Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Falleg mynd úr heimabyggð

Loksins tókst mér að setja inn í heimasíðuhausinn hér fyrir ofan, fallega mynd úr heimabyggðinni.  Hef stefnt að því lengi, enda leiddist mér þessi fjallgarður sem ég hef setið uppi með hingað til - og taldi víst að væri landslagsmynd frá Ameríku. Góður maður hefur nú reyndar bent mér á að þetta séu fjöllin við Landmannalaugar - en hvað um það, vestfirsk voru þau ekki. Cool

Nú er semsagt komin viðeigandi mynd sem sýnir Pollinn okkar í ljósaskiptunum og hinni rómuðu ísfirsku kvöldkyrrð. Myndin er tekin af Ágústi Atlasyni, sem var svo einstaklega elskulegur að hjálpa mér að koma henni inn á síðuna - því án hans hefði mér ekki tekist það. Svo mikið er víst.

Ágúst tekur frábærar myndir. Hann er með ótrúlega flotta myndasíðu á netinu, sem er vel þess virði að skoða.


Kræst! Svo var engin útsending!

Mogginn búinn að taka viðtal, allar konurnar búnar að blogga - ég líka auðvitað - um nýja þáttinn minn. Mamma og Jón föðurbróðir (bæði 82ja)  búin að hringja og fá greinargóðar upplýsingar um það hvernig þau næðu stöðinni - og hvað svo? Þeir sem römbuðu með einbeittum vilja á rás 20 á myndlykli Digital Ísland klukkan níu í kvöld (og það voru allmargir miðað við hringingarnar sem ég fékk), fengu þessi skilaboð á skjánum: "Við verðum því miður að stöðva útsendingu ÍNN þar til tæknin er hætt að stríða okkur. Vinna við lagfæringar stendur yfir" Angry

Enginn þáttur - ekki einu sinni útsending. Mamma fór fýluferð til Sögu dóttur minnar að horfa á þáttinn. Já, og konurnar sem voru í þættinum hjá mér - sumar voru komnar í matarboð til ættingja sem höfðu aðgang að digital Ísland. Og hvað? "Við verðum því miður að stöðva útsendingun ÍNN þar til tæknin er hætt að stríða okkur. Vinna vil lagfæringar stendur yfir" hvað? Komið fram á rauðanótt og enn standa "lagfæringar" yfir.

Kræst:  Þvílíkt "comeback"  Blush


Atvinna fyrir (k)alla?

Hvað er að gerast þegar efnt er til  málþings um "atvinnu fyrir alla" og þar er boðið upp á kynjahlutfallið 2/17 í hópi framsögumanna á þinginu - konum í óhag? Hvað er að gerast í höfði þeirra kvenna sem standa að skipulagningunni? Já, þið trúið því kannski ekki - en það eru konur sem eiga "veg og vanda" af þessari skipulagningu.

Um er að ræða málþing sem verður haldið nú á laugardag, að tilhlutan bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar. Því mun ætlað að „varpa ljósi á ýmsa vaxtarbrodda í atvinnulífi Ísafjarðarbæjar“ meðal annars, og „þá möguleika sem eru fyrir hendi til að efla Ísafjarðarbæ sem miðstöð þekkingar og þjónustu á Vestfjörðum“ eins og segir í frétt um þingið. En hverjir eru þessir „allir“ sem þingið á að höfða til?

Samkvæmt auglýsingu sem nú hefur verið dreift verða framsögumenn þingsins sautján: Þar af fimmtán karla og tvær konur. Já, TVÆR konur! Ef með eru taldar þær konur sem stjórna fundinum, og ein sem ávarpar gesti í upphafi hans, mætti með góðum vilja teygja hlutfall kvenna upp í 5/20, eða fjórðung. Slíkur útreikningur væri þó ofrausn, eðli málsins samkvæmt. 

Hafa konur þá ekkert fram að færa í umræðunni um atvinnulíf staðarins? Eru þær ekki þátttakendur í ísfirsku atvinnulífi? Jú, fyrirgefið: Tvær hafa víst eitthvað til málanna að leggja. Nei, annars, bara ein – því hin kemur ekki úr ísfirsku atvinnulífi – hún er sérfræðingur að sunnan.

Því hefur verið haldið fram í mín eyru að konur séu ekki eigendur eða stjórnarformenn atvinnufyrirtækja; þær séu ekki ráðandi í sjávarútvegi og verktakastarfsemi og því hafi þetta bara „komið svona út“. Umrætt málþing sé einfaldlega spegill þess samfélags sem við búum við, og við þessu sé ekkert að gera.

Því er til að svara, að ef ekki er hægt að skipuleggja málþing um atvinnulíf á Ísafirði þannig að það endurspegli þá sem eru þátttakendur á vinnumarkaði – þá er nálgun skipuleggjendanna RÖNG.

Konur eru helmingur þátttakenda á vinnumarkaði. Við þurfum ekki að líta langt til þess að sjá þessar konur hér á Ísafirði sem annarsstaðar. Þær reka verslanir í bænum. Þær eru forstöðumenn stofnana og stoðþjónustu, stýra mikilvægum menntastofnunum – jafnt opinberum sem einkareknum. Þær reka listastarfsemi og handverksmiðstöðvar. Þær eru uppistaða alls fiskvinnslufólks. Þær eru fyrirferðarmiklar í veitingarekstri, halda uppi þjónustu á leikskólunum og sjúkrahúsunum. Þær eru með öðrum orðum meginþorri allra þeirra sem starfa að verslun og þjónustu, auk þess að vera margar hverjar virkar á vettvangi sveitarstjórnarinnar. Margar þessara kvenna hafa verið virkir þátttakendur í opinberri umræðu , félagsstörfum og menningarlífi – og þar með átt sinn þátt í því að gera þetta byggðarlag svo mannvænt sem það er.

Það er því nöturlegt að á þaulskipulögðu málþingi um atvinnumál á Ísafirði skuli konum ekki ætlaður stærri hlutur í umræðunni um atvinnulíf staðarins og möguleika þess, en raun ber vitni. Er þetta málþing þó að stærstum hluta skipulagt af konum, m.a. tveim kvenbæjarfulltrúum sem komu fram á blaðamannafundi ekki alls fyrir löngu. Þar upplýstu þær að þingið ætti ekki hvað síst að leiða í ljós „hversu gott er að búa í Ísafjarðarbæ“.

En hversu gott er fyrir konur að búa í bæjarfélagi þar sem rödd þeirra er þögguð? Hversu góð tilfinning fylgir því að vera kona í bæjarfélagi þar sem konur við völd koma ekki auga á aðrar konur sem hafi eitthvað til málanna að leggja? Hversu heilbrigt er það bæjarfélag þar sem horft er framhjá konum sem þátttakendum í atvinnulífi og opinberri umræðu?

Nógu lengi höfum við íslenskar konur barist fyrir þeim mannréttindum að vera metnar jafningjar karla á vinnumarkaði, í stjórnmálum og opinberu lífi. Í því skyni höfum við – margar hverjar a.m.k. – viljað styðja aðrar konur til áhrifa. Og víst er að nógu margar konur hafa höfðað til kvennasamstöðunnar þegar þær hafa boðið sig fram til sveitarstjórna og alþingis. Meðal annars þær konur sem nú hafa - á því herrans ári 2007 - skipulagt málþing á Ísafirði um atvinnu fyrir "alla"  (lesist: kalla).


Minn fyrsti sjónvarpsþáttur eftir 15 ár

inn1b500 Fyrsti sjónvarpsþátturinn minn eftir 15 ára hlé var tekinn upp í morgun. Hann heitir "Mér finnst" og verður sendur út á föstudögum kl. 21, í vetur á nýju sjónvarpsrásinni ÍNN (rás-20). Þetta eru umræðuþættir þar sem ég fæ til mín reyndar og skemmtilegar konur með sterkar skoðanir til þess að rökræða við mig um hvaðeina sem þeim (og mér) brennur á hjarta. Sjálf verð ég með þáttinn annað hvert föstudagskvöld, en Maríanna Friðjónsdóttir sjónvarpsstjóri ÍNN tekur hann á móti mér tvisvar í mánuði.

Stöðin fer af stað með fullum þunga n.k. föstudagskvöld þannig að mér virðist sem þátturinn minn Blush verði upphafið - en raunar hafa tilraunaútsendingar staðið nú um nokkra hríð. Til stendur að senda efnið út alla virka daga kl. 20-22, og er stöðin fyrst og fremst helguð umræðu og talmáli. Þarna verða ýmsir þjóðkunnir þáttagerðarmenn, Margrét Frímannsdóttir, Mörður Árnason, Guðjón Bergmann, Randver Þorláksson, Illugi Gunnarsson og Katrín Jakobsdóttir - svo ég nefni nú þá sem ég man í augnablikinu. Ingvi Hrafn Jónsson verður að sjálfsögðu á sínum stað með Hrafnaþingið - enda eigandi stöðvarinnar og upphafsmaður. 

inn2b  En það var ótrúlega gaman að mæta í stúdíóið, þar sem Maríanna Friðjónsdóttir, fyrrverandi samstarfskona mín af RÚV,  tók á móti okkur og stjórnaði upptökunni af sinni alkunnu fagmennsku og fumleysi. Við endurfundina rifjuðust upp góðar minningar, m.a. frá leiðtogafundinum í Höfða þegar við lögðum nótt við dag undir stjórn Ingva Hrafns, okkar gamla yfirmanns (núverandi eiganda ÍNN).

Við tókum upp tvo þætti í morgun. Í þeim fyrri komu til mín þrjár bloggandi konur, þær Marta B. HelgadóttirSalvör Gissurardóttir og Jóna Á Gísladóttir sem allar eru öflugir og litríkir bloggarar. Og þær brugðust mér ekki í dag - gáfaðar, mælskar og skemmtilegar.  Smile

Í seinni þættinum, sem verður sendur út eftir tvær vikur, voru bókmenntafræðingarnir Soffía Auður Birgisdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir. Við veltum okkur upp úr bókmenntum í miklum makindum - mest kvennabókmenntunum eins og gefur að skilja - og það var reglulega gaman að spjalla við þær stöllur svo fróðar og spakar sem þær eru - og margreyndar á þessum vettvangi.

Já, það er mikið vatn til sjávar runnið frá því ég vann síðast fyrir sjónvarp. Og það var vissulega ánægjulegt að vitja þess aftur eftir langa fjarveru. Þetta var BARA gaman, eins og börnin segja.  

Sjáumst vonandi á rás-20 á föstudagskvöldið kl. 21. Wink

 


Frjálslyndir afsala sér fulltrúa í borgarstjórn

MargretSverris  Jæja, þá hefur Frjálslyndi flokkurinn afsalað sér allri aðkomu að borgarstjórn Reykjavíkur. Og konurnar í þeim flokki afneita fulltrúa framboðsins - sem var þó, ef ég man rétt, borið fram í nafni Ff og óháðra. Maður skyldi ætla að fulltrúi sem er kosinn í nafni slíks framboðs og segir sig úr Frjálslynda flokknum geti eftir sem áður verið óháður, a.m.k. á meðan hann gengur ekki í einhvern annan stjórnmálaflokk sem aðild á að borgarstjórn.

Nú er Margrét raunar í Íslandshreyfingunni - en sú hreyfing bauð aldrei fram til borgarstjórnar. Það er því varla hægt að tala um Margréti sem fulltrúa hennar. Gagnvart borgarstjórn Reykjavíkur er Íslandshreyfingin bara eins og hvert annað áhugamannafélag. Margrét er hinsvegar bundin af stefnuskránni sem hún bar fram þegar hún var kosin inn í borgarstjórn.

Er nokkur ástæða til að ætla að hún muni ekki fylgja þeirri stefnuskrá? Varla hefur hún skipt um sannfæringu þó hún fái ekki þrifist innan flokksbanda Frjálslynda flokksins.

Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt við mál Gunnars Örlygssonar. Hann skipti um þinglið - breytti atkvæðavæginu á Alþingi. Margrét hefur ekki gert neitt slíkt.

Nei, þetta er ekki gáfulegt útspil hjá Frjálslynda flokknum. Nú er deginum ljósara að flokkurinn á enga aðkomu í borgarstjórn Reykjavíkur. Og það er ekki Margréti Sverrisdóttur að kenna, heldur flokksmönnum sjálfum. 


mbl.is Vantrausti lýst á Margréti Sverrisdóttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeir lásu ekki samninginn! Voru stjórnarlaunin of lág, eða ....??

Það er með ólíkindum að fulltrúar Reykjavíkurborgar í stjórn OR skuli ekki hafa "vitað" hvað stóð í samningnum um sameiningu REI og GGE. Sjálfur borgarstjórinn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson vissi ekkert, samningurinn var nefnilega á ensku, og hann hafði EKKI LESIРhann. Angry

Sem borgarstjóri bar Vilhjálmur þó ríkari ábyrgð en margur annar gagnvart umbjóðendum sínum, þ.e. íbúum Reykjavíkurborgar - og vil ég þó ekki draga úr ábyrgð annarra stjórnarmanna. En hann LAS EKKI gögnin!

Fyrir hvað er svo verið að greiða stjórnarmönnum í OR á annað hundrað þúsund krónur í hverjum mánuði? Af almannafé.  Þessir menn lesa ekki fundargögnin - ekki einu sinni þegar taka þarf afdrifaríkar ákvarðanir um fyrirtækjasamruna og forgangsrétt - sem í þessu tilviki lýtur að öllum erlendum verkefnum sem kunna að falla í skaut Orkuveitunnar næstu 20 árin!!

En þeir láta sér detta í hug að hækka þóknunina fyrir stjórnarsetu um helming, í 350 þús. á mánuði, eins og fram hefur komið. Það vantar ekki að almenningur eigi að greiða þeim sómasamleg laun á meðan þeir slugsa og svalla með verðmæti borgarinnar - og afhenda þau í hendur einkaaðilum, eins og ekkert sé sjálfsagðara; bera það svo á borð fyrir almenning að þeir hafi ekkert vitað hvað þeir voru að gera.Angry

Ef þessir menn væru í vinnu hjá mér myndi ég REKA þá - strax!


mbl.is Mál Svandísar þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur er risinn :-)

Jæja, þá eru tilfinningaköstin farin af stað yfir hinum nýja meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, með  brigslum um tækifærismennsku Svandísar og  Björns Inga, óheilindi, ósamkvæmni og ég veit ekki hvað.

Það gleymist í þessari umræðu allri að það er skylda borgarfulltrúa á öllum tímum að tryggja starfhæfan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Gamli meirihlutinn var óstarfhæfur. Hvað átti Björn Ingi að gera? Hann stóð þó með sannfæringu sinni - lét af ákveðnum persónulegum hagsmunum til þess að frá fram málefnastöðu sem hann taldi farsælli fyrir borgarbúa. Hann er jú fulltrúi fyrir borgarbúa, ekki Sjálfstæðisflokkinn.

Nei, nú held ég að menn ættu bara að draga andann djúpt og reyna að ná aftur stillingu sinni. Reiðilestrar í viðtalsþáttum skila engu.

 En Dagur er risinn í borginni :-) það er gleðiefni fyrir okkur Samfylkingarfólk Smile


Sárir Sjálfstæðismenn.

Sjálfstæðismenn eru sárir - það leynir sér ekki, enda ekki við öðru að búast heldur. Þeir eru líka reiðir - það sáum við á Hönnu Birnu og Villa. Hann stóð sig hinsvegar vel miðað við aðstæður - var keikur. Það er það eina sem dugir á stundu sem þessari.

 En það er holur tónn í tali flokkssystkina hans um heilindi innan borgarstjórnarflokksins og trúnaðarbrest Björns Inga.

Þetta er sama fólkið og dögum saman sat á svikráðum við borgarstjórann fyrrverandi - m.a. á lokuðum fundum með forystu Sjálfstæðisflokksins. Þjóðin fylgdist með þessu, það var á allra vitorði. Að tala svo um "djúpa vináttu" milli þessa fólks og "sanngirni" þess og "frábært samstarf" á blaðamannafundi þegar meirihlutinn er fallinn vegna óeiningar (og innbyrðis undirferlis) - er eiginlega bara  grátbroslegt.

Þá fannst mér líka hjákátleg yfirlýsing Hönnu Birnu um að fullar forsendur hafi verið fyrir því að ná sátt í OR málinu við Björn Inga "ef hann hefði bara verið tilbúinn að fallast á okkar sjónarmið". GetLost 

Hmmm...... hafi þetta verið samstarfsandinn í meirihlutanum fyrrverandi, þá er kannski ekki skrýtið þó trosnað hafi upp úr samstarfinu.

 Já, stundum skipast veður skjótt í lofti - ekki síst í stjórnmálum Ég óska borgarbúum til hamingju með þau umskipti sem nú hafa orðið, og nýja meirihlutanum - ekki síst borgarstjóranum - velfarnaðar í vandasömum aðstæðum.

 


mbl.is Vilhjálmur: Ákvörðun Björns Inga um samstarfsslit fyrirvaralaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr Reykjavíkurlisti!

Á dauðanum átti maður von en ekki því að Reykjavíkurlistinn gengi í endurnýjun lífdaga við aðrar eins aðstæður og þessar. Maður beið þess að Vilhjálmur viki sem borgarstjóri og Björn Ingi sem formaður borgarráðs - en þessi snúningur á málinu er sannarlega óvæntur.

Birni Inga Hrafnssyni er ekki fisjað saman - það sýnir sig núna. Og Dagur, Svandís og Margrét svo sannarlega ekki af baki dottin.

 En Dramað er rétt að byrja - nú er að hefjast blaðamannafundur á heimili borgarstjórans fráfarandi, þannig að það er best að segja ekki of mikið að sinni ...


mbl.is Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

TAKK Svandís.

Ég tek ofan fyrir Svandísi Svavarsdóttur - hún á heiður skilinn fyrir framgöngu sína í þessu máli og málflutning allan. 

 TAKK Svandís fyrir að standa vaktina. 

 

PS: Dagur stóð sig líka vel Wink ekki síst í Kastljósinu í kvöld. Takk Dagur.


mbl.is Ósk um flýtimeðferð í máli Svandísar samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband