Komin aftur :-)

Jæja, þá er ég nú komin aftur að tölvunni - eftir laaaangt blogghlé, heila fimm daga. Það liggur við að ég finni fyrir andlegum harðsperrum eftir hvíldina. Grin  

En það sem hefur á daga mína drifið, frá því ég skrifaði síðast færslu hér, er nú ýmislegt, skal ég segja ykkur. 

Tengslanetið á Bifröst 

Herdis Á fimmtudag skellti ég mér suður til þess að vera mætt síðdegis á tengslanets-ráðstefnuna á Bifröst. Aldeilis hreint frábær ráðstefna og vel skipulögð hjá Herdísi frænku minni, sem á veg og vanda af þessu framtaki - nú í fjórða skipti, að ég held. Þarna voru 500 konur saman komnar og engin smá orka sem leystist úr læðingi -- 6,1 á Richtersskala, eins og íbúar Suðvesturhornsins urðu varir við þegar jörðin skalf þennan sama dag. Raunar missti ég af þessu eiginlega, því ég sat með Maríönnu vinkonu minni í bíl á leið milli Borgarness og Bifrastar. Við urðum ekki varar við neitt.

Dásamlegur dagur við Þingvallavatn

 Jæja, að lokinni þessari orkumiklu ráðstefnu átti ég svolitla eftirráðstefnu með Maríönnu og Ragnheiði vinkonu, sem var illa fjarri góðu gamni (ein af þeim sem sat föst á flugvelli á Spáni vegna flugtafa hjá Heimsferðum). Við vinkonurnar þrjár skelltum okkur í sund á laugardagsmorgninum og síðan í hádegismat þar sem farið var yfir helstu tíðindi Tengslanetsins og spjallað um heima og geima.

Thingvallavatn Þegar skikkanlega var liðið á morguninn reyndi ég að ná sambandi við Dodda minn því mig langaði að hitta Daða ömmustrák. Enginn svaraði á því heimilinu þannig að ég ákvað að kíkja í kaffi til Möggu vinkonu. Hún dreif mig með sér í sumarbústað fjölskyldunnar við Þingvallavatn þar sem ég eyddi deginum ásamt hennar fólki. Konurnar í þessari fjölskyldu eru þvílíkir listakokkar að maður fær samstundis matarást á þeim - sérstaklega Guðrún "systir" (Möggu) og Erla "mín" (lesist, dóttir Möggu). Þeim brást ekki bogalistin að þessu sinni frekar en vanalega.

Útkallsæfing á Hellisheiði

Hellisheiði Óguðlega snemma á sunnudagsmorgni, eða fyrir klukkan níu, var ég svo mætt á útkallsæfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Hellisheiðinni þar sem ég lá milli þúfna og var "týnd" drjúgan hluta dags en "fannst" þó um síðir af kátum en lafmóðum Labrador-hundi sem slefaði yfir mig alla, aldeilis hróðugur með frammistöðu sína. Þetta var hann Funi, blessaður - kátur hundur og síhress. Blíða fékk svo að taka æfingu í lokin, og það gekk bara bærilega hjá henni.

Eftir æfinguna pakkaði ég pjönkum mínum og brunaði með Auði stallsystur minni og félaga í Vestfjarðadeild BHSÍ á P1000276 (Small) (Small)björgunarsveitarbílnum vestur á Ísafjörð. Með í för voru Sigrún, dóttir Auðar og Heiðdís vinkona hennar. Við spjölluðum mikið á leiðinni og bruddum nammi. Stelpurnar pískruðu í aftursætinu en við Auður tókum okkar hefðbundnu kjaftatörn á þessari leið. Villtumst þó ekki núna eins og einu sinni þegar við kjöftuðum frá okkur allt vit  Blush en ég tek skýrt fram að það var í niðamyrkri um hávetur. Whistling

Ekkert bloggað af viti

Sumsé - ég var orðin lúin þegar ég kom heim  með hundabúrið um miðnættið í gær. Dagurinn í dag fór svo í að  vinna upp ýmsa hluti, svo ég hef "ekkert" bloggað enn. Og það verður "ekkert" bloggað fyrr en á morgun. Wink Á alveg eftir að setja mig inn í alla hluti.

Sjáumst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir

Viðburðarríkir dagar að baki hjá þér, Ólína mín. Já, ég var sannarlega fjarri góðu gamni þegar þið stöllurnar nutuð þess þinga með hundruðum kjarnakvenna. Hlakka til að mæta að ári á Hvanneyri (verð sannarlega ekki erlendis dagana á undan) Nú hlakka ég til gönguferðarinnar á Hornströndum og endurnýja kynni mín af þessum stórbrotna og orkumikla landshluta - enda hvergi dásamlegra en á Vestfjörðum.

Ragnheiður Ólafía Davíðsdóttir, 3.6.2008 kl. 09:16

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Velkomin heim Ólína. 

Jenný Anna Baldursdóttir, 3.6.2008 kl. 10:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband