Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Lóan er komin. Gleðilega páska!

Loan Það er sólarglenna og hæglætisveður hér á Ísafirði þennan páskamorgun. Í gær sást til heiðlóu á Holtsodda í Önundarfirði. Hrossagaukur sást í Haukadal í Dýrafirði og æðarkóngur við Höfða.

 Já, vorið er á næsta leiti - og vonandi fylgir því betri tíð fyrir land og lýð.

Aldrei fór ég suður hátíðin stóð fram eftir nóttu og við heyrðum daufan óminn berast yfir bæinn þegar við fórum að sofa í gærkvöld. Það virtist vera góð og vandræðalaus stemning í kringum tónleikana. Þegar ég kíkti var Hemmi Gunn að rifja upp gamla takta við mikinn fögnuð. Salurinn var troðfullur út úr dyrum.

Húsið hjá mér er fullt af gestum um hátíðarnar. Tvö barnanna minna komu að sunnan ásamt tveimur vinum sínum fyrr í vikunni. Hér hafa líka verið nætur gestir í tengslum við kosningastarfið, þannig að hér er hvert fleti skipað, eins og oftast um þetta leyti. Bara gaman af því.

Sjálfsagt munum við skella okkur á skíði seinna í dag. Svo verður kíkt á kosningamiðstöðina, og eldað eitthvað gott í kvöld. Smile

Ég óska ykkur öllum gleðilegra páska kæru lesendur og vinir!

 


Samfylking gerir hreint fyrir dyrum

skalgert Þá hefur Samfylkingin gert hreint fyrir sínum dyrum og opnað bókhald sitt fyrir árið 2006 þannig að nú má sjá hverjir greiddu flokknum styrki. Það er vel.

Á þessu ári eru 14 ár liðin síðan Jóhanna Sigurðardóttir flutti í fyrsta sinn lagafrumvarp á Alþingi um opið bókhald stjórnmálaflokka. Slík lög tóku loks gildi í ársbyrjun 2007. Fram til þess hafa ársreikningar Samfylkingarinnar verið aðgengilegir á vef hennar - og svo hefur verið allt frá stofnun flokksins. Þar má sjá heildaryfirlit styrkja frá einstaklingum og lögaðilum. Nöfn einstakra styrktaraðila hafa hinsvegar ekki verið birt, fyrr en með nýjum lögum árið 2007.

En þó að Samfylkingunni beri ekki lagaleg skylda til þess að opna bókhald ársins 2006 með þeim hætti sem nú hefur verið gert, var hárrétt ákvörðun að gera það engu að síður í ljósi síðustu atburða.

Yfirlitið ber með sér að Samfylkingin hefur ekkert að fela. Þarna kemur fram að ennfremur er verið að taka saman styrki kjördæmis- og fulltrúaráða og einstakra félaga fyrir árið, og verða þeir einnig birtir opinberlega þegar tölur liggja fyrir. Slíkar upplýsingar virðist enginn annar flokkur ætla að veita.

Fram kemur  í þessari frétt á eyjan.is að styrkir frá bönkunum hafi skv. almennum reglum bankaráðanna verið farnir að nema fjórum til fimm milljónum kr. árið 2006. Það er há upphæð - en virðist hafa verið það sem aðrir stjórnmálaflokkarnir fengu. Hins vegar er eftirtektarvert að hæsti einstaki styrkur til Samfylkingarinnar er 6 sinnum lægri en sá sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá FL Group.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort aðrir stjórnmálaflokkar munu opna bókhald sitt fyrir árið 2006 með þessu hætti.


mbl.is Samfylking opnar bókhaldið 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkur eða mútur?

 "Ertu að segja að Sjálfstæðisflokknum hafi verið mútað - er það það sem þú ert að segja?" sagði Bjarni Benediktsson formaður flokksins reiðilega þegar hann var spurður i sjónvarpsviðræðum um 55 mkr greiðslur frá FL-Group og Landsbankanum síðla árs 2006.  Í beinu framhaldi talaði hann um "nýja forystu" Sjálfstæðisflokksin og gerði hvað hann gat að skilgreina sig frá málinu. Með "nýrri forystu" á Bjarni væntanlega við sjálfan sig og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformann flokksins, sem  er nú ekki beint nýkjörin í það embætti.

Er nema von þó að orðið "mútur" beri á góma vegna þessa máls? Tímasetningarnar eru a.m.k. afar óheppilegar eins og fram kemur í þessari frétt á visir.is.

Málið er grafalvarlegt.

Í OR/REI málinu munaði einungis hársbreidd að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í Reykjavík Energy Invest yrði seldur í hendur einkaaðilum. Þar með hugvit og verðmætt raforku- og gagnaflutningakerfi sem  varð til fyrir fjármuni almennings og í hans þágu. Og hverjir skyldu nú hafa viljað koma þessum verðmætum í einkaeign? Það voru Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Hverjir áttu hagsmuna að gæta að komast yfir verðmætið? Það var m.a. FL-Group.  

Því skal til haga haldið að Guðlaugur Þór var á þessum tíma stjórnarformaður OR.

Hér má rifja það upp að umrætt haust sameinuðustu tvö fyrirtæki, Reykjavik Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE) og báru eftir það nafn þess fyrrnefnda sem við skammstöfum REI.

REI var 93% í eigu OR en 7% voru í eigu Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns, og Jóns Diðriks Jónssonar, starfsmanns REI.

GGE var 43,1% í eigu FL Group (sem var í eigu Baugs m.a.), 16,1% í eigu Glitnis, 32% í eigu Atorku og 8,8% í eigu annarra, þar með félaga, sem kennd eru við framsóknarmenn undir forystu Finns Ingólfssonar. Ráðgjafi GGE í sameiningarferlinu var Glitnir.

Það kom í hlut Bjarna Ármannssonar, stjórnarformanns REI og Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns í GGE og forstjóra FL-Group, að kynna samruna félaganna á fjárfestafundi FL- Group í London þann 4.október 2006.

Þannig voru sumsé eignatengslin á þessum tíma. Sjálfstæðisflokkurinn fór með meirihlutavald í Borgarstjórn Reykjavíkur og hlutaðist til um að koma þessari almenningseign í hendur einkaaðilanna. Því var naumlega forðað.

Sá möguleiki blasir við hverjum sem vill sjá, hvað hér gæti hafa gerst. 

Á sama tíma og verið var að taka ákvörðun um að færa gífurleg verðmæti úr almenningseigu í hendur einkaaðila berast 30 mkr frá þeim sem á að hreppa hnossið (FL-Group) inn á bankreikning stjórnmálaaflsins sem ræður afdrifum málsins.

Og nú keppast menn við að þræta fyrir aðkomu sína að málinu. Það er beinlínis vandræðalegt á að hlýða. Geir Haarde - sem eins og allir vita er að vikinn af vettvangi - reynir að bjarga flokknum með því að taka á sig alla ábyrgð. Já, hann heldur því m.a. fram að hvorki Kjartan Gunnarsson fv. framvkæmdstjóri flokksins (og stjórnarmaður í Landsbankanum) né Andri Óttarsson, núverandi framkvæmdastjóri, hafi vitað um þetta. Ja hérna! Hvorugur framkvædastjórinn hafði vitneskju um 50 mkr sem bárust flokknum. Þeir hafa ekki litið oft yfir bókhaldið blessaðir.  Angry

Nei, nú duga engin vettlingatök. Þetta mál ber að rannsaka sem sakamál.


mbl.is Styrkir endurgreiddir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna bar af

JohannaDV

Jóhanna Sigurðardóttir flutti þá albestu ræðu sem ég hef heyrt hana flytja lengi, í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í gær. Hún stóð upp úr sem málsverjandi íslensks almennings. Gjörsamlega laus við lýðskrum, yfirboð  eða upphrópanir flutti hún mál sitt og gerði grein fyrir þeim verkefnum sem unnið er að og fyrir liggja af tilhlýðilegri festu og ábyrgð.

Þau verkefni eru mörg og stór:

 

  • Endurreisn efnahagslífsins,
  • endurskipulagning stjórnsýslunnar,
  • að verja velferðina og heimilin,
  • byggja upp atvinnulífið og
  • reisa við banka- og fjármálakerfið.

 Þá er ónefnf eitt veigamesta viðreisnarstarfið sem er

  •  að endurheimta traust okkar á alþjóðavettvangi og ennfremur
  • að endurvinna traust almennings á leikreglum samfélagsins og framgöngu þeirra sem þar ráða málum.

Það leynir sér ekki að síðustu vikur hafa verkin verið drifin áfram í stjórnarráði Íslands. Menn þar á bæ segja að forsætisráðherrann hreinlega andi niður um hálsmálið á þeim til að halda þeim að verki. Þar er unnið nánast myrkranna á milli. Enda veitir ekki af.

hsh-28Annars fannst mér Helga Sigrún Harðardóttir líka standa sig býsna vel í þessum eldhúsdagsumræðum.  Þó að ég sé henni fullkomlega ósammála varðandi ýmislegt, þá var einhver sjálfsgagnrýninn og heiðarlegur tónn í málflutningi hennar sem snerti mig vel. Vonandi munu fleiri slá svipaðan tón í störfum sínum á Alþingi eftir kosningar. Það er tími til kominn að nálgast viðfangsefnin þar á bæ með öðru hugarfari en verið hefur síðustu ár. Það er að segja af aukinni einlægni og minni meinbægni.

 


Brask, spilling og ... ríkisaðstoð?

fúlgurfjár Kastljós Sjónvarpsins fjallaði í kvöld um eins milljarðs króna lánveitingu stjórnarformanns Byrs Sparisjóðs til félags sem notaði fjármunina til þess að kaupa stofnhlut stjórnarformannsins í Byr stuttu eftir bankahrun.

Ekki nóg með það. Stjórnarmenn fyrirtækjanna Byrs Sparisjóðs, Exeter og MP-banka virðast hafa höndlað með lánsfé til hlutbréfakaupa sín á milli, þar sem þeir sátu beggja vegna borðsins í samofnum eigna- og hagsmunatengslum.

Til að kóróna allt annað mun Byr Sparisjóður nú hafa óskað eftir ríkisaðstoð í kjölfar "kreppunnar". Ó já, þegar stjórnarformaðurinn hefur fengið það sem hann þurfti og forðað sér á þurrt, þá er farið fram á ríkisaðstoð. Þá má blessaður almenningurinn aðstoða fyrirtækið.  Angry

Umræddur stjórnarformaður mun nú hafa látið af störfum - en ekki kom fram hvert framhald málsins verður.

Þetta er líklega bara skólabókardæmi um það hvernig kaupin hafa gengið á eyrinni í íslenskum fjármálaheimi bæði fyrir og eftir hrun.

Horfið á þessa umfjöllun Kastljóssins HÉR - hún er fróðleg.


Bréf Fjármálaeftirlitsins til fjölmiðla

bréfburður Bréf Fjármálaeftirlitsins til nokkurra fjölmiðlamanna þar sem þeim er hótað málsókn fyrir að rjúfa bankaleynd er eitt þeirra mála sem ég hef ekki komist til að blogga um fyrr en nú. Mér rennur þó blóðið til skyldunnar að segja nokkur orð um þetta mál.

Mannréttindasáttmáli sameinuðu þjóðanna kveður á um skoðana- og tjáningarfrelsi allra manna án utanaðkomandi afskipta og rétt fólks til þess að afla sér og taka við upplýsingum og hugmyndum hvaða fjölmiðils sem er án tillits til landamæra.

Í alþjóðlegum siðareglum blaðamanna sem UNESCO samþykkti 1983 er kveðið á um rétt einstaklinga og samfélaga til þess að taka við raunsönnum og hlutlausum upplýsingum sem fengnar eru með vönduðum hætti, og sömuleiðis að tjá sig frjálslega gegnum ólíka menningar og samskiptamiðla. Skjalið tekur m.a. á  eftirfarandi þáttum:

  • Óhlutdrægni fjölmiðlamanna
  • Ábyrgð þeirra gagnvart samfélaginu
  • Fagmennsku þeirra og vönduðum vinnubrögðum
  • Virðingu fyrir almannahagsmunum og lýðræðislegum stofnunum
  • Umhyggju fyrir gildismati og siðferði samfélaga

Blaðamannafélög víðsvegar um heim hafa sett sér siðareglur, sem allar ber að sama brunni og byggja á alþjóðlegum staðli: Samkvæmt þeim eru nokkrar skyldur lagðar á herðar blaðamanna, m.a.: 

  • Að þeir séu óháðir stjórnmálaöflum og valdhöfum
  • Að þeir hafi skarpa sýn á greiningarhlutverk fréttamiðla (umfram hið augljósa, hið áhugaverða eða yfirborðslega)
  • Að þeir miðli raunsönnum, sanngjörnum og skiljanlegum fréttum
  • Að þeir þjóni öllum samfélagshópum (ríkum, fátækum, ungum, gömlum, íhaldssömum, róttækum, o.s.frv.)
  • Að þeir verji og haldi fram mannréttindum og lýðræði
  • Að þeir aðhafist ekkert sem rýrt geti traust almennings á fjölmiðlum.

Hótanirnar í bréfi FME  um viðurlög og refsingu vega umfjöllunar um bankahrunið eru ógnun við tjáningarfrelsið og upplýsingaskyldu fjölmiðla við almenning. Ætti erindi þess að ná fram að ganga væri alvarlega vegið að grundvelli íslenskrar fjölmiðlunar og þeim gildum sem henni ber að starfa eftir.

Hér má sjá viðtal við Agnesi Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson um þetta mál í Silfri Egils um helgina.


Frábær ritdómur - móðurhjartað þrútið og heitt

Humanimal09 (Medium) Um helgina frumsýndi hópur ungra listamanna nýtt dansleikverk í Hafnarfjarðarleikhúsinu sem nefnist Húmanímal. Dóttir mín Saga var þátttakandi í þessu verki sem Páll Baldvinsson gefur hæstu einkunn í ritdómi sem birtist í Fréttablaðinu í dag.  Móðurhjartað sló ört og ótt við lestur ritdómsins eins og nærri má geta. Hann er svo frábær að ég stenst ekki freistinguna að birta hann hér:

Það er vissulega erfitt að draga sýninguna Húmanímal í dilka: stundum er hún hrein myndlist, stundum dramatískt samtal sem hverfist í tvídans, raddtilraun eða söngatriði, erótísk slagsmál, kyrrstæður sólódans án hreyfingar: hún er tilraunakennd hreyfing sem er bæði skopleg og sársaukafull, tvíræð en tilfinningaþrungin. Verkið er unnið í hópi en samt með leikstjórum, einfaldlega hugsað í rými með færanlegri dýpt tveggja veggbrota sem geta lifnað við á óvæntan og undurfagran máta.

Það var yndislega gaman að sjá verkið skríða fram, finna fjölbreytnina kveikja undrun og hrífast með í einfaldleika kyndugra hugmynda sem klæddust holdi og hreyfingu og stundum röddum. Þau hafa verið heppin krakkarnir sem standa að sýningunni að ná utanum svo óskyld konsept sem eru fyrst og fremst sjónræn og koma þeim í svo glæsilega heild. Þau eru misjafnlega á sig komin: Álfrún slíkt múltitalent að mann undrar það, Jörundur að þreifa sig inn á ný svið, Margrét nánast himnesk í sínum makalausa bakskúlptúr og víkur ekki undan erfiðum orðaleik undir lok verksins. Saga dýrslega líkamleg, Dóra tvíbent í ræðu sinni um hvatirnar og Friðgeir fáránlega þurr í erótískri útlistun á ertisvæðum kvenlíkama. Og allt er þetta borið fram af hispursleysi, taktskynjun og alvarlegri nálægð svo undrum sætti. Allt framkvæmt af fullnustu og slíkum krafti að aðdáunarvert var.

Víst gerir grunnhugmynd um liti og áferð búninga og leikmyndar mikið og hljóðheimurinn samsvarar fullkomlega tínslu hugmynda í atburðarásina.

Þetta var bara gaman og furðulegt og fallegt og maður ók glaður heim úr Firðinum. Það er á slíkum stundum að maður þakkar fyrir Leiklistarráð og það þrekfólk sem smíðar stórkostlega sýningu úr litlu. Og hina ungu og óreyndu leikstjóra sem binda pakkann saman að lokum.

Svo mörg voru þau orð.

Það er svolítið gaman að því að slá kjördæmapólitísku eignarhaldi á sýninguna. Það er nefnilega þannig að tveir frambjóðendur Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi eiga "börn" í þessari sýningu. Það erum við Ragnar Jörundsson sem skipar 6. sæti listans og er faðir Jörundar Ragnarssonar. 

Jebb ... og nú slær móðurhjartað - þrútið og heitt. InLove


Aðeins meira um 20% niðurfærsluleið

óbundin Mikið hefur verið skeggrætt um svokallaða 20% niðurfærsluleið sem kynnt var fyrir fáeinum vikum sem einföld lausn á skuldavanda fólksins í landinu. Hugmyndinni var strax tekið af velviljuðum áhuga allra þeirra sem láta sig hag almennings varða. Hún var skoðuð gaumgæfilega m.a. innan Samfylkingarinnar, enda vissulega þess virði að ígrunda vel allar lausnir sem boðnar eru - nógir eru nú erfiðleikar þjóðarinnar.

Seðlabanki Íslands gerði skýrslu um málið, byggða á gagnagrunni sem bankinn hefur yfir að ráða um skuldir og eignir landsmanna. Í skýrslunni er því haldið fram að kostnaður af 20% niðurfærslu allra skulda í landinu myndi lenda á ríkissjóði annarsvegar eða erlendum kröfuhöfum hinsvegar. Af skýrslunni má glöggt ráða að í þessu felist eignatilfærsla frá einstaklingum til fyrirtækja og að heildarkostnaðurinn við þetta muni verða 900 milljarðar króna, þar af 285 milljarðar vegna húsnæðisskulda eingöngu. Sú upphæð er 45% af heildarútgjöldum hins opinbera.

Skuldir ríkissjóðs sem áætlaðar eru 1100 milljarðar króna í lok þessa árs myndu því tvöfaldast við þetta.

Bent er á að flöt niðurfelling húsnæðisskulda myndi hafa ólík áhrif á mismunandi hópa. Þannig myndi aðeins helmingur umræddrar niðurfærslu nýtast þeim sem eru í alvarlegum vandræðum.

Magnús Þór Torfason doktorsnemi við Columbia Business School hefur skrifað mjög áhugaverða grein sem hann nefnir Að þykjast gefa þeim fátæku en gefa í raun þeim ríku sem ég hvet ykkur til þess að lesa. Þá hefur Jón Steinsson, hagfræðingur við Columbia háskóla skrifaði grein þar sem hann bendir á eignatilfærslu frá landsbyggð til höfuðborgar sem hlytist af þessari leið.

Það er athyglisvert að ýmsir Sjálfstæðismenn hafa talað á móti þessari leið. Ég bendi til dæmis á Pétur Blöndal og Elliða Vignisson bæjarstjóra í Eyjum.

Kjarni málsins er þó þessi: Ef hægt væri að sýna fram á að 20% niðurfærsluleið fæli í sér eitthvert réttlæti og raunverulega aðstoð við þá sem sárast þurfa hennar með, þá myndi ég heilshugar styðja hana. Fram á það hefur ekki verið sýnt. Þvert á mót bendir flest til þess að flöt niðurfærsla myndi fela í sér gífurlega eignatilfærslu frá einstaklingum til stórskuldugra fyrirtækja - við værum jafnvel að tala um mestu eignatilfærslu af því tagi sem um getur.

Niðurfærsla lána hjá þeim sem helst þurfa á því að halda er annað mál. Sé tekið mið af greiðslugetu fólks þannig að niðurfærslan nýtist þar sem hennar er helst þörf, þá horfir málið öðruvísi við.

Jöfnuður felst ekki endilega í flötum aðgerðum, heldur að hver og einn fái það sem hann þarfnast.


Eftirmáli við orðarimmu á Sprengisandi:

Úff! Ég lenti í svakalegri rimmu við Tryggva Þór Herbertsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson á  í Sprengisandinum á Bylgjunni í morgun. Ég er enn að jafna mig.

Þarlét ég falla orð um tengsl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við fyrirtækið Kögun - sem ég þarf að útskýra betur. Í atgangi umræðunnar tókst mér ekki að gera það sem skyldi, og ég vil síður láta orð mín standa óútskýrð þannig að þau hljómi sem dylgjur.

Það sem ég átti við með tengslum Sigmundar Davíðs er eftirfarandi:

Fyrirtækið Kögun var á sínum tíma í eigu fjölskyldu Sigmundar Davíðs. Faðir hans Gunnlaugur Sigmundsson var framkvæmdastjóri og stór eigandi þess. Þetta fyrirtæki hefur nú verið selt úr eigu fjölskyldunnar og ég skal ekkert um það segja hvernig þeim auðæfum hefur verið varið. Hins vegar var Kögun dæmi um fyrirtæki sem naut góðs af ríkulegum stjórnmálatengslum í formannstíð Steingríms Hermannssonar og síðar Halldórs Ásgrímssonar. Fyrirtækið sat einsamalt að þjónustu við ratsjárstöðvar NATÓ í kringum landið.

Það eru hagsmunatengsl af þessu tagi sem eru undirrót þeirrar tortryggni og úlfúðar sem ríkt hefur í samfélagi okkar í kjölfar fjármálahrunsins. Tengsl af þessu tagi eru undirrót þess einokunar og fákeppniumhverfis sem hefur komið okkur hvað mest í koll.

Af orðum mínum hefði e.t.v. mátt ráða að Sigmundur Davíð ætti hagsmuna að gæta varðandi Kögun í dag. Hann þvertekur fyrir það - ég trúi honum og mér þykir leitt ef ég hef varpað rýrð á hann persónulega. Ég bið hann einfaldlega velvirðingar á því, hafi svo verið.

Annars var atgangurinn í þættinum þvílíkur, að ég hef aldrei lent í öðru eins. Dónaskapur og yfirlæti þeirra félaga hleypti í mig illu blóði strax í upphafi. Þeir efuðust um að ég hefði kynnt mér það mál sem til umræðu var, drógu vitsmuni mína og annarra í efa, þ.á.m. þeirra sem unnu skýrslu fyrir Seðlabankann um kostnað af 20% niðurfærsluleiðinni.  Þær niðurstöður voru að þeirra mati öldungis ómarktækar enda unnar af "dularfullum" starfshópi sem  vissi ekki hvað hann var að gera. Shocking Svona var málflutningurinn.  

Af þessu lærði ég heilmikið og mun gæta mín á því að láta ekki svona hrokagikki kippa mér upp úr farinu framvegis.

Eftir situr sú staðreynd að 20% niðurfærsluleiðin fær ekki staðist sem raunveruleg lausn fyrir þá sem verst standa. Hún mun hinsvegar gagnast vel efnuðum stórskuldugum fyrirtækjum eins og skýrsla Seðlabankans sýnir.

 -------------

PS: Rétt í þessu fékk ég símtal frá Gunnlaugi Sigmundssyni, föður Sigmundar þar sem hann útskýrir eignarhald sitt í Kögun. Mér er ljúft og skylt að koma hans útskýringu á framfæri:

Fyrirtækið Kögun var stofnað árið 1988 en fór ekki af stað að marki fyrr en rúmu ári síðar. Gunnlaugur var framkvæmdastjóri þess í fyrstu og eignaðist síðar um 20%. Síðar fór eignarhlutdeild hans minnkandi og þegar fyrirtækið var selt í mars 2006 átti hann og fjölskylda hans um 2% í því. Hann segir að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei komið nálægt samningum fyrirtækisins vegna þjónustu við ratsjárstöðvarnar.

Því skal haldið til haga að sá samningur var gerður í forsætisráðherratíð Steingríms Hermannssonar, þegar Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra.

Við þetta er því að bæta að á heimasíðu tímaritsins Heimur.is kemur fram að upphaflega átti ríkið 2/3 hluta fyrirtækisins (Þróunarfélag Íslands) en 1/3 áttu íslensk hugbúnaðarfyrirtæki.  Árið 1993 seldi Þróunarfélag Íslands 20% í félaginu  - þá var Gunnlaugur  Sigmundsson framkvæmdastjóri beggja félaganna, sem vakti gagnrýni og umræður á sínum tíma (sjá Morgunblaðið 15. maí 1998).


Rysjótt tíð en líf í tuskum á Snæfellsjökli

fyristdagurÞað hefur verið vindasamt hér á Snæfellsjöklinum það sem af er vikunni. Í dag var hvassviðri með slydduéljum. Hundarnir létu það ekkert á sig fá - mannfólkið ekki heldur. Hér koma nokkrar myndir sem ég náði rétt áður en hleðslubatteríið dó á myndavélinni minni (að sjálfsögðu gleymdi ég hleðslutækinu heima, þannig að það verða ekki fleiri myndir birtar í bili).      

Skutull minn stendur sig vel það sem af er. Hann sýnir bæði áhuga og sjálfstæði og þykir almennt efnilegur. Vonandi tekur hann gott C-próf á föstudaginn.

 

Það er ekki slegið slöku við hér á þessu vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitarinnar:  AframDrengir (Medium)Klukkan níu á morgnana er haldið upp á jökul þar sem æfingar standa fram eftir degi. Við erum venjulega komin niður aftur milli kl. fimm og sex, síðdegis. Þá eru flokksfundir. Síðan kvöldmatur kl. sjö og að honum loknum taka við fyrirlestrar til kl. 10. Þá eru hundarnir viðraðir - síðan spjallað svolítið fyrir svefninn.

 

Annars er netsambandið afar lélegt hérna. Ég er með svona NOVA-internet tengil sem byggir á GSM sambandi og það er ekki upp á marga fiska. Þessi bloggfærsla er því ekki hrist fram úr erminni skal ég segja ykkur. Whistling

BumbuBanar (Medium)

 

 

 

 En þrátt fyrir rysjótt veðurfar er létt yfir mannskapnum eins og venjulega þegar við komum saman Björgunarhundasveitin. Hér sjáið þið tvo félaga vora taka léttan bumbubana. Annað þeirra hefur það sér til málsbóta að bera barn undir belti, en hitt ... hmmm  Wink 

 

Nú það er nóg að gera við að grafa snjóholur fyrir hundana aKrissiMatarHolu (Medium)ð leita - þær þarf svo að máta - og eins og sjá mér er æði misjafnt hversu rúmt er um menn.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband