Færsluflokkur: Lífstíll

Nú er komið að því ...

Hotel_Nupur Þessa dagana er líf mitt undirlagt af undirbúningi fimmtugsafmælisveislunnar okkar Sigga, sem verður á laugardaginn á Hótel Núpi í Dýrafirði - gamla heimavistarskólanum þar sem ég eyddi fimmtánda aldursárinu mínu, óþekk unglingsstelpa veturinn 1973-74. Nú hefur Núpur fengið nýtt hlutverk. Þar er nú starfrækt myndarlegt hótel sem um næstu helgi verður undirlagt af gestum sem ætla að samfagna okkur hjónunum yfir kvöldverði. 

Það er ekkert smá mál skal ég segja ykkur að raða 250 manns til borðs þannig að allir komist þokkalega fyrir - ég hefði ekki trúað því að óreyndu. En það ætlar að hafast. Kissing

Og nú er eins gott fyrir vegagerðina að standa sig - það eru 100 manns á leiðinni vestur. Woundering

Já, það er í mörg horn að líta. Nú hef ég mestar áhyggjur af því að einhverjir muni dúkka upp sem ekki hafa látið mig vita af komu sinni. Það vil ég að sjálfsögðu ekki, því ég er Meyja, og meyjur þola ekki óvæntar uppákomur. Ég er altso búin að raða til borðs, og þar við situr. Þeir sem ekki hafa boðað komu sína eiga vinsamlegast ekki að mæta í kvöldmatinn. En þeir eru að sjálfsögðu velkomnir eftir borðhaldið. Þá verður barinn opnaður og slegið upp balli.  Wizard

Það var 8. september fyrir hálfri öld sem þetta fljóð sem hér heldur á penna leit fyrst dagsins ljós á Landspítalanum í Reykjavík. Ég fór fljótlega að brosa framan í heiminn sem yfirleitt hefur brosað á móti - að minnsta kosti stundum alltaf eins og börnin segja. Wink

Margt hefur á mína daga drifið síðan og allt hefur það mótað mig sem manneskju, sorfið mig og slípað. Þess vegna er það nú sem ég ætla að halda upp á þennan æviáfanga með pompi og prakt - og við hjónin saman -  því Siggi varð líka fimmtugur fyrir skömmu. Auk þess eigum við 25 ára hjúskaparafmæli á þessu ári, svo það er eiginlega margfalt tilefni til að slá upp veislu og hitta fólk: Fólkið sem stendur næst okkur; fólkið sem er samverkamenn okkar; vinir og jafnvel fjandvinir. Þetta fólk hefur allt haft áhrif á líf okkar með einhverjum hætti - og þess vegna viljum við vera með því af þessu tilefni. Þakka því í huganum og með samverunni fyrir að hafa orðið á vegi okkar og rölt með okkur um lengri eða skemmri veg.

 

MaddyOlly Það skyggir svolítið á gleðina að Maddý dóttir okkar verður ekki með okkur - hún er í stífu arkitektanámi úti í Danmörku og á þess engan kost að komast heim. Við munum sakna hennar. Hér sjáið þið mynd af okkur mæðgunum saman.

 

En það verður gaman að hitta alla hina. Og nú falla öll vötn til Dýrafjarðar!

 


Það sem höfðingjarnir hafast að ...

geir-eyjanIs Ekki alls fyrir löngu hvatti Geir Haarde almenning til aðhalds í peningamálum vegna versnandi efnahagsástands (sjá hér ). Í opinberum ummælum ráðamanna og atvinnurekenda um kjaraviðræður er hamrað á því að fólk verði að sýna nægjusemi í erfiðu árferði. Á sama tíma sjáum við og heyrum í fjölmiðlum um milljónaútlát vegna ferðalaga einstakra ráðherra sem fara með fríðu föruneyti á Ólympíuleikana, ekki einu sinni heldur tvisvar. Við heyrum af rándýrum boðsferðum ráðamanna í laxveiðiár og lesum í tekjuyfirliti Frjálsrar verslunar um stjórnendur í fjármálageiranum sem hafa tugi milljóna á mánuði í laun.

Er nema von þó að almenningi sé um og ó?

Í ljósi þessarar umræðu er svolítið vandræðalegt að lesa varnarræðu Sigurðar Kára Kristjánssonar á bloggsíðu hans í dag. Þar ber hann í bætifláka fyrir menntamálaráðherra sem hefur sætt harðri gagnrýni fyrir mikinn ferðakostnað vegna Ólympíuleikanna.  Sigurður Kári beitir því bragði að reyna að draga forsetann inn í umræðuna, augljóslega ergilegur yfir því að fólk skuli ekki beina athyglinni að honum en hlífa flokkssystur Sigurðar Kára, menntamálarðaherranum. Sá er þó munur á að forseti Íslands er þjóðhöfðingi, kjörinn af þjóð sinni til þess að vera fulltrúi hennar á alþjóðavettvangi. Ráðherra hins vegar er yfirmaður tiltekins málaflokks í umboði alþingis. Á þessu er allverulegur munur. Forsetahjónin voru tvö í för - í föruneyti menntamálaráðherra voru fjórir að ráðherra meðtöldum.

"Það sem höfðingjarnir hafast að - hinir ætla að þeim leyfist það" segir máltækið. En satt að segja, held ég að engum venjulegum manni dytti þó í hug að fara tvær opinberar ferðir á einn og sama viðburðinn við fjórða mann. Sannleikurinn er nefnilega sá að venjulegu fólki dettur ekki svona bruðl í hug. Þetta er ekki veruleikinn sem almenningur býr við í eigin aðstæðum.

Þeir sem mæla svona óráðsíu bót eru einfaldlega ekki í tengslum við raunveruleg kjör almennings. Þannig er nú það.


Óráðsía ráðamanna á Ólympíuleikum

Nærri fimm milljónir króna kostuðu ferðir menntamálaráðherra og föruneytis til Kína samkvæmt fréttum ríkisútvarpsins í hádeginu. Þrjú hundruð þúsund krónur fékk ráðherrann í dagpeninga. Hún tók eiginmanninn og ráðuneytisstjórann með. Tvisvar.

Ég er ekki hneykslunargjörn þegar opinberar ferðir og dagpeningar eru annarsvegar. Ég tel að ráðamenn þjóðarinnar verði að geta komist fljótt á milli staða og búið þokkalega í ferðum sínum.

Þetta finnst mér hinsvegar einum of. Menntamálaráðherra fer með ráðuneytisstjórann með sér í tvígang - í annað skiptið eru þau bæði með mökum - hitt skiptið hún - og þjóðin borgar. Satt að segja stóð ég í þeirri trú að seinni ferðin hefði verið einkaferð ráðherrans, enda var engin þörf á því þjóðarinnar vegna að fara tvisvar. Og hvað er ráðuneytisstjórinn að gera í þessa ferð? Hafði hann einhverjum embættisskyldum að gegna þarna? Hver var þá að stjórna ráðuneytinu meðan á þessu stóð?

Fram kemur í fréttinni að ríkið greiddi hótelkostnað ráðherrans - samt fær Þorgerður Katrín greiddar 300 þúsund krónur í dagpeninga. Það eru mánaðarlaun kennara.

Nei, ef þetta er ekki óráðsía, þá þekki ég ekki merkingu þess orðs.


Amy Winehouse, Britney, Jackson - harmsaga okkar daga.

amy-winehouse-fat-thin Amy Winehouse er að upplagi falleg og hæfileikarík söngkona með stórbrotna rödd. Ung stúlka sem fyrri fáum mánuðum var svona útlítandi:

 amy_winehouse_narrowweb__300x414,0 En er nú orðin svona:

AmyWinehouse-horud AmyWinehouse2603_468x406

Hún er grindhoruð, alsett kaunum og kýlum eins og þeir sem neyta heróíns, kókaíns og cracks.  Tónlistarframmistaðan hefur þróast á svipaðan veg. Ekki er ýkja langt síðan Amy kom fram við verðlaunaafhendingu og söng þá með þessum hætti. Bara sæmilegt, ekki satt? Back to black söng hún um svipað leyti og gerði það bærilega. En á  þessum tónleikum má hinsvegar sjá að hún er farin að missa fjaðrirnar: Máttfarin, laglaus og óstyrk.

amy_winehouse_4_wenn1832955 Já, það hefur sigið á ógæfuhliðina hjá Amy Winehouse. Þetta hefur gerst svo hratt að maður trúir því varla. Á hverjum tónleikunum af öðrum birtist hún skökk og skæld, þvoglumælt og hræðileg, eins og til dæmis hér. Hún hefur jafnvel gengið svo langt að fá sér í nösina frammi fyrir áhorfendaskaranum, eins og hún hafi ekki áttað sig á því hvar hún var stödd.

Þetta "Hollywood-líf" er eins og banvænn sjúkdómur. Ungt fólk í blóma lífsins er bókstaflega étið upp til agna ef það kann ekki fótum sínum forráð. Um þetta höfum við fjölmörg dæmi: Britney Spears,  Michael Jackson og fleiri og fleiri. Birtingarmyndirnar eru margvíslegar - en allar eiga þær það sammerkt að í þeim eru ungar, hæfileikaríkar manneskjur að veslast upp fyrir augunum á heimsbyggðinni. Og heimurinn horfir og horfir - af áfergju og grimmd - tekur myndir og selur. Græðir á ógæfunni. 

Enginn segir "nóg komið". Og enginn kemur til hjálpar.


Nokkrir góðir dagar með BHSÍ

NýjaTeymið Jæja, nú er orðið langt síðan maður hefur bloggað - enda brjálað að gera í sumarfríinu. Wink Nú sit ég hér sólbrennd og þrútin eins og steiktur tómatur, nýkomin af frábæru fjögurra daga sumarnámskeiði með Björgunarhundasveit Íslands sem haldið var á Gufuskálum 7. - 10. ágúst, að báðum dögum meðtöldum. Við fengum sól og blíðu alla dagana.

Að þessu sinni mætti ég með nýjan félaga til leiks: Skutul litla, hvolpinn minn sem ég fékk í sumar. Hann er að verða fjögurra mánaða. LöngBiðÞetta námskeið var mikil lífsreynsla fyrir hann og hann stóð sig með prýði. Sýndi sjálfstæði á æfingunum, fór býsna langt frá mér þótt ungur sé að árum og var í alla staði hinn efnilegasti. Datt inn á lykt strax í fyrsta rennsli og "fann" sinn mann. Það er mikið álag á ungan hvolp að meðtaka allt sem fylgir æfingum sem þessum. Samvera með öðrum hundum og ókunnugu fólki, dvöl í búri, annarleg hljóð og margt fleira er mikið áreiti. Þetta litla grey var meðal annars sett í sigbelti og híft með talíu upp undir rjáfur. Ekki lét hann sér bregða við það. Þá var hann settur upp í kyrrstæða þyrlu og fékk að skoða þar allt innanborðs. Það fannst honum spennandi. En þegar þyrlan var komin í gang og hann var teymdur í átt að henni, fannst honum nóg komið og spyrnti við fótum. Hann var að sjálfsögðu ekki neyddur um borð, enda hávaðinn þvílíkur að mér sjálfri var nóg um.

 ÞyrlanLíf  Já, meðlimir í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar voru okkur innan handar á þessu námskeiði. Þeir mættu á TF-Líf og kynntu fyrir okkur starf þyrlusveitarinnar. Hundarnir fengu að fara inn í þyrluna og reyndustu hundateymin voru látin síga úr henni. Við Skutull gengum að sjálfsögðu ekki svo langt - en hér sjáið þið myndir af undirbúningnum og hérna er myndband af þyrlusiginu. Við Skutull sátum álengdar og fylgdumst með af tilhlýðilegri virðingu.

  SkvisaMátar  Sigið  Þyrlubið

Já þetta var í alla stað frábært námskeið. Hvað eru sólbruni og þrútnar varir á við nokkra dýrðardaga á Snæfellsnesi með skemmtilegu fólki? Smile 


Vestfirðir í ljóma dagsins!

 raudasandur Aldrei hefur Rauðisandurinn ljómað skærar í hásumarsól en í dag. Að dýfa tánum í ylvolgan sjóinn á aðfallinu var engu líkt. Í tindrandi tíbrá mókti Snæfellsjökull í fjarska. Já, þetta voru yndislegir endurfundir við gamlar slóðir.

Við Siggi brugðum okkur sumsé í lystireisu með hana móður mína í dag. Dynjandi02Ókum til Patreksfjarðar sem leið liggur um Önundarfjörð og Dýrafjörð, yfir Sandafell og Hrafnseyrarheiði, um Arnarfjörð og Dynjandisheiði. Komum við í Dynjandisvoginum á leiðinni þar sem við viðruðum hundana í veðurblíðunni. Heitur vindur lék í hári og gáraði hafflötinn - kindur lágu magnvana undir moldarbörðum og fólk flatmagaði eða sat í lautum og lægðum. Yndislegur dagur.

Þarna í Arnarfirðinum kom skáldskaparandinn yfir okkur mæðgur og við ortum:

Sól á fjörðum sindrar,
sveipar gullnum ljóma.
Ljóssins tíbrá tindrar.
Tún í fullum blóma.

Að hamraveggnum háa
hneigist fífan ljósa.
Brotnar aldan bláa
brött við sjávarósa.

Strýkur blærinn stráin,
stör á grónum hjalla.
Í fossi fellur áin
fram um hamrastalla.

Yfir landi liggur
ljómi sumardagsins,
hugur enginn hyggur
húmkul sólarlagsins.

 Eftir svolitla viðdvöl á Patreksfirði var ferðinni heitið út á Rauðasand. Þar hefur orðið mikil og sjáanleg uppbygging á undanförnum árum fyrir tilstilli Kjartans Gunnarssonar og Sigríðar Snævarr sem fyrir nokkrum árum keyptu land í hreppnum og hófust handa. Nú er þar m.a. rekið "franskt" kaffi hús á fögrum útsýnisstað. Þar er gott tjaldstæði og aðstaða öll hin besta.

Við settumst út á verönd í sumarhitanum og fengum okkur vöfflur með rjóma. Hittum þar frú Sigríði með frumburð sinn og tókum tali. Þá hittum við þarna fleira fólk úr hreppnum sem mamma þekkti að sjálfsögðu öll deili á, enda ættuð úr Rauðasandshreppi og á þar enn frændfólk á öðrum hverjum bæ. 

Útsýnið var óumræðilegt og undarlegt að fylgjast með aðfallinu, hve ört féll að á grunnsævinu. Ég stóðst ekki mátið að rífa mig úr skóm og vaða út í volgan sjóinn, draga að mér ilminn af sauðfénu sem var þarna í námunda, kúnum sem lágu jórtrandi og lynginu í hlíðinni.

Á heimleiðinni ókum við Barðaströndina. Komum við í Flókalundi og borðuðum síðbúinn kvöldverð við glugga sem vísar út Vatnsfjörðinn með útsýn yfir hluta Breiðafjarðar. Tíbráin titraði enn í bláum fjarskanum en jökullinn var horfinn í mistrið.

Oohhh - það jafnast ekkert á við Vestfirði í góðu veðri.

*

PS: Því miður gleymdi ég myndavélinni og get ekki sýnt ykkur myndir frá sjálfri mér. Þessar myndir hér fyrir ofan fékk ég á netinu. Því miður kemur þar ekki fram hver tók þær, en þær lýsa býsna vel því sem blasti við augum í dag.


Óttalegt ástand á moggabloggi - en hitabylgjan bjargar því

Óttalegt ástand er á moggablogginu þessa daga. Í gær lá síðan mín niðri eins og síður fjölmargra moggabloggara, vegna bilunar. Svo þegar hún opnaðist aftur í dag var komið allt annað útlit á hana, allir bloggvinir mínir horfnir, heimsóknartölurnar og fallega Ísafjarðarmyndin sem hafði prýtt hausinn.

Ég þykist vita að vefstjórum sé ekki skemmt meðan verið er að komast fyrir þessi vandræði - svo ég ætla ekki að æðrast mikið yfir þessu. En ég vona sannarlega að við moggabloggarar endurheimtum "gullin" okkar fljótlega. 

Þangað til ætla ég að bíða með að blogga - tja, nema eitthvað stórfenglegt gerist. Varla er nú von á því í sumarhitanum.

Já þetta er nú meiri bongóblíðan - 20 - 25 stiga hiti dag eftir dag - maður er hálf meðvitundarlaus af hita utandyra, hætti maður sér þangað á annað borð.

Sjáumst Wink


Ei veldur sá er varar - gott hjá Landsbjörgu

Reynisfjara Það gleður mig að Landsbjörg skuli nú hafa tekið af skarið og ákveðið upp á sitt eindæmi að setja upp skilti og bjarghringi í Reynisfjöru. Málið var komið í einhvern flækjuhnút þar sem menn voru í harða kapphlaupi um að varpa frá sér ábyrgð og finna því allt til foráttu að setja þarna upp nauðsynlegar viðvaranir. Jafnvel það að fólk muni hvort eð er ekki taka mark á viðvörunarskilti; þetta myndi kosta svo mikið, það væri engin leið að finna út út því hver ætti að borga, svo væri fólk ekkert of gott til þess að nota skynsemina og gæta sín sjálft.

Ei veldur sá er varar - segir máltækið, og fólk er ekki fætt með þá vitneskju að fjaran umhverfis Vík í Mýrdal é stórhættuleg. Það er hroki í okkur Íslendingum að fussa alltaf og sveia í vanþóknun ef aðkomufólk eða ferðamenn sem ekki þekkja hættur landsins fara sér að voða, hvort sem það er í illviðrum, brimi eða í hamrabeltum.

Gott hjá Landsbjörgu. Takk fyrir þetta frumkvæði.


mbl.is Skilti verða sett upp við Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skafla-Björn skal hópurinn heita

Ekkert jafnast á við nokkurra daga dvöl á Hornströndum. Hvergi er loftið hreinna, sjórinn blárri, fjöllin fegurri, víkurnar friðsælli.

Kjaransvík Ferðin okkar tók fjóra daga. Hún hófst í Veiðileysufirði þangað sem siglt var með okkur á föstudagsmorgni. Farangurinn hafði áður verið fluttur í Hlöðuvík og þangað var ferðinni heitið. Við  vorum sautján saman í hópi og fengum gott veður, sólskin en ekki mikinn hita. Það var ágætt, því manni hitnar á svona göngu. Leiðin lá upp úr Veiðileysufirði í Hlöðuvíkurskarð. Það var tiltölulega létt ganga, aflíðandi halli og ekki mikið erfiði. Efst í skarðinu var vindkul og næðingur, en ómótstæðilegt útsýni yfir Hlöðuvík.  Við stöldruðum við þarna, tókum myndir og hresstum okkur áður en haldið var niður snarbratta grjóturðina hinumegin. Sú leið er ekki fyrir lofthrædda, enda varð nokkrum í hópnum um að fara þetta. Þegar við komum á tjaldstæðið í Búðum undir kvöld, brá okkur svolítið í brún því farangurinn var ekki þar. Hann hafði verið settur í fjöruna all langt frá tjaldstæðinu, líklega 600-700 metra þaðan. Við vorum þreytt eftir gönguna og treystum okkur ekki til þess að bera tjöld og matarkistur yfir mýrarfláka, ár og fjörugrjót svo það varð þrautarlending að tjalda fyrir ofan sjávarkambinn þar sem dótið hafði verið sett af. Þetta var ekki besta tjaldstæði sem ég hef verið á, enda blautur jarðvegur og nokkur spölur í rennandi vatn. Klósettferðin tók 20 mínútur fram og til baka, ef menn vildu nýta sér þau þægindi - það var 1,4 km leið.

 Skálakambur08 Daginn eftir gengum við á Skálakamb og yfir í Hælavík.  Það var í þeirri ferð sem við rákum augun í tvo dularfulla díla sem hurfu úr fjallshlíðinni ofan við Hvannadalsvatn, eins og ég hef sagt frá í fyrri færslu. En við gengum á Hælavíkurbjarg þennan dag í dásamlegu veðri. Það var ólýsanlegt að standa efst á Hælavíkurbjargi, framundan dimmblátt hafið svo langt sem augað eygði, Hælavík á vinstri hönd og fagurmótaðir fjalladrangar í vesturátt. Við Saga dóttir mín settumst undir barð efst á brúninni og nutum útsýnisins dágóða stund - orðlausar báðar. Okkur gekk vel til baka - en ekki þarf að fara fleiri orðum um það sem síðar gerðist þegar víkur fylltust af þyrlum, flugvélum og björgunarbátum.

Á þriðja degi tókum við það rólega, enda uppgefin eftir atburði kvöldsins ogÍsbjarnarútkall næturinnar á undan, og ísbjarnarvaktina sem staðin var um nóttina. Við röltum yfir í Kjaransvík og vorum nokkra klukkutíma í þeirri ferð. Um kvöldið var fjara, og ég skrapp með Sögu dóttur minni og Pétri syni mínum í sandfjöruna inn af Búðum þar sem við skelltum okkur í sjóbað í lognöldunni. Við vorum svo heppin að geta notið veðurblíðu og kvöldkyrrðar á meðan. Á leiðinni til baka fór að rigna, og hvessa í framhaldi af því. Um nóttina gerði slagveðursrigningu. 

Við vöknuðum snemma á mánudagsmorgni, enda heimferðardagur og löng ganga framundan. Ætlunin var að ganga yfir á Hesteyri, 18 km leið, svo ekki veitt af tímanum til að pakka öllu hafurtaskinu, nesta sig fyrir daginn og bera dótið niður í fjöru. Tveir úr hópnum treystu sér ekki með í þessa göngu heldur ákváðu að bíða eftir bátnum og fylgja farangrinum.

Við vorum lögð af stað um kl. 10 um morguninn og sóttist ferðin vel. Pétur sonur minn var slæmur í hné - en í Búðum voru staddir þrír læknar með ferðafélagshópi. Þeir bjuggu um hnéð á honum og gáfu honum verkjalyf svo hann komst alla leið, klakklaust. Kann ég þessum heiðursmönnum bestu þakkir fyrir aðstoðina.

Ferðin yfir til Hesteyrar gekk vel. Það hafði dregið úr rigningu og vindi, svo við gengum þetta í meinleysisveðri átta tímum. Vorum komin stundvíslega kl. 18 að bryggjunni á Hesteyri, en þangað átti báturinn að vera kominn um sama leyti. Hann kom tveim tímum síðar. Á Hesteyri var allt fullt af ferðafólki og ekki nokkur leið að setjast inn í hús. En við vorum svo heppin að geta beðið í þokkalegu veðri. Við notuðum tækifærið og skoluðum fætur í fjörunni - tókum nesti - og biðum svo á bryggjunni eftir bátnum. Það stóðst á endum að þegar við vorum komin um borð gekk yfir með rigningarhryðju og allir fjallatoppar voru þá horfnir inn í grámóskuleg úrkomuský.

heimleid (Small) Það var yndislegt að fara í sturtu þetta kvöld og leggjast í tandurhrein sængurföt heima hjá sér. Hjördís tengdamóðir mín - sú raungóða kona - var meira að segja búin að sjóða dýrindis kjúklingasúpu sem hún skildi eftir í potti á eldavélinni hjá mér ásamt nýbökuðu heilhveitibrauði. Það var ekki amalegt að næra sig á heitri súpunni eftir volkið. Heart

Í gærkvöld kom svo hópurinn saman heima hjá okkur Sigga - fjórtán manns - þrír gátu ekki verið með okkur vegna skyldustarfa og anna. Við grilluðum lambalæri og áttum góða stund saman. Það var glatt á hjalla og mikið hlegið.

Í tilefni af fimm ára afmæli gönguhópsins hefur honum nú verið gefið varanlegt nafn - enda þykir einsýnt að við munum ekki rata í önnur eins ævintýri og í þessari ferð. Skafla-Björn skal hópurinn heita. það nafn hefur nú þegar verið rist með rúnum í snæbreiðu á Hornstrandahálendinu.

 Smile

Ferðafélagar að þessu sinni voru (í stafrófsröð): Bergsteinn Baldursson, Bjarney Gunnarsdóttir, Edda Pétursdóttir, Einar Már Sigurðsson, Helga Magnea Steinson, Heiða Einarsdóttir, Hjörtur A. Sigurðsson, Kolbrún Jarlsdóttir, Kristín Böðvarsdóttir, Maríanna Friðjónsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Pétur Sigurgeir Sigurðsson, Pétur Sigurðsson, Ragnheiður Davíðsdóttir, Rakel Sigurbjörnsdóttir, Saga Sigurðardóttir og Sigurður Pétursson.


Ísbjarnarblúsinn - sagan eins og hún var

HælavíkHlöðuvík Voru þetta ísbirnir? Veit ekki. Voru það álftir? Útilokað. Mávager? Nei. Snjóskaflar? Hugsanlega. Þennan dag var heiðskír himinn og mikil sólbráð á fjöllum. Tveir litlir skaflar gætu hugsanlega hafa bráðnað niður á sjö klukkutímum, hafi þeir verið orðnir mjög þunnir. Þetta gætu líka jafnvel hafa verið hvít lítil tjöld sem búið var að taka saman síðdegis. En hver tjaldar við vatn þar sem krökkt er af fugli í 200 m hæð? Hugsanlega náttúruvísindamenn. En hefðu þá ekki einhverjir vitað af ferðum þeirra? Nota menn hvít tjöld lengur?

Já spurningarnar eru margar og svörin fá. En svo mikið veit ég, að það sem við sáum yfir Hvannadalsvatni þar sem við stóðum efst í Skálakambi á milli Hlöðuvíkur og Hælavíkur um hálfeittleytið á laugardag, var engin "missýn" eða ímyndun. Við vorum fjórtán sem skoðuðum þetta vel - og okkur brá í brún sjö tímum síðar þegar við stóðum á sama stað og sáum þetta ekki lengur, hvorki með berum augum né í sjónaukum.

Skálakambur08 Við veltum því fyrir okkur hvort við ættum að tilkynna þetta. Upp skutust hugsanir eins og: Nú verðum við álitin ímyndunarveik. Þetta verður ekki tekið alvarlega!  En þó að spéhræðsla sé sterkt afl þá varð nú umhyggja okkar fyrir ferðalöngum á Hornströndum hégómanum yfirsterkari. Á leiðinni höfðum við mætt fimm manna hópi sem var á leiðinni yfir í Hvannadal um Hvannadalsskarð. Þau ætluðu að tjalda þarna í námunda við staðinn þar sem við sáum fyrirbærið. Okkur var hugsað til þessa fólks og annarra ferðalanga á nálægum slóðum. Niðurstaðan varð því sú að tilkynna þetta. Enda vorum við ekki í neinum vafa um að það sem við sáum var greinilegt berum augum, á meðan það var þarna. Jafn augljóslega var það horfið síðar um daginn.

BúðabærHlöðuvík Við létum það því verða okkar fyrsta verk þegar við komum niður í Hlöðuvík um níuleytið um kvöldið að láta ferðafélagshópinn vita sem þar var staddur í Búðum. Að höfðu samráði við Guðmund Hallvarðsson, leiðsögumann og óðalsherra í Hlöðuvík, var haft samband við 112. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Síðar um kvöldið ómuðu þyrluspaðar og flugvélagnýr um alla fjallatinda. Björgunarskip kom inn í víkina frá Ísafirði með björgunarsveitarmenn og sérsveitarmenn lögreglunnar innanborðs. Við fylgdumst með þyrlunni leita svæðið og það gerðu þeir afar nákvæmlega, eftir því sem við gátum best séð. Okkur var því óneitanlega rórra því það er ekki skemmtileg tilhugsun að liggja í tjaldi, óvarinn, með grun um ísbirni í nánd. Við vorum sammála um að viðbrögð löggæslunnar voru til fyrirmyndar.

 Ferðafélagshópurinn var í húsi - við hinsvegar vorum í tjöldum ca 700 metrum utar í víkinni. Við áttum þess ekki kost að komast öll í hús - en lögreglan bauð okkur að fara um borð í skipið og sigla til Ísafjarðar. Þetta íhuguðum við. En þegar leið á nótt og leitin bar ekki árangur ákváðum við að halda kyrru fyrir en hafa vakt. Við skipulögðum vaktaskipti - og höfðum talstöðvarsamband í ferðafélagsskálann, þar sem menn voru líka á vakt. Við vorum með tvö neyðarblys, eitt handhelt og annað til að skjóta upp. Og með þetta að "vopni" ásamt sjónauka og talstöðvum, létum við fyrirberast um nóttina og skiptumst á að ganga sjávarkambinn og skima til fjallaskarða með sjónaukum.

Ég skal viðurkenna að okkur var þó ekki rótt það sem eftir lifði ferðarinnar - lái okkur hver sem vill.

Annars var þetta aldeilis hreint frábær ferð. Meira um það á morgun ...   Smile

 

Hér sjáið þið nokkrar myndir af hluta hópsins í Hlöðuvíkurskarði og Veiðileysufirði. 

 Hlöðuvíkurskarð4        Veiðileysufjörður        Hlöðuvíkurskarð08 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband