Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
Ingibjörg Sólrún og hennar framlag
9.3.2009 | 19:33
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var í gær. Dagurinn færði íslenskum konum góða uppskeru í prófkjörum helgarinnar. Það skyggði þó á gleðina að þann sama dag ákvað einn atkvæðamesti kvenskörungur í íslenskum stjórnmálum, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að kveðja þann vettvang um óákveðinn tíma.
Fáir stjórnmálamenn - ef nokkur - hafa lagt meira af mörkum til íslenskrar kvennabaráttu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Fyrir það verðskuldar hún þakklæti kvenna um land allt. Sem borgarstjóri kom hún miklum umbótum til leiðar í stjórnkerfi borgarinnar. Þær breytingar leiddu til nútímalegri stjórnsýslu með minni launamun milli kynjanna svo dæmi sé tekið. Hún leiddi málefni barnafólks í borginni til mun betri vegar með leikskólabyltingunni sem svo hefur verið nefnd og einsetningu skólanna.
Sem stjórnmálaforingi hefur Ingibjörg Sólrún sýnt fádæma dugnað og fórnfýsi.
Fyrr í dag samþykkti stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar ályktun þar sem Ingibjörgu Sólrúnu er þakkað hennar merka framlag til íslenskra stjórnmála og samfélagsumbóta.
Hún er vel að þeim þökkum komin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Það hafðist!
8.3.2009 | 18:41
Þá er niðurstaða prófkjörsins í NV-kjördæmi ljós. Ég fékk 2. sætið eins ég stefndi að og ég er alsæl. Guðbjartur fékk sannfærandi kosningu í fyrsta sætið, hann er vel að því kominn. Þriðja sætið hreppti svo Arna Lára Jónsdóttir, samverkakona mín hér á Ísafirði.
Ég er ánægð með þennan lista - mér sýnist hann vera mjög sterkur og ekki óraunhæft að ná inn þriðja manni fyrir Samfylkinguna í NV í þessu kosningum.
Ég vil þakka öllum sem kusu mig fyrir traustið. Um leið þakka ég meðframbjóðendum mínum góða viðkynningu og skemmtilega samveru á fundaferðalagi okkar um kjördæmið í aðdraganda prófkjörsins. Þetta er sigurstranlegur listi sem ég vona að muni fjölga þingmönnum Samfylkingarinnar í kjördæminu.
Guðbjartur efstur - Ólína í 2. sæti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spennan eykst: Prófkjörinu lýkur í dag og hér eru leiðbeiningar :-)
8.3.2009 | 09:52
Í dag er 8. mars: Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Vonandi mun þessi dagur færa okkur konum drjúga uppskeru - það væri vissulega gaman. Nú er spennan í hámarki í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi. Rafrænni kosningu lýkur kl. 16 og þá kemur í ljós hverjir hafa haft erindi sem erfiði í baráttuna.
Ég hef fengið allmargar fyrirspurnir frá kjósendum varðandi rafkosninguna. Þeir sem ekki hafa heimabanka verða að mæta hjá næsta umboðsmanni og fá afhent lykilorð sem þeir kvitta fyrir. Þeir geta svo valið hvort þeir kjósa hjá umboðsmanni eða taka lykilorðið heim og kjósa í eigin tölvu.
Hér er skrá yfir umboðsmenn í kjördæminu ásamt símanúmerum. Á Ísafirði er umboðsmaðurinn Benedikt Bjarnason og hann verður til staðar í kosningamiðstöð okkar í Langa Manga, s. 825-7808.
Ég veit að sumir hafa lent í baksi með lykilorðið í heimabankanum og hér eru leiðbeiningar um það. Athugið að lykilorðið kemur ekki í formi skilaboða í heimabankann heldur þarf að fara í rafræn skjöl (t.d. hjá Kaupþingi) eða netyfirlit (t.d. í Íslandsbanka).
Ég hef að undanförnu bloggað um mín helstu áherslumál, til dæmis hér og hér.
Svo sjáum við hvað setur. Nú er frost og fjúk hérna á Ísafirði, þannig að margir eru sjálfsagt fegnir því að geta bara kosið í rólegheitunum í eigin tölvu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Prófkjörið stendur yfir!
7.3.2009 | 10:57
Prófkjör Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi hófst með rafrænni kosningu í gær og stendur til kl. 16 á sunnudag. Allar nánari upplýsingar eru á kosningasíðu kjördæmisins http://www.xsnv.blog.is/ eða á heimasíðu Samfylkingarinnar, http://www.samfylking.is/
Ég gef ótrauð kost á mér í annað tveggja forystusæta flokksins.
Mín helstu baráttumál eru þessi:
- Ég hef ríkan skilning á hlutskipti fjölskyldna og vil beita mér í þeirra þágu.
- Ég tel brýnt að innleiða lýðræðisumbætur og stjórnlagaþing
- Ég vil ábyrga stjórnsýslu svo stofnanir fái sinnt lögbundnu hlutverki án inngripa stjórnmála- eða hagsmunaafla.
- Hlut landsbyggðar gagnvart höfuðborginni þarf að rétta með fjölbreyttum menntunarkostum, bættum samgöngum og fjarskiptatækni
- Auðlindir lands og sjávar eiga að vera þjóðareign en ekki markaðsvara fyrir útvalda.
- Íslendingar eiga að hafa samstarf og vera í samfélagi við aðrar þjóðir
- Íslenskan landbúnað þarf að frelsa undan áratugagömlu miðstýrðu framleiðslustjórnunarkerfi.
- Auka þarf möguleika bænda til þess að sinna sjálfstæðri matvælaframleiðslu og tengja hana ferðaþjónustu.
- Brýnast tel ég þó að verja lífskjör almennings á þeim tímum sem við nú lifum. Ég vil að byrðarnar verði lagðar á breiðustu bökin en hinum hlíft.
Velferðarsjónarmið og jafnaðarstefna eru aldrei mikilvægari en á krepputímum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.3.2009 kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Óréttlætið gagnvart landsbyggðinni
5.3.2009 | 11:45
Ég finn sárt til þess - þar sem ég hef búið á landsbyggðinni undanfarin átta ár - hversu mjög hefur hallað á hlut norðvestursvæðisins þar sem hagvöxtur hefur verið neikvæður og þungt fyrir fæti í svo mörgum skilningi.
Eins og öðrum íbúum svæðisins rennur mér til rifja sá aðstöðumunur sem er á milli þeirra sem búa á suðvesturhorninu og hinna sem búa úti á landi.
Ráðherraræðið í okkar litla landi hefur ekki aðeins grafið undan sjálfstæði Alþingis. Völd og miðstýring ráðuneyta hafa líka grafið undan sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Það er því ekki nóg með að gjá hafi myndast milli þings og þjóðar - gjáin er líka djúp milli höfuðborgar og landsbyggðar.
Meðal þess sem hefur hamlað vexti og viðgangi byggðanna á Vestfjörðum eru samgöngurnar. Þar þarf að gera stórátak. Þá er ég ekki bara að tala um vegina, sem eru fjarri því að vera viðunandi. Ég er líka að tala um flugvelli og hafnaraðstöðu sem atvinnulífið þarf svo mjög á að halda vegna aðfanga og vöruflutninga.
Háhraðatengingar og önnur fjarskipti þarf líka að stórbæta svo íbúar svæðisins geti vandræðalaust nýtt sér tækni og fjölbreytta menntunarkosti. Að ég tali nú ekki um raforkuflutninga sem vitanlega eru grunnforsenda allrar þjónustu.
Þetta sem nú er nefnt eru sjálfsagðir hlutir í nánast öllum byggðum landsins - nokkuð sem ekkert samfélag getur verið án.
Fari svo að Samfylkingin verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn mun það verða hlutskipti flokksins að koma að endurreisn samfélagsins á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Gleymum því ekki að jafnrétti snýst ekki bara um aðstöðumun einstaklinga heldur líka landshluta og svæða. Eins og málum er háttað njóta íbúar Vestfjarða ekki jafnréttis á við íbúa annarra landshluta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hvernig er þá hin "harða" frjálshyggja?
3.3.2009 | 13:40
Bjarni Benediktsson formannskandídat í Sjálfstæðisflokknum hafnar því að hörð frjálshyggja hafi ríkt í landinu. Einmitt.
Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja sem réði krosseignatengslum og taumlausri einkahlutafélagavæðingu utan um fjárfestingar og hlutabréfakaup sem höfðu veð í sjálfum sér - hvað var það þá?
Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja í bland við sérhagsmunastefnu sem réði ferðinni við hina svokölluðu "sölu" bankanna (sem var auðvitað ekkert annað gjafaúthlutun), hvað var það þá?
Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja sem stjórnaði útrás íslenskra fjármálastofnana á erlendum vettvangi - hvað var það þá?
Ef það var ekki "hörð" frjálshyggja og sérhagsmunagæsla sem réði ferðinni þegar hið frjálsa framsal fiskveiðiheimilda varð að veruleika með þeim afleiðingum að sjávarbyggðir landsins voru sviptar náttúrurétti sínum til viðurværis af fiskveiðum og hafa margar ekki borið sitt barr síðan - hvað var það þá?
Ef þetta sem nú er nefnt var hin mildari útgáfu frjálshyggjunnar, Guð hjálpi okkur þá ef Bjarni Benediktsson og hans skoðanasystkin komast einhvern tíma til valda.
Hér var ekki hörð frjálshyggja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nú reynir á grunngildin
2.3.2009 | 14:14
Einn þeirra sem steig á skipsfjöl og sigldi mót óráðinni framtíð var skagfirskur, piltur, Stefán Guðmundur Guðmundsson, síðar þekktur sem Stephan G. Stephansson, Klettafjallaskáldið sem síðar orti:
Þitt er menntað afl og önd
eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd
og hjartað sanna og góða.
Í þessum fjórum línum birtast þau grunngildi sem kynslóðir Íslendinga hafa tekið sér til fyrirmyndar öld fram af öld, allar götur þar til útrásin hófst og hitasótt frjálshyggjunnar náði að smita og gegnsýra allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk í október síðastliðnum rann það upp fyrir okkur að það var ekki aðeins fjárhagur þjóðarinnar sem hafði beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.
Um þessar mundir er dauft yfir íslenskum byggðum og ,,hnípin þjóð í vanda" líkt og þegar skagfirskur piltur steig á skipsfjöl og stefndi í vestur fyrir 140 árum. Hann hafði sín grunngildi á hreinu. Þau gildi hafa beðið alvarlega hnekki meðal núlifandi kynslóða.
Það er því núna sem reynir á íslenska jafnaðarmenn.
----
Myndin hér fyrir ofan er af sólsetri í Skagafirði - ég fékk hana á heimasíðu Ungmennafélags Skagafjarðar. Höfundar er ekki getið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)