Færsluflokkur: Lífstíll
Menntun er meðalið!
3.12.2008 | 23:33
Þegar atvinnuleysi og atgerfisflótti eru raunveruleg vá fyrir dyrum í litlu samfélagi er aðeins eitt að gera: Láta þekkinguna flæða. Mennta fólkið! Gefa því kost á endurmenntun, framhaldsmenntun, háskólamenntun, nýrri menntun ... já, bara menntun, hvaða nafni sem hún nefnist.
Menntun og þekkingarflæði eru eini raunhæfi kosturinn sem þjóðin á til að rækta mannauð sinn, halda honum við, halda fólkinu "í formi" ef svo má að orði komast. Maður sem verður atvinnulaus getur nýtt þau tímamót til þess að byggja upp nýja hluti í lífi sínu. Til dæmis að klára doktorsritgerðina sem hefur árum saman legið í skúffunni; taka vélastjórnarréttindin sem aldrei voru tekin; meiraprófið; ljósmóðurnámið; frumgreinanámið; skipstjórnarréttindin sem hann/hún hefur lengi látið sig dreyma um ... o. s. frv.
Það er ekkert meðal betra á þeim tímum sem við lifum en menntun.
Á málþingi sem Byggðastofnun hélt um nýja byggðaáætlun s.l. föstudag flutti ég erindi um gildi menntunar fyrir landsbyggðina. Þetta var svona eldmessa sem ég nefndi "Háskóla í hvert hérað!" og þið getið lesið í heild sinni HÉR ef ykkur langar (glærurnar eru hér).
Í stuttu máli sagt þá lagði ég út af þeim sjálfsögðu réttindum ungs fólks að geta sótt grunn- og framhaldsskóla í heimahéraði. Þetta þykir öllum eðlilegt nú, þó það hafi ekki alltaf þótt. En hvenær mun þykja jafn sjálfsagt fyrir ungt fólk að sækja háskólanám á heimaslóðum - þó ekki væri nema grunnháskólanám?
Hugsið um það.
Þetta er dulítil undantekning frá annars góðu bloggfríi sem nú hefur staðið í heila fimm daga. Lifið heil, kæru lesendur mínir.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvar eru nú handtökuheimildirnar?
26.11.2008 | 17:10
Hvar er nú efnahagsbrotadeild lögreglunnar? Hvar eru handtökuheimildir lögreglunnar? Það vantar ekki að hægt sé að taka krakkagrey og hneppa í varðhald fyrir það að mótmæla á almannafæri. En menn sem misnota aðstöðu sína og vitneskju - misfara með það traust sem þeim er sýnt - til þess að draga sér fé, þeir ganga lausir. Ekki nóg með það, þeir eru sérstakir ráðgjafar stjórnvalda og látnir starfa með skilanefndunum sem eiga að gera upp verkin þeirra.
Ræningjar á rannsóknavettvangi.
Eigendur Landsbankans og Glitnis láta peningamarkaðssjóði bankanna kaupa í fyrirtækjum sem þeir eiga persónulega þegar þeir sjálfir eru komnir í lausafjárþröng, eins og það er orðað. Þeir nota fjármuni viðskiptavina bankans til þess að bæta sér upp persónuleg blankheit. Fyrirgefið, en þetta er í reynd ekkert annað en innherjaþjófnaður - fjármunir færðir úr sjóðum viðskiptamanna yfir í veski stjórnenda.
Svo voga skilanefndirnar sér að hylma yfir með þessum mönnum og skjóta þeim á bak við bankaleynd.
Hvar er nú dómsmálaráðherra með allar sínar sérsveitir? Af hverju er ekki ruðst inn með dómsúrskurði og gögn gerð upptæk til að upplýsa þetta mál, eins og menn gera þegar grunur leikur á um skattsvik?
Þvílíkt og annað eins.
Burt með þetta spillingarlið - þessa afbrotamenn!
Notuðu peningamarkaðssjóði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 17:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
En útrásarvíkingarnir?
25.11.2008 | 01:02
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Eru mótmælin að þróast í múgæsingu?
24.11.2008 | 12:04
Eru mótmæli Íslendinga að breytast í múgæsingu? Ég velti því fyrir mér eftir atburðina við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Fréttamyndir af vettvangi skjóta manni skelk í bringu.
Hugsanlega hefði lögreglan getað leyst þetta mál betur - til dæmis með því að láta einhvern koma út og tala við fólkið. Þó er ég ekki viss, svona eftir á að hyggja. Enda verð ég að segja að þeir sem brjóta rúður og ráðast til inngöngu með steinhellur á lofti geta nú varla búist við því að þeim sé boðið í kaffi þegar inn er komið. Hvað hélt fólk að lögreglan myndi gera? Auðvitað máttu menn vita að hún myndi verja húsið.
Svo kom drengurinn út - eins og skæruliðaforingi með klút fyrir andlitinu. Lítið bara á þessa fréttamynd hér fyrir ofan. Það mætti halda að hún væri tekin í Palestínu.
Nei, atburðarásin er að verða einhvernvegin hálf óraunveruleg. Það er átakanlegt að sjá nú myndir af fólki sem ber menjar eftir piparúða lögreglunnar. Við Íslendingar eigum ekki að venjast átökum sem þessum, enda siðmenntuð þjóð að því talið er.
Hitt er svo annað mál að ég gef lítið fyrir skýringar lögreglu á handtöku piltsins. Þeir voru greinilega að ögra mótmælendum með þessu. En þeir gera það vonandi ekki aftur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Á skítahaugum geta vaxið blóm ...
19.11.2008 | 23:26
Nýja Ísland - listin að týna sjálfum sér, nefnist bók eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og bloggara. Eintak af þessari bók datt inn um bréfalúguna hjá mér fyrir skömmu og ég fór að blaða í henni. Það endaði með því að ég las hana spjaldanna á milli og var rétt í þessu að leggja hana frá mér. Ég mæli með henni.
Í þessari bók skoðar Guðmundur "íslenska efnahagsundrið" - hvers afleiðingar við erum að kljást við nú um stundir. Hann leitast við að greina þær breytingar sem orðið hafa í íslensku samfélagi á síðustu áratugum og allt fram á þennan dag: Hvernig hugarþel þjóðarinnar og gildismat hafa birst frá einum tíma til annars m.a. í löggjöf, opinberri umræðu, viðskiptaháttum og samskiptum.
Sú athugun leiðir ýmislegt óþægilegt í ljós, m.a. hvernig gildi hins "stéttlausa" samfélags hafa smámsaman molnað og morknað; hvernig samkennd og samheldni hafa látið undan í okkar litla samfélagi; hvernig auðmenn og fyrirtæki hafa öðlast meiri völd og áhrif á ýmsum sviðum þjóðlífsins en þeim er hollt. Á sama tíma hefur almannavaldið orðið veikara og vanbúnara að takast á við breyttar aðstæður, auk þess sem hin glöggu skil sem áður voru milli markaðarins (veraldar viðskipta) og samfélagsins (veraldar almannavalds og menningarverðmæta) verða sífellt óljósari.
Já, íslenska efnahagsundrið hefur ekki orðið okkur sú gæfa sem efni og vonir stóðu til. Útrásartíminn var vissulega tími kappsemi og atorku líkt og þegar Íslendingar brutust úr fátækt og kyrrstöðu á fyrstu áratugum 20. aldar. En eins og höfundur bendir réttilega á báru eldri kynslóðir þó "gæfu til þess að varðveita og rækta lífsviðhorf sem tryggðu samheldni og samkennd þjóðarinnar á því mikla breytingaskeið sem gekk yfir". Í markaðshyggjuákafanum síðustu ár hafa þessi gildi orðið undir - gildin sem þó eru "svo mikilvæg fyrir starfrækslu þjóðfélags".
Þarna skilur höfundur við okkur með spurningum sem lúta að afdrifum og endurheimt hinna horfnu gilda.
Að lestri loknum fór ég að hugsa um hrun og endurreisn. Það er nefnilega þannig að á öllum skítahaugum vaxa blóm. Fegurð þeirra og gagn veltur bara á því hvaða fræjum er sáð.
Spurningin núna er sú, hvort okkur tekst að sá réttu fræjunum í þann haug sem blasir við. Tekst okkur að endurheimta og sá að nýju traustum gildum á borð við samkennd, samhjálp og mannúð? Það er hin stóra spurning - hið stóra verkefni sem bíður okkar allra.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Til ykkar sem ætlið að mótmæla í dag ...
15.11.2008 | 10:32
... klæðið ykkur vel. Munið eftir föðurlandinu, húfunni, treflinum og ullarvettlingunum. Það hefur oft viðrað betur á mótmælendur en í dag. Verið svo málstaðnum til sóma - ég verð fjarri góðu gamni, en með í andanum.
Burt með spillingarliðið!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Misræmi í upplýsingum ráðherra - og: Burt með spillingarliðið!
10.11.2008 | 12:39
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum varðandi aðkomu hennar og eiginmanns hennar að viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi og ráðstöfun skulda í framhaldi af því.
Ráðherrann sagði fyrir fáum dögum að það væri óþolandi fyrir sig og sinn mann að efasemdir væru uppi um stöðu þeirra í þessu máli. Ég er sammála ráðherranum um þetta. Þess vegna verður hún að gera hreint fyrir sínum dyrum - og satt að segja er ég undrandi á fjölmiðlum að ganga ekki harðar fram í því að upplýsa um aðkomu ráðherrahjónanna að hinum umdeildu hlutafjárvipskiptum stjórnenda Kaupþings. Fréttir herma að þau hjónin hafi keypt hlutabréf fyrir um hálfan milljarð króna.
Fram hefur komið að Kristján Arason, eiginmaður ráðherra, stofnaði einkafélag fyrr á þessu ári og að kaup hans á hlut í Kaupþingi áttu sér stað í gegnum það félag. Ráðherrann segir "langt síðan" félagið var stofnað (sjá hér). Þó er ekki lengra síðan en í febrúar síðastliðnum (sjá hér).
Menntamálaráðherrann segir að þau hjónin hafi sett allan sinn "sparnað" í félagið. Hún upplýsir ekki hvaða sparnað er þar um að ræða - og það sem mér finnst áhyggjuefni, hún er ekki spurð af fjölmiðlum. Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður hefur að vísu hreyft þessu máli í þinginu (sjá hér), en svör hafa ekki fengist enn. Í blaðaviðtölum er ýmist ýjað að því að þau hjónin hafi keypt hlutabréf fyrir sparnað sinn (sem þau hafi tapað - sjá hér ) eða þau hafi tekið lán sem ekki hafi verið "strokað út" eins og það er orðað (sjá hér). Upplýsingarnar eru misvísandi.
Nú er vitað, að ákveðnir stjórnendur í Kaupþingi fóru þá leið að stofna félög sem önnuðustu kaupin á hlutabréfum í bankanum. Með því móti gátu þeir hirt gróðann af bréfunum - hefði hann orðið einhver - en látið félagið sitja uppi með skuldirnar ef bréfin hefðu orðið verðlaus. Ekki verður annað séð en að félagið sem Kristján Arason, eiginmaður ráðherra, stofnaði, hafi einmitt verið sett á laggirnar í þessu skyni. Að minnsta kosti var hann "fámáll" um tilgang og starfsemi félagsins, þegar það var stofnað fyrr á þessu ári (sjá hér).
Menntamálaráðherra segir í fyrrgreindum fréttaviðtölum að nú verði allir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Það er rétt.
Gott væri ef menntamálaráðherra gengi þá á undan með góðu fordæmi og skýrði misræmið í þeim upplýsingum sem hún sjálf hefur veitt og leggði þar með "allt upp á borðið" svo notuð séu hennar eigin orð.
Þessar fallegu vísur fékk ég sendar í tölvupósti frá vinkonu minni í morgun. Ljóði er eftir skáldkonuna Unni Sólrúnu sem hefur ort margt fagurt um lífið og tilveruna og birt á heimasíðu sinni. Ég má til að deila þessu með ykkur.
Með boðskapnum birti ég þessa fallegu mynd sem félagi minn Ágúst G. Atlason tók í Önundarfirði í fyrra.
Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður,
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður.
Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.
Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti,
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.
Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur,
faðma þennan morgun og allar hans rætur,
hita mér gott kaffi, af kærleik þess ég nýt.
Kexið smyr með osti, í blöðin svo ég lít.
Að endingu ég segi við þig sem þetta lest:
Þetta er góður dagur, hafðu það sem best.
Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni.
Faðmlag þér ég sendi, og kveð þig nú að sinni.
Megi dagurinn verða ykkur góður.
Og burt með spillingarliðið - hvar í flokki sem það stendur!
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Styðjum björgunarsveitirnar!
1.11.2008 | 12:19
Í þessum skrifuðu orðum er ég á leiðinni niður í bæ að selja Neyðarkallinn með unglingunum í Björgunarfélagi Ísafjarðar. Síðast var Neyðarkallinn lítil kelling - svona til að minnast þess að björgunarsveitir landsins eru þéttskipaðar konum ekkert síður en körlum. Kallinn í ár er voða sætur, eins og þið sjáið - með hvíta hjálminn sinn í rauða gallanum - fínasta lyklakippa!
En Neyðarkallinn er fáröflunarátak sem er að fara af stað á vegum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar nú um helgina um allt land undir yfirskriftinni: Neyðarkall frá björgunarsveitum.
Fjáröflun er björgunarsveitunum mikilvæg þar sem rekstur þeirra, þjálfun björgunarmanna og kostnaður við útköll byggist á slíkum fjáröflunum.
Annars er það að frétta af Björgunarfélagi Ísafjarðar að það fagnar í dag fagnar 10 ára afmæli sínu. Af því tilefni verða ýmsar ýmsar uppákomur, opið hús í Guðmundabúð, myndataka af öllum félagsmönnum, veisla í kvöld og fleira skemmtilegt.
En fyrst er nú að selja Neyðarkallinn - og nú ætla ég að drífa mig af stað.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Farin af landi brott ...
17.10.2008 | 12:02
... til Póllands. Sit nú og bíð þess sem verða vill varðandi flugáætlunina, brottförinni var seinkað um fjóra tíma.
Ég var svo heppin að eiga svolítinn gjaldeyri inni á reikningi sem ég hef nú kroppað út úr bankanum. Það er auðvitað undarlegt að þurfa að standa auðmjúkur á svip með farseðla í hönd og biðja um að fá að taka út sína eigin peninga. En svona er þetta nú samt.
Ef ég hefði ekki átt þessa aura, hefði ég auðvitað ekkert farið í þessa ferð, því ekki dettur manni í hug að kaupa gjaldeyri eins og á stendur. En ... við vorum fyrir löngu búin að borga sjálfa ferðina, þannig að ... við ætlum bara að skella okkur. Verðum í Kraká.
Það er ágætt að yfirgefa landið í nokkra daga núna - komast í burtu og sjá eitthvað annað en fallandi útvalsvísitölur, gröf yfir gengissveiflur og fréttir af atvinnuleysi og verðbólgu. Segi það satt.
Ætla að vera í bloggfríi á meðan - en þið sem kíkið inn á síðuna mína getið dundað ykkur við að skoða þessa upprifjun Kastljóssins á útrásarævintýrinu (smellið hér).
Svo er bara um að gera að berja sér á brjóst og minnast þessa að um æðar okkar rennur blóð stoltra bænda, sjómanna og víkinga aftur í aldirnar. Við kreppum hnefana þegar á móti blæs, bönkum á brjóstkassann ... og svo ... banka - kreppa - banka - kreppa ...
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)