Þingmaður viðurkennir fjárhættuspil

birkirjonjonsson Birkir Jón Jónsson alþingismaður hefur "viðurkennt"  að hafa spilað póker í spilavíti í miðbænum og gengið út með tugi þúsunda í gróða, að því er fram kemur á visir.is í dag. Júlíus Þór Júlíusson, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn segir framkomu þingmannsins fyrir neðan allar hellur en Birkir Jón mun hafa í hyggju að beita sér fyrir lögleiðingu pókers. Júlíus Þór trúir ekki sínum eigin eyrum.

Nú er ég svolítið hugsi. Ekki vil ég mæla því bót að þingmenn fremji lögbrot. Fjárhættuspil er jú bannað. En hvers vegna ætti ekki að lögleiða póker? Af því sumir ráða ekki við fjárhættufíkn sína?

Það er svo margt sem fólk ræður ekki við. Ættum við að hætta að selja áfengi af því sumir ráða ekki við fíkn sína í áfengi? Og svipta þar með fjölda fólks ánægjunni af því að geta notað áfengi sem löglegan nautnavarning? Það vita þeir sem þekkja, að fátt jafnast á við glas af góðu rauðvíni með vel matreiddri steik.

Varla verða allir fíklar sem kynnast póker. Eru ekki spilakassar út um allar þorpagrundir ein helsta fjáröflunarleið góðgerðarsamtaka? Við vitum að margir ráða ekkert við fíkn sína í spilakassa - aðrir skemmta sér við þá í hófi.

Kannski er þetta tóm vitleysa í mér - kannski er póker stórhættulegt djöfuls verkfæri sem steypir iðkendum sínum í glötun. Ég veit það ekki.

En mér finnst einhvernveginn að við getum ekki verndað alla þegna samfélagsins frá sjálfum sér, fíknum sínum og hvötum með lagasetningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Hver tapaði þessum tugum þúsunda sem þingmaðurinn gekk út með?

Heimir Lárusson Fjeldsted, 21.2.2008 kl. 12:11

2 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Einhver sem hefur gaman af því að taka áhættu og leggja undir. Það er ekki eins og Birkir Jón hafi rænt þessum peningum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.2.2008 kl. 12:14

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Birkir Jón útskýrði það í viðtali að hann teldi sig ekki hafa ramið lögbrot samkvæmt núgildandi lögum þótt hann viðurkenndi að hafa verið á "gráu svæði."

Samkvæmt lögum er það sá sem fyrir pókernum stendur og veitir til þess aðstöðu sem þarf að svara fyrir það.

Nú er það svo að niðurstaða þeirra sem best þekkja til fíknimála af öllum toga er sú, að því auðveldara sem það er að nálgast fíknina, í þessu tilfelli pókerspilið, þess útbreiddara verði hún og erfiðari við að eiga. Fyrir þessu kunna þó að vera takmörk, samanber gagnsleysi algers áfengisbanns fyrr á árum. 

En ég sé ekkert að því að farið sé yfir það á löggjafarsamkomunni hvernig þessum málum sé best fyrir komið. Til þess er Alþingi.

Fíkn getur birst í mörgum mynum og ég hygg að við eigum að forðast að kasta miklu grjóti úr glerhúsum okkar en einbeita okkur að upplýstri og yfirvegaðri umræðu um þessi efni.  

Ómar Ragnarsson, 21.2.2008 kl. 12:25

4 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Dálítið skondið.  Það eru ekki allir fíklar þó þeir bregði sér í Casino.  Minn elskulegi spilar póker einu sinni í viku með sínum vinum hér og stundum græðir hann og stundum tapar, ég spyr aldrei neitt um þetta enda eru engar stórupphæðir þarna í gangi.  Bara svona ,,boys night out".  Ég er að undirbúa hér Casino kvöld eftir tvær vikur fyrir nokkra góða vini, sjálf spila ég ekki neitt að ráði, einstaka sinnum 24. Þarna er farið út að borða og síðan spilað eitthvað fram eftir kvöldi.  

Fórum einu sinni með íslenskum vinum okkur í skemmtisiglingu um Carbia hafið.  Í stað þess að fara með vinunum eftir kvöldmatinn á eitthvert leiðindar show fór minn í Casino og ég hélt mig í koníakstofu og hlustaði á klassíska músík. Það fór ekkert fram hjá okkur að vinir okkar hneyksluðust dálítið yfir þessu.  Í fyrsta lagi fannst þeim við ættum að fara með þeim á þessi hrútleiðinlega show og í öðru lagi áttum við hjónin að vera ,,saman" og Casino var eitthvað sem þau skildu ekki enda kom í ljós að þau höfðu aldrei stigið fæti inn á þannig stað, það var bara ekki í myndinni og þau fyrirlitu fólk sem vogaði sér að taka upp budduna og spila.  Eigum við að kalla þetta þekkingarleysi og smáborgarahátt?  Humm... 

Ía Jóhannsdóttir, 21.2.2008 kl. 12:42

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Enda er svosem enginn að mæla því bót að hann skyldi hafa spilað (þó mér finnist það nú ekki alvarlegur glæpur). Sjálfur telur hann sig þó hafa verið á gráu svæði þar sem lögin kveða á um bann við því að reka spilasali af þessu  tagi. Lögin beinast því að þeim sem hagnast á starfsemi spilavíta, ekki þeim sem sækja þau.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 21.2.2008 kl. 12:59

6 Smámynd: Tiger

  Mér finnst í nokkuð góðu lagi að leyfa póker ef fyllsta öryggis sé gætt og að ekki verði hægt að tapa heilu auðæfunum í slíku spili. Nóg er að heyra af fólki sem spilar frá sér heilu húsin, fjölskyldurnar og já, bara aleiguna.

Undir ákveðnum reglum eða eftirliti ætti alveg að ganga að leyfa póker uppi á borði - því ella myndi það felast og grassera á bakvið tjöldin og þar myndu fíklar tapa sér og sínu.

P.s. Þakka þér Ólína fyrir að samþykkja mig sem bloggvin.

Tiger, 21.2.2008 kl. 13:16

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Auðvitað á að leyfa póker, sem og önnur fjárhættuspil. Síðan á einfaldlega að setja skýrar reglur um starfsemi spilahúsa, rétt eins og um starfsemi vínveitingahúsa.

Brjánn Guðjónsson, 21.2.2008 kl. 13:39

8 identicon

Ólína, finnst þér eðlilegt að tala um "alvarlega" glæpi eða ekki "alvarlega" glæpi þegar um þingmenn er að ræða? Verða þeir ekki að vera fyrirmynd almennings og fara eftir lögum og reglum landsins?

Fjárhættuspil er ólöglegt á Íslandi. Það er líka Hass. Finndist þér eðlilegt ef að þingmaður keypti og reykti hass og lýsti því svo yfir að honum finndist að það ætti að lögleiða það? Það verða nefnilega ekki allir háðir hassi sem að reykja það. Það sama mætti segja um ýmislegt, t.d. vændi. Ef að þingmaður færi og keypti sér vændiskonu og lýsti því svo yfir að honum finndist að það ætti að gera vændi löglegt.

Skaðinn af fjárhættuspilum er meiri en almenningur gerir sér grein fyrir. Þú sérð ekki spilafíkn utan á fólki eins og þú getur séð áfengi eða eiturlyf á þeim. Heilar fjölskyldur eru tættar í sundur vegna spilamennsku ástvinar og þetta er þögullt en stórt og mikið vandamál.  Fólk missir húsin sín, fyrirtækin sín, eyðileggur sambönd og tapar sjálfsvirðingunni.

Ég er sammála því að forræðishyggja er ekki góð og það á ekki að stjórna öllum og öllu með lögum, en það er ástæða fyrir því að lög eru almennt sett. Þetta er ekki svona svart og hvítt eins og þú leggur til. Ég mæli með því að fólk kynni sér stöðu mála áður en það dæmir.

Linda (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 15:54

9 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Er póker eitthvað verri en önnur spil? Auðvitað breytir það engu um spilafíkn sums fólks þó þessi framsóknarmaður hafi gaman af að grípa í spil. Á að banna rauðvín með steikinni af því sum okkar kunna illa með áfengi að fara?Undirritaður greip nú stundum í póker í gamla daga. Og auðvitað lögðu menn smávegis undir.  Spilaði m.a. við gamla góða Villa þegar við og aðrir laganemar höfðum lestraraðstöðu á Aragötunni. Þetta hefur ekki skaðað okkur þó 40 ár séu liðin.

Sigurður Sveinsson, 21.2.2008 kl. 16:27

10 identicon

Að kaupa og reykja hass er ólöglegt á Íslandi.
Að kaupa þjónustu vændiskonu er ólöglegt á Íslandi.

Að taka þátt í fjárhættuspili er EKKI ólöglegt á Íslandi. 

Það er hinsvegar ólöglegt að gera sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu.
Það er einnig ólöglegt að afla sér tekna með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði sem það hefur umráð yfir.

Birkir Jón gerðist því ekki brotlegur við nein lög.  Það gerðu hinsvegar þeir sem ráku spilavítið (svo lengi sem þeir höfðu beinar eða óbeinar tekjur af spilamennskunni) en ef þeir teljast hafa brotið lögin þá hljóta þeir sem stóðu fyrir briddsmótinu einnig að hafa gerst lögbrjótar þar sem þeir tóku einnig við peningum í formi þátttökugjalds og úthlutuðu verðlaunum skv. úrslitum mótsins.

Róbert Arnar Úlfarsson (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 16:36

11 Smámynd: halkatla

mér finnst ekki að það eigi að "leyfa fjárhættuspil" enda er það alltof opin yfirlýsing, en að leyfa póker er sjálfsagt, það er hæfni og æfing sem spilar inní þar einsog í mörgum öðrum "leikjum" og mörgum spilum og að gera mál úr þessu finnst mér alltof gróft. En það er bara mín skoðun, ég sé enga ástæðu til að setja mig meira inní þetta þarsem ég spila ekki póker né er ég fjárhættuspilafíkill ;)

p.s steikur og annar matur bragðast alltaf best með gosi ;) 

halkatla, 21.2.2008 kl. 16:42

12 identicon

Vændi er löglegt á Íslandi eftir mínum bestu heimildum. Svo ætti líka að gilda um fjárhættuspil, sama hvort það sé póker, spilakassar eða bingó í vinabæ.

Gúndi (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 16:59

13 identicon

Róbert, vændi er löglegt á Íslandi fyrir einstaklinga. Almenn hegningarlög voru uppfærð á síðasta Alþingi og þar var þessi klausa samþykkt.

206. gr. [Hver sem hefur atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra skal sæta fangelsi allt að 4 árum. 

Annars er ég sammála þér Ólína, fólk verður að taka ábyrgð á eigin lífi, það er ekki hægt að hafa endalaust vit fyrir fullorðnu fólki.

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 17:21

14 identicon

Þó Ómar og fleiri skjóti skili fyrir BJJ þá er morgunljóst að verknaðurinn er einnig siðferðismældur. Það er einfaldlega þannig að siðferðisstikan er hærri gagnvart þeim er sinna dóms-framkvæmda eða löggjafarvaldi. Ég kast ekki steinum úr gerlhúsi enda hvorki keypti mér vændi eða spilað fjárhættupóker.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 18:18

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er sammála Gísla að meiri kröfur meiri gera til þeirra sem sinna löggjafar- og dómsvaldi en annarra.

Þegar ég tala um glerhús er ég ekki beinlínis að segja að glerhúsin okkar séu fólgin í vændiskaupum eða fjárhættupóker heldur höfum við öll, held ég, farið inn á önnur "grá svæði" laganna ef ekki lengra að ekki sé talað um athæfi okkar út frá siðferðilegri mælistiku. 

Ómar Ragnarsson, 21.2.2008 kl. 19:27

16 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Vatn er best með mat. Áfengisneyslu skyldi síður blanda öðrum verkum. Hvort heldur það er að aka bíl eða borða steik. Vínið er best eitt og sér.  

Brjánn Guðjónsson, 21.2.2008 kl. 19:31

17 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

takk fyrir að taka bónorðinu !

Bless í bili 

steina 

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 21.2.2008 kl. 19:55

18 identicon

Sæl Ólína,

Ég er sammála þeim sjónarmiðum sem þú setur fram í pistli þínum. Sé engan mun á að spila um peninga í spilakassa eða í póker. Að segja að póker sé eitthvað hættulegri fyrir spilafíklana en spilakassi eða bara gamli góði Svarti Pétur er bara þvæla og rugl.

Mér finnst bara allt í lagi að fólk spili um peninga ef það langar til og er aflögufært. Það er betra að leyfa svona starfsemi og setja um hana reglur sem spilastaðirnir verða að virða. Annars blómstrar þessi starfsemi bara í skúmaskotum eftirlitslaus, utan við lög og reglur. 

Ég spilaði Matador af kappi í æsku minni við félaga mína. Við keyptum heilu göturnar og byggðum þar hótel og græddum vel. Við urðum stundum gjaldþrota líka. Enginn okkar varð samt spilafíkill.

Spilið sjálft skapar ekki spilafíkilinn, heldur blundar fíknin í sumum líkt og alkóhólisminn. Og fíkillinn finnur alltaf leið til að svala löngun sinni og honum er nokk sama hvort hún er lögleg eða ekki. Boð og bönn skipta hann engu máli.

Ég mæli eindregið með lögleiðingu spilavíta. Því fyrr, því betra. 

Með kveðju,

Kári Lár. 

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 20:48

19 identicon

Hélt ég hefði sett inn svipaða athugasemd í gær, en sé hana ekki núna:

Kjarni málsins er að þingmaður á löggjafarsamkomu tók þátt í ólöglegu athæfi.

Annað mál og óskylt er hvort Ólína eða aðrir vilji gera greinarmun á pókerspili og happadrættum eða spilakössum, líkt og við gerum greinarmun á áfengi og ýmsum öðrum fíkniefnum.

Rómverji (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 08:57

20 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Rómverji - athugasemdin þín í gær fór inn á bloggið mitt á visir.is - ekki moggabloggið. En nú er það sumsé komið á báða staði.

Kveðja

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 22.2.2008 kl. 10:37

21 identicon

Það er látið eins og Birkir sé eini stjórnmálamaðurinn sem brotið hafi af sér.  Ég veit ekki betur enn að margir þingmenn hafi hlotið dóm fyrir ölvunarakstur.  Er ekki ölvunarakstur dauðans alvara??

Ég sé í gegn um þetta.  Af því að Birkir Jón er Framsóknarmaður, þá er gert mikið úr þessu.  Ef um Samfylkingarþingmann hefði verið að ræða, þá væri málið allt öðru vísi.  Þá hefði málsmetandi Samfylkingarfólk snúist til varnar og réttlætt viðkomandi fyrir yfirsjón sína og sagt að lögleiða ætti Pókerspil eins og í öðrum Evrópulöndum samfara inngöngu í Evrópusambandið.

Ps.  Ég hef oft velt fyrir mér ef Framsóknarflokkurinn væri ekki til.  Hugsið ykkur þá pólitísku- og þjóðfélagslegu krísu sem það skapaði.  Hvaða stjórnmálaflokk ætti þá að skammst út í??  Hvaða stjórnmálaflokk ætti þá að kenna um gömul mistök?  Og hvaða stjórnmálaflokki ættu handritshöfundur, skemmtikraftar og leikarar að gera grín af? 

Gunnar Afdal (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 11:54

22 Smámynd: Ari Björn Sigurðsson

Oft virðast stórir úlfaldar spretta úr litlum mýflugum.

Í fyrsta lagi er alveg ljóst að Birkir var ekki að brjóta af sér, það eru ekki til nein lög sem banna mönnum að spila á spil, hvort sem það er upp á peninga eða ekki. í öðru lagi get ég ekki séð að þetta sé nein spurning um siðferði, er siðferðislega rangt að spila?

Ef Birkir er siðlaus glæpamaður vegna þess að hann tók í pókerspil, þá erum við öll siðlausir glæpamenn.

Ari Björn Sigurðsson, 22.2.2008 kl. 14:04

23 Smámynd: Egill Óskarsson

Birkir er ekki frekar en aðrir að fara að berjast fyrir því að póker verði löglegt spil, enda er póker hvergi bannaður í lögum. Fyrirkomulagið sem spilað var eftir á mótinu sem Birkir var á nú um daginn gerir pókerleikinn hans heldur ekki ólöglegan, enda er þetta nákvæmlega sama fyrirkomulag og í mörgum briddsmótum.

Egill Óskarsson, 22.2.2008 kl. 18:04

24 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ef 0,5% fást til að viðurkenna spilafíkn í könnun er nokkuð ljóst að mun fleiri eru raunverulega spilafíklar. Þetta er mjög falið vandamál og erfitt að kanna tölfræðilega.

Ljóst er að fólk getur spilað í happdrætti DAS eða háskólans áratugum saman án þess að það verði að stjórnlausri fíkn. Póker, sérstaklega netpóker hefur sýnt sig að vera mun líklegri til að ýta undir spilafíkn.

Mér finnst hins vegar málið flóknara en svo að hægt sé að afgreiða það með almennum frjálshyggju prinsippum.

Spilafíkn hefur verið opinberlega viðurkenndur geðsjúkdómur á Íslandi í meira en 20 ár.

253. grein almennra hegningarlaga leggur bann við því að nýta sér bágindi annarra til að hafa af þeim fé. Viðurlög eru fangelsisvist allt að 2 árum.

Að vera fársjúkur spilafíkill eru svo sannarlega bágindi sem fólk finnur fyrir. Hjá sumum reynist sjúkdómurinn vera bannvænn.

Allir sem til þekkja vita að uppistaðan af viðskiptavinum spilakassa eru fastakúnnar. Bara það að hætta að taka seðla í spilakössum í Noregi minnkaði tekjur af þeim um 40%. Spilafíklar margir hverjir hafa ekki lengur traust í bönkum til að hafa kort eða eru tregir til að láta það sjást á bankayfirlitum í hvað peningarnir fara. Sjá frétt í Mbl. í dag 23. feb. '08.

Núverandi rekstrarform spilakassa á Íslandi er því ekkert annað en brot á hegningarlögum.

Margir Íslendingar segjast aðhyllast kristin lífsgildi sem felast meðal annars í umhyggju fyrir náunganum.

Ef þessi náungar eru 1% þjóðarinnar sem veikjast af spilafíkn hvað þá? Erum við hin 99% tilbúin til þess að að neyta okkur um þá skemmtun að spila í spilakössum til þess að koma þessum meðbræðrum okkar til hjálpar?

Eða er málið bara það að við erum útbelgd af náungakærleik svo lengi sem við þurfum ekkert að leggja á okkur til að sýna hann í verki?

Finnur Hrafn Jónsson, 23.2.2008 kl. 14:26

25 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Mér skildist nú að Birkir hefði spilað 21 en ekki póker. Það er ekki alveg sama spilið. Hins vegar er ég forvitinn um spilið 24 sem Ingibjörg Jóhannsdóttir í athugasemd nr. 4 hér að ofan kveðst spila.

Páll Geir Bjarnason, 23.2.2008 kl. 17:34

26 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Það er gott og blessað að geta vísað í vísindalegar rannsóknir. Enn betra er að vísa í staðreyndir. T.d. það sem kom fram í áðurnefndri frétt Mbl. í dag, að helmingsfækkun hefði orðið í hópi þeirra sem leita sér aðstoðar vegna spilafíknar eftir að spilakassar voru bannaðir í Noregi. Það passar ekki beint við vísindaniðurstöður um að bönn hafi engin áhrif á fíkla.

Ég hefði kannski mátt nefna það að ég tel heldur ekki að hefðbundin forsjárhyggjuprinsipp eigi alltaf við. Áfengi er gott dæmi um það. Ný vara á markað jafn heilsuspillandi og áfengi fengi aldrei leyfi til að vera seld. Samt er ekki raunhæft að banna sölu á áfengi. Löng hefð fyrir sölu þess gerir það m.a. erfitt.

En um spilakassa gildir allt annað. Þeir eru tiltölulega nýtt fyrirbæri hér á landi. Þeir eru sérhannaðir af færustu sálfræðingum til að virkja spilafíkn hjá fólki sem hefur þann veikleika. Flest fólk fer örsjaldan eða aldrei í spilakassa. Þar finnst mér ekki til mikils mælst þó menn láti það á móti sér að banna spilakassa til að hjálpa þeim sem eru veikir fyrir á þessu sviði.

Pólitík snýst að miklu leyti um að finna skynsamlegt jafnvægi á milli forræðishyggju og frjálshyggju. Þeir sem hengja sig á öfgakennd prinsipp á annan hvorn veginn eru ekki líklegir til að koma með nothæfar lausnir.

Ekki er tæknilegt vandamál að setja skorður við spilakassanotkun og pókerspili á netinu án þess að loka alveg fyrir þessa starfsemi. Það væri hægt að gera með því að leyfa einungis notkun með kortum og setja úttektarhámörk. Einnig gætu spilafíklar sem eru farnir að gera sér grein fyrir vandamálinu skráð sig sem slíka þannig að kortafyrirtækin gætu lokað fyrir notkun þeirra í spilakassanotkun eða pókerspili.

Íslensku fyrirtækjunum sem reka spilakassa hefur verið bent á þetta en þau hafa ekkert aðhafst vegna þess að þau vita sem er að meginhluti tekna þeirra kemur frá fíklunum. Hvernig forsvarsmenn Rauða krossins íslenska réttlæta þetta skil ég ekki.

Finnur Hrafn Jónsson, 23.2.2008 kl. 23:04

27 identicon

Finnur,  þú segir að þú treystir betur fréttum fjölmiðla heldur en vísindarannsóknum.   Annað sem þú segir er í sama dúr hvað staðreyndir varðar, eins og t.d. hvað spilakassana sem Rauði krossinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg og SÁÁ reka í sameiningu.   Í þeim kössum er aðeins spilað með smámynt og aðeins smáir vinningar í boði, þannig að hættan á að e-r fari sér að voða fjárhagslega er vart til staðar.   Öðru máli gegnir með spilakassa HHÍ, þar er spilað fyrir margfalt hærri upphæðir og gjarnan inn á dimmum og frekar ógeðfeldum stöðum (mín skoðun).   

Mér hugnast undir engum kringumstæðum forræðishyggja, en skynsamar umferðareglur eru af hinu góða og flestir frjálshuga menn og konur, jafnvel hörðustu frjálshyggjumenn, eru slíku fylgjandi.  Mér er kunnugt um að þessi góðu félög sem reka spilakassa á Íslandi, hafi verið að skoða lausnir, m.a. frá íslensku hugbúnaðarfyrirtæki, sem útfæra svona leiki þannig að tryggt sé að spilað sé innan marka skynseminnar.    Ég hef líka heyrt að félögin hafi verið hrædd við að hreyfa sig mikið, því þau eru viðkvæm fyrir þeirri háværu og þekkingarsnauðu umræðu sem skapast alltaf í þjóðfélaginu þegar þessi mál ber á góma.   Vonandi verður breyting þar á í nánustu framtíð.

