Færsluflokkur: Dægurmál
Frjálshyggjumenn undir fölsku flaggi
23.4.2009 | 22:09
Hópur sem nefnir sig Félag ungs fólks í sjávarútvegi hefur sent hefur frá sér ályktunina "Fyrning aflaheimilda er aðför að 32.000 fjölskyldum". Glöggir menn hafa veitt því athygli hvað þessi ályktun er keimlík blaðagrein bæjarstjóranna þriggja sem ég hef áður gert að umtalsefni hér. Tilgangur ályktunarinnar er augljóslega sá að hræða fólk frá því að kjósa Samfylkingu og Vinstri græn með hræðsluáróðri og heimsendaspám nái tillögur þessara flokka fram að ganga um leiðréttingu á óréttlæti kvótakerfisins. Ekki í fyrsta sinn sem gripið er til slíkra aðferða rétt fyrir kosningar.
Grunsemdir um að ætt og uppruna ályktunarinnar megi rekja til Sjálfstæðisflokksins fá byr undir báða vængi þegar farið er inn á heimasíðu félagsins http://www.fufs.is/ . Þá kemur nefnilega í ljós að stjórnin er skipuð tveimur stjórnarmönnum og einum fyrrverandi stjórnarmanni Frjálshyggjufélagsins http://www.frjalshyggja.is/
Einar H. Björnsson bloggari hefur veitt þessu athygli. Hann veltir fyrir sér í þessari bloggfærslu hvaða hagsmuna sumir stjórnarmanna FUFS hafi að gæta í sjávarútvegi. Þar er um að ræða:
- Friðbjörn Orra Ketilsson, eiganda Vefmiðlunar ehf, og einn helsti talsmann frjálshyggjufélagsins;
- Gísla Frey Valdórsson, eigandi Viðskiptablaðsins, talsmann frjálshyggjufélagsins og kosningastjóra í prófkjörum Birgis Ármannssonar; og
- Fannar Hjálmarsson, framkvæmdastjóra kjördæmisráðs og kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins í NV-kjördæmi. Það var Fannar sem var að svara fyrir auglýsingar Sjálfstæðismanna í garð Steingríms J. Sigfússonar sem VG hefur kært í NV-kjördæmi.
Dægurmál | Breytt 24.4.2009 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Jóhanna vill opna fjármál flokka og frambjóðenda til 1999
23.4.2009 | 01:03
Fréttir dagsins af háum styrkjum til einstakra prófkjörsframbjóðenda flokkanna hér um árið sýna gildi þess að settar séu reglur um þessa hluti. Samfylkingin hefur sett sér strangar reglur um auglýsingar og hámarks kostnað í sínum prófkjörum eins og t.d. fyrir nýafstaðið prófkjör.
Vegna þeirra reglna gat ég t.d. ekki eytt neinu í mína prófkjörsbaráttu. Hefði ég þó í hégómakasti vel getað hugsað mér að sjá nokkur plaköt af sjálfri mér, vel sminkaðri á nýrri dragt, utan á húsum og strætisvögnum. Það var bara ekki í boði - engir peningar til, hvorki hjá mér né mótframbjóðendum. Og ég er auðvitað fegin því - sjálfrar mín vegna og pyngju minnar. Sjálfsagt væru sumir þeirra prófkjörsframbjóðenda sem nú hafa orðið uppvísir að því að taka við stórum fjárstyrkjum fegnastir því að hafa reglur til að miða við, og þar af leiðandi minna svigrúm til að eyða peningum í glansmyndir og dýrar auglýsingar.
En í tilefni af þessu öllu saman hefur Jóhanna Sigurðardóttir nú ritað formönnum allra stjórnmálaflokka bréf og beðið þá að skipa fyrir 1. maí fulltrúa í nefnd til að endurskoða lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda. Markmiðið er að tryggja að Ríkisendurskoðun verði falið að gera úttekt á fjárreiðum þeirra stjórnmálaflokka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi, vegna áranna 1999 til 2006. Ríkisendurskoðun skili síðan niðurstöðum um heildarfjárreiður flokkanna, bæði landsflokkanna, kjördæmisráðanna, einstakra félaga og frambjóðenda þeirra vegna prófkjara á sama tímabili.
Gott framtak hjá Jóhönnu. Það er mikilvægt að fá þetta allt upp á borðið. Ekki síst er mikilvægt að kjósendur fái sambærilegar upplýsingar fyrir alla flokka og frambjóðendur þeirra.
Og ef þetta kallar á nýja löggjöf, þá treysti ég henni vel til þess að stýra þeirri vinnu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Eftirmáli við orðarimmu á Sprengisandi:
5.4.2009 | 12:08
Úff! Ég lenti í svakalegri rimmu við Tryggva Þór Herbertsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson á í Sprengisandinum á Bylgjunni í morgun. Ég er enn að jafna mig.
Þarlét ég falla orð um tengsl Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við fyrirtækið Kögun - sem ég þarf að útskýra betur. Í atgangi umræðunnar tókst mér ekki að gera það sem skyldi, og ég vil síður láta orð mín standa óútskýrð þannig að þau hljómi sem dylgjur.
Það sem ég átti við með tengslum Sigmundar Davíðs er eftirfarandi:
Fyrirtækið Kögun var á sínum tíma í eigu fjölskyldu Sigmundar Davíðs. Faðir hans Gunnlaugur Sigmundsson var framkvæmdastjóri og stór eigandi þess. Þetta fyrirtæki hefur nú verið selt úr eigu fjölskyldunnar og ég skal ekkert um það segja hvernig þeim auðæfum hefur verið varið. Hins vegar var Kögun dæmi um fyrirtæki sem naut góðs af ríkulegum stjórnmálatengslum í formannstíð Steingríms Hermannssonar og síðar Halldórs Ásgrímssonar. Fyrirtækið sat einsamalt að þjónustu við ratsjárstöðvar NATÓ í kringum landið.
Það eru hagsmunatengsl af þessu tagi sem eru undirrót þeirrar tortryggni og úlfúðar sem ríkt hefur í samfélagi okkar í kjölfar fjármálahrunsins. Tengsl af þessu tagi eru undirrót þess einokunar og fákeppniumhverfis sem hefur komið okkur hvað mest í koll.
Af orðum mínum hefði e.t.v. mátt ráða að Sigmundur Davíð ætti hagsmuna að gæta varðandi Kögun í dag. Hann þvertekur fyrir það - ég trúi honum og mér þykir leitt ef ég hef varpað rýrð á hann persónulega. Ég bið hann einfaldlega velvirðingar á því, hafi svo verið.
Annars var atgangurinn í þættinum þvílíkur, að ég hef aldrei lent í öðru eins. Dónaskapur og yfirlæti þeirra félaga hleypti í mig illu blóði strax í upphafi. Þeir efuðust um að ég hefði kynnt mér það mál sem til umræðu var, drógu vitsmuni mína og annarra í efa, þ.á.m. þeirra sem unnu skýrslu fyrir Seðlabankann um kostnað af 20% niðurfærsluleiðinni. Þær niðurstöður voru að þeirra mati öldungis ómarktækar enda unnar af "dularfullum" starfshópi sem vissi ekki hvað hann var að gera. Svona var málflutningurinn.
Af þessu lærði ég heilmikið og mun gæta mín á því að láta ekki svona hrokagikki kippa mér upp úr farinu framvegis.
Eftir situr sú staðreynd að 20% niðurfærsluleiðin fær ekki staðist sem raunveruleg lausn fyrir þá sem verst standa. Hún mun hinsvegar gagnast vel efnuðum stórskuldugum fyrirtækjum eins og skýrsla Seðlabankans sýnir.
-------------
PS: Rétt í þessu fékk ég símtal frá Gunnlaugi Sigmundssyni, föður Sigmundar þar sem hann útskýrir eignarhald sitt í Kögun. Mér er ljúft og skylt að koma hans útskýringu á framfæri:
Fyrirtækið Kögun var stofnað árið 1988 en fór ekki af stað að marki fyrr en rúmu ári síðar. Gunnlaugur var framkvæmdastjóri þess í fyrstu og eignaðist síðar um 20%. Síðar fór eignarhlutdeild hans minnkandi og þegar fyrirtækið var selt í mars 2006 átti hann og fjölskylda hans um 2% í því. Hann segir að Halldór Ásgrímsson hafi aldrei komið nálægt samningum fyrirtækisins vegna þjónustu við ratsjárstöðvarnar.
Því skal haldið til haga að sá samningur var gerður í forsætisráðherratíð Steingríms Hermannssonar, þegar Jón Baldvin Hannibalsson var utanríkisráðherra.
Við þetta er því að bæta að á heimasíðu tímaritsins Heimur.is kemur fram að upphaflega átti ríkið 2/3 hluta fyrirtækisins (Þróunarfélag Íslands) en 1/3 áttu íslensk hugbúnaðarfyrirtæki. Árið 1993 seldi Þróunarfélag Íslands 20% í félaginu - þá var Gunnlaugur Sigmundsson framkvæmdastjóri beggja félaganna, sem vakti gagnrýni og umræður á sínum tíma (sjá Morgunblaðið 15. maí 1998).
Dægurmál | Breytt 6.4.2009 kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (85)
Búsáhaldabylting á Ásvöllum
22.3.2009 | 17:53
Það var ekki leiðinlegt að sjá íslensku strákana sigra Eistana með 14 marka mun í leiknum áðan. Guðjón Valur og Björgvin stóðu sig fádæma vel, báðir - já og liðið í heild sinni.
Stemningin á vellinum var galdri líkust - ég hefði viljað vera þar. Þetta var eins og í búsáhaldabyltingunni. Enda árangurinn eftir því.
Myndinni hnuplaði ég af visir.is - ég vona að mér fyrirgefist það.
Áfram Ísland !
Ísland vann stórsigur á Eistlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Óbundin til kosninga?
15.3.2009 | 18:24
Gamla viðkvæðið um að flokkar gangi "að sjálfsögðu óbundnir til kosninga" er farið að heyrast enn á ný. Ég vil taka fram að ég er því algjörlega ósammála og sé ekkert "sjálfsagt" við það að ganga óbundin til kosninga.
Sérstaklega finnst mér að Samfylkingin eigi ekki að veifa þessu viðkvæði núna. Eftir allt sem gerst hefur undanfarna mánuði - og þann mikla trúnaðarbrest sem orðinn er milli þings og þjóðar - er það minnsta sem við frambjóðendur getum gert fyrir kjósendur í landinu að segja þeim hug okkar til stjórnarmynsturs eftir kosningar.
Ég vil meira að segja ganga lengra: Mér finnst að Samfylkingin og VG eigi að lýsa yfir vilja til áframhaldandi samstarfs og birta fyrir kosningar drög að málefnasamningi þessara tveggja flokka sem þau vilja vinna með eftir kosningar. Ég vil með öðrum orðum að fólk fái að vita hvað þessir flokkar hyggjast fyrir. Já, að fólk geti kosið um stjórnarmynstur.
Venjan hefur verið sú að fólk á þess kost að kjósa flokka, en ekki ríkisstjórnir. Þess vegna veit fólk aldrei hvað það er að kjósa yfir sig. En þessi venja þarf ekki að vera neitt lögmál. Þetta er bara spurning um að vera heiðarlegur og hreinskiptinn gagnvart kjósendum.
Kallið mig barnalega - allt í lagi. En klækjapólitík er ekki það sem fólk hefur áhuga fyrir um þessar mundir. Almenningur vill heiðarleika og hreinar línur. Almenningur á rétt á því að vita hug flokkanna til stjórnarmynsturs eftir kosningar.
Dægurmál | Breytt 16.3.2009 kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Karl V. Matthíasson skiptir um flokk
13.3.2009 | 15:29
Karl V. Matthíasson alþingismaður hefur sagt skilið við Samfylkinguna og gengið til liðs við Frjálslynda flokkinn eftir að hann hafnaði í 5. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar um síðustu helgi. Hann sóttist eftir 1. eða 2. sæti.
Í fréttatilkynningu segir Karl að skoðanir hans og hugsjónir um sjávarútvegsmál hafi ekki fengið hljómgrunn í Samfylkingunni og bendir hann á úrslit prófkjörsins sem staðfestingu þess.
Sárt þykir mér að sjá Karl halda þessu fram. Ég held nefnilega að hann viti betur. Þátttakendur prófkjörsins, bæði frambjóðendur og flokksmenn, vita líka betur.
Á þeim framboðsfundum sem haldnir voru í kjördæminu nú fyrir prófkjörið var varla um annað meira rætt en sjávarútvegsmálin. Karl var að vísu ekki sjálfur viðstaddur alla fundina. En á þeim tóku velflestir frambjóðendur prófkjörsins afgerandi afstöðu í umræðunni. Var afstaða þeirra samhljóða þeim áherslum sem Karl kýs nú að láta sem hafi verið hans einkaáherslur. Þetta veit Karl.
En ég vil þakka Karli fyrir þann tíma sem hann starfaði og talaði sem Samfylkingarmaður á Alþingi - tímann sem hann var samverkamaður okkar félaga sinna í flokknum. Það hefði farið vel á því að sjá orðsendingu frá honum til flokksmanna áður en hann sendi út fréttatilkynninguna. En það verður hver að hafa sinn hátt á því hvernig hann kveður.
Ég óska honum velfarnaðar á nýjum slóðum.
Karl V. til liðs við Frjálslynda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Frestun kosninga vegna tafa í þinginu?
11.3.2009 | 09:12
Það kæmi mér ekki á óvart ef kosningunum yrði frestað. Fyrir liggja það mörg óafgreidd mál í þinginu að ekki er forsvaranlegt að senda þingmenn heim og hleypa öllu upp í kosningabaráttu. Þá er heldur ekki ásættanlegt að láta Sjálfstæðismenn komast upp með það að tefja afgreiðslu mála endalaust með málþófi og allskyns fíflagangi.
Þjóðin er á vonarvöl og almenningur hefur ekki þolinmæði eða löngun til þess að fylgjast með málfundaæfingum misviturra þingmanna sem finna sér viðspyrnu í fundatæknilegu þrefi.
Framganga Sjálfstæðismanna að undanförnu hefur verið með ólíkindum. Þeir hafa hlaupið í ræðustól hver á fætur öðrum með andsvör og athugasemdum hver við annan. Þeir hafa haldið þinginu í fundatæknilegri herkví. Það er svo augljóst hvað þeim gengur til. Og það er svo sorglegt að sjá þetta sama fólk sem talaði hvað mest um ábyrgð og öll þau verk sem vinna þyrfti fyrir aðeins fáeinum vikum. Þá var það í ráðherrastöðum. Nú er það komið í stjórnarandstöðu og augljóslega búið að skipta um disk í tækinu.
Þetta er vandi íslenskra stjórnmála í hnotskurn. Það er einmitt þetta sem fólk er búið að fá svo gjörsamlega nóg af.
Þingrof óákveðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ingibjörg Sólrún og hennar framlag
9.3.2009 | 19:33
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna var í gær. Dagurinn færði íslenskum konum góða uppskeru í prófkjörum helgarinnar. Það skyggði þó á gleðina að þann sama dag ákvað einn atkvæðamesti kvenskörungur í íslenskum stjórnmálum, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að kveðja þann vettvang um óákveðinn tíma.
Fáir stjórnmálamenn - ef nokkur - hafa lagt meira af mörkum til íslenskrar kvennabaráttu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Fyrir það verðskuldar hún þakklæti kvenna um land allt. Sem borgarstjóri kom hún miklum umbótum til leiðar í stjórnkerfi borgarinnar. Þær breytingar leiddu til nútímalegri stjórnsýslu með minni launamun milli kynjanna svo dæmi sé tekið. Hún leiddi málefni barnafólks í borginni til mun betri vegar með leikskólabyltingunni sem svo hefur verið nefnd og einsetningu skólanna.
Sem stjórnmálaforingi hefur Ingibjörg Sólrún sýnt fádæma dugnað og fórnfýsi.
Fyrr í dag samþykkti stjórn Kvennahreyfingar Samfylkingarinnar ályktun þar sem Ingibjörgu Sólrúnu er þakkað hennar merka framlag til íslenskra stjórnmála og samfélagsumbóta.
Hún er vel að þeim þökkum komin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ekkert er eins og fyrr
25.2.2009 | 15:25
Verkefnin sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir eru svo umfangsmikil - svo alvarleg - að íslensk stjórnmálaumræða mun aldrei verða söm eftir þá atburði sem átt hafa sér stað í hitasótt frjálshyggjunnar. Já, ég kalla það hitasótt, því það var eins og þeim sem báru ábyrgð á íslensku fjármálakerfi og stjórnmálaumræðu væri ekki sjálfrátt.
Í heila tvo áratugi smitaði og gegnsýrði frjálshyggjusóttin allt okkar litla samfélag. Þegar efnahagur þjóðarinnar hrundi og sápukúlan sprakk rann það svo upp fyrir okkur að að ekki einasta hafði fjárhagur þjóðarinnar beðið skipbrot - siðferðisgildin voru líka hrunin.
Þessir atburðir hafa breytt allri okkar hugsun. Þeir hafa afhjúpað siðferðisbresti, hugsanaleti, ákvarðanafælni og meðvirkni sem hefur gegnsýrt allt okkar stjórnkerfi; alla opinbera umræðu; allt þjóðlífið. Þeir hafa afhjúpað græðgi og misskiptingu af þeirri stærðargráðu að ekki einu sinni í okkar villtustu draumum gátum við gert okkur annað eins í hugarlund.
Við jafnaðarmenn eigum það sameiginlegt að vilja mannréttindi, lýðræði og sanngjarnar leikreglur. Í baráttunni sem framundan er megum við ekki missa sjónar af þeim grunngildum sem samfélag okkar byggir á. Það verður við ramman reip að draga því verkefnin eru mörg og knýjandi.
Það er því sorglegt að fylgjast með því hvernig menn láta sumir hverjir í þinginu þessa dagana - eins og þeim sé ekki sjálfrátt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ungir menn í gamalli klækjapólitík
24.2.2009 | 10:37
Nú eru leikfléttur Framsóknarmanna farnar að taka á sig undarlegar myndir. Í gær greiddi Höskuldur Þórhallsson atkvæði með tillögu Sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd Alþingis um að fresta afgreiðslu Seðlabankafrumvarpsins þar til í dag. Svo mætir hann ekki á fund nefndarinnar í morgun og málið er fast í nefndinni.
Hvaða fíflagangur er þetta eiginlega? Halda menn virkilega að svona klækjapólitík sé að skora eitthvað hjá fólki um þessar mundir? Þetta sé það sem fólk vilji sjá í kreppunni?
Þegar Framsóknarflokkurinn kaus sér nýja forystu á dögunum töldu ýmsir - ég þar á meðal - að nú væri gamla framsóknar-maddaman að ganga í endurnýjun lífdaga með ungt og sprækt fólk í sinni framvarðarsveit. Já - ég trúði því meira að segja að þessum mönnum væri einhver alvara með því að lofa ríkisstjórninni hlutleysi sínu: Að þeir ætluðu virkilega að greiða fyrir því sem gera þyrfti - myndu a.m.k. ekki þvælast fyrir.
Nú lítur út fyrir að þeim hafi ekki verið sú alvara sem ætla mátti. Á bak við andlitslyftinguna og hina unglegu ásýnd tinar gamli ellihrumi Framsóknarflokkurinn með sína klæki og klíkur, leikfléttur, samsæri og tilheyrandi paranoju sem við höfum þegar séð merki um, m.a. hjá formanninum unga.
Birgir Ármannsson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í viðskiptanefnd er sigri hrósandi yfir því að málið muni ekki komast á dagskrá Alþingis í dag þar sem nefndin hefur ekki enn lokið umfjöllun sinni. Já, hann er kátur yfir því að þeim tókst að tefja. Það var víst markmiðið að tefja, tefja, tefja ....
Jahjarna - segi ég nú bara.
Ekki rætt um Seðlabanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)