Færsluflokkur: Dægurmál

Minning um Blíðu

blidahvolpurein05 (Medium) Blíða var eftirminnilegur hundur. Fáir hundar voru ljúfari eða skemmtilegri ef því var að skipta - og fáir hundar voru sjálfstæðari og fyrirferðarmeiri þegar sá gállinn var á henni. Eins og allir eftirminnilegir persónuleikar gerði hún kröfur til eigenda sinna, lét vita af sér, en var eins og hugur manns þess á milli. Hún var ekki allra. En við náðum vel saman, ég og hún.

Blíða var þjálfuð sem ollyogblida07 (Medium)björgunarhundur í tvö ár. Hún tók C-próf í vetrarleit vorið 2007, þá eins og hálfs árs gömul. Henni gekk vel í leitarþjálfuninni framan af, en svo kom í ljóst að hún var ekki nógu sterk fyrir þessa þjálfun. Hún fór að veikjast ítrekað á æfingum og sýna ýmis merki þess að ráða ekki við verkefnið. Síðastliðið sumar lauk hún ferli sínum sjálf með eftirminnilegum hætti þegar hún beinlínis fór í "verkfall" á miðju námskeiði og var ekki æfð meira eftir það. Embarassed P1000530 (Medium)

Ég fékk mér annan hund til að þjálfa - hvolpinn Skutul sem nú er ársgamall. Blíða aðstoðaði mig við uppeldið á honum og gerði það vel. Hún kenndi honum að hlýða manninum og var honum framan af sem besta móðir. En svo óx hann henni yfir höfuð, og samkomulagið versnaði.

Loks varð ég að láta hana frá mér - það gekk ekki að hafa tvo ráðríka hunda á heimilinu, þar af annan í vandasamri þjálfun sem krafðist allrar minnar athygli.

Hún fékk gott heimili norður í Skagafirði hjá fólki sem hafði átt bróður hennar en misst hann fyrir bíl. Þau tóku Blíðu að sér, og í fyrstu gekk allt vel. En það var annar hundur á heimilinu og þeim samdi aldrei. Hún varð taugaveikluð og óörugg um stöðu sína, gelti meira en góðu hófi gegndi, og þetta gekk einfaldlega ekki upp. Þegar hún svo sýndi sig í því að urra að barnabarninu í fjölskyldunni, var ákveðið að láta hana fara. Ég skil þá ákvörðun, og úr því ég gat ekki tekið við henni aftur var betra að láta hana sofna en vita af henni á flakki milli eigenda.

Nú hvílir hún við hlið bróður síns norður í Skagafirði.

Já, Blíða var eftirminnilegur hundur. Á góðum stundum

Bilferd (Medium)

 

var hún mikill félagi og engan hund hef ég séð fegurri á hlaupum en hana. Þannig geymi ég mynd hennar í huga mér, og sé hana nú í anda hlaupa tignarlegri en nokkru sinni fyrr um gresjurnar á hinum eilífu veiðilendum.

Blessuð sé minning Blíðu.

 


Sjávarplássin lifna við

Smábátar Loksins sér maður aftur líf færast yfir bryggjurnar hér fyrir vestan. Bátarnir komu inn í gær eftir fyrsta strandveiðidaginn. Þeir voru kampakátir karlarnir þar sem þeir stumruðu yfir körunum fullum af spriklandi fiski.

Hjá einum var drukkið "strandveiðikaffi" til að halda upp á þessi tímamót.

Já, loksins eftir langa mæðu eru menn aftur frjálsir að því að sigla bátum sínum út á miðin og taka þar á handfærin allt að 800 kg á dag, án þess að kaupa eða leigja til þess sérstakan kvóta.

Loksins skynjar maður eitthvað sem líkist "eðlilegu" ástandi - einhverskonar frelsi eða opnun. Fram til þessa hefur mönnum verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendurnar, nema þeir gerðust leiguliðar hjá kvótaeigendunum - eða keyptu sér kvóta dýru verði. Undanfarið hefur lítill sem enginn kvóti verið fáanlegur, svo það hefur ekki verið um marga möguleika að ræða.

Já, nú eru sannarlega tímót. Og ég er glöð yfir því að hafa getað veitt þessu máli lið inni í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þaðan sem frumvarpið var afgreitt fyrir skömmu.

Loks er aftur líf í höfnum,
landa bátar afla úr sjó.
Mergð er nú af mávi og hröfnum
mikil yfir fsikislóg.

Vonandi eru strandveiðarnar komnar til að vera.


mbl.is 22 tonn af þorski á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómetanlegt starf björgunarsveita

 Það er mikið gleðiefni að þessi björgunaraðgerð skyldi takast giftusamlega. Ég veit að björgunarsveitarmenn um land allt gleðjast ævinlega í hjarta sínu þegar vel tekst til eins og í þessu tilviki. Það er nefnilega sama hvar á landinu þeir eru staddir þegar aðgerð er í gangi - þeim verður alltaf hugsað til þeirra sem bíða björgunar, og félaga sinna sem eru á vettvangi. Þannig er það bara.

Atvik sem þetta minna okkur á það hve björgunarsveitir landsins vinna ómetanlegt starf. Björgunarsveitarmaður spyr aldrei hvað klukkan sé, hvernig veðrið sé úti, hvort ekki geti einhver annar farið, þegar þörf er fyrir aðstoð. Hann stekkur af stað, hvernig sem á stendur.  

Þarna tókst vel til - og því ástæða til að óska öllum hlutaðeigandi til hamingju með það.

Talandi um björgunarsveitir: Við Skutull brugðum okkur í blíðviðrinu í dag á æfingu með Vestfjarðadeild Björgunarhundasveitarinnar upp á Seljalandsdal. Það var svo yndislegt veðrið að það var eiginlega full mikið af því góða fyrir hundana. Þeim reynist oft erfitt að vinna í miklum hita. Samt stóðu þeir sig allir vel ... og á öndinni, eins og við mátti búast. Wink

Sjálf er ég orðin sólbrennd og sælleg eftir þennan dásamlega sólardag.

skutull.sumar08

 


mbl.is Dreng bjargað úr jökulsprungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundaferð Samfylkingarinnar

Þessa dagana eru þingmenn Samfylkingarinnar á fundum með fólki úti í kjördæmunum að ræða þau mál sem hæst ber í þinginu, Ice-save, ríkisfjármálin, efnahagsráðstafanirnar, ESB, sjávarútvegsmálin og fleira sem brennur á fólki.

Í  kvöld var ég á ágætum fundi í Grundarfirði ásamt Jónínu Rós Guðmundsdóttur, samflokkskonu minni  og þingmanni í NA-kjördæmi og Davíð Sveinssyni bæjarfulltrúa. 

Við Jónína Rós ókum saman vestur í sumarblíðunni nú síðdegis og nutum fegurðar Borgarfjarðar og Snæfellsness á leiðinni. Áttum svo ágætan fund með heimamönnum í kvöld þar sem margt var skrafað um landsins gagn og nauðsynjar.

Í gær var vel sóttur og skemmtilegur fundur á Ísafirði með mér, Kristjáni Möller samgönguráðherra og Sigurði Péturssyni, bæjarfulltrúa.  Á morgun verð ég á Akranesi ásamt Guðbjarti Hannessyni þingmanni.

Þetta eru afar gagnlegir fundir, ekki síst fyrir okkur þingmennina.

Það er nauðsynlegt að komast út úr þinginu af og til og hitta fólk. Tala við kjósendur, og ekki síst að hlusta (mun skemmtilegra heldur en að taka við fjöldapóstum svo dæmi sé tekið Wink).

En nú er ég orðin sybbin, enda komið fram yfir miðnætti. Góða nótt.Sleeping

 


Sjóbað á sautjándanum

P1000840 (Medium)Afrek dagsins hjá okkur mæðgum var: Sjóbað! Cool

Brrrrrrrrr - við dembdum okkur í sjóinn framundan lítilli sandfjöru á Seltjarnarnesinu í góða veðrinu í dag. Þetta var svona skyndihugdetta.

Skömmu áður stóðum við nefnilega eins og ratar á tröppunum við Vesturbæjarlaugina - höfðum ekkert hugsað út í það að auðvitað eru sundlaugarnar lokaðar á 17. júní.

Hálf vonsviknar fórum við út á Seltjarnarnes - komum þar við í ísbúð til að bæta okkur upp fýluferðina, og meðan við vorum að sleikja ísinn var tekinn svolítill rúntur um nesið. Þá sáum við mann á sundskýlu sem var að þurrka sér á bílastæðinu við golfvöllinn á Seltjarnarnesi. Við litum hvor á aðra: Hann hlýtur að vera að koma úr sjónum, þessi! Við í sjóbað!

Og það gerðum við. Ekki eins kalt og við héldum - en kalt samt.  Og hressandi. Cool

Svona gekk þetta fyrir sig.

Fyrst var tekin upplýst ákvörðun og náð í handklæði og sundföt

P1000835 (Medium) 

Svo var farið á staðinn og fötum fækkað

P1000837 (Medium)
Þá var tánni dýft út í og sjórinn aðeins mátaður
P1000839 (Medium)
Og svo var látið vaða!
P1000841 (Medium)
Dásamlegt!
P1000840 (Medium) 

Óvirðing við þjóðþingið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sýndi forseta Alþingis mikla óvirðingu í þinginu í gær, þegar hann kvaddi sér hljóðs undir liðnum "fundarstjórn forseta" og setti síðan á ræðu um allt annað mál án nokkurra tengsla við fundarnstjórn forseta. Þegar hann síðan dró upp Fréttablaðið og fór að lesa upp úr því var forseta þingsins nóg boðið - enda gera  þingsköp ráð fyrir því að óskað sé leyfis forseta áður en lesið er upp úr blöðum eða bókum í ræðustóli. Þegar þarna var komið sögu tók forseti Alþingis til sinna ráða, en Sigmundur Davíð þráaðist við og ætlaði ekki úr stólnum.

Framkoma nokkurra framsóknarmanna - ekki síst formannsins - hefur farið stigversnandi í þinginu undanfarna daga. Þau finna sér hvert tilefni til þess að stíga í pontu, atyrða þaðan aðra viðstadda með leiðinlegu orðavali. Þau hrópa fram í fyrir ræðumönnum, benda með fingri - berja jafnvel í pontuna og hækka röddina. Raunar hafa framíköll almennt aukist mikið undanfarið - og þá er ég ekki að tala um beinskeyttar athugasemdir sem fljúga glitrandi um salinn. Nei, ég er að tala um leiðinlegt húmorslaust þref sem heldur áfram eftir að menn eru komnir í sæti sitt. Agaleysi. Ókurteisi.

 Það er sorglegt þegar virðingarleysið fyrir þjóðþinginu er komið inn í sjálfan þingsalinn.

Sigmundur Davíð og co. eru á góðri leið með að breyta Alþingi Íslendinga í skrípaleikhús. Og það er hugraun fyrir okkur hin sem sitjum á þessu sama þjóðþingi að horfa á þetta gerast.

Forsætisnefnd Alþingis verður að taka á þessu máli.


mbl.is Óásættanleg framkoma forsetans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrenn Grímuverðlaun fékk dóttirin: Þeir fiska sem róa!

Humanimal09Það gladdi mitt meyra móðurhjarta að sjá þrenn Grímu-verðlaun renna til sýningarinnar Húmanimal í kvöld - ég tala nú ekki um þegar Saga dóttir mín tók við einni styttunni sem danshöfundur. Heart Hún tók við þeim verðlaunum í fullri hógværð ásamt Möggu vinkonu sinni, sem líka fékk verðlaun sem dansari ársins. Báðar tóku skýrt fram (og það með réttu) að hópurinn allur ætti þessar styttur sem þær héldu á.

Já, þær voru sannarlega bæði þakklátar og örlátar á þessari sigurstundu - vildu ekki eiga neitt einar - hugsuðu til félaga sinna - deildu gleðinni og heiðrinum með fleirum. Fallegar og rétt þenkjandi ungar konur. Sannkallaðir listamenn.

Annars var ég að verða úrkula vonar um að ég kæmist á afhendingarathöfnina í tæka tíð. Strandveiðifrumvarpið sem ég hef haft framsögu um sem starfandi formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kom svo seint inn til þriðju umræðu í þinginu að sjálft við lá að ég missti af Grímu-athöfninni. Loks þegar málið var komið á dagskrá og menn voru stignir í pontu til að þenja sig yfir því, var klukkan að verða sjö. 

Í brjósti mér toguðust á ólíkar tilfinningar: Löngunin til að fara eina ferðina enn í umræðurnar og reka nokkrar rangfærslur ofan í mótherjana - hinsagasvegar löngun móðurinnar til að samgleðjast dóttur sinni sem var að fá fjölda tilnefninga fyrir listrænt framlag, og var hugsanlega að fara að taka við verðlaunum (sem kom á daginn).

Eins og oft áður varð móðurhvötin pólitíkinni sterkari. Ég ákvað því að blanda mér ekki frekar í umræðuna - taldi mig hafa sagt í gær allt sem segja þurfti um málið - lét taka mig út af mælendaskrá og ... stakk af! Blush Og viti menn: Þingheimur komst af án mín þessar mínútur sem eftir lifðu fundarins. Það hefði dóttir mín svosem gert líka á þessari gleðistundu, en ég hefði ekki viljað missa af því að vera viðstödd. 

Það er af Strandveiðifrumvarpinu að segja að umræðunni lauk í kvöld, en frumvarpið með áorðnum breytingum kemur til atkvæðagreiðslu á fimmtudagsmorgun. Því er ljóst að strandveiðarnar munu ekki hefjast á þjóðhátíðardaginn, úr því sem komið er.

Mottó dagsins er enn sem fyrr: Þeir fiska sem róa!


mbl.is Utan gátta fékk flest verðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt á öðrum endanum!

Jæja, þá er húsið mitt á Framnesveginum að komast í samt lag aftur eftir sex vikna umsátursástand hers af iðnaðarmönnum: Smiðum, pípurum, málurum og altmúlígmönnum. Þetta hefur auðvitað verið skelfilegt ástand, eftir að í ljós komu vatns og rakaskemmdir sem gera þurfti við. Svo fór af stað einhverskonar keðjuverkun - því þegar eitt er lagað blasir annað við sem gera má "í leiðinni" (þið þekkið þetta kannski).

Fyrstu þrjár vikurnar reyndi ég að búa í húsinu - svo gafst ég upp og fékk inni hjá systur minni elskulegri. Hún lánaði mér íbúðina sína í Hlíðunum sem var blessunarlega mannlaus um tíma. Það kom sér sannarlega vel að geta flúið í skjól undan hamarshöggum og saggalykt.

Daginn eftir að ég var komin í skjólið hjá systur, hringdi dyrabjallan. Á tröppunum stóðu þrír  vörpulegir iðnaðarmenn Undecided  komnir til að gera við baðherbergið.  Mér varð um og ó - en þeir stoppuðu nú stutt við blessaðir.

Meðan á öllu þessu hefur staðið hef ég verið að setja mig inn í allar aðstæður í þinginu - búandi hálfpartinn í ferðatösku. Og nú um helgina náði óreiðan hámarki - því um leið og húsið var að verða tilbúið, tók við hver viðburðurinn á fætur öðrum. Allt hefur það þó verið fagnaðarefni: Pétur sonur minn að útskrifast úr HR, afmæli eiginmannsins og barnabarnsins, stórafmæli hjá góðum vini og ýmislegt annað. Svona er þetta svo oft í lífinu - ef það kemst hreyfing á hlutina á annað borð, þá fer einhvernvegin allt af stað.

En sumsé, nú er ég komin með nýtt hús! Bara frágangsatriðin eftir. Siggi kominn suður og fer nú um húsið vopnaður borvél, hamri og skrúfjárni - bara ansi verklegur. InLove

Ég er auðvitað alsæl í augnablikinu - enda er reikningurinn fyrir herlegheitunum ekki kominn. Wink

 En nú má ég ekki vera að því að hangsa hér - er farin að skúra og gera  hreint.


Skuggahlið bloggsins

Ég heyri það að þú ert nýbyrjuð - sagði fyrrverandi þingmaður við mig í samtali fyrr í dag. Ég var að tjá honum áhyggjur mínar yfir framgangi tiltekins máls sem ég hef með höndum. Ég var að segja honum frá athugasemdum og ummælum sem ég hefði heyrt frá tilteknum aðilum og vildi taka mark á. Honum fannst ég taka þessu allt of alvarlega- og kannski hefur hann nokkuð til síns máls. 

Kannski er ég að taka allar athugasemdir sem falla of alvarlega. En ástæðan er sú að ég tek starf mitt alvarlega og lít á það sem skyldu mína að hlusta á fólk og taka tillit til sjónarmiða þess. Um leið finnst mér brýnt að leyna ekki skoðun minni og vera hreinskiptin.

Þetta gerir sjálfri mér erfitt fyrir, því þegar fólk beinir reiði sinni að mér persónulega - reiði sem á þó upptök sín annarsstaðar og verða ekki rakin til mín - þá hefur það  samt áhrif á mig.  Ég er bara þannig sköpuð -  þegar ég skynja vanlíðan og reiði annarra líður mér illa.

Síðust daga hafa komið margar athugasemdir inn á bloggsíðuna mína þar sem fólk tjáir reiði og vanlíðan með ýmsu móti. Birtingarmynd þessa hefur á köflum verið neikvæðari og persónulegri en góðu hófi gegnir.

Ég byrjaði upphaflega að blogga fyrir rælni - en ástæða þess að ég hélt áfram var sú að það gaf mér heilmikið að eiga skoðanaskipti við fólk. Eftir að ég varð þingmaður hafa þessi samskipti breyst. Það er auðséð að fjöldi manns lítur mig ekki sömu augum og áður, og athugasemdirnar bera þess vitni. Alls kyns skætingur, meinbægni og útúrsnúningar eru að verða hér daglegt brauð á kostnað uppbyggilegrar rökræðu. Afraksturinn er m.a. sá að margir góðir bloggvinir hafa horfið á braut og sjást ekki hér lengur. Ég sakna þeirra. Ég sakna ánægjunnar af því að skiptast á orðum við velviljað og áhugasamt fólk.

Ég hugleiði nú alvarlega að loka fyrir allar athugasemdir hér á blogginu - vegna þess hvernig orðræðan hefur þróast í athugasemdakerfinu.

Ég ætla að gefa þessu tvo þrjá daga. En verði ekki breyting á því hvernig fólk tjáir sig hér, þá mun ég loka fyrir skoðanaskiptin.


Þó fyrr hefði verið

Jæja, loksins sá efnahagsbrotadeildin ástæðu til að fara ofan í saumana hjá fyrrum forstjóra FL-Group. Þó fyrr hefði verið.

 Maður hefur velt því fyrir sér undanfarna mánuði hvers vegna ekki var gerð húsleit hjá forkólfum útrásarinnar strax í fyrstu vikunni eftir hrun.

Hvers vegna stjórnarformennirnir og forstjórar umdeildustu útrásarfyrirtækjanna hafa allir  fengið svo ríflegt svigrúm?

Hvers vegna þeir sem tengdust bönkunum fengu sumir hverjir að athafna sig á vettvangi - eða því sem næst - sitjandi sem fastast í stjórnunarstöðum og skilanefndum vikum og mánuðum saman.

Já - þeir fengu ríflegt svigrúm. Og mér er stórlega til efs að nokkuð handbært muni finnast í fórum þeirra, hvorki í bókhaldi né á bankareikningum, nú, eftir allt sem á undan er gengið.

En ... ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér.


mbl.is Efnahagsbrotadeild með húsleitir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband