Tónlistarupplifun í Ísafjarðarkirkju

Ég er að koma af aldeilis hreint frábærum tónleikum í Ísafjarðarkirkju þar sem franski fiðlusnillingurinn Gilles Apap fór beinlínis á kostum. Og ekki aðeins hann, heldur allir sem að þessum tónleikum komu.

Þarna komu fram Íslenska kammersveitin og Balzamersveitin Bardukha - báðar undir forystu Hjörleifs Valssonar fiðluleikara, sem lék við "hvern sinn fingur" ef svo má segja. Hann heillaði mannskapinn gjörsamlega upp úr skónum - og virtist (a.m.k. í augum hins óbreytta leikmanns)standast nokkurnveginn samanburð við franska snillinginn.

Íslenska kammersveitin var fyrir hlé - skipuð frábæru mannvali. Eftir hlé lék Balzamersveitin undir með þeim Hjörleifi og Apap. Þar voru Ástvaldur Traustason á harmonikku, Birgir Bragason á kontrabassa - alveg ótrúlega góður - og svo senuþjófur kvöldsins, Steingrímur Guðmundsson á slagverkið. Ég kolféll fyrir honum - þvílík fingrafimi, taktvísi og hraði.  Magnaður galdur framinn þar.

Gilles Apap er sérstakur  tónlistarmaður. Hann hefur náð ótrúlegri tækni á fiðluna - svo mikilli að hann er farinn að brjóta niður helgidóma. Þá á ég við það hvernig hann brýtur upp þekkt tónverk, færir þau í nýjan búning, leikur sér að þeim, ummyndar þau beinlínis. Hljóðfærið leikur í höndunum á honum, að því er virðist algjörlega áreynslulaust.

Ef þið eigi þess nokkurn kost að hlusta á þennan mann leika á tónleikum - grípið þá tækifærið. Hann er sannkölluð upplifun.

Takk fyrir mig.


Blóðug af bloggvinahreinsunum.

Úff, var að hreinsa til á bloggvinalistanum. Jamm, eyddi bara út nokkrum "bloggvinum" sem aldrei hafa gert vart við sig á síðunni hjá mér frá því þeir gerðust vinir og sumir hverjir hafa ekki bloggað í marga mánuði.

Þetta var erfitt verk - sumir vildu hreinlega ekki eyðast - ég þurfti að margsmella á "eyða" til að fá þá út. Mér leið eins og hálfgerðum morðingja meðan ég var að þessu.

En svona er lífið Crying öllu er afmörkuð stund - líka bloggvináttunni.


Skottulækningar og ömmusálfræði

Pétur Tyrfingsson sálfræðingur fór mikinn í Kastljósþætti sjónvarpsins í gærkvöldi. Umfjöllunarefnið var höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun sem hann kallar "skottulækningar" og "hindurvitni".

Iðkendur þessarar meðferðar telja hana gagnlega við ýmsum kvillum, m.a. einhverfu. Kvöldið áður hafði  verið talað við mann að nafni Stanley Robinson sem nú er staddur hér á landi að kynna meðferðina. Einnig var rætt við móður einhverfs barns sem sýndi batamerki eftir slíka meðferð.

Það sem virðist helst hafa farið fyrir brjóstið á Pétri Tyrfingssyni er grein Gunnars Gunnarssonar sálfræðings þar sem hann mælir með höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun fyrir einhverfa. Röksemd Péturs er sú að rannsóknir skorti til þess að mæla með þessari meðferð eða heita árangri af henni og því geti sálfræðingur - sem telst til viðurkenndrar heilbrigðisstéttar - ekki mælt með slíkum aðferðum.

 Gott og vel. Pétur svaraði því hinsvegar ekki hvernig stendur á því að starfsfólk hinna svokölluðu "viðurkenndu" læknavísinda - sálfræðingar þar á meðal - skuli taka við einhverfusjúklingum og veita þeim meðferð eða ráð af einhverju tagi þegar engar vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á "lækningu" við þessum kvilla. Í framhaldinu vakna fleiri spurningar:

1) Sé krafan um vísindalegar rannsóknir að baki læknismeðferð virt til fulls - hvað má þá segja um tilraunalækningar hinna viðurkenndu læknavísinda í gegnum tíðina, t.d. við krabbameinum ýmiskonar, HIV veirunni og fleiri skæðum og erfiðum sjúkdómum? Ætlar Pétur að halda því fram að þær meðferðir sem veittar hafa verið við þessum sjúkdómum séu allar vísindalega viðurkennd "lækning" við þeim?

2) Pétur kvaðst sjálfur nota "ömmusálfræði" þegar allt annað bregst gagnvart sjúklingum sem leita til hans sem sálfræðings. Hvað er "ömmusálfræði" - og hvaða rannsóknir liggja að baki gagnsemi hennar?

3) Hvað skilur á milli ömmusálfræðinnar og til dæmis höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar?

4) Skiptir máli hvort það er sálfræðingur með starfsréttindi eða hómópati sem  veitir ráð við kvillum án þess að sýnt hafi verið fram á með vísindalegum hætti að þau ráð geri gagn?

Þannig mætti lengi halda áfram - sannleikurinn er sá að það er ekkert algilt í þessum heimi. Því fannst mér Pétur Tyrfingsson full stórorður í ummælum sínum um hindurvitnin og skottulækningarnar. Hlátur hans og hæðnitónn bættu ekki úr skák.

Hitt er svo annað mál - að þeir sem trúa staðfastlega á ágæti höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar - ættu að afla sér rannsóknarstyrkja til þess að sýna fram á gagnsemi meðferðarinnar. Þannig myndu þeir gera þessari meðferð og þeim sem hennar njóta gagn til framtíðar. Sé aðferðin raunverulega að virka hlýtur það að koma talsmönnum hennar betur að geta sýnt fram á það með einhverju öðru en vitnisburðum valinna einstaklinga. Það hlýtur að koma heiminum betur að sýna fram á að þetta geti verið viðurkennt lækningaúrræði - eða a.m.k. til þess fallið að bæta líðan fólks.

Sjálf hef ég tekið lýsi og birkiösku í fjölda ára. Engar vísindalegar sannanir hafa sýnt fram á gagnsemi birkiöskunnar - en lýsið hefur verið rannsakað að einhverju marki. Ef ég ætti að sleppa öðru hvoru myndi ég frekar sleppa lýsinu en birkiöskunni, einfaldlega vegna þess að ég hef reynt það á sjálfri mér að mér verður meira um að hætta að taka birkiösku en lýsi. Engar vísindalegar rannsóknir liggja til grundvallar þessari reynslu minni. Hún er sönn engu að síður - og þannig er um margt í veröldinni.


Afsökunarbeiðni og fyrirgefning

Mér hefur nú borist afsökunarbeiðni frá ungum manni - fyrrverandi nemanda mínum við Menntaskólann á Ísafirði. Hann hefur látið birta afsökunarbeiðni sína opinberlega með svofelldum orðum:

"Undirritaður vill koma á framfæri innilegri afsökunarbeiðni til dr.Ólínu Þorvarðardóttur fyrrverandi skólameistara á Ísafirði. Föstudaginn 19.september s.l. sendi undirritaður SMS skeyti til hóps nemanda í Menntaskólanum á Ísafirði og lét líta svo út sem það hafi verið sent úr símanúmeri Ólínu. Sá gjörningur var hörmuleg yfirsjón og verður ekki réttlættur á nokkurn hátt. Með vinsemd og virðingu. Gunnar Atli Gunnarsson".

Þessari orðsendingu til mín fylgdu þau orð Gunnars Atla að hann hefði ennfremur sagt af sér formennsku í Nemendafélagi Menntaskólans á Ísafirði, vegna þessa máls.

Nú vil ég segja þetta:

Kæri Gunnar Atli.

Öllum verða á mistök í lífinu. Það er liður í því að þroskast og verða að heilsteyptri manneskju - enginn lærir að ganga án þess að hrasa. Það eru því ekki mistökin sjálf sem lýsa okkur best, heldur hitt, hvernig við bregðumst við þeim og bætum fyrir þau.

Nú þegar þú hefur sagt af þér sem formaður NMÍ og beðið mig opinberlega afsökunar ert þú maður að meiri. Þú hefur gengist við gjörðum þínum eins og heiðarlegum manni sæmir og axlað ábyrgð. Vissulega sárnaði mér við þig, en mér þykir vænt um að sjá hvernig þú hefur sjálfur tekið á mistökum þínum.

Ég fyrirgef þér því þessa yfirsjón  - og óska þér alls hins besta í lífinu.

  

Viðsjárvert ástand

 Það er undarlegt að horfa á mann skotinn til bana með þessum hætti - verða vitni að fjörbrotum hans í orðsins fyllstu merkingu. Hann varð á vegi hermanns við róstusamar aðstæður - ljósmyndari að vinna sitt starf.

 Ástandið í Búrma hefur farið stigversnandi að undanförnu, en á sér að sjálfsögðu áratuga aðdraganda þar sem lýðræðisöflin í landinu hafa miskunnarlaust verið lamin niður af herstjórninni sem m.a. hefur haldið leiðtoga lýðræðishreyfingarinnar Aung Sang Suu Kuy í stofufangelsi árum saman. Frá því í ágúst s.l. hafa friðsamleg mótmæli verið brotin á bak aftur æ ofan í æ, með vaxandi ofbeldi og mannfelli - en ætla má að ólgan í landinu muni leiða til stjórnarbreytinga um síðir.

 

ISG

 

 

 

 

 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur - frammi fyrir alþjóðasamfélaginu - gagnrýnt ástandið í Búrma (Mjanmar), og lýst áhyggjum af þróun mála í þar. Það gerði  hún í ræðu sinni í gær, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York.

 

Ýmsir óttast að alþjóðasamfélagið muni snúa sér undan atburðunum í Búrma að þessu sinni. Síðustu fréttir herma þó að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hafi sent fulltrúa til viðræðna við stjórnvöld þar. Um áhrif þess á atburðarásina verður litlu spáð að sinni - en við getum að minnsta kosti  þakkað fyrir að rödd Íslands hefur látið til sín heyra.

Hafi utanríkisráðherra þökk fyrir það.  


mbl.is Mótmæli hefjast á ný í Myanmar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska fyrir Íslendinga

Eiga Íslendingar rétt á því að töluð sé íslenska í verslunum og þjónustustofnunum á Íslandi? Um þetta ræddu þau Mörður Árnason og Sigríður Andersen í Kastljósinu í gær.

Var helst á Sigríði að skilja að auðvitað ættu menn engan rétt á neinu svona almennt og yfirleitt. Að minnsta kosti væri ekki sjálfsagt að þeir sem hingað flytja erlendis frá fengju íslenskukennslu á kostnað samfélagsins, enda væri það ekki til siðs í nágrannalöndum okkar.

Þetta er ekki allskostar rétt hjá Sigríði.

Nú veit ég ekki hvernig ástandið er í öllum nágrannalöndum okkar - en ég veit a.m.k. hvernig var fyrir mig og fjölskylduna að flytja til Danmerkur árið 1996. Þar gafst börnunum mínum kostur á sérkennslu í dönsku um leið og skóli hófst um haustið. Þau voru höfð í sérkennslu 6 klst á dag, eða þar til þau voru fær um að setjast í almennan bekk, nokkrum vikum síðar, þá flugmælt á dönsku öllsömul.

Sjálf var ég í doktorsnámi við Kaupmannahafnarháskóla. Um leið og ég skráðist inn í skólann var mér gefinn kostur á þriggja vikna dönskunámskeiði - 8 klst á dag, takk fyrir! Þetta þáði ég - borgaði aldrei krónu - en kom altalandi á götuna eftir þessa meðhöndlun.

Þessar móttökur voru til fyrirmyndar - og af þeim mættu Íslendingar læra, því það er af og frá að hér á landi sé nægilega vel staðið að íslenskukennslu fyrir innflytjendur. Það þekki ég vel, hafandi verið skólameistari úti á landi og sett þar upp sérstaka nýbúanámsbraut til þess að bæta úr brýnum skorti á menntunarúrræðum fyrir nýja Íslendinga á landsbyggðinni.

 Auðvitað eiga Íslendingar rétt á því að töluð sé íslenska í verslunum og þjónustustofnunum. Að sjálfsögðu. Og það á að vera okkur metnaðarmál að búa þannig um hnútana að aðlögun innflytjenda gangi fljótt og vel. Það er engin goðgá að samfélagið sjái um þá hlið málsins - það er jú í samfélagslega þágu að brúa bilið milli innflytjandans og viðtökulandsins sem fyrst.

Atvinnurekendur með metnað eiga síðan að bæta um betur gagnvart því starfsfólki sem kemur erlendis frá - hvort sem um er að ræða störf í byggingarvöruverslun, pípulagningafyrirtæki, ræstingaþjónustu eða á sjúkrahúsi.

Umræðan um tvítyngda stjórnsýslu er angi af þessu. Auðvitað á stjórnsýslan að vera í stakk búin til þess að veita upplýsingar á ensku, þýða eyðublöð og þessháttar. En í öllum bænum, förum ekki að missa okkur í það að íslenska stjórnkerfinu beri skylda til þess að tala önnur tungumál en þjóðtunguna. Á sama hátt er ég lítt hrifin af þeim tiltektum háskólanna að kenna viðskipta- og stjórnunarfræði sín á ensku, eins og nú hefur tíðkast í nokkur ár.

Fyrir tíu árum sat ég tíma í stjórnunarfræðum í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, þar sem kennt var eftir þessari stefnu - þ.e. á ensku. Ekki veit ég hverjum var verið að þjóna. Að minnsta kosti rann mér til rifja að hlusta á misvel mælta kennara reyna að koma námsefninu til skila á öðru tungumáli en sínu eigin - í áheyrn tveggja útlendinga og um 40 Íslendinga sem sátu þessa tíma. Þetta var bara vandræðalegt - hreint út sagt. 

Ísland er lítið málsvæði - okkur ber að vernda tungumál okkar og viðhalda því, svo fagurt og sérstætt sem það er. Eitt er að kenna önnur tungumál svo fólk geti lesið erlendar námsbækur og tjáð sig við annarra þjóða fólk. Annað að innleiða framandi tungumál til þjónkunar við aðra en okkur sjálf. Það er eins og að lána Fríkirkjuna sem leikmynd fyrir guðlausa hjónavígslu, líkt og gerðist nýlega.

Stundum verðum við að draga mörk, bæði fyrir sjálf okkur sem aðra. Óttinn við þjóðrembu - eða trúarkreddustimpilinn má ekki verða svo mikill að við týnum sjálfum okkur. 

 


Fyrirsátin í Columbiaháskóla

Ahmadenejad Enginn er ég aðdáandi íranskra stjórnvalda - en móttökurnar sem Mahmud Ahmadinejad Íransforseti fékk í Columbiaháskóla í New York í fyrradag vekja undrun mína, jafnvel hneykslun.

Ég horfði á myndband af fundinum á netinu, og verð að segja að formáli Lee Bollingers, rektors Columbiaháskóla að ræðu Ahmadinejads, gekk fram af mér. Hann sagði eitthvað á þá leið að þessum fundi væri ekki ætlað að virða rétt Íransforseta til að tjá sjónarmið sín heldur rétt bandarískra þegna til þess að skilja og skoða hið illa í návígi. Loks klykkti hann út með því að ávarpa gestinn sem lítilmótlegan og grimman harðstjóra.  

Já, illt er að eiga móttökur undir slíkum gestgjafa sem Lee Bollingers, rektors Columbiaháskóla. Og mig skal ekki undra þó að bandamenn Írans hafi lýst því yfir að þetta boð til Íransforseta um að sitja fundinn í Columbia hafi verið "fyrirsát". Áheyrendur klöppuðu rektornum lof í lófa, því meir sem hann hæddist að gesti sínum því ákafari urðu fagnaðarlætin. Það var raunalegt að horfa á þetta - og ekki beint akademískt.

Ég get ekki annað en tekið undir með ábendingu rektora sjö franskra háskóla sem sendu Bollinger bréf í gær með tíu spurningum. Ein þeirra laut að stuðningi bandarískra stjórnvalda við Saddam Hussein (þann blóðþyrsta harðstjóra sem hann síðar var sagður) í stríði Íraka gegn Írönum á árunum 1980-1988.

Sömuleiðis er það tvískinnungur og óþarfa fjandskapur af bandarískum stjórnvöldum að meina manninum að heimsækja vettvanginn þar sem tvítyrnið hrundi 11. september 2001. Það er einhver áróðurslykt af því að leyfa honum ekki að votta virðingu þeim sem þar létu lífið.

Satt að segja fær maður þá óþægilegu tilfinningu að nú sé verið að búa til nýjan andstæðing - Saddam Hussein allur - og því þá ekki að snúa sér að Íran? Þar finnst líka olía.


Batnandi mönnum er best að lifa

beahÞað er undarlegt til þess að hugsa, að ungi, fallegi maðurinn sem ég var að hlusta á í hádeginu í dag skuli hafa svo mörg mannslíf á samviskunni að hann hefur ekki sjálfur á þeim tölu.  Að Ishmael Beah, þessi geðþekki, skynsami og ritfæri, ungi maður, skuli hafa líflátið fólk með æðarnar fullar af eiturlyfjum, andlega aðframkominn og gjörsneyddur mannlegum tilfinningum - eins og hann lýsir því sjálfur. Herdrengurinn, einn af mörgþúsund börnum sem lent hafa í sömu sporum, þ.e. að vera tekin, heilaþvegin og þjálfuð með aðstoð eiturlyfja til ómennsku og athafna sem kennd eru við hermennsku.

Það var í senn átakanlegt og gleðiefni að hafa þennan dreng fyrir augunum. Hlusta á hann tala af yfirvegun og skynsemi um þessa ótrúlegu reynslu.

Ishmael er sjálfur lifandi dæmi þess að öllum er viðbjargandi. Jafnvel barn sem virðist hafa verið gjörsneytt sakleysi sínu og mennsku í brjálæði stríðsathafna á sér viðreisnar von - því einhvers staðar undir niðri leynist löngun til mannlegs lífs, mannlegrar reisnar, samviska - kærleikur. Og það var svo sannarlega kærleikur sem bjargaði þessu barni - öðruvísi hefði það glatast heiminum fyrir fullt og allt.

 

Ishmael Beah er einn af þeim fjölmörgu börnum sem á Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna líf að launa. Samtökin UNICEF hafa unnið ómetanlegt starf fyrir heimsbyggðina, eins og sannast ekki síst á þessum dreng sem gegn vilja sínum var tekinn úr herbúðunum og komið í fóstur og kostaður til mennta - hreinsaður af eiturlyfjum og studdur til nýs lífs. Leiddur til lífsins, í orðsins fyllstu merkingu.

Hann er gleðilegur vitnisburður um það að "batnandi mönnum er best að lifa".


Símainnbrot - óskemmtileg reynsla

Það virðist vera sem gsm-númerið mitt sé ekki lengur mitt einkanúmer. Í það minnsta hefur óprúttnum aðila tekist að brjótast inn í símann minn - svo undarlega sem það kann að hljóma - og senda úr honum ósmekkleg SMS skilaboð til allra nemenda Menntaskólans á Ísafirði, hvorki meira né minna. Í mínu nafni, á mínu númeri!

Það var heldur óskemmtilegt þegar símhringingarnar byrjuðu fyrr í dag. Undrandi foreldrar og nemendur skólans hringdu í mig linnulaust, ýmist til þess að láta mig vita og vara mig við því hvað væri á seyði - eða til þess að fá staðfest að sendingin væri ekki frá mér. Ég var einfaldlega úti í móa - í orðsins fyllstu merkingu - stödd á björgunarsveitaræfingu skammt austur af Selfossi, með hund í bandi og gjallandi talstöð í brjóstvasanum. Vissi hreint ekki hvaðan á mig stóð veðrið.

Það er óþægileg tilfinning að láta brjótast inn hjá sér með þessum hætti. Að vita til þess að einhver hefur rofið friðhelgina - einkarýmið sem hver og einn vill hafa - til dæmis með  því að nota símanúmerið manns, til að gera nánast hvað sem er. Ég meina HVAÐ SEM ER. 

Sá sem þetta gerði er ekki bara að nota númerið mitt. Hann er líka líka að falsa gögn með því að senda út eigin hugaróra í annars nafni. Það út af fyrir sig - þegar um er að ræða ósmekkleg skilaboð - er líka aðför að æru manns. Brotið er nefnilega margþætt.

Óneitanlega vekur þessi uppákoma líka spurningar um ábyrgð símans. Ég kaupi númerið af símanum, og ætlast til þess að ég sé eini notandi þess; að síminn verji mig fyrir innbrotum af þessu tagi.

Raunar frétti ég hjá kunningja mínum í dag að einhver brögð hafi verið að því að undanförnu að fölsuð SMS skeyti hafi verið í umferð. Sjálf hef ég ekki næga tækniþekkingu til þess að vita hvernig það má vera - en þá er líka ljóst að fólk getur ekki lengur treyst SMS skeytum sem það fær.

En til þess að gera langa sögu stutta, þá er málið komið í hendur lögreglunnar - og mér skilst að rannsókn miði vel.

Regnmildur dagur ...

rengmildur logndagur runninn upp. Framundan er akstur um vestfirska vegi með félögum úr björgunarhundasveitinni.  Björgunarhundanámskeið á Suðurlandi um helgina.

Svo er meiningin að eyða viku í höfuðborginni, m.a. til að hitta nemendur mína í Háskóla Íslands og vera með þeim í vettvangsheimsóknum. Það er MA-námskeiðið "Menning og fræði í útvarpi" sem krefst nærveru minnar - en það er að öðru leyti kennt í fjarnámi, þ.e. ég kenni í gegnum fjarfundabúnað héðan frá Ísafirði, nemendur sitja á fjarfundi í Reykjavík. Við ætlum að heimsækja safnadeild Ríkisútvarpsins á miðvikudag, en á laugardag í næstu viku mun Leifur Hauksson taka á móti mannskapnum og leiða um völundarhús útvarpstækninnar eins og honum einum er lagið.

Fyrir utan þetta hlakka ég til að hitta "stóru" börnin mín - Sögu og Pétur - á Framnesveginum og vera með þeim í nokkra daga - enda veit ég að það væsir ekkert um bóndann og "litla" barnið vestur á Ísafirði á meðan. Þeir munu sjálfsagt láta fara vel um sig feðgarnir. Svo ætla ég auðvitað að reyna að hitta Dodda minn, Erlu Rún og Daða Hrafn ömmustrák.

 En semsagt, ég býst ekki við að ég bloggi mikið fyrr en eftir helgina - "sjáumst" þá vonandi hress og kát.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband