Færsluflokkur: Sjónvarp

Heit mitt og játning

KubburOddurJonsson Ykkur að segja þá hef ég fengið mig svo fullsadda af reiði og meðvirkni í samfélaginu að ég segi hvoru tveggja hér með stríð á hendur. Og þá er ég bæði að tala um meðvirknina í sjórnarsamstarfinu og innan stjórnmálaflokkanna og líka þá meðvirkni sem verður æ meira áberandi í tengslum við mótmælin í landinu og andstöðu við stjórnvöld.

Ég er staðráðnari en nokkru sinni í að þegja hvorki yfir því sem miður fer né heldur hinu sem vel er gert, hvernig svo sem það kann að koma niður á flokkstengslum, mannvirðingum eða hagsmunum.  Ég fylgi engu og engum að máli nema sannfæringu minni og samvisku. Mér er ljóst að fyrir vikið verð ég kannski sökuð um svik við einhvern málstað og á mig ráðist fyrir að fylgja ekki fjöldanum. Það verður þá að hafa það.  

Ég tek mér það frelsi sem mér er heitið í stjórnarskrá lýðveldisins að tjá skoðun mína.

Að þessu sögðu vil ég létta fyrsta steininum af brjósti mínu.

1) Eftir að hafa horft á borgarfundurinn sem haldinn var s.l. mánudag átta ég mig á því að það reiðin í samfélaginu er að verða að einhverskonar hópsefjun. Það er komin "við " og "þið" stemning - og sú stemning er við það að ganga of langt. Hún getur auðveldlega breyst í sjálfsréttlætingu þeirra sem telja sig vera knúna áfram af "réttlátri reiði". Hættan er sú að fólk sem er í hjarta sínu reitt og vill ríkisstjórnina burt, telji sig skyldugt til að taka undir með öllum þeim sem tjá reiði sína, án tillits til þess hvernig það er gert: Að fjöldinn fari að sætta sig við fleira en gott þykir í nafni samstöðunnar. Sú tilhneiging var áberandi á borgarafundinum séð frá mínum sjónarhóli.

2) Ég styð ekki þá ríkisstjórn sem nú situr enda kaus ég Samfylkinguna við síðustu kosningar, ekki ríkisstjórnina. Ég tel óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin víki, sett verði utanþingsstjórn og síðan boðað til stjórnlagaþings.

Ég held að ríkisstjórnin eigi engan annan kost, ef ekki á að verða upplausn í landinu, en að stíga til hliðar og stuðla að því að hér verði mynduð starfhæf utanþingsstjórn - í skjóli og með hlutleysi Alþingis. Þetta gæti verið einhverskonar þjóðstjórn. En ráðamenn verða að átta sig á því trúnaðarrofi sem orðið er milli þeirra og almennings í landinu. Það rof verður ekki bætt með því að þumbast áfram og streitast við að sitja.

 

----------

Fallegu myndina hér fyrir ofan tók Oddur Jónsson. Hún er ef Kubbanum í SKutulsfirði, tekin yfir Pollinn á Ísafirði.


Framsókn gamla hressist aðeins

Ég sé ekki betur en Framsóknarflokkurinn sé bærilega staddur með mannval ef marka má þetta formannskjör. Sigmundur og Höskuldur eru báðir afar frambærilegir menn og hin nýja forysta flokksins hefur yfir sér ferskt og trúverðugt yfirbragð. Þó byrjunin hafi verið svolítið brösuleg vil ég óska Sigmundi Davíð til hamingju með kosninguna. Það er ánægjulegt að sjá nýtt fólk með heilbrigðar áherslur kveða sér hljóðs á stjórnmálasviðinu núna.

En ég stenst ekki mátið að skella hér inn tveimur góðum ferskeytlum sem urðu til á Leirvefnum í kvöld. Þessi er eftir Pétur Stefánsson:

Í Framsókn er bæði fjör og drama,
-fremstur var Höski í sigurliði
og stóð í ljósi frægðar og frama
í fimm mínútur uppi á sviði.

Og hér er önnur eftir Davíð Hjámar Haraldsson:

Lokatölur beint úr flokksins bók
baksar við að lesa þegar húmar;
Haukur gaf og Haukur síðan tók
af Höska eftir fimm mínútur rúmar.

Já -  það á ekki af þeim að ganga framsóknarmönnum.


mbl.is Sigmundur kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðreisn Alþingis - nýtt lýðveldi!

faninn Það gladdi mig sannarlega að heyra minn gamla læriföður og meistara Njörð P. Njarðvík orða með svo skýrum hætti hugmynd sem hefur verið að þróast í mínu eigin hugskoti - og trúlega ýmissa annarra undanfarið - um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis Íslendinga. Sjónarmið Njarðar hafa komið fram í blaðaskrifum hans og nú síðast í útvarpinu í gær og svo Silfri Egils í dag.

Eins og Njörður bendir réttilega á er Alþingi Íslendinga orðin áhrifalítil afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið - ráðherrana - sem sitja í öndvegi þingsalar eins og konungshirð frammi fyrir þingliðinu. Forseti Alþingis er áhrifalaus virðingarstaða þess sem misst hefur af ráðherrastól - nokkurskonar uppbótarsæti. 

Á Íslandi er nefnilega ekki virkt lýðræði í reynd - hér ríki þingræði (fulltrúalýðræði) sem í rauninni er ekkert annað en ráðherraræði. Og framkvæmdavaldið - ráðherrarnir - eru á sama tíma starfandi þingmenn. Engin skil eru á milli framkvæmdavalds og löggjafa. Þessu þarf að breyta.

Þingmenn sjálfir eru að vasast í ýmsu meðfram þingstörfum - sitja jafnvel í ráðum og nefndum úti í samfélaginu, stýra stórum hagsmunasamtökum o.s. frv. sem er að sjálfsögðu óeðlilegt.

Nýtt lýðveldi er sennilega lausnarorðið sem við þurfum. Hugmyndin felur í sér að þingið verði leyst upp og mynduð neyðarstjórn. Það gæti verið utanþingsstjórn eða einhverskonar útfærsla á þjóðstjórn eða stjórnlagaþingi í samræmi við núgildandi stjórnarskrá. En þessu mannvali yrði falið að semja nýja stjórnarskrá sem kosið yrði eftir í næstu þingkosningum.

Þessi hugmynd er svo sannarlega þess virði að hún sé tekin til alvarlegrar athugunar - hún er ekki fordæmalaus, eins og Njörður benti á. Frakkar hafa gert þetta fimm sinnum, síðast þegar DeGaulle komst til valda. 

Hugmyndin um nýtt lýðveldi og viðreisn Alþingis kemur eins og ferskur andblær inn í það daunilla kreppuástand sem nú ríkir í samfélaginu og innra með þjóðinni. Ástand sem svo sannarlega gæti orðið farvegur fyrir lýðskrumara og æsingafólk sem ekki sést fyrir en gæti sem best notfært sér bágindi þjóðarinnar eins og á stendur til að skara eld að köku eigin hagsmuna.

Nei, við þurfum nýjar leikreglur. Nýtt upphaf: Endurreisum Alþingi á nýjum grunni - stofnum nýtt lýðveldi!

 -----------------------------

PS: Þessa fallegu fánamynd fékk ég lánaða á síðu Álfheiðar Ólafsdóttur myndlistarkonu.


Ástþóri bannað að mótmæla á fundi með mótmælendum

asthor_magnusson_a_birosagon Í fyrsta skipti sem ég skelli upp úr yfir frétt úr kreppunni var þegar ég sá sjónvarpsfréttina um uppákomuna í Iðnó þegar Ástþór Magnússon steðjaði þangað inn í jólasveinabúningi og var umsvifalaust kastað út af fundarmönnum. Þarna voru saman komnir grímuklæddir aktívistar ásamt lögreglu og almennum borgurum að ræða mótmælaaðferðir og virðingu fyrir skoðana- og tjáningarfrelsi þeirra sem meðal annar aðhyllast "beinar aðgerðir" í mótmælum.

Skyndilega var friðurinn rofinn. Jólasveinninn mættur - hó hó hó! Með fullan poka af kærugjöfum til stjórnvalda.

Fundarmenn litu hver á annan  Errm og í sömu andrá sameinuðust hugir viðstaddra í einni ákvörðun: Út með manninn! 

Já, hvahh?  Hann bað ekki einu sinni um orðið - það eru nú einu sinni fundasköp!!

Þessar "beinu aðgerðir" Ástþórs féllu greinilega ekki í kramið.  Ég meina, hver vill miðaldra kall í jólasveinabúningi inn á alvarlegan fund með alvöru aktívistum í svörtum fötum með lambhúshettur og skýlur fyrir andliti? Út með manninn! Hann er ekki einu sinni töff. Tounge

Þið verðið bara fyrirgefa - en þetta var óborganleg uppákoma. Og þó að Ástþóri sé ekki skemmt (sjá hér) og öðrum fundarmönnum augljóslega ekki heldur ef marka má bloggskrif ýmissa í dag - þá skellihló ég. Skelli, skellihló. Devil 

Kannski var það vegna flensunnar - ég er auðvitað með fullan hausinn af kvefi og gæti þess vegna verið með óráði.

Á þessum síðustu og verstu tímum er auðvitað bannað að brosa. Halo

 


Ekki hernaður heldur útrýming

Þeir smöluðu á annað hundrað Palestínumönnum inn í hús - helmingurinn var börn - og létu svo sprengjum rigna á bygginguna.

Þetta er ekki hernaður - þetta er útrýming.

Svo standa málsvarar Hamas keikir (hér) og segjast aldrei muni gefast upp!

Þvílíkt brjálæði - þvílíkur djöfulskapur.

Hvar er fordæming Utanríkismálanefndar Alþingis? Hana skipa:

Fyrir Sjálfstæðisflokk: 
Bjarni Benediktsson, formaður
Guðfinna Bjarnadóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir

Fyrir Samfylkingu: 
Árni Páll Árnason, varaformaður
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Lúðvík Bergvinsson

Fyrir stjórnarandstöðu: 
Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokknum
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.

 


mbl.is Sprengdu hús fullt af fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þungbær staða Samfylkingar

isg Ég horfði á viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Kastljósi í gær. Hún var skelegg og rökföst að vanda. Og enn treysti ég henni til allra góðra verka. Engu að síður er ég með þyngsli fyrir brjóstinu eftir að hafa hlustað á þetta viðtal. 

Það eitt að formaður Samfylkingarinnar skuli með sýnilegt óbragð í munni sjá sig tilneydda að lýsa trausti á fjármálaráðherra "til allra góðra verka" - ráðherra sem nýlega hefur fengið mjög alvarlegar athugasemdir fyrir stjórnsýslufúsk - það eitt fær á mig.

Staða Samfylkingarinnar í stjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum verður þungbærari frá degi til dags.  Þetta er staða hins meðvirka maka í óregluhjónabandi þar sem allt er farið úr böndum en enn er verið að verja fjölskyldumeðlimi út á við og fela ummerkin um athafnir þeirra.

Þetta er þyngra en tárum taki. 

Á sama tíma er þjóðfélagið allt í upplausn. Ríkisstjórnin trausti rúin. Krafan um afsagnir ráðherra verður sífellt háværari og þeir eru orðnir æði margir sem sitja undir rökstuddum afsagnarkröfum:

Árni Matthiesen, fjármálaráðherra
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra
Geir H. Haarde, forsætisráðherra
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra

Þetta er meirihluti ríkisstjórnarinnar - og farið að hitna undir fleirum. Auk þess liggur ríkisstjórnin í heild sinni undir þungu ámæli og afsagnarkröfum.

Formaður Samfylkingarinnar hefur beðið um svigrúm til handa stjórnvöldum að vinna sig út úr kreppuskaflinum og koma málum í þokkalegt horf. Það er skiljanleg ósk. En dag eftir dag koma upp nýjar fréttir um fúsk og feluleiki, spillingarmál, vanrækslu og atgerfisskort í stjórnkerfinu.  Nú síðast varðandi vitneskju Árna Matthiesen og Geirs Haarde um alvarlega stöðu tveggja Glitnisssjóða sem jafnað hefur verið til vitorðs (hér).

Meðal neyðarráðstafana stjórnvalda í skaflmokstrinum eru sparnaðaraðgerðir sem ekki aðeins eru sársaukafullar - þær fela í sér aðför að grunnstoðum velferðarkerfisins. Það eru skelfilegir hlutir að gerast í heilbrigðiskerfinu. Og allt á þetta sér stað nánast án umræðu, á þeirri forsendu að stjórnvöld þurfi frið til að moka sig í gegnum skaflinn. 

Velferðarkerfið er helgasta vígi jafnaðarmanna.

Ég vil varpa fram þeirri hugmynd að menn taki sér smá pásu frá þessum mokstri, varpi öndinni og líti í kringum sig. Hvað er verið að moka? Til hvers? Og hverju er til fórnandi að komast þarna í gegn?


Eiga Árni Matthiesen og Björn Bjarnason að sitja?

c_arni_mathiesen Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur sagði nánast berum orðum í Kastljósinu í kvöld að Árni Matthiesen ætti að víkja úr ráðherrastóli vegna athugasemda Umboðsmanns Alþingis um embættisfærslu hans þegar Þorsteinn Davíðsson (Oddssonar) var ráðinn héraðsdómari. Árni var þá settur dómsmálaráðherra og hunsaði niðurstöðu sérstakrar dómnefndar um hæfi umsækjenda, eins og mörgum er í fersku minni.

mati Umboðsmanns voru ,,annmarkar'' á undirbúningi, ákvörðun og málsmeðferð Árna. Sömuleiðis taldi umboðsmaður að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefði átt að víkja sæti í málinu mun fyrr en hann gerði, þar sem fyrrverandi aðstoðarmaður hans hafi verið meðal umsækjenda. 

Nú hefur Sigurður Líndal lagaprófessor emeritus fullyrt í sjónvarpsviðtali að bæði Árni og Björn bjornavigriphafi í reynd brotið stjórnsýslulög með málsmeðferð sinni.

Álit umboðsmanns og ummæli lagaprófessorsins eru þungt áfelli fyrir báða ráðherrana. Enn sitja þeir þó sem fastast.

Prestar hafa misst kjól og kall fyrir að falla í freistni holdsins og vera þar með slæmt siðferðisfordæmi fyrir aðra. Sýslumenn hafa misst embætti og lögregluþjónar starf sitt fyrir að verða hált á svelli laganna af svipuðum ástæðum. Það eru meira að setja dæmi um að ráðherrar hafi sagt af sér fyrir viðlíka og jafnvel minni sakir (Guðmundur Árni Stefánsson vegna ásakana um að hygla vinum sínum - pólitískt deilumál en ekki lögrot). 

Hvað skal þá með ráðherra tvo sem hafa það sérstaka hlutverk að verja stjórnsýslu landsins - þegar virðist hafið yfir allan vafa að þeir hafa sjálfir brotið stjórnsýslulögin?


Dáðleysi í utanríkismálanefnd

gaza3 Ég er sammála Steingrími J Sigfússyni núna. Ég er sorgmædd yfir dáðleysi utanríkismálanefndar og vona heitt og innilega að meirihluti nefndarinnar skoði betur eigið hugskot og hjarta. Mér finnst við hæfi að rifja upp hér hverjir það eru sem eiga sæti í utanríkismálanefnd. Sjálf ætla ég að taka vel eftir því hvernig atkvæði falla í nefndinni þegar kemur að endanlegri afgreiðslu málsins.  Nefndin er þannig skipuð ...

Fyrir Sjálfstæðisflokk: 
Bjarni Benediktsson, formaður
Guðfinna Bjarnadóttir
Ragnheiður E. Árnadóttir

Fyrir Samfylkingu: 
Árni Páll Árnason, varaformaður
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Lúðvík Bergvinsson

Fyrir stjórnarandstöðu: 
Kristinn H. Gunnarsson, Frjálslynda flokknum
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokknum
Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum.

 

--------------------------

PS: Annars finnst mér efnisflokkunin hér á moggablogginu vera orðin úrelt - hér virðist ekki vera hægt að flokka færslur um utanríkismál, stríð og hernað eða neytendamál svo dæmi séu nefnd. Þessi færsla á t.d. enga flokkun í kerfinu - svolítið bagalegt stundum.


mbl.is Deilt um stjórnmálasamband
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samvinna eða samkeppni - gæði eða magn!

pallsk Í kvöld hlustaði ég á Pál Skúlason heimspeking og fyrrum Háskólarektor í samtali við Evu Maríu (hér). Honum mæltist vel að venju og ósjálfrátt varð mér hugsað til þess tíma þegar ég sat hjá honum í heimspekinni í den. Það voru skemmtilegir tímar, miklar samræður og pælingar, og eiginlega má segja að þar hafi ég hlotið mína gagnlegustu menntun.

Heimspekin kennir manni nefnilega að hugsa - hún krefur mann um ákveðna hugsunaraðferð sem hefur svo sárlega vantað undanfarna áratugi. Það er hin gagnrýna hugsun í bestu merkingu orðsins gagn-rýni.

Mér þótti vænt um að heyra þennan fyrrverandi læriföður minn tala um gildi samvinnu og samhjálpar. Þessi gildi hafa gleymst á meðan skefjalaus samkeppni hefur verið nánast boðorð meðal þeirra sem fjallað hafa um landsins gagn og nauðsynjar hin síðari ár. Lítil þjóð þarf á því að halda að sýna samheldni og samvinnu - menn verða að kunna að deila með sér, eiga eitthvað saman. Þetta er eitt það fyrsta sem börn þurfa að læra, eigi þau að geta verið með öðrum börnum. Samvinnuhugsunin hefur hins vegar átt mjög undir högg að sækja hin síðari ár - og það er skaði.

Samkeppni og önnur markaðslögmál geta auðvitað átt rétt á sér - eins og Páll benti á - en það má ekki yfirfæra þau á öll svið mannlegra samskipta. Samkeppni getur í vissum tilvikum komið niður á mannúð og gæðum þar sem þörf er annarra sjónarmiða en markaðarins. Hún getur til dæmis orðið til ills í skólastarfi, innan heilbrigðiskerfisins eða í velferðarþjónustunni. Og þó svo að þetta virðist sjálfsagðir hlutir, þá þarf stöðugt að minna á þá - það sýnir reynslan.

Lítum til dæmis á endurskipulagningu sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Hefur hún ekki einmitt tekið mið af hagræðingu, samruna, stækkun og samlegðaráhrifum líkt og gert er við framleiðslufyrirtæki? Mér hefur sýnst það - þegar nær hefði verið að taka mið af því að starfsemi sjúkrahúsanna er í eðli sínu heilbrigðisþjónusta. Og það gilda önnur lögmál um þjónustu en framleiðslu

Í framhaldsskólakerfinu hafa fjárframlög til skólanna miðast við fjölda þeirra nemenda sem þreyta próf um leið og áhersla hefur verið lögð á að stytta námstíma þeirra til stúdentsprófs. Fyrir vikið hafa skólar keppst um að fá til sín sem flesta nemendur og útskrifa þá á sem skemmstum tíma. Slík framleiðsluhugsun getur átt fullan rétt á sér í kjúklingabúi, en hún á ekki rétt á sér þar sem verið er að mennta ungt fólk og búa það undir lífið. 

Já, það vöknuðu ýmsar hugleiðingar við að hlusta á tal þeirra Páls Skúlasonar og Evu Maríu í kvöld. Hafi þau bestu þakkir fyrir þennan góða viðtalsþátt.

 FootinMouth

PS: Ummæli Páls um landráð af gáleysi eru líklega gagnorðasta lýsingin á því sem gerðist á Mikjálsmessu þann 29. september síðastliðinn. 


Athyglisverð hljóðupptaka - undarlegt hugarfar

Reynir Traustason Það var undarlegt að hlusta á orðaflauminn renna út úr Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, þar sem hann reyndi að skýra fyrir blaðamanni sínum hvers vegna hann gæti ekki birt frétt þess síðarnefnda um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans.

Reynir Traustason, ritstjóri er orðinn margsaga í sínum skýringum. Í yfirlýsingu sem þeir feðgar, hann og Jón Trausti Reynisson, létu frá sér í dag er áréttað að "hótanir komi ekki í veg fyrir birtingu frétta í DV" og blaðamaðurinn hafi "ekkert fyrir sér" í því að svo hafi verið.

Hljóðupptakan sem flutt var í Kastljósi ber þó vitni um hið gagnstæða. Þar kemur ljóslega fram að Reynir Traustason afsakaði sig við blaðamanninn með því að vísa í öfluga aðila sem gætu "stútað" blaðinu ef fréttin yrði birt.

Nú íhugar ritstjórinn málsókn gegn Kastljósi fyrir að birta upptökuna.  Hann lítur svo á að þarna hafi átt sér stað einkasamtal milli sín og blaðamannsins. Vissulega var þarna samtal tveggja manna sem ekki hefði undir eðlilegum kringumstæðum átt erindi í fjölmiðla. En þegar orð standa gegn orði - og annar aðilinn er auk þess með frýjanir um að hinn hafi ekkert í höndunum - þá þarf að skera úr um sannleiksgildið með einhverjum hætti. Þessi hljóðupptaka átti erindi við almenning. Svo sannarlega.

 Almenningi kemur það við hvernig ritstjórar fjölmiðla ganga fram í sínu starfi. Þeir fara með fjórða valdið - þeir hafa upplýsingaskyldu við almenning - og það er vandasamt verkefni.

Annað þótt mér merkilegt sem kom fram í þessari hljóðupptöku. Það voru orð Reynis ritstjóran um að einn daginn myndi DV takast að knésetja Björgólf Guðmundsson. Er það stefna blaðsins að knésetja þann mann? Ef til vill fleiri?

Þessi afhjúpuná afstöðu Reynis Traustasonar verður sjálfsagt lengi í minnum höfð. Það er jú ekki á hverjum degi sem ritstjóri "frjáls" fjölmiðils upplýsir að hann hyggist sitja fyrir einhverjum í því skyni að "taka hann" eða "skella honum" (man ekki nákvæmlega orðalagið í augnablikinu). Hann er ekki þarna að tala um raðmorðingja eða yfirlýstan nauðgara. Nei hann er að tala um mann sem hefur verið umsvifamikill í íslensku fjármála- og athafnalífi; mann sem mikið hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu. Björgólfur Guðmundsson er vissulega umdeildur nú um stundir, en ef þessi afstaða Reynis Traustasonar stjórnar gjörðum fjölmiðlanna sem eiga að "upplýsa" okkur almenning um það sem er að gerast á bak við tjöldin - ja, þá gef ég nú ekki mikið fyrir hina svokölluðu "upplýstu umræðu".

Þá er ekki síður athyglisvert að sjá viðleitni Reynis til að sverta blaðamanninn, þennan fyrrum starfsmann sinn, með því að blanda óskyldum málum inn í fyrrgreinda yfirlýsingu sína um þetta mál. Reynir upplýsir þar um óskylda hluti sem varða frammistöðu blaðamannsins í starfi - nokkuð sem að öllu eðlilegu ætti að vera trúnaðarmál milli vinnuveitanda og starfsmanns. Svo er hann sjálfur móðgaður og hissa á að að hljóðupptakan af símtali þeirra tveggja skuli hafa endað í Kastljósinu.

Nei, það var svo sannarlega athyglisvert og afhjúpandi að hlusta á Reyni Traustason í Kastljósinu í kvöld - því þó að samhenginu væri ekki fyrir að fara fór hugarþelið ekki framhjá neinum.

 Það hugarþel ætti ekki að vera við lýði á neinum íslenskum fjölmiðli.


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband