Skafla-Björn skal hópurinn heita

Ekkert jafnast á við nokkurra daga dvöl á Hornströndum. Hvergi er loftið hreinna, sjórinn blárri, fjöllin fegurri, víkurnar friðsælli.

Kjaransvík Ferðin okkar tók fjóra daga. Hún hófst í Veiðileysufirði þangað sem siglt var með okkur á föstudagsmorgni. Farangurinn hafði áður verið fluttur í Hlöðuvík og þangað var ferðinni heitið. Við  vorum sautján saman í hópi og fengum gott veður, sólskin en ekki mikinn hita. Það var ágætt, því manni hitnar á svona göngu. Leiðin lá upp úr Veiðileysufirði í Hlöðuvíkurskarð. Það var tiltölulega létt ganga, aflíðandi halli og ekki mikið erfiði. Efst í skarðinu var vindkul og næðingur, en ómótstæðilegt útsýni yfir Hlöðuvík.  Við stöldruðum við þarna, tókum myndir og hresstum okkur áður en haldið var niður snarbratta grjóturðina hinumegin. Sú leið er ekki fyrir lofthrædda, enda varð nokkrum í hópnum um að fara þetta. Þegar við komum á tjaldstæðið í Búðum undir kvöld, brá okkur svolítið í brún því farangurinn var ekki þar. Hann hafði verið settur í fjöruna all langt frá tjaldstæðinu, líklega 600-700 metra þaðan. Við vorum þreytt eftir gönguna og treystum okkur ekki til þess að bera tjöld og matarkistur yfir mýrarfláka, ár og fjörugrjót svo það varð þrautarlending að tjalda fyrir ofan sjávarkambinn þar sem dótið hafði verið sett af. Þetta var ekki besta tjaldstæði sem ég hef verið á, enda blautur jarðvegur og nokkur spölur í rennandi vatn. Klósettferðin tók 20 mínútur fram og til baka, ef menn vildu nýta sér þau þægindi - það var 1,4 km leið.

 Skálakambur08 Daginn eftir gengum við á Skálakamb og yfir í Hælavík.  Það var í þeirri ferð sem við rákum augun í tvo dularfulla díla sem hurfu úr fjallshlíðinni ofan við Hvannadalsvatn, eins og ég hef sagt frá í fyrri færslu. En við gengum á Hælavíkurbjarg þennan dag í dásamlegu veðri. Það var ólýsanlegt að standa efst á Hælavíkurbjargi, framundan dimmblátt hafið svo langt sem augað eygði, Hælavík á vinstri hönd og fagurmótaðir fjalladrangar í vesturátt. Við Saga dóttir mín settumst undir barð efst á brúninni og nutum útsýnisins dágóða stund - orðlausar báðar. Okkur gekk vel til baka - en ekki þarf að fara fleiri orðum um það sem síðar gerðist þegar víkur fylltust af þyrlum, flugvélum og björgunarbátum.

Á þriðja degi tókum við það rólega, enda uppgefin eftir atburði kvöldsins ogÍsbjarnarútkall næturinnar á undan, og ísbjarnarvaktina sem staðin var um nóttina. Við röltum yfir í Kjaransvík og vorum nokkra klukkutíma í þeirri ferð. Um kvöldið var fjara, og ég skrapp með Sögu dóttur minni og Pétri syni mínum í sandfjöruna inn af Búðum þar sem við skelltum okkur í sjóbað í lognöldunni. Við vorum svo heppin að geta notið veðurblíðu og kvöldkyrrðar á meðan. Á leiðinni til baka fór að rigna, og hvessa í framhaldi af því. Um nóttina gerði slagveðursrigningu. 

Við vöknuðum snemma á mánudagsmorgni, enda heimferðardagur og löng ganga framundan. Ætlunin var að ganga yfir á Hesteyri, 18 km leið, svo ekki veitt af tímanum til að pakka öllu hafurtaskinu, nesta sig fyrir daginn og bera dótið niður í fjöru. Tveir úr hópnum treystu sér ekki með í þessa göngu heldur ákváðu að bíða eftir bátnum og fylgja farangrinum.

Við vorum lögð af stað um kl. 10 um morguninn og sóttist ferðin vel. Pétur sonur minn var slæmur í hné - en í Búðum voru staddir þrír læknar með ferðafélagshópi. Þeir bjuggu um hnéð á honum og gáfu honum verkjalyf svo hann komst alla leið, klakklaust. Kann ég þessum heiðursmönnum bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Ferðin yfir til Hesteyrar gekk vel. Það hafði dregið úr rigningu og vindi, svo við gengum þetta í meinleysisveðri átta tímum. Vorum komin stundvíslega kl. 18 að bryggjunni á Hesteyri, en þangað átti báturinn að vera kominn um sama leyti. Hann kom tveim tímum síðar. Á Hesteyri var allt fullt af ferðafólki og ekki nokkur leið að setjast inn í hús. En við vorum svo heppin að geta beðið í þokkalegu veðri. Við notuðum tækifærið og skoluðum fætur í fjörunni - tókum nesti - og biðum svo á bryggjunni eftir bátnum. Það stóðst á endum að þegar við vorum komin um borð gekk yfir með rigningarhryðju og allir fjallatoppar voru þá horfnir inn í grámóskuleg úrkomuský.

heimleid (Small) Það var yndislegt að fara í sturtu þetta kvöld og leggjast í tandurhrein sængurföt heima hjá sér. Hjördís tengdamóðir mín - sú raungóða kona - var meira að segja búin að sjóða dýrindis kjúklingasúpu sem hún skildi eftir í potti á eldavélinni hjá mér ásamt nýbökuðu heilhveitibrauði. Það var ekki amalegt að næra sig á heitri súpunni eftir volkið. Heart

Í gærkvöld kom svo hópurinn saman heima hjá okkur Sigga - fjórtán manns - þrír gátu ekki verið með okkur vegna skyldustarfa og anna. Við grilluðum lambalæri og áttum góða stund saman. Það var glatt á hjalla og mikið hlegið.

Í tilefni af fimm ára afmæli gönguhópsins hefur honum nú verið gefið varanlegt nafn - enda þykir einsýnt að við munum ekki rata í önnur eins ævintýri og í þessari ferð. Skafla-Björn skal hópurinn heita. það nafn hefur nú þegar verið rist með rúnum í snæbreiðu á Hornstrandahálendinu.

 Smile

Ferðafélagar að þessu sinni voru (í stafrófsröð): Bergsteinn Baldursson, Bjarney Gunnarsdóttir, Edda Pétursdóttir, Einar Már Sigurðsson, Helga Magnea Steinson, Heiða Einarsdóttir, Hjörtur A. Sigurðsson, Kolbrún Jarlsdóttir, Kristín Böðvarsdóttir, Maríanna Friðjónsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Pétur Sigurgeir Sigurðsson, Pétur Sigurðsson, Ragnheiður Davíðsdóttir, Rakel Sigurbjörnsdóttir, Saga Sigurðardóttir og Sigurður Pétursson.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mér finnst þið alveg rosalega kúl og frábær.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.7.2008 kl. 21:44

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta hefur aldeilis verið magnað, gaman að allt skildi ganga svona vel. Kveðja vestur

Ásdís Sigurðardóttir, 23.7.2008 kl. 22:09

3 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Þessi ferð verður lengi í minnum höfð. Skafla-Björn samanstendur af frábæru fólki sem gefur þessum ferðum ómetanlegt vægi. Ég hlakka til að fara í gönguna að ári með stærra tjald og minni farangur - enda ekki skynsamlegt að ferðbúast með nesti sem myndi duga í meðalfermingarveislu, en það gerðum við, vinkonurnar þrjár sem urðum samferða vestur.Maður lærir alltaf sitthvað af hverri ferð. Takk fyrir að segja ferðasöguna svona vel, Ólína mín.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 23.7.2008 kl. 22:18

4 identicon

Bara að kvitta fyrir góðan lestur ......... já mér heyrist þetta nafn á hópnum hljómi bara vel  þetta verður örugglega ógleymanleg ferð.

kíki nú annað lagið á síðuna þína Ollý ... já og til hamingju með nýja hundinn og gangi þér vel að þjálfa hann .

kv Kiddý

Kiddý (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 23:33

5 Smámynd: Edda Agnarsdóttir

Skemmtilegt og hvað þið eruð dugleg!

Edda Agnarsdóttir, 24.7.2008 kl. 00:26

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Ólína ert þú eitthvað af þýskum ættum? Sjá :

http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2008/07/23/thyskir_utivistarmenn_sja_randyr_i_hverju_horni/

Skemmtileg grein hjá þérað vanda.

Sigurður Þorsteinsson, 24.7.2008 kl. 07:44

7 identicon

Gaman að lesa ferðasögu þína Ólína, ekki síst að sjá nöfn ferðafélaganna.  Við Helga M. Steinsson sungum mikið saman hér áður fyrr og í nótt dreymdi mig hana svo það var skemmtileg tilviljun að hún skyldi nefnd í pistli þínum. 

Drífa Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 10:19

8 identicon

Takk fyrir ferðasöguna elsku Ólína og takk til þín og allra ferðafélagana fyrir ógleymanlega ferð.

Hér eru nokkrar myndir: http://webmom.eu/Sitthvað/tabid/193/language/is-IS/Default.aspx

Maríanna Friðjónsdóttir (IP-tala skráð) 31.7.2008 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband