Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Það þarf kjark til að vera jafnaðarmaður

DyrafjordurAgustAtlason Þó að stjórnvöld standi nú frammi fyrir fleiri og brýnni úrlausnarefnum en nokkru sinni fyrr er krafa dagsins einföld. Hún rúmast í einu orði: Siðbót. Þetta hógværa orð  er í reynd lausnarorðið fyrir íslenskt samfélag eins og staðan er í dag. Ef stjórnmálamenn, forsvarsmenn atvinnuveganna, þeir sem stjórna fjármála- og viðskiptalífinu, fjölmiðlamenn og almenningur bæru gæfu til nýrrar siðvæðingar í samfélaginu, þá væri eftirleikur bankahrunsins auðveldur. En siðbót kallar á kjark.

Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Þetta eru falleg orð, en þau hafa enga þýðingu nema hugur fylgi máli, og gjörðir orðum. Markmið jafnaðarstefnunnar er að hver maður fái notið grunngæða samfélagsins; að úthlutun gæðanna taki mið af þörfum hvers og eins.

Íslendingar hafa nú fengið óþyrmilega að kynnast því hvað gerist þegar þessi sjónarmið eru virt að vettugi. Þegar ábyrgðarleysið ræður ríkjum. Jöfnuður án ábyrgðar er óhugsandi. Þegar enginn tekur ábyrgð velferð annarra, þá er ekkert sem heitir jöfnuður. Þá ríkir græðgin ein.

Ójafnréttið í samfélaginu hefur birst okkur með ýmsum hætti. Það  birtist okkur sem aðstöðumunur landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það kristallast í óréttlátu kvótakerfi þar sem braskað er með auðlindir þjóðarinnar. Það blasir við í skefjalausri sérhagsmunagæslu á kostnað almannahagsmuna. Það kemur fram í ójöfnum lífskjörum og misskiptingu gæða, launamun kynjanna og þannig mætti lengi telja. Það speglast í spillingu, hugsanaleti og ákvarðanafælni. Ábyrgðarleysi leiðir af sér ójafnrétti.

Samfylkingin á það erindi við íslenska þjóð að þessu sinni að hefja jafnaðarhugsjónina til vegs og virðingar á ný.  Að standa fyrir endurreisn íslensks samfélags og siðbót í íslenskum stjórnmálum. Til þess þarf kjark.

  • Það þarf kjark til að breyta íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að af hljótist réttlát skipting þeirra auðæfa sem hafið geymir.
  • Það þarf kjark til þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga þar með inn á vettvag þjóðanna sem fullvalda, sjálfstætt ríki meðal jafningja.
  • Það þarf kjark til þess að breyta ártatuga gömlu framleiðslustjórnunarkerfi í landbúnaði, færa það til nútímahorfs og gera bændum kleift að njóta sérstöðu og sérhæfingar sem sjálfstæðir matvælaframleiðendur, svo dæmi sé tekið.
  • Það þarf kjark til þess að halda áfram uppbyggingu háskólastarfs og símenntunar; já, að veðja á menntun og mannrækt í þeim mótbyr sem framundan er.
  • Það þarf kjark til að leita sannleikans varðandi efnahagshrunið og kalla til ábyrgðar alla sem að því komu - jafnt stjórnmálamenn sem forsvarsmenn fjármálastofnana.

Síðast en ekki síst þarf kjark til að vera ábyrgur jafnaðarmaður.

 ---------------------

PS: Myndina með þessari færslu tók Ágúst G. Atlason í Önundarfirði


HB-Grandi ætti að skipta arðinum milli starfsfólksins

HBGrandi "Löglegt en siðlaust" sagði Vilmundur Gylfason einu sinni. Setningin ómaði í höfði mér þegar ég horfði á þetta viðtal við framkvæmdastjóra HB-Granda í Kastljósi í kvöld. Hann reyndi þar að bera í bætifláka fyrir þá ákvörðun eigenda fyrirtækisins að greiða sjálfum sér 180 mkr í arð frekar en að greiða starfsfólkinu 13.500 kr. umsamda launahækkun sem átti að koma til greiðslu 1. mars.  Þetta viðtal bætti ekki málstað HB-Granda.

Afstaða eigendanna - eins og hún var kynnt af talsmanni þeirra í þessu viðtali - er fyrir neðan allar hellur. Angry

Í venjulegu árferði væri það ekkert tiltökumál þó greiddur sé út "hóflegur" arður, eins og það er orðað af framkvæmdastjóranum. En þegar fólk hefur verið beðið um að falla frá umsömdum launahækkunum af tillitssemi við rekstrarstöðu fyrirtækisins þá er þetta undarleg ráðstöfun, svo ekki sé meira sagt. Hún er áreiðanlega ekki í anda þeirra sem stofnuðu fyrirtækin á sínum tíma (annarsvegar HB á Akranesi, hinsvegar Bæjarútgerðina, Ísbjörninn o.fl. í Reykjavík). Raunar held ég að enginn af þeirri kynslóð útgerðarmanna hefði lagt blessun sína yfir það að hýrudraga starfsfólkið til að geta skipt með sér arði.

En nú eru augljóslega aðrir tímar.

Ég skora á eigendur fyrirtækisins að gefa eftir þessar arðgreiðslur - svo "hóflegar" sem þær eru að þeirra eigin sögn - og láta þær renna til starfsmanna. Því þó þetta sé trúlega ekki "brot" á samningunum sem gerðar voru um frestun launahækkana - og þar með ekkert ólöglegt - þá er þetta auðvitað siðlaust. Það sjá allir.


Óbundin til kosninga?

óbundin Gamla viðkvæðið um að flokkar gangi  "að sjálfsögðu óbundnir til kosninga" er farið að heyrast enn á ný. Ég vil taka fram að ég er því algjörlega ósammála og sé ekkert "sjálfsagt" við það að ganga óbundin til kosninga.

Sérstaklega finnst mér að Samfylkingin eigi ekki að veifa þessu viðkvæði núna. Eftir allt sem gerst hefur undanfarna mánuði - og þann mikla trúnaðarbrest sem orðinn er milli þings og þjóðar - er það minnsta sem við frambjóðendur getum gert fyrir kjósendur í landinu að segja þeim hug okkar til stjórnarmynsturs eftir kosningar.

Ég vil meira að segja ganga lengra: Mér finnst að Samfylkingin og VG eigi að lýsa yfir vilja til áframhaldandi samstarfs og birta fyrir kosningar drög að málefnasamningi þessara tveggja flokka sem þau vilja vinna með eftir kosningar. Ég vil með öðrum orðum að fólk fái að vita hvað þessir flokkar hyggjast fyrir. Já, að fólk geti kosið um stjórnarmynstur. 

Venjan hefur verið sú að fólk á þess kost að kjósa flokka, en ekki ríkisstjórnir. Þess vegna veit fólk aldrei hvað það er að kjósa yfir sig. En þessi venja þarf ekki að vera neitt lögmál. Þetta er bara spurning um að vera heiðarlegur og hreinskiptinn gagnvart kjósendum.

Kallið mig barnalega - allt í lagi. En klækjapólitík er ekki það sem fólk hefur áhuga fyrir um þessar mundir. Almenningur vill heiðarleika og hreinar línur. Almenningur á rétt á því að vita hug flokkanna til stjórnarmynsturs eftir kosningar.

 


Úrslit prófkjöranna, spilaspár og prógrammið framundan

HolmavikProfkjor09 Nú er endurnýjun að eiga sér stað á framboðslistum stjórnmálaflokkanna að afstöðnum prófkjörum síðustu viku. Sjaldan ef nokkru sinni hafa landsmenn séð jafn miklar breytingar á öllum framboðslistum og nú. Þó er augljóst að fólk er að kjósa breytingarnar í bland við reynslu og þekkingu þeirra sem fyrir eru.

Nokkrir flottir hástökkvarar eru að koma inn hjá Samfylkingunni að þessu sinni. Það gladdi mig t.d. að sjá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Valgerði Bjarnadóttur og Skúla Helgason stökkva inn á listann í Reykjavík - nýtt fólk með reynslu. Þá var gaman að sjá Önnu Pálu Sverrisdóttur, foringja ungra jafnaðarmanna ná markverðum árangri. Smile Sé litið til landsbyggðarinnar þá er líka að verða allnokkur endurnýjun þar. Hér í Norðvesturkjördæminu eru þrír nýir einstaklingar að koma inn á listann í 2., 3. og 4. sæti á eftir Guðbjarti Hannessyni. Það eru auk mín, Arna Lára Jónsdóttir og Þórður Már Jónsson. 

spadispilin09Það er svolítið gaman að því að ég lagði spilastjörnu fyrir þau bæði á fundaferðalaginu okkar um daginn. Hjá Örnu Láru kom góður og markviss árangur. Hjá Þórði komu upp vonbrigði sem myndu breytast í sigur eða árangur.  Þessi mynd var tekin við það tækifæri. Nú er ljóst að hann mun flytjast upp í 4. sætið eftir brottgöngu Karls V. Matthíassonar. Wink

Í NA-kjördæmi varð endurnýjun með þeim Sigmundi Erni og Jónínu Rós í 2. og 3. sæti.

Hinir flokkarnir eru líka að fá inn nýtt fólk. Auðséð er að mörgum af þeim sem sátu á þingi síðasta kjörtímabil hefur verið refsað. Það er þó ekki alltaf í samræmi við hlutdeild þeirra að því sem gerðist, hefur mér fundist. En það er önnur saga.

En það eru spennandi tímar framundan - fundir og ferðalög hjá frambjóðendum. Sjálf verð ég á ferðinni í Skagafirði og Borgarfirði næstu tvær vikurnar - legg af stað á þriðjudag. Framundan eru líka kjördæmisþing og Landsfundur.

vetrarmynd07Og ekki má ég gleyma vetrarnámskeiði Björgunarhundasveitarinnar á Snæfellsjökli í byrjun apríl. Þangað verð ég að fara til þess að taka stigspróf á hundinn - annars er ég búin að missa af tækifærinu þetta árið.

Jebb ... það er allt að gerast. 


mbl.is Ásta Ragnheiður í 8. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver á að njóta vafans - starfsmaðurinn eða barnið?

skólabarn Þegar grunur leikur á að barn hafi þrisvar sinnum verið slegið af starfsmanni á leikskóla og rannsaka þarf málið - hver á þá að njóta vafans? Starfsmaðurinn eða barnið?

Í mínum huga er enginn vafi á því - með fullri virðingu fyrir réttindum starfsmannsins - að barnið á að njóta vafans. Það er ekki nóg að bjóða foreldrunum að flytja barnið úr sínu daglega umhverfi á annan leikskóla. Barnið á rétt á því að vera á sínum leikskóla, og líði því vel að öðru leyti, er ástæðulaust að flytja það annað. Barnið á rétt á öruggu umhverfi.

Þess eru dæmi úr öðrum starfsgreinum að starfsfólki er vísað tímabundið úr starfi meðan rannsókn á meintum brotum þess stendur yfir. Það fer að vísu eftir alvarleika málsins. En starfsmenn leikskóla verða líka að fá tvímælalaus skilaboð um að það er óásættanlegt að slá til barna. Ekkert foreldri á að sætta sig við slíka meðferð á barni sínu.


mbl.is Sló barn utan undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugardagsmorgunn á landsbyggðinni. Ég fylgist með veðurfréttum.

hridarvedurNepalIsFrost og fjúk utan við gluggann minn. Ég horfi út á úfinn fjörðinn hvar sjórinn þyrlast upp í gráa sveipi í hviðunum. Vindurinn gnauðar við mæninn og tekur í húsið. 

Í stofusófanum liggur bóndi minn með blaðið frá í gær. Hann er að hlusta á Rás-1 með öðru eyranu. Það er þæfingur og þungfært í Ísafjarðardjúpi- flestar heiðarnar ófærar, segir þulurinn.

Inni í herbergi steinsefur unglingurinn á heimilinu. Hann er kvefaður.

Ketilkannan brakar á eldavélinni og gefur mér til kynna að kaffið sé tilbúið. Við fætur mér liggur hundurinn, rór og áhyggjulaus.

Þetta er laugardagsmorgunn á landsbyggðinni. Við munum fylgjast með veðurfréttum í dag.


mbl.is Björgunarsveitir að störfum í vonskuveðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karl V. Matthíasson skiptir um flokk

KalliMatt Karl V. Matthíasson alþingismaður hefur sagt skilið við Samfylkinguna og gengið til liðs við Frjálslynda flokkinn eftir að hann hafnaði í 5. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar um síðustu helgi. Hann sóttist eftir 1. eða 2. sæti.

Í fréttatilkynningu segir Karl að skoðanir hans og hugsjónir um sjávarútvegsmál hafi ekki fengið hljómgrunn í Samfylkingunni og bendir hann á úrslit prófkjörsins sem staðfestingu þess.

Sárt þykir mér að sjá Karl halda þessu fram. Ég held nefnilega að hann viti betur. Þátttakendur prófkjörsins, bæði frambjóðendur og flokksmenn, vita líka betur.

Á þeim framboðsfundum sem haldnir voru í kjördæminu nú fyrir prófkjörið var varla um annað meira rætt en sjávarútvegsmálin.  Karl var að vísu ekki sjálfur viðstaddur alla fundina. En á þeim tóku velflestir frambjóðendur prófkjörsins afgerandi afstöðu í umræðunni. Var afstaða þeirra samhljóða þeim áherslum sem Karl kýs nú að láta sem hafi verið hans einkaáherslur. Þetta veit Karl.

En ég vil þakka Karli fyrir þann tíma sem hann starfaði og talaði sem Samfylkingarmaður á Alþingi - tímann sem hann var samverkamaður okkar félaga sinna í flokknum. Það hefði farið vel á því að sjá orðsendingu frá honum til flokksmanna áður en hann sendi út fréttatilkynninguna. En það verður hver að hafa sinn hátt á því hvernig hann kveður.

Ég óska honum velfarnaðar á nýjum slóðum.


mbl.is Karl V. til liðs við Frjálslynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð skrif um "Enron-verðmyndun" í íslenskum sjávarútvegi

fiskveiðarGetur verið  að dularfullar "verðhækkanir" fiskveiðiheimilda hafi átt uppruna sinn ofarlega í bankakerfinu  og viðskiptabankarnir hafi haft mikla og beina hagsmuni af því að lána útgerðarfyrirtækjum sem allra mest - til að styrkja rýrnandi lausafjárstöðu sína?

Þannig spyr Kristinn Pétursson í athyglisverðri bloggfærslu sem ég hvet ykkur til þess að lesa.

Voru útgerðarmenn hugsanlega blekktir til aukinnar lántöku? Sóttust viðskiptabankarnir eftir veði í aflaheimildum - hugsanlega til að skapa  sjálfum viðskiptabönkunum nýtt lausafé? ... 

... spyr hann ennfremur.

Það sem Kristinn gerir hér að umtalsefni er það sem hann nefnir "Enron verðmyndun" í sjávarútveginum.  Enron hafði áhrif á raforkuverð í USA með skipulögðum raforkuskorti. Kristinn leiðir rök að því að sama hafi átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi með skipulögðum hætti. Verðmyndunin hafi byggt á samráði þar sem framkallaður hafi verið skortur á veiðiheimildum sem aftur hafi verið nýttur til óraunhæfrar verðhækkunar aflaheimilda.

Hann styður mál sitt vel og með athyglisverðum gögnum. Málið - skoðað í þessu ljósi - er sláandi. Svo virðist sem íslenskur sjávarútvegur sé undirlagður sömu  meinsemdum og urðu íslensku fjármálakerfi að falli.

Málið þarfnast rannsóknar.

 


Frestun kosninga vegna tafa í þinginu?

thingsalur-eyjan Það kæmi mér ekki á óvart ef kosningunum yrði frestað. Fyrir liggja það mörg óafgreidd mál í þinginu að ekki er forsvaranlegt að senda þingmenn heim og hleypa öllu upp í kosningabaráttu. Þá er heldur ekki ásættanlegt að láta Sjálfstæðismenn komast upp með það að tefja  afgreiðslu mála endalaust með málþófi og allskyns fíflagangi. 

Þjóðin er á vonarvöl og almenningur hefur ekki þolinmæði eða löngun til þess að fylgjast með málfundaæfingum misviturra þingmanna sem finna sér viðspyrnu í  fundatæknilegu þrefi.

Framganga Sjálfstæðismanna að undanförnu hefur verið með ólíkindum. Þeir hafa hlaupið í ræðustól hver á fætur öðrum með  andsvör og athugasemdum hver við annan. Þeir hafa haldið þinginu í fundatæknilegri herkví. Það er svo augljóst hvað þeim gengur til. Og það er svo sorglegt að sjá þetta sama fólk sem talaði hvað mest um ábyrgð og öll þau verk sem vinna þyrfti fyrir aðeins fáeinum vikum. Þá var það í ráðherrastöðum. Nú er það komið í stjórnarandstöðu og augljóslega búið að skipta um disk í tækinu.

Þetta er vandi íslenskra stjórnmála í hnotskurn. Það er einmitt þetta sem fólk er búið að fá svo gjörsamlega nóg af. Angry

 


mbl.is Þingrof óákveðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar bjarga þarf verðmætum er lotuvinna það sem gildir

Ég tek undir með Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að Alþingi á að starfa í sumar. Eins og sakir standa eru svo mörg og veigamikil verkefni óunnin í endurreisninni eftir bankahrunið að það verður að taka á þeim hratt og vel. Alþingismenn ættu að gefa tíma sinn að þessu sinni, vinna skipulega og af hugmóði. Þingleyfinu má fresta. Það mætti líka stytta það.

Við þekkjum það Vestfirðingar - já og þeir sem búa í sjávarbyggðum - hvernig það er að vinna í lotum. Það er inngróið í okkar atvinnumenningu að leggja nótt við dag þegar bjarga þarf verðmætum.

Nú liggur þjóðarbúið sjálft undir og þá dugir ekki að fara í sumarfrí.


mbl.is Steinunn Valdís: Vill að þingið starfi í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband