Færsluflokkur: Lífstíll
Þeir sem aldrei þekktu ráð ...
8.10.2008 | 23:32
Nú er svo komið að það er einhvern veginn ekki um neitt að blogga. Maður er eins og þurrausinn eftir það sem á undan er gengið - búinn að tapa smáræðinu sem maður átti í Glitni. Hver veit nema meira tapist síðar. Kannski er þetta bara byrjunin, hvað veit ég?
Eins og stundum þegar syrtir í álinn, seildist ég í ljóðasöfnin mín kvöld í leit að einhverju sem gæti hýrgað andann eins og ástatt er. Nú brá svo við að ég fann ekkert sem mér líkaði. Ekkert sem gaf mér andagift í eins og eina bloggfærslu - enda hafa ljóðskáld þjóðarinnar varla staðið í þeim sporum sem við Íslendingar stöndum í núna.
Þá rifjaðist upp fyrir mér vísan eftir Egil Jónasson á Húsavík og Friðrik Jónsson landspóst á Helgastöðum í Reykjadal (sjá PS neðar) sem þeir félagarnir ortu í sameiningu:
Upp er skorið, engu sáð
allt er í varga ginum.
Þeir sem aldrei þekktu ráð
þeir eiga'að bjarga hinum.
Þar með fann ég jarðtengingu á nýjan leik - og mér varð hugsað til fjármálaráðgjafanna sem undanfarin ár hafa í sjálfumgleði sinni sagt mér og fleirum fyrir verkum varðandi ráðstöfun þeirra takmörkuðu umframaura sem við höfum sum hver haft undir höndum, viðbótarlífeyrissparnaðinn og eitthvað fleira. Ekki hafa þeir nú allir reynst heilráðir blessaðir.
Sjálf hef ég svosem ekki verið neinn fjármálasnillingur heldur - enda búin að brenna mig svolítið. Ekki mikið sem betur fer - kemst vonandi hjá frekari brunasárum í framtíðinni.
Jamm ... allt leitar jafnvægis um síðir. Munum það bara.
---------
PS: Þegar ég setti þessa vísu fyrst hér inn sagði ég að hún væri eftir Sigmund Sigurðsson úrsmið á Akureyri - en hann er skráður fyrir vísunni á vef Skjalasafns Skagfirðinga.
Vinur minn, Baldur Jónasson (sonarsonur Egils) hafði samband við mig og benti mér á að vísan væri ranglega eignuð Sigmundi. Vísan mun hafa birst í minningargrein um Sigmund og þar ranglega eignuð honum.
Lífstíll | Breytt 9.10.2008 kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laufið titrar - loga strá
5.10.2008 | 10:03
Við Ísfirðingar erum í alveg sérstöku sambandi við sólina - ástæðan er sú að sólskin er meðal þeirra lífsgæða sem okkur eru takmörkuð. Sólin hverfur héðan úr Skutulsfirðinum síðari hluta Nóvembermánaðar og kemur ekki aftur fyrr en 25. Janúar. Þess vegna kunnum við að meta sólina - höldum henni sérstaka sólrisuhátíð þegar hún birtist á nýju ári - vegsömum hana.
Síðustu daga hefur lítið sést til sólar. En í gær, braust hún skyndilega fram úr skýjum. Það var svo undarlega gott að finna fyrir geislum hennar í haustlogninu - finna nærveru hennar, og minnast þess að hún er alltaf á sínum stað, jafnvel þó maður sjái hana ekki fyrir fjöllum og skýjabólstrum.
Og þar sem ég gekk milli kjarrgreina inni í Tunguskógi í gær, og virti fyrir mér litadýrð haustsins í sólskininu, rifjaðist upp fyrir mér vísukorn sem ég einhverntíma orti við álíka aðstæður:
Laufið titrar, loga strá
lyngs á rjóðum armi.
Hneigir sólin höfga brá
að hafsins gyllta barmi.
Myndina hér fyrir ofan fékk ég á bloggsíðu Ásthildar Cecil Þórðardóttur, bloggvinkonu minnar.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Nú er ráðskonurass á minni
4.10.2008 | 13:56
Í gær setti ég frystikistuna í samband í fyrsta skipti í fjögur ár. Já, hún hefur blessunin fengið að sofa þyrnirósarsvefni í geymslunni hjá mér allan þann tíma.
Þar sem ég síðar um daginn raðaði í kistuna og skápana hjá mér slátri, súpukjöti, mjölvöru, sykri og fleiru sem möl og ryð fá að vísu grandað seint um síðir, en geymist engu að síður vel við góð skilyrði í frosti og köldum búrgeymslum - þá upplifði ég gamla og næstum gleymda tilfinningu frá því ég var með fullt hús af börnum, efnalítill námsmaður. Það er þessi djúpa, frumstæða þægindatilfinning sem fylgir því að hlaða forðabúrið fyrir veturinn og vita af mat á heimilinu.
Þetta gerði ég árum saman meðan börnin voru lítil. Þá var tekið slátur á hverju hausti og hlaðið niður heilu og hálfu skrokkunum af spaðkjöti, soðinni kæfu, rabarbarasultu og berjasaft. Á haustin keypti maður inn mjölvöru og sykur - bakaði svo og matreiddi til vetrarins. Svo dró maður fram prjónana og prjónaði hosur, vettlinga, húfur, trefla og peysur af hagsýnni vinnugleði.
Aldrei gleymi ég þó blessuðu litla folaldinu sem varð búbjörg fjölskyldunnar eitt haustið á mínum fátækustu námsárum.
Ég hef aldrei getað borðað hrossakjöt að neinu gagni - enda hef ég hingað til átt hross að reiðskjótum og félögum. En þarna bjuggum við fimm í 36 fermetra íbúð á stúdentagörðum. Við vorum við svo blönk, ungu hjónin, að ég þáði kjöt af nýslátruðu folaldi.
Það barst barst mér í svörtum plastpoka skömmu síðar - svo nýslátrað að það rauk upp úr pokanum þegar ég opnaði hann. Mig sundlaði af velgju - enda ófrísk að fjórða barni og frekar klígjugjörn. Í fyrsta skipti á ævinni féllust mér hendur - og það gerist nú ekki oft.
Grátandi tók ég upp símann og hringdi í mömmu. Hún brást mér ekki. Tók við öllu kjötinu heim til sín, breytti sínu eigin eldhúsi í kjötvinnslu, söng og trallaði fram eftir degi á meðan hún hjó í spað, hakkaði, snyrti og matbjó kjötið. Afhenti mér það svo fallega unnið daginn eftir með bros á vör, og saman komum við því fyrir í frystikistunni.
Þetta blessaða folald varð okkur mikil búbót. Það var matreitt í buff, steikur, gúllas og glás og var vitanlega herramannsmatur að flestra áliti.
En húsmóðirin sagði fátt: Settist að matborði. Hugsaði um litla barnið í móðurkviði sem þyrfti næringuna sína, og leyndi söltum tárum sem þrýstu sér fram í augnkrókana um leið og hún stakk gafflinum í safaríkan bita.
Æ - "það er saurlífi að matreiða hross!"
Úr kreppunni í hundana - stutt björgunarhundaæfing
1.10.2008 | 22:12
Í kvöld skrapp ég á stutta björgunarhundaæfingu. Það var kærkomin hvíld frá öllu krepputalinu að fara bara í útigallann og arka með lambhúshettu á höfði og hund í bandi upp hlíð.
Það var fámennt en góðmennt á æfingunni - við vorum bara tvö, ég og Skúli félagi minn sem vorum mætt að þessu sinni. Hann með Patton sinn, ég með Skutul minn - báðir bráðefnilegir Border-Collie hundar. Heima sat Blíða mín eftir, helsærð yfir því að vera ekki tekin með. Ýlfrið í henni fylgdi mér út að bíl þegar ég lagði af stað með þann stutta.
Jæja, fyrst æfðum við Skutul. Skúli faldi sig á bak við stóran stein í hlíðinni. Skutull var svo sendur af stað, þvert á vindáttina. Hann hljóp sem fætur toguðu uppi í hlíðina og leitaði vel - datt fljótlega inn í lyktina og hljóp þá til Skúla þar sem hann gelti strax nokkrum sinnum og fékk leik að launum, þar til ég kom móð og másandi á eftir honum. Hann tók þrjú svona rennsli, og gekk mjög vel í öll skiptin - enda áhugasamur og óhræddur að hlaupa út frá mér til að leita.
Patton (hér sjáið þið hann) er kominn mun lengra en Skutull, enda löggiltur björgunarhundur með B-próf. Hann er yfirferðarmikill og leitar stór svæði. Ég faldi mig fyrir hann, og meiningin var að láta hann leita undan vindi nokkurn spöl til að reyna svolítið á hann, stýra honum svo í átt að lyktarsvæðinu og leyfa honum þá að finna mig.
En Patton lét ekki plata sig. Hann var ekki fyrr kominn út úr bílnum en hann þaut af stað og rakleitt til mín. Skipti engu þó að Skúli reyndi að kalla á hann til baka - Patton lét það sem vind um eyru þjóta, enda kominn í lykt. Hann vísaði á mig með glæsibrag - og var stoltur af frammistöðu sinni, enda ástæða til.
Í seinna leitarrennslinu tókst að láta hann leita svolitla stund áður en hann vísaði á mig. Það gerði hann með sama öryggi og fyrr. Mjög flott hjá honum.
Já, þetta gekk vel. Svolítil föl á jörðu og nokkur snjókorn í lofti, annars milt veður. Það var gott að draga að sér hreina loftið. Og þó ætlunin hefði verið að hugsa um eitthvað annað en fjármáladramað sem skekur samfélagið, þá tókum við auðvitað svolitla spjalltörn um málið. Nema hvað.
Jamm ... Hér sjáið þið svo hina vösku Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitar Íslands. Myndirnar voru teknar í fyrravetur og vor.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Systkinafundur Skutuls og Kötlu
28.9.2008 | 19:26
Þetta eru systkinin Skutull og Katla. Þau eru fimm mánaða Border-Collie hvolpar frá Hanhóli í Bolungarvík. Við erum tvær bloggvinkonur sem eigum þessa hvolpa. Á laugardaginn fengu systkinin að hittast eftir þriggja mánaða aðskilnað - og það urðu fagnaðarfundir sem gaman var að fylgjast með. Þau þekktust strax.
Leiðir skildi með hvolpunum tveimur í sumar þegar ég ég tók Skutul til mín, þá tíu vikna gamlan. Ég átti svolítið erfitt með að velja á milli tveggja hvolpa - það voru einmitt þessir tveir - því lítil tík í hvolpahópnum var svo einstaklega vinaleg og hænd að mér, að mér var skapi næst að taka hana. Skutull hafði vinninginn, en sú stutta var mér svo hugleikin að ég auglýsti hana á bloggsíðunni minni í von um að hún fengi gott heimili. Ég vissi sem var, að hennar biði annars eilífðin.
Og viti menn - var þá ekki Lára Hanna bloggvinkona mín einmitt að hugsa um að fá sér hund. Niðurstaðan varð sú að ég sótti litlu tíkina - sem seinna fékk nafnið Katla - gaf henni ormalyf, baðaði hana og hafði hjá mér einn dag, Skutli til mikillar ánægju. En svo kom að því að hún var sett um borð í flugvél sem sveif með hana til fundar við framtíðareigendurna. Síðan hefur Katla búið við gott atlæti á Vesturgötunni í Reykjavík.
Endurfundir systkinanna urðu við Gróttu, í tilefni af því að við Skutull vorum bæði stödd í höfuðborginni í síðustu viku - í næsta nágrenni við Vesturgötuna - og nú þótti upplagt að leyfa þeim að hittast. Er skemmst frá því að segja að þau þekktust strax og hófust nú miklir leikar, hlaup og stökk.
Lára Hanna tók fjöldann allan af myndum sem hún var svo elskuleg að senda mér - og hér sjáið þið nokkrar þeirra. Eins og gefur að skilja var ekki einfalt mál að ná fókusnum enda mikið fjör og gaman.
Ruslið í Reykjavík
26.9.2008 | 14:42
Síðustu daga hef ég verið að sinna vinnu og ýmsum erindum í Reykjavík. Þetta eru auðvitað blautir og vindasamir haustdagar þegar lauf fýkur af greinum og svosem ekki við því að búast að götur borgarinnar skarti sínu fegursta. Enda gera þær það ekki.
Hvert sem litið er blasir við pappírsrusl, matarleifar, blautir vettlingar, dósir. Sérstaklega er ástandið ömurlegt í kringum JL-húsið og Ánanaustin í Vesturbæ. Á Holtsgötunni eru pizzukassar, smokkar og skítugar nærbuxur að velkjast um á götunni. Á göngustígnum sem liggur meðfram sjónum í átt að Seltjarnarnesi hef ég gengið fram hjá gegnblautri sæng ásamt matarleifum og ýmsu ógeðfelldu rusli síðustu daga. Enginn þrífur þetta. Það fýkur bara um og treðst undir fótum manna innanum fölnuð haustlauf sem fylla allar göturennur og liggja meðfram húsum. Því miður hef ég ekki verið með myndavélina meðferðis, en þessi mynd sem ég tók af veraldarvefnum er engu að síður lýsandi fyrir það sem ég er að tala um.
Hvar er hreinsunardeild borgarinnar?
Já, vel á minnst: Í erlendum borgum sér maður yfirleitt götusópara að störfum við fjölfarna staði. Ég hef aldrei séð götusópara á Íslandi. Kannski er tími til kominn að ráða eins og eina herdeild af götusópurum til þess að þrífa til á götum borgarinnar - gera það að átaksverkefni í nokkra mánuði að taka til og þrífa.
Íslendingar virðast vera sóðar - og ekki kennum við uppvaxandi kynslóð að ganga vel um borgina ef við göngum ekki betur um hana sjálf en raun ber vitni. Hér þarf átak.
Já, það þarf allsherjar hreingerningu í Reykjavík.
Við erum of feit!
23.9.2008 | 17:53
Við Íslendingar verðum feitari og feitari með ári hverju. Sérstaklega á þetta við um börn og ungt fólk. Já, já - ég veit. Maður má ekki ýta undir anorexíu hjá ungum stúlkum með því að tala of mikið um líkamsvöxt og útlit. En ég bara get ekki orða bundist lengur. Ungt fólk í dag er of feitt. Og hana nú!
Á meðan ég var skólameistari - á árabilinu 2001-2006 - sá ég þetta óvenju glöggt. Ég sá mun á útskriftarhópunum ár frá ári. Fyrsta útskriftarárið lætur nærri að um fjórðungur útskriftarnemenda hafi verið það sem kalla mætti feitlaginn. Fimm árum síðar var um það bil helmingurinn í því holdarfari, og innan við fjórðungur það sem við köllum grannvaxið fólk.
Þetta kemur heim og saman við rannsóknir sem sýna að íslensk börn hafa á undanförnum áratugum þyngst mikið, líkt og til dæmis í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu. Hins vegar hafa meðferðarúrræði fyrir of feit börn verið fá og sundurleit. Þó er mér kunnugt um að undanfarin þrjú ár hefur Heilsuskólinn á Barnaspítala Hringsins verið að þróa og rannsaka meðferð fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra. En meðferð er ekki nóg - hér þarf að stemma á að ósi - það þarf forvarnir.
Þessi þróun er trúlega menningarvandi - skortur á manneldisstefnu í þjóðaruppeldinu. Við sjáum matvælaframleiðendur auglýsa fitandi sykurvörur sem hollustu - og enginn gerir athugasemd. Skyrdrykkir og dísætar jógúrtvörur eru auglýstir með tilhöfðun til barna og unglinga sem hollustuvara. Sykurmagnið í sumum þessara drykkja er á við tvö glös af dísætum gosdrykk.
Kornflögurnar eiga að sjá manni fyrir öllum nauðsynlegum vítamínum dag hvern og lífshamingja og úthald velta á maltöli, pulsum og 1944 réttum, ef marka má auglýsingar.
Aldrei sé ég þó auglýsingar sem ganga gegn þessu skrumi - væri þó full ástæða til að verja einhverju af opinberu fé til þess að hafa áhrif á móti. Lýðheilsustöð mætti vel ráðast í auglýsingaherferð um hollt matarræði. Það er bara ekki nógu gott að matvælaframleiðendur sitji einir að auglýsingamarkaðnum með öllu því skrumi sem fylgir söluauglýsingum. Þetta er áróðursstríð.
Samhliða þarf að fara í fræðsluátak - ekki bara til barna og unglinga heldur líka til heimilanna í landinu. Því það er jú þar sem matarmenningin verður til.
Á tímum mikillar atvinnuþátttöku foreldra af báðum kynjum er enn ríkari ástæða til þess að standa vaktina. Og ef almenn umhyggja fyrir velferð barna og ungmenna nægir ekki til að ýta við yfirvöldum, þá hlýtur að vera hægt að sýna fram á það með útreikningum hversu íþyngjandi þetta mun verða fyrir heilbrigðiskerfið í framtíðinni, ef ekkert verður að gert.
Aðalþing Neytendasamtakanna - hvar voru fjölmiðlar?
20.9.2008 | 00:29
Í dag hófst aðalþing Neytendasamtakanna sem stendur þar til síðdegis á morgun. Ég var í hlutverki þingforseta og gat því fylgst vel með umræðum dagsins, sem voru áhugaverðar. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra var með fróðlegt erindi í upphafi þings, byggt á tölulegum upplýsingum, um stöðu neytendamála í Evrópu. Í kjölfarið var svo fjallað um hagsmuni heimilanna gagnvart hugsanlegri Evrópusambandsaðild. Jón Sigurðsson fv. ráðherra (og fv Framsóknarformaður) og Ragnar Árnason hagfræðingur fluttu framsögur um það efni. Hvorugur er raunar hlynntur aðild - en báðir voru með athyglisverðar ábendingar og upplýsingar sem vöktu mann til umhugsunar um ýmislegt varðandi bæði kost og löst á Evrópusambandsaðild.
Þá var einnig fjallað um tryggingamarkaðinn á Íslandi og nýlega rannsókn sem gerð hefur verið á starfsemi og umsvifum tryggingafélaganna hér á landi í samanburði við tryggingamarkaðinn í nágrannalöndum.
Eins og gefur að skilja var staða neytenda í landinu í brennidepli og möguleikar þeirra til þess að fá leiðréttingu sinna mála sem og upplýsingar um vörur og þjónustu, m.a. erfðabreytt matvæli, upprunaland framleiðsluvöru og fleira. Satt að segja hefur ekki gengið allt of vel að fá íslensk stjórnvöld til að móta reglur um rétt neytenda til vitneskju um erfðabreytt matvæli, svo dæmi sé tekið.
Fjarvera fjölmiðla vakti athygli mína. Enginn fulltrúi útvarps- eða sjónvarpsstöðva var þarna sjáanlegur. Öðruvísi mér áður brá, þegar aðalþing neytenda í landinu þótti sjálfsagt fréttaefni ásamt viðtölum og ítarlegum umfjöllunum um það sem heitast brynni á neytendum. Hvað veldur? Hafa fjölmiðlar misst áhugann? Skortir eitthvað á upplýsingagjöfina til þeirra?
Ég veit ekki - segi bara það eitt, að mér hefði fundist vel við hæfi að sjá þarna eins og einn eða tvo fréttmenn að fylgjast með þinginu og þeim umræðum sem þar fóru fram í dag.
En kannski segir það allt sem segja þarf um stöðu íslenskra neytenda, að fjölmiðlar skuli ekki sjá ástæðu til að sinna því þegar Neytendasamtökin þinga.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hvert örstutt skref - getur verið býsna þungt fyrir suma
10.9.2008 | 22:15
Það kom mér á óvart er ég las á heimasíðu Mænuskaðastofnunar Íslands að rannsóknir á mænuskaða eru enn af skornum skammti þó svo að mænuskaði hafi gríðarlega alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem fyrir honum verða. Fólk sem verður fyrir mænuskaða á m.ö.o. litla von um bata og að meðhöndlun þeirra byggir fyrst og fremst á því að læra að lifa með skaðanum.
Um þessar mundir er að hefjast fjáröflunarátak Mænuskaðasamtaka Íslands sem lýkur með viðamikilli söfnunardagskrá á Stöð tvö föstudaginn 19. september. Margir munu þar leggja hönd á plóg og ýmsir hafa hvatt til stuðnings við þetta mikilvæga átak.
Hér á Íslandi hafa málefni mænuskaddaðra átt sér ötulan baráttumann í Auði Guðjónsdóttur sem beitti sér fyrir stofnun Mænuskaðastofnunar Íslands í desember fyrir ári. Auður er móðir Hrafnhildar Thoroddsen sem slasaðist alvarlega í bílslysi fyrir 20 árum og hefur síðan lifað við mænuskaða. Þær mæðgur hafa árum saman barist fyrir úrbótum í málefnum mænuskaddaðra, og meðal annars komið því til leiðar að sett var á stofn Mænuskaðastofnun Íslands. Er fróðlegt að fara inn á heimasíðu stofnunarinnar www.isci.is og kynna sér markmið hennar og áætlanir.
Markmið stofnunarinnar er að vera leiðandi afl á sviði úrræða fyrir mænuskaddaða og vinna að því með öllum tiltækum ráðum að lækning á mænuskaða verði að veruleika. Í þeim tilgangi leitast stofnunin við að vekja athygli á málefninu á alþjóðavettvangi og safna fé til handa læknum, vísindamönnum og öðrum sem vinna að framförum til heilla mænusködduðum.
Að ýmsu má ráða að mörg verkefni eru óunnin enn í málefnum mænuskaddaðra og því fyllsta ástæða til þess að leggja þessu átaki lið.
Lífstíll | Breytt 11.9.2008 kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bænastund vegna ungs Ísfirðings
9.9.2008 | 11:54
Ungur Ísfirðingur liggur nú milli heims og helju á gjörgæsludeild, með alvarlega höfuðáverka. Hann fannst illa á sig kominn í Höfðatúni í Reykjavík aðfararnótt laugardags - hafði farið að skemmta sér með jafnöldrum fyrr um kvöldið. Því lauk með þessum hætti - og enginn veit á þessari stundu hvernig líf hans verður eftir þetta. Hann er 26 ára gamall - fyrrverandi nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði.
Hugur okkar Ísfirðinga er hjá honum og aðstandendum hans núna. Klukkan fimm í dag verður bænastund í Ísafjarðarkirkju.