Færsluflokkur: Dægurmál
Veggjakrot og veggjalist - enn og aftur
25.3.2015 | 12:44
Nú þegar borgarlandið er að koma undan snjó og hvarvetna blasir við rusl og drasl eftir lægðirnar að undanförnu hefur vaknað umræða um borgarumhverfið. Af því tilefni langar mig að endurvekja nokkurra ára gamla umræðu um veggjakrot og veggjalist.
Ég hef áður gert að tillögu minni að Reykjavíkurborg geri tilraun með að ná sáttum við veggjakrotara og veggjalistamenn. Sáttin felist í því að sett verði stór spjöld - svona á stærð við húsgafl - á völdum stöðum í borginni. Þessi spjöld verði til afnota fyrir þá sem þurfa að fá útrás fyrir skreytilist sína með spreybrúsanum, hvort sem það eru veggjalistamenn eða veggjakrotarar en á þessu tvennu, veggjalist og veggjakroti, er nefnilega allverulegur munur.
Veggjakrot er náskylt þeirri frumstæðu þörf hunda og ýmissa rándýra að merkja sér svæði og óðul. Hópar og klíkur sem ganga á milli hverfa og svæða setja merki sitt við útjaðrana og tilkynna þar með "hér var ég" - sem þýðir "þetta á ég". Þessi tegund veggjakrots er afar hvimleið, enda eirir hún engu, hvorki íbúðarhúsnæði né opinberum byggingum, strætisvagnaskýlum, girðingum eða auglýsingaspjöldum. Þeir sem láta undan þessari þörf láta sig engu varða eigur annarra - þeir vaða bara yfir með sínar merkingar í fullkomnu skeytingarleysi.
Svo er það veggjalistin sem ég vil kalla svo. Myndlistarverkin sem mörg hver eru tilkomumikil og falleg þó þau komi úr úðabrúsum. Þessi myndverk geta verið prýði sé þeim fyrirkomið á réttum stöðum. Víða sér maður slík verk á auðum brandveggjum eða illa hirtu atvinnuhúsnæði þar sem þau eru beinlínis til bóta (þó ekki sé það nú alltaf).
Þess vegna vil ég nú leggja þetta til við borgaryfirvöld - að listamönnum götunnar verði hreinlega boðið upp á að fá útrás fyrir sprey- og merkiþörfina einhversstaðar annarsstaðar en á húsveggjum og strætóskýlum. Það er aldrei að vita nema eitthvað sjónrænt og skemmtilegt gæti komið út úr því. Spjöldin þyrftu auðvitað að vera í öllum hverfum borgarinnar, jafnvel víðar innan hvers hverfis. En hver veit nema þau myndu hreinlega lífga upp á umhverfið og fegra það. Húseigendur gætu þá áhyggjulausir hirt um eigur sínar án þess að eiga það á hættu að þær séu eyðilagðar með spreybrúsa daginn eftir.
Þessi tillaga er í mínu boði og þiggjendum að kostnaðarlausu ;-)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Krían er komin
3.4.2013 | 08:24
Fögur er krían á flugi
fimlega klýfur hún vind
flugprúð og fangar hugi,
fránleikans sköpunarmynd.
Ég fyllist alltaf fögnuði innra með mér þegar ég sé fyrstu kríur vorsins. Þó mér þyki afar vænt um lóuna og elski blíðlega ba-bíííið hennar, þá jafnast ekkert á við kríuna, þann hugrakka, fima og fallega fugl.
Og nú er hún komin - þessi litla lifandi orustuþota. Veri hún velkomin.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sameiginlegur þingflokksfundur öðru sinni
22.9.2009 | 15:48
Já, það verður sameiginlegur þingflokksfundur með þingmönnum Samfylkingar og VG nú á eftir. Þing verður sett að nýju eftir örfáa daga og tímabært að þingmenn stjórnarflokkanna beri saman bækur sínar og stilli saman strengi fyrir veturinn.
Þetta er í annað sinn sem þingflokkarnir funda sameiginlega - síðast hittumst við öll í Þjóðminjasafninu fyrri hluta sumars. Sá fundur var afar gagnlegur.
Það er mikilvægt að þingmenn flokkanna eigi þess kost að ræða saman og skiptast á skoðunum um þau mál sem framundan eru.
Sameinaðir stöndum vér - segir máltækið.
Stilla saman strengi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Lítil eru geð guma
18.9.2009 | 22:01
Pirringurinn skín af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins þessa dagana. Orðbragðið og samskiptahættirnir eru eftir því. Enginn trúnaður um nokkurn skapaðan hlut.
Eilíf neikvæðni ef álit er gefið í fjölmiðlum.
Þessi höfuðlausi her veit ekkert hvernig hann á að vera. Skilar auðu í stærstu málum, slær um sig sleggjudómum, hleypst undan ábyrgð .... ussususssussu.
Og nú hóta þau stríði við forsætisráðherra, þegar hún með réttu gagnrýnir það hvernig iðulega er hlaupið í fjölmiðla, jafnvel áður en ráðrúm gefst til þess að koma upplýsingum með viðeigandi hætti til réttra aðila. Þessa gagnrýni kalla þau hótanir og "svara" - ja, hvernig? Jú, með hótunum um "átök" - en ekki hvað?
Lítilla sanda,
lítilla sæva,
lítil eru geð guma.
Hafna því að hafa rofið trúnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það var einmitt ...
18.9.2009 | 19:09
... en er það nú ekki full djarft að tala um þriggja manna þingflokk sem "hreyfingu" ??
Hreyfingin verður til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fangelsismál í ólestri
16.9.2009 | 11:46
Sannarlega eru fangelsismál á Íslandi "sagan endalausa" eins og bent hefur verið á. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að enn skuli menn vera vistaðir í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Ég minnist þess þegar ég heimsótti þann stað fyrir um tveimur áratugum - þá ungur og ákafur fréttamaður að fjalla um ólestur fangelsismála. Þrengslin innandyra runnu mér til rifja, og ég hefði ekki trúað því þá að þessi húsakynni myndu enn verða í notkun sem fangelsi árið 2009. En þannig er það nú samt - þessi myrkrakompa við Skólavörðustíg er ennþá fangelsi, rekið á undanþágum frá ári til árs.
Á wikipediu er húsakynnunum þannig lýst:
Fangaklefarnir í hegningarhúsinu eru litlir og loftræsting ónóg, fangarkvarta gjarnan yfir bágri salernisaðstöðu, en ekkert herbergjanna 16 er svo vel búið að menn geti gengið þar örna sinna svo vel sé, því þar eru hvorki salerni né handlaugar.
Já, byggingarsaga fangelsismála hér á landi er mikil raunasaga og lýsingar á vandræðaganginum við þennan málaflokk eru orðnar ófagrar.
Margar ríkisstjórnir hafa setið að völdum frá því ég fór að kynna mér fangelsismál. Þær hafa allar vandræðast með þennan málaflokk, og litlu þokað áleiðis. Á annan tug nefnda og starfshópa hafa unnið að lausnum í nær fimmtíu ár, án þess að nýtt fangelsi hafi risið. Áratugum saman hafa áætlanir og teikningar legið á borðinu sem ekkert hefur orðið úr. Eitt árið var meira að segja byggður húsgrunnur sem lá óhreyfður í jörðu árum saman og eyðilagðist loks.
Þetta er sagan af óhreinu börnunum hennar Evu sem enginn vill sjá eða vita um.
Vanræksla - er eina orðið sem mér kemur í hug um þennan málaflokk. Og sú vanræksla hefur varað áratugum saman. Því miður.
Nú leitar Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra leiða til að fjölga plássum (og væntanlega öðrum úrræðum) fyrir dæmda brotamenn, og til greina kemur að leigja húsnæði í því skyni. Ég vona að dómsmálaráðherra verði eitthvað ágengt að þessu sinni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Reynslan af strandveiðunum
3.9.2009 | 10:04
Nú er lokið tveggja mánaða reynslutímabili strandveiðanna sem samþykktar voru með lagabreytingu á Alþingi fyrr í sumar. Ætlunin var - samkvæmt upphaflegu frumvarpi - að heimila veiðarnar frá 1. júní - 31. ágúst, og meta reynsluna af þeim að því loknu. Málið olli deilum í þinginu, því Sjálfstæðismenn settu sig öndverða gegn frumvarpinu og gerðu hvað þeir gátu til að tefja framgang málsins bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sem og í umræðum í þinginu. Fyrir vikið varð strandveiðunum ekki komið á fyrr en 1. júlí. Þá voru tveir mánuðir eftir af fiskveiðiárinu og því ljóst að reynslan af veiðunum yrði takmarkaðri en ella.
Lagabreytingin fól það í sér að nú mátti veiða á handfæri 3.955 lestir af þorskígildum utan aflamarkskerfis. Fiskimiðunum við landið var skipt upp í fjögur svæði og ráðherra heimilað að skipta aflaheimildum á einstaka mánuði milli þessara svæða. Skyldi byggt á hlutfallslegri skiptingu byggðakvóta við útdeilingu aflaheimilda, en 2.500 lestum var auk þess skipt jafnt á öll svæðin (625 lestir á hvert svæði).
Samkvæmt lögunum var ekki heimilt að fara í fleiri en eina veiðiferð á hverjum degi, fjöldi handfærarúlla var takmarkaður og afli hvers dags skyldi ekki fara yfir 800 kg af kvótabundnum tegundum. Með þessu var leitast við að láta leyfilegt veiðimagn dreifast sem mest á landsvæði og tíma auk þess sem þetta ákvæði átti að hindra að of mikið kapp yrði í veiðunum. Þá var kveðið á um að allur afli sem landað yrði við færaveiðar skyldi vigtaður og skráður hér á landi.
Þeir tveir mánuðir sem liðnir eru frá því strandveiðunum var komið á, hafa leitt góða reynslu í ljós. Við lok fiskveiðiársins þann 31. ágúst s.l. höfðu rétt innan við 4000 þorskígildistonn komið að landi. Landanir í sumar hafa verið 7.313 og 554 bátar á sjó. Mest hefur veiðst af þorski (3.397 tonn) en 576 tonn veiddust af ufsa og enn minna af öðrum tegundum.
Eitt af því sem vakti athygli við þessa tilraun sem staðið hefur í sumar, er hversu misjöfn aflabrögðin reyndust milli svæða. Þannig var búið að veiða allt leyfilegt aflamagn á svæði A (norðvestursvæðinu) þegar í byrjun ágúst, á meðan innan við helmingur veiðiheimilda var enn óveiddur á öðrum svæðum. Á norðvestursvæðinu voru langflestir bátar í róðrum, eða 195 samanborið við t.d. 94 báta á svæði B sem nær frá Skagabyggð í Grýtubakkahrepp. Þetta vekur spurningar um sókn á svæðunum í samhengi við aflamarkið og þarf að skoða vel.
Það er þó samdóma álit allra sem til þekkja að strandveiðarnar hafi orðið sjávarplássunum lyftistöng, enda færðist mikið líf í hafnir landsins í sumar. Þess sáust skýr merki þegar á fyrstu dögum eftir að veiðarnar hófust. Bryggjur þar sem vart hafði sést maður - hvað þá fiskur - árum saman iðuðu nú skyndilega af lífi. Aftur heyrðist vélahljóð báta í fjörðum kvölds og morgna, fólk að fylgjast með löndunum og spriklandi fiskur í körum.
Háskólasetur Vestfjarða hefur tekið að sér að skila skýrslu um reynsluna af þessum veiðum og verður fróðlegt að sjá hvað hún mun leiða í ljós.
En svo mikið er víst, að strandveiðarnar færðu líf í hafnir landsins - þær glæddu atvinnu og höfðu í alla staði jákvæð áhrif á mannlíf í sjávarbyggðum. Loksins, eftir langa mæðu, fengu íbúar við sjávarsíðuna að upplifa eitthvað sem líkja má við eðlilegt ástand - einhverskonar frelsi eða opnun á því niðurnjörvaða kvótakerfi þar sem mönnum hefur verið meinaður aðgangur að fiskimiðunum við strendur landsins nema þeir gerðust leiguliðar hjá útgerðum eða keyptu sér kvóta dýru verði.
Tilraunin með strandveiðarnar hefur nú þegar sannað gildi sitt, og því hlýtur endurvakning strandveiða við Ísland að vera ráðstöfun til framtíðar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Strandveiðarnar færa líf í hafnir
11.8.2009 | 20:38
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins gefa lítið, "jafnvel ekkert" (svo ég vitni í þeirra eigin orð) fyrir það líf í höfnum sem strandveiðarnar hafa fært sjávarbyggðunum í sumar. Neibb - þeir finna þessu nýja fyrirkomulag allt til foráttu. Nú síðast það helst hversu óhagkvæmar fiskveiðar þetta séu vegna þess hversu margir hafa stundað þær og fært fisk að landi.
Reynslan í sumar sýnir að 505 bátar hafa farið á sjó og veitt rétt tæplega 4 þúsund tonn af fiski í 4.600 löndunum.
Þetta er gleðiefni fyrir flestalla (nema að sjálfsögðu varðhunda stórútgerðarinnar sem vill ekkert af þessum veiðum vita).
Reynslan af þessu kerfi verður metin í lok veiðitímabilsins nú í haust. Nú þegar hefur komið í ljós að huga þarf betur að svæðaskiptingunni, því nú eru menn búnir að veiða allt sem þeir mega á svæði A (norðvesturmiðin) en á öðrum svæðum (B, C og D) hafa þeir veitt 30-50% af því sem leyfilegt er. Þetta kallar á sérstaka skoðun.
EN ... það er ólíku saman að jafna yfirbragði íslenskra hafna nú en áður þegar deyfðin var allt að drepa og sjávarútvegurinn beindist aðallega að þörfum stórútgerðarinnar og verksmiðjuskipanna sem landa á örfáum stöðum og eiga fátt sameiginlegt með smábátum á strandveiðum í hinum smærri byggðum.
Málið kom til umræðu í þinginu í dag þar sem ég svaraði fyrirspurn Illuga Gunnarssonar (hér) sem fleiri þingmenn Sjálfstæðisflokksins blönduðu sér í og nokkrar umræður spunnust í framhaldinu (t.d. hér). Þetta er ekki langt.
Jebb, það getur verið líf víðar en í höfnum landsins.
Dægurmál | Breytt 13.8.2009 kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Og kannski meira í vændum?
1.8.2009 | 15:04
Ég var víðsfjarri jarðskjálftanum sem reið yfir í gærkvöld, sem betur fer, enda í mér beygur við jarðskjálfta frá barnæsku. Ég gat þó ekki varist því að hugsa til Láru nokkurrar Ólafsdóttur sem spáði jarðskjálfta þann 27. júlí. Hún var auðvitað höfð að háði og spotti strax daginn eftir, þegar enginn kom skjálftinn. Við Íslendingar erum hvatvíst fólk eins og dæmin sanna.
Nú hafa fréttmenn haft samband við Láru á ný, og ekki batnar það: Hún segir enn stærri viðburði í aðsigi.
Ég skal játa, að ég var ekkert sérlega hissa á því að þessi skjálfti skyldi koma svo skömmu eftir spádóm sjáandans. Eins og aðrir Íslendingar er ég höll undir það að fleira sé milli himins og jarðar en augað greinir og vísindind fá skilgreint.
Við Íslendingar erum náttúrutengt og næmt fólk. Berdreymi er til dæmis viðurkenndur hæfileiki og trúlega kannast allir við einhvern í sinni fjölskyldu sem hefur slíkt næmi að geta séð aðeins lengra nefi sínu.
Jamm ... nú sjáum við hvað setur.
Snarpur jarðskjálfti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
... upp í Borgarfjörð, ætla að liggja þar í tjaldi í nótt og ekki að hugsa meira um pólitík þessa helgina. Ice-save getur beðið betri tíma.
En ég sá á visi.is að Þór Saari réðist á mig heiftúðlega með ósannindum um að ég hefði hlegið að eineltistali Birgittu Jónsdóttur í þinginu á föstudag og verið með framíköll. Lágt þykir mér maðurinn leggjast í þessum málatilbúnaði, enda fer hann með hrein ósannindi.
Hér er tengillinn á ræðu Birgittu - og dæmi nú hver um sig um það sem þarna fór fram - ég ætla ekki að svara því frekar.
En .. nú streyma félagar Björgunarhundasveitar Íslands upp í Flókadal þar sem útkallsæfing mun fara fram eldsnemma í fyrramálið. Sjálf er ég ekki með fullþjálfaðan hund, þannig að hann bíður þess að fá að spreyta sig síðar.
Ég verð "týnd" milli þúfna eins og fleiri. Svo verður grillað og unghundarnir æfðir.
"Sjáumst" síðar
P
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)