 

María J. (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 00:10

28 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Það má vel vera að mig skorti þekkingu á því hvaða aðilar standa á bak við nákvæmlega hverja gerð af spilakössum. Ég þekki hinsvegar mjög vel til fólks sem hefur rústað fjárhag og fjölskyldulífi vegna spilafíknar í tengslum við spilakassa.

Ég veit líka að sálfræðingar horfa ekki til þess hversu upphæð er há sem tapast þegar þeir meta hvort einhver er spilafíkill eða ekki. Þeir skoða hins vegar samhengið við tekjur viðkomandi og hvort útgjöld vegna spilavanda eru farin að hafa alvarleg áhrif á fjárhag og líf viðkomandi.

Þessir svokölluðu smámyntarkassar eru ekki með neinum takmörkunum á því hversu oft eða lengi fólk spilar í þeim. Auðvelt er að tapa þúsundum króna í þeim ef setið er við einhverja klukkutíma. Þegar fíkillinn mætir síðan dag eftir dag, tekur skamman tíma að safnast í umtalsverðar fjárhæðir sem geta eyðilagt fjárhag venjulegs launafólks. Spilafíkn er líka langvinnur sjúkdómur sem getur tekið fleiri ár að þróast úr tiltölulega viðráðanlegu vandamáli yfir í algjöra martröð bæði fyrir sjúklinginn sjálfan og aðstandendur hans.

Staðreyndin er einfaldlega sú að þessi "góðu" félög féfletta fársjúkt fólk til að afla sér tekna.

Mest af þessu fársjúka fólki á ekki gott með að bera hönd fyrir höfuð sér. Það er flest í afneitun og ekki enn tilbúið að viðurkenna að það sé sjúkt. Eða þá að það er upptekið við að reyna að ná bata og greiða úr fjármálum og bjarga því sem eftir er af fjölskyldulífi. Aðstandendur eru yfirleitt meðvirkir til að byrja með þegar þeir þekkja ekki vandamálið og seinna eru þeir uppteknir af því að bjarga fjármálum og reyna að sjá til þess að minnka skaðann sem börn og fjölskylda verður fyrir.

Fórnarlömb þessara "góðu" félaga eru því alveg kjörin til að féfletta þau. Hverfandi líkur eru á því að þau rísi upp saman til að mótmæla. Þegar þetta fer saman við almennt þekkingarleysi á vandamálinu eru því miður ekki miklar líkur á að ástandið lagist.

Fréttir frá Noregi gefa þó vonir um að hægt sé að ná árangri. Spilakassabannið gaf mikilvægar upplýsingar um áhrifin sem það veldur. Kassarnir sem verða leyfðir að nýju í Noregi, verða með skorðum við sálfræðibrellum til að auka fíknina þannig að von er til þess að þeir valdi minni skaða en verið hefur.

Finnur Hrafn Jónsson, 24.2.2008 kl. 14:46

29 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Ef það eru mannréttindi að fá að féfletta fársjúkt fólk, ættu þá ekki allir að hafa þau? Núna eru það bara útvaldar stofnanir með velþóknun alþingis.

Ég leyfi mér að draga í efa tölu þína um tíðni spilafíknar upp á 0,5%. Ég hef séð kannanir sem benda til mun hærri talna. A.m.k. erum við að tala um þúsundir Íslendinga sem verða fyrir barðinu á þessu með beinum og óbeinum hætti.

Það yrði aldrei leyft að setja matvöru á markaðinn sem hefði þann annmarka að 1% neytenda biðu alvarlegt heilsutjón af. Engum finnst slíkt bann skerðing á mannréttindum. Sama ætti auðvitað að gilda um spilakassa.

Ekki veit ég hvaðan þú hefur upplýsingar um að spilakassar hafi ekki verið bannaðir í Noregi. Ég hef þessar fréttir víðar frá heldur en Mbl., t.d. hér í Aftenposten:
http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/article1877290.ece

Finnur Hrafn Jónsson, 25.2.2008 kl. 02:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband