Vestanvindur úr prentun

Vestanvindur Ég er að handleika fyrstu ljóðabókina mína - hún var að koma úr prentun. Lítil og nett - ósköp hógvær. Það er undarleg tilfinning að handleika þessa litlu bók - allt öðruvísi en aðrar bækur sem ég hef gefið út. Þær hafa verið stórar og fyrirferðarmiklar - fjallað um fræði og fólk. Þessi bók er allt öðru vísi. Hún er svolítill sálarspegill - nokkurskonar fordyri að sjálfri mér - eða þeirri konu sem ég hef verið fram til þessa.

Mig langar að segja ykkur svolítið frá myndinni á kápunni - hvernig hún varð kveikja að titilljóði bókarinnar.

Þannig var að myndlistarmennirnir Ómar Smári Kristinsson og Nína Ivanova, kona hans voru beðin að hanna myndina. Þau fengu nokkur ljóð til að vinna út frá - og sýndu mér svo fyrstu drög. Ein mynd varð mér svo hugstæð að hún fylgdi mér allan daginn og inn í nóttina. Ég var lögst til svefns og eiginlega í svefnrofunum þegar orðin tóku að streyma til mín. Loks varð ég að fara á fætur, ná mér í blað og penna. Titilljóð bókarinnar var komið - næstum því fullskapað. Ég get ekki skýrt það nánar en morguninn eftir varð það orðið eins og það er í bókinni.

Hallgrímur Sveinsson, útgefandi minn, var þolinmæðin uppmáluð þegar ég hringdi til hans um morguninn til að vita hvort ljóðið kæmist inn í bókina. Þá var komin þriðja próförk, og ekki sjálfgefið að verða við þessari bón. En Hallgrímur er ljúfmenni - og í samvinnu við prentsmiðjuna varð þessu bjargað.

Nú er bókin komin í verslanir - og svo er að sjá hvernig hún fellur lesendum og gagnrýnendum í geð. Ég krosslegg fingur og vona það besta.

 


Að kvöldi "kvennafrídags" ...

... er ég uppgefin eftir annasaman, en skemmtilegan dag (vinnan, fjarkennsla í 3 klst., tveir fundir, kóræfing og hundaþjálfun með björgunarhundasveitinni). Er tiltölulega nýkomin heim og klukkan orðin ellefu.

Efst er mér þó í huga hvernig ég varði þessum degi - eða aðfararnótt hans - fyrir tuttugu og fjórum árum. Þá vann ég það lífsins afrek að fæða 15 marka son - 50 sentímetrar var hann fæddur, helblár í framan fyrstu sekúndurnar, en undurfallegur frá fyrstu stundu.

Hann kom með hvelli. Ég man hvað ég skalf eftir að vatnið skyndilega fór klukkan tvö um nóttina. Þetta var þriðja fæðing - og líkaminn kveið því augljóslega meir en sálin að takast á við það sem framundan var. En mér gafst lítið ráðrúm til að velta því fyrir mér - hríðarnar hvolfdust yfir mig eins og brimskaflar, og tveim tímum síðar var hann bara fæddur. Hann Pétur minn, sem er tuttugu og fjögurra ára í dag. Elsku drengurinn SmileHeart

ollyogpeturstudent05 Hann hefur stundum verið baldinn við mig.  Já, beinlínis erfiður á köflum. En hann er að mannast - og mér finnst hann yndislegur með kostum sínum og göllum. Þessi misserin stundar hann nám við Háskólann í Reykjavík og stendur sig vel. Með náminu vinnur hann hjá tölvufyrirtæki í bænum.

Ég er stolt af honum eins og öllum mínum börnum - enda þekki ég það úr hestamennskunni að óstýrlátu tryppin eru yfirleitt gæðingsefni. Wink


Tekur einhver mark á nafnlausu bréfi?

Nafnlaus bréf er ekki hægt að taka alvarlega. Ég er undrandi á því að þetta bréf sem sent var forstjóra Landspítalans vegna Jens Kjartanssonar yfirlæknis lýtalækingadeildar skuli yfirleitt vera í umræðunni. Það getur hver sem er sent nafnlaust bréf og haldið því fram að hann tali fyrir fjölda manns. Og svo getur hann "lekið" því í fjölmiðla til þess að koma innihaldinu á framfæri.

Fjölmiðlar eiga ekki að láta nota sig svona.

Fyrr á þessu ári komst annað nafnlaust bréf í hámæli - það tengdist Baugsmálinu svokallaða. Það bréf virtist um tíma tekið alvarlega vegnað þess að það leit út fyrir að vera skrifað af "lögfróðum manni". Auðvitað geta menn vakið athygli á sjónarmiðum í nafnlausum bréfum. En það liggur í hlutarins eðli að slík bréf  geta aldrei orðið raunverulegt gagn í máli. Þau mega aldrei verða það. Þau eru í eðli sínu rógur vegna þess að höfundur/höfundar slíkra bréfa geta ekki staðið fyrir máli sínu.

Læknamistök eru auðvitað alvarlegt mál - en þessi aðferð við að losna við lækni úr starfi sem gert hefur mistök er ekki boðleg. Hún er siðlaus.


mbl.is Staða læknisins óbreytt á LSP
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rigningarnótt í tunglskini

fullt tungl Tunglið er nærri fullt. Það veður í svörtum skýjum og varpar draugalegri birtu á úfinn sjóinn. Í bjarmanum frá því hrekjast trén í rokinu og regnið bylur á rúðunni.

Best að fara að skríða undir nýju gæsadúnsængina og láta sig dreyma eitthvað fallegt.


Vinir heimtir úr helju.

Á föstudaginn fékk ég símtal frá vinkonu minni. Hún og maðurinn hennar voru á leiðinni með vinafólki í helgarferð inn í Mjóafjörð. Hún hlakkaði til og við töluðum um hvað þetta væri skemmtilegur hópur sem hún þekkti. Hvað þessar ferðir þeirra í sumarbústaðinn væru vel heppnaðar - hvað þau myndu nú hafa það gott um helgina.

Á meðan við töluðum saman ók hún framhjá húsinu mínu og veifaði upp í gluggann í kveðjuskyni.

Það var undarlegt að minnast þessa atviks einum og hálfum sólarhring seinna, þegar hún og vinir hennar voru naumlega heimt úr helju, eftir að bátnum þeirra hvolfdi á Selvatni. Að heyra hana segja frá helkuldanum sem gagntók þau, krampanum sem hindraði öndun, uppköstunum sem fylgdu volkinu þar sem þau börðust fyrir lífi sínu í vatninu. Hvernig hún reyndi að nota talstöðina sína þegar hún var komin í land, en gat ekki ýtt á takkana vegna kulda.Hvað tíminn var lengi að líða - og hvernig það var að vita ekki um afdrif eins úr hópnum sem enn var úti í vatninu þegar hún skreið eftir hjálp.

Ég gat ekki varist þeirri hugsun að kveðjan okkar, þar sem hún veifaði mér upp í gluggann, hefði getað verið sú síðasta. Úff!

Svona atburður er harkaleg áminning um hverfulleikann. Hvað það skiptir miklu máli að eiga góð samskipti við fólk - leita þess jákvæða og meta það. Það er aldrei að vita hverjir fá að hittast aftur.

Svo þakka ég guði fyrir þá lífgjöf sem þarna átti sér stað.


Einelti gegn íþróttamanni

Sorglegt var að lesa um samsæri knattspyrnukvennanna í Landsbankadeildinni sem vísvitandi sniðgengu Margréti Láru Viðarsdóttur, við kosningu á leikmanni ársins. Með fullri virðingu fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur, sem þær ákváðu að velja leikmann ársins - þá er frammistaða þessara tveggja kvenna ekki sambærileg.

Fólk á að njóta árangurs af vel unnum verkum. En því miður er það stundum svo, í okkar litla samfélagi, að fólk sem skarar fram úr þarf að gjalda fyrir það með einelti og meinbægni. Það virðist sérstaklega eiga við um konur - svo sorglegt sem það er.

Þetta mál varpar ekki aðeins skugga á íþróttahreyfinguna. Það varpar skugga á konur sem samfélagshóp.


Falleg mynd úr heimabyggð

Loksins tókst mér að setja inn í heimasíðuhausinn hér fyrir ofan, fallega mynd úr heimabyggðinni.  Hef stefnt að því lengi, enda leiddist mér þessi fjallgarður sem ég hef setið uppi með hingað til - og taldi víst að væri landslagsmynd frá Ameríku. Góður maður hefur nú reyndar bent mér á að þetta séu fjöllin við Landmannalaugar - en hvað um það, vestfirsk voru þau ekki. Cool

Nú er semsagt komin viðeigandi mynd sem sýnir Pollinn okkar í ljósaskiptunum og hinni rómuðu ísfirsku kvöldkyrrð. Myndin er tekin af Ágústi Atlasyni, sem var svo einstaklega elskulegur að hjálpa mér að koma henni inn á síðuna - því án hans hefði mér ekki tekist það. Svo mikið er víst.

Ágúst tekur frábærar myndir. Hann er með ótrúlega flotta myndasíðu á netinu, sem er vel þess virði að skoða.


Kræst! Svo var engin útsending!

Mogginn búinn að taka viðtal, allar konurnar búnar að blogga - ég líka auðvitað - um nýja þáttinn minn. Mamma og Jón föðurbróðir (bæði 82ja)  búin að hringja og fá greinargóðar upplýsingar um það hvernig þau næðu stöðinni - og hvað svo? Þeir sem römbuðu með einbeittum vilja á rás 20 á myndlykli Digital Ísland klukkan níu í kvöld (og það voru allmargir miðað við hringingarnar sem ég fékk), fengu þessi skilaboð á skjánum: "Við verðum því miður að stöðva útsendingu ÍNN þar til tæknin er hætt að stríða okkur. Vinna við lagfæringar stendur yfir" Angry

Enginn þáttur - ekki einu sinni útsending. Mamma fór fýluferð til Sögu dóttur minnar að horfa á þáttinn. Já, og konurnar sem voru í þættinum hjá mér - sumar voru komnar í matarboð til ættingja sem höfðu aðgang að digital Ísland. Og hvað? "Við verðum því miður að stöðva útsendingun ÍNN þar til tæknin er hætt að stríða okkur. Vinna vil lagfæringar stendur yfir" hvað? Komið fram á rauðanótt og enn standa "lagfæringar" yfir.

Kræst:  Þvílíkt "comeback"  Blush


Atvinna fyrir (k)alla?

Hvað er að gerast þegar efnt er til  málþings um "atvinnu fyrir alla" og þar er boðið upp á kynjahlutfallið 2/17 í hópi framsögumanna á þinginu - konum í óhag? Hvað er að gerast í höfði þeirra kvenna sem standa að skipulagningunni? Já, þið trúið því kannski ekki - en það eru konur sem eiga "veg og vanda" af þessari skipulagningu.

Um er að ræða málþing sem verður haldið nú á laugardag, að tilhlutan bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Því mun ætlað að „varpa ljósi á ýmsa vaxtarbrodda í atvinnulífi Ísafjarðarbæjar“ meðal annars, og „þá möguleika sem eru fyrir hendi til að efla Ísafjarðarbæ sem miðstöð þekkingar og þjónustu á Vestfjörðum“ eins og segir í frétt um þingið. En hverjir eru þessir „allir“ sem þingið á að höfða til?

Samkvæmt auglýsingu sem nú hefur verið dreift verða framsögumenn þingsins sautján: Þar af fimmtán karla og tvær konur. Já, TVÆR konur! Ef með eru taldar þær konur sem stjórna fundinum, og ein sem ávarpar gesti í upphafi hans, mætti með góðum vilja teygja hlutfall kvenna upp í 5/20, eða fjórðung. Slíkur útreikningur væri þó ofrausn, eðli málsins samkvæmt. 

Hafa konur þá ekkert fram að færa í umræðunni um atvinnulíf staðarins? Eru þær ekki þátttakendur í ísfirsku atvinnulífi? Jú, fyrirgefið: Tvær hafa víst eitthvað til málanna að leggja. Nei, annars, bara ein – því hin kemur ekki úr ísfirsku atvinnulífi – hún er sérfræðingur að sunnan.

Því hefur verið haldið fram í mín eyru að konur séu ekki eigendur eða stjórnarformenn atvinnufyrirtækja; þær séu ekki ráðandi í sjávarútvegi og verktakastarfsemi og því hafi þetta bara „komið svona út“. Umrætt málþing sé einfaldlega spegill þess samfélags sem við búum við, og við þessu sé ekkert að gera.

Því er til að svara, að ef ekki er hægt að skipuleggja málþing um atvinnulíf á Ísafirði þannig að það endurspegli þá sem eru þátttakendur á vinnumarkaði – þá er nálgun skipuleggjendanna RÖNG.

Konur eru helmingur þátttakenda á vinnumarkaði. Við þurfum ekki að líta langt til þess að sjá þessar konur hér á Ísafirði sem annarsstaðar. Þær reka verslanir í bænum. Þær eru forstöðumenn stofnana og stoðþjónustu, stýra mikilvægum menntastofnunum – jafnt opinberum sem einkareknum. Þær reka listastarfsemi og handverksmiðstöðvar. Þær eru uppistaða alls fiskvinnslufólks. Þær eru fyrirferðarmiklar í veitingarekstri, halda uppi þjónustu á leikskólunum og sjúkrahúsunum. Þær eru með öðrum orðum meginþorri allra þeirra sem starfa að verslun og þjónustu, auk þess að vera margar hverjar virkar á vettvangi sveitarstjórnarinnar. Margar þessara kvenna hafa verið virkir þátttakendur í opinberri umræðu , félagsstörfum og menningarlífi – og þar með átt sinn þátt í því að gera þetta byggðarlag svo mannvænt sem það er.

Það er því nöturlegt að á þaulskipulögðu málþingi um atvinnumál á Ísafirði skuli konum ekki ætlaður stærri hlutur í umræðunni um atvinnulíf staðarins og möguleika þess, en raun ber vitni. Er þetta málþing þó að stærstum hluta skipulagt af konum, m.a. tveim kvenbæjarfulltrúum sem komu fram á blaðamannafundi ekki alls fyrir löngu. Þar upplýstu þær að þingið ætti ekki hvað síst að leiða í ljós „hversu gott er að búa í Ísafjarðarbæ“.

En hversu gott er fyrir konur að búa í bæjarfélagi þar sem rödd þeirra er þögguð? Hversu góð tilfinning fylgir því að vera kona í bæjarfélagi þar sem konur við völd koma ekki auga á aðrar konur sem hafi eitthvað til málanna að leggja? Hversu heilbrigt er það bæjarfélag þar sem horft er framhjá konum sem þátttakendum í atvinnulífi og opinberri umræðu?

Nógu lengi höfum við íslenskar konur barist fyrir þeim mannréttindum að vera metnar jafningjar karla á vinnumarkaði, í stjórnmálum og opinberu lífi. Í því skyni höfum við – margar hverjar a.m.k. – viljað styðja aðrar konur til áhrifa. Og víst er að nógu margar konur hafa höfðað til kvennasamstöðunnar þegar þær hafa boðið sig fram til sveitarstjórna og alþingis. Meðal annars þær konur sem nú hafa - á því herrans ári 2007 - skipulagt málþing á Ísafirði um atvinnu fyrir "alla"  (lesist: kalla).


Minn fyrsti sjónvarpsþáttur eftir 15 ár

inn1b500 Fyrsti sjónvarpsþátturinn minn eftir 15 ára hlé var tekinn upp í morgun. Hann heitir "Mér finnst" og verður sendur út á föstudögum kl. 21, í vetur á nýju sjónvarpsrásinni ÍNN (rás-20). Þetta eru umræðuþættir þar sem ég fæ til mín reyndar og skemmtilegar konur með sterkar skoðanir til þess að rökræða við mig um hvaðeina sem þeim (og mér) brennur á hjarta. Sjálf verð ég með þáttinn annað hvert föstudagskvöld, en Maríanna Friðjónsdóttir sjónvarpsstjóri ÍNN tekur hann á móti mér tvisvar í mánuði.

Stöðin fer af stað með fullum þunga n.k. föstudagskvöld þannig að mér virðist sem þátturinn minn Blush verði upphafið - en raunar hafa tilraunaútsendingar staðið nú um nokkra hríð. Til stendur að senda efnið út alla virka daga kl. 20-22, og er stöðin fyrst og fremst helguð umræðu og talmáli. Þarna verða ýmsir þjóðkunnir þáttagerðarmenn, Margrét Frímannsdóttir, Mörður Árnason, Guðjón Bergmann, Randver Þorláksson, Illugi Gunnarsson og Katrín Jakobsdóttir - svo ég nefni nú þá sem ég man í augnablikinu. Ingvi Hrafn Jónsson verður að sjálfsögðu á sínum stað með Hrafnaþingið - enda eigandi stöðvarinnar og upphafsmaður. 

inn2b  En það var ótrúlega gaman að mæta í stúdíóið, þar sem Maríanna Friðjónsdóttir, fyrrverandi samstarfskona mín af RÚV,  tók á móti okkur og stjórnaði upptökunni af sinni alkunnu fagmennsku og fumleysi. Við endurfundina rifjuðust upp góðar minningar, m.a. frá leiðtogafundinum í Höfða þegar við lögðum nótt við dag undir stjórn Ingva Hrafns, okkar gamla yfirmanns (núverandi eiganda ÍNN).

Við tókum upp tvo þætti í morgun. Í þeim fyrri komu til mín þrjár bloggandi konur, þær Marta B. HelgadóttirSalvör Gissurardóttir og Jóna Á Gísladóttir sem allar eru öflugir og litríkir bloggarar. Og þær brugðust mér ekki í dag - gáfaðar, mælskar og skemmtilegar.  Smile

Í seinni þættinum, sem verður sendur út eftir tvær vikur, voru bókmenntafræðingarnir Soffía Auður Birgisdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir. Við veltum okkur upp úr bókmenntum í miklum makindum - mest kvennabókmenntunum eins og gefur að skilja - og það var reglulega gaman að spjalla við þær stöllur svo fróðar og spakar sem þær eru - og margreyndar á þessum vettvangi.

Já, það er mikið vatn til sjávar runnið frá því ég vann síðast fyrir sjónvarp. Og það var vissulega ánægjulegt að vitja þess aftur eftir langa fjarveru. Þetta var BARA gaman, eins og börnin segja.  

Sjáumst vonandi á rás-20 á föstudagskvöldið kl. 21. Wink

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband