Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Þarfasti þjónninn, félaginn, hljóðfærið ...

computer Það er svo undarlegt að hugsa til þess á hve örskömmum tíma tölvan - þetta litla tæki (núorðið) -  hefur náð að skipa sér sess í lífi manns. Tölvan er orðin miðpunktur alls sem gerist.

Í vinnunni er hún þarfasti þjóninn. Hún er glugginn út í heim. Samskiptatækið við vini og vandamenn. Hljóðfærið sem ég hamra á tregatóna um andvökunætur og gleðisöngva á góðum dögum. Já, þó skömm sé frá að segja þá hefur tölvan (nánast) tekið við af píanóinu og gítarnum sem sálusorgari og gleðigjafi. Í stað þess að slá á strengi er ég farin að hamra á tölvu til þess að tjá hugsanir mínar, ljóðasmíð og fleira. Tölvan er orðin helsti tengiliðurinn við lífið. Hún er "félaginn" - hljóðfærið - síminn! 

Er ekki eitthvað bogið við þetta? Woundering

Svo, til að kóróna skömmina, er hún líka farin að taka sér sess sem hálfgildings persóna. Þessi sem ég er að vinna á núna, er svolítið farin að þreytast. Hún er farin að hiksta og þrjóskast við - vera lengi að sumum hlutum. Og þá finn ég hvernig óþolinmæðin og ergelsið byggist upp gagnvart henni smátt og smátt. Já, ég viðurkenni það bara - ég er farin að TALA við tölvuófétið! Æ, vertu nú ekki að þreyta mig þetta - reyndu nú að moðast í gegnum þetta! Tuldra ég stundum. ÞÚ ætlar þó ekki að fara að frjósa núna!Angry

Svo suma daga er hún eins og hugur manns - lætur allt renna þýðlega í gegn og er bara draumur í dós (í orðsins fyllstu). Þá erum við vinkonur - og ég strýk henni mjúklega í þakklætisskyni þegar ég loka henni. Finn að mér er hlýtt til hennar.

Nú er ég farin að strjúka henni líka áður en ég opna hana - svona til að blíðka hana aðeins áður en við byrjum - það virkar ..... stundum Wink


Messa er ekki tónleikar

Sudureyrarkirkja Aftur þurfti kirkjukór Suðureyrarkirkju á liðstyrk að halda fyrir Hvítasunnumessuna sem jafnframt var fermingarmessa. Og aftur hringdi Lilja vinkona mín og kórsystir til að biðja mig um að hlaupa í skarðið líkt og fyrir ári síðan. Ég gerði það með gleði og var því mætt hin reffilegasta í messu í dag til að syngja með kórnum.

Að þessu sinni  naut ég góðs af því að hafa verið með í fyrra - kunni bara nánast allt, var meira að segja nokkuð klár á messusvörunum hans Bjarna Thorsteinssonar. Við komumst í gegnum "Heilagan" nokkurnveginn skammlaust held ég, og "Guðslambið" var bara bærilegt, takk fyrir. Wink

Það vakti hins vegar athygli mína að kirkjugestir tóku ekki mikinn þátt í söngnum. Mér finnst það synd satt að segja. Sjálf syng ég alltaf með í messum - nema þess sé beinlínis óskað að kirkjugestir geri það ekki. Að vísu fæ ég stundum augnagotur, en mér er alveg sama. Mér bara finnst að fólk eigi að syngja með. Messa er jú messa, ekki tónleikar.

Fjögur falleg ungmenni unnu fermingarheitið sitt hjá séra Agnesi Sigurðardóttur, prófasti sem þjónaði í Suðureyrarkirkju í dag. Það snart mig að þarna var tekið í notkun nýtt og fallegt altarisklæði sem ein af sóknarkonunum hefur saumað með eigin höndum og gefið kirkjunni í minningu móður sinnar - sem sjálf gaf kirkjunni samskonar klæði fyrir 50 árum. Undurfagurt  klæði - sannkölluð kærleiksgjöf.

Sólin lét ekki sjá sig - en samt fallegur dagur. Smile


... og hann hélst þurr

skardskirkja  Þegar ég í gærmorgun og horfði á rigningarsletturnar á rúðunni - þá stödd austur í Fellsmúla í Landsveit og framundan ferming þeirra frænda, Hjörvars míns og Vésteins hennar Halldóru systur - bað ég himnaföðurinn í hógværu hljóði um að gefa okkur svolitla uppstyttu rétt á meðan sjálf athöfnin stæði yfir - svo kirkjugestir kæmust nú þurrum fótum til og frá kirkju.

Hann hlustaði á mig blessaður - því rétt fyrir kl. 14.00 birti yfir Heklunni með P1000402 (Medium) (2)uppstyttu í Landsveit.

Fermingin fór vel fram - eins og minnar systur var von og vísa. Skarðskirkjan vel setin og fermingardrengirnir prúðmannlegir í fasi, fóru hátt og skýrt með kærleiksboðorð, litlu biblíuna og fyrstu fjögur boðorðin. Tóku í hönd hvers manns sem heilsaði þeim og báru sig vel.

Á eftir nutum við samvista við fjölskyldu, vini og vandamenn í Laugalandsskóla og enn hélst hann þurr. Halo

Ég er mínum himnaföður þakklát fyrir uppstyttuna ... og þennan góðan dag. Þakklát systur minni fyrir fermingarathöfnina, fjölskyldu minni og vinum fyrir að vera með okkur á þessum hátíðisdegi.

 

P1000399 (Medium)P1000401 (Medium)P1000404 (Medium)P1000415 (Medium)P1000410 (Medium)

 

  

 

 

 

 


Sumum er ekkert heilagt

Aðeins einu sinni eða tvisvar hefur að mér hvarflað að loka þessari bloggsíðu og hætta hér á moggabloggi en slíkar hviður hafa yfirleitt staðið stutt og jafnað sig. Nú hvarflar þetta að mér aftur - ástæðan er athugasemd sem ég hef ákveðið að eyða.

Í gleði minni yfir væntanlegri fermingu yngsta sonarins sagði ég frá því á síðunni hér í gær hvað til stæði og að ég myndi líklega ekki blogga fyrr en eftir helgi. Ekki bjóst ég við neinum athugasemdum svo sem - en það hefði verið gaman að sjá eins og eina hamingjuósk.

Hvað um það, eina athugasemdin sem kom við þessa færslu var svo sannarlega ekki hamingjuósk - í besta falli aulafyndni, en um leið lítilsvirðing við  fermingarbarnið og fjölskylduna. Lítilsvirðing við trú okkar og þá lífspeki sem við höfum valið að lifa eftir, þ.e. að vera meðlimur í hinni íslensku þjóðkirkju sem kristið fólk. 

Sumum er ekkert heilagt. Ekki einu sinni tilfinningar saklauss fermingarbarns sem bíður með tilhlökkun síns hátíðisdags.

 


Fermingarundirbúningur

P1000216 (Small) Þessa dagana snýst allt um fermingu yngsta sonarins sem verður á sunnudag, austur í Landsveit. Nánar tiltekið í Skarðskirkju. Þar ætlar hún Halldóra systir mín að ferma þá saman systrasynina Hjörvar (minn) og Véstein (hennar), rétt eins og hún skírði þá báða í sömu kirkju fyrir tæpum fjórtán árum.

Messan í Skarðskirkju verður helguð þeim frændum því þeir verða einu fermingarbörnin í kirkjunni þann daginn. Við vonumst því til að sjá sem flest ættmenni og vini við fermingarathöfnina sjálfa.P1000209 (Small)

Veislan verður svo haldin í Laugalandi í Holtum i beinu framhaldi af messunni - svo það má segja að þetta sé allt í leiðinni fyrir þá sem á annað borð gera sér ferð austur til að vera með okkur.

 

 

 Jebb ... þannig að nú er fjölskyldan komin á Framnesveginn þar við erum svona að búa okkur undir herlegheitin. Ljósmyndataka í fyrramálið - svo verður farið austur að setja saman kransatertur, leggja á borð og gera klárt fyrir gestina á Sunnudag.

 P1000210 (Small)  Það verður því lítið bloggað fyrr en eftir helgi - ef að líkum lætur.

