Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Bæjarstjórar í slorvinnu

fiskveiðarÞrír bæjarstjórar birtu grein í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þar hóta þeir endalokum sjávarútvegsins ef Samfylkingin fær framgengt löngu tímabærri leiðréttingu á óréttlátu kvótakerfi sem mikill meirihluti landsmanna er sammála um að þurfi að breyta.

Þetta er kerfi sem hefur með tímanum þróast yfir í leiguliðakerfi þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni.

Fyrir um tvöhundruð árum lagðist af illræmt leiguliðakerfi meðal íslenskra bænda. Enginn vill taka það upp aftur. Hví ættum við að sætta okkur við ósanngjarnt leiguliðakerfi í sjávarútvegi á 21. öld?

Bæjarstjórarnir þrír, láta sem þeir séu að skrifa fyrir byggðarlögin þrjú þar sem þeir hafa verið ráðnir til starfa. Þeir saka andstæðinga kvótakerfisins um mannfyrirlitningu, gera þeim upp það viðhorf að „sjávarútvegurinn sé ekkert annað en slorvinna" í augum „elítunnar" svo notuð séu þeirra orð.

Hvaðan kemur þetta orðbragð spyr ég? Jú, það kemur frá þremur hálaunamönnum sem eiga það sameiginlegt, auk þess að vera Sjálfstæðismenn, að vinna allir þægilega innivinnu á vel innréttuðum skrifstofum. Þeir eru „elítan og "slorvinnan"  sem þeir tala um er ekki rétt lýsing á störfum fiskvinnslufólks. Það orð mætti mun frekar nota um þeirra eigin vinnuaðferðir nú rétt fyrir kosningar. 
 

Bæjarstjórarnir þrír virðast hafa gleymt hruni byggðanna undanfarna áratugi, eftir að núverandi kvótakerfi var komið á. Þeir gleyma líka úrskurði Mannréttindanefndar SÞ um kerfið brjóti mannréttindi og hindri eðlilega nýliðun.  Þeir horfast heldur ekki í augu við það að í núverandi kerfi er innbyggð sama meinsemd og sú sem olli efnahagshruninu í haust. Þá sátu menn í aftursætinu aðgerðarlausir. Það má ekki gerast aftur.

Ég er frambjóðandi fyrir þessar kosningar og verð vonandi alþingismaður að þeim loknum. Ég get ekki setið þegjandi og horft á kvótakerfið með allri sinni  leiguáþján, veð- og skuldsetningu hrynja yfir þjóðina.

Tillaga Samfylkingarinnar um árlega innköllun 5% aflaheimilda á 20 árum er sanngjörn leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.

 

----

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag og er endurbirt hér.


Sannleikann fram í dagsljósið

gu_laugur_or_or_arsongudfinna3illugibjorn_ingi 

Nú er ekki seinna vænna að þeir stjórnmálamenn sem hér um ræðir upplýsi helgihjorvarstrax hversu háar fjárhæðir þeir þáðu í styrki frá FL-Group og Baugi. Hér er talað um allt að 2 mkr styrki til ákveðinna einstaklinga. Af hverju eru  þeir ekki nafngreindir? Þess í stað eru taldir upp þrír Sjálfstæðismenn, tveir Samfylkingarmenn og einn Framsóknarmaður, og allir lagðir að jöfnu.

steinunnvaldisÉg skora á Helga Hjörvar og Steinunni Valdísi að upplýsa nú þegar hversu háa styrki þau þáðu frá þessum fyrirtækjum í prófkjörsbaráttu sinni. 

Þá verður heldur ekki undan því vikist að upplýst verði nú þegar, hvaða "stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn Íslands" það eru sem fengið hafa "óeðlilega fyrirgreiðslu hjá gömlu viðskiptabönkunum fyrir bankahrunið í haust" eins og fullyrt hefur verið í fréttum Stöðvar 2. Þar segir að í sumum tilvikum hafi verið um að ræða "tugmilljóna króna lán til þess að kaupa hlutabréf, meðal annars í bönkunum sjálfum, án þess að lögð væru fram nein veð".

Þetta verður að upplýsa - fyrir kosningar. Ef fréttastofa Stöðvar 2 er með þessar upplýsingar er það skylda hennar að gefa þær. Ef ekki þá er hún ómerkingur.

Eins og einhver sagði: Allt upp á borðið! Angry

 


mbl.is Háir styrkir frá Baugi og FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkur í panik

fúlgurfjár Ætlaði virkilega einhver að gleypa við þeirri barbabrellu Sjálfstæðisflokksins að við Íslendingar ættum að taka upp evru með milligöngu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Sú hugmynd að taka upp evru með stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er algerlega óraunhæf enda varpað fram undir lok kosningabaráttunnar til þess eins að breiða yfir innbyrðis klofning Sjálfstæðisflokksins og andstöðu hans við áherslur stærstu samtaka launafólks og atvinnurekenda sem vilja hefja samningaviðræður um aðild að ESB og upptöku evru strax eftir kosningar.

Í frétt sem birtist í Financial Times 7. apríl var þessari leið í raun hafnað af Evrópusambandinu sem óraunhæfri. Sama hefur evrópski seðlabankinn gert. Auk þess hafa sérfræðingar í alþjóðamálum bent á að það sé ekki hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hlutast til um samningaviðræður fullvalda ríkis og yfirþjóðlegs valds.

Sjálfstæðisflokkurinn er í einhverri panik þessa dagana. Það kemur bara ekkert af viti frá honum.


mbl.is AGS getur ekki haft milligöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigna- og hagsmunatengsl í íslenskum stjórnmálum

Nýlega voru settar reglur um fjármál alþingismanna, líkt og tíðkast víða erlendis. Enginn vafi er á því að reglur af þessu tagi eru til mikilla bóta og til þess fallnar að efla traust og gegnsæi stjórnarathafna. Það er þinginu og þeim sem stýrðu vinnunni til sóma að þetta skyldi til lykta leitt í ágætri sátt. Samkvæmt reglunum ber alþingismönnum að gefa upp tilteknar eignir og gjafir. Þeim ber ekki að upplýsa um eignatengsl maka eða skuldir, en hugsanlega verður slíkum ákvæðum bætt við síðar. Satt að segja vona ég að svo verði.

Fjölskyldutengsl stjórnmálamanna við félög og fyrirtæki, sem hugsanlega þurfa síðar að leita ásjár stjórnvalda, geta verið allt eins hamlandi fyrir heilbrigða stjórnsýslu og ef um væri að ræða persónuleg eignatengsl. Sömuleiðis getur skuldastaða stjórnmálamanna í vissum tilvikum valdið efasemdum um hæfi þeirra.

Nokkrir stjórnmálamenn hafa að svo komnu birt upplýsingar um eignir og skuldir, og er það vel. Aðrir hafa hikað. Þeim kann að finnast full nærgöngult að opna fjárreiður sínar almenningi. Bæði sjónarmið eru skiljanleg. Enn aðrir hafa heitið því að gefa upp eigna- og skuldastöðu og “taka allt upp á borðið” án þess að af því hafi orðið. Þess hefur líka orðið vart að menn bregðist reiðir við umræðu um hagsmunatengsl þeirra. En reiði og vanefndir eru þó sennilega röngustu viðbrögð sem hugsast geta í því andrúmslofti tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Sé allt með felldu ætti enginn skaði að hljótast af því að gera grein fyrir tengslum og eignastöðu. Þvert á móti er það eini raunhæfi mótleikurinn við vantrausti og kviksögum.

Hvað er athugavert við eigna- og hagsmunatengsl stjórnmálamanna?

Nú er gott eitt um það að segja að athafnamenn og fyrirtækjaeigendur sitji á Alþingi. Fjölskyldutengsl inn í athafna- og viðskiptalíf eru að sjálfsögðu enginn glæpur. En þegar kemur að því að taka stjórnvaldsákvarðanir sem hafa afgerandi áhrif á afkomu og afdrif þessara sömu fyrirtækja, þá vandast málið. Hvernig bregst þá til dæmis ráðherrann við sem hugsanlega er tengdasonur, maki, systir eða sonur?

Það er ekki nóg að viðkomandi sé heiðarlegur í hjarta og sinni. Hæfi hans til ákvörðunar þyrfti að vera hafið yfir allan vafa.

Íslenskt samfélag er svo lítið að tengsl stjórnmálamanna við fyrirtæki, fjármálastofnanir og hagsmunasamtök eru raunveruleg ógn við heilbrigða stjórnsýslu og stjórnmál. Sú meinsemd hefur nú þegar grafið undan trausti almennings á stjórnmálum og fjármálakerfi.

Við þessu er fátt annað að gera en að kjörnir fulltrúar upplýsi um hvaðeina sem valdið getur vanhæfi þeirra á síðari stigum. Leiðbeinandi reglur setja mönnum engar skorður í því efni að upplýsa um fleira en reglurnar segja til um. Þær setja einfaldlega lágmarkið.

----------

PS: Samhljóða grein eftir mig var birt í Fréttablaðinu fyrr í vikunni.


Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu

kyr2 Fyrir um mánuði síðan sendi ég Bændablaðinu grein um ESB og íslenskan landbúnað. Greinin fékkst ekki birt. Var því borið við að Mbl hefði birt eftir mig grein um sama mál nokkru síðar. En sumsé, hér kemur:

Greinin sem ekki fékkst birt í Bændablaðinu

 Svonefndur Píningsdómur sem lögtekinn var á Alþingi 1490 setti skorður við verslun Íslendinga og samskiptum þeirra við útlendinga. Áður höfðu Englendingar haft leyfi til þess að versla við landsmenn og stunda hér fiskveiðar gegn því að greiða tolla og skatta. Þetta lagðist illa í stórbændur landsins og útvegsmenn sem kærðu sig ekki um samkeppni um vinnuafl og verslun. Afleiðing Píningsdóms varð fjögurra alda fátækt og einangrun landsins.

Nú, tæpum 520 árum síðar stöndum við Íslendingar frammi fyrir því hvort við viljum eiga opið markaðs- og viðskiptasamband við nágrannaríki okkar í Evrópu. Líkt og í aðdraganda Píningsdóms árið 1490 kemur harðasta andstaðan gegn því frá íslenskum bændum og útvegsmönnum.

Á nýafstöðnu Búnaðarþingi var samþykkt eindregin andstaða við aðildarumsókn Íslands að ESB. Enginn rökstuðningur fylgdi ályktuninni til fjölmiðla. Í viðtali sem flutt var í Spegli Ríkisútvarpsins við hagfræðing bændasamtakanna mátti þó greina ótta við matvælainnflutning og afnám tolla.

Sjálf er ég ein þeirra sem lengi vel óttuðust inngöngu í ESB - taldi m.a. að með henni yrði stoðum svipt undan íslenskum landbúnaði. Við myndum missa sjálfstæði okkar Íslendingar, ofurselja okkur miðstýrðu fjölþjóðlegu valdi. Já, ég var beinlínis hrædd við tilhugsunina. Ég held að svipað eigi við um bændur. Þeir vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá. Á þessu þarf að taka með opinni og upplýstri umræðu.  Annars verður það óttinn sem ræður för - og hann er afleitur förunautur.

Ég er þeirrar skoðunar að íslenskir bændur hafi margt að vinna við inngöngu í ESB. Sambandið hefur sett sér ákveðna byggðastefnu þar sem ríkt tillit er tekið til dreifðra byggða með stuðningi við vistvænar framleiðsluaðferðir, ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og vöruþróun. Styrkjakerfi ESB er samþætt byggðastefnu þess og þar er gengið út frá sjálfbærri landbúnaðarstefnu. Í þessu felast ýmsir möguleikar fyrir íslenska bændur, hvort sem þeir sinna ferðaþjónustu eða sauðfjárrækt. Sem stendur er íslenskur landbúnaður njörvaður niður í miðstýrt framleiðslustjórnunarkerfi sem er að uppistöðu nær hálfrar aldar gamalt. Fullyrt hefur verið að stuðningskerfi ESB sé mun heilbrigðara en niðurgreiðslukerfið íslenska - enda aðlagað breytingum, nýsköpun og þróun í samstarfi og samskiptum þjóða í áranna rás. Þetta þurfa íslenskir bændur að kynna sér vel því þarna geta falist ýmis tækifæri fyrir þá sem sem vilja svara kalli tímans um vistvænar framleiðsluaðferðir byggðar á sérstöðu og gæðum afurða. Í því efni eiga Íslendingar mikla möguleika.

Ætla má að gengissveiflur og ótryggt rekstrarumhverfi séu bændum þung í skauti ekki síður en öðrum atvinnuvegum. Við inngöngu í Evrópusambandið og með upptöku evru má gera sér vonir um stöðugra efnahagsumhverfi með minni gengissveiflum, lægra vaxtastigi og bættum almennum lífskjörum.  Í slíku umhverfi er auðveldara að gera langtímaáætlanir í rekstri - ekki síst búrekstri sem á mikið undir innfluttum aðföngum. Vissulega þyrftu íslenskir bændur að keppa við innflutta matvöru - en á móti kemur að samkeppnisstaða þeirra sem matvælaframleiðenda myndi batna til muna. Markaðir í Evrópu myndu opnast fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir og um leið margvíslegir möguleikar til nýsköpunar og vöruþróunar. Við erum hér að tala um 500 milljón manna markað sem Íslendingar fengju fullan og tollfrjálsan aðgang að.

