62% svara könnun - er það marktækt?
8.5.2007 | 11:46
Hvað er að marka skoðanakönnun þar sem 38% spurðra gefa ekki upp afstöðu, eins og í síðustu könnun Capacent-Gallups um fylgi stjórnmálaflokkanna?
Í frétt á mbl.is kemur fram að "nettósvarhlutfall" þessarar könnunar var 62%.
Ekki nóg með það - þegar spurningarnar eru skoðaðar kemur eftirfarandi í ljós. Spurt var þriggja spurninga: Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa? Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu? Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna? Bíðum við, af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn - einn allra flokka - nefndur í spurningunni? Af hverju ekki Samfylkingin, Vinstri grænir eða Framsóknarflokkurinn?
Svo er þessu snarað upp sem ótvíræðri vísbendingu um fylgi Sjálfstæðisflokksins. Það útaf fyrir sig er skoðanamyndandi - könnun sem er svona úr garði gerð er líka skoðanamyndandi.
Fyrir vikið er ekkert að marka fylgistölur Sjálfstæðisflokksins í þessum könnunum - og ég held að Sjálfstæðismenn viti það manna best. Fjölmiðlar ættu líka að vita betur.
![]() |
Samfylking og Sjálfstæðisflokkur bæta við sig fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Lúin eftir leitaræfingahelgi
7.5.2007 | 12:39
Helginni eyddi ég með Björgunarhundasveit Íslands við námskeið og leitaræfingar á Úlfljótsvatni. Þar var þessi mynd tekin. Ég er hálf lúin eftir alla útiveruna.
Tíkin var svolítið erfið við mig - virðist ætla að taka seinni gelgjuna með trukki og dýfu. Hún var einbeitingarlaus og upptekin af umhverfinu. Fyrir vikið gengu æfingar ekki eins vel og ég hefði vonað. Verð bara að bíta á jaxlinn - eins og þegar unglingarnir ganga í gegnum sitt skeið - og bíða þess að þetta gangi yfir. Henni finnst hún flottust þessa dagana, og leynir því ekki fyrir neinum, hvorki mönnum né dýrum. Telur sig ekki þurfa að hlýða hverju sem er og iðar öll af lífi og vorgalsa. Auðvitað er hún flott, prímadonnan sú arna, ég tala nú ekki um meðan henni líður svona (þið sjáið hvað hún er sperrt). Hún reynir líka á þolrifin.
En mikið var nú gaman að hitta alla. Ágætt veður, þátttaka góð eins og venjulega og margir hundarnir tóku ótrúlegum framförum. Þetta er mikil reynsla fyrir þá, samvera með öðrum hundum, sofið úti í búrum, margt fólk, nýtt umhverfi.
Jamm, en ég er semsagt hálf lúin. Það tekur á að keyra 500 km fram og til baka - þó félagsskapurinn sé góður. Það verður því ekki bloggað meira í bili. Kem vonandi "sterk inn" fljótlega - svona þegar ég er búin að lesa blöðin og setja mig aftur inn í málin ...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Klíkufundir í stað opinnar umræðu - taktleysi!
3.5.2007 | 12:55
Fram kom á fréttavef bb.is í gær að Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði hefði kynnt skýrslu Vestfjarðanefndarinnar um útbætur í atvinnumálum á fundi með Sjálfstæðismönnum daginn áður. Flokksbróðir hans státar sig af þessari kynningu bæjarstjórans á bloggsíðu sinni í dag.
Einmitt það. Fyrsta opinbera kynningin sem fram fer á inntaki skýrslunnar fer ekki fram á opnum borgarafundi - ekki á sameiginlegum fundi allra stjórnmálaflokka. Ónei. Fyrsta formlega kynningin þar sem aðstandendur skýrslunnar gefa kost á fyrirspurnum og svörum - hún fer fram á lokuðum fundi Sjálfstæðismanna á Ísafirði. Er hægt að hugsa sér neyðarlegra taktleysi?
Dagana á undan var furðurlegur farsi í gangi á fréttavef bb.is, þar sem mikið virtist í húfi að koma fólki í skilning um að Vestfjarðanefndin hafi EKKI verið skipuð vegna ákalls til stjórnvalda sem barst frá baráttufundinum Lifi Vestfirðir þann 11. mars. Ó, nei. Ákvörðunin hafi legið fyrir ÁÐUR en sá fundur var haldinn - hún hafi bara ekki verið kynnt fyrr en EFTIR fundinn. Hmmm .... Og ég sem hafði fundið hlýjuna verma hjartað við fréttina af skipun nefndarinnar - var svo barnaleg að halda að forsætisráðherra hefði heyrt neyðarkallið að vestan og vildi bregðast við. Sýna okkur að hér í landinu væru stjórnvöld sem væru þrátt fyrir allt að hlusta.
Það var sem sagt minn misskilningur - og nú hafa verið tekin af öll tvímæli um það.
Þetta er auðvitað ástæða þess að þingmenn sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum, Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og Einar Oddur Kristjánsson, sáu hvorugur ástæðu til að mæta á baráttufundinn með vestfirskum borgurum, sendu ekki fulltrúar fyrir sig og boðuðu ekki forföll. Hinsvegar gat sjávarútvegsráðherrann mætt á 30 manna klíkufund sem haldinn var að frumkvæði nokkurra sjálfstæðismanna í "krónni" sem svo er kölluð. Þangað mætti ráðherrann til þess að bera boðin inn að ríkisstjórnarborðinu - eins og einn fundarmannanna bloggaði svo eftirminnilega um.
Í sama anda er kynning Vestfjarðanefndarinnar á skýrslunni. Þeir eru ekki að tala við fólkið í landinu - það er ástæðulaust. Þeir tala bara við Sjálfstæðismenn.
Menn sem þannig hugsa þekkja ekki erindi sitt í stjórnmálum. Firring þeirra er algjör.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hverjir veiktust? Hvað er að gerast við Kárahnjúka?
2.5.2007 | 23:39
Manni er spurn - hvað er eiginlega á seyði við Kárahnjúka? Fyrst les maður fréttir af 180 manns sem sagt var að hefðu veikst vegna mengunar og ills aðbúnaðar. Þvínæst fréttist að gögn um sjúklinga hefðu komist í hendur Impregilo án vitneskju trúnaðarlæknisins og í hans óþökk. Þá leggur landlæknir land undir fót, fer austur til að kanna hvað sé að gerast og bíðum við: Það er gefin út "sameiginleg yfirlýsing" landlæknis og Impregilo um að "fáir tugir" manna hafi veikst vegna mengunar og upphaflegar upplýsingar hafi verið "ofmat" á fjölda þeirra sem veiktust. Trúnaðarlæknirinn er kominn í "fyrirfram ákveðið frí" eins og það er orðað - og síðan ekki söguna meir.
Nei, nú tek ég heilshugar undir með leiðarhöfundi Morgunblaðsins í dag. Þetta gengur ekki. Almenningur á heimtingu á að fá að vita hvað sé satt og hvað logið í þessu máli. Sagði trúnaðarlæknirinn ósatt þegar hann talaði um 180 veika einstaklinga? Sé svo, ber að upplýsa það en ekki hylma yfir. Almenningur og fjölmiðlar verða að geta treyst því sem kemur frá fagaðilum - ég tala nú ekki um þegar viðkomandi heyrir beint undir opinbert embætti eins og landlæknisembættið.
Sömuleiðis er brýnt að upplýsa það hvernig umrædd sjúkragögn komust í hendur fyrirtækisins án vitneskju læknisins. Hvers konar vinnubrögð voru viðhöfð þar? Og af hverju gerir landlæknir ekki frekari athugasemdir við þau vinnubrögð?
Svo virðist sem báðir aðilar - landlæknir og Impregilo - viti upp á sig skömm í þessu máli. Þessvegna hafi þeir soðið saman eina samhljóða útgáfu af því sem gerðist til þess að tóna málið niður og breiða yfir misfellur þess.
Þetta er ekki nógu gott: Nú þarf almenningur að fá að vita hið sanna í málinu. Hvorki opinber embætti né einkafyrirtæki eiga að komast upp með að þagga niður mál sem komið er inn í opinbera umræðu með þeim hætti sem hér um ræðir. Ég sem almennur blaðalesandi vil ekki láta ljúga að mér - ég vil taka afstöðu til manna og málefna á réttum forsendum.
Fjölmiðlar mega ekki láta hér við sitja - þeir eiga að komast að hinu sanna í málinu. Nú reynir á hvort þeir láta bjóða sér þöggun máls sem kemur illa við hagsmunaaðila.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skellurnar með gullið -- og Ísafjörður með Öldungamótið!
2.5.2007 | 12:11
Skellurnar (blakliðið mitt ) komu heim af Öldungamótinu sem haldið var í Garðabæ um helgina með GULL og FARANDBIKAR. Þær gerðu sér lítið fyrir og UNNU (sína deild)
Engar smá (S)kellur!
Ekki nóg með þetta - fyrir mótið sóttum við um að fá að halda Öldunginn hér vestur á Ísafirði á næsta ári - og það var samþykkt! Þetta eru góðar fréttir fyrir Ísafjörð.
Nú naga ég mig í bæði handabök fyrir að hafa ekki skellt mér með þeim: En ég hugga mig við að ég fékk þó að vera með í þvi að semja þakkarræðuna fyrir það traust sem okkur er sýnt með því að úthluta okkur Öldungamótinu á næsta ári. Þær sömdu efnispunktana ég fékk að koma þeim í bundið mál, og lagði þar með mitt af mörkum - eða þannig .
Öldungamótið er ekkert smáverkefni. Þarna koma saman um 100 keppnislið karla og kvenna af öllu landinu - svo auðvitað erum við hrærðar og þakklátar (og strax farnar að stressa okkur auðvitað), eins og vera ber:
- Heiður stór og æra er
- Öldungsmót að halda
- því hátíðlega heitum vér
- höfðinglega að valda.
- Fjörður ísa fagur blár
- fagnandi nú bíður
- til leiksins mætir eftir ár
- Öldungshópur fríður!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1. maí - mörg eru vígin að verja
1.5.2007 | 09:55
Á baráttudegi verkalýðsins leitar hugurinn óneitanlega til þess sem áunnist hefur í réttindabaráttu verkafólks og almennum lífskjörum í landinu. Margt hefur áunnist - en mörg eru enn vígin að verja.
Okkur er sagt að lífskjör hafi batnað. Talað er um kaupmáttaraukningu og hagvöxt þjóðin hafi aldrei haft það betra að meðaltali. Segja má að maður sem stendur með annan fótinn í sjóðandi vatni en hinn í ís, hafi það að meðaltali gott. Sama má segja um velferð þjóðarinnar um þessar mundir, að kalin sé hún á öðrum fæti en brennd á hinum.
Undanfarin ár hafa einkennst af mikill þenslu og ójafnvægi í íslensku efnahagslífi: Misskiptingu fjármagns, vaxandi fátækt og þyngri vaxtabyrði með versnandi hag fjölskyldufólks, einstæðra mæðra og aldraðra. Grafið hefur verið undan réttindum verkafólks með undirboðum á vinnumarkaði, einkum við stóriðjuframkvæmdir. Svo langt er gengið að menn eiga það ekki lengur víst að vinna við mannsæmandi skilyrði, eins og fréttir frá Káranhnjúkum sanna. Þar hafa hundruð verkamanna veikst vegna óviðunandi vinnuaðstæðna og mengunar - á því herrans ári 2007 í samfélagi sem kennir sig við velferð!Lífskjör hverra hafa batnað?
Á sama tíma og þanþol hagkerfisins hefur verið spennt til hins ýtrasta með stóriðjuframkvæmdum, skattalækkunum hátekjufólks og breytingum á lánakerfinu hefur vaxta- og skuldabyrði almennings aukist. Fátækt hefur einnig aukist, einkum meðal eldra fólks og einstæðra foreldra. En olíufurstarnir fara sínu fram í skjóli missmíða á löggjöfinni og ekki væsir um lánastofnanir eða stóreignamenn sem þurfa hvorki að axla ábyrgð né bera byrðar með öðrum. Stjórnvöld hafa gert þeim lífið bærilegra en nokkru sinni fyrr. Hagtölur sýna að hópurinn sem notið hefur kaupmáttaraukningar undanfarinna ára er sá tíundihluti þjóðarinnar telst hátekjufólk kaupmáttur hátekjuhópsins hefur aukist um 118%. Hinu er þagað yfir, að meðaltal árlegrar kaupmáttaraukningar hefur ekki verið lægra á neinu öðru kjörtímabili, nema í stjórnartíð Davíðs Oddssonar 1991-2000.
Borgimannlegar eru yfirlýsingar stjórnvalda um að atvinna sé nú með mesta móti. Er einhver undrandi yfir því á miðju þensluskeiði með stóriðjuframkvæmdir í fullum gangi þó atvinnustig mælist þokkalegt? En hvað þegar þeim lýkur? Þjóðhagsspá segir atvinnuleysi aukast umtalsvert á þessu ári og næsta, þegar þensluáhrifin hjaðna. Við lok ársins verður það komið yfir 2%, á því næsta yfir 3% og stefnir hærra. Seðlabankinn spáir 5% atvinnuleysi.
Við Íslendingar höfum lægsta hlutfall þeirra sem njóta framhalds- og háskólamenntunar á Norðurlöndum. Ísland er í 23. sæti af 30 OECD ríkjum þegar kemur að menntun. Hvað segir það okkur um möguleika íslenskrar æsku til lífsgæða og athafna í hnattvæddum heimi framtíðarinnar ég tala nú ekki um þegar kreppir að á vinnumarkaði?Í kaupmáttarumræðunni hefur lítið farið fyrir þeirri staðreynd að fjöldi fátækra barna hefur þrefaldast í tíð núverandi stjórnarherra (úr 2,1% árið 2000 í 6,6% árið 2004). Fjöldi fátækra barna einsstæðra foreldra hefur nánast tvöfaldast (úr 10,5% í 18%) á sama tíma: Það lætur nærri að vera fimmta hvert barn.
Barn foreldra sem hafa ekki efni á að greiða fyrir íþróttir þess, tómstundastarf eða tannlæknaþjónustu er fátækt barn. Börn sem hreyfa sig minna en önnur born, heldur fitna, hafa verri tannheilsu og heilsufar almennt, geta ekki klæðst eins og hin börnin - það eru fátæk börn sem eiga á hættu félagslega einangrun. Ekkert barn á það skilið að vera dæmt frá þeim lífsgæðum að vera jafnoki annarra og fullgildur meðlimur í hópi síst á Íslandi nú á dögum.
Meðan það glymur í eyrum okkar að lífskjör séu að batna fjölgar stöðugt þeim fjölskyldum sem leita framfærsluaðstoðar. Séu opinberar tölur lesnar ofan í kjölinn sést að fátækt er meiri á Íslandi en í nokkru hinna Norðurlandanna um þessar mundir. Fátækt er tvöfalt meiri á Íslandi en í Noregi, svo dæmi sé tekið. Hvergi á öllum Norðurlöndum hefur fátækt aldraðra aukist jafn hratt og hér. Hún var 13,6% árið 1998, er nú nálægt 30% . Í þessu landi velmegunar og kaupmáttar lifir um þriðjungur ellilífeyrisþega undir viðurkenndum fátæktarmörkum og einnig þriðjungur einstæðra foreldra ( 31% ). Það er þrisvar til fjórum sinnum hærra hlutfall en á öðrum Norðurlöndum.Okkur er sagt að lífskjör séu að batna. Samt lengjast biðlistarnir eftir hjúkrunarrýmum og heilbrigðisþjónustu. Neyðarástand hefur skapast á BUGL sökum biðtíma eftir geðheilbrigðisúrræðum við börn og unglinga. Það er sama hvert litið er í velferðarþjónustunni, allsstaðar eru biðlistar. Var það þetta sem verkalýðshetjurnar sáu fyrir sér í upphafi vegferðar? Að það væru hinar vinnandi stéttir sem stæðu undir velmegun hinna án þess að hljóta fullan skerf af sameiginlegum gæðum?
Nei, að sjálfsögðu ekki. En þessar leikreglur eru ekki settar á vettvangi verkalýðsbaráttunnar. Þær eru settar við ríkisstjórnarborðið og á hinu háa alþingi. Réttindabarátta verkafólks er því ekki eingöngu háð með stéttabaráttu eða við samningaborð í kjaradeilum. Hún á sér líka stað í kjörklefanum.
Sé eitthvað til í því sem stjórnarherrarnir segja um batnandi lífskjör - þá er ekki seinna vænna að dreifa meðaltalinu betur. Skipta gæðum gnægtarborðsins og setja sanngjarnar leikreglur. Til þess var verkalýðshreyfingin stofnuð - til þess var barist.
Leiðarljós jafnaðarmanna um heim allan er draumurinn um samfélag þar sem hver maður gefur eftir getu og þiggur eftir þörfum. Á þeirri hugsjón hafa systraþjóðir okkar á Norðurlöndum byggt sín velferðarkerfi - og það er vígið sem íslensk verkalýðshreyfing þarf að verja.
Enn er verk að vinna!
Bloggar | Breytt 2.5.2007 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sá yðar sem syndlaus er - erfiðleikar umhverfisráðherra og þjóðkirkju
30.4.2007 | 16:11
Ég er ekki sátt við að öll spjót skuli standa á Jónínu Bjartmarz þessa dagana - verð bara að segja eins og er. Ég er heldur ekki sannfærð um þessa spillingu sem menn eru að þvargviðrast yfir. Það var ekki í hennar valdi að veita tengdadóttur sinni ríkisborgararétt - það verða einhverjir aðrir að svara fyrir það mál.
Segjum sem svo að hún hafi aðstoðað tengdadóttur sína við að sækja um ríkisborgararéttindi (lái henni hver sem vill) - jafnvel talað við einhvern í því sambandi - hver er þá glæpurinn? Og hver framdi glæpinn? Jónína? Útilokað. Það eina sem var í hennar valdi var að liðsinna tengdadóttur sinni, sem ég vona að hún hafi gert - því hver er svo kaldrifjaður að hann aðstoði ekki náinn aðstandanda í vanda?
Þetta mál er hinsvegar óþægilegt fyrir Jónínu - og því myndi ég í hennar sporum fara fram á að þingið rannsaki málið og það verði tekið upp á borðið hvernig stóð á þessari afgreiðslu nefndarinnar.
Annað sem ég er ósátt við þessa dagana eru ofsafengin viðbrögð sjálfskipaðra málsvara samkynhneigðra við ákvörðun nýafstaðinnar prestastefnu um að blessa samband samkynhneigðra.
Kirkjan stígur markvert skref til móts við samkynhneigða með ákvörðun um að prestum skuli heimilt að blessa samband þeirra - og hvað gerist? Það verður allt brjálað yfir því að kirkjan skuli ekki hafa gengið enn lengra. Meira að segja jafn mætur maður og Illugi Jökulsson heldur því fram í pistli að kirkjan hafi lagt þennan þjóðfélagshópi í einelti, sparkað í hann og niðurlægt. Þó hefur engin þjóðkirkja í heiminum - mér vitanlega - gengið lengra til móts við samkynhneigða en einmitt íslenska þjóðkirkjan.
Ég styð réttindabaráttu samkynhneigðra, enda á ég bæði vini og ættingja í þeirra hópi. En þessar ofsóknir í þeirra nafni gegn þjóðkirkjunni get ég ekki tekið undir. Umræðan er komin út fyrir allt velsæmi - ALLT velsæmi.
Og hananú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Svarað í sumartunglið
28.4.2007 | 23:53
Ég er að horfa á sumartunglið - það er nærri því fullt.
Samkvæmt gamalli þjóðtrú á maður að þagna í fyrsta sinn sem maður sér sumartunglið og bíða þess að einhver annar yrði á mann. Sá sem talar þannig til manns segir óafvitandi forspá sumarsins. Það heitir að "svara í sumartunglið".
Um þetta orti Guðmundur Ingi Kristjánsson fallegt kvæði:
- Eftir fornri þjóðtrú, það veit eg,
- þögul skaltu verða og hátíðleg
- þegar fyrsta sinni sumartunglið
- sérðu reika bláan himinveg.
- Ekki máttu rjúfa þessa þögn
- það er brot við lífsins duldu mögn
- fyrr en einhver til þín talað hefur,
- tal hans verður þér að spádómssögn.
- Hversu stutt og einfalt sem það er
- örlög þín í dularskauti ber,
- þannig er að svara í sumartunglið,
- segja grunlaus hvað á eftir fer.
- Komdu, komdu beina braut til mín,
- björt og fögur þegar tunglið skín
- því að alltaf eru á vörum mínum
- orð sem verið gætu forspá þín.
Ég hef stundum fengið svar í sumartunglið. Að þessu sinni klúðraði ég því þó sjálf með því að glopra út úr mér hvað himininn væri fallegur kvöldið sem ég stóð í Grímsnesinu að loknu skemmtilegu hagyrðingakvöldi um daginn og dáðist að nýkviknuðu sumartunglinu. Venus lýsti skær og fagur í vestri og tunglið var eins og glampandi sigð á dimmbláum himni í litaskiptum kvöldsins.
Ég hugga mig við að þeir sem heyrðu til mín - og það var svolítill hópur fólks - fengu þar með gott svar í sumartunglið, hver fyrir sig. Stundum getur verið sælla að gefa en þiggja.
Hvað mig sjálfa varðar, þá var það fegurð himinsins bar þjóðtrúna ofurliði að þessu sinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þau náðu mér á náttsloppnum - dimmisjón í MÍ
27.4.2007 | 08:23
Í morgun vaknaði ég við háreysti utan við húsið - ýl, gaul, hróp og söng. Þegar ég leit út um gluggann blöstu við mér hvítklæddir englar. Ég nuddaði stýrurnar úr augunum, þessir englar voru með bjór í hönd - einn með gítar. Ég rankaði við mér: Dimmisjón MÍ í dag - og hópurinn mættur framan við svalirnar hjá mér.
Ekki var ég ekki fyrr komin fram á svalirnar en "Gaudeamus igitur" var brostinn á og ómaði í einradda kröftugum söng um alla götuna - eiginlega um allan Ísafjörð því það var stafalogn og hljóðbært svona snemma morguns, klukkan rétt rúmlega sjö.
Undanfarin sex ár hefur það verið ófrávíkjanleg regla á dimmisjón-degi að útskriftarefnin hafa komið til mín í hafragraut og slátur að morgni síðasta skóladags. Inngönguversið hefur verið Gaudeamus igitur, sem þau hafa lært utanbókar og sungið við dyrnar hjá mér áður en þau ganga í bæinn. Þessari hefð var komið á fyrsta árið mitt í skólameistarastarfinu, og hefur haldist órofin síðan.
Að þessu sinni beið þeirra morgunmatur í öðru húsi - þannig er lífið. En þau komu og kvöddu gamla skólameistarann sinn. Það gladdi mig mjög.
Einhverju sinni sagði ég við tilvonandi dimmitanta að þau myndu aldrei ná mér í rúminu - hversu snemma sem þau mættu. Ég myndi nefnilega ekki láta nemendur mína sjá mig ótilhafða að morgni dags. Jæja, þau náðu mér í þetta skipti ómálaðri og úfinni á náttsloppnum. Öðruvísi mér áður brá - en þau voru sigri hrósandi.
"Við elskum þig Ólína!" kölluðu einhverjir úr hópnum að söngnum loknum - og þar með voru þau farin með fingurkossana mína í veganestið. Þarna stóð ég eins og gul fuglahræða í gamla náttsloppnum mínum á svölunum - og horfði tárvot á eftir þessum elskum á halda áfram sinni göngu. Ég sneri mér að Sigga mínum - sem var þarna með mér, alklæddur og reffilegur - "Þau lögðu það á sig að læra Gaudeamus" muldraði ég hrærð: "Þau þurftu þess ekki".
Góða skemmtun í dag krakkar mínir - takk fyrir allt - og ég elska ykkur líka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Fátækt í skugga velmegunar - blekkingar umræðunnar
26.4.2007 | 12:19
Guðmundur Steingrímsson er með athyglisverða bloggfærslu um blekkingar þær sem viðhafðar eru í umræðunni um kaupmáttinn í landinu. Hann gluggaði í hagtölur og komst að raun um að kaupmátturinn hefur fyrst og fremst aukist hjá þeim tíundahluta þjóðarinnar sem hæstar hefur tekjurnar. Sömuleiðis komst hann að því með því að skoða opinberar tölur að árleg kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna hefur yfirleitt verið mun meiri í tíð annarra ríkisstjórna en þeirrar sem nú situr.
Þetta varð mér hvatning til þess að skoða betur skýrslu sem vakti athygli mína fyrir fáeinum mánuðum en það er skýrsla forsætisráðuneytisins um fátækt meðal barna. Ég hafði á sínum tíma lesið samantekt ráðuneytisins fremst í skýrslunni, en þar var fullyrt að ástandið hér á landi væri bara býsna gott: Ísland væri í hópi þeirra OECD-ríkja þar sem fátækt barna mælist hvað minnst; en 6,6% íslenskra barna munu hafa búið við fátækt á árinu 2004. Jæja, ég ákvað að skoða samhengi hlutanna betur og fór að glugga í tölulegar upplýsingar skýrslunnar. Til samanburðar hafði ég skýrslu sem borgarhagfræðingur tók saman fyrir Reykjavíkurborg árið 2001 um sama efni.
Niðurstaðan er athyglisverð: Frá 2001 2004 þrefaldast fjöldi fátækra barna á Íslandi (úr 2,1% í 6,6%). Til samanburðar má nefna að á tímabilinu 1995-2001 lækkaði hlutfall fátækra barna hinsvegar úr 2,9% í 2,6%. Fátækt hefur ekki verið meiri meðal íslenskra barna en í annan tíma en í tíð núverandi ríkisstjórnar og hefur ekki aukist meira á neinu öðru tímaskeiði sem þessar skýrslur ná til. Séu börn einstæðra foreldra skoðuð sérstaklega þá fjölgar fátækum í þeim hópi um helming, úr 10,5% árið 2001 í 18% árið 2004.
Það má líka geta þess í ljósi digurmæla sem fallið hafa af vörum stjórnarherranna um vaxandi kaupmátt og bætt lífskjör almennings að fátækt meðal aldraðra hefur aukist mest á Íslandi af öllum Norðurlöndum. Í dag eru 20-30 þúsund manns undir fátæktarmörkum á Íslandi, og mælist fátækt meiri hér en í nokkru hinna Norðurlandanna. Fram hefur komið í fjölmiðlum að um 30% ellilífeyrisþega og 31% einstæðra foreldra lifi nú undir fátæktarmörkum á Íslandi. Til samanburðar má geta þess að í hinum norrænu löndunum búa 6,6-13,5% einstæðra foreldra við fátækt.
Já, svo segja þeir að þjóðin hafi aldrei haft það betra.
Ég hef samið nýtt spakmæli af þessu tilefni - það er svona: Frá háum turnum falla langir skuggar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)