Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Forseti útilokar ekki utanþingsstjórn

Forseti Íslands útilokar ekki utanþingsstjórn - það fannst mér vera það athyglisverðasta sem kom fram í hans máli í dag. Sömuleiðis sú áhersla sem hann kveðst leggja á að sátt ríki í samfélaginu um stjórnarformið. Sú yfirlýsing finnst mér frekar ýta undir þennan skilning minn.

Þá gat ég ekki betur heyrt en að krafan um stjórnlagaþing eigi sér samhljóm í hugmyndum forseta sem hann færði m.a. í tal í sínu áramótaávarpi  og áréttaði á blaðamannafundinum í dag.

En hvað segið þið lesendur góðir. Væri það ekki bara kærkomið fyrir þjóðina að fá einhverja við stjórnvölinn sem ekki eru á sama tíma að vasast í kosningabaráttunni.

Væri það ekki bara góð hvíld fyrir langhrjáða þjóð og langþreytta stjórnmálamenn að skilja nú landsstjórnina frá kosningabaráttunni ?

Eða svo ég orði þetta nú enn skýrar: Er óhætt að setja við þessa aðstæður menn í landstjórnina sem á sama tíma eru að kljást í  kosningabaráttu? Er ekki nóg komið? 

En við spyrjum að leikslokum - það verður spennandi að fylgjast með þessu.

 logo  Nýtt lýðveldi  


Nýtt lýðveldi er ekki stjórnmálaframboð

althingi2 Við sem stöndum að undirskriftasöfnuninni um Nýtt lýðveldi á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is erum ekki stjórnmálaframboð. Best að þetta sé alveg á hreinu - því það er einhver misskilningur í gangi núna. Í kvöld fékk ég símtal frá blaðamanni Morgunblaðsins sem vildi ræða við mig um framboðsmál af því hann taldi að Nýtt lýðveldi og Lýðveldisbyltingin sem rekur vefsíðuna www.lydveldisbyltingin.is væri sami hópur. Svo er ekki. Báðir hópar styðja þó sama málstað að því er virðist og það er ágætt.

Þetta er meðal þess sem bar á góma í þættinum "Í býtið" í  morgun, en þangað mætti ég í spjall við Kollu og Heimi (hlusta hér).

Allmargir hafa spurt mig hvort ekki sé ástæða til að sameina þessa tvo hópa og sameina þar með kraftana. Um það vil ég segja þetta:

Ein krafa - ólíkir hópar: 

Krafan um utanþingsstjórn (eða einhverskonar þjóðstjórn), stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi á hljómgrunn í öllum stjórnmálaflokkunum og meðal fjölda fólks sem stendur utan við alla pólitík. Það er margt sem skilur þetta fólk að, en eitt sem sameinar það: Nefnilega krafan um nýtt lýðveldi.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að stofnun nýs stjórnmálaafls sé ekki besta leiðin til að ná þessu markmiði. Það segi ég með fullri virðingu fyrir því stjórnmálaafli sem nú er verið að stofna utan um þessa kröfu. Það stjórnmálaafl mun etja kapps við hina flokkana fyrir næstu kosningar, eftir gömlu leikreglunum, og kannski fá atkvæðamagn sem einhverju nemur. En í kosningum er spurt um stjórnmálaskoðanir fólks og afstöðu til ótal margra mála sem varða landshagi. Að fara fram meið eitt mál í kosningar, og láta allt annað liggja á milli hluta - það getur orðið erfitt þegar til kastanna kemur, því vitanlega verða alþingismenn að hafa stefnu í flestum málaflokkum. Kjósendur eiga rétt á að vita fyrir hvað framboðin standa í veigamiklum atriðum. Hver er stefnan í umhverfismálum, sjávarútvegsmálum, Evrópumálum, utanríkismálum, virkjunarmálum o.s. frv.

Horfum á það sem sameinar, ekki það sem sundrar 

Við sem stöndum að vefsíðunni Nýtt lýðveldi, tókum afdráttarlausa afstöðu til þess að við værum óháð öllum stjórnmálaframboðum. Við teljum það fljótvirkari og árangursríkari leið að sameina Íslendinga, hvar í flokki sem þeir standa, um þessa einu kröfu. 

Við fögnum því ef stjórnmálaflokkarnir taka undir með okkur, hvort sem þeir eru nýir eða gamlir. En ef undirskriftasöfnunin tekst vel - segjum að það safnist tugþúsundir undirskrifta - þá gæti hún orðið nokkurskonar þjóðarátak á fáum vikum. Krafa sem stjórnvöld hefðu ekki stöðu til að horfa framhjá við núverandi aðstæður.

Að því sögðu skal upplýst að nú rétt fyrir kl 23:00 höfðu 4.868 skrifað undir kröfuna um utanþingsstjórn, stjórnlagaþing og nýtt lýðveldi. Ekki amalegt á aðeins þremur dögum. Smile

logo 

 Nýtt lýðveldi


Gott Hörður!

Hörður Torfason er maður að meiri núna - og sjálfum sér líkur - þegar hann hefur beðist afsökunar á óheppilegum orðum sem féllu í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær. Þetta var gott. Heart

Áfram Hörður!


mbl.is Baðst afsökunar á ummælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítir borðar - nýtt upphaf, friðsamleg breyting

White_ribbon Í morgun þegar íbúar borgarinnar vöknuðu og fóru á stjá tóku þeir sem áttu leið um Ártúnsbrekku og Miklubraut eftir hvítum borðum á ljósastaurum meðfram stofnbrautinni. Þeir láta ekki mikið yfir sér þessir hvítu borðar - en hafa strax valdið heilbrotum. Hvaðan koma þeir? Hvað boða þeir?

Böndin tóku fljótlega að beinast að átakinu Nýtt lýðveldi - og það með réttu. Við sem stöndum að áskoruninni um utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings á vefsíðunni www.nyttlydveldi.is göngumst fúslega við þessu. Vorum þó að velta fyrir okkur hversu langur tími liði þar til fólk áttaði sig á því hvað um væri að vera. En nú þegar blaðamaður morgunblaðsins er búinn að hafa samband og fá réttar upplýsingar, skal upplýst hér hvað er á seyði. Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar.

Hvítur er litur friðar. Sumstaðar í Austurálfu þýðir hvítt sorg. Og svo sannarlega hefur margt farið úrskeiðis sem valdið hefur sorg í okkar samfélagi.  En hvítt merkir líka nýtt upphaf. Hvítt er litur hins óskrifaða blaðs.

Við eigum draum um nýtt lýðveldi á Íslandi. Lýðveldi markað sanngjörnum leikreglum, virðingu fyrir lýðræði og grónum gildum á borð við samhjálp, heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ábyrgð. Þessi gildi hafa verið fótum troðin undanfarin misseri - við viljum endurreisa þau og treysta í sessi.

Við vonum að fleiri fari að dæmi okkar og prýði ljósastaurana í götunni sinni með hvítum borðum. Það má rífa niður gömul lök eða klippa plastræmur. Sömuleiðis veit ég að það fást svona borðar í fyrirtækinu Hringrás sem er fyrir neðan Byko í Kópavogi. Wink

En þessi hljóðlátu skilaboð geta orðið mjög öflug ef þau ná að breiðast vel út. Þögul en sterk áminning til stjórnvalda og stjórnmálamanna.

Gerum bæinn hvítan.


mbl.is Hvítir borðar í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hörður á að viðurkenna mistök og biðjast afsökunar

HörðurTorfa Ég held að Hörður Torfason hljóti að vera orðinn eitthvað þreyttur. Hann hefur staðið sig mjög vel fram að þessu - en nú varð honum á í messunni. Þeir sem ganga hart fram í gagnrýni á aðra verða að geta horfst í augu við eigin mistök. Hörður á að biðjast afsökunar á ummælum sínum um veikindi Geirs H. Haarde.

Raunar finnst mér að það mætti að ósekju fara að sýna fleiri andlit og tala við fleiri málsvara þessara mótmæla heldur en Hörð Torfason. Með fullri virðingu fyrir honum. Mótmælin hafa verið persónugerð full mikið í honum einum, þó hann eigi að sjálfsögðu að njóta þess hróss sem hann á skilið. En hann er ekki undanþegin gagnrýni heldur.

Ég vona að fólk haldi áfram að mæta á Austurvöll og berja búsáhöld. Hugmyndin með appelsínugulu borðana finnst mér góð, þ.e. að auðkenna þannig þá sem fara með friði.

Það kæmi mér ekki á óvart þó að hvítir borðar sæjust líka á stöku stað í borginni á morgun. Wink Hvítt er litur friðarins.

 

2.319 undirskriftir komnar við áskorunina um stjórnlagaþing og utanþingsstjórn á www.nyttlydveldi.is


mbl.is Hænuskref í rétta átt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undirskriftarsöfnun um nýtt lýðveldi byrjar vel. Verra með heilsufar forystumanna.

skjaldamerki Vefsíðan www.nyttlydveldi.is fer vel af stað - og þó með brösum. Umferðin á síðunni var svo mikil í gær að hún lagðist hvað eftir annað á hliðina, og aftur fram eftir degi í dag. En nú er búið að koma þessu í lag, vonandi. Og rétt áðan voru komnar ríflega 1800 undirskriftir frá því kl. 15:00 í gær. 

Það er afar leitt að heyra um heilsubrest Geirs H. Haarde. Ég vona innilega að hann nái sér af þessum veikindum og óska honum langra lífdaga.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að andlegt álag og mikil, langvarandi neikvæðni í umhverfinu, skili sér á endanum inn í líkama okkar með tilheyrandi heilsukvillum. Ég er því ekki beint hissa á þessum fréttum. Satt að segja hefði ég eiginlega orðið meira hissa ef ekkert hefði látið undan.

Nú er svo komið að báðir forystumenn ríkisstjórnarinnar glíma við alvarlegan heilsubrest. Það segir sitt um það hversu mikil áraunin hefur verið. Hún hefur verið ómennskt á köflum. Og varla er það tilviljun að tveir fyrrverandi forystumenn í íslenskum stjórnmálum, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hafa einnig mátt kljást við illkynja mein. Ekki eru mörg ár síðan Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra hneig niður í beinni útsendingu þegar allt ætlaði um koll að keyra í samfélaginu vegna ákvarðana í heilbrigðismálum, ef ég man rétt.

Það er augljóslega ekki tekið út með sældinni að komast til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.


Nýtt lýðveldi: Undirskriftasöfnunin er hafin!

Undirskriftasöfnunin til stuðnings utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings er hafin á vefsíðunni Nýtt lýðveldi. Nú vona ég að almennignur taki við sér, fari inn á vefslóðina http://www.nyttlydveldi.is/ og skrifi undir áskorun okkar til forseta Íslands og Alþingis.

Að þessari undirskriftarsöfnun stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við; gilda á borð við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð. Við viljum efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsin. Í því skyni viljum við mynda þverpólitíska breiðfylkingu um þau markmið sem koma fram í áskoruninni til forseta og Alþingis. Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks.

Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum.

 

Áskorun Íslendinga til forseta lýðveldisins og Alþingis Íslendinga

 

Við undirritaðir Íslendingar skorum á forseta Íslands og Alþingi að hlutast til um skipun tímabundinnar utanþingsstjórnar sem fari með framkvæmdavald forseta á grundvelli 15. og 24. greina stjórnarskrár lýðveldisins Íslands í samræmi við stjórnskipan landsins.

Jafnframt skorum við á Alþingi að samþykkja stjórnskipunarlög um boðun til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar. Forseti Íslands boði til þingsins fulltrúa sem kosnir verði ásamt varafulltrúa fyrir hvern þeirra í almennum kosningum sem haldnar skulu innan tveggja mánaða frá síðari samþykkt frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Kjörgengi til stjórnlagaþings hafi allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar. Í kosningum til stjórnlagaþings verði allt landið eitt kjördæmi.

Stjórnlagaþing semji nýja stjórnarskrá þar sem lagður verði grunnur að nýju lýðveldi með virku og endurnýjuðu lýðræði. Í því felst m.a.

  • endurskoðun á kosningareglum til Alþingis og kjördæmaskipan
  • skýr aðgreining milli framkvæmdavalds, löggjafavalds og dómstóla.

Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána verði þing rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga á grundvelli hennar.

Undirskrift hér.

 

Nú er komið að því - undirskriftarsöfnun og áskorun á stjórnvöld!

faninn Á morgun verður formlega opnuð ný vefsíða www.nyttlydveldi.is þar sem Íslendingum gefst kostur á skora á Alþingi og forseta um að mynduð verði utanþingsstjórn og boðað til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar Íslendinga sem hafi það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá og leggja þar með grunn að stofnun nýs lýðveldis.  Í hinni nýju stjórnarskrá verði mörkuð skörp skil milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds og lagðar línur fyrir gagngera endurskoðun á kosningareglum til Alþingis.

Að áskoruninni stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í samfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins.

Við höfum boðað blaðamannafund í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík síðdegis á morgun, þar sem nánari grein verður gerð fyrir þessu framtaki. Svo skemmtilega vill til að fundurinn fer fram í sal sem nefnist Alþingi.

Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks, en á blaðamannafundinum verða auk mín Njörður P. Njarðvík, Tryggvi Gíslason, Birgir Björgvinsson og hugsanlega fleiri.

Segi nánar frá þessu þegar síðan opnar formlega á morgun. Smile

Nú er allt að gerast.

 

 


Hvað skal til bragðs?

Hvað á að taka til bragðs þegar Alþingi er óstarfhæft vegna ólgu og reiði í samfélaginu? Hvað geta stjórnvöld gert til að skapa frið og sátt um þau verk sem vinna þarf?

Jú, ríkisstjórnin gæti beðist lausnar og komið þannig til móts við þá kröfu sem nú ómar hvarvetna. Þar með myndi ríkisstjórnin sýna lit á því að skapa frið í samfélaginu og þar með forsendur fyrir nýju upphafi.

Alþingi Íslendinga gæti hlutast til um það að boðað yrði til stjórnlagaþings svo unnt verði að semja nýja stjórnarskrá og byggja á henni nýtt (og vonandi betra) lýðveldi.

Það mætti breyta kosningalöggjöfinni og skerpa skilin milli framkvæmdavalds, löggjafar- og dómsvalds. 

Til að endurvekja traust á starfi stjórnmálaflokka gætu núverandi formenn flokkanna stigið til hliðar allir sem einn og hleypi nýju fólki að.

 Það er ýmislegt hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi. 


mbl.is Fundað með flokksformönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afneitun og veruleikafirring

Afneitun og veruleikafirring - það eru einu orðin sem mér koma til hugar þegar ég les þessi ummæli menntamálaráðherra. Skilur konan ekki að fólk er ekki að bíða eftir einhverjum "afdrifaríkum ákvörðunum" frá þeim ráðamönnum sem nú sitja. Fólkið vill að ríkisstjórnin víki.

Hversu lengi ætla ríkisstjórnin að berja höfðinu við steininn? Er hún að bíða eftir að mótmælin þróist í blóðuga byltingu?

Mér sýnist á öllu að það sé einmitt það sem er að gerast núna.


mbl.is Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband