Færsluflokkur: Ferðalög
Pakkað fyrir Hornstrandaferð
13.7.2008 | 19:44
Ég er farin að pakka fyrir hina árlegu Hornstrandaferð sem við í gönguhópnum "Höldum hópinn" ætlum að fara um næstu helgi. Þriðja helgin í júlí - það er fastur liður. Að þessu sinni verður siglt með okkur í Veiðileysufjörð á föstudagsmorgni, og við göngum yfir í Hlöðuvík. Þar setjum við upp bækistöðvar, en farangurinn verður sendur þangað á undan okkur, með báti. Það mun vera brimasamt í Hlöðuvik og því stundum erfitt með lendingu. Fyrir vikið verður farangurinn sendur með þriggja daga fyrirvara, svo nægur tími gefist, ef lending tekst ekki í fyrstu tilraun.
Úr Hlöðuvík ætlum við að ganga um nágrennið á laugardag og sunnudag, dagleið í hvort skipti. Á mánudag verður síðan gengið yfir til Hesteyrar þaðan sem við tökum bátinn heim.
Gönguhópurinn fer stækkandi ár frá ári, enda eru börnin okkar farin að koma líka. Hópurinn skiptir um nafngift eftir hverja ferð, því ævinlega bíða okkar ný ævintýri sem kalla á nýtt heiti. Við höfum heitið Skítugur skafl, Ropandi örn, Höldum hæð og Höldum hópinn - allt eftir tilefnum.
Árið sem við nefndumst Ropandi örn, gengum við í niðaþoku á Straumnesfjall. Í þokunni birtist okkur gríðarstór fugl á steini. Hrifin og uppnæm virtum við fyrir okkur þessa sjón - bæði með berum augum og kíki. Gott ef ekki blasti líka við myndarlegur laupur og fjöldi arnarunga. Þegar nær dró, minnkaði skepnan - og loks - þegar við vorum alveg komin að fuglinum flaug hann ropandi á braut. Þetta var þá rjúpa.
Um þetta var ort:
- Á Straumnesfjallið stikar greitt,
- stafir blika og skína,
- gönguhópur, brosir breitt
- með bakpokana sína.
- Í gegnum þoku grilltum þar,
- gáttuð eins og börn,
- hvar á stórum steini var
- stæðilegur ÖRN.
- Enginn þó að öðrum laug
- eða bar við skopi
- fyrr en óvænt fuglinn flaug
- með fjaðrabliki og ROPI.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Logandi harðsperrur - fimmtugsafmæli og fleira
16.6.2008 | 12:46
Nú sit ég með logandi harðsperrur og strengi eftir að hafa gengið á Esjuna ásamt vinafólki á sunnudaginn í yndislegu veðri og frábæru útsýni. Jamm, það var lokahnykkurinn á frábærri borgardvöl í "sumarbústaðnum" okkar á Framnesvegi.
Já, þannig er það nú með okkur hjónin, að líf okkar skiptist í meginatriðum á milli tveggja heima, má segja: Vestfjarða og Reykjavíkur. Okkar sumarhús er ekki inni í skóglendi einhversstaðar utan þéttbýlis, heldur stendur það á horni Holtsgötu og Framnesvegar, innan um önnur hús í Vesturbæ Reykjavíkur.
Í þetta gamla hlýlega hús, sem við höfum átt í 19 ár, sækjum við einatt hvíld og upplyftingu með þeim vinum og ættingjum sem tilheyra hinum Reykvíska hluta lífs okkar - auk þess sem það er aðsetur okkar í vinnuferðum og erindum ýmiskonar.
Tilefnið að þessu sinni var fimmtugsafmæli eiginmannsins, þann 13. júní síðastliðinn. Hann vildi lítið láta fyrir sér fara á afmælisdaginn og var því "að heiman" (þ.e. ekki á Ísafirði) en þó "heima við" (á Framnesveginum). Þetta var rólegur en skemmtilegur afmælisdagur, því vinir og kunningjar litu við í tilefni dagsins og þáðu léttu léttar veitingar. Ekkert formlegt, bara afslappað rennerí og innlit fram eftir kvöldi.
Sjálf afmælisveislan verður svo haldin síðar - því ég stefni að því að ná honum í haust. Þá langar okkur að halda sameiginlega afmælisveislu með tilheyrandi húllumhæi hérna fyrir vestan.
Í augnablikinu er ég sumsé gift "eldri" manni sem kominn er á sextugsaldur. ÉG ætla að njóta þess næstu tvo og hálfan mánuðinn að vera bara rétt rúmlega fertug - þ.e. "unga konan" í sambandinu.
Hér sjáið þið afmælisbarnið með frumburði sínum, henni Sögu, dóttur okkar. Nú er aldursmunur þeirra tveggja (24 ár) orðinn minni en aldur hennar (26 ár). Já, svona líður lífið.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Sumar í borginni
12.6.2008 | 12:31
Nokkrir góðir dagar í Reykjavík standa yfir núna. Við hjónakornin brugðum okkur af bæ og höfum verið í borgarleyfi þessa viku. Þá sjaldan við gefum okkur tíma í bænum er svosem alltaf nóg að gera. Við höfum verið að dytta að húsinu okkar hér á Framnesveginum, hirða garðinn og stússast. Þannig að "frí" er auðvitað ekki rétta orðið yfir þessar borgardvalir. En það samt afslappandi að taka til hendi þegar tími gefst til og ákveðin hvíld að fást við eitthvað annað en atvinnuna (þó hún sé nú sjaldnast langt undan).
Veðrið hefur leikið við okkur og fyrir vikið kemur maður ekki eins miklu í verk og upphaflega var áætlað. En hvað um það - sólin skín og nú er sumar í borginni.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Guð er að bjóða góða nótt - í geislum sólarlagsins
12.6.2008 | 00:06
Var að koma af björgunarhundaæfingu á Geithálsi í kvöld. Það var yndislegt veður, skafheiður himinn og kvöldsólarljómi yfir Heiðmörk og Hellisheiði. Frábært útsýni.
Æfingin gekk vel - gaman að hitta Reykvísku félagana svona af og til þegar maður er staddur í Höfuðborginni.
En veðurdýrðin varð til þess - þar sem ég stóð efst á Geithálsinum og virti fyrir mér sólarlagið við sjóndeildarhringinn - að rifjaðist upp fyrir mér undurfögur vísa eftir Trausta Reykdal:
- Þýtur í stráum þeyrinn hljótt
- þagnar kliður dagsins.
- Guð er að bjóða góða nótt
- í geislum sólarlagsins.
Góða nótt gott fólk.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bakþanki um hvítabjörn
3.6.2008 | 19:54
Hvítabirnir geta verið afar blíðlyndir. Eins þetta myndskeið sýnir getur farið mjög vel á með hundum og ísbjörnum (smellið hér) - þó ég myndi sjálf ekki kæra mig um þau groddalegu blíðuhót sem seppi fær þarna.
En ég er hugsi yfir atburðum dagsins. Sérstaklega finnst mér upplýsingar misvísandi um hættuna sem myndaðist á vettvangi. Myndskeiðið sem sýnt hefur verið á mbl og sjónvarpsstöðvunum bendir ekki til þess að björninn hafi verið í árásarham. Gagnrýni héraðsdýralæknisins á Blönduósi sem segist hafa haft deyfilyf í bílnum hjá sér og til þess gerða byssu að skjóta því finnst mér athyglisverð, svo ekki sé minna sagt.
Hvers vegna lokaði ekki lögreglan veginum og setti vakt á dýrið? Þeir fóru þarna margir saman að birninum og fóru ekki dult. Var að furða þó bangsi yrði þeirra var - yrði forvitinn og gæfi þeim nánari gaum?
Ég efast ekkert um góðan vilja - en ég held að þarna hefði mátt standa faglegar að verki, sérstaklega á vettvangi. Þar hafa menn líklega ofmetið hættuna sem stafaði af birninum. Þeir hafa jafnvel sjálfir aukið á hættuna með mannaferðum og ónæði fyrir björninn.
Aftur á móti er umhverfisráðherra í afar erfiðri stöðu að þurfa að taka ákvörðun á grundvelli þess hvernig aðstæður eru metnar á vettvangi að henni fjarstaddri. Sjálf hefði ég trúlega gert það sama og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þ.e. að taka gilt mat viðstaddra á aðsteðjandi hættu. Annað hefði verið ófyrirgefanlegt. Trúlega hefðu allir tekið sömu ákvörðun miðað við þær upplýsingar sem veittar voru.
En ... ég er hrædd um að kunnáttuleysi þeirra sem voru á staðnum - og hræðsla - hafi ráðið mestu um það hvernig fór.
Ill nauðsyn - eða hvað?
3.6.2008 | 13:01
Sorgleg endalok voru það að björninn skyldi felldur - en ill nauðsyn er ég hrædd um. Ekki hefði ég viljað vera þarna og sjá dýrið koma á móti mér.
Athugasemdir héraðsdýralæknisins á Blönduósi eru þó umhugsunarefni (sjá hér ) og þær vekja spurningar um hvort raunverulega hafi verið vilji til þess að ná birninum lifandi.
Fram kom í fréttum að það hefði tekið sólarhing að fá deyfilyf til landsins til þess að svæfa dýrið - og af því mátti skilja að vá hafi verið fyrir dyrum að ætla að bíða svo lengi með lausan ísbjörn á vappi um hlíðar Þverárfjalls. En .... var þetta athugað nógu vel? Héraðsdýralæknirinn segist vera með svona deyfilyf í bílnum hjá sér. Líka byssuna sem til þarf!
Eiginlega finnst mér að deyfilyf af þessu tagi eigi að vera tiltækt á lögreglustöðvum landsins og/eða hjá héraðsdýralæknum. Og varla getur verið svo mikið mál að koma því þannig fyrir.
Eiginlega finnst mér líka að það þyrfti að vera til viðbragðsáætlun fyrir uppákomur af þessu tagi. Hvítabirnir eru alfriðaðir - við getum alltaf átt von á því að þeir gangi á land hér, þó það gerist ekki oft.
Þá er vel hugsanlegt að grípa þurfi til svæfingarlyfja með skömmum fyrirvara vega fleiri dýrategunda en ísbjarna. Ég minnist þess þegar hreindýrskýr gat ekki losnað frá kálfi sínum og gekk með hann í burðarliðnum meðfram veginum í Fellahreppi á Fljótsdalshéraði um árið. Framan af þorði enginn að fella dýrið af því það var ekki veiðitímabil - og engin deyfibyssa var tiltæk heldur. Kýrin var þó skotin um síðir, en þá var hún búin að ganga sárkvalin sólahringum saman og var að dauða komin.
Gætu stjórnvöld til dæmis ekki átt samstarf við alþjóðleg náttúruverndarsamtök um viðbrögð og aðgengi að sérfræðingum þegar eitthvað þessu líkt kemur upp? Ég segi nú svona.
Ísbjörninn felldur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Komin aftur :-)
3.6.2008 | 00:09
Jæja, þá er ég nú komin aftur að tölvunni - eftir laaaangt blogghlé, heila fimm daga. Það liggur við að ég finni fyrir andlegum harðsperrum eftir hvíldina.
En það sem hefur á daga mína drifið, frá því ég skrifaði síðast færslu hér, er nú ýmislegt, skal ég segja ykkur.
Tengslanetið á Bifröst
Á fimmtudag skellti ég mér suður til þess að vera mætt síðdegis á tengslanets-ráðstefnuna á Bifröst. Aldeilis hreint frábær ráðstefna og vel skipulögð hjá Herdísi frænku minni, sem á veg og vanda af þessu framtaki - nú í fjórða skipti, að ég held. Þarna voru 500 konur saman komnar og engin smá orka sem leystist úr læðingi -- 6,1 á Richtersskala, eins og íbúar Suðvesturhornsins urðu varir við þegar jörðin skalf þennan sama dag. Raunar missti ég af þessu eiginlega, því ég sat með Maríönnu vinkonu minni í bíl á leið milli Borgarness og Bifrastar. Við urðum ekki varar við neitt.
Dásamlegur dagur við Þingvallavatn
Jæja, að lokinni þessari orkumiklu ráðstefnu átti ég svolitla eftirráðstefnu með Maríönnu og Ragnheiði vinkonu, sem var illa fjarri góðu gamni (ein af þeim sem sat föst á flugvelli á Spáni vegna flugtafa hjá Heimsferðum). Við vinkonurnar þrjár skelltum okkur í sund á laugardagsmorgninum og síðan í hádegismat þar sem farið var yfir helstu tíðindi Tengslanetsins og spjallað um heima og geima.
Þegar skikkanlega var liðið á morguninn reyndi ég að ná sambandi við Dodda minn því mig langaði að hitta Daða ömmustrák. Enginn svaraði á því heimilinu þannig að ég ákvað að kíkja í kaffi til Möggu vinkonu. Hún dreif mig með sér í sumarbústað fjölskyldunnar við Þingvallavatn þar sem ég eyddi deginum ásamt hennar fólki. Konurnar í þessari fjölskyldu eru þvílíkir listakokkar að maður fær samstundis matarást á þeim - sérstaklega Guðrún "systir" (Möggu) og Erla "mín" (lesist, dóttir Möggu). Þeim brást ekki bogalistin að þessu sinni frekar en vanalega.
Útkallsæfing á Hellisheiði
Óguðlega snemma á sunnudagsmorgni, eða fyrir klukkan níu, var ég svo mætt á útkallsæfingu Björgunarhundasveitar Íslands á Hellisheiðinni þar sem ég lá milli þúfna og var "týnd" drjúgan hluta dags en "fannst" þó um síðir af kátum en lafmóðum Labrador-hundi sem slefaði yfir mig alla, aldeilis hróðugur með frammistöðu sína. Þetta var hann Funi, blessaður - kátur hundur og síhress. Blíða fékk svo að taka æfingu í lokin, og það gekk bara bærilega hjá henni.
Eftir æfinguna pakkaði ég pjönkum mínum og brunaði með Auði stallsystur minni og félaga í Vestfjarðadeild BHSÍ á björgunarsveitarbílnum vestur á Ísafjörð. Með í för voru Sigrún, dóttir Auðar og Heiðdís vinkona hennar. Við spjölluðum mikið á leiðinni og bruddum nammi. Stelpurnar pískruðu í aftursætinu en við Auður tókum okkar hefðbundnu kjaftatörn á þessari leið. Villtumst þó ekki núna eins og einu sinni þegar við kjöftuðum frá okkur allt vit en ég tek skýrt fram að það var í niðamyrkri um hávetur.
Ekkert bloggað af viti
Sumsé - ég var orðin lúin þegar ég kom heim með hundabúrið um miðnættið í gær. Dagurinn í dag fór svo í að vinna upp ýmsa hluti, svo ég hef "ekkert" bloggað enn. Og það verður "ekkert" bloggað fyrr en á morgun. Á alveg eftir að setja mig inn í alla hluti.
Sjáumst.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vel heppnað "útkall" á Skálavíkurheiði
19.5.2008 | 10:07
Í gær tókum við útkallsæfingu á Skálavíkurheiði og Tungudal ofan Bolungavíkur. Þegar ég segi "við" á ég við félagana í Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands og Björgunarfélag Ísafjarðar en sveitirnar tvær efndu sameiginlega til þessarar æfingar.
Við settum á svið leit að fjórum týndum einstaklingum - kærustupari sem hafði átt að koma fótgangandi frá Skálavík en borið af leið, og feðrum þeirra sem höfðu ákveðið að fara til móts við þau á sunnudagsmorgni. Samkvæmt sögunni átti parið að hafa náð símsambandi við foreldra sína á fjallshryggnum milli Skálavíkurheiðar og Tungudals svo ekki var "vitað" hvorumegin skyldi leita þeirra.
Þrjú hundateymi tóku þátt í leitinni. Allt unghundar sem voru að þreyta sína fyrstu þrekraun í "útkalli". Aðgerðastjórn var í höndum félaga úr báðum sveitum. Að þessu sinni var ég í skipulagsteyminu sem stjórnaði æfingunni, enda er minn hundur ekki tilbúinn ennþá í svona stórræði.
Æfingin tókst í alla staði vel - og það var ótrúlega gaman að sjá hundana vinna úr þessu verkefni, þessar elskur. Hundar eru frábært fyrirbæri þegar kemur að leitum. Lyktarskyn þeirra, hraðinn, vinnueinbeitingin. En sumir þeirra voru orðnir ansi þreyttir í lokin.
"Útkallið" barst kl. 13:09. Hálftíma síðar voru hundateymin komin á staðinn. Kl. 14:00 var búið að skipuleggja og skipta leitarsvæðum og hundarnir lagðir af stað. Fyrsti maðurinn fannst kl. 14.30 og sá síðasti laust fyrir kl. hálf fimm. Leitin í heild sinni tók því tvo og hálfan tíma sem þykir góður árangur. Leitarskilyrði voru góð, rigningarsúld en þokkalegur vindur. Hið síðarnefnda skiptir máli þegar hundar eru við leit því þeir taka lykt af fólki með veðri.
Í Vestfjarðadeild BHSÍ á Ísafirði eru alls sjö hundateymi. Hundarnir sem notaðir voru að þessu sinni eru allt ungir hundar sem hafa verið í þjálfun undanfarin tvö ár. Félagar úr unglingadeild Björgunarfélags Ísafjarðar aðstoðuðu í æfingunni. Þeir gengu svæðið eða léku ´"týnda" fólkið, eftir því sem þurfa þótti og stóðu sig í alla staði vel.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fermingarundirbúningur
2.5.2008 | 17:30
Þessa dagana snýst allt um fermingu yngsta sonarins sem verður á sunnudag, austur í Landsveit. Nánar tiltekið í Skarðskirkju. Þar ætlar hún Halldóra systir mín að ferma þá saman systrasynina Hjörvar (minn) og Véstein (hennar), rétt eins og hún skírði þá báða í sömu kirkju fyrir tæpum fjórtán árum.
Messan í Skarðskirkju verður helguð þeim frændum því þeir verða einu fermingarbörnin í kirkjunni þann daginn. Við vonumst því til að sjá sem flest ættmenni og vini við fermingarathöfnina sjálfa.
Veislan verður svo haldin í Laugalandi í Holtum i beinu framhaldi af messunni - svo það má segja að þetta sé allt í leiðinni fyrir þá sem á annað borð gera sér ferð austur til að vera með okkur.
Jebb ... þannig að nú er fjölskyldan komin á Framnesveginn þar við erum svona að búa okkur undir herlegheitin. Ljósmyndataka í fyrramálið - svo verður farið austur að setja saman kransatertur, leggja á borð og gera klárt fyrir gestina á Sunnudag.
Það verður því lítið bloggað fyrr en eftir helgi - ef að líkum lætur.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Gleðilegt sumar
24.4.2008 | 20:56
Gleðilegt sumar bloggvinir og lesendur góðir. Það eru víst síðustu forvöð að brúka mannasiðina og óska gleðilegs sumars, svona áður en sól hnígur til viðar á þessum fyrsta degi sumars.
Ég hef það mér til afsökunar að hafa verið vant við látin í allan dag. Sem stjórnarmaður í Menningarráði Vestfjarða var ég við þau ljúfu skyldustörf að vera viðstödd afhendingu á styrkjum til 48 menningarverkefna sem menningarráð hefur úthlutað að þessu sinni. Afhendingin fór fram á Hólmavík þar sem mikið var um dýrðir í dag. Hólmvíkingar eru að taka í notkun nýtt Þróunarsetur sem jafnframt var til sýnis fyrir almenning, svo það fór vel á því að tilkynna um úthlutun menningarráðs af sama tilefni. Athöfnin fór fram í félagsheimilinu þar sem ungmenni staðarins skemmtu gestuM með brotum úr uppfærslu leikfélagsins á Dýrunum í Hálsaskógi. Boðið var upp á kaffi og tertur og allir í hátíðarskapi.
Sólin skein og fánar blöktu við hún. Þetta var reglulega góður dagur.
ps: Munið svo eftir að taka eftir því hvernig ykkur verður svarað í sumartunglið - megi það vita á gott.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)