 


Sjósund í sumarbyrjun

Sjosund3 Þeir skelltu sér bara í sjósund á sumardaginn fyrsta, Hjörvar sonur minn og Róbert vinur hans. Stungu sér fram af smábátabryggjunni. Halldór Sveinbjörnsson ljósmyndari á bb.is smellti þessum myndum af þeim og var svo elskulegur að senda mér þær. Þeir eru býsna borubrattir þarna á fyrstu mynd þar sem þeir eru að stinga sér út í.

sjosund1 Hér mætti ætla að annar þeirra sé að hugsa um að hætta við - en úps, kominn of langt. Wink

sjosund2 Hraustlega gert hjá þeim drengjunum. Cool

 

Frétt um þessa karlmennskudáð er á bb.is (smellið HÉR).


Dimmitantar vekja gamla skólameistarann sinn

 dimmisjon08 Ég vaknaði við hávaða í morgun, gaul og trommuslátt. Klukkan ekki nema rétt rúmlega sex. Hundurinn var órólegur og þegar ég nuddaði stírurnar úr augunum rann það upp fyrir mér að vorboðarnir voru komnir fyrir utan húsið mitt. Dimmitantarnir úr Menntaskólanum á Ísafirði að kveðja gamla skólameistarann sinn.

Þegar ég kom út á svalirnar, heldur úfin og argintætuleg í morgunsárið, höfðu þau raðað sér upp. Um það bil fjörtiu sætir, litlir póstmenn - eða voru þau Super Mario ? - ég er ekki viss. En svo mikið er víst að þau brustu þau í söng: 

"Það er sárt að sakna, einhvers - lífið heldur áfram til hvers" sungu þau sterkum rómi, og héldu áfram: "Er ég vakna, Ó - Ólína þú er ekki lengur hér!"

Það var þung áhersla á Ó-ið og svo aukataktinn í Ólína. Augljóslega vel æft. Svo skelltu þau sér beint í "Gaudeamus" sem þau sungu með prýði og virtust kunna ágætlega.

Eins og fyrri daginn hlýnaði mér um hjartaræturnar. Eftir nokkrar kærleikskveðjur héldu þau svo för sinni áfram, og ég stóð eftir með kveðjuþela fyrir brjóstinu, og eitthvað í auganu.

Ennþá finnst mér ég eiga svolítið í þeim - og svo sannarlega eiga þau heilmikið í mér.

Heart

Takk fyrir heimsóknina elskurnar - megi lífið brosa við ykkur eins og sólin gerði í morgun.


Guðdómlegt veður!

ArnarfjordurAgustAtlason Það er guðdómlegt veður úti.

"Sól slær silfri á voga" söng Óðinn Valdimarsson í útvarpinu rétt áðan "sjáðu jökulinn loga" og um leið hringdi ég í Möggu vinkonu, eins og alltaf þegar þetta lag hljómar. Þá hringjum við hvor í aðra og syngjum saman með Óðni. Sama hvernig stendur á. Og það var SVO gaman að syngja þetta í morgun - útsýnið úr stofuglugganum hjá mér var ólýsanlegt.

Gullið morgunmistur yfir spegilsléttum sjó og snævi þakin fjöllin allt í kring. Innst í firðinum mókti selur á ísnum sem er óðum að hverfa og fuglarnir ýfðu vængi, hristu sig og köfuðu allt í kring. Lóan er komin, urtöndin, tjaldur og stelkur. Álftaparið með ungann sinn frá í fyrra.

Það er yndislegt að vera til á svona degi. Verst hvað myndavélin mín er takmörkuð, það þýðir ekkert fyrir mig að taka mynd til að sýna ykkur. Í staðinn set ég inn þessa fallegu mynd sem hann Gústi vinur minn (Ágúst Atlason) tók í vetur þegar fyrstu geislar sólar kysstu Arnarfjörðinn. Birtan í myndinni er svipuð því sem blasti við mér í morgun.

Guð gefi ykkur öllum góðan dag.


Flugvélagnýr í firðinum

bardastrond Jæja, þá er nú páskahelginni að ljúka. "Börnin" farin að tygja sig til ferðar eftir viðburðaríka, sólskinsdaga. 

Skutulsfjörðurinn hefur svo sannarlega skartað sínu fegursta þessa góðu páska - dimmblár og spegilsléttur. Á morgnana hefur sjófuglinn liðið letilega um hafflötinn og framkallað silfurþræði til beggja átta í kyrrð og þögn. Síðan hefur lífið smám saman færst yfir bæinn; skíðabrekkurnar fyllst af fólki, og bærinn iðað af mannlífi.

Sannkallaðir dýrðardagar.

En nú er ballið búið. Í morgun var enginn sjófugl á letilegu svamli í silfurslegnum haffleti - enda sjórinn orðinn úfinn og himininn grár.

Það er flugfélagnýr í firðinum. Einn af öðrum svífa stálskrokkarnir inn yfir byggðina og tylla sér niður skamma stund. Taka síðan flugið aftur og hverfa inn í grámann, með gesti helgarinnar innanborðs.

Jamm, þetta er lífsins gangur .... best að bretta upp ermar fyrir vinnuvikuna framundan. Enda langt til næstu páska.


Hjartsláttur á danssýningu

leysingar Það voru svo sannarlega "Leysingar" í dansatriðum þeirra stallstystra, Sögu dóttur minnar, Evu Mariu Kupfer og Tönju Friðjónsdóttur, sem þær sýndu Ísfirðingum í Edinborgarhúsinu í dag. Ég er ekki frá því að heyrst hafi stöku hneykslunarandköf í síðara verkinu - Sabotage#1 - þar sem Saga og Eva Maria hlykkjuðust um gólfið í undarlegustu stellingum og samsetningum, án tónlistar. Um miðbik verksins var Eva Maria skyndilega orðin kviknakin  - og maður skynjaði fremur en sá hvernig áhorfendur litu hver á annan. Woundering

Það skal viðurkennt að inntak verksins lá ekki í augum uppi - og sem listræn upplifun reyndi það á áhorfandann. "Dans" er eiginlega ofmæli um það sem þarna átti sér stað - í raun væri nær að tala um hreyfilist.

Hvað um það - ég er ekki frá því að farið hafi um suma í þessu tiltekna atrið. Þarna voru mæður með barnungar dætur sínar sem bjuggust kannski við einhverju öðru en einmitt þessu - voru kannski að bíða eftir "ballettinum".

Og ég verð að viðurkenna að  þegar Eva Maria var komin úr hverri spjör og farin að sparka í allar áttir - fylltist ég þeirri skelfilegu tilhugsun að kannski mynda Saga mín líka fara að rífa sig úr fötunum. Blush Mér leist satt að segja ekki á blikuna - og prísaði mig sæla þegar verkinu var lokið og hún a.m.k. alklædd. Ég meina ... við erum jú á Ísafirði, ekki í Amsterdam.

Fyrra verkið "Leysingar" var allt annars eðlis. Það dönsuðu þær Saga og Tanja við undirleik þríeykisins Melneirophreinia sem þeir skipa Gunnar Theodór Eggertsson, Hallgrímur Jónas Jensson og Hallur Örn Árnason. Dansverk og tónlist voru í sameiningu dramatísk og ljóðræn upplifun. Eiginlega varð ég ekki síður hrifin af tónlistinni en dansinum. Það verður bara að segjast eins og er að þessir strákar eru meiriháttar.

Saga og Tanja sýndu góðan samleik í þessum dansi. Þær voru vatnsdropar sem slitnuðu sundur, elskendur sem sameinuðustu og sundruðust, klaki sem bráðnaði, gróður sem spratt upp úr jörðinni, ungt fólk sem dansaði ... þær sameinuðust tónlistinni og hver annarri afar vel. Verkið snerti ýmsa strengi.

Á heildina litið er ég sátt.

Ég veit hinsvegar ekki hvort þær eru það mömmurnar sem sátu með litlu stelpurnar sínar og biðu eftir ballett-atriðinu. Það verður bara að koma í ljós. Nútímadans er eins og önnur nútímalist - hann getur verið bæði átakamikill og ögrandi. Þegar best lætur ýtir hann hressilega við áhorfandanum og skilur eftir einhverskonar eftirbragð sem lifir með manni - stundum lengi.

Bæði þessi dansatriði skildu eitthvað slíkt eftir sig - hvort með sínum hætti.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband