Færsluflokkur: Umhverfismál
Veggjakrot og veggjalist - enn og aftur
25.3.2015 | 12:44
Nú þegar borgarlandið er að koma undan snjó og hvarvetna blasir við rusl og drasl eftir lægðirnar að undanförnu hefur vaknað umræða um borgarumhverfið. Af því tilefni langar mig að endurvekja nokkurra ára gamla umræðu um veggjakrot og veggjalist.
Ég hef áður gert að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.
Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja sér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.
Svo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).
Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.
Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu ;-)
Krían er komin
3.4.2013 | 08:24
Fögur er krían á flugi
fimlega klýfur hún vind
flugprúð og fangar hugi,
fránleikans sköpunarmynd.
Ég fyllist alltaf fögnuði innra með mér þegar ég sé fyrstu kríur vorsins. Þó mér þyki afar vænt um lóuna og elski blíðlega ba-bíííið hennar, þá jafnast ekkert á við kríuna, þann hugrakka, fima og fallega fugl.
Og nú er hún komin - þessi litla lifandi orustuþota. Veri hún velkomin.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýravelferð í siðvæddu samfélagi
22.3.2013 | 08:58
Dýr eru skyni gæddar verur. Sú staðreynd mun fá lagastoð í nýrri heildarlöggjöf um dýravelferð sem nú er til meðferðar í þinginu, verði frumvarp þar um samþykkt fyrir þinglok. Markmið laganna er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt eins og segir í markmiðsgrein frumvarpsins.
Frumvarpið hefur verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd þingsins þar sem ég hef tekið að mér að vera framsögumaður málsins, vinna að framgangi þess og mæla fyrir þeim breytingum sem nefndin telur rétt að gera á málinu í ljósi athugasemda og ábendinga sem borist hafa úr ýmsum áttum. Góð sátt náðist í nefndinni um þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu.
Gelding grísa og sumarbeit grasbíta
Eitt af því sem hreyfði mjög við umsagnaraðilum í meðförum málsins, var að frumvarpið skyldi gera ráð fyrir því að heimilt væri að gelda grísi yngri en vikugamla án deyfingar. Sjónvarpsáhorfendur hafa nýlega séð svipaða umræðu endurspeglast í þættinum Borgen þar sem aðbúnaður á dönskum svínabúum var mjög til umræðu. Þá hafa dýraverndarsamtök og dýralæknar einnig beitt sér mjög fyrir því að tryggja að grasbítar fái ekki aðeins útivist á grónu landi yfir sumartíman, heldur einnig nægjanlega beit, svo þau geti sýnt sitt eðlislæga atferli, þ.e. að bíta gras. Á þetta einkum við um kýr í tæknifjósum, sem dæmi eru um að komi sjaldan eða aldrei út undir bert loft.
Skemmst er frá því að segja að atvinnuveganefnd tekur undir þessar athugasemdir og leggur til breytingar á frumvarpinu í þessa veru. Nefndin leggst gegn lögfestingu þeirrar undanþágu að gelda megi ódeyfða grísi, og leggur auk þess til að grasbítum sé tryggð beit á grónu landi á sumrin.
Þá leggur nefndin til þá breytingu á ákvæði um flutning dýra að skylt sé við flutning og rekstur búfjár að dýr verði fyrir sem minnstu álagi og hvorki þoli þeirra né kröftum sé ofboðið. Enn fremur verði ráðherra skylt að setja nánari reglur um aðbúnað dýra í flutningi, t.d. um hleðslu í rými, umfermingu, affermingu, hámarksflutningstíma og um þær kröfur sem eru gerðar um flutningstæki sem flytja búfé. Þá skal einnig hert á reglum um aðferðir handsömun dýra, vitjun um búr og gildrur og aðbúnað dýra í dýragörðum.
Tilkynningaskylda og nafnleynd
Nefndin sá einnig ástæðu til þess að herða á tilkynningaskyldu vegna brota gegn dýrum. Með hliðsjón af barnaverndarlögum leggur nefndin til að sambærilegt nafnleyndarákvæði og þar er að finna, auk sérstakrar skyldu dýralækna og heilbrigðisstarfsfólks dýra að gera viðvart ef meðferð eða aðbúnaði er ábótavant. Gengur sú skylda framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.
Nefndin ákvað að skerpa á refsiákvæðum frumvarpsins. Viðurlög geta verið dagsektir, úrbætur á kostnað umráðamanns, stöðvun starfsemi, vörslusvipting dýra og haldlagning, bann við dýrahaldi og fangelsisvist.
Með áorðnum breytingum tel ég að ný heildarlöggjöf um dýravelferð sé til mikilla bóta. Nýleg en sorgleg dæmi um vanhirðu og illa meðferð dýra sanna best þörfina fyrir skýran lagaramma, gott eftirlit og markvissa stjórnsýslu um dýravelferðina.
Dýr eru skyni gæddar verur. Það segir margt um siðferði samfélags hvernig búið er að dýrum sem höfð eru til nytja; að þau fái að sýna sitt eðlilega atferli og að þau líði hvorki skort né þjáningu sé við það ráðið. Nýting dýra og umgengni mannsins við þau á að einkennast af virðingu fyrir sköpunarverkinu.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kvótamálið - tækifærið er núna
21.12.2012 | 19:33
Fyrr í dag sendum við Lilja Rafney Magnúsdóttir frá okkur yfirlýsingu vegna stöðunnar sem upp er komin í fiskveiðistjórnunarmálinu - en í dag ákváðu forystumenn stjórnarflokkanna að bíða með framlagningu þess. Yfirlýsing okkar Lilju Rafneyjar fer hér á eftir:
Nú þegar nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnun, sem verið hefur eitt stærsta deilumál þjóðarinnar, bíður framlagningar í þinginu er brýnt að niðurstaða náist sem fullnægi grundvallarsjónarmiðum um þjóðareign auðlindarinnar, jafnræði, nýliðunarmöguleika og bætt búsetuskilyrði í landinu. Undan hótunum og hræðsluáróðri sem dunið hefur á þjóðinni frá hagsmunasamtökum útvegsmanna geta rétt kjörin stjórnvöld ekki látið. Þau mega heldur ekki missa kjarkinn, nú þegar stundin er runnin upp til þess að gera varanlegar breytingar til bóta, í átt til frekari opnunar á óréttlátu kerfi.
Með frumvarpinu eru stigin skref til þess að opna það lokaða kvótakerfi sem nú er við lýði með því að taka upp tímabundin nýtingarleyfi í anda tillagna að nýju auðlindaákvæði stjórnarskrár. Með opnum og vaxandi leigumarkaði með aflaheimildir, sem óháður er núverandi kvótahöfum, losna kvótalitlar og kvótalausar útgerðir undan því leiguliðakerfi sem verið hefur við lýði og eiga þess kost að leigja til sín aflaheimildir á grundvelli frjálsra, opinna tilboða. Er þar með komið til móts við sjálfsagða kröfu um jafnræði, atvinnufrelsi og aukna nýliðun.
Frumvarpið sem nú bíður er vissulega málamiðlun, en það er stórt skref í rétta átt skref sem við teljum rétt að stíga, fremur en una við óbreytt ástand.
Eftir þriggja ára samráð með aðilum í sjávarútvegi, launþegahreyfingunni og öðrum þeim sem að greininni koma, er það skylda Alþingis og ríkisstjórnar að leiða málið nú til lykta á grundvelli fyrirheita sem stjórnarflokkarnir hafa fengið lýðræðislegt umboð til að hrinda í framkvæmd.
Því skorum við á þingmenn og forystu beggja stjórnarflokka að sameinast um færar leiðir til lausnar á þessu langvarandi deilumáli og leggja frumvarpið fram hið fyrsta. Afkoma sjávarútvegs er nú með besta móti, hún hækkaði um 26% milli áranna 2010/2011 og hreinn hagnaður var um 60 milljarðar króna á síðasta ári. Mikið er í húfi fyrir byggðir landsins og þær tugþúsundir Íslendinga sem hafa beina og óbeina lífsafkomu af sjávarútvegi.
Nú er tækifærið óvíst er að það gefist síðar.
Ramminn er málamiðlun.
17.12.2012 | 16:41
Stundum er sagt um málamiðlanir að þær geri alla álíka óánægða og því sé skynsamlegra að velja milli sjónarmiða. Nokkuð er til í því en í jafn stóru máli og þessu getur ekki hjá því farið að reynt sé að teygja sig í átt til ólíkra sjónarmiða. Hér hefur það verið gert.
Rammaáætlun á að tryggja að nýting landsvæða með virkjunarkostum byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati með sjálfbærni að leiðarljósi. Henni er ætlað að taka tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Slík áætlun skal lögð fram á Alþingi á fjögurra ára fresti hið minnsta.
Virkjunarsinnar eru ekki allskostar ánægðir með þann ramma sem nú liggur fyrir. Þeir telja að meira hefði mátt virkja. Þeir tala um atvinnuuppbyggingu, telja störf og peningaleg verðmæti. Þeir líta á fossandi vatn og sjá þar ónýttan möguleika sem rennur í tilgangsleysi til sjávar.
Verndunarsinninn dáist að fallandi fossi. Hann sér þar líka mikla möguleika, en allt annars konar. Hann upplifir fegurð, finnur kraftinn frá vatnsaflinu og óskar þess innra með sér að fleiri fái að njóta: Börnin og barnabörnin til dæmis. Báðir hafa nokkuð til síns máls.
Vaknandi vitund
En á það að vera sjálfgefið að virkja allt sem virkjanlegt er, bara af því það er hægt? Er ásættanlegt að virkja náttúruauðlindir spilla þar með umhverfi ef við þurfum ekki orkuna? Er atvinnuuppbygging réttlætanleg ástæða virkjunarframkvæmda, eins og sumir hafa haldið fram? Væri ekki nær að spyrja sig: Hversu lítið kemst ég af með? Hvað get ég komist hjá að virkja mikið?
Í nýju náttúruauðlindaákvæði í frumvarpi að breyttri stjórnarskrá er í fyrsta skipti fjallað um náttúruna sjálfrar hennar vegna, sem undirstöðu lífs í landinu sem öllum ber að virða og vernda. Þar er í fyrsta skipti sagt berum orðum í texta sem hefur lagagildi að öllum skuli með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Þar er kveðið á um að nýtingu náttúrugæða skuli þannig hagað að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.
Þetta mikilvæga ákvæði er til vitnis um vaknandi vitund og virðingu fyrir umhverfinu, móður jörð. Í því er horft frá öðrum sjónarhóli en þeim sem hingað til hefur verið svo mikils ráðandi í umræðunni um nýtingu náttúrugæða.
Íslensk náttúra er ekki aðeins uppspretta ljóss og varma, hún er líka uppspretta lífsafkomu og fæðuframboðs. Hún er uppspretta upplifunar. Ekki síst er hún uppspretta ódauðlegrar listsköpunar sem við þekkjum af ljóðum þjóðskáldanna og af öndvegisverkum myndlistarinnar.
Skynsamleg nýting
Það er ekki sjálfgefið að virkja allt, bara af því það er hægt. Náttúran á sinn tilverurétt og óbornar kynslóðir eiga sitt tilkall til þess að koma að ákvörðunum um nýtingu og vernd náttúrugæða. Orðið nýtingarvernd" gæti jafnvel átt hér við, því verndun getur verið viss tegund nýtingar og atvinnusköpunar. Nærtækt er að benda á ferðaþjónustuna, en ég vil líka minna á þá mikilvægu hreinleikaímynd sem íslensk fyrirtæki, ekki síst matvælafyrirtæki, þurfa mjög á að halda.
Sú rammaáætlun sem nú liggur fyrir mætir andstæðum viðhorfum af þeirri hófsemi sem vænta má þegar mikið er í húfi og skoðanir skiptar. Hún gerir ráð fyrir skynsamlegri nýtingu en virðir um leið mikilvægi náttúrugersema. Hér er tekið visst tillit til óskertra svæða þótt óneitanlega hljóti einhverjum að finnast sem lengra hefði mátt ganga í því efni.
Á hinn bóginn hefur fjölda landsvæða sem að óbreyttu lægju undir sem virkjunarkostir verið komið í skjól í þessari áætlun: Jökulsá á Fjöllum, Markarfljóti, Hengilsvæðinu, Geysissvæðinu, Kerlingafjöllum, Hvítá í Árnessýslu og Gjástykki. Öðrum kostum hefur verið skipað í biðflokk þar sem þau bíða frekari rannsókna eða annarra átekta. Við fjölgun kosta í biðflokki er fylgt þeim sjálfsögðu varúðarviðmiðum sem eru meginsjónarmið alls umhverfisréttar og við Íslendingar höfum með alþjóðlegum samningum skuldbundið okkur til þess að fylgja.
Hér hefur faglegum aðferðum verið fylgt, að svo miklu leyti sem hægt er, þegar mannshönd og mannshugur eru annars vegar. Hér hafa ekki allir fengið það sem þeir vildu. En þessi málamiðlun er skynsamleg að teknu tilliti til þess hversu andstæð sjónarmiðin eru í jafn vandmeðförnu máli.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvert rennur fiskveiðiauðlind okkar?
21.9.2009 | 11:21
20 milljarða skuldabréf með veði í íslenskum sjávarútvegi er nú komið í eigu Seðlabankans í Lúxemborg.
Þetta er ein birtingarmynd þess sem við er að eiga í þessari atvinnugrein sem á síðustu tveimur áratugum eða svo hefur byggst upp á framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem er í eðli sínu óréttlátt og hefur haft í för með sér alvarlega atvinnu- og byggðaröskun víða. Kerfi þar sem verslað er með fiskveiðiauðlind þjóðarinnar eins og hvert annað skiptagóss.
Sjávarútvegsráðherra benti á það í útvarpinu í morgun að samkvæmt lögum mætti ekki veðsetja aflaheimildir "með beinum hætti". Auðveldlega má þó færa rök fyrir því að veðsetning "í íslenskum sjávarútvegi" þýði að kvótinn hafi þá verið veðsetturmeð óbeinum hætti.
Hvaða þýðingu hefur það í reynd ef íslensk sjávarútvegsfyrirtæki komast í hendur erlendra fyrirtækja? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að arðurinn af nýtingu fiskveiðiheimildanna við landið komi í íslenska þjóðarbúið? Nákvæmlega enga.
Satt að segja held ég að þarna glitti rétt í toppinn á ísjakanum. Það er alvarleg og aðsteðjandi hætta á ferðinni þarna.
Eitt helsta stefnumál Samfylkingarinnar er að leiðrétta kvótakerfið og koma fiskveiðiauðlindinni í hendur þjóðarinnar á ný. Það verk má ekki dragast. Ef eitthvað er þyrfti að flýta því enn frekar en áformað er.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Magma Energy, erlent fjármagn, eignarhald ríkisins, almannahagsmunir
25.8.2009 | 14:59
Ég hef ekkert á móti erlendu fjármagni eða skynsamlegri einkavæðingu. En þegar erlend fyrirtæki gera sig líkleg til þess að sölsa undir sig nýtingarrétt íslenskra auðlinda á kjörum sem varla geta talist annað en afarkostir - þá vil ég spyrna við fótum.
Þegar erlent stórfyrirtæki býðst til að kaupa hlut í HS-Orku gegn því að Orkuveitan veiti 70% kúlulán (þ.e. afborganalaust lán sem greiðist í lok lánstíma) til sjö ára, á 1,5% vöxtum með veði í bréfunum sjálfum - þá fæ ég ekki séð að erlent fjármagn sé að streyma inn í landið.
Þegar erlent stórfyrirtæki sem hefur fengið 10 ára samning við erlend orkufyrirtæki (sjá hér) með framlengingar ákvæði til annarra 10 ára (samtals 20 ár), vill gera 65 ára samning við okkur með framlengingarákvæði um önnur 65 ár - alls 130 ár - þá líst mér ekki á blikuna.
Þegar svona er staðið að tilboðsgerð í nýtingarrétt íslenskra auðlinda, þá finn ég brunalykt og fer að hugsa um útsölur, eins og ég hef bloggað um áður.
Vissulega verðum við að laða erlenda fjárfesta til landsins - en það er ekki hægt að falbjóða náttúruauðlindir landsins fyrir lítið sem ekkert, jafnvel þó hart sé í ári.
Samkeppni og einkavæðing geta verið góðra gjalda verðar - en þá verða líka að vera eðlileg samkeppnisskilyrði til staðar. Slík skilyrði eru ekki til staðar á Íslandi eins og sakir standa.
Þó ekki væri nema vegna þessa, finnst mér réttlætanlegt að ríkið grípi inn í fyrirhugaða sölu á hlut HS-Orku til Magma Energy, og reyni að ganga inn í tilboðið. Satt að segja held ég það sé ráðlegt eins og sakir standa. En þá sé ég fyrir mér tímabundna ráðstöfun, en ekki varanlegt eignarhald - því ég held að ríkið ætti þá að leitast við að selja hlutinn á ný, á betri kostum en þarna bjóðast.
Ef þessi samningur fer óbreyttur í gegn, er gefið fordæmi fyrir fleiri viðlíka samninga, án þess að nokkur trygging sé fyrir því að arðurinn af auðlindum okkar muni renna inn í þjóðarbúið. Ég held það sé hættulegt íslenskum almannahagsmunum.
Auðlindirnar eru helsta von okkar Íslendinga núna - við megum ekki glutra þeim úr höndum okkar í eftirhruns-örvæntingu. Þetta mál er þörf áminning um þá hættu sem við gætum staðið frammi fyrir ef erlend auðfyrirtæki taka að ásælast auðlindir okkar fyrir lítið verð.
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Orkuverðmæti á brunaútsölu
22.8.2009 | 15:10
Það er fróðlegt að bera saman kauptilboð Magma Energy á þriðjungshlut í HS Orku við eldri samninga fyrirtækisins við önnur orkufyrirtæki. Magma hefur gert tvo samninga í Oregon og Nevada í Bandaríkjunum sem eru aðeins til tíu ára (í stað 65 ára skv. tilboðinu í HS Orku) ) með möguleika á tíu ára framlengingu (í stað 65 ára framlengingar hjá HS Orku). Fyrstu tíu árin þarf að greiða auðlindagjald sem nemur 1,75 prósenti af heildartekjum af raforkusölu og eftir tíu ár 3,5 prósentum (sjá hér).
Fréttablaðið greinir frá því í dag að Magma ætli að fjármagna 70% kaupverðsins með kúluláni frá Orkuveitunni til sjö ára með 1,5 % vöxtum og veði í bréfunum sjálfum.
Mér finnst þetta ekki koma til greina. Ef rökin fyrir því að semja við Magma Energy eru þau að okkur vanti erlent fjármagn - þá er degin ljósara að þau rök halda ekki í þessu tilviki. Hér er ekkert erlent fjármagn sem neinu nemur. Hér er einfaldlega stórfyrirtæki að reyna að ná undir sig verðmætum nýtingarrétti auðlindar á brunaútsölu - og nýtir sér í því skyni erfiða stöðu sveitarfélags og þjóðar í kreppu.
Hætt er við að fleira af þessu tagi geti átt sér stað í þeim efnahagsaðstæðum sem við búum við núna. Við Íslendingar verðum að halda fast og vel utan um auðlindir okkar og láta ekki glepjast í tímabundnum fjárþrengingum til þess að selja ómetanleg verðmæti frá okkur, síst með afarkostum.
Ég vona að fjármálaráðherra takist með einhverjum ráðum að stöðva það sem þarna er að eiga sér stað.
Úr Jökulfjörðum
21.7.2009 | 11:40
Fjögurra daga gönguferð í Jökulfjörðum að baki, og það var ljúft að smeygja sér undir dúnmjúka og tandurhreina sængina í gærkvöldi og hvíla lúin bein. Er svolítið þreytt í dag, en endurnærð engu að síður!
Þarna var á ferðinni sami hópur og gengur árlega um Hornstrandafriðland - hópurinn sem nú nefnist Skaflabjörn, eftir ævintýri síðasta árs (sjá hér, hér og hér). Í för með okkur að þessu sinni voru tengdaforeldrar mínir, Pétur Sigurðsson (78) og Hjördís Hjartardóttir (70). Hann gekk með alla dagana, hún hvíldi einn (eins og raunar fleiri úr hópnum, þar á meðal hundarnir tveir sem fylgdu okkur).
Að þessu sinni var þó ekki farið inn í Hornstrandafriðlandið heldur í Grunnavík og gengið þaðan um fjöll og fjörur.
Ferðin hófst með bátsferð frá Bolungarvík á föstudagsmorgni yfir að Berjadalsá á Snæfjallaströnd. Þaðan gengum við yfir í Grunnavík. Á leiðinni varð það óhapp að Kristín Böðvars féll um grjót og olnbogabrotnaði. Við vorum sem betur fer með góða sjúkrakassa meðferðis og gátum búið um brotið og spelkað það, enda enga aðra aðstoð að fá þarna uppi á fjallinu. Kristín harkaði af sér, tók eina verkjatöflu og gekk til byggða (3 klst). Góður kunningi okkar á Ísafirði var kallaður til aðstoðar og kom hann á bátnum sínum yfir í Grunnavík og skutlaði henni á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem gert var betur að brotinu. Síðan var mín kona komin aftur í Grunnavík seinna um kvöldið, tilbúin í göngu næsta dags.
Já það eru jaxlar í þessum hópi sem láta hvorki beinbrot né aldur hefta sína för.
Í Grunnavík beið farangurinn okkar og slegið var upp tjöldum. Við Helga Magnea og Pétur Sigurgeir skelltum okkur í sjóbað en aðrir drifu sig í heita pottinn sem þarna er.
Daginn eftir gengum við út Staðarhlíðina með stórgrýttri fjörunni út að Kollsá og þar upp á Staðarheiðina aftur til Grunnavíkur. Fjaran er stórgrýtt og illfær og getur ekki talist gönguleið. Ég ræð fólki frá að fara hana.
Þriðja daginn, sunnudaginn, gengum við á Maríuhornið. Um kvöldið fengum við notalega sögustund á Friðriki ferðabónda í Grunnavík sem bauð okkur í bæinn eftir kvöldmatinn.
Í gær, mánudag, gengum við síðan frá Grunnavík yfir Staðarheiðina, niður hjá Kollsá og áfram út að Flæðareyri þangað sem báturinn átti að sækja okkur. Raunar var ekki lendandi á Flæðareyri svo við röltum til baka inn í Höfðabótina þangað sem báturinn stefndi, og þar komst tuðran í land til að ferja okkur um borð.
Eins og alltaf eftir þessar gönguferðir er ég lúin en alsæl og hvíld á sálinni.
Framundan bíður Ice-save málið í þinginu og fleira sem krefst einbeitingar ... en ég er til í slaginn!
PS: Ég get því miður ekki sett inn mínar eigin myndir strax þar sem ég hef ekki komist í ferðatölvuna mína. Myndina efst á síðunni fann ég fyrir all löngu á vefnum en veit því miður ekki hver tók hana, hún er af Vébjarnargnúpi tekin af sjó. Myndin af Maríhorninu er fengin á vef SAF - hún er líka tekin af sjó. Svo er hér mynd tekin í Hlöðuvíkurskarði á fyrsta degi ferðar í fyrra .
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fyrirspurn um meðferð aflaheimilda
28.5.2009 | 17:59
Fróðlegt væri að vita hversu mikið magn aflaheimilda hefur verið leigt milli útgerða á liðnum árum. Sömuleiðis hversu mikið af ónýttum aflaheimildum hefur verið fært milli ára og/eða yfirfært í aðrar tegundir. Upplýsingar af þessu tagi varpa ljósi á það hvað um er að ræða þegar talað er um leiguliðakerfi - þær varpa ljósi á það hvort réttlætanlegt er að tala um "kvótabrask".
Þess vegna ég nú lagt fram fyrirspurn í þinginu um þetta efni, og vonast ég til að svör fáist innan skamms.