Frjálslyndir afsala sér fulltrúa í borgarstjórn

MargretSverris  Jæja, þá hefur Frjálslyndi flokkurinn afsalað sér allri aðkomu að borgarstjórn Reykjavíkur. Og konurnar í þeim flokki afneita fulltrúa framboðsins - sem var þó, ef ég man rétt, borið fram í nafni Ff og óháðra. Maður skyldi ætla að fulltrúi sem er kosinn í nafni slíks framboðs og segir sig úr Frjálslynda flokknum geti eftir sem áður verið óháður, a.m.k. á meðan hann gengur ekki í einhvern annan stjórnmálaflokk sem aðild á að borgarstjórn.

Nú er Margrét raunar í Íslandshreyfingunni - en sú hreyfing bauð aldrei fram til borgarstjórnar. Það er því varla hægt að tala um Margréti sem fulltrúa hennar. Gagnvart borgarstjórn Reykjavíkur er Íslandshreyfingin bara eins og hvert annað áhugamannafélag. Margrét er hinsvegar bundin af stefnuskránni sem hún bar fram þegar hún var kosin inn í borgarstjórn.

Er nokkur ástæða til að ætla að hún muni ekki fylgja þeirri stefnuskrá? Varla hefur hún skipt um sannfæringu þó hún fái ekki þrifist innan flokksbanda Frjálslynda flokksins.

Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt við mál Gunnars Örlygssonar. Hann skipti um þinglið - breytti atkvæðavæginu á Alþingi. Margrét hefur ekki gert neitt slíkt.

Nei, þetta er ekki gáfulegt útspil hjá Frjálslynda flokknum. Nú er deginum ljósara að flokkurinn á enga aðkomu í borgarstjórn Reykjavíkur. Og það er ekki Margréti Sverrisdóttur að kenna, heldur flokksmönnum sjálfum. 


mbl.is Vantrausti lýst á Margréti Sverrisdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir lásu ekki samninginn! Voru stjórnarlaunin of lág, eða ....??

Það er með ólíkindum að fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórn OR skuli ekki hafa "vitað" hvað stóð í samningnum um sameiningu REI og GGE. Sjálfur borgarstjórinn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson vissi ekkert, samningurinn var nefnilega á ensku, og hann hafði EKKI LESIРhann. Angry

Sem borgarstjóri bar Vilhjálmur þó ríkari ábyrgð en margur annar gagnvart umbjóðendum sínum, þ.e. íbúum Reykjavíkurborgar - og vil ég þó ekki draga úr ábyrgð annarra stjórnarmanna. En hann LAS EKKI gögnin!

Fyrir hvað er svo verið að greiða stjórnarmönnum í OR á annað hundrað þúsund krónur í hverjum mánuði? Af almannafé.  Þessir menn lesa ekki fundargögnin - ekki einu sinni þegar taka þarf afdrifaríkar ákvarðanir um fyrirtækjasamruna og forgangsrétt - sem í þessu tilviki lýtur að öllum erlendum verkefnum sem kunna að falla í skaut Orkuveitunnar næstu 20 árin!!

En þeir láta sér detta í hug að hækka þóknunina fyrir stjórnarsetu um helming, í 350 þús. á mánuði, eins og fram hefur komið. Það vantar ekki að almenningur eigi að greiða þeim sómasamleg laun á meðan þeir slugsa og svalla með verðmæti borgarinnar - og afhenda þau í hendur einkaaðilum, eins og ekkert sé sjálfsagðara; bera það svo á borð fyrir almenning að þeir hafi ekkert vitað hvað þeir voru að gera.Angry

Ef þessir menn væru í vinnu hjá mér myndi ég REKA þá - strax!


mbl.is Mál Svandísar þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur er risinn :-)

Jæja, þá eru tilfinningaköstin farin af stað yfir hinum nýja meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, með  brigslum um tækifærismennsku Svandísar og  Björns Inga, óheilindi, ósamkvæmni og ég veit ekki hvað.

Það gleymist í þessari umræðu allri að það er skylda borgarfulltrúa á öllum tímum að tryggja starfhæfan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Gamli meirihlutinn var óstarfhæfur. Hvað átti Björn Ingi að gera? Hann stóð þó með sannfæringu sinni - lét af ákveðnum persónulegum hagsmunum til þess að frá fram málefnastöðu sem hann taldi farsælli fyrir borgarbúa. Hann er jú fulltrúi fyrir borgarbúa, ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Nei, nú held ég að menn ættu bara að draga andann djúpt og reyna að ná aftur stillingu sinni. Reiðilestrar í viðtalsþáttum skila engu.

 En Dagur er risinn í borginni :-) það er gleðiefni fyrir okkur Samfylkingarfólk Smile


Sárir Sjálfstæðismenn.

Sjálfstæðismenn eru sárir - það leynir sér ekki, enda ekki við öðru að búast heldur. Þeir eru líka reiðir - það sáum við á Hönnu Birnu og Villa. Hann stóð sig hinsvegar vel miðað við aðstæður - var keikur. Það er það eina sem dugir á stundu sem þessari.

 En það er holur tónn í tali flokkssystkina hans um heilindi innan borgarstjórnarflokksins og trúnaðarbrest Björns Inga.

Þetta er sama fólkið og dögum saman sat á svikráðum við borgarstjórann fyrrverandi - m.a. á lokuðum fundum með forystu Sjálfstæðisflokksins. Þjóðin fylgdist með þessu, það var á allra vitorði. Að tala svo um "djúpa vináttu" milli þessa fólks og "sanngirni" þess og "frábært samstarf" á blaðamannafundi þegar meirihlutinn er fallinn vegna óeiningar (og innbyrðis undirferlis) - er eiginlega bara  grátbroslegt.

Þá fannst mér líka hjákátleg yfirlýsing Hönnu Birnu um að fullar forsendur hafi verið fyrir því að ná sátt í OR málinu við Björn Inga "ef hann hefði bara verið tilbúinn að fallast á okkar sjónarmið". GetLost 

Hmmm...... hafi þetta verið samstarfsandinn í meirihlutanum fyrrverandi, þá er kannski ekki skrýtið þó trosnað hafi upp úr samstarfinu.

 Já, stundum skipast veður skjótt í lofti - ekki síst í stjórnmálum Ég óska borgarbúum til hamingju með þau umskipti sem nú hafa orðið, og nýja meirihlutanum - ekki síst borgarstjóranum - velfarnaðar í vandasömum aðstæðum.

 


mbl.is Vilhjálmur: Ákvörðun Björns Inga um samstarfsslit fyrirvaralaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr Reykjavíkurlisti!

Á dauðanum átti maður von en ekki því að Reykjavíkurlistinn gengi í endurnýjun lífdaga við aðrar eins aðstæður og þessar. Maður beið þess að Vilhjálmur viki sem borgarstjóri og Björn Ingi sem formaður borgarráðs - en þessi snúningur á málinu er sannarlega óvæntur.

Birni Inga Hrafnssyni er ekki fisjað saman - það sýnir sig núna. Og Dagur, Svandís og Margrét svo sannarlega ekki af baki dottin.

 En Dramað er rétt að byrja - nú er að hefjast blaðamannafundur á heimili borgarstjórans fráfarandi, þannig að það er best að segja ekki of mikið að sinni ...


mbl.is Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TAKK Svandís.

Ég tek ofan fyrir Svandísi Svavarsdóttur - hún á heiður skilinn fyrir framgöngu sína í þessu máli og málflutning allan. 

 TAKK Svandís fyrir að standa vaktina. 

 

PS: Dagur stóð sig líka vel Wink ekki síst í Kastljósinu í kvöld. Takk Dagur.


mbl.is Ósk um flýtimeðferð í máli Svandísar samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leggið við hlustir á morgun :-)

RaghneiðurDav Á morgun kl. 15:30 verður útvarpsþáttur um starf Björgunarhundafélags Íslands á Rás-1.  Það er engin  önnur er Ragnheiður Davíðsdóttir, sú merka fjölmiðlakona og forvarnarfulltrúi með meiru, sem fjallar þar um störf björgunarhunda- sveitarinnar. Joyful

Ragnheiður kom á æfingarhelgi hjá okkur fyrir skömmu og fylgdist með. Það er gaman að sjá hvernig hún bloggar um þessa heimsókn á síðunni sinni  í dag. Ég verð að segja að mér hlýnaði um hjartarætur fyrir hönd félaga minna í björgunarhundasveitinni þegar ég las það sem hún segir þar.

 En fyrir þá sem áhuga hafa, þá verður þessi þáttur sumsé á morgun kl. 15.30 - Dr. Rúv nefnist hann.

Leggið við hlustir.

 

 P1000276 (Small) Annars hefur verið ýmislegt að gera á vettvangi björgunarmála að undanförnu - því nú er ég farin að taka þessi námskeið sem maður þarf að hafa til þess að geta verið gjaldgengur með björgunarhund í útkalli.

Um síðustu helgi var ég á fyrstuhjálpar-námskeiði sem stóð alla helgina, og svo voru verklegar björgunaræfingar innan og utanhúss í framhaldinu. Í fyrrakvöld "björguðum" við t.d. tveimur "stórslösuðum" konum í hlíðinni hér ofan við bæinn. Bárum aðra þeirra tvíbrotna á börum í niðamyrkri, yfir á og upp grýttan bakka.

Höhömm - það var altso ég Errm sem átti að stjórna þessum aðgerðum, og - tjahh - við skulum bara orða það þannig, að ég er fegin að þetta var æfing en ekki alvara. Whistling

En, hva - þetta lærist eins og allt annað.

 Verra var, að í þessu bjástri þar sem við paufuðumst um í myrkrinu með börurnar, fann ég skrítna tilfinningu aftan á öðrum kálfanum. Gaf því engan sérstakan gaum, fyrr en í blakinu í gærkvöldi. Þá lét eitthvað undan.

 Og núna er ég sumsé tognuð  - Angry - staulast um á hækjum, því ekki get ég stigið í fótinn.

Það er þó bót í máli að mér skyldi hafa tekist að ljúka námskeiðinu áður en svona óheppilega vildi til.  Cool 


... og snuða Reykvíkinga um tugi milljarða! Hvað eru menn að hugsa?

Þeir ætla að "selja hlut" OR í REI fyrir sextán milljarða og fá þar með tíu milljarða hagnað. Samt talar Björn Ingi Hrafnsson um að á tveimur árum muni verðmætið fara í allt að 40 milljarða. Af hverju þá að selja núna? Og hvernig getur þetta verið "lausn" á málinu?

 Nei, það er greinilega verið að bjarga Vilhjálmi borgarstjóra fyrir horn. Og þetta með að skipta Hauki Leóssyni út úr stjórn (ekki Vilhjálmi og Birni Inga, takið eftir því) og hafa uppi dylgjur um "nokkra lykilstarfsmenn" og "framgöngu þeirra" - það hljómar ekki trúverðugt. Hér er verið að beina umræðunni að einhverju allt öðru en aðalatriðum.

Og hvað svo? Allir sáttir?

Sannleikurinn er sá að borgarstjóri Reykvíkinga ásamt borgarfulltrúa Framsóknarflokksins - báðir stjórnarmenn í Orkuveitu Reykjavíkur og Björn Ingi auk þess stjórnarmaður í REI - ætla að koma almenningsverðmætum yfir í hendur auðmanna á útsöluprís. Og nú virðist sem Sjálfstæðismenn í Reykjavík ætli að aðstoða þá við þetta verk.

Aðferðin var hárhraðasamruni tveggja fyrirtækja þar sem almenningseign var afhent einkafyrirtæki í eigu auðvaldsfyrirtækja. Samrunaferlið átti sér stað með vafasömum aðferðum sem draga má í efa að hafi verið löglegar. Með sölu á hlut OR núna er útlit fyrir að Reykvíkingar geti orðið af tugmilljarða verðmætum. Og halda menn svo að það friði Reykvíkinga að skipta Hauki Leóssyni út úr stjórnum fyrirtækjanna?

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur núna komið að mjög svo vafasömum gjörningi. Annarsvegar samrunaferli REI og GGE, hinsvegar dularfullum kaupréttartilboðum til valinna starfsmanna. Hvorugt er til þess fallið að auka traust almennings á stjórnsýslu borgarinnar eða persónu borgarstjórans. Ofan á allt annað fór hann á bak við borgarbúa og samflokksmenn sína, eins og Svandís Svavarsdóttir bendir réttilega á.

Einhvern tíma hefði Vilhjálmur sjálfur talið ástæðu til fyrir sitjandi borgarstjóra að víkja úr sessi fyrir viðlíka sakir - jafnvel minni.


mbl.is Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aldrei mun þín auma sál - annað fegra mæla"

Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Peningastofnanir og skólar sem kenndir eru við viðskipti og verslun gera sífellt háværari kröfur um að "alþjóðavæða viðskiptaumhverfi" sitt, eins og mig minnir að það sé orðað. Það þýðir víst að taka upp ensku sem samskiptatungumál innan stofnunar sem utan, þ.e. að hafa eyðublöð, tölvusamskipti, ársskýrslur o.fl. á ensku eingöngu.Þetta munu einhverjar peningastofnanir hafa tekið upp nú þegar - og nú hefur Verzlunarskólinn sótt um það til menntamálaráðuneytisins að taka ensku upp sem aðaltungumál á tiltekinni námsbraut.

 Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.

Á átjándu öld lögðu íslenskir embættismenn það til að íslenskan skyldi lögð niður sem embættismál á Íslandi, en danska tekin upp í staðinn. Rökin voru svipuð þá og nú. Embættismenn þjóðarinnar voru menntaðir í Danmörku og farnir að týna niður íslenskunni. Skrifmál þeirra var dönskuskotið embætismannamál - svokallaður kansellístíll sem er afar torskilinn nútíma Íslendingum. Bjarni Jónsson rektor Skálholtsskóla sagði það "ekki aðeins gagnslaust, heldur skaðlegt að viðhalda íslenskri tungu" í bréfi árið 1771 og Sveinn Sölvason lögmaður talar árið 1754 niðrandi um þetta afdankaða tungumál sem þá sé "komið úr móð". 

Af þessu tilefni orti Gunnar Pálsson rektor Hólaskóla, síðar prestur og prófastur í Hjarðarholti í Dölum (1714-1791):

  • Er það satt þig velgi við 
  • vinur, íslenskunni,
  • og haldir lítinn herrasið
  • hana að bera í munni?

Gunnar svarar spurningunni sjálfur með svofelldum orðum:

  • Íslenskan er eitt það mál
  • sem allir lærðir hæla
  • og aldrei mun þín auma sál
  • annað fegra mæla.

 

 Íslensku skáldin risu upp til bjargar þjóðtungu sinni á átjándu öld - og þeim tókst að sýna fram á gildi hennar, gæða hana lífi og draga fram fegurð hennar. Þar með lögðu þau grunn að ríkulegum bókmenntaarfi seinni tíma. Sá arfur státar af verkum manna á borð við Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Stein Steinarr, Davíð Stefánsson, Halldór Kiljan Laxness, Þórberg Þórðarson, Svövu Jakobsdóttur, Jakobínu Sigurðardóttur, Fríðu Sigurðardóttur .... og þannig mætti lengi telja.  

Nú er spurning hvort skáldakynslóð okkar daga er viljug - eða megnug - að launa þessa arfleifð og rísa upp til varnar fyrir "ástkæra, ylhýra málið" - þjóðtunguna sem Jónas orti svo fagurlega um ...

  • móðurmálið mitt góða,
  • hið mjúka og ríka,
  • orð áttu enn eins og forðum
  • mér yndið að veita.

Vituð ér enn - eða hvað?


mbl.is Verzló vill fá enska námsbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta ljóðabókin mín ...

Vestanvindur  ... er að fara í prentsmiðjuna. Kápan tilbúin og búið að senda hana í Bókatíðindin. He-hemm - það verður sumsé ekki aftur snúið úr þessu Blush ég er komin út úr skápnum með ljóðin mín.

"Og þó fyrr hefði verið" hnussaði vinkona mín elskulega þegar ég sagði henni hálf feimin hvað stæði til. En ég verð að viðurkenna að fyrir mig er þetta svolítið skrýtið. Nú þegar á hólminn er komið finnst mér hálfpartinn eins og ég hafi opnað dyr sem hingað til hafa verið lokaðar. Hleypt fólki (væntanlegum lesendum) innfyrir hliðin. Ég ímynda mér að þetta sé ekki ósvipað því að standa hálfnakin á almannafæri.

Hvað um það - teningunum er kastað. Ég hlakka til að sjá gripinn þegar hann kemur úr prentsmiðjunni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband