Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Undirskriftarsöfnun um nýtt lýðveldi byrjar vel. Verra með heilsufar forystumanna.

skjaldamerki Vefsíðan www.nyttlydveldi.is fer vel af stað - og þó með brösum. Umferðin á síðunni var svo mikil í gær að hún lagðist hvað eftir annað á hliðina, og aftur fram eftir degi í dag. En nú er búið að koma þessu í lag, vonandi. Og rétt áðan voru komnar ríflega 1800 undirskriftir frá því kl. 15:00 í gær. 

Það er afar leitt að heyra um heilsubrest Geirs H. Haarde. Ég vona innilega að hann nái sér af þessum veikindum og óska honum langra lífdaga.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar að andlegt álag og mikil, langvarandi neikvæðni í umhverfinu, skili sér á endanum inn í líkama okkar með tilheyrandi heilsukvillum. Ég er því ekki beint hissa á þessum fréttum. Satt að segja hefði ég eiginlega orðið meira hissa ef ekkert hefði látið undan.

Nú er svo komið að báðir forystumenn ríkisstjórnarinnar glíma við alvarlegan heilsubrest. Það segir sitt um það hversu mikil áraunin hefur verið. Hún hefur verið ómennskt á köflum. Og varla er það tilviljun að tveir fyrrverandi forystumenn í íslenskum stjórnmálum, þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, hafa einnig mátt kljást við illkynja mein. Ekki eru mörg ár síðan Ingibjörg Pálmadóttir, þáverandi heilbrigðisráðherra hneig niður í beinni útsendingu þegar allt ætlaði um koll að keyra í samfélaginu vegna ákvarðana í heilbrigðismálum, ef ég man rétt.

Það er augljóslega ekki tekið út með sældinni að komast til áhrifa í íslenskum stjórnmálum.


Nýtt lýðveldi: Undirskriftasöfnunin er hafin!

Undirskriftasöfnunin til stuðnings utanþingsstjórn og boðun stjórnlagaþings er hafin á vefsíðunni Nýtt lýðveldi. Nú vona ég að almennignur taki við sér, fari inn á vefslóðina http://www.nyttlydveldi.is/ og skrifi undir áskorun okkar til forseta Íslands og Alþingis.

Að þessari undirskriftarsöfnun stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í þjóðfélaginu Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við; gilda á borð við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð. Við viljum efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsin. Í því skyni viljum við mynda þverpólitíska breiðfylkingu um þau markmið sem koma fram í áskoruninni til forseta og Alþingis. Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks.

Hópurinn er óháður öllum stjórnmálaframboðum og hagsmunaöflum.

 

Áskorun Íslendinga til forseta lýðveldisins og Alþingis Íslendinga

 

Við undirritaðir Íslendingar skorum á forseta Íslands og Alþingi að hlutast til um skipun tímabundinnar utanþingsstjórnar sem fari með framkvæmdavald forseta á grundvelli 15. og 24. greina stjórnarskrár lýðveldisins Íslands í samræmi við stjórnskipan landsins.

Jafnframt skorum við á Alþingi að samþykkja stjórnskipunarlög um boðun til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar. Forseti Íslands boði til þingsins fulltrúa sem kosnir verði ásamt varafulltrúa fyrir hvern þeirra í almennum kosningum sem haldnar skulu innan tveggja mánaða frá síðari samþykkt frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Kjörgengi til stjórnlagaþings hafi allir sem uppfylla kjörgengisskilyrði 34. gr. stjórnarskrárinnar nema forseti Íslands, alþingismenn og ráðherrar. Í kosningum til stjórnlagaþings verði allt landið eitt kjördæmi.

Stjórnlagaþing semji nýja stjórnarskrá þar sem lagður verði grunnur að nýju lýðveldi með virku og endurnýjuðu lýðræði. Í því felst m.a.

  • endurskoðun á kosningareglum til Alþingis og kjördæmaskipan
  • skýr aðgreining milli framkvæmdavalds, löggjafavalds og dómstóla.

Að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána verði þing rofið og efnt til nýrra alþingiskosninga á grundvelli hennar.

Undirskrift hér.

 

Ofbeldismenn eru ekki mótmælendur

Austurvöllur2008VilhelmGunnarsson Satt að segja efast ég um að þetta fólk sem þarna var að kljást við lögregluna geti kallast mótmælendur. Menn sem taka upp steinhellur og keyra þær ofan í höfuð á lögreglumönnum sem liggja meðvitunarlausir eftir eru ekki mótmælendur. Þeir eru réttir og sléttir ofbeldismenn. Angry 

Ég leyfi mér hér að tengja á bloggærslu Heiðu, en hún er ein þeirra sem hefur verið virk í friðsömum og táknrænum mótmælum að undanförnu. Hún bloggar svona um atburði næturinnar. Ég hvet ykkur til að kíkja á þetta ... og líka þetta myndskeið af atburðum næturinnar.

Annars er ég farin að dauðvorkenna lögreglumönnunum sem standa vörð um Alþingishúsið og sjá ekki út um glerhjálmana fyrir eggjakasti, súrmjólk, hráka og fleiru. Þeir eru margir hverjir ungir menn með ungar fjölskyldur, standa í húsnæðiskaupum eða húsbyggingum og svona. Þeir hafa vafalaust tekið myntkörfulán, keypt hlutabréf og reynt að spara eins og við hin og tapað því svo í bankahruninu, eins og við hin. Ofan á það áfall (því þessir menn eru jú líka þjóðin) þurfa þeir svo að standa augliti til auglitis við reiðan almenning og taka á sig svívirðingar og áverka fyrir eitthvað sem þeir bera enga ábyrgð á.

Ég sárkenni í brjóst um þá. Verð að segja það alveg eins og er.

 

----

Myndina hér fyrir ofan fékk ég á visir.is - hana tók Vilhelm Gunnarsson


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er komið að því - undirskriftarsöfnun og áskorun á stjórnvöld!

faninn Á morgun verður formlega opnuð ný vefsíða www.nyttlydveldi.is þar sem Íslendingum gefst kostur á skora á Alþingi og forseta um að mynduð verði utanþingsstjórn og boðað til stjórnlagaþings - nýs þjóðfundar Íslendinga sem hafi það hlutverk að semja nýja stjórnarskrá og leggja þar með grunn að stofnun nýs lýðveldis.  Í hinni nýju stjórnarskrá verði mörkuð skörp skil milli löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavalds og lagðar línur fyrir gagngera endurskoðun á kosningareglum til Alþingis.

Að áskoruninni stendur hópur Íslendinga sem telur brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í samfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum samfélagsins.

Við höfum boðað blaðamannafund í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík síðdegis á morgun, þar sem nánari grein verður gerð fyrir þessu framtaki. Svo skemmtilega vill til að fundurinn fer fram í sal sem nefnist Alþingi.

Margir góðir og vel metnir Íslendingar hafa lagt til  ráðgjöf og aðstoð við undirbúning þessa framtaks, en á blaðamannafundinum verða auk mín Njörður P. Njarðvík, Tryggvi Gíslason, Birgir Björgvinsson og hugsanlega fleiri.

Segi nánar frá þessu þegar síðan opnar formlega á morgun. Smile

Nú er allt að gerast.

 

 


Hvað skal til bragðs?

Hvað á að taka til bragðs þegar Alþingi er óstarfhæft vegna ólgu og reiði í samfélaginu? Hvað geta stjórnvöld gert til að skapa frið og sátt um þau verk sem vinna þarf?

Jú, ríkisstjórnin gæti beðist lausnar og komið þannig til móts við þá kröfu sem nú ómar hvarvetna. Þar með myndi ríkisstjórnin sýna lit á því að skapa frið í samfélaginu og þar með forsendur fyrir nýju upphafi.

Alþingi Íslendinga gæti hlutast til um það að boðað yrði til stjórnlagaþings svo unnt verði að semja nýja stjórnarskrá og byggja á henni nýtt (og vonandi betra) lýðveldi.

Það mætti breyta kosningalöggjöfinni og skerpa skilin milli framkvæmdavalds, löggjafar- og dómsvalds. 

Til að endurvekja traust á starfi stjórnmálaflokka gætu núverandi formenn flokkanna stigið til hliðar allir sem einn og hleypi nýju fólki að.

 Það er ýmislegt hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi. 


mbl.is Fundað með flokksformönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afneitun og veruleikafirring

Afneitun og veruleikafirring - það eru einu orðin sem mér koma til hugar þegar ég les þessi ummæli menntamálaráðherra. Skilur konan ekki að fólk er ekki að bíða eftir einhverjum "afdrifaríkum ákvörðunum" frá þeim ráðamönnum sem nú sitja. Fólkið vill að ríkisstjórnin víki.

Hversu lengi ætla ríkisstjórnin að berja höfðinu við steininn? Er hún að bíða eftir að mótmælin þróist í blóðuga byltingu?

Mér sýnist á öllu að það sé einmitt það sem er að gerast núna.


mbl.is Mótmæli mega ekki snúast upp í andhverfu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heit mitt og játning

KubburOddurJonsson Ykkur að segja þá hef ég fengið mig svo fullsadda af reiði og meðvirkni í samfélaginu að ég segi hvoru tveggja hér með stríð á hendur. Og þá er ég bæði að tala um meðvirknina í sjórnarsamstarfinu og innan stjórnmálaflokkanna og líka þá meðvirkni sem verður æ meira áberandi í tengslum við mótmælin í landinu og andstöðu við stjórnvöld.

Ég er staðráðnari en nokkru sinni í að þegja hvorki yfir því sem miður fer né heldur hinu sem vel er gert, hvernig svo sem það kann að koma niður á flokkstengslum, mannvirðingum eða hagsmunum.  Ég fylgi engu og engum að máli nema sannfæringu minni og samvisku. Mér er ljóst að fyrir vikið verð ég kannski sökuð um svik við einhvern málstað og á mig ráðist fyrir að fylgja ekki fjöldanum. Það verður þá að hafa það.  

Ég tek mér það frelsi sem mér er heitið í stjórnarskrá lýðveldisins að tjá skoðun mína.

Að þessu sögðu vil ég létta fyrsta steininum af brjósti mínu.

1) Eftir að hafa horft á borgarfundurinn sem haldinn var s.l. mánudag átta ég mig á því að það reiðin í samfélaginu er að verða að einhverskonar hópsefjun. Það er komin "við " og "þið" stemning - og sú stemning er við það að ganga of langt. Hún getur auðveldlega breyst í sjálfsréttlætingu þeirra sem telja sig vera knúna áfram af "réttlátri reiði". Hættan er sú að fólk sem er í hjarta sínu reitt og vill ríkisstjórnina burt, telji sig skyldugt til að taka undir með öllum þeim sem tjá reiði sína, án tillits til þess hvernig það er gert: Að fjöldinn fari að sætta sig við fleira en gott þykir í nafni samstöðunnar. Sú tilhneiging var áberandi á borgarafundinum séð frá mínum sjónarhóli.

2) Ég styð ekki þá ríkisstjórn sem nú situr enda kaus ég Samfylkinguna við síðustu kosningar, ekki ríkisstjórnina. Ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin víki, sett verði utanþingsstjórn og síðan boðað til stjórnlagaþings.

Ég held að ríkisstjórnin eigi engan annan kost, ef ekki á að verða upplausn í landinu, en að stíga til hliðar og stuðla að því að hér verði mynduð starfhæf utanþingsstjórn - í skjóli og með hlutleysi Alþingis. Þetta gæti verið einhverskonar þjóðstjórn. En ráðamenn verða að átta sig á því trúnaðarrofi sem orðið er milli þeirra og almennings í landinu. Það rof verður ekki bætt með því að þumbast áfram og streitast við að sitja.

 

----------

Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson. Hún er ef Kubbanum í SKutulsfirði, tekin yfir Pollinn á Ísafirði.


Framsókn gamla hressist aðeins

Ég sé ekki betur en Framsóknarflokkurinn sé bærilega staddur með mannval ef marka má þetta formannskjör. Sigmundur og Höskuldur eru báðir afar frambærilegir menn og hin nýja forysta flokksins hefur yfir sér ferskt og trúverðugt yfirbragð. Þó byrjunin hafi verið svolítið brösuleg vil ég óska Sigmundi Davíð til hamingju með kosninguna. Það er ánægjulegt að sjá nýtt fólk með heilbrigðar áherslur kveða sér hljóðs á stjórnmálasviðinu núna.

En ég stenst ekki mátið að skella hér inn tveimur góðum ferskeytlum sem urðu til á Leirvefnum í kvöld. Þessi er eftir Pétur Stefánsson:

Í Framsókn er bæði fjör og drama,
-fremstur var Höski í sigurliði
og stóð í ljósi frægðar og frama
í fimm mínútur uppi á sviði.

Og hér er önnur eftir Davíð Hjámar Haraldsson:

Lokatölur beint úr flokksins bók
baksar við að lesa þegar húmar;
Haukur gaf og Haukur síðan tók
af Höska eftir fimm mínútur rúmar.

Já -  það á ekki af þeim að ganga framsóknarmönnum.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og nýhreinsaður hundur

yoga_2 Jæja, ég er eins og nýhreinsaður hundur eftir jóganámskeið helgarinnar. Mér skilst að nýhreinsuðum hundum líði ekkert sérlega vel . Mér er hálf ómótt eftir alla sálarhreinsunina, svo hún hlýtur að hafa verið rækileg. Wink

Annars var þetta mjög jákvæð og endurnærandi upplifun. Fimmtán klukkustundir á þremur dögum, þar af fimm jógatímar. Ég er búin að fara í gegnum sólarhyllinguna, kóbruna, ungbarnið, fiskinn og hvað þetta heitir alltsaman - að ekki sé minnst á slökunina. Er orðin svo slök að ég hangi varla uppi.

En ég finn líka að þetta hefur gert mér mjög gott. Og nú er ætlunin að halda ótrauð áfram á sömu braut.

Friður. Smile


Gott!

Gott hjá íslenska utanríkisráðuneytinu að afþakka bara með kurt og pí komu ísraelska menntamálaráðherrans eins og á stendur. Þeir óskuðu ekki einu sinni eftir að fá að koma heldur tilkynntu komu sína. Það sýnir nú kannski hugarþelið hjá þessari hernaðarþjóð sem lætur sprengjum rigna yfir saklausa borgarar til þess að uppræta fámennan hóp uppreisnarmanna sem sumir vilja kalla hryðjuverkamenn.

Sæju menn það gerast í New York til dæmis að Manhattan yrði sprengd í loft upp fyrir það að hryðjuverkamaður eða skæruliði (misjafnt hvernig menn vilja skilgreina þessa Hamas liða) hefði komið sér þar fyrir? Varla.

Ísraelar verða að fá að finna andúð siðaðra þjóða á framferði þeirra. Það er það minnsta sem við getum gert.

Fyrr í vikunni sendi Amnesty International út form að áskorunarbréfi til forseta Ísraels vegna mannfallsins og aðstæðnanna á Gaza. Bréfið má einnig finna á heimasíðu samtakanna (hér). Ég vona að sem flestir finni sig knúna til að prenta það út, undirrita og senda.


mbl.is Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband