Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sýndarfyrirtæki Íslensks hátækniiðnaðar?
15.4.2008 | 20:33
Þetta er dularfullt í meira lagi. Ég fór að leita að heimasíðu Katamak-NAFTA, fyrirtækisins sem Íslenskur hátækniiðnaður fullyrðir í fréttum að sé í samstarfi við sig um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Fyrirtækið sé dótturfyrirtæki Geostream (raunar spyr ég mig líka: Hvað er Geostream?)
Það sem ég fann um Katamak-NAFTA var eftirfarandi:
Heimilisfang í Dublin á Írlandi - og síða með slóðinni http://www.katamak.ru/english.html. Yfirskrift þessarar síðu er Iceland Petroleum Refining Company - íslenska olíuhreinsifélagið !!! Íslenski titillinn er líka á síðunni.
Þetta er það sem íslenskur hátækniiðnaður kallar "heimasíðu" fyrirtækisins - og þeir tala um sem raunverulegt fyrirtæki. Skoðið þetta bara sjálf. Efnislega er ekkert á síðunni nema tilvísanir í íslenska fjölmiðla. Ekkert um fyrirtækið sjálft.
Það er verið að hafa okkur öll að fíflum: Vestfirðinga, fjölmiðla, sveitarstjórnarmenn og almenning í landinu.
Og ef það er eitthvað sem hleypir í mig illu blóði þá er það þegar einhver reynir að spila með mig.
Nú bíð ég spennt eftir Kompás þætti kvöldsins.
Olíuhreinsistöð - hver er að stjórna?
15.4.2008 | 15:30
Þá hefur hulunni verið svipt af því hverjir standa á bak við hugmyndina um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Ég segi hugmyndina - því það vill brenna við í umræðunni að menn tali eins og olíuhreinsistöð sé orðin staðreynd. Hún hljóti að koma úr því allir eru að tala um hana.
En nú hafa 24 stundir upplýst það sem líka kemur fram á skutull.is í dag, að það eru rússnesku olíurisarnir Gazprom og Lukoil sem standa þarna að baki. Þessi fyrirtæki ku vera samstarfsaðilar Geostream (móðurfyrirtækis Katamak-NAFTA) ásamt vestrænu olíufyrirtækjunum Shell og Exxon Mobil. Þetta eru sumsé fyrirtækin sem Íslenskur hátækniiðnaður hefur átt í viðræðum við um að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þá eru stór bandarísk verktakafyrirtæki, Halliburton og Washington Group, einnig nefnd sem samstarfsaðilar.
Á heimasíðu Katamak-Nafta kemur einnig fram að félagið hafi valið Íslands sem stað fyrir olíuhreinsistöð vegna þess að hér sé orkukostnaður afar lágur og að hér sé hagstætt fjárfestingaumhverfi. Þá er það talið til kosta að flestar ákvarðanir vegna framkvæmdarinnar liggi hjá sveitarstjórnum og ákvörðunarferlið geti því gengið hratt fyrir sig.
Í máli Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra á Alþingi í síðustu viku kom fram að ráðuneytið hefði ekki vitneskju um hvaða fjárfestar stæðu að baki olíuhreinsistöðinni, sem yrði í heild verkefni upp á rúma 400 milljarða króna, ef af yrði.
Hann áréttaði einnig að losun stöðvarinnar myndi ekki rúmast innan losunarheimilda samkvæmt skuldbindingum Íslands fyrir árin 2008-2012. Því þyrfti annað tveggja að koma til, förgun/nýting koltvísýrings eða aðkeypt losunarheimild erlendis frá af hálfu framkvæmdaraðila.
Hvernig ætla stjórnvöld nú að leysa þennan vanda? Olíurisarnir fagna því að "flestar ákvarðanir vegna framkvæmdarinnar liggi hjá sveitarstjórnum".
Ég verð að viðurkenna að nú er vakin hjá mér sá uggur í brjósti að kannski sé málið ekki raunverulega í höndum stjórnvalda - heldur misviturra sveitarstjórna sem líta á þetta sem sitt einkamál. Eins og við sáum til dæmis í Helguvíkurmálinu þar sem umhverfisráðherra virtist ekki geta haft áhrif, þó gefið væri sterklega í skyn að staða málsins væri henni á móti skapi.
Hmmmm .... Kyótó bókunin hvað? Ég er óróleg.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ný samtök fæðast
6.4.2008 | 19:48
Þá eru Náttúruverndarsamtök Vestfjarða orðin að veruleika, með fjölmennum stofnfundi sem fór fram í Hömrum á Ísafirði í gær. Skutulsfjörðurinn skartaði sínu fegursta í tilefni dagsins. Sólin skein á snæviþakin fjöllin og sindrandi hafflötinn. Guð láti gott á vita.
Það gladdi okkur sérstaklega að Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra skyldi sjá sér fært að koma vestur og ávarpa stofnfundinn ásamt þeim Árni Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómari Ragnarssyni, formanni Íslandshreyfingarinnar. Ómar lauk máli sínum með því að fara með stórbrotið ljóð eftir sjálfan sig sem nefnist Kóróna landsins. Hann flutti ljóðið - öll fjórtán erindin - blaðalaust og gerði það með glæsibrag.
Fundurinn heppnaðist í alla staði vel og góður andi sveif yfir salarkynnum. Bryndís Friðgeirsdóttir, fyrrverandi bæjarfulltrúi á Ísafirði, var kosin formaður samtakanna.
Í fundarlok var samþykkt ályktun þar sem skorað er á stjórnvöld og forráðamenn sveitarstjórna á Vestfjörðum að standa vörð um vestfirska náttúru með hóflegri og skynsamlegri nýtingu náttúrugæða, rannsóknum á vistkerfi og verndun náttúruverðmæta. Samtökin hvetja til þess að tekið verði fyllsta tillit til náttúrufars, dýralífs, gróðurs og sjávarvistkerfa við stefnumótun og ákvarðanir um samgöngumannvirki, stóriðju, uppbyggingu í ferðaþjónustu og önnur umsvif sem áhrif hafa á umhverfi og landgæði. Þá leggja samtökin til að ríkissjóður veiti fjármuni til þess að stofna rannsóknastöðu í náttúru- og umhverfisfræðum.
Á eftir fórum við sem höfðum staðið að undirbúningi samtakanna léttum okkur aðeins upp saman eftir þetta alltsaman. Enda full ástæða til - það er ekki á hverjum degi sem samtök fæðast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.4.2008 kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Vestfirsk náttúra eignast málsvara
1.4.2008 | 23:33
Á laugardaginn verða stofnuð samtök til verndar vestfirskri náttúru - og var mál til komið. Ég hef verið að stússast í undirbúningi að stofnun þessara samtaka nú um nokkurt skeið ásamt góðu fólki (aðallega konum). Með framtakinu má segja að vestfirsku náttúruverndarsamtökin sem sofnuðu út af fyrir um tveimur áratugum gangi nú í endurnýjun lífdaga undir heitinu Náttúruverndarsamtök Vestfjarða (en hétu áður Vestfirsk náttúruverndarsamtök).
Vestfirsk náttúruverndarsamtök voru upphaflega stofnuð í Flókalundi árið 1971. Þau létu að sér kveða, gáfu m.a. út tímaritið Kaldbak og áttu stóran þátt í friðlýsingu Hornstranda. Af einhverjum ástæðum féll starfsemin niður eftir fimmtán ár og hefur legið niðri síðan. Nú er því mál að vakna. Nýting Hornstrandafriðlandsins, áform í ferðamennsku, rannsóknir og nýting náttúrugæða og vistkerfis, umræða tengd olíuhreinsistöð, pólsiglingum, hafnarmannvirkjum og samgöngum - allt kallar þetta á að vestfirsk náttúran hafi formlegan málsvara í heimabyggð.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra verður heiðursgestur stofnfundarins sem verður haldinn kl. 14:00 í Hömrum á Ísafirði. Hún mun ávarpa fundinn. Meðal annarra frummælenda verða Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ómar Ragnarsson. Úr hópi heimamanna munu Þórhallur Arason, Sigríður Ragnarsdóttir og Ragnheiður Hákonardóttir taka til máls. Ég hef tekið að mér fundarstjórn og mun gæta þess að allt fari vel og virðulega fram.
Helstu verkefni náttúruverndarsamtaka eru verndun náttúru, umhverfisfræðsla, friðlýsing merkra og fagurra staða, verndun minja og skynsamleg nýting náttúruauðlinda. Vestfirðingar hafa löngum verið hreyknir af þeirri einstöku náttúrufegurð sem hér ríkir og hún er stór og mikilvægur þáttur í þeirri ímynd sem Vestfirðingar hafa skapað sér á undanförnum árum.
Við hvetjum því Vestfirðinga til að mæta á fundinn og láta sig varða þetta mikilvæga málefni. Þeir sem ekki komast en vilja ganga í samtökin geta haft samband við mig (s. 8923139), Bryndísi Friðgeirsdóttur (864 6754) eða Sigríði Ragnarsdóttur ( 861 1426) eða sent tölvupóst á netfangið smg5@simnet.is.
Sjáumst vonandi sem flest á laugardag

Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.4.2008 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Naktir vegagerðarmenn: Frábær mótmæli!
1.4.2008 | 10:36
Vestfirskir vegagerðamenn hafa ákveðið að mótmæla með afar athyglisverðum hætti afleitum vegsamgöngum í fjórðungnum. Þeir segja að nú sé mælirinn fullur, þeir geti ekki lengur setið aðgerðarlausir með hendur í skauti. Vegasamgöngur á Vestfjörðum séu klárt brot á mannréttindum.
Og hvað ætla mennirnir að gera? Haldið ykkur! Þeir ætla að láta mynda sig nakta á vegum úti, og fylgja þannig fordæmi kanadískra karlmanna. Þetta kemur fram á skutull.is í dag.
Með þessu vonast þeir til að vekja athygli sem flestra á að samgöngubóta sé mikil þörf, svo Vestfirðingar komist inn í 21stu öldina. Í framhaldinu ætla þeir að láta útbúa dagatal með myndunum og fer ágóðinn af dagatalinu í jarðgangasjóð sem þeir hafa stofnað. Ljósmyndarinn Spessi hefur lagt verkefninu lið og mun mynda vegagerðamennina á næstu misserum, en dagatalið sem er fyrir árið 2009 kemur út í haust.
Spessi segir þetta vera spennandi verkefni. Hann hefur tekið nokkrar prufur sem hann segir að komi vel út - sjá til dæmis þessa hér.
Launaleynd Þórhalls
26.3.2008 | 10:46
Þórhallur Gunnarsson hefur lagt fram lögbannskörfu á Ríkisútvarpið til að hindra að launakjör hans verði opinberuð. Hann segist sjálfur ætla að ráða því hvenær persónulegar upplýsingar um hann verði birtar opinberlega og telur á sér brotið ef þetta verður upplýst. Frá þessu er sagt á visir.is og það er Óskar Hrafn Þorvaldsson ritstjóri visis.is sem hefur óskað eftir þessum upplýsingum. Hann óskar ennfremur eftir því að sjá launaupplýsingar Sigrúnar Stefánsdóttur sem gegnir sama starfi og Þórhallur - kveðst hafa grun um að laun þessara tveggja stjórnenda á ríkisútvarpinu séu ekki sambærileg.
Nú er auðvitað hugsanlegt að launin hans Þórhalls séu svo lág að hann skammist sín fyrir að sýna það. En hversvegna þumbast útvarpsstjóri við?
Nú er það þannig að fyrirtæki sem rekin eru af almannafé hafa lögbundnar skyldur til þess að upplýsa almenning - eða fulltrúa þeirra - um stjórnsýslu sína. Og á meðan lög gilda sem banna launamismunum á grundvelli kynferðis, þá verður almenningur að geta fylgst með því að þeim sé framfylgt. Málið snýst um grundvallaratriði - jafnréttislögin - launajöfnuð. Það virðist augljóst.
Hitt er auðvitað svolítið sérkennilegt að einkafyrirtæki skuli algjörlega undanþegin upplýsingaskyldu af þessu tagi á meðan ríkisstofnanir verða að leggja allt á borðið. En þannig virkar lýðræðið. Almenningur á rétt á því að vita hvernig farið er með fjármuni hans. Og þó svo að ríkisútvarpið sé orðið ohf - þá er það enn í eigu almennings, fjármagnað af opinberu fé. Á meðan svo er verður ríkisútvarpið að lúta sömu reglum og önnur opinber fyrirtæki.
Það verður því fróðlegt að sjá hvort lögbannskrafan nær fram að ganga. Ég verð að viðurkenna að mig langar að fá þessar upplýsingar - nú þegar forvitnin hefur verið vakin.
Þarf einhver að fjúka úr Seðlabankanum?
18.3.2008 | 09:05
Egill Helgason velti þeirri spurningu fyrir sér á bloggsíðu sinni í gær hvort tímabært sé orðið að reka Seðlabankastjóra - til dæmis Davíð. Tilefnið er fall íslensku krónunnar. Guðmundur Gunnarsson og fleiri eyjubloggarar taka í sama streng.
Menn telja mistök Seðlabankans í því fólgin að hann hefur beitt kenningum úr klassískri hagfræði sem virka ekki vegna þess hversu hagkerfið er opið. Þar með hafi verið gerð "stórkostleg mistök" í hagstjórninni. Vöxtum hefur verið haldið ofurháum meðan erlent fjármagn hefur flætt inn í landið sem lánsfé og vegna spákaupmennsku.
Í hálffimmfréttum greiningardeildar Kaupþings í gær var slegið á svipaðar nótur og því haldið fram að stýritæki Seðlabankans væru hætt að virka. Þar er bent er á að svigrúm Seðlabankans sé takmarkað vegna þess hve gjaldeyrisforði bankans er lítill. "Samt sem áður. Sú staða að stýritæki bankans hafi ekki lengur virkni hlýtur að vera mjög illþolanleg fyrir bankann og skapa væntingar um einhverjar aðgerðir af hans hálfu" segir greiningardeildin.
Hmmm ... það er kannski kominn tími til að einhver í Seðlabankanum taki ábyrgð á hagstjórnarmistökunum. En halda menn að það gerist ...?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vesturbyggðarmenn geta ekki haldið því fram að það sé þeirra einkamál hvort olíuhreinsistöð rísi á Vestfjörðum.
Þeir virðast gleyma því að út af Vestfjörðum eru gjöfulustu fiskimið landsins. Og þó að sjávarútvegur og fiskvinnsla á Vestfjörðum sé vart svipur hjá sjón þeirri sem áður var - þá sækja aðrar útgerðir á þessi mið. Íslenskur sjávarútvegur á nánast allt sitt undir því að þessum fiskimiðum verði ekki spillt.
Öllum þeim sem sækja fisk í sjó við landið ráðlegg ég að skoða myndband af olíuslysi Exxon Valdez við strendur Alaska fyrir nokkrum árum. Það er bæði tímabært og þarft innlegg í þessa umræðu um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum (smellið hér ).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.3.2008 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
Mikilvægum stofnunum ekki treyst
1.3.2008 | 00:19
Maður er nú ekkert hissa á þessum 9% eftir allt sem á undan er gengið og sjálfsagt er enginn hissa - nema kannski Vilhjálmur. Hann virðist enn halda að hann eigi eitthvað inni hjá kjósendum.
Og innan við helmingur treystir Alþingi! Það er svakalegt - af því við erum jú að tala um sjálfa löggjafarsamkunduna.
En ég er undrandi á því að einungis 68% skuli treysta heilbrigðiskerfinu. Það hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni fyrir þá sem þar halda um stjórnartauma. Við eigum bara eitt heilbrigðiskerfi . Í raun ætti almenningur að bera sama traust til heilbrigðiskerfisins og Háskóla Íslands - en það er ekki svo. Það finnst mér áhyggjuefni.
Mín tilgáta er sú að hin linnulausa hagræðingarkrafa sem gerð er í heilbrigðiskerfinu sé loks að skila sér í skertu trausti almennings á þessu kerfi. Að sjúkrahúsin séu einfaldlega orðin of stór og vélræn á kostnað mannlegra samskipta og umhyggu.
Sjúkrahús á ekki að reka í of stórum einingum. Framleiðslufyrirtæki eins og kjúklingabú geta notið hagræðingar stærðarinnar og samlegðaráhrifa á markaði. En sjúkrahús eru þjónustustofnanir og því lúta þau öðrum lögmálum.
Í þjónustu gildir að hafa smærri einingar til að tryggja nálægð við þá sem njóta þjónustunnar, og til að tryggja sveigjanleika og viðbragðsflýti þegar á þarf að halda. Þetta segja að minnst kosti stjórnunarfræðin sem ég stúderaði hér um árið. En sú speki virðist nú ekki höfð í hávegum hér á landi. Að minnsta kosti hefur miklu verið til kostað á undanförnum árum til að sameina sjúkrahúsin og stækka þau sem stjórnsýslueiningar - til skaða fyrir þiggjendur heilbrigðisþjónustu, held ég.
Sparnaðarkrafan hefur orðið til þess að deildum er lokað, sjúklingar útskrifaðir fyrr en ella, mannafla er haldið í lágmarki og hagræðing í rekstri virðist stundum ráða meiru um ákvarðanir í kerfinu eru en umhyggja fyrir sjúklingunum. Þetta hefur grafið undan trausti.
Traust er ekki sjálfgefið - þess þarf að afla.
![]() |
Aðeins 9% treysta borgarstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Að umgangast staðreyndir - enn um olíuhreinsistöð
26.2.2008 | 16:12
Í umræðunni um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum hafa ýmsar upplýsingar verið að koma fram síðustu daga. Hugtakið "staðreyndir" hefur borið alloft á góma, eins og við má búast - staðreyndir um náttúrufar, samfélagsþætti, losun gróðurhúsalofttegunda, jarðvegsmengun, raforkuþörf og fleira. Við nánari skoðun kemur þó í ljós að "staðreyndir" geta verið teygjanlegt hugtak - og stundum er hægt að skauta fram hjá þeim.
Í dag birtist t.a.m. ágæt grein eftir Ómar Smára Kristinsson, myndlistarmann á ísfirska vefnum bb.is. Þar gerir Ómar Smári að umtalsefni framsögu fulltrúa Íslensks hátækniiðnaðar á málþingi á Ísafirði og Bíldudal nú um helgina. Sá fyrirlestur nefndist einmitt "Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - Staðreyndir". Ómar Smári vekur athygli á því hvernig látið var í veðri vaka að upplýsingar um náttúrufar og dýralíf á þeim stöðum sem til umræðu hafa verið vegna olíuhreinsistöðvar væru framkvæmdinni hagstæðar, þegar reyndin er allt önnur sé málið skoðað nánar.
Í svonefndri staðarvalsskýrslu sem Fjórðungssamband Vestfirðinga lét taka saman er talið upp hvaða plöntur og dýr þurfi að víkja og að hvaða leyti það komi til með að skaða viðkomandi stofna rísi Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Þeirra á meðal eru nokkrar tegundir fugla á válista og ein mjög sjaldgæf tegund háplantna, eins og Ómar Smári bendir á.
Talsmenn Íslensks hátækniiðnaðar skautuðu fimlega framhjá þessu í framsögum sínum um helgina. Annar þeirra lét í veðri vaka að skýrslan væri lítið rædd vegna þess að hún gæfi "of góða" niðurstöðu fyrir olíuhreinsistöð. Þetta eru bíræfin ummæli, verð ég að segja, því þegar skýrslan er skoðuð kemur einmitt í ljós hversu víðtæk áhrif olíuhreinsistöð myndi hafa á allt sitt umhverfi, dýralíf og annað náttúrufar.
Í skýrslunni kemur einmitt fram að sjónræn og umhverfisleg áhrif olíuhreinsistöðvar verða mikil og víðtæk. Ekki aðeins vegna mannvirkjanna - stöðvarinnar sjálfrar og hafnarmannvirkja - heldur einnig vegna mengunar þaðan, sérstaklega svifryks. Fram kemur að kanna þarf nánar mengun sem berst í hafið með tilliti til fiskveiða í fjörðunum og í Arnarfirði einnig með tilliti til kalkþörunga. Þar er einnig talað um vandkvæði á samgöngum og raforkuflutningum í núverandi mynd og hættuna af hafís.
Skýrslurnar um staðarvalsathugun og samfélagsáhrif er að finna á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ennfremur framsögur þær sem fluttar voru á málþinginu um helgina.