Hér er til mikils að vinna. Grundvallaratriðið er þó að vita að hverju skuli stefnt. Íslendingar - ekki síst bændur - verða að skilgreina þarfir sínar og væntingar til fjölþjóðlegs samstarfs á borð við ESB og setja sér marknið. Síðan á að sækja um aðild; fara í viðræður og gefa loks þjóðinni kost á að taka afstöðu til þess sem í boði er með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sem stendur höfum við allt að vinna - en ekkert að óttast.

 


Hreindýrskálfur og hús við Vatnsstíg

hreindyrskalfur_1__large_ Tvær fréttir vöktu athygli mína í sjónvarpinu í kvöld. Annars vegar þessi frétt um bréf Umhverfisstofnunar þar sem hreindýrskálfi er hótað lífláti ef fólkið sem bjargaði lífi hans á sínum tíma og tók hann til sín sækir ekki um leyfi til umhverfisráðuneytisins fyrir því að hafa hann.

Í fréttinni er haft eftir starfsmanni stofnunarinnar að "alls ekki hafi verið ætlunina að valda sárindum með bréfinu þótt skrifað hafi verið að dýrið skyldi aflífað yrði ekki sótt um leyfi fyrir því".

Það er einmitt það. Ég legg til að starfsmenn umhverfisstofnunar fari í svolitla naflaskoðun núna og velti fyrir sér þeim markmiðum stofnunarinnar sem lúta að dýravernd.

VatnsstígurSvo er það þessi frétt um hústökuna á Vatnsstíg þar sem maður horfði á lögregluna eyðileggja hús til þess að "bjarga því" úr klóm hústökufólks. Reyndar hafði hústökufólkið dyttað að húsinu og ætlað að hefja þar einhverja uppbyggilega starfsemi á meðan það væri ónotað - en það mátti alls ekki.  Eignarrétturinn þið skiljið.

Að vísu hafði húsið staðið autt í á annað ár, og verið notað af útigangsfólki án þess að nokkur kallaði til lögreglu. En sumsé - þegar komið var ungt fólk með málningardósir og heita súpu í potti, þá var tilefni til aðgerða. Og þær létu sko ekki á sér standa. Með keðjusögum og kylfum var hluti hússins bútaður í sundur til þess að sýna hústökuliðinu alvöru málsins.

Já, eignarrétturinn .... hann lætur sko ekki að sér hæða.  

Eins og fram kemur í fréttinni þá er eignarrétturinn svo heilagur, að jafnvel ónýt hús sem bíða þess að víkja fyrir nýjum, má ekki nota í uppbyggilegum tilgangi. Frekar skulu þau fá að drabbast niður sem dópgreni. Enda er hið síðarnefnda mun líklegra til þess að flýta fyrir niðurrifinu heldur en ef eitthvað uppbyggilegt á sér stað innandyra. Það er nefnilega þekkt hertækni húsa- og lóðabraskara að kaupa gömul hús á verðmætum lóðum til þess að rífa þau og byggja ný. Í sumum tilvikum er beinlínis ýtt undir það að útigangsfólk taki sér bólfestu í húsnæðinu svo betur gangi að fá samþykki fyrir niðurrifi.

Í ýmsum borgum hafa borgaryfirvöld gripið til þess ráðs að setja búsetuskyldu á hús í námunda við miðborgir, til þess að hindra atburðarás af þessu tagi. Reykjavíkurborg hefur ærna ástæðu til að hugleiða þann möguleika, því þetta er ekki eina húsið sem er að grotna niður í miðborginni.

En sumsé - tvær fréttir um það hvað lífið getur stundum verið öfugsnúið.


mbl.is Hóta að aflífa hreindýrskálf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málþófið sigraði - lýðræðið tapaði

althingishusid_01 Með málþófi og fundatæknilegum bolabrögðum hefur Sjálfstæðismönnum tekist að ýta stjórnlagaþinginu út af borðinu. Málinu sem vakti vonarneistann með þjóðinni um að nú væri hægt að byrja eitthvað frá grunni: Semja nýjar leikreglur, veita fólkinu vald til þess að koma að samningu nýrrar stjórnarskrár - virkja lýðræðið í reynd. Já, málinu sem var til vitnis um það - að því er virtist - að stjórnvöld, þar á meðal Alþingi, hefðu séð að sér; að þau vildu raunverulega sátt við þjóð sína, fyrirgefningu og nýtt upphaf.

Það var auðvitað allt of gott til að geta verið satt. Og auðvitað var það Sjálfstæðisflokkurinn sem þumbaðist og rótaðist um eins og naut í flagi til að stöðva málið. Til þess þurftu þeir að skrumskæla leikreglur lýðræðisins og málfrelsið sem því fylgir; halda uppi málþófi og tefja störf þingsins. 

Það var þeim líkt.


mbl.is Stjórnarskráin áfram á dagskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarkur og siðbót

ljónoglamb Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót.

Þetta hógværa orð  er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. En siðbót kallar á kjark.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli og gjörðir orðum.

Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar ábyrgðar- og skeytingarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð á velferð annarra, þá ríkir einungis ójöfnuður.

Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það  birtist í aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis; óréttlátu kvótakerfi; skefjalausri sérhagsmunagæslu; ójöfnum lífskjörum; launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja.

Samfylkingin á nú það erindi við íslenska þjóð að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar.  Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.

  •  Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu með sanngjörnum hætti þannig að um það náist sátt í samfélaginu.      
  • Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leita nýrra tækifæra á vettvag þjóðanna til hagsbóta fyrir íslenskan almenning.
  • Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
  • Það þarf kjark til að innleiða ábyrga stjórnsýslu og knýja fram lýðræðisumbætur.
  • Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu – jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.

Já, það útheimtir kjark að vera ábyrgur jafnaðarmaður við þær aðstæður sem nú ríkja. Líklega hefur það hlutskipti aldrei haft meiri þýðingu en einmitt nú.  

 -----------------

PS: Þessi hugleiðing birtist sem grein í Morgunblaðinu s.l. fimmtudag og er endurbirt hér


Ríkisendurskoðun gefur ekki út siðferðisvottorð til stjórnmálamanna

Ætlast Guðlaugur Þór til þess að Ríkisendurskoðun gefi honum siðferðisvottorð í REI málinu? Það er ekki hlutverk Ríkisendurskoðunar að túlka athafnir manna sem sitja við pólitíska kjötkatla.

Ríkisendurskoðun er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Hún endurskoðar ríkisreikning og reikninga opinberra stofnana.

Hvað ætti Ríkisendurskoðun að geta lagt til málanna varðandi risastyrk FL-Group til Sjálfstæðisflokksins í stjórnarformannstíð Guðlaugs Þórs hjá OR?

Svar: Ekki neitt. Nákvæmlega ekkert.

Mér er til efs að stofnunin taki það í mál að fara að gefa út vottorð í siðferðilegu álitamáli sem þessu. Máli sem snýst ekki um reikningshald Orkuveitur Reykjavíkur, heldur himinháa peningagreiðslu frá FL-Group til Sjálfstæðisflokksins á sama tíma og samningar stóðu yfir um eignatilfærslu á gífurlegum almenningsverðmætum frá OR í hendur einkaaðila. Já, einkaaðilans sem greiddi risastyrkinn inn á reikning Sjálfstæðisflokksins sem fór með málið á þessum tíma og hafði sinn fulltrúa sem stjórnarformann í OR. Angry


mbl.is Óskar úttektar á störfum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta skal þess sem gott er ...

Mér hefur að undanförnu orðið tíðrætt um mikilvægi þess að hlífa þeim sem hlífa skyldi í þeim  sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðum sem grípa þarf til í kjölfar efnahagskreppunnar. Það er á slíkum tímum sem það skiptir máli að forgangsraða í þágu velferðarhugsunar.

Sé litið til árangurs af stjórnarsetu Samfylkingarinnar undanfarin tæp tvö ár, má sjá hvers virði það er að hafa jafnaðarmannaflokk við stjórnvölinn þegar á reynir. Lítum á lífeyrismál aldraðra og öryrkja til dæmis.

Lífeyrir aldraðra og öryrkja hefur aldrei hækkað jafn mikið og á þeim tíma sem liðinn er frá því Samfylkingin settist í ríkisstjórn. Í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru óskertar bætur lífeyrisþega færðar undir láhgmarkslaunm á vinnumarkaði og þeim haldið þar, þrátt fyrir góðæri undangenginna ára.

Eftir tæplega tveggja ára stjórnarsetu Samfylkingarinnar hefur tekist að snúa þróuninni við. Greiðslur til lífeyrisþega hafa vaxið um  42% eða 19,2 milljarða milli áranna 2007-2008.

Óskertar bætur lífeyristrygginga eru nú 13% hærri en lágmarkslaun á vinnumarkaði og hafa aldrei áður erið hærri. Þær munu hafa hækkað um 43% í ríkisstjórnartíð Samfylkingarinnar.

Í reynd má segja að kjör lífeyrisþega hafi verið varin mun betur en kjör almennra launþega eftir hrun bankanna. Það er í samræmi við þá eindregnu velferðaráherslu Safmylkingarinnar að standa vörð um kjör þeirra  sem minnst hafa milli handanna.

Það skiptir máli hverjir stjórna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband