Góðar minningar frá gamalli tíð
7.11.2007 | 11:04
Ójá, hann var góður glænýi Trabbinn sem við Siggi keyptum hjá Ingvari Helgasyni fyrir aleiguna haustið 1981, þá nýflutt til Reykjavíkur. Hann komst allt í snjó, framhjóladrifinn, léttur og þægilegur. Eitthvað annað en gamli Trabantinn sem við fengum sem afgang frá pabba heitnum þegar við hófum búskapinn í Reykjavík. Sá gekk fyrir handafli - enda kominn til ára sinna. Átti auðvitað að fara á haugana, en pabbi lét okkur hafa hann svona til vonar og vara, ef hann skyldi einhverntíma fara í gang. Sem var sjaldan.
Þetta var fyrsta veturinn okkar í Háskóla Íslands. Við bjuggum á Miklubrautinni og fyrir utan í heimreiðinni stóð þessi pínulitli grasgræni Trabant. Assgoti góður þegar vélin á annað borð gekk - þá komst hann hvert sem var. En það var bara ekki nema í svona fimmta hvert skipti sem bílfjandinn hrökk í gang. Flestir morgnar byrjuðu því þannig, að við komum út úr blokkinni, Siggi, Doddi (þá sex ára) og ég. Við settumst inn í bílinn og svo hófust starthljóðin. Þau gátu staðið góða stund.
Þá kom Siggi út úr bílnum, ég undir stýri, Siggi ýtti. Bíllinn var látinn renna niður afleggjarann. Stundum gekk þetta - stundum ekki. Þá var honum ýtt í stæðið aftur og fjölskyldan rölti út á strætóstöð. Þannig leið þessi vetur.
En haustið eftir vorum við búin að safna fyrir nýjum bíl. Glænýjum Trabant station, árgerð 1982, sem kom á götuna í nóvember. Hvílíkt dýrð! Mér er sérstaklega minnisstætt þegar nokkrir piltar um tvítugt spóluðu sig fasta á drossíunni sinni í snjóskafli við Norræna húsið. Þeir höfðu þá nýlega spænt fram úr okkur með fyrirgangi og fyrirlitningarsvip þar sem við trilluðum okkar leið á nýja fína Trabantinum. Það var ekkert sérlega leiðinlegt að skrúfa niður rúðuna, brosa góðlátlega framan í gæjana og spyrja hvort þeir vildu láta kippa í sig. Það var að sjálfsögðu afþakkað með bitru bliki í auga.
Þá brosti maður sínu blíðasta, skrúfaði rúðuna upp, gaf pínulítið í og ók svo yfir skaflinn. Tabb-trabb-trabb-trabb - og komst leiðar sinnar.
![]() |
Trabant á stórafmæli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Ef hjá henni mömmu einn fimmeyring ég fengi!
6.11.2007 | 10:11
Í vísunni um telpuna og fimmeyringinn - sem oft heyrðist sungin á árum áður - var sú stutta að láta sig dreyma um það hvernig hún myndi ráðstafa öðrum eins fjármunum og heilum fimmeyringi. Og hún var sko ekki í vandræðum með það. Ætlaði að kaupa einhver ósköp og gefa svo mömmu allan afganginn --- nei, pabba var það víst. "Glöggur" lesandi hefur bent mér á að vísan snerist um telpuna og pabba, ekki mömmu: "Ef hjá honum pabba, einn fimmeyring ég fengi" hljómar þetta í upprunalegu gerðinni. Ég sneri kynhlutverkunum við - og tók ekki einu sinni eftir því sjálf. Vonandi er það þó góðs viti
Jæja, en fimmeyringar eru ekki lengur til sem mynt - og einfeldni okkar Íslendinga í peningamálum heyrir brátt sögunni til.
Á Íslandi hafa orðið til tvær þjóðir. Launamunur sá sem við nú þekkjum milli stóreignamanna og almennings er slíkur að við getum ekki lengur talað um að hér búi ein þjóð í einu landi. Því miður.
Ofurlaun stjórnenda í einkafyrirtækjum eru af þeirri stærðargráðu í mörgum tilvikum að venjulegt fólk á erfitt með að gera sér þær upphæðir í hugarlund. Þar á bæjum eru mánaðarlaunin talin í árstekjum venjulegs launafólks. Og hagnaðartölur í viðskiptalífinu þar sem menn geta verið að græða hundruð milljarða í viðskiptum, líkt og æ fleiri dæmi eru um, þær eru eitthvað sem við Íslendingar höfum ekki vanist. Þó svo við heyrum slíkar fréttir æ oftar held ég að við venjumst þeim seint.
Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig ég myndi ráðstafa 10 milljörðum - en tíu milljarðar eru víst ekkert sérlega há tala í viðskiptalífinu.
Fyrst myndi ég stofna framfærslusjóð fyrir öll börnin mín. Kaupa eitthvað handa mömmu. Svo myndi ég kaupa mér hús, jeppa, sumarbústað og góðan reiðhest. Kannski annan hund. Þá færi ég líklega að huga að stofnun styrktarsjóðs fyrir góðgerðarmál. Ég myndi gefa eitthvað til menningarmála.
En þá væri ég sennilega bara búin með einn eða tvo milljarða. Hvað ætti ég þá að gera við hina átta eða níu?
Þetta var einfaldara meðan fimmeyringar voru ennþá verðmæti. Ennþá eru það þó karlmenn sem hafa fjárráðin að mestu í sínum höndum - og fá í sínar hendur afganginn, sé hann einhver.
![]() |
Launin þola ekki dagsljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Verðblekkingar og neytendavernd
5.11.2007 | 12:50
Ekki vil ég nú taka undir það með Bergvini Jóhannssyni, formanni Landsambands kartöflubænda, að Neytendasamtökin og Alþýðusambandið hafi VERNDAÐ kaupmenn í gegnum tíðina með því að kenna framleiðendum einvörðungu um hátt vöruverð. Hins vegar er nokkuð til í því að skýringanna á háu vöruverði sé full oft leitað hjá framleiðendum - það mætti líta oftar til kaupmanna sjálfra, eins og umræða síðustu daga um framkomu lágvöruverslana hefur leitt í ljós.
Viðskiptaráðherra hefur nú kveðið upp úr með það að tíðar verðbreytingar og blekkingar í lágvöruverslunum séu ólíðandi. Mikið var að einhver ráðamaður þorði að setja eitthvað um það mál. Neytendur hljóta að fagna því að ráðamenn lýsa sig viljuga til að taka á því máli.
Það er óþolandi að neytendur skuli blekktir með þeim hætti sem nú hefur verið leitt í ljós. Þ.e. þegar stillt er upp vöru á lágu verði við ákveðin tækifæri, vöru sem annars er ekki á boðstólum fyrir almenna neytendur nema að nafninu til. Það er líka óþolandi að einatt skuli vera boðið upp á hálfónýtar vörur á lægsta verðinu þegar "tilboð" og "kjarakaup" eru á boðstólum.
Það þarf auðvitað að breyta fyrirkomulagi verðkannana, svo þær endurspegli raunverulegt vöruverð á hverjum tíma en séu ekki sýndarmennskan ein. Að því leyti hefur Bergvin rétt fyrir sér. Það þarf að taka gæði vörunnar með í reikninginn þegar verðkannanir eru gerðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ömmustúss
3.11.2007 | 10:52
Ég er í ömmuleik. Daði Hrafn kominn í helgarheimsókn með pabba sínum og mömmu (Dodda og Erlu Rún). Þau falla svolítið í skuggann, það verður bara að segjast eins og er - en þau fyrirgefa mér það.
Já, tíminn líður. Svo er "litla" barnið á heimilinu, hann Hjörvar minn, farinn að mæta á böll í næstu byggðarlögum - ekki fermdur einu sinni. Hann fór með skólanum á mikla íþróttahátíð sem haldin var í Bolungarvík í gær. 8., 9. og 10. bekkir grunnskólans fjölmenntu og héldu svo grunnskólaball í gærkvöldi. Mikið fjör hlýtur að vera, a.m.k. var það ánægður drengur sem kom heim með rútunni um miðnættið í gærkvöldi, óræður á svip.
Í morgun var mannskapurinn vakinn fyrir allar aldir - Daði Hrafn kominn á stjá. Hann sér ekki sólina fyrir Sigga afa, sem veltist um gólfin með honum. Blíða er afbrýðisöm.
Áðan drifum við okkur með þann stutta í sleðabrekkuna neðan við húsið: Amma, afi, Hjörvar, Daði Hrafn og Blíða. Höfðum meðferðis gula kringlótta snjóþotu og Stiga-sleða. Blíða elti okkur niður brekkuna og kunni sér ekki læti.
Svo fengum við okkur að drekka og Daði tók miðdegislúrinn. Amma hvílir sig á meðan, því kl. hálf þrú er Hjörvar að fara að keppa í fótbolta í íþróttahúsinu. Þá verður fjölskyldan á áhorfendabekknum, að sjálfsögðu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Vel af sér vikið
1.11.2007 | 17:20
Það er vel af sér vikið að ná þverpólitískri samstöðu um mál sem fyrir ekki svo löngu síðan virtist standa í járnum. Borgarfulltrúarnir hafa hér með sýnt í verki að þeir bera hag almennings fyrir brjósti og taka þá hagsmuni framyfir aðra þrengri. Þessi niðurstaða er Borgarráði Reykjavíkur til sóma og þeim fulltrúum sem þar komu að máli - að ekki sé talað um stýrihópinn sjálfan. Til hamingu með þetta. |
![]() |
Borgarráð samþykkir að hafna samruna REI og Geysis Green |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laufið titrar, loga strá ...
1.11.2007 | 16:11
Það jafnast ekkert á við Ísafjarðarlognið sem Vestfirðingar kalla stundum "svartalogn". Ég held það sé vegna þess að inni á fjörðunum skyggir það hafflötinn í ljósaskiptunum.
Þessi fallega mynd var í myndakerfinu á tölvunni minni, því miður veit ég ekki hver tók hana, eða hvernig hún er þangað komin. En hún er svo falleg að ég bara varð að birta hana hér.
Nú eru haustlitirnir horfnir undir hvíta snjóblæju sem liggur yfir öllu hér vestra. Bara kominn vetur eins og hendi sé veifað. Ekki eiga því lengur við vísuorðin sem ég orti einhverntíma, yfirkomin af haustlitafegurðinni í Tunguskógi:
- Laufið titrar, loga strá
- lyngs á rjóðum armi.
- Hneigir sólin höfga brá
- að hafsins gyllta barmi.
Mér skilst að veðurspáin sé nú ekki upp á marga fiska - stormur í aðsigi á Vesturlandi. Eins gott að njóta kyrrðarinnar meðan hún varir.
Hafið það gott
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Meiri lætin
31.10.2007 | 16:38
Þvílík læti í kringum mig þessa dagana - segi ekki annað. Utan vinnutíma - og milli verka - er allt á fullu við fréttavefinn okkar hugsjónafólksins skutull.is. Hann virðist bara ætla að fara vel af stað.
Auðvitað er viðbúið að þetta verði svolítið stúss svona fyrstu vikuna sem vefurinn er í loftinu - og svolítið vesen auðvitað að hafa ekki allan sólarhringinn til umráða (a.m.k. ekki vinnutímann og svefntímann). En það lagast.
Var að kenna í eftirmiðdaginn. Fór yfir handrit með nemendunum sem eru að vinna útvarpsþættina sína í námskeiðinu sem ég er að kenna á meistarastigi við sagnfræðiskor HÍ. "Menning og fræði í útvarpi" heitir það og er fámennt en góðmennt. Algjör lúxus. Þegar fámennt er á námskeiðum verður vinnan svo mikið auðveldari.
Svo er það kóræfing núna klukkan sex, og hlýðniþjálfun fyrir hundinn (ekki mig ) með Björgunarhundasveitinni klukkan hálfníu. Varla að maður sjái bóndann og barnið fyrir háttatíma.
Jæja, en það er líka gaman þegar nóg er að gera. Endilega kíkið á nýja vefinn - skutull.is og látið mig vita hvað ykkur finnst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Illa launuð háskólakennsla
31.10.2007 | 10:55
Við hverju er að búast þegar laun stundakennara eru svo lág að menn veigra sér við því að segja frá því hvað þeir fá greitt fyrir framlag sitt. Sjálf var ég stundakennari við Háskóla Íslands árum saman. Framlag mitt og annarra stundakennara var ekki meira metið en svo á þeim tíma að ég fyrirvarð mig fyrir að taka við því - hvað þá að segja frá því. Ég huggaði mig við það að þetta væri þegnskylda mín gagnvart fræðasviðinu sjálfu - og á þeirri forsendu innti ég kennsluna af hendi. Gerði það eins samviskusamlega og mér var unnt. Ég er þó ekki viss um að hver einasti fræðimaður sem til er leitað líti þannig á - get a.m.k. vel skilið ef þeir gera það ekki.
Eins og aðrir stundakennarar varð ég að sinna kennslunni með öðrum störfum. Þannig varð það nú bara - og er trúlega enn, án þess ég hafi beinlínis spurt um það nýlega.
Þetta er hárrétt ábending hjá Hákoni Hrafni Sigurðssyni. Þegar stór hluti háskólakennslu er komin í hendur undirborgaðra stundakennara, hlýtur það að hafa afleiðingar fyrir gæðastaðalinn í kennslunni. Það hlýtur hver maður að sjá.
![]() |
Of margir án fullnægjandi menntunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Hengilssvæðið er verðmæti
30.10.2007 | 14:55
Ég tek heilshugar undir þau mótmæli sem sett hafa verið fram gegn þessum virkjunarframkvæmdum. Á vefsíðunni hengill.nu má finna bréf til skipulagsyfirvalda sem fólk getur prentað út, undirritað og sent. Efni þessa bréfs er skýrt og skilmerkilegt. Ég lét ekki á mér standa að prenta út, undirrita og setja í póst mín mótmæli, svohljóðandi:
Ég undirrituð mótmæli fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum Orkuveitu Reykjavíkur
á svokölluðu Hengilssvæði með eftirfarandi atriði í huga:
Hengilssvæðið og dalirnir austan, vestan og sunnan þess hafa lengi verið ein helsta útivistarparadís íbúa höfuðborgarsvæðisins og er skilgreint sem útivistarsvæði, staðfest af umhverfisráðherra í janúar 2005. Nú, þegar verið er að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu svo gríðarlega sem raun ber vitni, byggja á öllum auðum blettum og fækka útivistarsvæðum í þéttbýli, er brýnna en nokkru sinni að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi kost á að njóta óspilltrar náttúru í hæfilegri dagsferðarfjarlægð frá heimilum sínum. Þetta svæði er eitt örfárra í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem hægt er að ganga um í friði og ró, njóta ótrúlega fjölbreyttrar náttúrufegurðar fjarri amstri dagsins og síaukinni bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu.
Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta íbúa hhöfuðborgarsvæðisins og afkomendur þeirra þessum lífsgæðum til þess eins að þjóna hagsmunum erlendra auðhringa í áliðnaði eða annarri stóriðju. Þar af leiðandi mótmæli ég einnig að hluta svæðisins verði breytt í iðnaðarsvæði skv. fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi Ölfuss.
Ein helsta tekjulind íslensku þjóðarinnar nú er ferðaþjónusta. Erlendir ferðamenn koma fyrst og fremst til Íslands til að njóta þeirrar náttúrufegurðar sem landið hefur upp á að bjóða. Við auglýsum landið sem óspillta náttúruperlu og á þeim svæðum sem það loforð stenst standa ferðamenn á öndinni yfir þeirri fegurð sem við þeim blasir. Hengilssvæðið er einn þessara staða og vinsælt að fara þangað í dagsferðir með erlenda ferðamenn, ýmist gangandi eða á hestbaki. Margir ferðamenn gera stuttan stans á landinu og þá er nauðsynlegt að geta sýnt þeim óspillta náttúru sem næst höfuðborgarsvæðinu.
Ég mótmæli því harðlega að stórfyrirtæki verði heimilað að svipta ferðaþjónustuna tækifæri til að sýna erlendum ferðamönnum óspillta náttúru í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og legg til að svæðið verði friðað til frambúðar.
Framkvæmdaraðili virkjana á Hengilssvæðinu er Orkuveita Reykjavíkur, en hún er einnig sá aðili sem lét gera umhverfismat og ber kostnað af því. Þetta eru ámælisverð vinnubrögð þar sem stór hagsmunaaðili erí raun dómari í eigin máli. Ég mótmæli slíkum vinnubrögðum harðlega og geri þá kröfu að óvilhallir aðilar sjái alfarið um mat á umhverfisáhrifum og íslenska ríkið beri kostnaðinn. Umhverfismat sem framkvæmt er og kostað af hagsmunaaðila framkvæmdar getur aldrei verið marktækt.Einnig geri ég alvarlega athugasemd við kynningu og tímalengd hennar þegar svo stórar framkvæmdir eru annars vegar sem snerta nánasta umhverfi og lífsgæði ríflega helmings íslensku þjóðarinnar.
Sex vikna frestur til athugasemda er allt of skammur og allt kynningarferlið til þess gert að sem fæstir veiti málinu athygli og hafi skoðanir á því.
![]() |
Telja að virkjun muni spilla ómetanlegri náttúruperlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Nýr landsmálavefur skutull.is
28.10.2007 | 12:50
Nýr landsmálavefurm skutull.is, hefur nú litið dagsins ljós. Hann var opnaður með pompi og prakt í hádeginu í gær.
Þetta er fréttavefur tileinkaður Vestfjörðum og þjóðmálaumræðunni, ekki síst þeirri sem tengist svæðinu. Að vefnum stendur hópur áhugafólks um framsækna fjölmiðlun. Allt er það fólk sem vill veg og vanda Vestfjarða sem mestan og vill glæða skilning og áhuga á málefnum svæðisins.
Sjálf er ég í þessum hópi, titluð fréttastjóri - en vart þarf að taka fram að öll fréttavinnsla og efnisöflun er á þessu stigi málsins unnin í sjálfboðavinnu og bætist að sjálfsögðu við önnur störf sem fólk hefur með höndum. Í framtíðinni tekst okkur vonandi að afla auglýsingatekna og nýsköpunarstyrkja til þess að standa undir einhverjum lágmarksrekstri, og greiða fólki laun.
Skutull var nafn á blaði jafnaðarmanna í Ísafjarðarbæ. Af stakri velvild hefur Samfylkingarfélagið í Ísafjarðarbæ nú eftirlátið vefsíðunni þetta táknræna nafn með velfarnaðaróskum - þar með má segja að þau hafi ýtt fleytunni úr vör. Þeim er ljóst að fréttastefna vefsíðunnar er á faglegum nótum, ekki pólitískum. Þau segjast treysta okkur - eru áhugasöm eins og við um að fjölga valkostum í fréttamiðlun á Vestfjörðum.
Svo sjáum við hvað setur.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)