Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Felast gæði í stórum lausnum?
25.2.2008 | 10:34
Í gær sat ég málþing um stóriðnað á Vestfjörðum. Ekki veit ég af hverju nafnið "olíuhreinsistöð" var ekki haft í yfirskrift þess, því auðvitað snerist það aðeins um olíuhreinsistöðina margumtöluðu sem Íslensku hátækniiðnaður vill setja niður í Arnarfirði eða Dýrafirði.
Þetta var gagnlegt þing og margt sem kom þar fram. Fjórðungssamband Vestfirðinga á þakkir skilið fyrir framtakið.
Þess var gætt að sem flest sjónarmið kæmu fram og málið var rætt á upplýsandi nótum - sem er lofsvert. Þarna voru mættir fulltrúar Íslensks hátækniiðnaðar, Landverndar, Samtaka Atvinnulífsins, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Auðlinda og umhverfisskrifstofu Utanríkisráðuneytisins, Landsnets, Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri og fleiri sem skiptust á skoðunum.
Smári Geirsson, bæjarstjóri í Fjarðarbyggð sem beitti sér manna mest fyrir Kárahnjúkavirkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði á sínum tíma talaði þarna um reynsluna af stórframkvæmdum á Austurlandi. Smári er enn sannfærður um ágæti þessa alls, eins og kom glöggt fram í hans máli. En ég hjó þó eftir ýmsum varnaðarorðum sem hann lét sér um munn fara, reynslunni ríkari nú en áður. Hann varaði við hinum svokölluðu "ruðningsáhrifum", þegar litlu heimafyrirtækin víkja fyrir þeim stærri sem koma utan að. Þegar vinnandi hendur sogast á einn stað og vinnuaflsskortur verður í grunnþjónustu og víðar. Þegar inn á svæðið streymir nýtt vinnuafl - þar af 80% erlent fólk sem kemur um stundarsakir - og þörfin fyrir heilsugæslu, verslun, félagsþjónustu o.fl. eykst skyndilega.
Smári lagði herslu á að sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir byggju sig undir slíkar breytingar. Ja, það er nú það. Hvernig býr maður sig undir það að verða gjaldþrota þegar risarnir mæta á markaðinn? Hvernig búa sjúkrahúsin, leikskólarnir, skólarnir og önnur stoðþjónusta sig undir það að sinna skyndilega aukinni þjónustuþörf á sama tíma og mannafli þessara stofnana er sogaður eitthvert annað? Hljómar flókið - og er það áreiðanlega.
Karl Benediktsson landfræðingur talaði um þá tilhneigingu að leggja að jöfnu magn og gæði þegar rætt er um byggðaþróun. Hann benti á að íbúafjöldinn einn og sér segði ekki endilega til um góða stöðu byggðarlags, því ánægja íbúanna með lífið á staðnum hefði einnig sitt að segja. Hann ræddi um stöðu þekkingar fyrr og nú. Hér áður fyrr var uppskriftin að öflugu samfélagið þessi: Náttúruauðlind + fjármagn + vinnuafl ásamt góðri staðsetningu. Þetta væri ávísun á velmegun í samfélagi. Í dag eru hlutirnir eilítið flóknari og fleiri þættir sem koma inn.
Nýja uppskriftin felur í sér mannauð, sögu og menningu, félagsauð og fleira sem taka þarf með í reikninginn.
Karl ræddi líka hvernig hin þögla þekking (verkkunnátta og hefðir) ásamt brjóstviti og staðbundinni þekkingu sem segja má að tilheyri landsbyggð og dreifbýli - ætti undir högg að sækja andspænis hinni skjalfestu hnattrænu þekkingu sem t.d. birtist í vísindum og sem borgirnar státa af.
Náttúrugæði eru meðal þess sem ég sjálf myndi vilja setja inn í uppskriftina um gott mannlíf í byggðarlagi. Myndirnar hér fyrir neðan gefa svolitla hugmynd um það sem ég er að meina. Þær tók Ágúst Atlason í ljósaskiptunum í Dýrafirði fog Arnarfirði yrir skömmu.
Streitist við að sitja
23.2.2008 | 09:43
Einhverntíma var sagt um mann að hann "streittist við að sitja" og þótti hláleg lýsing. Nú á hún við í nýju samhengi. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson ætlar að sitja áfram. En guðfaðir nýja meirihlutans, Kjartan Magnússon, hann "kannaðist ekki við málið" !?
Þessi atburðarás er orðin svo ótrúleg að engu tali tekur lengur. Samkvæmt frétt á visir.is er óeiningin í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins um framtíðarleiðtoga svo mikil að Vilhjálmur telur sig geta neytt færis til að sitja áfram. Af því að samstarfsmenn hans geta ekki komið sér saman um að hlíta niðurstöðu prófkjörsins sem setti Hönnu Birnu í annað sæti. Og auðvitað geta þessir framapotarar ekki sætt sig við lýðræðislegar leikreglur - hva? Hvernig datt mér það í hug? Nei, Hanna Birna er náttúrulega kona - auðvitað kemur ekki til greina að fara að halda henni fram. Þó flestir fylgjendur flokksins vilji það samkvæmt skoðanakönnun. Gísli gaf náttúrulega kost á sér til forystu -eins og hann segir sjálfur.
Nei, Vilhjálmur ætlar að sitja sem fastast - og nú er skrattanum skemmt.
![]() |
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson víkur ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Clinton er ótrúlega flott!
22.2.2008 | 11:22
Sjáið bara þessa konu - hlustið á lokaorðin hennar í myndskeiðinu hér fyrir neðan. Svona talar sterkur karakter. Ég vona svo sannarlega að Hilary Clinton verði útnefnd sem forsetaefni demókrata. Um leið og ég harma það eiginlega að loksins þegar hyllir undir að kona eða þeldökkur maður komist í forsetastól þá skuli þau þurfa að keppa hvort við annað.
En þau eru frábærir frambjóðendur bæði tvö. Og gagnkvæmar yfirlýsingar þeirra um vilja til þess að starfa saman eftir kosningar - annað geti hugsað sér að vera varaforseti hjá hinu - eru þeim báðum til sóma.
Ég vona bara að það gangi eftir - þau eru glæsilegt forystupar.
![]() |
Vöngum velt yfir ummælum Clinton í kappræðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Össur lætur vaða
21.2.2008 | 20:42
Össur Skarphéðinsson er frábær rithöfundur. Ég hef verið aðdáandi hans á því sviði í fjölmörg ár enda fáum lagið að koma orðum að hugmyndum sínum og skoðunum á sama hátt og hann gerir jafnan. Að því leyti ber Össur nafn með réttu. Hann er örninn sem flýgur fugla hæst í forsal hinna pólitísku sviptivinda þegar hann beitir stílvopninu og tekst vel upp í skrifum um menn og málefni.
Gísli Marteinn Baldursson er frambærilegur pólitíkus sem ég hef lengi haft dálæti á - aðallega fyrir það hvað hann er kurteis og vel máli farinn. Ég hef gert mér þá mynd af manninum að hann sé fulltrúi uppvaxandi kynslóðar í stjórnmálum, kynslóðar sem vill nýjar áherslur og aðferðir. Vissulega þykist ég sjá - ekki síður en Össur - að Gísli Marteinn hefur að undanförnu viðhaft aðferðir í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa reynst flokknum farsælar og verða seint skilgreindar sem foringjahollusta. Hann er svosem ekki einn um það. Ég man ekki betur en allur borgarstjórnarflokkurinn að Vilhjálmi undanskildum hafi gengið á fund formanns og varaformanns flokksins til þess að ræða um foringja sinn að honum fjarstöddum. Þeim var veitt móttaka og áheyrn - án foringja síns. Hvað segir það um móralinn í flokknum?
Gísli Martein er ungur maður - hann er enn að læra. Og ungt fólk þarf að fá svigrúm til að læra í lífinu. Það ætti Össur að vita.
Bloggfærsla Össurar um Gísla Martein Baldursson er snilldar vel skrifuð - því verður ekki á móti mælt. En hún er óvægin - allt of óvægin. Og ég spyr mig hvað valdi þessum tilfinningaþunga hjá iðnaðarráðherra í garð "sjónvarpsdrengsins" sem hann nefnir svo.
Hitt er svo annað mál, að Össur er ekki þarna að gagnrýna samstarfsmann í ríkisstjórn - og því hljóma dulbúnar hótanir Sigurðar Kára Kristjánssonar um áhrif þessa á ríkisstjórnarsamstarfið hálf kjánalega. Össur er þarna að skrifa um skoðun sína á borgarmálefnum og pólitískum vandræðagangi í Reykjavík. Hann skrifar utan síns lögbundna vinnutíma, í eigin frítíma, á eigin bloggsíðu. Skrif hans ættu ekki að bifa meira við ríkisstjórnarsamstarfinu nú en skrif Björns Bjarnasonar á sínum tíma þegar hann réðist að foringja Samfylkingarinnar í borgarstjórn sem hann kallaði "pólitískan loddara" ef mig misminnir ekki.
Það var því hálf hjákátlegt að sjá Sigurð Kára standa á öndinni af hneykslan í sjónvarpinu í kvöld - ekki bara í ljósi þess hvernig Björn hefur skrifað - heldur vegna þess hvernig Sigurður Kári hefur sjálfur talað um aðra stjórnmálamenn. Ekki er ýkja langt síðan hann kallaði borgarfulltrúa í Reykjavík spilltasta og siðlausasta stjórnmálamann landsins, ef ég man rétt.
Sú orðræða sem hér er vísað til er hinsvegar leiðinleg. Persónulegar árásir eru blettur á íslenskri stjórnmálaumræðu - já og opinberri umræðu almennt og yfirleitt.
Þar er við ýmsa að sakast, ekki síst fjölmiðlana, sem alltaf eru tilbúnir að éta upp allt sem mönnum dettur í hug að segja um náungann, hversu rætið og ómerkilegt sem það er. Er þess skemmst að minnast þegar "hnífasettsmálið" fræga komst í umræðuna. Drottningarviðtal við framsóknarmann sem taldi sig eiga harma að hefna á öðrum framsóknarmanni vegna þess að sá síðarnefndi taldi þann fyrrnefnda ekki hafa kjörþokka. Þessu var sjónvarpað yfir landslýð - rætnum sögum um óskemmtileg samskipti þessara tveggja manna. Ég hef enn ekki fengið botn í það hvað okkur landsmönnum kom þetta við. En það er annað mál.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Þingmaður viðurkennir fjárhættuspil
21.2.2008 | 12:00
Birkir Jón Jónsson alþingismaður hefur "viðurkennt" að hafa spilað póker í spilavíti í miðbænum og gengið út með tugi þúsunda í gróða, að því er fram kemur á visir.is í dag. Júlíus Þór Júlíusson, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn segir framkomu þingmannsins fyrir neðan allar hellur en Birkir Jón mun hafa í hyggju að beita sér fyrir lögleiðingu pókers. Júlíus Þór trúir ekki sínum eigin eyrum.
Nú er ég svolítið hugsi. Ekki vil ég mæla því bót að þingmenn fremji lögbrot. Fjárhættuspil er jú bannað. En hvers vegna ætti ekki að lögleiða póker? Af því sumir ráða ekki við fjárhættufíkn sína?
Það er svo margt sem fólk ræður ekki við. Ættum við að hætta að selja áfengi af því sumir ráða ekki við fíkn sína í áfengi? Og svipta þar með fjölda fólks ánægjunni af því að geta notað áfengi sem löglegan nautnavarning? Það vita þeir sem þekkja, að fátt jafnast á við glas af góðu rauðvíni með vel matreiddri steik.
Varla verða allir fíklar sem kynnast póker. Eru ekki spilakassar út um allar þorpagrundir ein helsta fjáröflunarleið góðgerðarsamtaka? Við vitum að margir ráða ekkert við fíkn sína í spilakassa - aðrir skemmta sér við þá í hófi.
Kannski er þetta tóm vitleysa í mér - kannski er póker stórhættulegt djöfuls verkfæri sem steypir iðkendum sínum í glötun. Ég veit það ekki.
En mér finnst einhvernveginn að við getum ekki verndað alla þegna samfélagsins frá sjálfum sér, fíknum sínum og hvötum með lagasetningum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
Tímamótasamningar - jafnaðarhugsun
18.2.2008 | 20:35
Rétt í þessu var ég að hlusta á Steingrím Joð í Kastljósinu. Blekið vart þornað af undirritun nýrra kjarasamninga milli ASÍ og atvinnurekenda, samninga sem menn segja að marki tímamót. Ríkisstjórnin kom rausnarlega að málum og liðkað fyrir svo um munaði, og menn brosmildir og kátir - ný búnir að undirritað og svona. En Steingrímur er ekki alveg kátur. Hann langar augljóslega að "skemmileggja" aðeins stemninguna.
Já, þetta kom aðeins of vel út fyrir ríkisstjórnina fannst honum - og best að bíða ekki of lengi með aðfinnslurnar. Tímamótasamningar? Ja - prinsippið er auðvitað gott, sagði hann. Auðvitað alveg rétt að láglaunafólk fær meira en tíðkast hefur með þessu móti. Joóó, jooóó, útaf fyrir sig - en ríkisstjórnin átti að gera ennþá meira. Ennþá meira. Menn munu sjá það seinna, sko. Seinna, þó þeir sjái það ekki núna.
Sjálf hefði ég ekki trúað því þegar ég heyrði í formanni Rafiðnaðarsambandsins fyrir helgi að ríkisstjórnin væri á sömu stundu að leggja lokahönd á sitt rausnarlega útspil. Ég verð bara að viðurkenna það - enda held ég að Guðmundur rafiðnaðarformaður hafi ekki trúað sínum eigin augum þegar "sú gamla" loks hlammaði sínum skerfi á borðið: Hækkun persónuafsláttar, rýmra tekjusvigrúm vegna barnabóta, lækkun tekjuskatts fyrirtækja, hærri húsaleigubætur, hærri eignaskerðingamörk vaxtabóta, niðurfelling stimpilgjalda, fyrirheit um lækkun tolla og vörugjalda og hækkun atvinnuleysisbóta. Hana, hafið þetta - þið hljótið að geta samið núna! Eins og feitlagin, ljúf frænka, sem reddar barnaafmæli.
Þetta eru óvenjulegir samningar - andinn sem svífur yfir þessum samningum minnir svolítið á gömlu þjóðarsáttarsamningana. Verkalýðshreyfingin hefur tekið þann pól í hæðina að líta til almennra kjara og aðstæðna í efnahagslífinu í stað þess að kalla einungis eftir launahækkunum. Í þessum samningum er verið að horfa á samhengi hlutanna og knýja aðila til samábyrgðar. Í því er fólgin ákveðin - tja, hvað á maður að kalla það - frelsun er sennilega rétta orðið. Frelsun undan gamalli og úr sér genginni kröfugerðarpólitík - sem sum stéttarfélög eru enn allt of upptekin af, því miður.
Atvinnurekendur hafa gengið að samningaborði með sama hugarfari. Sameiginlega hafa aðilar vinnumarkaðarins slegið nýjan tón sem vonandi mun hafa áhrif til framtíðar, með auknum jöfnuði og um leið jafnvægi í efnahagslífinu og þar með almennum kjarabótum launafólks.
Já, ég gæti bara trúað að þegar fram í sækir verði þessi samningsgerð álitin hornsteinn að nýrri hugsun í íslenskri stéttabaráttu. Og það er vel.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (38)
Gúrkublogg um Villa
13.2.2008 | 10:13
Ég er orðin uppgefin á þessu máli hans Villa Vill, þannig hafa þeysisprettirnir í þeirri umræðu verið að undanförnu. Á meðan lúra nokkrir meðábyrgir aðilar í þagnarskjóli, því athyglin hefur öll beinst á einn veg.
Ég horfði á Ólaf F í Kastljósi um daginn - tók eftir því að hann notaði orðið "meirihluti" í hvert sinn sem fréttamaðurinn spurði um Vilhjálm Þ. Hvort hann bæri traust til Vihjálms - ja, hann bar fullt traust til meirihlutans. Þetta væri traustur meirihluti ....
Nýjustu fréttir eru þær að Deiglan hafi snúið baki við fyrrum leiðtoga sínum. Þá er mikið sagt.
Jæja, en ég brá mér á björgunarhundaæfingu í gærkvöld. Það var fallegt veður og tunglbirta. Langt síðan maður hefur séð himininn. Við erum að undirbúa okkur fyrir landsæfingu sem haldin verður á Snæfellsjökli um næstu helgi. Svo verður viku námskeið hér fyrir vestan í mars. Alltaf nóg að gera
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Óstarfhæf borgarstjórn.
11.2.2008 | 15:45
Það er stjórnarkreppa í Reykjavíkurborg. Sjálfstæðisflokkurinn ekki stjórntækur. Oddviti hans, rúinn trausti, streitist við að sitja sem fastast, þrjóskur eins og skólastrákur, eftir að hafa orðið uppvís að ósannindum og blekkingum, ítrekað - að ekki sé nú minnst á umboðsleysi hans við stórar ákvarðanir.
Borgarfulltrúar hins svonefnda Tjarnarkvartetts hafa svarist í fóstbræðralag, og lýst því yfir að þeir muni ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum eftir allt sem á undan er gengið. Núverandi meirihlutasamstarfi veltur á einum einasta borgarfulltrúi sem hefur ekki einu sinni næstu menn á lista til stuðnings við sig, og má ekki fá kvef, þá er kominn nýr meirihluti! Sá fjórði á þessu kjörtímabili.
Það er aðeins eitt orð yfir ástandið: Stjórnarkreppa. Borgarstjórn Reykjavíkur er ekki starfhæf eins og á stendur.
Alþingi Íslendinga ætti að sjá sóma sinn í því að höggva á þennan hnút og setja bráðabirgðalög sem heimila nýjar kosningar í Reykjavík. Fyrir því er fordæmi frá árinu 1934 þegar bæjarstjórn Ísafjarðar var óstarfhæf.
Þeir borgarfulltrúar sem sitja í núverandi meirihluta verða einfaldlega að endurnýja umboð sitt. Það er ekkert annað í stöðunni. Það hlýtur hver heilvita maður að sjá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Hvað var nú þetta?
11.2.2008 | 15:09
Þetta er nú orðinn meiri farsinn: Vilhjálmur einsamall á blaðamannafundi, meira en klukkutíma of seinn, með enn eina yfirlýsinguna: Hann ætlar ekki að hætta. Honum finnst hann hafa axlað sína ábyrgð - af því hann missti meirihlutann í október - meirihlutann sem hann náði svo aftur með bolabrögðum í janúar. Honum finnst að hinir eigi líka að axla ábyrgð. Af hverju axla þeir ekki ábyrgð? spyr hann eins og skólastrákur sem vill draga fleiri með sér í fallinu. Af hverju bara ég??
Nei, þetta er bara orðin algjör vitleysa. Ég held ég taki undir með manninum sem sagðist dást að getu Vilhjálms á einu sviði því, eins og hann sagði: "Alltaf þegar ég held að hann komist ekki neðar þá birtir hann nýja yfirlýsingu ... og grefur sig enn dýpra!"
![]() |
Vilhjálmur: Hef axlað ábyrgð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Háskóli er bara hugtak!
11.2.2008 | 12:14
Ný framhaldsskólalög eru nú í deiglunni. Umsagnaraðilar eru óðum að kunngjöra athugasemdir sínar við frumvarpið og nokkuð ljóst að sínum augum lítur hver á silfrið. Ekki ætla ég mér þá dul að fjalla í stuttu málið um lagafrumvarpið í heild sinni, enda hafa til þess bærir aðilar skilað inn ítarlegum greinargerðum þar að lútandi.
Mér rennur hinsvegar blóðið til skyldunnar að fjalla um eitt ákvæði þess sem ég tel að feli í sér athyglisverða nýjung í skólastarfi. Mér er málið skylt enda hef ég tjáð mig á svipuðum nótum áður. Ég er að tala um 20. grein frumvarpsins. Samkvæmt henni er framhaldsskólum heimilt að bjóða nám í framhaldi af skilgreindum námslokum á framhaldsskólastigi. Þetta nám getur veitt sérstök eða aukin réttindi, það skal metið í einingum og þegar við á í námseiningum háskóla segir þar. Ráðherra skal staðfesta námsbrautarlýsingar fyrir slíkt nám og heiti viðkomandi prófgráða.
Frumgreina- og háskólakennsla við framhaldsskóla
Að því er best verður séð mun þetta ákvæði opna framhaldsskólunum þá leið að taka upp undirbúnings- eða frumgreinanám fyrir háskóla, jafnvel nám á grunnháskólastigi. Sé þetta réttur skilningur er um að ræða merkilega nýjung sem gefur möguleika á nýjum tengingum milli framhaldsskólanna og háskólastigsins í landinu.
Ég hef lengi verið talsmaður þess að menntamálaráðuneytið heimilaði íslenskum framhaldsskólum að bæta við námsframboð sitt eftir stúdentspróf og taka upp kennslu á grunnháskólastigi. Á málþingi um uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum vorið 2004 færði ég fyrir þessu rök. Sömuleiðis í Morgunblaðsgrein stuttu síðar. Á þeim tíma mætti hugmyndin hóflegri tortryggni sem vonlegt er því allar breytingar í skólastarfi þurfa að sjálfsögðu yfirvegun og umhugsun. Það gleður mig því sannarlega að sjá þennan möguleika settan fram í því lagafrumvarpi um framhaldsskólana sem nú liggur fyrir þinginu.
Hlutverk framhaldsskóla landsins er í stöðugri þróun og endurskoðun. Á undanförnum árum hafa skilin milli grunnskóla og framhaldsskóla orðið óljósari með tilkomu almennra námsbrauta við framhaldsskólana sem segja má að séu nokkurskonar brú milli skólastiga. Það er því vissulega tímabært að huga að tengingunum hinumegin líka, þ.e. á milli framhaldsskólans og háskólastigsins.
Hvað er háskóli?
Lögum samkvæmt er háskóli stofnun sem jafnframt sinnir rannsóknum ef svo er kveðið á í reglum um starfsemi hvers skóla. Háskóla er ætlað að veita nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum og til þess að gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu þar sem æðri menntunar er krafist. Háskólum er ætlað að miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar (lög nr. 136/1997, 2. gr.).
Allir háskólar gera ákveðnar kröfur til þess að nemendur tileinki sér ákveðin vinnubrögð í rannsóknar og námsaðferðum, sem og að þeir búi yfir ákveðinni undirstöðuþekkingu sem alla jafna er kennd á fyrstu stigum háskólanáms. Þeir sem lokið hafa meistara- eða kandídatsprófi úr háskóla eru þannig færir um að kenna á háskólastigi. Það eru því fyrst og fremst þekkingarkröfur sem gerðar eru til háskólakennara. En eins og við vitum er það ekkert skilyrði að sjálf háskólakennslan fari fram innan veggja stofnunar sem nefnist háskóli háskóli er auðvitað bara hugtak.
Fram hefur komið að Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum átt fullt í fangi með að sinna sívaxandi nemendafjölda, þar sem mestur þunginn hvílir á svokölluðu grunnnámi háskólastigsins. Í raun og veru er ekkert því til fyrirstöðu að þessar undirstöðugreinar séu kenndar annarsstaðar, t.d. í framhaldsskólunum, og þá sem eðlilegt framhald stúdentsprófs. Er enginn vafi á því að það myndi efla mjög menntastarf á landsbyggðinni að koma upp grunnháskóladeildum við framhaldsskólana, einkum á stöðum þar sem formlegar háskólastofnanir eru ekki til fyrir og íbúar ennfremur of fáir til þess að standa undir slíkum stofnunum.
Með því að festa ofangreint ákvæði í lög um framhaldsskóla má segja að opnast hafi nýjar dyr milli skólastiga og einnig nýjar leiðir í menntunarmöguleikum á landsbyggðinni. Það er fagnaðarefni.
(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu s.l. fimmtudag)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)