okkur mæðgunum saman.

 

En það verður gaman að hitta alla hina. Og nú falla öll vötn til Dýrafjarðar!

 


Nokkrir góðir dagar með BHSÍ

NýjaTeymið Jæja, nú er orðið langt síðan maður hefur bloggað - enda brjálað að gera í sumarfríinu. Wink Nú sit ég hér sólbrennd og þrútin eins og steiktur tómatur, nýkomin af frábæru fjögurra daga sumarnámskeiði með Björgunarhundasveit Íslands sem haldið var á Gufuskálum 7. - 10. ágúst, að báðum dögum meðtöldum. Við fengum sól og blíðu alla dagana.

Að þessu sinni mætti ég með nýjan félaga til leiks: Skutul litla, hvolpinn minn sem ég fékk í sumar. Hann er að verða fjögurra mánaða. LöngBiðÞetta námskeið var mikil lífsreynsla fyrir hann og hann stóð sig með prýði. Sýndi sjálfstæði á æfingunum, fór býsna langt frá mér þótt ungur sé að árum og var í alla staði hinn efnilegasti. Datt inn á lykt strax í fyrsta rennsli og "fann" sinn mann. Það er mikið álag á ungan hvolp að meðtaka allt sem fylgir æfingum sem þessum. Samvera með öðrum hundum og ókunnugu fólki, dvöl í búri, annarleg hljóð og margt fleira er mikið áreiti. Þetta litla grey var meðal annars sett í sigbelti og híft með talíu upp undir rjáfur. Ekki lét hann sér bregða við það. Þá var hann settur upp í kyrrstæða þyrlu og fékk að skoða þar allt innanborðs. Það fannst honum spennandi. En þegar þyrlan var komin í gang og hann var teymdur í átt að henni, fannst honum nóg komið og spyrnti við fótum. Hann var að sjálfsögðu ekki neyddur um borð, enda hávaðinn þvílíkur að mér sjálfri var nóg um.

 ÞyrlanLíf  Já, meðlimir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar voru okkur innan handar á þessu námskeiði. Þeir mættu á TF-Líf og kynntu fyrir okkur starf þyrlusveitarinnar. Hundarnir fengu að fara inn í þyrluna og reyndustu hundateymin voru látin síga úr henni. Við Skutull gengum að sjálfsögðu ekki svo langt - en hér sjáið þið myndir af undirbúningnum og hérna er myndband af þyrlusiginu. Við Skutull sátum álengdar og fylgdumst með af tilhlýðilegri virðingu.

  SkvisaMátar  Sigið  Þyrlubið

Já þetta var í alla stað frábært námskeið. Hvað eru sólbruni og þrútnar varir á við nokkra dýrðardaga á Snæfellsnesi með skemmtilegu fólki? Smile 


Vestfirðir í ljóma dagsins!

 raudasandur Aldrei hefur Rauðisandurinn ljómað skærar í hásumarsól en í dag. Að dýfa tánum í ylvolgan sjóinn á aðfallinu var engu líkt. Í tindrandi tíbrá mókti Snæfellsjökull í fjarska. Já, þetta voru yndislegir endurfundir við gamlar slóðir.

Við Siggi brugðum okkur sumsé í lystireisu með hana móður mína í dag. Dynjandi02Ókum til Patreksfjarðar sem leið liggur um Önundarfjörð og Dýrafjörð, yfir Sandafell og Hrafnseyrarheiði, um Arnarfjörð og Dynjandisheiði. Komum við í Dynjandisvoginum á leiðinni þar sem við viðruðum hundana í veðurblíðunni. Heitur vindur lék í hári og gáraði hafflötinn - kindur lágu magnvana undir moldarbörðum og fólk flatmagaði eða sat í lautum og lægðum. Yndislegur dagur.

Þarna í Arnarfirðinum kom skáldskaparandinn yfir okkur mæðgur og við ortum:

Sól á fjörðum sindrar,
sveipar gullnum ljóma.
Ljóssins tíbrá tindrar.
Tún í fullum blóma.

Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.

Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.

Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.

 Eftir svolitla viðdvöl á Patreksfirði var ferðinni heitið út á Rauðasand. Þar hefur orðið mikil og sjáanleg uppbygging á undanförnum árum fyrir tilstilli Kjartans Gunnarssonar og Sigríðar Snævarr sem fyrir nokkrum árum keyptu land í hreppnum og hófust handa. Nú er þar m.a. rekið "franskt" kaffi hús á fögrum útsýnisstað. Þar er gott tjaldstæði og aðstaða öll hin besta.

Við settumst út á verönd í sumarhitanum og fengum okkur vöfflur með rjóma. Hittum þar frú Sigríði með frumburð sinn og tókum tali. Þá hittum við þarna fleira fólk úr hreppnum sem mamma þekkti að sjálfsögðu öll deili á, enda ættuð úr Rauðasandshreppi og á þar enn frændfólk á öðrum hverjum bæ. 

Útsýnið var óumræðilegt og undarlegt að fylgjast með aðfallinu, hve ört féll að á grunnsævinu. Ég stóðst ekki mátið að rífa mig úr skóm og vaða út í volgan sjóinn, draga að mér ilminn af sauðfénu sem var þarna í námunda, kúnum sem lágu jórtrandi og lynginu í hlíðinni.

Á heimleiðinni ókum við Barðaströndina. Komum við í Flókalundi og borðuðum síðbúinn kvöldverð við glugga sem vísar út Vatnsfjörðinn með útsýn yfir hluta Breiðafjarðar. Tíbráin titraði enn í bláum fjarskanum en jökullinn var horfinn í mistrið.

Oohhh - það jafnast ekkert á við Vestfirði í góðu veðri.

*

PS: Því miður gleymdi ég myndavélinni og get ekki sýnt ykkur myndir frá sjálfri mér. Þessar myndir hér fyrir ofan fékk ég á netinu. Því miður kemur þar ekki fram hver tók þær, en þær lýsa býsna vel því sem blasti við augum í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband