Úr Jökulfjörðum

VebjarnarnupurFjögurra daga gönguferð í Jökulfjörðum að baki, og það var ljúft að smeygja sér undir dúnmjúka og tandurhreina sængina í gærkvöldi og hvíla lúin bein. Er svolítið þreytt í dag, en endurnærð engu að síður!

Þarna var á ferðinni sami hópur og gengur árlega um Hornstrandafriðland - hópurinn sem nú nefnist Skaflabjörn, eftir ævintýri síðasta árs (sjá hér, hér og hér). Í för með okkur að þessu sinni voru tengdaforeldrar mínir, Pétur Sigurðsson (78) og Hjördís Hjartardóttir (70). Hann gekk með alla dagana, hún hvíldi einn (eins og raunar fleiri úr hópnum, þar á meðal hundarnir tveir sem fylgdu okkur). Wink

Að þessu sinni var þó ekki farið inn í Hornstrandafriðlandið heldur í Grunnavík og gengið þaðan um fjöll og fjörur.

Ferðin hófst með bátsferð frá Bolungarvík á föstudagsmorgni yfir að Berjadalsá á Snæfjallaströnd. Þaðan gengum við yfir í Grunnavík. Á leiðinni varð það óhapp að Kristín Böðvars féll um grjót og olnbogabrotnaði. Við vorum sem betur fer með góða sjúkrakassa meðferðis og gátum búið um brotið og spelkað það, enda enga aðra aðstoð að fá þarna uppi á fjallinu. Kristín harkaði af sér, tók eina verkjatöflu og gekk til byggða (3 klst). Góður kunningi okkar á Ísafirði var kallaður til aðstoðar og kom hann á bátnum sínum yfir í Grunnavík og skutlaði henni á sjúkrahúsið á Ísafirði þar sem gert var betur að brotinu. Síðan var mín kona komin aftur í Grunnavík seinna um kvöldið, tilbúin í göngu næsta dags.  

Já það eru jaxlar í þessum hópi sem láta hvorki beinbrot né aldur hefta sína för. Cool

Í Grunnavík beið farangurinn okkar og slegið var upp tjöldum. Við Helga Magnea og Pétur Sigurgeir skelltum okkur í sjóbað en aðrir drifu sig í heita pottinn sem þarna er.

Daginn eftir gengum við út Staðarhlíðina með stórgrýttri fjörunni út að Kollsá og þar upp á Staðarheiðina aftur til Grunnavíkur. Fjaran er stórgrýtt og illfær og getur ekki talist gönguleið. Ég ræð fólki frá að fara hana.

mariuhornÞriðja daginn, sunnudaginn, gengum við á Maríuhornið. Um kvöldið fengum við notalega sögustund á Friðriki ferðabónda í Grunnavík sem bauð okkur í bæinn eftir kvöldmatinn.

Í gær, mánudag, gengum við síðan frá Grunnavík yfir Staðarheiðina, niður hjá Kollsá og áfram út að Flæðareyri þangað sem báturinn átti að sækja okkur. Raunar var ekki lendandi á Flæðareyri svo við röltum til baka inn í Höfðabótina þangað sem báturinn stefndi, og þar komst tuðran í land til að ferja okkur um borð.

Eins og alltaf eftir þessar gönguferðir er ég lúin en alsæl og hvíld á sálinni.

Framundan bíður Ice-save málið í þinginu og fleira sem krefst einbeitingar ... en ég er til í slaginn!

FootinMouth

PS: Ég get því miður ekki sett inn mínar eigin myndir strax þar sem ég hef ekki komist í ferðatölvuna mína. Myndina efst á síðunni fann ég fyrir all löngu á vefnum en veit því miður ekki hver tók hana, hún er af Vébjarnargnúpi tekin af sjó. Myndin af Maríhorninu er fengin á vef SAF - hún er líka tekin af sjó. Svo er hér mynd tekin í Hlöðuvíkurskarði á fyrsta degi ferðar í fyrra .

Hlöðuvíkurskarð4

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar Guðmundsson

BEUTIFUL

Arnar Guðmundsson, 21.7.2009 kl. 14:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband