Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Fréttafölsun um útstrikanir
30.4.2009 | 00:07
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar tuggið það hver upp eftir öðrum að Ólína Þorvarðardóttir hafi verið sá frambjóðandi sem fékk flestar útstrikanir á kjörseðlum í NV-kjördæmi. Ríkisútvarpið hefur flutt um þetta tvær fréttir, Morgunblaðið sömuleiðis, að ekki sé talað um svæðisfjölmiðlana sem flestir gerðu nokkuð með þetta. Látið var að því liggja að "talsvert" hafi verið um yfirstrikanir í kjördæminu, og hef ég verið krafin svara í framhaldi af þessu, t.d. í Morgunblaðinu s.l. mánudag.
Nú er komið í ljós að þessi frétt var allan tímann röng. Yfirstrikanir á kjörseðlum í NV- kjördæmi voru í fyrsta lagi fremur fáar miðað við önnur kjördæmi.
Samkvæmt Morgunblaðinu í gær skiptust þær sem hér segir:
248 strikuðu út nafn Einars Kristins Guðfinnssonar, Sjálfstæðisflokki (6,5%)
181 strikuðu út nafn Ólínu Þorvarðardóttur, Samfylkingu (4,3%)
158 strikuðu út nafn Jóna Bjarnasonar, VG (3,9%)
157 strikuðu út nafn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, VG (3,9%)
En vitleysan er ekki öll eins. Samkvæmt Fréttablaðinu í dag er allt annað uppi á tengingnum - og skiptingin svona:
248 strikuðu út Einar K. Guðfinnsson
160 strikuðu út Ásbjörn Óttarsson
159 strikuðu út Lilju Rafney Magnúsdóttur
Nú er mér spurn: Hvað veldur því mikla misræmi sem í gær og dag er orðið á tölunum frá yfirkjörstjórninni?
Hvernig má það vera að í fjóra heila daga gangi röng frétt eins og logi um akur í fjölmiðlum? Sjálf þóttist ég vita að upphaflega fréttin væri röng, þar sem ég hafði verið í sambandi við þann fulltrúa Samfylkingarinnar sem var viðstaddur talninguna. Ég reyndi að segja blaðamanni Morgunblaðsins strax á Sunnudagsmorgun að hans upplýsingar stönguðust á við mínar. Blaðamaðurinn vitnaði þá í formann yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis og fullyrti að þaðan væru þessar upplýsingar komnar. Þetta væri óyggjandi. Aðrir fjölmiðlar hafa einnig vitnað til formanns yfirkjörstjórnar NV-kjördæmis.
Þarna er augljóslega eitthvað bogið við upplýsingagjöfina. Hvað veldur því? Sú spurning er afar áleitin.
Satt að segja veit ég veit ekki hvort er verra , tilhugsunin um að það hafi verið trúnaðarmaður almennings í yfirkjörstjórn sem brást eða fjölmiðlarnir.
Svo mikið er víst að málið þarfnast skýringa. Og ég mun kalla eftir þeim.
----------
PS: Og vitleysan heldur áfram - í hádegisfréttum RÚV var verið að þylja upp enn eina talnarununa, og nú er Einar Kristinn kominn með 183 útstrikanir en ég 140
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Enga sérmeðhöndlun, takk
29.4.2009 | 11:24
Ég fyrirverð mig hálfpartinn fyrir það að íslenskir fréttamenn skuli hafa spurt Olli Rehn hvort Íslendingar myndu fá sérmeðhöndlun hjá Evrópusambandinu, eins og það væru væntingar íslenskra stjórnvalda. Ég átta mig heldur ekki á því hvers vegna alið hefur verið á þessari umræðu um sérmeðhöndlun fyrir okkur umfram það sem aðrar þjóðir hafa fengið.
Í mínum huga snýst málið um allt annað.
Málið snýst um það hvernig Ísland getur fallið inn í regluverk, stefnumótun og áætlanir ESB. Ég er þá t.d. að tala um byggðaáætlunina, landbúnaðarstefnuna, sjávarútvegsstefnuna og umhverfisstefnuna. Hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur, lífskjör okkar, efnahagsástand, atvinnu- og viðskiptaumhverfi að ganga inn í þessar áætlanir.
Við Íslendingar höfum góða von um að geta náð fram því sem nágrannar okkar (t.d. Finnar og Svíar) hafa fengið út úr slíkum viðræðum. Í því er fólginn hinn hugsanlegi ávinningur fyrir okkur - en ekki hinu að koma eins og beiningamaður að dyrum ESB og biðja um "sérmeðhöndlun".
Í þessum viðræðum þarf að skilgreina vel samningsmarkmið okkar Íslendinga gagnvart landbúnaði, sjávarútvegi og auðlindum. Að loknum aðildarviðræðum kemur það svo í ljós hvernig dæmið lítur út, og þá fyrst veit þjóðin til fulls hvað er í húfi og um hvað hún er að kjósa.
Málið er ekki flóknara.
Hér er svo ágæt vefsíða www.evropa.is - þar er núna uppi grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson sem sem er vel þess virði að lesa.
Þarf ekki einhug um umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvað er málið?
28.4.2009 | 09:13
Það er einkennilegt að fylgjast með sterkum yfirlýsingum einstakra þingmanna VG undanfarinn sólarhring meðan formenn flokkanna eru að reyna að mynda ríkisstjórn. Það er eins og stjórnmarmyndunarviðræðurnar séu á tveimur vígstöðvum - við samningsborð forystumanna flokkanna og í fjölmiðlum.
VG samþykkti á landsfundi sínum ekki alls fyrir löngu að aðildarumsókn að ESB skyldi útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einmitt það sem Samfylkingin hefur lagt til. VG hefur lagt áherslu á það að stór og þýðingarmikil mál verði útkljáð með þjóðaratkvæði.
Hvað er málið?
Þjóðin var rétt í þessu að færa ráðamönnum þau skilaboð upp úr kjörkössunum að a) hún vildi félagshyggjustjórn. og b) að hún vildi aðildarumsókn að ESB.
Þetta eru skýr skilaboð. Það er skylda þessara tveggja flokka að svara þessu kalli.
Enn ósætti um ESB-málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fyrsti þingflokksfundurinn
27.4.2009 | 20:50
Sól skein í heiði og það var bjart yfir miðbænum þegar ég arkaði yfir Austurvöllinn að Alþingishúsinu á minn fyrsta þingflokksfund. Í anddyri nýju viðbyggingarinnar mættu mér brosandi starfsmenn sem buðu nýja þingmanninn velkominn. Fyrir innan biðu fjölmiðlarnir og enn innar þingflokksherbergið.
Þetta var góður fundur og yfir honum svolítill hátíðarbragur. Allir 20 þingmenn flokksins voru mættir ásamt áheyrnarfulltrúum og starfsliði . Nýir þingmenn tæplega helmingur, eða níu talsins. Kossar, faðmlög og hlýjar kveðjur í upphafi fundar. Svo var sest á rökstóla um aðalmálefni dagsins: Stjórnarmyndunarviðræðurnar og málefnastöðuna.
Já. nú eru sannkölluð kaflaskipti í mínu lífi. Svosem ekki í fyrsta sinn.
En á þessum tímamótum finn ég til þakklætis í garð þeirra fjölmörgu sem stutt hafa flokkinn og okkur frambjóðendur Samfylkingarinnar á öllum vígstöðvum fyrir þessar kosningar. Fjölmarga hef ég hitt á ferðum mínum um kjördæmið sem hafa miðlað mér af reynslu og sinni og lífsafstöðu. Það hefur verið lærdómsríkt og gefandi að hitta kjósendur að máli, hlusta eftir röddum þeirra og skiptast á skoðunum.
Ég er jafnframt þakklát mótframbjóðendum mínum úr öðrum flokkum fyrir skemmtilega framboðsfundi og umræður um það sem betur má fara og hæst ber á hverjum stað. Yfirleitt hafa þessi skoðanaskipti verið málefnaleg og upplýsandi fyrir alla aðila.
Nú tekur við nýtt tímabil - erfitt tímabil. Óhjákvæmilega finnur nýkjörinn þingmaður frá Vestfjörðum til ríkrar ábyrgðar og um leið umhyggju gagvart heimaslóðum þar sem mjög ríður á úrbótum í samgöngu- og raforkumálum. Hvort tveggja getur ráðið úrslitum um atvinnuuppbyggingu Vestfjarða og almenn búsetuskilyrði. Sjálf vil ég auk þess gera það sem í mínu valdi stendur til þess að fjölga menntunarkostum heima í héraði, ekki síst á háskólastigi.
Forsenda þess að eitthvað miðið í úrbótum fyrir einstaka landshluta er þó að ná tökum á efnahagslífi þjóðarinnar og verja jafnframt velferðina eftir fremsta megni. Það er forgangsverkefni og um leið frumskilyrði þess að nauðsynleg atvinnu uppbygging geti átt sér stað. Sókn um inngöngu í ESB er mikilvægur þáttur í að þetta takist. Síðast en ekki síst þarf að endurreisa ábyrgð og traust í samfélaginu, ekki síst á stjórnmálasviðinu og innan stjórnsýslunnar sjálfrar.
Jebb ... þetta verður ekki auðvelt fyrir nýja ríkisstjórn, en við sjáum hvað setur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Nýr dagur í íslenskum stjórnmálum
26.4.2009 | 12:22
Nýr dagur er risinn með gjörbreyttu landslagi í íslenskum stjórnmálum. Nú er ljóst að 27 nýir þingmenn munu taka sæti á Alþingi. Að baki er spennandi kosninganótt og væntanlega hefur verið mikil rússibanareið í tilfinningalífi þeirra jöfnunarþingmanna sem ýmist voru inni eða úti fram undir morgun.
Í Norðvesturkjördæmi var mikil spenna fram eftir nóttu, því litlu munaði að Samfylkingin næði inn sínum þriðja manni. Það fór ekki svo, því miður.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur fengið verðskuldaða refsingu. Flokkurinn tapar 12% á landsvísu sem er mesta tap hans frá stofnun árið 1929.
Hástökkvarar kosninganna eru VG og Borgarahreyfingin. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeim síðarnefndu farnast nú þegar þeir eru komnir með fjóra fulltrúa á þing og þurfa að fara að taka afstöðu til fjölmargra mála sem hvergi hafa komið fram í stefnu þeirra.
Samfylkingin getur vel við unað. Hún er stærsti stjórnmálaflokkur landsins með skýrt umboð til stjórnarmyndunar. Evrópusinnar geta líka vel við unað, því það er ljóst af kosningaúrslitum að sá málstaður hefur sótt á í þessum kosningum.
Nú liggur beint við að formenn Samfylkingar og VG hefji stjórnarmyndunarviðræður. Persónulega vona ég að þeir nái góðri lendingu í Evrópumálinu og að farsællega takist til við myndun stjórnar þessara tveggja flokka.
Já, nú eru eru sögulegir tímar í íslenskum stjórnmálum. Aldrei fyrr hefur þjóðin kosið félagshyggjustjórn með hreinan meirihluta tveggja flokka. Aldrei hafa fleiri konur verið kjörnar á þing og aldrei hefur meiri nýliðun átt sér þar stað.
Ég hlakka til að takast á við verkefnin sem bíða um leið og ég finn til ríkrar ábyrgðar gagnvart því nýja hlutverki að gegna þingmennsku. Og svo ég haldi áfram með þema gærdagsins:
Dagsins lifna djásnin góð
draumar sanna gildið sitt:
Víst ég heiti vorri þjóð
að vinna fyrir landið mitt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Dagsins lifna djásnin enn ...
25.4.2009 | 10:34
Dagsins lifna djásnin enn,
af draumi vaknar spurnin hljóð:
Verð ég til þess valin senn
að vinna fyrir land og þjóð?
Þessi vísa braust fram í höfuðið á mér rétt eftir að ég vaknaði í morgun. Í dag ráðast leikar varðandi það hverjir fá umboð til þess að vinna fyrir þjóðina að loknum kosningum.
Íslendingar eiga skýran valkost. Hann er sá að leiða jafnaðarstefnuna til öndvegis undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur formanns Samfylkingarinnar, og hafna þar með harðneskju frjálshyggjunnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir um árabil.
Samfylkingin er sá stjórnmálaflokkur sem öðrum flokkum fremur horfir til framtíðar og þeirra tækifæra sem vænta má í samstarfi og samfélagi við aðrar þjóðir. Hún er eini flokkurinn um þessar mundir sem býður upp á stefnu og framtíðarsýn í peningamálum.
Stefnu sinni í Evrópumálum deilir flokkurinn með stærstu samtökum atvinnulífsins, bæði launafólks og atvinnurekenda, eins fram hefur komið í umsögnum með nýbirtri Evrópuskýrslu.
Allt frá efnahagshruninu hefur Samfylkingin unnið að því að byggja brú fyrir heimilin í landinu til að yfirstíga erfiðleikana sem hrunið olli. Aðgerðirnar eru bæði almennar og sértækar. Megináhersla hefur verið lögð á það að leysa vanda skuldsettustu heimilanna og koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný með þrennt fyrir augum:
1) Að hraða endurreisn fjármálakerfisins og skapa skilyrði fyrir enn hraðari lækkun vaxta og endurvinna traust á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf með skýrri framtíðarsýn í peningamálum. Fyrirtækin verða að fá upplýsingar um það hvert stefnir í gjaldeyris- og vaxtamálum því það eru lykilþættirnir í starfsumhverfi þeirra.
2) Að ráðast strax í arðbærar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum hins opinbera til að fjölga störfum.
3) Að styðja við þau nýsköpunarfyrirtæki sem eru sprotarnir að stórfyrirtækjum framtíðarinnar.
Samfylkingin hefur svikalaust einhent sér í erfið og aðkallandi verkefni eftir efnahagshrunið. En hún lætur ekki þar við sitja. Íslenskir jafnaðarmenn bjóða líka upp á skýra framtíðarsýn.
Já, kjósendur standa frammi fyrir sögulegu tækifæri í dag. Það tækifæri mega íslenskir jafnaðarmenn ekki láta renna sér úr greipum.
---------
PS: Myndina hér fyrir ofan tók sá frábæri myndasmiður Ágúst Atlason í Arnarfirði á dögunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.4.2009 kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Formannafundur Sjónvarpsins: Framtíðarsýn andspænis dylgjum og úrræðaleysi ... Saari grípur fyrir eyrun
24.4.2009 | 23:31
Þá er formannafundurinn nýafstaðinn á RÚV og komið að því að meta frammistöðu manna.
Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, dylgjaði stórum um leyndarskjöl og meintar yfirhylmingar sem svo kom í ljós að fær ekki staðist. Sigmundur Davíð lét í það skína að hann hefði upplýsingar upp úr skýrslu sem hvorki fjármálaráðherra né forsætisráðherra hafa aðgang að. Það þýðir að eini maðurinn sem er með yfirhylmingar er þá líklega hann sjálfur, því hann vildi hvorki upplýsa hvernig hann hefði komist yfir umræddar upplýsingar, né heldur vildi hann gera nánari grein fyrir þeim. Hélt sig þess í stað við stóryrði og hálfkveðnar vísur og var hvorki trúverðugur né traustvekjandi.
Það hvarflaði að mér að Ástþór hefði hitt naglann á höfuðið þegar hann talaði um þá sem stjórna Framsóknarflokknum bak við tjöldin.
Bjarni Ben var úrræðalaus og virtist stressaður - jafnvel reiður á köflum. Hann bauð kjósendum engar lausnir á þeim vanda sem við er að eiga. Samkvæmt honum má ekki hækka skatta, samt á að fara í flatan niðurskurð - þó ekki á öllum sviðum. Og samhliða þessu ætlaði hann að skapa 20 þúsund störf sem hann gat þó ekki tilgreint nánar. Eins og Sigmundur Davíð hljóp hann í hræðsluáróður og yfirboð inn á milli.
Þór Saari var bestur þegar hann greip fyrir eyrun. Annars bauð hann ekki upp á neinar lausnir frekar en ofannefndir. Hann sagði þó ýmislegt skynsamlegt um menn og málefni. Það háir Borgarahreyfingunni að hún hefur skýrari sýn á vandann en lausnina, veit hvað hún vill gagnrýna en bendir á fátt til bóta. Fyrir vikið verður málflutningur þeirra árásargjarn og hneykslunarkenndur sem verður yfirborðslegt til lengdar.
Guðjón Arnar er alltaf skynsamur - maður að mínu skapi, þó okkur greini á um margt. Hans flokkur stendur mjög höllum fæti núna og óvíst að Guðjón Arnar komist inn á þing. Það væri þó að mínu viti mikill skaði ef hann félli út. Hann talar ævinlega hreint út eins og Vestfirðingum er tamt.
Steingrímur Joð var góður. Hann lenti í vandræðum varðandi ESB umræðuna og álverið á Bakka en leysti það þolanlega. Hann hefði mátt fá meira næði á köflum til að svara ýmsu sem til hans var beint.
Nú er ég auðvitað ekki hlutlaus varðandi Jóhönnu. Ég var mjög sátt við hennar framöngu í þættinum. Hún svaraði hispurslaust öllu sem um var spurt. Útskýrði vel og nákvæmlega hugmyndir Samfylkingarinnar um þau verk sem vinna þarf. Þar kom glöggt fram sá vilji að verja velferðina eftir því sem kostur er í erfiðu árferði.
Upp úr stóð að Samfylkingin er eini flokkurinn með skýra stefnu og framtíðarsýn. Nú ríður á að við fáum skýlaust umboð til að tryggja vinnu og velferð með ábyrgri efnahagsstjórn. Við erum sammála stærstu samtökum launafólks og atvinnurekenda um að hefja eigi samningaviðræður við ESB strax í vor á grundvelli skýrra markmiða og gefa þjóðinni kost á að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst að undangenginni aðildarumsókn. Þá fyrst veit þjóðin hvaða kostir eru í boði með aðild, og þá kosti getur hún kosið um í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég hef bjargfasta trú á því að við jafnaðarmenn munum ná þjóðinni út úr erfiðleikunum Til þess þurfum við umboð og styrk. Ekkert nema atkvæði greitt Samfyklingunni getur tryggt okkur þann styrk sem þarf til að gera þessa leið að veruleika.
Sjónvarp | Breytt 25.4.2009 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Frjálshyggjumenn undir fölsku flaggi
23.4.2009 | 22:09
Hópur sem nefnir sig Félag ungs fólks í sjávarútvegi hefur sent hefur frá sér ályktunina "Fyrning aflaheimilda er aðför að 32.000 fjölskyldum". Glöggir menn hafa veitt því athygli hvað þessi ályktun er keimlík blaðagrein bæjarstjóranna þriggja sem ég hef áður gert að umtalsefni hér. Tilgangur ályktunarinnar er augljóslega sá að hræða fólk frá því að kjósa Samfylkingu og Vinstri græn með hræðsluáróðri og heimsendaspám nái tillögur þessara flokka fram að ganga um leiðréttingu á óréttlæti kvótakerfisins. Ekki í fyrsta sinn sem gripið er til slíkra aðferða rétt fyrir kosningar.
Grunsemdir um að ætt og uppruna ályktunarinnar megi rekja til Sjálfstæðisflokksins fá byr undir báða vængi þegar farið er inn á heimasíðu félagsins http://www.fufs.is/ . Þá kemur nefnilega í ljós að stjórnin er skipuð tveimur stjórnarmönnum og einum fyrrverandi stjórnarmanni Frjálshyggjufélagsins http://www.frjalshyggja.is/
Einar H. Björnsson bloggari hefur veitt þessu athygli. Hann veltir fyrir sér í þessari bloggfærslu hvaða hagsmuna sumir stjórnarmanna FUFS hafi að gæta í sjávarútvegi. Þar er um að ræða:
- Friðbjörn Orra Ketilsson, eiganda Vefmiðlunar ehf, og einn helsti talsmann frjálshyggjufélagsins;
- Gísla Frey Valdórsson, eigandi Viðskiptablaðsins, talsmann frjálshyggjufélagsins og kosningastjóra í prófkjörum Birgis Ármannssonar; og
- Fannar Hjálmarsson, framkvæmdastjóra kjördæmisráðs og kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi. Það var Fannar sem var að svara fyrir auglýsingar Sjálfstæðismanna í garð Steingríms J. Sigfússonar sem VG hefur kært í NV-kjördæmi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.4.2009 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Sumrinu fagnað í snjómuggu
23.4.2009 | 12:31
Þeir hleyptu í herðarnar, otuðu fánastöngunum fram og héldu af stað með hálfpírð augun mót snjómuggunni - ungskátarnir sem fóru fyrir skrúðgöngunni eftir skátamessuna í morgun. Í humátt á eftir gengum við, nokkrir vetrarbúnir bæjarbúar, og fylgdum trommuslættinum um götur bæjarins.
Sumarið heilsar heldur hryssingslega hér á Ísafirði í ár. Þetta kann þó að vera góðs viti, því sumar og vetur frusu saman í nótt. Það veit á góða tíð samkvæmt þjóðtrúnni.
En þar sem ég þrammaði á eftir skrúðgöngunni í morgun kom mér til hugar þessi vísa:
Okkur lengi í ljóssins yl,
líf og yndi þyrsti,
þá í svölum sortabyl
kom sumardagur fyrsti.
Gleðilegt sumar öllsömul og takk fyrir veturinn sem er að líða. Fari hann vel með öllu því sem honum fylgdi.
Megi Harpan og sumarmánuðirnir boða okkur betri og gjöfulli tíð.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Jóhanna vill opna fjármál flokka og frambjóðenda til 1999
23.4.2009 | 01:03
Fréttir dagsins af háum styrkjum til einstakra prófkjörsframbjóðenda flokkanna hér um árið sýna gildi þess að settar séu reglur um þessa hluti. Samfylkingin hefur sett sér strangar reglur um auglýsingar og hámarks kostnað í sínum prófkjörum eins og t.d. fyrir nýafstaðið prófkjör.
Vegna þeirra reglna gat ég t.d. ekki eytt neinu í mína prófkjörsbaráttu. Hefði ég þó í hégómakasti vel getað hugsað mér að sjá nokkur plaköt af sjálfri mér, vel sminkaðri á nýrri dragt, utan á húsum og strætisvögnum. Það var bara ekki í boði - engir peningar til, hvorki hjá mér né mótframbjóðendum. Og ég er auðvitað fegin því - sjálfrar mín vegna og pyngju minnar. Sjálfsagt væru sumir þeirra prófkjörsframbjóðenda sem nú hafa orðið uppvísir að því að taka við stórum fjárstyrkjum fegnastir því að hafa reglur til að miða við, og þar af leiðandi minna svigrúm til að eyða peningum í glansmyndir og dýrar auglýsingar.
En í tilefni af þessu öllu saman hefur Jóhanna Sigurðardóttir nú ritað formönnum allra stjórnmálaflokka bréf og beðið þá að skipa fyrir 1. maí fulltrúa í nefnd til að endurskoða lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Markmiðið er að tryggja að Ríkisendurskoðun verði falið að gera úttekt á fjárreiðum þeirra stjórnmálaflokka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi, vegna áranna 1999 til 2006. Ríkisendurskoðun skili síðan niðurstöðum um heildarfjárreiður flokkanna, bæði landsflokkanna, kjördæmisráðanna, einstakra félaga og frambjóðenda þeirra vegna prófkjara á sama tímabili.
Gott framtak hjá Jóhönnu. Það er mikilvægt að fá þetta allt upp á borðið. Ekki síst er mikilvægt að kjósendur fái sambærilegar upplýsingar fyrir alla flokka og frambjóðendur þeirra.
Og ef þetta kallar á nýja löggjöf, þá treysti ég henni vel til þess að stýra þeirri vinnu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)