Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Borg fyrir fólk - ekki bíla

Austurvöllur Frábært að loka Pósthússtrætinu vegna veðurblíðu. Það var einmitt markmiðið okkar borgarfulltrúa Nýs vettvangs á sínum tíma - þegar við lögðum til að göturnar umhverfis Austurvöll yrðu allar gerðar að göngugötum en Austurstrætið (sem þá var göngugata) yrði opnað fyrir bílaumferð. Í Austurstræti er alltaf skuggi - Austurvöllur er hinsvegar sólríkur allan hringinn.

Þetta uppátæki okkar varð til þess að Thorvaldsenstræti og litlu götunni sem ég man ekki hvað heitir en liggur framan við Café París var lokað fyrir bílaumferð. Fljótlega fylltist sú gata af borðum og stólum á góðviðrisdögum, og nú held ég að allir séu sammála um að þetta hafi verið góð tilhögun. Enginn saknar skuggasundsins í Austurstræti sem göngugötu - en allir yrðu miður sín ef göturnar tvær við Austurvöll sem nú eru lokaðar yrðu opnaðar á ný.

Það er frábært að nú skuli Pósthússtrætinu lokað til að veita fótgangandi fólki svigrúm í veðurblíðunni. Mín vegna mætti ganga alla leið og loka Kirkjustrætinu svo völlurinn allur væri bara undirlagður af áhyggjulausum vegfarendum með börnin sín á blíðviðrisdegi.

Og nú langar mig til Reykjavíkur að sleikja sólina FootinMouth


mbl.is Pósthússtræti lokað vegna góðviðris
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þoka og fréttaþurrð

ArnarfjordurAgustAtlason Það er þoka í Skutulsfirðinum núna og stafalogn. Maður finnur samt fyrir sólinni einhversstaðar fyrir ofan - hún vefur birtu sína í þokumistrið, gerir það hlýrra. Kyrrð og værð yfir öllu. Hálfsofandi fuglar líða einn og einn um hafflötinn og skilja eftir sig V-laga rák.

Í morgun átti ég MSN-fund með mínu fólki á Skutli.is, líkt og alla aðra virka morgna. Þetta eru svona fréttafundir þar sem við ræðum atburði líðandi stundar og ákveðum hvað verður sett inn á vefsíðuna þann daginn. Nú brá svo við að það er ekkert í fréttum. Bara þoka.

Jamm, það koma svona dagar. Svo koma ráð. Wink

 Eigið góðan dag í dag.


Fjöldaaftökur yfirvofandi í Afganistan

 Íslandsdeild Amnesty International hefur sent út beiðni til félagsmanna að bregðast við vegna fyrirhugaðrar fjöldaaftöku afgangskra stjórnvalda á 100 ónafngreindum einstaklingum, en Alþjóðasamtökin sendu út skyndiaðgerðabeiðni í síðustu viku.

Hæstiréttur Afganistan staðfesti þann 16 apríl síðastliðinn dauðadóma yfir um 100 ónafngreindum einstaklingum sem dæmdir voru á lægri dómstigum fyrir glæpi á borð við morð, nauðganir, mannrán og vopnuð rán. Amnesty International óttast að fjöldaaftaka á einstaklingunum geti verið gerð hvenær sem er. Svipuð fjöldaaftaka var gerð í október 2007.

Nöfn hinna ákærðu hafa ekki verið gefin upp né hvar fangarnir séu í haldi. Samtökin hafa góðar heimildir fyrir því að réttarhöld yfir að minnsta kosti sumum einstaklingunum hafi alls ekki verið í samræmi við alþjóðleg viðmið um sanngjarna málsmeðferð. Einstaklingarnir fengu til að mynda nauman tíma til að undirbúa málsvörn sína, mikilvæg sönnunargögn fengu ekki að koma fram og vitnum var neitað að bera vitni.

Amnesty International hefur áður lýst yfir áhyggjum sínum yfir vanhæfni dómsyfirvalda í Afganistan til að halda uppi dómskerfi sem uppfyllir alþjóðlegar kröfur á borð við þær sem alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi kveður á um.

Hér er hlekkur á fyrirframskrifað bréf til afganskra stjórnvalda vegna málsins.

Hér er upphaflega skyndiaðgerðabeiðnin með frekari upplýsingum:

http://www.amnesty.org/en/library/asset/ASA11/005/2008/en/bf1ea9ac-1dd5-11dd-a442-edc80cf9d3ed/asa110052008eng.html


Brautargengiskonan útskrifuð

ArnarfjordurAgustAtlason  Í dag útskrifaðist ég af Brautargengisnámskeiði sem Impra - Nýsköpunarmiðstöð Íslands, hefur staðið fyrir hér á Ísafirði í vetur.  Ég fékk meira að segja sérstaka viðurkenningu fyrir "bestu viðskiptaáætlunina" - og vissi vart hvaðan á mig stóð veðrið. Blush Það var óvænt ánægja og heilmikil hvatning.

Ástæða þess að ég skellti mér á þetta námskeið var sú að mig hefur lengi langað til þess að standa fyrir stofnun söguseturs eða -sýningar um Spánverjavígin 1615. Ég sé fyrir mér afþreyingarsafn og sýningu ekki ósvipaða Landnámssetrinu í Borgarnesi ásamt leiðsöguferðum um söguslóð þessara dramatísku atburða þegar héraðshöfðingjar hér vestra - með Ara í Ögri fremstan í flokki - eltu uppi Baskneska hvalveiðimenn, sem hér höfðu lent í skipstrandi, og stráfelldu þá í tveimur aðförum 1615. Þessi atburður á engan sinn líka í Íslandssögunni - og af honum má ýmislegt læra um samfélag 17. aldar, atburða- og atvinnusögu okkar, hugmyndasöguna og margt fleira. Safnið gæti öðrum þræði verið fræðasetur þar sem fræðimenn gætu dvalið til lengri eða skemmri tíma við rannsóknir sínar. Það gæti verið vettvangur menningarviðburða og menningartengsla auk þess að bjóða upp á margvíslega afþreyingu og fróðleik.

Þegar ég, fyrr í vetur, fékk svo undirbúningsstyrk úr sjóðnum Átak til atvinnusköpunar og frá félagsmálaráðuneytinu til að vinna viðskiptaáætlun, þá var að hrökkva eða stökkva.

Þannig að ég fjárfesti einfaldlega í þessu Brautargengisnámskeiði - hugsaði með mér að það gæti verið gaman að skipta aðeins um gír og læra eitthvað nýtt. Brautargengisnámskeiðin eru ætluð konum í frumkvöðlaverkefnum. Og þarna hef ég setið á miðvikudögum, ásamt tíu konum hér úr nágrenninu, og stúderað innstu rök markaðs- og rekstrarfræða, bókhalds- og fjármögnunaráætlanir. Þetta hefur verið mjög skemmtilegt. Leiðbeinendur okkar hafa verið allir af vilja gerðir að aðstoða okkur og kenna - og satt að segja var þetta ný og áhugaverð reynsla fyrir mig. 

Í dag vorum við svo útskrifaðar allar saman - með ræðum, blómum, skírteinum og viðurkenningum. Halo

Með þá hvatningu í veganesti býst ég við að hóa saman hinum væntanlegu samstarfsaðilum. Og hjóla svo í sveitarstjórnirnar hér í kring, þingmenn kjördæmisins og væntanlega fjárfesta og kynna þeim áætlunina.

Nú sjáum við hvað setur. Wink


Jón eða séra Jón: Jakob Frímann eða Markús Örn

Thjodmenningarhus Hvar voru hinir ágengu fréttahaukar þegar Markús Örn Antonsson var ráðinn sem forstöðumaður Þjómenningarhúss, án auglýsingar fyrir skömmu - með 1,1, mkr á mánuði? Enginn fjölmiðill hefur mér vitanlega spurst nánar fyrir um launakjörin - eða fett fingur út í ráðningaraðferðina. Hvað þá að nokkur maður hafi verið kallaður til viðtals. Hvernig skyldi standa á því?

Vísir.is sagði þannig frá ráðningunni að Markús Örn hafi verið ráðinn frá 1. sept. n.k., hann muni leysa af hólmi Guðríði Sigurðardóttur sem hættir störfum að eigin ósk. Síðan er rakinn stuttlega ferill Markúsar. Enginn hneykslunartónn, ekki orð um launakjör.

Mbl.is sagði frá með svipuðum hætti. Enginn hneykslan - allt bara sjálfsagt og eðlilegt. Þar segir að Markús hafi verið "fluttur til í starfi".

Eyjan.is er raunar eini vefmiðillinn sem tekur fram að starfið hafi verið veitt án auglýsingar - en ekki er gert neitt með þá staðreynd að öðru leyti. 

Ég minnist þess ekki að Kastljósið eða Ísland í dag hafi skipt sér neitt af þesu máli - þið leiðréttið mig ef það er misminni hjá mér.

Áleitin fréttamennska? Varðstaða fyrir almenning? Hmmm ...


Messa er ekki tónleikar

Sudureyrarkirkja Aftur þurfti kirkjukór Suðureyrarkirkju á liðstyrk að halda fyrir Hvítasunnumessuna sem jafnframt var fermingarmessa. Og aftur hringdi Lilja vinkona mín og kórsystir til að biðja mig um að hlaupa í skarðið líkt og fyrir ári síðan. Ég gerði það með gleði og var því mætt hin reffilegasta í messu í dag til að syngja með kórnum.

Að þessu sinni  naut ég góðs af því að hafa verið með í fyrra - kunni bara nánast allt, var meira að segja nokkuð klár á messusvörunum hans Bjarna Thorsteinssonar. Við komumst í gegnum "Heilagan" nokkurnveginn skammlaust held ég, og "Guðslambið" var bara bærilegt, takk fyrir. Wink

Það vakti hins vegar athygli mína að kirkjugestir tóku ekki mikinn þátt í söngnum. Mér finnst það synd satt að segja. Sjálf syng ég alltaf með í messum - nema þess sé beinlínis óskað að kirkjugestir geri það ekki. Að vísu fæ ég stundum augnagotur, en mér er alveg sama. Mér bara finnst að fólk eigi að syngja með. Messa er jú messa, ekki tónleikar.

Fjögur falleg ungmenni unnu fermingarheitið sitt hjá séra Agnesi Sigurðardóttur, prófasti sem þjónaði í Suðureyrarkirkju í dag. Það snart mig að þarna var tekið í notkun nýtt og fallegt altarisklæði sem ein af sóknarkonunum hefur saumað með eigin höndum og gefið kirkjunni í minningu móður sinnar - sem sjálf gaf kirkjunni samskonar klæði fyrir 50 árum. Undurfagurt  klæði - sannkölluð kærleiksgjöf.

Sólin lét ekki sjá sig - en samt fallegur dagur. Smile


Eru 700 þúsund ofurlaun?

OlafurFMagnussonOmarOskarsson Einhvernveginn hefur það aldrei hvarflað að mér að starf framkvæmdastjóra miðborgarmála hafi verið búið til handa Jakobi Frímanni Magnússyni.  Ég trúi borgarstjóra mæta vel þegar hann sver slíkar ásakanir af sér. Hann segist hafa leitað til ýmissa áður en kom að ráðningu Jakobs, þ.á.m . Kristínar Einarsdóttur, fyrrum miðborgarstjóra. Þessu trúi ég líka vel. Það breytir því ekki, að það átti að auglýsa stöðuna svo hæfir einstaklingar gætu gefið kost á sér til starfans.

Því get ég vel skilið að fjölmiðlar skuli spyrja gagnrýnið um ástæður þess að staðan var ekki auglýst. Þeim ber að gera það. En ég get ekki tekið andköf yfir því þó að verkefnisstjóri í krefjandi, tímabundnu starfi fái sjöhundruð þúsund krónur á mánuði.  Það eru bara engin ofurlaun - jafnvel þó að margur hafi minna. Og satt að segja finnst mér sem fjölmiðlarnir hafi farið aðeins fram úr sér þarna. Ég veit vel að þetta eru engin verkamannalaun. En hvað ætli fréttamaður á sjónvarpinu hafi í mánaðarlaun þegar saman eru komin föst laun, vaktaálagið og óunna yfirvinnan (sem var umtalsverð þegar ég var og hét sem fréttamaður á sjónvarpinu)? Ætli fréttamaðurinn sem spurði borgastjóra spjörunum úr á föstudagskvöldið sé með mikið lægri laun en Jakob Frímann? Hverju skyldi muna þar?

Vitanlega er engin ástæða til þess að hlífa þeim sem fara með völdin við knýjandi spurningum um leikreglur lýðræðisins og stjórnsýslu almennt. Hitt væri kærkomið ef þeir sem ganga fram sem varðmenn almennings (og þá á ég að sjálfsögðu við fjölmiðla) gætu gert það af kurteisi og tilhlýðlegri mannvirðingu. Á það hefur skort gagnvart Ólafi F. Magnússyni.

Ég get ekki fellt mig við að fréttamenn sýni viðmælendum sínum yfirgang. Síst af öllu þegar um er að ræða virkilega góða og öfluga fréttamenn sem ég sjálf hef dálæti á.

Eitt er að krefja svara og spyrja ákveðið -  framígrip og háðsglósur yfir borðið eru annað mál. Þegar tilfinningar fréttamanna eru farnar að sjást á þeim í viðtölum við ráðamenn - af ekki stærra tilefni en einni mannaráðningu - þá er tímabært fyrir þá hina sömu fréttamenn að staldra aðeins við og hugsa sinn gang.

Ég segi nú svona.


mbl.is Miðborgarstjóra R-listans var boðið starfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veldur hver á heldur

RadhusRvikur Ég get skilið að starfsfólk á skrifstofu borgarstjóra vilji fá vinnufrið. Ég skil vel að þeim lítist vel á að fá Jakob Frímann til samstarfs við sig. Ég skil að Ólafur F. Magnússon skuli vera orðinn þreyttur nú þegar. En ... veldur hver á heldur.

Starfshættir og ákvarðanataka hins nýja meirihluta hefur verið svo gagnrýniverð að ekki verður hjá því komist að um það sé fjallað. Það er ekki við neinn annan að sakast en borgarstjóra sjálfan og hinn nýja meirihluta í borgarstjórn. Þannig er það bara.

Það eru réttir og eðlilegir stjórnsýsluhættir að auglýsa opinber störf. Gefa hæfu fólki kost á að bjóða fram starfskrafta sína og leggja síðan eina mælistiku á alla, meta þá á faglegum, óhlutdrægum forsendum. Þetta er grundvallaratriði - má jafnvel kalla mannréttindamál. 

Af hverju var starf miðborgarstjóra ekki auglýst? Sé Jakob Frímann svo hæfur sem borgarstjóri fullyrðir - og ég dreg ekki í efa - þá ætti hann að standast fyllilega samanburð við aðra umsækjendur. Jakobi Frímanni er sjálfum enginn greiði gerður með þessu.

Rökin fyrir því að ráða hann einungis til eins árs, og það í skyndi, hljóma ekki sannverðug. Í mínum eyrum eru þau hreinn fyrirsláttur. Borgarstjóri vildi fá Jakob til liðs við sig og hann vildi hindra að aðrir - t.d. aðrir umsækjendur - stæðu í vegi fyrir því. Þess vegna beitir hann heimildum sem hann hefur til tímabundinnar ráðningar. Ekkert ólöglegt við það - bara spurning um hvað sé siðlegt í stöðunni. Og hvað sé líklegra til þess að skapa vinnufrið - þennan vinnufrið sem borgastjóri hefur verið að tala um að undanförnu.


mbl.is Full eining meðal starfsmanna á skrifstofu borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymt er þá gleypt er

Stundum er talað um að minni kjósenda sé gloppótt - og vika langur tími í pólitík. Að minnsta kosti hættir okkur oft til þess að gleyma jafnóðum því sem vel er gert en sjá svo ofsjónum yfir einhverju sem enn vantar. 

Að undanförnu hefur Stöð-2 farið mikinn gegn Ingibjörgu Sólrúnu utanríkisráðherra vegna kosningaloforðs sem hún gaf fyrir síðustu kosningar. Svo mjög liggur fréttamönnum á að sjá þetta eina kosningaloforð efnt - nú þegar innan við fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu - að þeir telja niður dagana til þinghlés. Líkt og ekkert annað loforð hafi verið gefið fyrir síðustu kosningar - enginn annar stjórnmálamaður hafi opnað munninn - og ekkert hafi verið gert í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það er því tímabært að rifja upp það sem gert hefur verið á þessu eina ári sem liðið er frá kosningum - líkt og Ágúst Ólafur gerir á sinni bloggsíðu.  Listinn lítur nokkurnveginn svona út:

1. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga hafa hækkað um 7,4% á þessu ári eða um 9.400 krónur til þeirra sem aðeins fá óskertar greiðslur úr almannatryggingum.

2. Þessu til viðbótar verður öllum öldruðum, sem ekki njóta a.m.k. 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði nú þegar, tryggð sérstök kjarabót sem jafngildir 25.000 króna greiðslu úr lífeyrissjóði á mánuði.


3. Skerðing bóta vegna tekna maka var að fullu afnumin 1. apríl. Alls munu um 5.800 lífeyrisþegar uppskera hærri bætur við þessa breytingu, þ.e. um 3.900 öryrkjar og um 1.900 ellilífeyrisþegar.

4. Búið er að setja 90.000 króna frítekjumark á fjármagnstekjur á ári til að draga úr of- og vangreiðslum tekjutengdra bóta. Um 90% ellilífeyrisþega og um 95% örorkulífeyrisþega hafa fjármagnstekjur undir þessum mörkum.

5. Vasapeningar til tekjulausra vistmanna hafa hækkað um tæplega 30%.

6. Skerðingarhlutfall ellilífeyris hefur verið lækkað úr 30% í 25%

7. Þá mun frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega 67–70 ára verða hækkað í 100.000 krónur á mánuði frá 1. júlí . Þetta þýðir að ellilífeyrisþegar geta aflað sér tekna af atvinnu upp að 1.200.000 krónum á ári án þess að það hafi áhrif til skerðingar á lífeyrisgreiðslur þeirra í stað 327.000 króna áður.

8. Tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga hefur verið að fullu afnumin.

9. Hinn 1. júlí mun einnig verður sett 300.000 króna frítekjumark á lífeyrisgreiðslur örorkulífeyrisþega.


10. Hinn 1. júlí mun aldurstengd örorkuuppbót einnig hækka. Þannig mun einstaklingur sem metinn var til örorku 24 ára gamall fá 100% uppbót eftir breytinguna í stað 85% nú. Alls munu um 12.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar njóta hækkunarinnar.

11. Um næstu áramót verður afnumin hin ósanngjarna skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignarsparnaðar. 

12. Um áramótin tóku gildi ný lög sem fela í sér mikilvægar breytingar á greiðslum til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Greiðslurnar nema 80% af meðaltali heildarlauna foreldra yfir tiltekið viðmiðunartímabil, en þetta fyrirkomulag er sambærilegt greiðslum í fæðingarorlofi. Talið er að foreldrar um 200 barna muni nú nýta sér þessar greiðslur árlega eftir breytingu en voru á síðasta ári færri en 10.

13. Þá hefur verið ákveðið að hækka skattleysismörkin um 20.000 krónur á kjörtímabilinu fyrir utan verðlagshækkanir .

14. Komugjöld á heilsugæslu fyrir börn hafa verið afnumin.

15. Skerðingarmörk barnabóta verða hækkuð um 50%.

16. Hámark húsaleigubóta verður hækkað um 50%.

17. Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35%.

18. Stimpilgjöld afnumin fyrir fyrstu kaupendur.

19.  Ný jafnréttislög hafa verið sett.

20.  Fyrsta aðgerðaráætlun fyrir börn samþykkt - Unga Ísland samþykkt.

 

Þetta er allnokkuð á ekki lengri tíma - verð ég að segja. Dágott.


Fréttamennska eða áróður?

isg Fyrst fannst mér svolítið smart hjá fréttastofu Stöðvar-2, að minna Ingibjörgu Sólrúnu á ummæli sín um eftirlaunareglu þingmanna. Gott hjá þeim, hugsaði ég. Nú hljóta þeir að ganga á röðina. Taka þá, hvern ráðherrann á fætur öðrum og spyrja áleitið um kosningaloforðin.

En þeir gengu ekki á röðina. Þeir hafa bara þrástagast á þessum einu ummælum Ingibjargar Sólrúnar fyrir síðustu kosningar - og talið niður: 30 dagar til þinghlés, 20 dagar .... o.s. frv. Dag eftir dag eftir dag. Það mætti halda að tíminn væri að renna út. Eins og mennirnir viti ekki af því að kjörtímabil spannar fjögur ár en ekki eitt.

Hvað er að gerast með fréttstofu Stöðvar-2? Lítur hún ekki á sig sem fréttamiðil lengur? Hefur hún gleymt hlutverki sínu, að segja fréttir?

Fjölmiðlar eiga vissulega að veita stjórnvöldum aðhald. Það gera þeir með upplýstri óhlutdrægri umræðu, með því að varpa ljósi á mál og láta menn standa skil á gjörðum sínum.  Að krefja stjórnmálamenn skil á kosningaloforðum getur að sjálfsögðu flokkast sem slíkt aðhald. En þegar einn stjórnmálamaður af 63 er tekinn fyrir - og eitt loforð af líklega nokkur hundruð loforðum sem gefin eru fyrir kosningar - og það áður en fjórðungur er liðinn af kjörtímabilinu. Dag eftir dag - fréttatíma eftir fréttatíma. Sama klifunin. Hvað er það?

Það er að minnsta kosti ekki fréttamennska. Angry


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband