Færsluflokkur: Dægurmál
Bensínhækkun og ESB
29.5.2009 | 14:33
Mér var bent á það í athugasemd hér á blogginu, að tiltekin bensínstöð hafi verið búin að hækka verð á bensíni kl. 23 í gærkvöldi - hálftíma áður en lögin um hækkun á olíu og bensíni voru samþykkt á Alþingi.
Þetta er ósvífni - svo ekki sé meira sagt.
Hvað um það: Í dag heldur ESB umræðan áfram í þinginu. Málflutningurinn í morgun var málefnalegur og yfirvegaður. Því miður hefur orðið nokkur breyting á yfirbragði umræðunnar nú eftir hádegið - en við því er ekkert að segja. Menn hafa málfrelsi.
Ég tók til máls fyrr í dag og ræddi málið út frá lýðræðishugtakinu. Þeir sem áhuga hafa geta skoðað innlegg mitt hér.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fyrirspurn um meðferð aflaheimilda
28.5.2009 | 17:59
Fróðlegt væri að vita hversu mikið magn aflaheimilda hefur verið leigt milli útgerða á liðnum árum. Sömuleiðis hversu mikið af ónýttum aflaheimildum hefur verið fært milli ára og/eða yfirfært í aðrar tegundir. Upplýsingar af þessu tagi varpa ljósi á það hvað um er að ræða þegar talað er um leiguliðakerfi - þær varpa ljósi á það hvort réttlætanlegt er að tala um "kvótabrask".
Þess vegna ég nú lagt fram fyrirspurn í þinginu um þetta efni, og vonast ég til að svör fáist innan skamms.
Afnám bindisskyldunnar, herbergjaskipan o.fl.
26.5.2009 | 09:28
Umtalsverð umræða hefur að undanförnu orðið um klæðaburð þingmanna og herbergjaskipan í þinghúsinu. Um leið hefur borið á hneykslun meðal almennings yfir því að þetta skuli yfirleitt vera umræðuefni - löggjafarsamkundan ætti að hafa annað og þarfara að sýsla en pexa um þessa hluti.
Ég er sammála því, enda hefur þetta mál ekki verið til umræðu í þingsölum, svo það sé alveg skýrt. Bæði þessi mál hafa komið upp sem hvert annað úrlausnarefni fyrir skrifstofu og forsætisnefnd þingsins, og þau væru hreint ekki í umræðunni nema vegna þess hve fjölmiðlar og bloggarar sýna þeim mikinn áhuga. Sem er umhugsunarefni.
Herbergjaskipan í þinghúsinu er praktíst mál sem á ekkert erindi í fjölmiðla. Ákvörðun um klæðaburð þingmanna skiptir engu máli, nema hvað það er auðvitað sjálfsögð krafa að þeir sýni þessu elsta þjóðþingi veraldar tilhlýðilega virðingu með því að vera snyrtilega klæddir.
Þar með hef ég lagt mitt lóð á vogarskál þessarar fánýtu umræðu ... og get þá snúið mér að öðrum og merkari viðfangsefnum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þeim væri nær að koma að borðinu
21.5.2009 | 13:07
Innköllun aflaheimilda í áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting á þessu kerfi og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.
Málið snýst um löngu tímabæra leiðréttingu á ranglátu framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kerfi sem hefur í sér innbyggða meinsemd og mismunun. Við erum hér að tala um kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun, þar sem menn eru tilneyddir að gerast leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem aflaheimildirnar voru upphaflega færðar útgerðunum endurgjaldslaust í hendur - og eru nú meðhöndlaðar sem hvert annað erfða- og skiptagóss. Ranglátt kerfi sem felur í sér samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.
Þetta frjálsa framsalskerfi fiskveiðiheimilda - kvótakerfið - er eins og hver önnur mannasetning: Það var illa ígrundað í upphafi, og leiddi af sér alvarlega röskun og atvinnubrest í heilum byggðarlögum. Atvinnubrest sem risti mun dýpra en það atvinnuleysi sem nú ógnar almenningi á suðvesturhorninu.
Nú loksins, stendur til að leiðrétta þetta ranglæti. Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar er algjörlega skýr í þessu efni: Ríkisstjórnin hefur lýst yfir vilja til þess að gera nauðsynlegar, og löngu tímabærar breytingar á kvótakerfinu. Nú er lag - og nú er nauðsyn, því að óbreyttu eigum við það á hættu að fiskveiðiauðlíndir þjóðarinnar verði einfaldlega teknar upp í erlendar skuldir og hverfi þar með úr höndum okkar Íslendinga. Svo vel hefur útgerðinni tekist til - eða hitt þó heldur - við að höndla þá miklu gjöf sem henni var færð á kostnað byggðarlaganna fyrir tæpum aldarfjórðungi.
Og nú er gamli grátkórinn, sem svo var kallaður hér á árum áður, aftur tekinn að hljóma, í háværu harmakveini. Nú hrópa menn um yfirvofandi hrun, tala eins og að hér eigi að umbylta kerfinu á einni nóttu.
Málflutningur þeirra sem harðast hafa talað gegn hinni svokölluðu fyrningarleið er í litlu samræmi við tilefnið og á meira skylt við sérhagsmunagæslu undir yfirskini stjórnmála.
Hagsmunaaðilum í sjávarútvegi væri nær að ganga til samstarfs við íslensku stjórnvöld um nauðsynlegar breytingar á þessu kerfi. Þiggja þá útréttu hönd sem þeim hefur verið rétt, koma að borðinu og vera hluti af þeim sáttum sem þarf að ná við sjálfa þjóðina (ekki bara útgerðina) um þetta mál.
--------------
Utandagskrárumræðuna í heild sinni má sjá hér á vef Alþingis (fyrst er hálftíma umræða um störf þingsins (það má hraðspóla yfir hana) - svo taka sjávarútvegsmálin við ).
Dægurmál | Breytt 22.5.2009 kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Hverjir eru þjóðin?
19.5.2009 | 16:53
Nú sit ég hér á skrifstofu minni - er þó eiginlega stödd á þingfundi, því umræðan þar stendur yfir og ég er með kveikt á sjónvarpinu. Ég á þess þó ekki kost að vera í þingsalnum lengur þar sem ég verð að undirbúa ræðu fyrir utandagskrárumræðu á morgun.
Nú geri ég hlé á vinnu minni til að nefna þetta - vegna þess að rétt í þessu var Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, að hneykslast á því að ekki skuli fleiri sitja í þingsalnum að hlusta á umræðurnar sem hófust kl. 13.30. Hann talaði eins og allir væru farnir heim.
Það er eins og hann viti ekki að líkamleg viðvera er ekki skilyrði þess að vera viðstaddur umræðurnar. Þingmenn eru að störfum um allt þinghúsið og á skrifstofum sínum. Allstaðar eru sjónvörp og hátalarakerfi þannig að menn heyra umræðurnar, hvar sem þeir eru staddir. Satt að segja hefði ég haldið að Þór Saari væri farinn að kynnast því sjálfur hversu mikið annríki fylgir þingmennskunni - en hann virðist standa í þeirri trú að mannskapurinn sé farinn heim.
Og úr því ég er farin að hnýta í þetta, þá vil ég nefna annað.
Það stakk mig svolítið við eldhúsdagsumræðuna í gærkvöldi að heyra talsmenn Borgarahreyfingarinnar tala um sjálfa sig sem sérlega fulltrúa þjóðarinnar.
En sjáið nú til: Ég lít ekki svo á að ég sé þjóðkjörin á Alþingi Íslendinga - tilheyri ég þó flokki sem er stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi með um 56 þús atkvæði, eða 30% fylgi. Borgarhreyfinguna kusu ríflega 13 þúsund manns eða 7,2% kjósenda. Vissulega tilheyra þessir kjósendur þjóðinni - það gera líka, og ekki síður, hin 92,8% sem kusu eitthvað annað.
En ... nú er ég búin að semja ræðuna fyrir morgundaginn og ætla að trítla aftur út í þinghús þar sem ég mun sitja þar til þingfundi lýkur.
----
PS: Ekki var ég fyrr sest í mitt sæti en Saari og félagar yfirgáfu salinn undir ræðu fjármálaráðherra og sást ekkert þeirra meir á þeim fundi (sem var reyndar langt kominn, svo þau misstu ekki af miklu). Svolítið fyndið samt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Blíðan á Austurvelli - þingsetningin - morgundagurinn
17.5.2009 | 15:40
Í svona veðri er ekki annað hægt en að lita björtum augum á lífið og tilveruna. Stemningin í miðbænum hefur verið frábær í allan dag. Prúðbúnir Norðmenn spígspora um í þjóðbúningum sínum með fána í hönd. Hjá þeim sameinast nú þjóðhátíðardagur Norðmanna og sigurvíman yfir sigri gærkvöldsins í söngvakeppninni.
Og ekki er minna þjóðarstoltið í fasi Íslendinganna í dag. Á Austurvelli flatmagar fólk í sólinni og bíður þess að bjóða Jóhönnu Guðrúnu velkomna með silfrið úr Júróvisjón seinna í dag. Allir skælbrosandi.
Já þetta er nú meiri rjómablíðan sem hefur gælt við okkur þessa helgi. Og ekki spillti veðrið við þingsetninguna á föstudag.
Ég skal að vísu viðurkenna að mér varð um og ó þegar við gengum út úr þinghúsinu framhjá hópi af hrópandi fólki sem hafði raðað sér meðfram heiðursverðinum til þess að kalla að okkur ókvæðisorðum, skipa okkur til andsk.... og ota að okkur löngutönginni. En það þýðir ekkert að armæðast yfir því - svona er bara mórallinn í samfélaginu um þessar mundir og þá verður bara að hafa það.
En semsagt - á dögum eins og þessum er gaman að vera til.
Á morgun hefst svo sjálf alvaran með nefndafundum fyrir hádegi og eldhúsdagsumræðum annað kvöld. Eftir það taka sjálf þingstörfin við.
Ætli hveitibrauðsdagarnir í pólitíkinni séu ekki þar með taldir. Trúað gæti ég því.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Komin með skrifstofu
14.5.2009 | 16:33
Fyrsti vinnudagurinn á skrifstofunni. Þessari líka fínu skrifstofu þaðan sem ég sé út á Austurstrætið, skuggamegin að vísu, en fyrir vikið laus við kæfandi sólarhita yfir sumartímann.
Ég hef verið að flokka skjöl og koma þeim í möppur; fylla út allskyns upplýsingar um sjálfa mig til birtingar á vef Alþingis - fjármál mín, ættir og fyrri störf með meiru.
Svo hef ég haldið áfram að lesa allt námsefnið sem sett var á okkur í gær. Það er ekkert smáræði, og mun taka tímann sinn.
Við erum hér saman nokkrir nýir þingmann á 2. hæð Austurstrætis 14. Við höfum sameiginlegan ritara, hana Ólafíu sem er kölluð Ollý eins og ég. Hún hefur verið að aðstoða mig í dag við ýmislegt - að komast inn í tölvukerfið, finna eyðublöð til útfyllingar, útvega ritföng o.þ.h.
Mjamm ... þingsetningin er á morgun. Hefst í Dómkirkjunni kll 13.30.
Heimsendaspár og hræðsuáróður LÍÚ
8.5.2009 | 19:23
Það er auðséð á þeim ályktunum og yfirlýsingum sem nú dynja á fjölmiðlum um yfirvofandi hrun sjávarútvegsins, gjaldþrot útgerðanna og ... þið vitið, allan pakkann ... að LÍÚ ætlar ekki að vinna með stjórnvöldum að því að leiðrétta hið óréttláta kvótakerfi sem hefur kallað hrun yfir svo margar sjávarbyggðir á undanförnum 20 árum.
Nei - njet. Þeir ætla í stríð og eru komnir í skotgrafirnar.
Hræðsluáróður og heimsendaspár - það eru einu orðin sem ég á yfir máflutning þessara manna. Sá málflutningur er grímulaus sérhagsmunagæsla sem á fátt skylt við rökræðu.
Þeir tala eins og það standi til að "umbylta" kerfinu - þegar staðreyndin er sú að menn eru að tala um að endurheimta auðlind þjóðarinnar úr höndum einstaklinga á tuttugu árum. Ná aftur því sem frá byggðunum var tekið á nánast jafnmörgum árum og aldur kerfisins segir til um. Auk þess er það yfirlýstur ásetningur stjórnvalda að hafa samráð við útgerðina um útfærsluna - já kalla þá að borðinu og gefa þeim kost á að vera með í ráðum.
Samt halda menn áfram í skotgrafahernaðinum - eins fjarri rökræðunni og hugsast getur.
Og þetta skal á sig lagt í vörn fyrir kerfi sem hefur með tímanum þróast í yfirveðsett og ofurskuldsett leiguliðakerfi. Kerfi þar sem nýliðun getur ekki átt sér stað nema nýliðarnir gerist leiguliðar hjá handhöfum aflaheimildanna. Kerfi þar sem sjálfir handhafarnir sitja að fiskveiðiheimildum sem voru gefnar útgerðunum í upphafi - sitja einráðir að sjálfri auðlindinni. Kerfi sem samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar SÞ brýtur mannréttindi og hindrar eðlilega nýliðun. Kerfi sem hefur innbyggða samskonar meinsemd skuldasöfnunar og yfirveðsetningar og þá sem olli efnahagshruninu í haust.
Innköllun aflaheimilda á áföngum á 20 árum í samráði við þá sem eiga hagsmuna að gæta er ekki umbylting og mun ekki leiða hrun yfir sjávarútveginn. Þvert á móti er hún sanngjörn og hófsöm leiðrétting á þessu óréttláta kerfi.
Mun setja bankana aftur í þrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
Hveitibrauðsdagar þingmanna
5.5.2009 | 18:31
Við erum brosmildar og vonglaðar á myndinni þessar fimm þingkonur sem röltum yfir Austurvöllinn í vorblíðunni til þess að taka kaffisopa saman á Café Paris eftir fundalotu dagsins.
Eins og alþjóð veit eru stjórnarmyndunarviðræður nú langt komnar. Okkur þingmönnum hefur gefist kostur á því að koma að málefnavinnunni sem hefur gengið hratt fyrir sig í starfshópunum síðustu daga. Ég fór í sjávarútvegsmálin - þóttist vita að í þeim málaflokki yrði lítið framboð á konum, svo ég skellti mér.
Nú fara hveitibrauðsdagar nýkjörinna þingmanna í hönd. Þetta eru dagarnir sem allt er nýtt og spennandi, allir brosmildir, vingjarnlegir og vongóðir. Skemmtilegir dagar. Vor í lofti - brum á trjám.
Sjálft þingið hefur að vísu ekki verið kallað saman, en engu að síður hefur verið í ýmsu að snúast og margt að setja sig inn í.
Á náttborðinu mínu liggur til dæmis lítið kver: Þingsköp Alþingis - óbrigðult svefnmeðal. Ég mæli með því.
-----------
Á myndinni eru frá vinstri: Ólína, Sigríður Ingibjörg, Katrín Júl, Þórunn Sveinbjörns og Oddný Harðar - allt Samfylkingarkonur. Myndina tók glaðbeittur ungur maður sem átti leið hjá.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Enga sérmeðhöndlun, takk
29.4.2009 | 11:24
Ég fyrirverð mig hálfpartinn fyrir það að íslenskir fréttamenn skuli hafa spurt Olli Rehn hvort Íslendingar myndu fá sérmeðhöndlun hjá Evrópusambandinu, eins og það væru væntingar íslenskra stjórnvalda. Ég átta mig heldur ekki á því hvers vegna alið hefur verið á þessari umræðu um sérmeðhöndlun fyrir okkur umfram það sem aðrar þjóðir hafa fengið.
Í mínum huga snýst málið um allt annað.
Málið snýst um það hvernig Ísland getur fallið inn í regluverk, stefnumótun og áætlanir ESB. Ég er þá t.d. að tala um byggðaáætlunina, landbúnaðarstefnuna, sjávarútvegsstefnuna og umhverfisstefnuna. Hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur, lífskjör okkar, efnahagsástand, atvinnu- og viðskiptaumhverfi að ganga inn í þessar áætlanir.
Við Íslendingar höfum góða von um að geta náð fram því sem nágrannar okkar (t.d. Finnar og Svíar) hafa fengið út úr slíkum viðræðum. Í því er fólginn hinn hugsanlegi ávinningur fyrir okkur - en ekki hinu að koma eins og beiningamaður að dyrum ESB og biðja um "sérmeðhöndlun".
Í þessum viðræðum þarf að skilgreina vel samningsmarkmið okkar Íslendinga gagnvart landbúnaði, sjávarútvegi og auðlindum. Að loknum aðildarviðræðum kemur það svo í ljós hvernig dæmið lítur út, og þá fyrst veit þjóðin til fulls hvað er í húfi og um hvað hún er að kjósa.
Málið er ekki flóknara.
Hér er svo ágæt vefsíða www.evropa.is - þar er núna uppi grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson sem sem er vel þess virði að lesa.
Þarf ekki einhug um umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |