Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Leggið við hlustir á morgun :-)

RaghneiðurDav Á morgun kl. 15:30 verður útvarpsþáttur um starf Björgunarhundafélags Íslands á Rás-1.  Það er engin  önnur er Ragnheiður Davíðsdóttir, sú merka fjölmiðlakona og forvarnarfulltrúi með meiru, sem fjallar þar um störf björgunarhunda- sveitarinnar. Joyful

Ragnheiður kom á æfingarhelgi hjá okkur fyrir skömmu og fylgdist með. Það er gaman að sjá hvernig hún bloggar um þessa heimsókn á síðunni sinni  í dag. Ég verð að segja að mér hlýnaði um hjartarætur fyrir hönd félaga minna í björgunarhundasveitinni þegar ég las það sem hún segir þar.

 En fyrir þá sem áhuga hafa, þá verður þessi þáttur sumsé á morgun kl. 15.30 - Dr. Rúv nefnist hann.

Leggið við hlustir.

 

 P1000276 (Small) Annars hefur verið ýmislegt að gera á vettvangi björgunarmála að undanförnu - því nú er ég farin að taka þessi námskeið sem maður þarf að hafa til þess að geta verið gjaldgengur með björgunarhund í útkalli.

Um síðustu helgi var ég á fyrstuhjálpar-námskeiði sem stóð alla helgina, og svo voru verklegar björgunaræfingar innan og utanhúss í framhaldinu. Í fyrrakvöld "björguðum" við t.d. tveimur "stórslösuðum" konum í hlíðinni hér ofan við bæinn. Bárum aðra þeirra tvíbrotna á börum í niðamyrkri, yfir á og upp grýttan bakka.

Höhömm - það var altso ég Errm sem átti að stjórna þessum aðgerðum, og - tjahh - við skulum bara orða það þannig, að ég er fegin að þetta var æfing en ekki alvara. Whistling

En, hva - þetta lærist eins og allt annað.

 Verra var, að í þessu bjástri þar sem við paufuðumst um í myrkrinu með börurnar, fann ég skrítna tilfinningu aftan á öðrum kálfanum. Gaf því engan sérstakan gaum, fyrr en í blakinu í gærkvöldi. Þá lét eitthvað undan.

 Og núna er ég sumsé tognuð  - Angry - staulast um á hækjum, því ekki get ég stigið í fótinn.

Það er þó bót í máli að mér skyldi hafa tekist að ljúka námskeiðinu áður en svona óheppilega vildi til.  Cool 


... og snuða Reykvíkinga um tugi milljarða! Hvað eru menn að hugsa?

Þeir ætla að "selja hlut" OR í REI fyrir sextán milljarða og fá þar með tíu milljarða hagnað. Samt talar Björn Ingi Hrafnsson um að á tveimur árum muni verðmætið fara í allt að 40 milljarða. Af hverju þá að selja núna? Og hvernig getur þetta verið "lausn" á málinu?

 Nei, það er greinilega verið að bjarga Vilhjálmi borgarstjóra fyrir horn. Og þetta með að skipta Hauki Leóssyni út úr stjórn (ekki Vilhjálmi og Birni Inga, takið eftir því) og hafa uppi dylgjur um "nokkra lykilstarfsmenn" og "framgöngu þeirra" - það hljómar ekki trúverðugt. Hér er verið að beina umræðunni að einhverju allt öðru en aðalatriðum.

Og hvað svo? Allir sáttir?

Sannleikurinn er sá að borgarstjóri Reykvíkinga ásamt borgarfulltrúa Framsóknarflokksins - báðir stjórnarmenn í Orkuveitu Reykjavíkur og Björn Ingi auk þess stjórnarmaður í REI - ætla að koma almenningsverðmætum yfir í hendur auðmanna á útsöluprís. Og nú virðist sem Sjálfstæðismenn í Reykjavík ætli að aðstoða þá við þetta verk.

Aðferðin var hárhraðasamruni tveggja fyrirtækja þar sem almenningseign var afhent einkafyrirtæki í eigu auðvaldsfyrirtækja. Samrunaferlið átti sér stað með vafasömum aðferðum sem draga má í efa að hafi verið löglegar. Með sölu á hlut OR núna er útlit fyrir að Reykvíkingar geti orðið af tugmilljarða verðmætum. Og halda menn svo að það friði Reykvíkinga að skipta Hauki Leóssyni út úr stjórnum fyrirtækjanna?

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur núna komið að mjög svo vafasömum gjörningi. Annarsvegar samrunaferli REI og GGE, hinsvegar dularfullum kaupréttartilboðum til valinna starfsmanna. Hvorugt er til þess fallið að auka traust almennings á stjórnsýslu borgarinnar eða persónu borgarstjórans. Ofan á allt annað fór hann á bak við borgarbúa og samflokksmenn sína, eins og Svandís Svavarsdóttir bendir réttilega á.

Einhvern tíma hefði Vilhjálmur sjálfur talið ástæðu til fyrir sitjandi borgarstjóra að víkja úr sessi fyrir viðlíka sakir - jafnvel minni.


mbl.is Stefnt að því að selja hlut Orkuveitunnar í REI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aldrei mun þín auma sál - annað fegra mæla"

Ég hef vaxandi áhyggjur af stöðu íslenskunnar. Peningastofnanir og skólar sem kenndir eru við viðskipti og verslun gera sífellt háværari kröfur um að "alþjóðavæða viðskiptaumhverfi" sitt, eins og mig minnir að það sé orðað. Það þýðir víst að taka upp ensku sem samskiptatungumál innan stofnunar sem utan, þ.e. að hafa eyðublöð, tölvusamskipti, ársskýrslur o.fl. á ensku eingöngu.Þetta munu einhverjar peningastofnanir hafa tekið upp nú þegar - og nú hefur Verzlunarskólinn sótt um það til menntamálaráðuneytisins að taka ensku upp sem aðaltungumál á tiltekinni námsbraut.

 Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds.

Á átjándu öld lögðu íslenskir embættismenn það til að íslenskan skyldi lögð niður sem embættismál á Íslandi, en danska tekin upp í staðinn. Rökin voru svipuð þá og nú. Embættismenn þjóðarinnar voru menntaðir í Danmörku og farnir að týna niður íslenskunni. Skrifmál þeirra var dönskuskotið embætismannamál - svokallaður kansellístíll sem er afar torskilinn nútíma Íslendingum. Bjarni Jónsson rektor Skálholtsskóla sagði það "ekki aðeins gagnslaust, heldur skaðlegt að viðhalda íslenskri tungu" í bréfi árið 1771 og Sveinn Sölvason lögmaður talar árið 1754 niðrandi um þetta afdankaða tungumál sem þá sé "komið úr móð". 

Af þessu tilefni orti Gunnar Pálsson rektor Hólaskóla, síðar prestur og prófastur í Hjarðarholti í Dölum (1714-1791):

  • Er það satt þig velgi við 
  • vinur, íslenskunni,
  • og haldir lítinn herrasið
  • hana að bera í munni?

Gunnar svarar spurningunni sjálfur með svofelldum orðum:

  • Íslenskan er eitt það mál
  • sem allir lærðir hæla
  • og aldrei mun þín auma sál
  • annað fegra mæla.

 

 Íslensku skáldin risu upp til bjargar þjóðtungu sinni á átjándu öld - og þeim tókst að sýna fram á gildi hennar, gæða hana lífi og draga fram fegurð hennar. Þar með lögðu þau grunn að ríkulegum bókmenntaarfi seinni tíma. Sá arfur státar af verkum manna á borð við Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafstein, Einar Benediktsson, Stein Steinarr, Davíð Stefánsson, Halldór Kiljan Laxness, Þórberg Þórðarson, Svövu Jakobsdóttur, Jakobínu Sigurðardóttur, Fríðu Sigurðardóttur .... og þannig mætti lengi telja.  

Nú er spurning hvort skáldakynslóð okkar daga er viljug - eða megnug - að launa þessa arfleifð og rísa upp til varnar fyrir "ástkæra, ylhýra málið" - þjóðtunguna sem Jónas orti svo fagurlega um ...

  • móðurmálið mitt góða,
  • hið mjúka og ríka,
  • orð áttu enn eins og forðum
  • mér yndið að veita.

Vituð ér enn - eða hvað?


mbl.is Verzló vill fá enska námsbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta ljóðabókin mín ...

Vestanvindur  ... er að fara í prentsmiðjuna. Kápan tilbúin og búið að senda hana í Bókatíðindin. He-hemm - það verður sumsé ekki aftur snúið úr þessu Blush ég er komin út úr skápnum með ljóðin mín.

"Og þó fyrr hefði verið" hnussaði vinkona mín elskulega þegar ég sagði henni hálf feimin hvað stæði til. En ég verð að viðurkenna að fyrir mig er þetta svolítið skrýtið. Nú þegar á hólminn er komið finnst mér hálfpartinn eins og ég hafi opnað dyr sem hingað til hafa verið lokaðar. Hleypt fólki (væntanlegum lesendum) innfyrir hliðin. Ég ímynda mér að þetta sé ekki ósvipað því að standa hálfnakin á almannafæri.

Hvað um það - teningunum er kastað. Ég hlakka til að sjá gripinn þegar hann kemur úr prentsmiðjunni.

 


Tónlistarupplifun í Ísafjarðarkirkju

Ég er að koma af aldeilis hreint frábærum tónleikum í Ísafjarðarkirkju þar sem franski fiðlusnillingurinn Gilles Apap fór beinlínis á kostum. Og ekki aðeins hann, heldur allir sem að þessum tónleikum komu.

Þarna komu fram Íslenska kammersveitin og Balzamersveitin Bardukha - báðar undir forystu Hjörleifs Valssonar fiðluleikara, sem lék við "hvern sinn fingur" ef svo má segja. Hann heillaði mannskapinn gjörsamlega upp úr skónum - og virtist (a.m.k. í augum hins óbreytta leikmanns)standast nokkurnveginn samanburð við franska snillinginn.

Íslenska kammersveitin var fyrir hlé - skipuð frábæru mannvali. Eftir hlé lék Balzamersveitin undir með þeim Hjörleifi og Apap. Þar voru Ástvaldur Traustason á harmonikku, Birgir Bragason á kontrabassa - alveg ótrúlega góður - og svo senuþjófur kvöldsins, Steingrímur Guðmundsson á slagverkið. Ég kolféll fyrir honum - þvílík fingrafimi, taktvísi og hraði.  Magnaður galdur framinn þar.

Gilles Apap er sérstakur  tónlistarmaður. Hann hefur náð ótrúlegri tækni á fiðluna - svo mikilli að hann er farinn að brjóta niður helgidóma. Þá á ég við það hvernig hann brýtur upp þekkt tónverk, færir þau í nýjan búning, leikur sér að þeim, ummyndar þau beinlínis. Hljóðfærið leikur í höndunum á honum, að því er virðist algjörlega áreynslulaust.

Ef þið eigi þess nokkurn kost að hlusta á þennan mann leika á tónleikum - grípið þá tækifærið. Hann er sannkölluð upplifun.

Takk fyrir mig.


Blóðug af bloggvinahreinsunum.

Úff, var að hreinsa til á bloggvinalistanum. Jamm, eyddi bara út nokkrum "bloggvinum" sem aldrei hafa gert vart við sig á síðunni hjá mér frá því þeir gerðust vinir og sumir hverjir hafa ekki bloggað í marga mánuði.

Þetta var erfitt verk - sumir vildu hreinlega ekki eyðast - ég þurfti að margsmella á "eyða" til að fá þá út. Mér leið eins og hálfgerðum morðingja meðan ég var að þessu.

En svona er lífið Crying öllu er afmörkuð stund - líka bloggvináttunni.


Skottulækningar og ömmusálfræði

Pétur Tyrfingsson sálfræðingur fór mikinn í Kastljósþætti sjónvarpsins í gærkvöldi. Umfjöllunarefnið var höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun sem hann kallar "skottulækningar" og "hindurvitni".

Iðkendur þessarar meðferðar telja hana gagnlega við ýmsum kvillum, m.a. einhverfu. Kvöldið áður hafði  verið talað við mann að nafni Stanley Robinson sem nú er staddur hér á landi að kynna meðferðina. Einnig var rætt við móður einhverfs barns sem sýndi batamerki eftir slíka meðferð.

Það sem virðist helst hafa farið fyrir brjóstið á Pétri Tyrfingssyni er grein Gunnars Gunnarssonar sálfræðings þar sem hann mælir með höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnun fyrir einhverfa. Röksemd Péturs er sú að rannsóknir skorti til þess að mæla með þessari meðferð eða heita árangri af henni og því geti sálfræðingur - sem telst til viðurkenndrar heilbrigðisstéttar - ekki mælt með slíkum aðferðum.

 Gott og vel. Pétur svaraði því hinsvegar ekki hvernig stendur á því að starfsfólk hinna svokölluðu "viðurkenndu" læknavísinda - sálfræðingar þar á meðal - skuli taka við einhverfusjúklingum og veita þeim meðferð eða ráð af einhverju tagi þegar engar vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á "lækningu" við þessum kvilla. Í framhaldinu vakna fleiri spurningar:

1) Sé krafan um vísindalegar rannsóknir að baki læknismeðferð virt til fulls - hvað má þá segja um tilraunalækningar hinna viðurkenndu læknavísinda í gegnum tíðina, t.d. við krabbameinum ýmiskonar, HIV veirunni og fleiri skæðum og erfiðum sjúkdómum? Ætlar Pétur að halda því fram að þær meðferðir sem veittar hafa verið við þessum sjúkdómum séu allar vísindalega viðurkennd "lækning" við þeim?

2) Pétur kvaðst sjálfur nota "ömmusálfræði" þegar allt annað bregst gagnvart sjúklingum sem leita til hans sem sálfræðings. Hvað er "ömmusálfræði" - og hvaða rannsóknir liggja að baki gagnsemi hennar?

3) Hvað skilur á milli ömmusálfræðinnar og til dæmis höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar?

4) Skiptir máli hvort það er sálfræðingur með starfsréttindi eða hómópati sem  veitir ráð við kvillum án þess að sýnt hafi verið fram á með vísindalegum hætti að þau ráð geri gagn?

Þannig mætti lengi halda áfram - sannleikurinn er sá að það er ekkert algilt í þessum heimi. Því fannst mér Pétur Tyrfingsson full stórorður í ummælum sínum um hindurvitnin og skottulækningarnar. Hlátur hans og hæðnitónn bættu ekki úr skák.

Hitt er svo annað mál - að þeir sem trúa staðfastlega á ágæti höfuðbeina- og spjaldhryggsjöfnunar - ættu að afla sér rannsóknarstyrkja til þess að sýna fram á gagnsemi meðferðarinnar. Þannig myndu þeir gera þessari meðferð og þeim sem hennar njóta gagn til framtíðar. Sé aðferðin raunverulega að virka hlýtur það að koma talsmönnum hennar betur að geta sýnt fram á það með einhverju öðru en vitnisburðum valinna einstaklinga. Það hlýtur að koma heiminum betur að sýna fram á að þetta geti verið viðurkennt lækningaúrræði - eða a.m.k. til þess fallið að bæta líðan fólks.

Sjálf hef ég tekið lýsi og birkiösku í fjölda ára. Engar vísindalegar sannanir hafa sýnt fram á gagnsemi birkiöskunnar - en lýsið hefur verið rannsakað að einhverju marki. Ef ég ætti að sleppa öðru hvoru myndi ég frekar sleppa lýsinu en birkiöskunni, einfaldlega vegna þess að ég hef reynt það á sjálfri mér að mér verður meira um að hætta að taka birkiösku en lýsi. Engar vísindalegar rannsóknir liggja til grundvallar þessari reynslu minni. Hún er sönn engu að síður - og þannig er um margt í veröldinni.


Afsökunarbeiðni og fyrirgefning

Mér hefur nú borist afsökunarbeiðni frá ungum manni - fyrrverandi nemanda mínum við Menntaskólann á Ísafirði. Hann hefur látið birta afsökunarbeiðni sína opinberlega með svofelldum orðum:

"Undirritaður vill koma á framfæri innilegri afsökunarbeiðni til dr.Ólínu Þorvarðardóttur fyrrverandi skólameistara á Ísafirði. Föstudaginn 19.september s.l. sendi undirritaður SMS skeyti til hóps nemanda í Menntaskólanum á Ísafirði og lét líta svo út sem það hafi verið sent úr símanúmeri Ólínu. Sá gjörningur var hörmuleg yfirsjón og verður ekki réttlættur á nokkurn hátt. Með vinsemd og virðingu. Gunnar Atli Gunnarsson".

Þessari orðsendingu til mín fylgdu þau orð Gunnars Atla að hann hefði ennfremur sagt af sér formennsku í Nemendafélagi Menntaskólans á Ísafirði, vegna þessa máls.

Nú vil ég segja þetta:

Kæri Gunnar Atli.

Öllum verða á mistök í lífinu. Það er liður í því að þroskast og verða að heilsteyptri manneskju - enginn lærir að ganga án þess að hrasa. Það eru því ekki mistökin sjálf sem lýsa okkur best, heldur hitt, hvernig við bregðumst við þeim og bætum fyrir þau.

Nú þegar þú hefur sagt af þér sem formaður NMÍ og beðið mig opinberlega afsökunar ert þú maður að meiri. Þú hefur gengist við gjörðum þínum eins og heiðarlegum manni sæmir og axlað ábyrgð. Vissulega sárnaði mér við þig, en mér þykir vænt um að sjá hvernig þú hefur sjálfur tekið á mistökum þínum.

Ég fyrirgef þér því þessa yfirsjón  - og óska þér alls hins besta í lífinu.

  

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband