Eigna- og hagsmunatengsl í íslenskum stjórnmálum

Nýlega voru settar reglur um fjármál alþingismanna, líkt og tíðkast víða erlendis. Enginn vafi er á því að reglur af þessu tagi eru til mikilla bóta og til þess fallnar að efla traust og gegnsæi stjórnarathafna. Það er þinginu og þeim sem stýrðu vinnunni til sóma að þetta skyldi til lykta leitt í ágætri sátt. Samkvæmt reglunum ber alþingismönnum að gefa upp tilteknar eignir og gjafir. Þeim ber ekki að upplýsa um eignatengsl maka eða skuldir, en hugsanlega verður slíkum ákvæðum bætt við síðar. Satt að segja vona ég að svo verði.

Fjölskyldutengsl stjórnmálamanna við félög og fyrirtæki, sem hugsanlega þurfa síðar að leita ásjár stjórnvalda, geta verið allt eins hamlandi fyrir heilbrigða stjórnsýslu og ef um væri að ræða persónuleg eignatengsl. Sömuleiðis getur skuldastaða stjórnmálamanna í vissum tilvikum valdið efasemdum um hæfi þeirra.

Nokkrir stjórnmálamenn hafa að svo komnu birt upplýsingar um eignir og skuldir, og er það vel. Aðrir hafa hikað. Þeim kann að finnast full nærgöngult að opna fjárreiður sínar almenningi. Bæði sjónarmið eru skiljanleg. Enn aðrir hafa heitið því að gefa upp eigna- og skuldastöðu og “taka allt upp á borðið” án þess að af því hafi orðið. Þess hefur líka orðið vart að menn bregðist reiðir við umræðu um hagsmunatengsl þeirra. En reiði og vanefndir eru þó sennilega röngustu viðbrögð sem hugsast geta í því andrúmslofti tortryggni sem nú ríkir í samfélaginu. Sé allt með felldu ætti enginn skaði að hljótast af því að gera grein fyrir tengslum og eignastöðu. Þvert á móti er það eini raunhæfi mótleikurinn við vantrausti og kviksögum.

Hvað er athugavert við eigna- og hagsmunatengsl stjórnmálamanna?

Nú er gott eitt um það að segja að athafnamenn og fyrirtækjaeigendur sitji á Alþingi. Fjölskyldutengsl inn í athafna- og viðskiptalíf eru að sjálfsögðu enginn glæpur. En þegar kemur að því að taka stjórnvaldsákvarðanir sem hafa afgerandi áhrif á afkomu og afdrif þessara sömu fyrirtækja, þá vandast málið. Hvernig bregst þá til dæmis ráðherrann við sem hugsanlega er tengdasonur, maki, systir eða sonur?

Það er ekki nóg að viðkomandi sé heiðarlegur í hjarta og sinni. Hæfi hans til ákvörðunar þyrfti að vera hafið yfir allan vafa.

Íslenskt samfélag er svo lítið að tengsl stjórnmálamanna við fyrirtæki, fjármálastofnanir og hagsmunasamtök eru raunveruleg ógn við heilbrigða stjórnsýslu og stjórnmál. Sú meinsemd hefur nú þegar grafið undan trausti almennings á stjórnmálum og fjármálakerfi.

Við þessu er fátt annað að gera en að kjörnir fulltrúar upplýsi um hvaðeina sem valdið getur vanhæfi þeirra á síðari stigum. Leiðbeinandi reglur setja mönnum engar skorður í því efni að upplýsa um fleira en reglurnar segja til um. Þær setja einfaldlega lágmarkið.

----------

PS: Samhljóða grein eftir mig var birt í Fréttablaðinu fyrr í vikunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Ætlar þú að upplýsa um tengsl ykkar við Baug?

Einar Þór Strand, 19.4.2009 kl. 10:52

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Páll Skúlason sagði í eftirminnilegu viðtali að atvinnupólitíkusar væru ógn við lýðræðið.

Margir pólitíkusar hafa aldrei starfað út í atvinnulífinu. Svo þurfa þeir að taka ákvarðanir sem fjalla um atvinnulífið. Bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum er mikill skortur á fólki sem hefur unnið annað en atvinnupólitíkusar eða opinberir starfsmenn.

Að sjálfsögðu þurfa einnig að vera pólitíkusar sem hafa reynslu af opinberum störfum og einnig innan verkalýðshreyfingarinnar.

Tengsl verða aldrei fullupplýst. Nema þegar ,,stóri bróðir" veit allt.

Í dag er blanda margir saman tengslum við atvinnulífi og útrásarvíkingum og óheiðarlegum viðskiptáháttum. Óvandaðir pólitíkusar nota þessi tengsl og slá um sig með þeim í skammtíma ,,populisma". Í haust má reikna með að atvinnuleysið aukist umtalsvert og þá gæti verið æskilegt að á þingi sé fólk sem hefur einhverja þekkingu á fyrirtækjum og atvinnulífinu.  Ef atvinnuleysið fer í 30 þúsund manns, þá verður stutt fyrir þig að vippa þér út á Austurvöll, þar sem við kyrjum saman ,,óhæf ríkisstjórn" og ,, Seðlabankastjórnann heim".

Sigurður Þorsteinsson, 19.4.2009 kl. 17:43

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Eigna- og hagsmunatengsl íslenskra banka, eigenda þeirra og annarra stórfyrirtækja -oft sömu aðila þegar undið er ofanaf- eru ótrúlega flækt.

Það mun þó engin tilviljun, heldur einmitt tilgangurinn.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 19.4.2009 kl. 18:59

4 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Er það rétt að Sigmundur Ernir sé kostaður af Baugi?

Hefur Ólína þegið styrki frá Baugi eða örðum stórfyrirtækjum, og hvað mikið?

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 19.4.2009 kl. 22:13

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Mér vitanlega eru engin tengsl milli Samfylkingarinnar og Baugs - en auðvitað get ég ekki svarað fyrir flokkinn. Ég er nýr frambjóðandi og hef ekki unnið í fjáröflun fyrir Samfylkinguna.

Ég get heldur ekki svarað fyrir aðra frambjóðendur - sjálf hef ég enga styrki þegið hvorki frá einstaklingum né fyrirtækjum.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 20.4.2009 kl. 22:28

6 Smámynd: Guðl. Gauti Jónsson

Enn sem komið er eru þessar reglur hvorki fugl né fiskur. Þetta er t.d. vegna þess að það vantar upplýsingar um nánustu fjölskýldu eins og þú getur um. Björn Bja hefur t.d. komið sínum eignum í skjól hjá fjölskyldu sinni (að eigin sögn) og þarf ekki gera grein fyrir þeim. Og það er alveg óþarfi að vorkenna þingmönnum vegna þessara reglna eins og mér finnst þú ýja að (Þeim kann að finnast full nærgöngult að opna fjárreiður sínar almenningi. Bæði sjónarmið eru skiljanleg). Menn eru ekki skikkaðir á þing og geta ráðið hvort þeir gangast undir þetta "ok."

Guðl. Gauti Jónsson, 21.4.2009 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband